Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 ágúst 2006

Kostulegt stefnuflökt í minnkandi flokki

Akureyri

Stundum veit maður ekki alveg hvert í ósköpunum Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er að fara í sinni pólitík né síður hvaðan hún er að koma. Ég var að horfa áðan á viðtal við hana í kvöldfréttum NFS í gærkvöldi - enn eitt kostulegt viðtalið er svosem frekar hægt að segja. Í stuttu máli sagt var hún þar enn einu sinni að reyna að búa til kosningamál úr þeirri lítt spennandi tilhugsun að ganga í Evrópusambandið og taka upp Evruna. Það er svosem ekkert nýtt að Samfylkingin tali fyrir þessu tvennu og er varla frétt nema í gúrkutíðinni á hásumri. Það sem mér fannst miklu frekar frétt var sú yfirlýsing formanns Samfylkingarinnar að Samfylkingin myndi ekki setja aðild að ESB sem skilyrði að ríkisstjórnarmyndun.

Sagði Ingibjörg Sólrún í viðtalinu við Herdísi Sigurbergsdóttur að það gengi ekki fyrir flokkinn að gera kröfu um það þar sem Samfylkingin sé ein um þessa stefnu. Þetta var alveg hlægilegt - í raun gat hún enda sagt að Samfylkingin hefði engan áhuga á að berjast fyrir málinu. Á tyllistundum hefur sá söngur hljómað að Samfylkingin sé málsvari ESB og tali fyrir kratastefnu Jóns Baldvins í Evrópumálum meðan að hann var utanríkisráðherra. Í raun má segja nú að málið sé skraut á flokknum en eitthvað sem ekkert er að marka. Það er að vissulega ánægjulegt fyrir okkur að formaður Samfylkingarinnar telji sig ekki geta náð þessu í gegn og þori ekki að leggja í slag um það.

Það er ekki furða að Ingibjörg Sólrún sé að fuðra upp pólitískt og tekið sé að hitna undir formannsstól hennar, þegar að mið er tekið af stefnuflökti hennar. Það virðist vera algjörlega vonlaust fyrir hana og flokkinn að einblína á mál - mynda sér stefnu og standa við hana í gegnum þykkt og þunnt. Í þá 15 mánuði sem hún hefur verið formaður hefur hvorki gengið né rekið í flokknum og hann tapað markvisst fylgi. Nú hefur hún setið á þingi í nákvæmlega ár og staðan virðist ekki beysin. Það yrði altént mikil pólitísk tíðindi ef svo færi að VG myndi standa á pari við Samfylkinguna eftir næstu kosningar, en munurinn milli flokkanna minnkar sífellt.

Það hlýtur að vera erfitt fyrir Samfylkingarfólk að horfa upp á stöðuna og vera að horfast í augu við að talið um tvo turna er bara þvæla og að VG sé farið að naga á hælana á þeim flokki sem átti lengi vel að vera pólitískt mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Það er hlegið að því markmiði núna og Ingibjörg Sólrún virðist vera í miklum erfiðleikum. Væntanlega fer að líða að því að menn fari að velta því fyrir sér hver muni leysa hana af hólmi á formannsstóli flokksins, enda mun hún varla geta setið lengi sem formaður fari svo að Samfylkingin tapi fylgi og þingsætum frá kosningunum 2003.