Vangaveltur vegna gagnrýni á sus.is
Það er margt skrifað og spáð um á netinu. Þar lifa fjöldi áhugaverðra vefsíðna. Það er sem betur fer svo í samfélaginu okkar að fólk hefur tíma til að skrifa um hitamál samtímans og hafa skoðanir á málunum. Það er ekkert nema gott um það að segja að líf sé á vefsíðum. Þar hefur fjöldi fólks valið sér heimili til að tala af krafti og miðla skoðunum sínum til annarra. Netið er mest lifandi vettvangur skoðanasamskipta í nútímanum og þeim vettvangi ber að hampa. Mjög ánægjulegt er að taka netrúnt - sá netrúntur lengist sífellt og það er ágætt að hefja daginn með kaffibolla sér við hlið og kanna það sem er í gangi - kynna sér skoðanir annars fólks. Ég hef fyrir löngu séð að það er gott að kynna sér fyrst þá sem maður er oftast ósammála. Með því sér maður oft gott sjónarhorn á umræðuna og svo er alltaf viðeigandi að lesa þá sem maður er alla jafnan mjög sammála og kynna sér ólík sjónarhorn á sömu skoðanir.
Í morgun fór ég í góðan netrúnt og vann í að skrifa greinar og ýmislegt annað sem gera þarf í skugga helgidaganna. Eftir það leit ég á pistlavefsíðurnar. Ég staldraði nokkra stund inni á vefnum hugsjónir.is - nýjum vef ungra hægrimanna. Þar var að finna grein eftir ungan mann í stjórn ungliðafélagsins í Garðabæ þar sem hann finnur að greinum á vefum Heimdallar og SUS. Kemur fram í skrifum hans að þar séu "farnar að rata inn greinar í síauknu mæli með sósíalísku yfirbragði" svo orðrétt sé haft eftir. Ekki ætla ég að svara fyrir vef Heimdallar en heimasíða SUS er stýrð af mér og held ég utan um pistlahlið þessa góða vefs. Ritstjórnarstefna heimasíðu Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur verið mjög skýr í minni stjórnartíð og verður það svo lengi sem ég fæ einhverju um ráðið. Þeir sem senda inn greinar fá birtar greinar á eigin ábyrgð og þeir ungir sjálfstæðismenn sem vilja taka þátt fá að vera með.
Eina skilyrðið sem ég hef sett er að menn séu hægrisinnaðir og vilji vinna Sjálfstæðisflokknum lið. Á vefinn rata greinar sem ég sjálfur er stundum mjög ósammála en ég birti auðvitað. Á vefnum er ekki ritskoðun, þar eru einfaldar reglur sem hljóða svo: "Á sus.is birtast pistlar eftir unga sjálfstæðismenn um stjórnmál. Pistlar, ritstjórnargreinar sem og aðrir pistlar, endurspegla ekki endilega stefnu Sambands ungra sjálfstæðismanna. Höfundar bera sjálfir meginábyrgð á skrifum sínum á vefnum." Við höfum hafnað greinum vegna prófkjörsbaráttu en settar voru skýrar reglur um að prófkjörsframbjóðendur fengju ekki birtar greinar með vissum fyrirvara fyrir prófkjör til að gæta þess að ekki væri sumum gert meira undir höfði en öðrum. Það er enda svo að í nútímanum eru nær allir í dag með vefsíður, annaðhvort blogg eða formlegri vefi. Með því sitja allir við sama borð. Að öðru leyti hefur þetta verið mjög vítt.
Stundum kemur fyrir að ég og pistlahöfundar séum ósammála. Það er eðlilegt. Í stórum flokki er ólíkt fólk með ólíkar skoðanir - fólk sem vill vinna að sama markmiðinu þó og telur sig geta skipt sköpum sameinuð. Mjög ólíkt fólk í starfinu skrifar greinar fyrir vef SUS og hefur áhuga á að skrifa. Það er þeirra ákvörðun hvort það vilji skrifa. Ég fagna öllum þeim sem hafa skoðanir og vilja skipta máli með því að tjá sig með sínum hætti. Það er ekki mitt verkefni að steypa alla í sama mót eða stjórna skoðunum annarra. Mér var falið það verkefni að stýra þessum vef og ég geri það með þeim hætti sem ég tel mest viðeigandi. Það felur í sér að ég verð að virða skoðanir annarra og miðla þess í stað bara mínum skoðunum til fólks með mínum hætti. Hafi þessi pistlahöfundur, sem er í stjórn aðildarfélags SUS, brennandi áhuga á að koma sínum skoðunum að og rétta einhverja slagsíðu sem hann finnur fyrir er honum velkomið að skrifa á vefinn.
Ég skil ekki þessar pælingar og finnst þær lykta af einhverju allt öðru en því að virða skoðanafrelsi fólks - jafnvel innan sömu hreyfingar. Það kemur ekki til greina að ég miðstýri vefnum vissa braut og hendi út skoðunum virkra ungliða, sem vilja láta rödd sína heyrast á vefnum, sem mér mögulega líkar ekki. Fólk er að birta skrif sín á eigin ábyrgð og skrifar um sínar skoðanir. Ég hef verið mjög lengi talsmaður þess að netið sé notað til samskipta og fagna öllum þeim sem vilja skrifa á þennan vef okkar ungra sjálfstæðismanna. Það sem ég undrast er að stjórnarmaður í nokkuð virku ungliðafélagi bjóðist ekki frekar til að skrifa greinar á eigin forsendum á þennan vef okkar allra heldur en að nöldra yfir því að sum þeirra sem skrifi hafi ekki sömu skoðanir og akkúrat hann sjálfur. Það kemur fyrir að ég verði ósammála fólki en ég virði rétt þess til að hafa ólíkar skoðanir og akkúrat ég sjálfur hef.
Ég hef skrifað fleiri hundruð greinar og geri þetta af ástríðu. Ég er í þessu vegna þess að ég hef áhuga og vil miðla skoðunum mínum og pælingum til þeirra sem vilja lesa. Enda er enginn neyddur til að lesa mig frekar en aðra. Reyndar tók ég eftir því að viðkomandi penni sem skrifar með þessum hætti um heimasíðu SUS, verandi stjórnarmaður í öflugu ungliðafélagi SUS, skrifar á vef sinn um mig með þeim orðum að ég skrifi óþarfa langlokur um stjórnmál og noti marga vefi undir það. Hann kallar mig of-bloggara vikunnar. Læt ég svona barnaskap í léttu rúmi liggja en ég held áfram að skrifa um skoðanir mínar á mönnum og málefnum.
Það vill svo til að ég er að skrifa því ég hef áhuga á pólitík og hef helgað mig mínum hugsjónum og tjái skoðanir mínar með mínum hætti. Það er skondið að ég sé gagnrýndur fyrir að vera virkur í pólitík á eigin forsendum. Það vill svo til að ég nenni ekki að spá í óþarfa barnalegar krytur manna sem rífast í sandkössum í ungliðamálunum fyrir sunnan og blanda mér í þá þvælu sína.
Þessi átök í ungliðamálum sunnanmanna er að jaðra við þráhyggju og ég hlæ jafnan þegar að ég sé þessa dómadagsvitleysu skrifað á okkur landsbyggðarmenn sem eyðum frístundum okkar og aukatíma nær öllum í áhugamál okkar, stjórnmál og félagsstarf fyrir hugsjónir okkar.
<< Heim