Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 ágúst 2005

Punktar dagsins
Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson

Eins og sést hefur á veðurfarinu undanfarna daga er farið að hausta að - óvenjusnemma vissulega en það er öllum ljóst að sumarið tekur brátt enda. Stjórnmálastarfið er víðast allt að hefjast eftir heitt sumar og ánægjuleg ferðalög víða um landið, nú eða jafnvel heiminn. Rúmur mánuður er í að þingið komi saman. Mörg mál verða þar til umræðu og við blasir að hiti verði í stjórnmálastarfi almennt vegna væntanlegra sveitarstjórnarkosninga undir lok maímánaðar á næsta ári. Þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks funduðu í gær um málefni fjárlaga. Hittust sjálfstæðismenn á Ísafirði en framsóknarmenn funduðu í borginni. Má búast við niðurstöðu fundar sjálfstæðismanna í dag, sem hafa undanfarna daga verið fyrir vestan og farið yfir fjöldamörg mál. Þarf yfir mörg málefni að fara eins og ávallt þegar fjárlögin eru annars vegar og jafnan er gengið frá útgangspunktum frumvarpsins á þessum sumarfundum. Eins og venjulega er fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar aðalmál þingsins hina fyrstu daga. Strax í upphafi þingvetrar kynnir fjármálaráðherra fjárlögin, sem er eins og ávallt ítarlegt og mikið plagg að vöxtum. Er umræða um þau ávallt umfangsmikil og langdregnar, enda um margt að ræða er kemur að þessum efnum.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum síðasta sólarhringinn bendir flest til þess að ekki verði gert ráð fyrir breytingum á virðisaukaskatti í vinnu við fjárlögin. Ekki virðist enn vera farið að ræða breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Eins og allir vita hafa umfangsmiklar skattalækkanir verið ákveðnar og munu þær koma til framkvæmda stig af stigi á kjörtímabilinu, eins og flokkarnir lofuðu í síðustu þingkosningum. Í stjórnarsáttmálanum er talað um að endurskoða eigi matarskattinn (virðisaukaskatt á matvæli) en hann er nú 14% og hugmyndir hafa verið eins og kunnugt er verið um að lækka hann niður í 7%. Ekkert slíkt mun vera á döfinni nú ef marka má fréttir. Fyrirfram ákveðnar og lögfestar tekjuskattslækkanir standa auðvitað en virðisaukaskattsbreytingarnar muni því bíða betri tíma. Eins og fram kom í fréttum í gær er gengi krónunnar hátt; víða skortur á vinnuafli, laun hækka og kaupmáttur jafnframt, aldrei hefur jafnmikið verið flutt inn af neysluvöru og á fyrri helmingi þessa árs. Allt veldur þetta þenslu og flestir efnahagssérfræðingar landsins hafa í fjölmiðlum opinberað ótta sinn við verðbólguskot á næsta ári og jafnvel hraða og mikla lækkun á genginu. Því sé ekki rétt að huga að breytingum á kerfinu nú.

Tek ég undir raddir þeirra sem svo tala. Fyrirfram ákveðnar skattalækkanir sem gera ráð fyrir 4% lækkun tekjuskatts einstaklinga, afnám eignarskatts á einstaklinga og fyrirtæki og hækkun barnabóta um 2,4 milljarða króna eru gleðilegur áfangi sem lengi verður í minnum hafður. Þetta var sögulegur áfangi sem við öll munum njóta ríkulega á næstu árum. Heildaráhrif þessara aðgerða á afkomu ríkissjóðs eru metin til rúmlega 22 milljarða króna að teknu tilliti til veltuáhrifa sem einkum falla til á árunum 2006 og 2007. Um var að ræða mikið fagnaðarefni fyrir okkur ungt sjálfstæðisfólk sem höfum barist seinustu ár fyrir lækkun skatta. Voru með þessu frumvarpi stigin í senn bæði ánægjuleg og gagnleg skref til hagsbóta fyrir landsmenn, einkum hinn vinnandi mann. Rétt er að staldra við að svo stöddu - en það blasir þó við að breytingar á virðisaukaskattskerfinu er verkefni sem kemur brátt til framkvæmda. Það er verkefni sem huga þarf að fyrir lok kjörtímabilsins og vinna að með krafti.

Alfreð Þorsteinsson og Anna Kristinsdóttir

Eins og allir vita er R-listinn dauður. Í gærkvöldi skrifuðu framsóknarmenn undir dánarvottorð R-listans með því að lýsa yfir sérframboði sínu í Reykjavík fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar á flokksfundi sínum. Undanfarna daga hafa sögulega tengdir menn R-listanum minnst hins látna (R-listans) og farið yfir það sem eftir hann standi. Frekar er það rytjulegur samtíningur og fátt sem eftir stendur nema orðin vesen og vandræði. Blasir við að framsóknarmenn stefni að prófkjöri til að velja lista sinn. Á fundinum í gærkvöldi lýsti Alfreð Þorsteinsson forseti borgarstjórnar og leiðtogi Framsóknarflokksins innan R-listasamstarfsins, allt frá árinu 2002, yfir framboði til fyrsta sætis á framboðslista flokksins fyrir kosningarnar næsta vor. Hann hefur verið ötull talsmaður R-listans og reyndi allt til að tryggja áframhaldandi framboð hans að þessu sinni, án nokkurs árangurs. Alfreð er sennilega síðasti stórlax borgarmálapólitíkur gamla hluta framsóknarmanna í borginni. Hann varð borgarfulltrúi flokksins á áttunda áratugnum, dró sig svo í hlé og kom aftur inn við stofnun R-listans árið 1994 og hefur verið borgarfulltrúi listans allan valdaferil hans. Það hafa margir deilt á störf hans undanfarin þrenn kjörtímabil, en hann hefur setið eins og allir vita í öndvegi í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í nafni stjórnmálaflokkanna sem að R-listanum standa.

Nú stefnir allt í að Alfreð fái mótframboð til leiðtogastöðunnar. Eins og fram kom í fréttum í gær skora nú margir framsóknarmenn á Önnu Kristinsdóttur um að gefa kost á sér til þess sætis. Anna er dóttir Kristins Finnbogasonar, sem var einn helsti fjármálastjórnandi flokksins til fjölda ára og bankaráðsmaður flokksins í Landsbankanum allt til dauðadags árið 1991. Anna varð borgarfulltrúi R-listans árið 2002 og leysti þá af hólmi Sigrúnu Magnúsdóttur sem leitt hafði framsóknarmenn allt frá árinu 1982. Þá varð Alfreð leiðtogi framsóknarmanna. Þó munaði aðeins um 20 atkvæðum að Alfreð hefði orðið undir og tapað fyrir nýliðanum Önnu. Nú stefnir í harðan slag um leiðtogastöðuna. Margir eiga harma að hefna í garð Alfreðs og hyggja á leiðtogaskipti og skapa flokknum nýja ásýnd. Alfreð hikaði ekki um daginn í viðtali og sagði bara þeim sem væri á móti sér að leggja í sig, án þess að hika. Flest stefnir í að svo fari. Ennfremur er rætt um aðra kandidata og nöfn Björns Inga Hrafnssonar og Marsibilar Sæmundardóttur heyrast nefnd. Bæði eru þau af yngri kynslóðinni. Alfreð er af mörgum talinn tákn liðinna tíma. Hann ætlar þó ekki að fara sjálfviljugur og stefnir því í átök milli fylkinga sem lengi hafa barist innan borgarmálahóps flokksins um völdin.

Styttan af Helga magra og Þórunni hyrnu

Framkvæmdir eru fyrir löngu komnar á fullt við byggingu nýs leikskóla hér í hverfinu. Er hann hér ofar í götunni á lóðinni milli Þórunnarstrætis og Helgamagrastrætis, þar sem gamli gæsluvöllurinn var. Hefur verið ánægjulegt að fylgjast með framkvæmdununum, en byggingin tekur á sig mynd með hverjum deginum og gengur mjög vel að byggja leikskólann. Margar minningar tengjast þessu svæði en ég var á gæsluvellinum sem var þarna á svæðinu í ein þrjú ár, eða á meðan fjölskyldan átti heima hér ofar í götunni, að Þórunnarstræti 118. Það var gaman þar að vera og ég kynntist mörgum góðum félögum fyrstu árin mín þar. Það er ánægjulegt (og hið eina rétta) að leikskóli fyrir þetta öfluga og góða hverfi rísi á þessum stað. Og nú hefur leikskólinn loks fengið nafn. Á fundi skólanefndar Akureyrar í vikunni var samþykkt tillaga frá Brynhildi Þórarinsdóttur þess efnis að leikskólinn við Helgamagrastræti fái nafnið Hólmasól. Er leikskólinn nefndur í höfuðið á Þorbjörgu hólmasól, sem var fyrsta barnið sem fæddist í Eyjafirði eftir því sem Landnáma segir frá. Þorbjörg hólmasól var dóttir Helga magra og Þórunnar hyrnu. Leikskólinn stendur auðvitað við götur sem nefndar eru eftir þeim og styttan fræga af landnámshjónunum er hér á klöppunum hér fyrir neðan. Lýsi ég yfir mikilli ánægju minni með þetta nafn - það er glæsilegt og mjög viðeigandi.

Bílar í miðbænum

Frá og með deginum í dag verður stýring á nýtingu á bílastæðum hér í miðbænum á Akureyri með bifreiðastæðaklukkum í stað stöðumæla. Þegar lagt verður í bílastæðin í miðbænum er skylt að hafa bifreiðastæðaklukku á mælaborðinu sem sýnir hvenær bílnum var lagt í stæðið. Með þessum þáttaskilum heyra stöðumælar að öllu leyti sögunni til hér á Akureyri - en starfsmenn bæjarins unnu í gær við að taka þá niður. Mun heimiluð tímalengd á gjaldfrjálsa stöðu bíls í klukkustæði verða mismunandi eftir svæðum, allt frá 15 mínútum upp í eina eða tveir klukkustundir. Auk þess verður fjöldi fastleigustæða aukinn verulega. Klukkurnar eru vandaðar að allri gerð. Þær eru einskonar umslag með klukkuskífu innan í. Ofan á "umslaginu" stendur skífan út úr því til að hægt sé að stilla hana. Í "glugga" á "umslaginu" sjást tölurnar á skífunni. Mikilvægt er að klukkan sé stillt á þann tíma sem bílnum er lagt í stæðið. Á bakhlið klukkunnar er kort af miðbænum sem sýnir hvar klukkustæðin eru og þá tímalengd sem heimilt er að leggja þar án gjalds og auk þess leiðbeiningar um notkun klukkunnar. Stöðuverðir munu eftir sem áður hafa eftirlit með því að bílum sé ekki lagt lengur en heimilt er í viðkomandi bílastæði. Þetta er jákvætt og gott skref sem stigið er með þessu - öll fögnum við því að stöðumælarnir fari.

Akureyrarvaka

Um helgina mun menningarlífið á Akureyri blómstra - eins og ávallt er menningarhátíð bæjarins, Akureyrarvaka, haldin þessa seinustu helgi ágústmánaðar. Hún hefst formlega í Lystigarðinum í kvöld með ávarpi Þóru Ákadóttur forseta bæjarstjórnar. Veitt verða verðlaun fyrir fallegustu garðana, Lystigarðurinn verður upplýstur og fjölbreytt dagskrá víðsvegar um garðinn. Sönghópurinn Hymnodia mun flytja lög við ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Það er jafnan notaleg og rómantísk stemmning í garðinum þetta kvöld í sumarrökkrinu. Á morgun verður svo menningardagskrá um bæinn allan og skemmtileg stemmning í miðbænum. Til dæmis verður nýbygging Brekkuskóla vígð á morgun við hátíðlega athöfn. Hvet ég alla til að kynna sér vel dagskrá Akureyrarvöku. Akureyrarvakan er frábært framtak sem komið er til að vera - óviðjafnanlegur óður til menningar í bænum. Því miður þarf ég að vera fjarri þessa helgi, í fyrsta sinn frá upphafi hennar. Mín bíður skemmtileg helgi hinsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Vona ég að aðrir Akureyringar njóti menningar og skemmtilegrar hátíðar um helgina.

Snjallyrðið
Ef ég sé fjöll í fjarlægð blána,
þá finn ég alltaf sömu þrána.
Á ljóðsins vængjum á loft ég fer,
og leita og skyggnist eftir þér.

Ég heyrði í svefni söng þinn hljóma.
Ég sá þig reika milli blóma.
Í bjarmadýrð þú birtist mér,
með brúðarkrans á höfði þér.

Þá lést þú sól á lönd mín skína
og lyftir undir vængi mína.
Svo hvarfst þú bak við fjarlæg fjöll
sem feykti blærinn hvítri mjöll.

En síðan reyni ég söngva þína
að seiða í hörpustrengi mína.
Í hljómum þeim á hjartað skjól
og heima bak við mána og sól.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Brúður söngvarans)