Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 apríl 2006

Nixon

Nixon

Ég var á löngum fundi í kvöld og er heim kom horfði ég á kvikmyndina Nixon. Þar fjallar óskarsverðlaunaleikstjórinn Oliver Stone um feril Richard M. Nixon 37. forseta Bandaríkjanna. Jafnvel þótt hann hafi verið einn mest áberandi stjórnmálamaður tuttugustu aldarinnar og að um hann hafi verið skrifaðar fleiri greinar en nokkurn annan mann, er persóna hans enn í dag flestum hulin ráðgáta. Með þessari hispurslausu mynd reynir Stone að varpa ljósi á þennan einstaka mann sem reis til hæstu metorða í landi sínu og - eins og hann orðaði það gjarnan sjálfur - féll niður í þá dimmustu dali sem lífið felur í sér. Sjónarhorn Stone er hreinskilið og persónulegt en snýst að sjálfsögðu að miklu leyti um aðdragandann að falli Nixons úr valdastóli, hið dularfulla innbrot í Watergate-bygginguna í júnímánuði 1972, til þess tíma er hann neyddist til að segja af sér embætti í ágúst 1974, fyrstur bandarískra forseta.

En Stone skyggnist einnig dýpra inn í líf hans. Hann fer inn í karakterinn, við sjáum hvernig hann mótast úr smástrák í litlum bæ og til þess manns sem síðar varð valdamesti maður heims. Æska hans var blandin gleði en einnig sárum trega. Hann var sonur fátækra en stefnufastra hjóna og þurfti ásamt fjölskyldu sinni að þola missi tveggja bræðra sinna sem dóu úr berklum. Nixon bar þess merki alla tíð að vera beiskur en eitilharður baráttumaður, hann lét ekki undan nema hann nauðsynlega þyrfti til. Við fylgjumst með honum í myndinni allt frá því er hann óx úr grasi og sjáum hvernig hann fór að láta til sín taka á sviði stjórnmálanna, varð þingmannsefni 33 ára, öldungardeildarþingmaður 37 ára og varaforseti 39 ára. Hann bauð sig fram til forseta árið 1960 en tapaði fyrir John F. Kennedy. Honum tókst síðan að ná kjöri sem forseti Bandaríkjanna árið 1968 og var endurkjörinn 1972.

Richard M. Nixon eftir afsögn sína

Meginpartur myndarinnar er hneykslismálið sem kaldhæðnislega hófst helgina sem hann fagnaði sínum stærsta pólitíska sigri. Um miðjan júní 1972 er innbrotið í Watergate-bygginguna var framið var Nixon nýkominn frá Kína. Honum hafði tekist að opna Bandaríkjunum leið í austurveg með frægum fundi sínum og Mao þá um vorið. Við heimkomuna var hann hylltur eins og hetja og hann ávarpaði sameinaðar deildir Bandaríkjaþings. Sögulegum áfanga var náð: tekist hafði að opna leiðina til austurvegs og ennfremur sá fyrir lokin á Víetnamsstríðinu. Watergate-málið var klaufaleg mistök hjá reyndum stjórnmálamanni - afdrifarík mistök sem hann varð að gjalda að sjálfsögðu fyrir með embætti sínu. Það var ólöglegur verknaður og gott dæmi um persónuleikabresti Nixons sem urðu honum að falli og leiddi að mestu til einangrunar hans úr sviðsljósinu.

Breski óskarsverðlaunaleikarinn Sir Anthony Hopkins túlkar Nixon af stakri snilld í þessari mynd. Þó hann sé hvergi nærri alveg eins og Nixon í öllum töktum eða fasi verður hann samt Nixon með merkilegum hætti. Mörgum þótti skotið hátt yfir markið þegar hinn breski leikari með sinn ekta breska hreim var valinn til að leika hinn hrjúfa forseta með áberandi suðurríkjaframburð sinn. En Hopkins er enginn venjulegur leikari og túlkar forsetann með mikilli snilld. Frábær leikur hjá ótrúlegum leikara. Joan Allen fer á kostum í lágstemmdri rullu en stórbrotinni engu að síður er hún túlkar Pat Nixon. Hún var alltaf hinn þögli félagi forsetans, hún var við hlið hans í blíðu og stríðu allt til loka. Þau leika hjónin með miklum bravúr. Þau passa vel saman og fúnkera þannig. Þó hjónaband þeirra hafi oft verið stormasamt var það alltaf ástríkt.

Richard M. Nixon

Það sést vel á myndinni að hún er verulega gloppótt sögulega séð. Sumum hlutum er sleppt í frásögninni af ævi Nixons eða hreinlega skáldað í eyðurnar. Því ber að taka sagnfræði Stone með mikilli varúð. Þrátt fyrir þennan stóra galla er myndin góð. Henni tekst umfram allt að lýsa persónu Nixons. Hún var margbrotin, svo vægt sé til orða tekið. Segja má að hann hafi verið hið minnsta þrjár persónur, eða svo segja þeir sem stóðu honum næst: sá blíði, sá íhuguli og sá veruleikafirrti. Sá þriðji hafi eyðilagt feril hans, sá annar hafi íhugað um framtíðina þegar ferillinn var orðinn það skaddaður að honum varð ekki bjargað og sá fyrsti hafi tekið stjórnina við að gera upp ferilinn við lokin. Undir lokin hafði Nixon tekist að endurheimta orðspor sitt, var orðinn fyrirlesari og virtur álitsgjafi á málunum. Forysta hans í utanríkismálum verður það sem hans verður minnst fyrir utan við Watergate og sá vettvangur var honum gjöfull undir lokin.

Öllu er þessu lýst vel í myndinni að mínu mati. Hún tekur vel á meginpunktum ævi Nixons. Stone er oft óvæginn, tekur Nixon og karakter hans og kafar algjörlega inn í rótina. Það er bæði honum og arfleifð hans mikilvægt. Þó skotið sé mjög glaðlega og oft glannalega er þessi mynd nauðsynleg viðbót í umfjöllun um ævi Nixons. Fjöldi stórleikara fer með hlutverk í myndinni og má þar nefna James Woods, Ed Harris, Bob Hoskins, J.T. Walsh, Mary Steenburgen og Paul Sorvino. Öll skila þau sínu vel og eftir stendur hin besta mynd. Allavega ómissandi mynd fyrir þá sem hafa áhuga á stjórnmálasögu 20. aldarinnar og því hver var aðdragandinn að afsögn Nixons af forsetastóli og ekki síður hvernig hann varð stjórnmálamaður í fremstu röð en glutraði því frá sér með eigin afglöpum.

Sir Anthony Hopkins og Joan Allen í Nixon

Er merkilegt að kynna sér persónu Nixons betur. Hef ég áður lesið margar bækur um hann og séð heimildarþætti um feril hans og Watergate. En þessi mynd er mikilvægur þáttur í ævi þessa manns og hana verða allir að sjá. Umfram allt vegna þess að þetta er sýn pólitísks andstæðings Nixons á hann. Það sést umfram allt að hún er eftirminnileg þrátt fyrir að vera sagnfræðilega fjarri því rétt að öllu leyti. En þrátt fyrir það er hún ómissandi, allavega fyrir þá sem hafa áhuga á sögunni og ekki síður forsetatíð þessa eina forseta Bandaríkjanna sem hefur sagt af sér þessu valdamesta embætti heims.

Saga dagsins
1897 Hið íslenska prentarafélag stofnað - er félag prentara elsta starfandi verkalýðsfélag landsins.
1960 Kvikmyndin Ben-Hur hlýtur 11 óskarsverðlaun - engin kvikmynd hafði fram að þeim tíma hlotið fleiri óskarsverðlaun. Nokkrum áratugum síðar jöfnuðu Titanic og The Lord of the Rings: The Return of the King þetta met myndarinnar og hlutu ennfremur 11 óskarsverðlaun. Aðalleikari myndarinnar, Charlton Heston hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Judah Ben-Hur og Hugh Griffith einnig, en hann túlkaði Sheik Ilderim. Leikstjóri myndarinnar, William Wyler hlaut á sömu óskarshátíð bæði leikstjóraóskarinn og heiðursóskar fyrir æviframlag sitt. Ben-Hur er ein besta kvikmynd 20. aldarinnar.
1968 Blökkumannaleiðtoginn Martin Luther King, er var einn af ötulustu málsvörum mannréttinda blökkumanna á 20. öld, skotinn til bana á svölum hótelherbergis í Memphis í Tennessee-fylki, 39 ára að aldri. James Earl Ray var dæmdur fyrir morðið en hann hélt alla tíð fram sakleysi sínu. Hann lést í fangelsi árið 1998, en reyndi í mörg ár að vinna að því að mál hans væri tekið upp á nýjan leik.
1979 Zulfikar Ali Bhutto fyrrum forseti og forsætisráðherra Pakistans, tekinn af lífi - Bhutto sat á forsetastóli landsins 1971-1973 og forsætisráðherra 1973-1977 er honum var steypt af stóli. Dóttir hans, Benazir Bhutto, varð forsætisráðherra Pakistans árið 1988, fyrst allra kvenna í íslömsku ríki og gegndi embættinu tvívegis.
1995 Ragnar Th. Sigurðsson og Ari Trausti Guðmundsson komust á Norðurpólinn, fyrstir Íslendinga.

Snjallyrðið
The best minds are not in government. If any were, business would steal them away.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004)