Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 ágúst 2005

Punktar dagsins
Loftmynd af Eyjafirði

Kosið verður um sameiningu níu sveitarfélaga hér í Eyjafirði eftir tæpa tvo mánuði, laugardaginn 8. október nk. Er utankjörfundarkosning þegar hafin. Er umræða um sameininguna og málefni tengd henni að hefjast nú af krafti og má búast við spennandi rökræðum um kosti og galla sameiningar. Reyndar hefur að undanförnu blandast í þá umræðu málefni hitaveitu í Ólafsfirði. Seinustu mánuði hefur samstarfsnefnd sveitarfélaganna, sem í sitja tveir fulltrúar hvers sveitarfélags, unnið að gerð málefnaskrár sem kynnt verður íbúum Eyjafjarðarsvæðisins í aðdraganda kosninganna. Komið var á fót vinnuhópum til að vinna skýrslu um framtíðina innan nýs sveitarfélags, yrði sameining samþykkt. Vinnuhóparnir voru fjórir talsins: stjórnsýsluhópur, skólahópur, fjölskylduhópur og skipulagshópur. Hóparnir skiluðu tillögum sínum í júlí og síðan hefur stýrihópur unnið eftir vinnudrögum og mótað málefnaskrá sem nú hefur verið kynnt opinberlega á heimasíðu samstarfsnefndarinnar um sameiningu í Eyjafirði. Er stefnt að kynningarfundum í september í öllum sveitarfélögunum níu og ennfremur gefinn út ítarlegur kynningarbæklingur um málið. Hef ég kynnt mér vel tillögur vinnuhópanna í þeim fjórum málaflokkum sem lagt var upp með. Er það að mörgu leyti mjög athyglisverð lesning.

Í tillögum stjórnsýsluhópsins er lagt til að sveitarstjórn í nýju sveitarfélagi verði skipuð 15 bæjarfulltrúum. Það er leyfilegur hámarksfjöldi fyrir sveitarfélag af þessari stærð. Lagt er til að stjórnsýslan grundvallist á þremur fagsviðum; stjórnsýslu- og fjármálasviði, skóla- og félagssviði ásamt tækni- og umhverfissviði. Lagt er til að nefndir og ráð sveitarfélagsins verði skipaðar fimm aðal- og varamönnum. Lagt er til að umfangsmestu nefndirnar skuli aðeins skipaðar aðalmönnum í sveitarstjórn og er hér átt við bæjarráð sem jafnframt er framkvæmdaráð, stjórn fasteigna sveitarfélagsins, umhverfisráð, skólanefnd, stjórnsýslunefnd og félagsmálaráð. Formenn allra fastanefnda verða aðalmenn í sveitarstjórn. Leggur nefndin til að ný bæjarstjórn og nefndir starfi eins og bæjarkerfið hér á Akureyri, þannig að nefndir hafi heimild til fullnaðarákvörðunar. Ennfremur munu verða starfandi í sveitarfélaginu hverfanefndir undir titlinum samráðsnefndir í gömlu sveitarfélögunum. Uppi eru tvær hugmyndir um samráðsnefndir. Sú fyrri að á fyrsta kjörtímabili verði eldri sveitarstjórnir í hlutverki samstarfsnefnda. Sú seinni gerir ráð fyrir fimm manna samráðsnefndum sem kjörnar eru á almennum íbúafundi. Þær nefndir verði ópólitískar og án tengsla við stjórnmálaflokka eða framboð.

Vinnuhópur um skólamál er sammála um að leggja til að allir grunnskólar á Eyjafjarðarsvæðinu verði reknir áfram, verði sveitarfélögin sameinuð í haust. Hópurinn bendir þó á að ekki sé hægt að binda hendur sveitarstjórna í þessum efnum. Þetta er merkileg yfirlýsing. Er ég sammála því að til staðar verði að vera skólar í öllum þéttbýlisstöðunum en svo verður að ráðast með hina minni að mínu mati. Eins og við þekkjum hvað varðar Húsabakkaskóla í Svarfaðardal er erfitt að lofa hvort hægt sé að reka alla skóla óbreytta eftir sameiningu. Það verður auðvitað að ráðast af hagkvæmni og skynsömum forsendum umfram allt. Eins og allir þekkja af deilunum í Dalvíkurbyggð vegna Húsabakkaskóla er þetta og verður ávallt viðkvæmt mál. En í skólamálakaflanum er farið ítarlega yfir allan grunn skólamála hér í firðinum og hvet ég fólk til að lesa hann. Í fjölskyldumálakaflanum er farið ítarlega yfir málaflokkinn og kynntar þar margar spennandi tillögur. Að lokum er það svo skipulagshópurinn þar sem spennandi stefna í skipulagsmálum er kynnt. Hvet ég lesendur til að lesa skýrslur vinnuhópanna og taka svo afstöðu til málanna eftir að kynna sér stöðuna og rökræða svo um kosti og galla hugmyndanna.

Skýrsla stjórnsýsluhóps
Skýrsla skólahóps
Skýrsla fjölskylduhóps
Skýrsla skipulagshóps

George W. Bush forseti

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, er enn í sumarfríi á búgarði sínum að Crawford í Texas og hefur verið þar nærri allan mánuðinn. Bandarísku spjallþáttastjórnendurnir þreytast ekki á að koma með brandara um fimm vikna langt sumarleyfi hans. Þrátt fyrir að hann slappi af og hafi það rólegt á heimaslóðum hefur hann ekki getað komist hjá því að taka eftir þeim sem hafa fylgt honum nær alla leiðina í fríið. Ein helsta fréttin í bandarískum fjölmiðlum seinustu vikurnar hefur nefnilega verið miðaldra húsmóðir í tjaldferðalagi í Crawford. Þeir sem ekki þekkja til aðstæðna undra sig sjálfsagt á því hvernig svo megi vera. Jú, ferðalagið er engin skemmtiferð og húsmóðirin er ekki að tjalda sér til ánægju. Cindy Sheehan tæplega fimmtug kona tjaldaði til að heimta þess að fá að hitta Bush og spyrja hann um málefni bandaríska hersins í Írak. Sonur hennar féll í átökunum þar í fyrra og hún heimtar þess að fá að hitta hann augliti til auglitis og hann svari spurningunni hversvegna sonur hennar var sendur þangað til að deyja. Bush hefur neitað að hitta hana, hefur reyndar hitt hana einu sinni og rætt við hana um mál. Stephen Hadley þjóðaröryggisráðgjafi, hefur farið og rætt við Cindy en hún haggast ekki og vill hitta Bush.

Þetta er heitasta málið vestanhafs. Þó að Cindy hafi orðið að yfirgefa Crawford um helgina vegna veikinda móður sinnar heldur mótmælastaðan áfram í Texas, Bush og samstarfsmönnum hans til nokkurrar gremju. Um er nefnilega að ræða stigvaxandi mál í fjölmiðlunum. Og ekki batnar það að umfangi. Fríið fer reyndar að verða búið og hætt við að þetta fjari út. Bush er reyndar staddur nú í Idaho í stuttu leyfi til ríkisstjórans þar. Hann tjáði sig þar um málið í gær. Sagðist hann skilja afstöðu Cindy og vilja hennar til að ræða þessi mál. Hinsvegar neitaði hann því að hún væri dæmigerður fulltrúi þeirra sem hefðu misst börn sín í Írak. Hún væri í baráttu á eigin vegum en ekki hóps sem slíks. Fleiri notuðu tækifærið. Ein þekktasta þjóðlagasöngkona heims, baráttukonan heimsfræga gegn Víetnamsstríðinu, sjálf Joan Baez, fór til Texas á sunnudag og söng fyrir mótmælendur og hvatti þá áfram. Það að Bush tjái sig um málið í Idaho segir margt. Eflaust er hann orðinn dauðleiður á þeim sem eltu hann í fríið og reynir að tjá þá gremju með vægum hætti. Hinsvegar er auðvitað óneitanlega skondið að miðaldra kona í tjaldi fyrir utan búgarð forseta Bandaríkjanna sé aðalfréttaefnið vestanhafs.

Dr. Angela Merkel

Í gær fjallaði ég ítarlega um þýsku þingkosningarnar sem framundan eru. Eins og vel kom fram í þeim skrifum er kosningabaráttan hörð og spennandi þrátt fyrir að allar fylgistölur segi pólitískum áhugamönnum að spennan um úrslit þeirra sé ekki til staðar. Reyndar hefur nú forskot hægriblokkarinnar aukist og í dag munar fimmtán prósentustigum á CDU og SPD. Það er því engin furða að harka sé uppi og kanslarinn reyni allt sem hann getur til að halda sér inni í slagnum. Nú hefur reyndar skotið upp merkilegt deilumál í kosningaslagnum. Reyndar snýst það hvorki um stefnu eða persónur kanslaraefnanna. Deilt er um hið sígilda dægurlag Rolling Stones, Angie, sem allir þekkja fram og til baka. CDU hefur notað lagið sem kosningaþema á fjöldafundum og spilað þegar að kanslaraefnið Dr. Angela Merkel er kynnt. Við þetta er rokkbandið ekki sátt og þaðan af síður söngvari sveitarinnar, eilífðarpoppgoðið Mick Jagger. CDU neitar að taka lagið úr umferð og bíður því heim hættunni á kæru vegna notkunar lagsins með þessum hætti. En þetta er óneitanlega skondið mál burtséð frá stöðu baráttunnar. Reyndar þarf eins og fyrr segir mjög mikil vatnaskil að eiga sér stað til að koma í veg fyrir að Angie hinna kristilegu demókrata verði fyrsti kvenkyns kanslari Þjóðverja.

George Peppard og Audrey Hepburn í Breakfast at Tiffany's

Þokkagyðjan Audrey Hepburn var ein glæsilegasta leikkona 20. aldarinnar. Glæsileiki hennar kom vel fram í fjölda ógleymanlegra kvikmynda. Að mínu mati er hennar besta mynd hin óviðjafnanlega Breakfast at Tiffany's frá árinu 1961. Þar er rakin saga lífsnautnakonunnar Holly Golightly sem lifir lífinu svo sannarlega hátt í borg borganna, New York. Þegar rithöfundurinn Paul Varjak flyst í sama íbúðarhúsið og Holly laðast hún að honum. En þegar Paul tekur að kynnast hinni svokölluðu gleðidrottningu kemst hann að því að saga hennar er fjarri því himnasæla heldur hefur hún átt við mikla erfiðleika að stríða í lífinu og á sér talsverða fortíð. Þessi mynd er enn í dag ein besta heimild um þann tíðaranda sem hún lýsir. Audrey var í toppformi í þessari mynd, var aldrei betri og glæsilegri en í þessu hlutverki. Hún er mjög heillandi í túlkun sinni og nær að túlka gleði og sorgir Hollyar með bravúr. George Peppard á einnig glæsilegan leik í hlutverki Pauls. Buddy Ebsen var aldrei betri en í hinni lágstemmdu túlkun sinni á Doc Golightly, og með innkomu hans komumst við að leyndarmálum Hollyar. Rúsínan í pylsuendanum í myndinni er besta kvikmyndalag 20. aldarinnar, hið undurfagra Moon River eftir Henry Mancini sem sló í gegn á sínum tíma. Þessi kvikmynd er sígilt meistaraverk og er alltaf sannur gleðigjafi - hana verða allir sannir kvikmyndaunnendur að sjá.

ISG og Össur í kosningaslagnum

Að lokum er ekki hægt að sleppa því að fjalla um það að nú hefur Ingibjörg Sólrún birt reikninga sína vegna formannskjörsins í Samfylkingunni fyrr á þessu ári. Ingibjörg Sólrún greiddi tvöfalt meira fyrir kosningabaráttu sína en mótframbjóðandi hennar og forveri á formannsstóli, Össur Skarphéðinsson. Kosningabarátta ISG kostaði tæpar 5,3 milljónir króna, framlögin voru svipað há. Eftir stóðu í bókhaldinu 70.000 krónur í plús. Merkilegast af öllu er að ekkert framlaganna er hærra en 499.000 kr. Það er ekki hægt annað en að hlæja að þessum hámarksupphæðum á vegum Samfylkingarinnar, enda er nákvæmlega engin trygging fyrir því að fólk borgi ekki oftar en einu sinni slíka upphæð. Þessi vinnubrögð þeirra eru efni í marga brandara. Hver man ekki eftir siðareglunum frægu nú eða opna bókhaldinu? Bæði virðist hafa horfið eins og dögg fyrir sólu. Skrifaði ég pistil á vef Heimdallar um þau mál, sem ég bendi lesendum á.

Saga dagsins
1903 Ríkið keypti jarðirnar Hallormsstað í S-Múlasýslu og Vaglir í S-Þingeyjarsýslu, til skógarfriðunar og skógargræðslu. Þar eru nú ræktarlegustu skógar á landinu: Hallormsstaðaskógur og Vaglaskógur.
1906 Símskeytasamband við útlönd hefst með formlegum hætti - fyrsti sæsíminn var um 534 sjómílur.
1968 Norræna húsið í Reykjavík vígt við hátíðlega athöfn - arkitekt hússins var Finninn Alvar Aalto.
2001 Helgi Símonarson frá Þverá í Svarfaðardal, lést, 105 ára að aldri - Helgi varð elstur allra manna.
2004 Bill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna, kom til Íslands ásamt eiginkonu sinni Hillary Rodham Clinton. Var þetta fyrsta heimsókn núverandi eða fyrrum þjóðarleiðtoga Bandaríkjanna í átján ár, en Ronald Reagan kom á leiðtogafund stórveldanna í Reykjavík í október 1986. Fóru Clinton-hjónin víða: t.d. í heimsókn á heimili Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, héldu að Lögbergi að Þingvöllum og fóru í miðborg Reykjavíkur að styttu Jóns forseta. Frægt varð að Clinton fékk sér pylsu á Bæjarins bestu. Clinton, sem þekktur er fyrir alþýðleika, lét ráðleggingar lífvarða sinna lönd og leið er hann fór í verslanir, heilsaði upp á fólk í miðbænum og tók t.d. í hendur fjöldamargra og heilsaði börnum.

Snjallyrðið
Langt inn í skóginn leitar hindin særð
og leynist þar, sem enginn hjörtur býr,
en yfir hana færist fró og værð.
Svo fjarar lífið út.

Ó, kviku dýr,
reikið þið hægt, er rökkva tekur að
og rjúfið ekki heilög skógarvé,
því lítil hind, sem fann sér felustað
vill fá að deyja ein á bak við tré.
Um blóð, sem fyrr var bæði ungt og heitt,
mun bleikur mosinn engum segja neitt.

En þú, sem veist og þekkir allra mein,
og þú, sem gefur öllum lausan taum,
lát fölnað laufið falla af hverri grein
og fela þennan hvíta skógardraum.

Er fuglar hefja flug og morgunsöng
og fagna því, að ljómar dagur nýr,
þá koma öll hin ungu, þyrstu dýr
að uppsprettunnar silfurtæru lind -

- öll, nema þessi eina, hvíta hind.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Skógarhindin)