Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 apríl 2006

Samanburður á skoðanakönnunum

Akureyri

Það eru 44 dagar til sveitarstjórnarkosninga. Um fátt hefur meira verið rætt hér á Akureyri undanfarna daga en niðurstöður skoðanakönnunar Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri á fylgi framboðanna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Í þeirri könnun kom fram mjög merkilegt landslag í fylgi og mikið verið rætt um stöðu hvers framboðs fyrir sig hér í bænum seinustu daga. Umfram allt vakti könnunin athygli því að margir tóku ekki afstöðu í henni. Fólk er skiljanlega þessa dagana að velta mikið fyrir sér framboðslistunum: aldurs- og kynjaskiptingu og þeim málefnum sem þessir frambjóðendur standa fyrir. Fólk er að spá í hver sé sérstaða hvers framboðs og hverjum greiða skuli atkvæði. Kosningabaráttan er vart hafin af krafti en menn eru í miklum undirbúningi út um allt og bíða eftir formlegu upphafi baráttunnar. Eftir páskahátíðina hefst fjörið og allir setja á fullt. Má búast við spennandi baráttu.

Er þessi könnun var birt hafði ekki birst skoðanakönnun á fylgi framboðanna hér á Akureyri síðan í fyrrasumar. Reyndar var um fátt meira rætt í bæjarpólitíkinni en þá könnun. Um var að ræða könnun IMG Gallup á lífskjörum íbúa á Akureyri. Samhliða þeirri könnun var spurt um afstöðu fólks til þeirra fimm framboða sem fengu kjörinn fulltrúa í bæjarstjórn í kosningunum 2002. Niðurstaða könnunarinnar var að meirihluti bæjarstjórnar héldi naumlega með 6 menn inni: sjálfstæðismenn héldu sínum fjórum og Framsókn hlaut tvo. Samfylking hafði þrjá, VG tvo og Oddur náði ekki kjöri fyrir L-listann. Tölurnar voru: Sjálfstæðisflokkurinn: 29,8%, Samfylkingin: 26,8%, Vinstrihreyfingin - grænt framboð: 18,5%, Framsóknarflokkurinn: 17,1% og Listi fólksins: 6,3%. Þessi könnun varð umdeild því að mun síðar var kynnt um þessa niðurstöðu en þá sem sneri beint að lífskjarakönnuninni. Mikið var tekist á um málið í sumarhitanum hér á Akureyri í fyrra.

Það er í sjálfu sér mjög merkilegt að bera könnun RHA saman við þá sem birtist í fyrrasumar. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur mun meira fylgi í könnun RHA - tæpum fimm prósentustigum meira. Framsókn tapar fimm prósentum miðað við þetta, VG bætir við sig fjórum prósentustigum og L-listinn bætir við sig þrem prósentustigum. Er þá eftir að minnast á hlut Samfylkingarinnar. Í þessari könnun mældist flokkurinn með tæplega 27% fylgi en hafði tapað heilum tíu prósentustigum er kom að könnun RHA. Þetta mikla tap milli kannana vekur athygli og tapar Samfylkingin meiru en Framsóknarflokkurinn. Reyndar fannst mér útkoma Samfylkingarinnar mjög athyglisverð í fyrra. Þetta var á þeim tímapunkti sem Oktavía leiddi enn flokkinn. Hún hafði verið mjög umdeild innan sinna raða og eigin flokksmenn sneru að lokum við henni bakinu. Lauk samskiptum þeirra með því að hún gekk úr flokknum og kom til liðs við okkur sjálfstæðismenn.

Lengi heyrði maður sagt að Oktavía héldi kjörfylgi Samfylkingarinnar á Akureyri niðri. Mörgum varð það að orði í kosningabaráttunni 2002 að Oktavía hefði haldið fylginu niðri en stöku aðilar segja að Oktavía hafi bjargað því sem bjargað varð þá. Reyndar munaði litlu að Samfylkingin hlyti annan bæjarfulltrúann árið 2002 og hlaut meira fylgi en henni var lengi vel spáð. En samt var flokkurinn ekki að ná neinni stemmningu þá og margar sögur bárust úr þeirri baráttu út um bæinn. Oktavía gerði Samfylkingunni klárlega mikla skráveifu í desember með því að fara úr flokknum og taka með sér eina bæjarfulltrúasæti flokksins. Eftir stóð Samfylkingin án fulltrúa í bæjarstjórn Akureyrar út kjörtímabilið. Oktavía sló greinilega margar flugur í einu höggi þar. Fann maður greinilega sársauka Samfylkingarfólks um jólin og vonbrigði þeirra duldust engum. En það er alveg ljóst að Oktavía fór með miklum hvelli sem átti sér aðdraganda.

Engum hafði dulist í fyrrasumar að átök voru framundan innan flokksins er könnunin var gerð. Varabæjarfulltrúinn Hermann Tómasson hafði boðað leiðtogaframboð gegn Oktavíu og öllum ljóst að engir kærleikar voru þeirra í millum. Það fór að lokum svo að Oktavía ákvað að fara ekki í framboð og eftirmálann þekkja allir. Skömmu eftir prófkjörið yfirgaf hún þá og síðan hafa Samfylkingarfulltrúar mætt á alla bæjarstjórnarfundi með mótmælasetu til að láta hug sinn í ljósi. Þeir eru enda eyland í bæjarstjórn Akureyrar þessa stundina. Þessi könnun RHA boðar merkileg tíðindi. Þrátt fyrir brotthvarf Oktavíu Jóhannesdóttur bætir flokkurinn ekki við sig miklu fylgi og þeir missa verulegt fylgi sé miðað við Gallup-könnunina frægu í fyrrasumar. Það hefur nú reynt mjög á Hermann Tómasson sem leiðtoga og þau höfðu sviðsljósið mjög lengi í kosningaslagnum.

Þrátt fyrir það mælist Samfylkingin með mun minna fylgi en í fyrra. Þetta er það sem flestir taka eftir er rýnt er í þessar tvær kannanir hlið við hlið. Samfylkingin hefur verið mjög áberandi seinustu vikur, boðuðu fyrst til prófkjörs og birtu lista sinn langfyrst, tæpum tveim mánuðum á undan okkur sjálfstæðismönnum. Þeirra vonbrigði hljóta að vera mikil séu þessar kannanir settar á borðið hlið við hlið og munurinn skoðaður - sérstaklega að vera undir VG. Það sem meira er að nú kennir ekki flokkurinn Oktavíu um stöðu mála. Það eru því fleiri en framsóknarmenn undir forystu Jóa Bjarna sem eru ósáttir við sinn hlut þessa stundina. Næsta könnun kemur á þriðjudag. Það verður mjög fróðlegt að sjá tölur þar og nýja mælingu á fylgi framboðanna hér á Akureyri.