Sjálfstæðisflokkurinn í stórsókn í Árborg
NFS hefur blásið til leiks í kosningakynningu sinni og stendur sig vel að mínu mati. Þar er farið yfir málefni sveitarfélaganna af krafti og þeir sem ekki þekkja til stöðu mála þar fá með umfjölluninni gott sjónarhorn á stöðu sveitarfélagsins. Ennfremur heyrum við auðvitað í leiðtogum framboðslistanna í sveitarfélögunum og fáum könnun á stöðu mála. Nú þegar að aðeins rétt rúmir 40 dagar er til kosninga er mikilvægt fyrir kjósendur að fá slíka umfjöllun og satt best að segja finnst mér sem miklum stjórnmálaáhugamanni áhugavert að sjá þetta. Þessi umfjöllun er stýrð af Sigmundi Erni Rúnarssyni fréttastjóra NFS, og með honum er einvalalið í að fara yfir málin. Frændi minn, Helgi Seljan, er á fullu í þessari vinnu og stendur sig vel þar, rétt eins og í Íslandi í dag og í þeim verkefnum sem hann sinnti á gömlu Talstöðinni en hann var um tíma þar með þeim Helgu Völu og Hallgrími Thorsteinssyni í síðdegisþætti stöðvarinnar, áður en NFS kom til.
Á þriðjudag var kynnt skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Árborg og ennfremur farið yfir málefni þess sveitarfélags. Niðurstaðan í henni er mjög einföld - Sjálfstæðisflokkurinn tvöfaldar fylgi sitt í sveitarfélaginu og nær hreinum meirihluta með 5 bæjarfulltrúa af 9. Fylgi flokksins fer þar úr rétt rúmum 25% í tæpt 51%. Ef marka má þetta er Sjálfstæðisflokkurinn í stórsókn og virðist vera að taka þetta með trompi þar. Kemur þetta mér ekki á óvart en Eyþór Arnalds hefur glætt nýju lífi í flokkinn í Árborg eftir að hann var kjörinn leiðtogi flokksins þar í febrúar. Það fór ekki framhjá neinum að kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins í Árborg gekk ekki sem skyldi í kosningunum 2002. Gott dæmi um kraftinn í flokknum með innkomu Eyþórs sást vel í prófkjörinu en fleiri kusu í því en sjálfan flokkinn árið 2002. Innkoma Eyþórs í bæjarmálin í Árborg markar nýtt upphaf fyrir Sjálfstæðisflokkinn þar. Þessi könnun staðfestir það með afgerandi hætti.
Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn ríkja núna í Árborg og tapa skiljanlega gríðarlegu fylgi. Samfylkingin fer úr rúmum 40% í rúm 20% og Framsóknarflokkurinn fer úr 28% í 18. Samfylkingin missir því helming kjörfylgis síns og verður fyrir gríðarlegri blóðtöku ef marka má þessa stöðu nú. Ég tel að Eyþór muni leiða Sjálfstæðisflokkinn í Árborg til góðs kosningasigurs í lok næsta mánaðar og vonandi munu sjálfstæðismenn taka við valdataumunum í þessu forna höfuðvígi sínu á Suðurlandi. Ég þekki Eyþór og veit að með honum kemur þarna líf og kraftur og það staðfestist í þessari mælingu. Hún gefur góð fyrirheit um valdaskipti í Árborg í næsta mánuði. Sérstaklega er athyglisvert að sjá útreið Samfylkingarinnar.
En ef marka má þetta er Sjálfstæðisflokkurinn í stórsókn undir forystu Eyþórs Arnalds og það er að sjálfsögðu mikið ánægjuefni. Næsta þriðjudag verður NFS með borgarafund hér á Akureyri og birtir þá skoðanakönnun á fylgi framboðanna hér. Það verður fínt að fá Helga norður í heimsókn.
<< Heim