Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 apríl 2006

Flokksráðsfundur á Akureyri um helgina

Sjálfstæðisflokkurinn

Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn hér á Akureyri um helgina. Þar koma saman flokksráðsfulltrúar, formanna félaga og flokkssamtaka, frambjóðendur til sveitarstjórna í kosningunum þann 27. maí í vor og þeirra sem stýra kosningastarfinu. Ég er í flokksráðinu, kjörinn af hálfu SUS, og svo auðvitað formaður aðildarfélags, svo að ég sit auðvitað flokksráðsfundinn. Það er svo sannarlega okkur sjálfstæðismönnum hér á Akureyri mjög mikill heiður að fundurinn verði haldinn hér á Akureyri, en þetta er í fyrsta skipti sem flokksráðsfundur í Sjálfstæðisflokknum er haldinn utan höfuðborgarsvæðisins.

Eins og við má búast mun fundurinn að mestu leyti snúast um kosningarnar eftir tæpa 60 daga og ennfremur um hitamál stjórnmálanna á þeim tímapunkti. Mikil vinna er framundan vegna komandi kosninga og mjög mikilvægt að flokksfélagar hittist um helgina til að bera saman sínar bækur um stöðu mála. Ég og Guðmundur Skarphéðinsson formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, höfum unnið að því að skipuleggja fundinn hér á Akureyri og tryggja að hann verði vel heppnaður og eftirminnilegur þeim sem koma hingað norður til okkar. Það hefur verið mjög áhugavert að vinna með því góða fólki sem vinnur fyrir flokkinn sunnan heiða að því að skipuleggja fundinn svo að hann verði öflugur og góður.

Stefnir í að rúmlega 200 manns sitji fundinn svo að það er greinilegt að fundurinn verður vel sóttur. Hann mun án nokkurs vafa marka með glæsilegum hætti upphaf kosningabaráttunnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 27. maí nk. Það verður gaman að hitta góða félaga í flokksstarfinu hér fyrir norðan um helgina.