Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 febrúar 2004

ÓskarinnHeitast í umræðunni
Óskarsverðlaunin verða afhent í Los Angeles í nótt í 76. skipti. Almennt er talið að The Lord of the Rings: The Return of the King muni sópa að sér verðlaunum. Hún er tilnefnd til alls 11 verðlauna. Bandarískur almenningur er þeirrar skoðunar, að hún eigi skilið að hljóta Óskarsverðlaun fyrir bestu kvikmynd ársins. Í könnun sjónvarpsstöðvarinnar ABC sögðu 42% að hún ætti að vinna. 16% þátttakenda nefndu Seabiscuit, 11% nefndu Mystic River, í kjölfarið komu Lost in Translation og Master and Commander. ABC hefur gert kannanir á borð við þessa undanfarin 8 ár en þá hefur engin mynd fengið afgerandi stuðning, heldur margar verið með svipað fylgi. Ég ákvað venju samkvæmt að spá fyrir um úrslitin. Þetta hef ég gert seinustu 10 árin og oft haft rétt fyrir mér, t.d. hef ég í 9 skipti spáð rétt um hvaða mynd hljóti óskarinn sem besta mynd ársins og aðeins einu sinni haft rangt fyrir mér, 1999 spáði ég að Saving Private Ryan myndi vinna, en hún tapaði fyrir hinni ofmetnu Shakespeare in Love. Þessu sinni spái ég að Hringadróttinssaga vinni fyrir bestu kvikmynd ársins og að leikverðlaunin fari til Sean Penn, Charlize Theron, Tim Robbins og Renée Zellweger. Ég tel ennfremur að Hringadróttinssaga verði sigurvegari kvöldsins með 7-9 verðlaun, hið minnsta. Í óskarsspá minni spái ég henni 9 styttum. Hugsanlega gæti hún náð að slá met myndarinnar Gigi frá 1958 sem vann 9 verðlaun og tilnefnd til 9. Allavega er enginn vafi er á að hún á eftir að sópa til sín óskurum. Framundan er spennandi kvöld. Venju samkvæmt verður vakað fram eftir nóttu og horft á verðlaunaafhendinguna.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÍ gær birtist grein eftir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, í Morgunblaðinu. Í greininni leit hann til forsetaembættisins í ljósi umræðna um hið milliliðalausa lýðræði og spurninguna um það, hvort forsetinn geti skotið málum til þjóðarinnar. Í pistlinum segir: "Veik stoð embættis forseta Íslands eru þau fátæklegu rök, sem gjarnan eru notuð til að mæla því bót. Það er embættinu ekki styrkur, að gripið sé til þess að skýra inntak þess á allt annan veg en stenst nákvæma athugun. Í því skyni er það kallað "öryggisventill", af því að forsetinn geti upp á sitt eindæmi sett Alþingi stólinn fyrir dyrnar og skotið lögum undir atkvæði þjóðarinnar. Embætti forseta Íslands verður 60 ára 17. júní 1944 og á þessum 60 árum hefur aldrei reynt á þetta synjunarvald og allt, sem sagt er um, að kannski hafi staðið til að beita því, eru órökstuddar vangaveltur eða getsakir. Séu menn þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að hafa þann öryggisventil vegna samþykkta Alþingis, að skjóta megi ákvörðunum þess til þjóðaratkvæðagreiðslu, ættu þeir að hefjast handa við að lögfesta ákvæði um hann á skýran og ótvíræðan hátt. Óljós öryggisventill er verri en enginn, en með stjórnarskrá og lögum er unnt að ákveða, að við vissar aðstæður sé skylt að bera löggjafarmálefni undir atkvæði þjóðarinnar." Í helgarpistlinum fjallar Björn hinsvegar um sigur Vöku í háskólakosningunum, sigur frjálshyggjunnar, ESB og varnarmál.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um ráðherrahrókeringar sem verða í ríkisstjórninni í september, þá blasir við að forsætisráðherraskipti verða og uppstokkun í ráðherraliði beggja flokka og tilfærslur á ráðherrum samhliða því. Fer ég yfir stöðu mála nú þegar umræða um hrókeringarnar eru komnar í hámæli. Óháð því hvað Davíð Oddsson ákveður að gera í haust er hann lætur af embætti forsætisráðherra er alveg ljóst að vandinn í þessari uppstokkun er ekki okkar megin í Sjálfstæðisflokknum, heldur í Framsóknarflokknum þar sem verður raunverulegur slagur milli fólks. Hann er reyndar þegar hafinn af miklum látum með yfirlýsingum í vikunni í kjölfar fréttaskýringarþáttarins Í brennidepli, þar sem farið var yfir ráðherrakapal flokkanna. Ennfremur fjalla ég í sunnudagspistlinum um sterka stöðu frjálshyggjunnar í íslensku samfélagi seinustu árin og minnist á merkisafmæli ritsins "Uppreisn frjálshyggjunnar". Að lokum fjalla ég um opnun nýs vefs SUS sem opnaði á föstudag.

GoodfellasKvikmyndir
Horfði í gærkvöldi enn einu sinni á hið magnaða meistaraverk Martin Scorsese, Goodfellas. Það var árið 1990 sem Scorsese gerði þessa eftirminnilegustu og stórbrotnustu kvikmynd sína. Goodfellas er mögnuð mafíumynd sem er byggð á sannri sögu írsks-ítalsks bófa sem frá bernsku á sér þann draum heitastan að verða gangster. Og fyrr en varir er hann kominn í réttan félagsskap víðsjárverðra glæpamanna. Þar hefst þriggja áratuga tímabil auðgunarglæpa, manndrápa, peningaflóðs og ekki síst glæsilegs Hollywoodlífsstíls, sem endar að lokum með því að allir eru á varðbergi og hugsa um það eitt að bjarga eigin skinni. Meistari Scorsese segir söguna af einstökum mikilleik og ekki síst gráglettni, sóðaskapur innihaldsins kemur aðeins fram í örfáum sprungum sem bresta í rómantíska drauminn. Og ekki má gleyma sannkölluðum stórleik þeirra snillinga sem hér eru saman komnir og fara hreint á kostum, nægir þar að nefna þá Robert De Niro (sem vann hér með Scorsese í sjötta skiptið), Ray Liotta, Paul Sorvino og Joe Pesci sem hlaut óskarinn fyrir magnaðan leik sinn. Scorsese hlaut tilnefningu fyrir leikstjórn sína og myndin var einnig tilnefnd sem besta mynd ársins 1990. Eðalmynd, sem verður enn betri með hverju árinu. Snilld!

Dagurinn í dag
* 1884 Fjallkonan, blað Valdimars Ásmundssonar, kom út í fyrsta skipti
* 1940 Kvikmyndin Gone with the Wind hlýtur átta óskarsverðlaun - ein besta mynd aldarinnar
* 1968 Flóð í Ölfusá með jakaburði - einhver mestu flóð á Íslandi á 20. öld
* 1984 Pierre Trudeau tilkynnir afsögn sína sem forsætisráðherra Kanada, eftir 16 ára valdaferil
* 1992 Haldið upp á það að íbúar Reykjavíkur voru orðnir fleiri en 100.000 manns

Snjallyrði dagsins
Whenever I despair, I remember that the way of truth and love has always won. There may be tyrants and murderers, and for a time, they may seem invincible, but in the end, they always fail. Think of it: always.
Mahatma Gandhi í Gandhi

28 febrúar 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra er gestapenni helgarinnar á vefritinu Tíkinni sem ungar hægrisinnaðar konur halda úti. Þetta er í fyrsta skipti sem forsætisráðherra skrifar pistil á netið. Pistill Davíðs fjallar um eignarhald á fjölmiðlum. Orðrétt segir Davíð: "Því miður hefur tilkoma fyrirtækjamálgagna að undanförnu grafið undan trúverðugleika íslensks viðskiptalífs. Það þarf til dæmis engan sérstakan speking til að sjá hversu óheppilegt það er að viðskiptasamsteypa með umtalsverð ítök í íslensku viðskiptalífi er eigandi fjölmiðla. Hvað þá að fjölmiðlar í eigu hennar skuli vera í lykilstöðu á fjölmiðlamarkaði. Fjölmörg dæmi hafa verið nefnd á opinberum vettvangi hvernig fjölmiðlar í eigu Baugs hafa ítrekað verið staðnir að því að láta hagsmuni eigenda sinna ganga fyrir hagsmunum almennings. Nú nýverið bættist í þann haug enn eitt dæmið um vinnubrögð á þessum fjölmiðlum, sem hlýtur að auka á áhyggjur manna um hæfi eigendanna til að reka fjölmiðil. Hallur Hallsson, fyrrverandi fréttamaður, birti nýlega grein í Morgunblaðinu. Þar ræddi hann á skilmerkilegan hátt um hvernig Fréttablaðinu var beitt í pólitískum tilgangi eigenda þess. Meðal annars ræddi Hallur sérstaklega hvernig trúnaðarskjöl stjórnar Baugs bárust til ritstjóra Fréttablaðsins. Þögn forráðamanna fyrirtækisins um þetta mál og sú staðreynd að tveir af stjórnarmönnum fyrirtækisins sögðu sig úr stjórn vegna þessa hlýtur að vekja mikla athygli."

Tony BlairÁsakanir sem fram komu í vikunni þess efnis að breska stjórnin hafi látið hlera skrifstofu Kofi Annan framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í aðdraganda Íraksstríðs, þykja draga enn frekar úr trúverðugleika ríkisstjórnar Tony Blair. Hefur nú verið upplýst að tveir seinustu vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna, voru einnig hleraðir í starfi. Richard Butler, sem gegndi starfi vopnaeftirlitsmanns Sameinuðu þjóðanna frá 1997 til 1999, segist hafa vitað að fjögur ríki í öryggisráðinu; Bretar, Frakkar, Bandaríkjamenn og Rússar, hafi fylgst með símtölum hans. Þá greindi útvarpsstöðin ABC í Ástralíu frá því að samkvæmt heimildum áströlsku leyniþjónustunnar hefðu samtöl Hans Blix ennfremur verið hleruð. Hvað varðar ásakanir Clare Short um að Bretar hafi hlerað skrifstofu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna þá geta SÞ ekki sett ofan í við bresku stjórnina. Njósnirnar hafa engar lagalegar afleiðingar þótt hlerun sé brot á alþjóðalögum og stofnunin sé friðhelg. Líklegast er að Blair forsætisráðherra, muni komast hjá því að axla ábyrgð; hann hafi sagt ummæli Shorts ábyrgðarlaus en hafi þó ekki neitað þeim.

SUSGóður föstudagur
Fór suður með flugi um þrjúleytið í gær. Klukkan hálffimm var fundur í Valhöll í utanríkismálanefnd SUS þar sem farið var yfir ýmis mál. Á fundinum voru góðir gestir, sem hafa lengi fylgst með bandarískum stjórnmálum. Fræddu þeir okkur um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, og fóru yfir stöðuna og komu með þeirra mat á hvað kosningarnar munu snúast um. Á fundinum flutti ég erindi um málefni sendiráða og fór yfir marga þætti, einkum þó kostnað við rekstur þeirra og vék ennfremur að umsókn Íslendinga um sæti í Öryggisráði SÞ. Ástæða þess að ég tók saman erindi um þetta, er auðvitað sú að Sjálfstæðisflokkurinn mun taka við utanríkisráðuneytinu í haust. Að fundinum loknum fórum við í nefndinni niður í salinn í Valhöll, þar sem hófst kl. 17:30 hóf. Var þar sus.is opnuð að nýju og nýtt útlit vefsins formlega kynnt. Er ég þar í ritstjórn og hlakka til samstarfs við aðra sem vinna að verkefninu, en það er góður hópur sem þar er samankominn. Í hófinu átti ég góð samtöl við félaga innan SUS og ennfremur þau Birgi Ármannsson alþingismann og Ástu Möller, sem situr nú á þingi í fjarveru forsætisráðherra. Var þar farið yfir stjórnmálin og fleiri málefni að auki. Við Ásta ræddum mikið saman um heimasíður og pólitísk skrif á netinu, en hún hefur nú opnað opnað vef sinn á ný. Átti ég góða stund svo í gærkvöldi með félögum mínum, þeim Kristni Má og Snorra, og var um margt að ræða. Mikið um að vera hjá Heimdalli og gaman að fræðast um stöðu mála þar og svo er pólitíkin alltaf jafn skemmtilegt umræðuefni. Þetta var virkilega góð kvöldstund.

GothikaKvikmyndir
Fór í bíó í gærkvöldi með góðum vini. Fengum okkur hressingu í Smáralind og röbbuðum vel saman, skelltum okkur svo í Smárabíó og horfðum á kvikmyndina Gothika með óskarsverðlaunaleikkonunni Halle Berry í aðalhlutverki. Ekta spennutryllir, er segir frá geðlækninum Miröndu Grey. Hún vinnur á geðspítala við ummönnun sjúklinga sem eru mjög andlega vanheilir, er ennfremur eiginkona yfirmanns geðspítalans, Douglas Grey. Kvöld eitt er hún á leið heim til sín og lendir í bílslysi og undarlegri atburðarás. Er hún vaknar, þrem dögum síðar, er hún stödd á geðspítalanum, en þá ekki sem geðlæknirinn Miranda Grey, heldur sem sjúklingurinn og morðinginn Miranda Grey. Hún man í fyrstu lítið hvað gerðist, en smátt og smátt fer atburðarásin að skýrast. Ágætis spennutryllir, sem á virkilega góð augnablik og nær vissum hápunktum, þar sem áhorfandinn tekur andköf og tvö eða þrjú augnablik, slær hjartað helmingi hraðar en ella. Margt í handritinu er einkar gloppótt. Halle Berry stendur sig afbragðsvel í aðalhlutverkinu og á stóran þátt í að myndin nær ágætishæðum. Góð mynd fyrir þá sem hafa áhuga á ekta spennumyndum.

Dagurinn í dag
* 1066 Westminster Abbey dómkirkjan í London vígð
* 1920 Þilskipið Valtýr ferst fyrir sunnan land og með því 30 manns
* 1972 Sögulegri heimsókn Nixons Bandaríkjaforseta til Kína lýkur formlega
* 1983 Alþingi samþykkir að Ó, guð vors lands, sé þjóðsöngur og sameign þjóðarinnar
* 1986 Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar, myrtur á götuhorni í Stokkhólmi

Snjallyrði dagsins
This is my moment.
Aurora Greenway í Terms of Endearment

27 febrúar 2004

Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherraHeitast í umræðunni
Greinilegt er að valdaátök eru hafin innan Framsóknarflokksins, um það hvaða ráðherra flokksins skuli víkja við ráðherrahrókeringar í september. Í umræðuþættinum Í brennidepli, um seinustu helgi lét Guðjón Ólafur Jónsson varaþingmaður flokksins, þau orð falla að Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra, eigi að víkja í haust, þegar flokkurinn missir sjötta stólinn, ráðuneyti Sivjar. Hann ítrekar þessa skoðun aftur í vikunni í grein á Hriflunni, vefriti innan flokksins. Siv svarar Guðjóni Ólafi harkalega á sínum vef og segir að hann hafi á síðustu dögum tvívegis vegið opinberlega að sér. Orðrétt segir Siv á heimasíðu sinni: "Það er því greinilegt að húskarlar eru komnir á kreik." Um fyrri ummæli Guðjóns, sagði Siv þann 22. febrúar: "Kl. 20 var fréttaskýringaþáttur Páls Benediktssonar, "Í brennidepli" í Ríkissjónvarpinu þar sem rætt var við framsóknar- og sjálfstæðismenn um komandi breytingar á ríkisstjórninni þann 15. sept. n.k. Eftir þáttinn hringdu nokkrir stuðningsmenn mínir í flokknum æfir vegna ummæla sem Guðjón Ólafur Jónsson lögmaður lét falla í þættinum. Sagði ég þeim að róa sig í bili, ekki tækju allir mark á öllu sem sagt væri í sjónvarpi." Valdaátökin innan flokksins, verða sífellt sýnilegri og greinilegt að stefnir í harðvítugan slag um hver fari í haust, allir ráðherrar ætla að halda áfram og Siv ætlar að berjast fyrir því að fá annað ráðuneyti þá, á kostnað annars ráðherra.

Úr myndinni The Passion of the ChristUmdeild kvikmynd Mel Gibson um síðustu klukkustundirnar í lífi Jesú Krists, var frumsýnd í vikunni. Myndin fær fremur slæma dóma gagnrýnenda og hefur þegar vakið mikil og sterk viðbrögð kirkjunnar manna og trúarsamtaka af ýmsum toga. Það hafa einkum verið þrýstihópar gyðinga sem gagnrýnt hafa myndina og lýst yfir því að þeir óttist að hún ýti undir gyðingahatur vegna þess að í henni sé gefið í skyn að gyðingar hafi borið ábyrgð á dauða Krists. Gagnrýnendur sem mislíkar myndin hafa hins vegar fundið að henni fyrir yfirgengilega grimmd og alltof sýnilegt ofbeldi. Í The Hollywood Reporter er myndin sögð nánast ofbeldisklám og svipuð ummæli eru viðhöfð í umsögn Washington Post. Miðaldra kona í Kansas missti meðvitund þegar hún horfði á krossfestingaratriði myndarinnar og lést skömmu síðar á sjúkrahúsi. Mótmælagöngur hafa verið haldnar vegna myndarinnar og voru farnar víða um Bandaríkin í gær, nálægt kvikmyndahúsum sem sýndu myndina. Fræðimenn hafa sagt myndina uppfulla af sögulegum rangfærslum, eins og t.d. að Jesús skuli vera með sítt hár og að persónur mæli á latínu og aramísku. Athyglisvert verður að sjá hver aðsókn verður að myndinni.

SUSNýr vefur Sambands ungra sjálfstæðismanna á sus.is, verður opnaður í dag, föstudaginn 27. febrúar í Valhöll, Háaleitisbraut 1, kl. 17.30. Hinn nýi vefur verður eftir breytingar öflugri og betri vettvangur ungs hægrifólks og mun ná til allra þeirra sem vilja kynna sér áherslur okkar og skoðanir. Vefur okkar verður vettvangur allra ungra sjálfstæðismanna, um allt land. Þar munu birtast fréttir úr flokksstarfinu og ítarleg umfjöllun um málefni Sambands ungra sjálfstæðismanna. Hann mun verða mikilvægur þáttur til að kynna hugsjónir sjálfstæðismanna bæði sem lúta að auknu frelsi einstaklingsins og minni ríkisafskipta, og síðast en ekki síst styrkja ungliðahreyfingina enn frekar. Ég á sæti í ritstjórn vefsins eftir breytingar ásamt Georg Brynjarssyni, Jóni Hákoni Halldórssyni, Stefáni Einari Stefánssyni, Bjarka Má Baxter og Friðjóni R. Friðjónssyni. Efnisflokkar breytast, meira verður af athyglisverðu efni og hver yfir sínu sérsviði á vefnum. Framundan eru nýjir og betri tímar á vefnum og hörkugóður vefur ungra sjálfstæðismanna, undir öryggri stjórn.

Hjörleifur PálssonSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins fjallar Hjölli um landbúnaðarráðherrann. Orðrétt segir: "Guðni Ágústsson er mikið ólíkindatól. Hann er líklega einn fyndnasti stjórnmálamaður okkar tíma, og þreytist seint á að reyta af sér brandarana. Það sem gerir Guðna svona fyndinn er að honum tekst ávallt að segja eitthvað skondið, jafnvel þótt hann sé bara alls ekkert að djóka. Eins og til dæmis nú um daginn þegar hann fór hreinlega á kostum með ummælum sínum um kúabú landsins. Samkvæmt Guðna á mjólkurframleiðsla landsins að vera byggð upp á litlum fjölskyldubúum Aðkeypt vinnuafl, stærri bú og of mikil vélvæðing er hins vegar af hinu illa. Guðni tók þó skýrt fram að mjaltavélar væru af hinu góða. Hann var samt ekki alveg nógu skýr í máli sínu, og minntist t.d. ekkert á traktora. Vonandi sker hann þó fljótlega úr um það hvort traktorar séu góð eða vond tæki, og bindur þar með enda á þá miklu óvissu sem hefur vafalaust nagað marga landsmenn síðustu daga. Það væri einnig einkar fróðlegt að heyra frá Guðna, hvernig hann hefur komist að nákvæmlega þeirri niðurstöðu sem hann lýsti svo fjálglega. Allt frá byrjun síðustu aldar hafa orðið miklar framfarir í landbúnaði á Íslandi, líkt og annars staðar. Hvatinn að öllum þeim framförum hefur verið sá sami, nefnilega hagkvæmni." Góður pistill, sem hittir beint í mark.

From Here to EternityKvikmyndir
Horfði í gærkvöldi á kvikmyndina From Here to Eternity. Áhrifarík óskarsverðlaunamynd sem lýsir herbúðalífi bandarískra hermanna á Hawaii, skömmu fyrir hina afdrifaríku árás Japana á Pearl Harbour 7. desember 1941, í seinni heimsstyrjöldinni. Hér er sögð saga boxara er kemur nýr á staðinn örfáum vikum fyrir árásina. Hann neitar að boxa fyrir herdeildina, sökum óhapps sem hann lenti í á fyrri herstöð og orsakaði það að hann var fluttur þaðan til Hawaii. Stórkostleg eðalmynd með ógleymanlegum leikurum og mörgum frægum og einstaklega vel gerðum atriðum, sem mikið hafa verið stæld, t.d. atriðið þegar Burt Lancaster og Deborah Kerr liggja í faðmlögum í fjörunni með blossandi brimið í kringum þau og ótal önnur. Leikurinn er eins og fyrr sagði hreinlega einstakur, þá má nefna einkum þau Montgomery Clift sem fer á kostum í hlutverki hermannsins Roberts L. Prewitt, Frank Sinatra í hlutverki hins síkáta Maggio og Donna Kerr í hlutverki unnustu Prewitts, en þau fengu óskarinn fyrir stórkostlega leikframmistöðu sína. Ekki má gleyma Burt Lancaster og Deborah Kerr í hlutverkum skötuhjúanna Wardens liðþjálfa og Karen Holmes, en þau léku sennilega ekki betur á ferli sínum en í þessari einstöku mynd, nema þá einna helst Lancaster í hinu eftirminnilega óskarsverðlaunahlutverki sínu í Elmer Gantry. Ekki má heldur gleyma þeim Ernest Borgnine, Jack Warden og Philip Ober. Allir þessir fjölbreyttu og stórkostlegu leikarar fara sannarlega á kostum undir einstaklega vandaðri óskarsverðlaunaleikstjórn Fred Zinnemann, en hann var þekktur fyrir það að ná fram einstaklega vönduðum leiktilburðum hjá þeim leikurum sem störfuðu undir hans stjórn. Sannarlega forvitnileg og virkilega vönduð klassík eftir skáldsögu James Jones. Ein af hinum einstöku klassamyndum

Dagurinn í dag
* 1638 Eldgos hófst í Vatnajökli
* 1928 Togarinn Jón forseti, fórst við Stafnes - 15 drukknuðu en 10 var bjargað
* 1941 Togarinn Gullfoss frá Reykjavík, fórst út af Snæfellsnesi - 19 fórust
* 1953 Barnaskólahúsið í Hnífsdal fauk af grunni og eyðilagðist í ofsaveðri
* 1975 Hornstrandir friðlýstar formlega

Snjallyrði dagsins
My name is Lester Burnham. This is my neighborhood; this is my street; this is my life. I am 42 years old; in less than a year I will be dead. Of course I don't know that yet, and in a way, I am dead already.
Lester Burnham í American Beauty

26 febrúar 2004

Boris TrajkovskiHeitast í umræðunni
Flugvél Boris Trajkovski forseta Makedóníu, hrapaði í þoku og rigningu í Stolak-fjöllum í S-Bosníu í morgun. Forsetinn fórst með vélinni ásamt mörgum af starfsmönnum sínum. Hann var á leið á ráðstefnu í Mostar í Bosníu, með forsetavélinni, er slysið átti sér stað. Trajkovski var lögfræðingur að mennt. Hann var kosinn forseti Makedóníu 1999. Togstreita milli Makedóna sem tala slavneskt tungumál og íbúa sem ættaðir eru frá Albaníu setti mikinn svip á 5 ára forsetatíð hans. Trajkovski stjórnaði fundum þegar Atlantshafsbandalagið hafði forystu um friðarsamninga árið 2001 sem bundu enda á margra mánaða vopnaviðskipti sem hindruðu eðlilegt líf borgaranna. Hann hafði þá sakað Bandalagið árið 1999 um að sinna ekki um spennuna milli tungumálahópa í Makedóníu og vandamálum eftir að 300.000 Albanar flúðu þangað. Honum var þakkað að samningar tókust við albanska uppreisnarmenn, þannig að komið var í veg fyrir borgarastríð. Á Vesturlöndum naut Trajokovski álits sem kraftmikill leiðtogi með alþjóða yfirsýn og hæfileika til að hafa góð samskipti við erlenda stjórnarerindreka og stjórnmálamenn. Sérsvið hans á forsetastóli var viðskipta- og atvinnulöggjöf.

Clare ShortClare Short fyrrum ráðherra í bresku ríkisstjórninni, fullyrti í dag að skrifstofa Kofi Annans framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, hafi verið hleruð af Bretum í aðdraganda innrásarinnar í Írak. Í samtali við BBC sagðist hún hafa lesið hljóðrituð samtöl sem áttu sér stað á skrifstofu Annans í New York. Hún sagði breska njósnara einnig hafa verið að störfum innan veggja stofnunarinnar. Short sagði af sér í maí í fyrra, eins og kunnugt er, þar sem hún var mjög ósátt við stefnu Blairs í Íraksdeilunni. Á mánaðarlegum fundi með blaðamönnum í Downingstræti 10 neitaði forsætisráðherrann að ræða ásakanir Short um að breska leyniþjónustan hefði njósnað um Annan. Sagði hann að Clare Short væri að grafa undan öryggi breskra þegna. Honum þótti ábyrgðarlaust að koma fram með slíkar ásakanir og lét aðeins hafa eftir sér að breska leyniþjónustan starfaði innan ramma breskra laga og alþjóðalaga. Fred Eckhardt talsmaður Annans, sagði að sé þetta rétt, sé um ræða ólöglegan verknað, Annan hafi ekkert að fela í störfum sínum og svona sé algjör óþarfi.

Arnaldur IndriðasonGrafarþögn, skáldsaga Arnalds Indriðasonar, er nú í 7. sæti á bóksölulista í Þýskalandi. Engin íslensk bók hefur fyrr komist svo hátt á þeim lista. Grafarþögn er nefnist Todeshauch í þýðingu Colettu Bührling hefur þegar verið prentuð tvisvar, var þó fyrsta upplagið 100.000 eintök því þess var vænst að bókin seldist vel. Það seldist upp á einungis örfáum dögum. Í Grafarþögn segir frá Sigurði Óla og Elínborgu og rannsóknum þeirra á beinafundi í grunni nýbyggingar í Grafarholtinu. Arnaldur fékk norrænu glæpasagnaverðlaunin, Glerlykilinn, fyrir Grafarþögn í fyrra. Las ég bókina í fyrra, er hún gríðarlega vel uppbyggð og vönduð. Þessi bók, er einn besti krimmi í sögu íslenskra bókmennta og skyldulesning fyrir alla sem unna sakamálasögum.

Helga ÁrnadóttirSvona er frelsið í dag
Á frelsinu í dag eru tveir stórgóðir pistlar. Helga Árnadóttir fjallar í pistli sínum um menntamál og segir svo: "Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti nýverið lista yfir bestu háskóla heimsins, sem unninn var af rannsóknaraðilum í Shanghai. Listinn var nokkuð sláandi, þar sem í allir nema 15 af topp 50 háskólunum voru bandarískir. Einu evrópsku háskólarnir sem náðu inn á topp 10 voru Oxford og Cambridge, en engir aðrir evrópskir háskólar náðu hærra en í fertugasta sæti. Yfirburðir bandarískra háskóla virðast því vera að aukast á meðan þeir evrópsku standa í stað eða visna. Í Bandaríkjunum er að finna fyrirmyndina að háskólum sem eru í senn öflugar, sjálfstæðar og vel fjármagnaðar menntastofnanir, og evrópskir menntamenn og stjórnmálamenn brjóta því heilann yfir því hver sé leiðin til að ná þeirra stöðu." Í pistli sínum fjallar Kristinn Már um menningarmál og segir svo: "Frjálshyggjumenn líta svo á að ríkisvaldið skuli ekki neyða borgarana til þess að láta eigið fé af hendi til ráðstöfunar í þá menningu og listir sem stjórnmálamönnum og þrýstihópum þóknast. Ljóst má vera að hafi einstaklingar og fyrirtæki þessa lands raunverulegan áhuga á því að leggja sitt fé í þessi verkefni þá munu þau halda áfram að starfa og jafnvel vaxa sem aldrei fyrr með tilkomu samkeppni og þeirra kosta sem einkaframtakið augljóslega hefur fram yfir opinberan rekstur. Hafi borgararnir ekki áhuga á því að leggja fé sitt í þessa starfsemi og þá menningu sem hið opinbera ákveður að halda úti er ljóst að þeir hafa ekki raunverulegan áhuga á því sem ríkið neyðir þá til að fjármagna að svo stöddu."

PattonKvikmyndir
Horfði í gærkvöldi á hina mögnuðu óskarsverðlaunamynd Patton. Stórkostleg óskarsverðlaunamynd sem er ein af allra bestu kvikmyndum áttunda áratugarins. Í henni er lýst á einkar mikilfenglegan og stórbrotinn hátt reisn og falli hershöfðingjans umdeilda George S. Patton, en hann var einn af allra snjöllustu herarkitektum seinni heimsstyrjaldarinnar og átti einna stærstan hlut að máli að sigur vannst á Nasistaríki Adolf Hitlers og veldi hans. Í myndinni er fylgst með herdeild hans og stórum sigrum allt frá innrásinni í Norður-Afríku, Sikiley og Ítalíu uns hann féll loks í ónáð fyrir augnabliksbræði. Stríðsmyndir gerast ekki mikið betri og verð ég að segja í fullri hreinskilni að mér finnst þessi mynd ein af þeim allra bestu þeirrar gerðar, bæði að gæðum, leik og ekki síst söguígildi sitt. Óskarsverðlaunaleikstjórn Franklins Schaffners er í engu ábótavant, hvort heldur sem um er að ræða miklar sögulegar stríðssenur eða þá mjög svipmiklar nærmyndir af hinni einstaklega litríku persónu hershöfðingjans sem George C. Scott túlkar á hreint einstaklega góðan hátt, en hann hlaut óskarinn fyrir leik sinn. Kvikmyndatakan er einnig mjög eftirminnileg og myndin öll, frá einu af allra sterkustu upphafsatriðum kvikmyndasögunnar, hinni einstaklega góðu sex mínútna einræðu hershöfðingjans, allt til loka ferils hans, er ein af allra eftirminnilegustu upplifunum kvikmyndasögunnar.

PressukvöldDægurmálaspjallið
Eftir að hafa horft á stórmyndina Patton, var litið á Pressukvöld Ríkissjónvarpsins. Þar var Geir H. Haarde fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gestur þriggja fréttamanna. Var víða farið í hálftímalöngu spjalli, en mest snerist umræðan um væntanlegar hrókeringar í ríkisstjórninni í september. Sagðist hann ætla að gefa kost á sér til formennsku flokksins ef Davíð Oddsson kýs að hætta sem formaður á næsta landsfundi. Hann sagðist ennfremur ekki útiloka að hafa áhuga á að taka við utanríkisráðuneytinu í haust. Geir sagði að það væri alls ekki sjálfgefið að hann ætti tilkall til formannssætisins. Þeir sem hefðu áhuga á að bjóða sig fram ættu að gera það og svo væri það flokksmanna að ákveða, hver hlyti embættið, ef það myndi losna. Eins og heyrst hefur á spjallþáttum seinustu daga, er ekkert fararsnið á Davíð Oddssyni úr stjórnmálum, og því allar svona spekúlasjónir ótímabærar að mínu mati.

Dagurinn í dag
* 1930 Stóra bomban - grein eftir Jónas Jónsson birtist í Tímanum og leiddi til mikilla deilna
* 1986 Ferdinand Marcos hrakinn frá völdum á Filippseyjum eftir 20 ára einræðisstjórn
* 1989 Íslenska landsliðið í handbolta sigraði í B-heimsmeistarakeppninni í París í Frakklandi
* 1993 Sprengjutilræði í World Trade Center í New York - turnunum var grandað árið 2001
* 2000 18. Heklugosið á sögulegum tíma hófst - því var spáð með 18 mínútna fyrirvara

Snjallyrði dagsins
Look, I don't teach you about teachin'. Don't teach me about ducks.
Sadie í A Letter to Three Wives

25 febrúar 2004

Vladimir Putin forsetiHeitast í umræðunni
Vladimir Putin forseti Rússlands, vék í gær forsætisráðherra landsins, Mikhail Kasyanov, úr embætti og leysti ríkisstjórn hans alla frá störfum. Nýrri bráðabirgðastjórn var jafnframt falið að móta umbótastefnu sem fylgt verður eftir forsetakosningarnar, þann 14. mars nk. Vladimir Putin er öruggur um að ná endurkjöri í þeim kosningum. Búist hafði verið við því að forsætisráðherrann og stjórn hans sætu fram yfir kosningar, en svo stokkuð upp spilin. Putin kom verulega á óvart með þessari ákvörðun sinni, Hann tilkynnti um hana í beinni sjónvarpsútsendingu. Forseti Rússlands hefur samkvæmt rússnesku stjórnarskránni rétt á leysa forsætisráðherrann og ríkisstjórnina frá störfum. Boris Yeltsin var frægur í sinni forsetatíð 1991-1999 fyrir að sparka forsætisráðherrum eftir hentugleikum og skipta út ráðherrum. Viktor Khristenko varaforsætisráðherra, tekur við stjórnartaumunum fram yfir forsetakosningar. Fram hefur komið í fréttum að rússnesk hlutabréf hafi lækkað snarlega í verði við aðgerðir forsetans. Ekki kom á óvart að forsætisráðherranum skyldi sparkað, en tímasetningin eins og fyrr segir vekur athygli. Var orðið á allra vitorði að forsetinn þyldi ekki Kasyanov forsætisráðherra. Fylgi forsetans hefur að undanförnu mælst í kringum 80% fyrir kosningar og því ljóst að hans staða er mjög vænleg í rússneskum stjórnmálum.

Evrópa31. desember 2003 áttu 10.180 erlendir ríkisborgarar lögheimili hér á landi eða 3,5% landsmanna. Þetta er svipað hlutfall og ári áður en þá voru einstaklingar með erlent ríkisfang 10.221. Árin þar á undan fjölgaði íbúum með erlent ríkisfang ár frá ári og nærri lætur að þeim fjölgaði um helming á síðari hluta 10. áratugarins úr 1,8% árið 1995, að því er fram kemur hjá Hagstofu Íslands. Flestir erlendir ríkisborgar sem búsettir eru á Íslandi eru með ríkisfang í Evrópulöndum; 16% í einhverju Norðurlandanna og 52% í öðrum löndum Evrópu. Langfjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara hér á landi voru Pólverjar (1.856) og í kjölfar þeirra fylgdu Danir (870). Fremur fáir erlendir ríkisborgarar voru með ríkisfang í löndum utan Evrópu ef frá eru talin nokkur Asíulönd, einkum Filippseyjar (609) og Taíland (474). Einstaklingar með ríkisfang í löndum Ameríku voru langflestir með bandarískt ríkisfang (521). Hlutfallslega búa flestir erlendir ríkisborgarar á Vestfjörðum, 6,2%. Á Suðurnesjum var hlutfallið 4,5, 3,8 á Austurlandi og 3,5% á höfuðborgarsvæðinu. Lægst hlutfall erlendra ríkisborgara er á Norðurlandi eystra, 2,1%. Árið 2003 voru 5.644 íbúa fæddir á Norðurlöndum. Af þeim höfðu 4.323 íslenskt ríkisfang, þ.e. 77,0%. Hlutfall íslenskra ríkisborgara af íbúum sem fæddir eru utan Norðurlanda er mun lægra. Athyglisverðar tölur hjá Hagstofunni.

MjólkSkýrsla nefndar Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra, um stöðu og stefnumótun í mjólkurframleiðslu, var kynnt í gær. Í henni kemur margt mjög athyglisvert fram. Kúabændum, eða þeim sem leggja inn mjólk, hefur samkvæmt henni fækkað um tæplega 300 frá árinu 1998, búin hafa stækkað og meðalinnlegg á ári aukist um 30.000 lítra á sama tíma. Sala á drykkjarmjólk hefur dregist saman um 5% og á viðbiti um 8%. 12% meira selst af rjóma, og sala á jógúrt hefur aukist álíka mikið. Skyrið er gríðarlega vinsælt og hefur alla tíð verið, en seinustu ár hefur sala á skyri náð nýjum hæðum. Sala á því hefur tvöfaldast á seinustu fimm árum. 1998 var gerður samningur um starfsskilyrði í mjólkurframleiðslu, sá samningur rennur út síðsumars 2005. Ellefu manna nefnd var skipuð fyrir rúmu ári til að kanna framkvæmd þessa samnings og gera tillögur fyrir gerð næsta samnings. Áfram er gert ráð fyrir beingreiðslum til framleiðenda og að verðlagsnefnd búvara ákvarði verð mjólkurvara í heildsölu. Tel ég rétt að stokka upp landbúnaðarkerfið. Þessi skýrsla sannar svo ekki verður um villst að taka verður allt landbúnaðarkerfið algjörlega til skoðunar og stokka það upp.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í pistli á frelsinu í dag fjallar Kári um lagasetningu á haustþingi um að framlengja einkaleyfi Háskóla Íslands til reksturs peningahappdrættis. Orðrétt segir: "Finnst mér það mjög undarlegt að nú á okkar tímum sé ríkið enn að skipta sér af markaðnum. Samkvæmt frumvarpi ráðherra átti lenging einkaleyfisins að gilda til næstu 15 ára. Það gerist þótt skýrt sé tekið fram samkvæmt áliti Samkeppnisráðs frá árinu 2000, að markmið laganna gætu farið gegn markmiðum samkeppnislaga um samkeppni á frjálsum markaði og að einkaleyfið gæfi happdrætti HÍ samkeppnislegt forskot. Þá var líka bent á það að einkaleyfið gæti brotið í bága við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Samt sem áður sendi dómsmálaráðherra frá sér þetta frumvarp og kom málið með því til kasta þingsins, og fór meðal annars til umsagnar í allsherjarnefnd." Ennfremur segir: "Það er ekki að sjá að það séu margir í þingflokknum sem vilja að ríkið hætti afskiptum af happdrættismarkaðnum. Það að afnema einkaleyfi happdrættis HÍ, sem á síðasta ári gaf háskólanum rúman hálfan milljarð króna og þar af fóru 100 milljónir í svokallað einkaleyfisgjald sem rennur til ríkisins, stuðlar augljóslega að bættri samkeppni og bættum hag neytenda í landinu. Er það auk þess ekki betra fyrir HÍ að fá að halda eftir 100 milljónum sem annars hefðu farið í ríkissjóð?"

The InsiderKvikmyndir
Horfði í gærkvöldi á eðalmyndina The Insider. Er hvorttveggja í senn ádeila á tóbaksiðnaðinn bandaríska og þá ekki síst fréttaflutninginn í Bandaríkjunum. Hér segir af Dr. Jeffrey Wigand, sem rekinn var úr starfi sínu sem vísindamaður hjá Brown & Williamson, einu af stærstu tóbaksfyrirtækjum Bandaríkjanna, eftir að hafa reynt að benda yfirmönnum fyrirtækisins á hin heilsuspillandi áhrif tóbaksins. Hann sætir miklu harðræði frá fyrirtækinu eftir að þeim fer að gruna að hann muni jafnvel veita fjölmiðlum innanhússleyndarmál og upplýsingar sem gætu komið fyrirtækinu illa. Þeir skera á allar greiðslur til hans, hann fær líflátshótanir og það er njósnað um hann. Á svipuðum tíma fær fréttastjórnandi hjá hinum virta fréttaskýringaþætti CBS, 60 mínútur, Lowell Bergman, send vísindaleg gögn frá nafnlausum sendanda sem virðast veita innsýn í tóbaksheiminn. Sækist hann eftir aðstoð Jeffrey til að rýna í málið fyrir sig. Framundan er spennandi atburðarás. Óviðjafnanleg á öllum sviðum, meistaraleg leikstjórn Michael Mann er fagmannleg, kvikmyndataka Dante Spinetti er afar góð og er gott dæmi um fagmannlega og um leið nýstárlega kvikmyndatöku. Handrit Eric Roth og Michael Mann er hreint afbragð og sýnir persónur myndarinnar á heilsteyptan hátt og sýnir fram á mannlega hluta málsins. Leikurinn er ennfremur magnaður. Russell Crowe og Al Pacino fara á kostum í aðalhlutverkunum. Christopher Plummer er ógleymanlegur í hlutverki fréttamannsins fjölhæfa Mike Wallace. Mynd fyrir alla þá sem unna kvikmyndum með sannan og heilsteyptan boðskap sem er settur fram á glæsilegan hátt og sannar hiklaust að hún er í rauninni táknmynd hins góða sem sigrast loks á hinu illa og gerspillta.

Dagurinn í dag
* 1920 Önnur ríkisstjórn Jóns Magnússonar tók við völdum - sat í rúm tvö ár
* 1956 Nikita Khrushchev afneitar vinnubrögðum Stalíns við stjórn Sovétríkjanna í frægri ræðu
* 1964 Teikning eftir Sigmund Jóhannsson birtist í fyrsta skipti í Morgunblaðinu
* 1966 Bandaríska söngkonan Ella Fitzgerald kom til landsins og hélt tónleika
* 1990 Violeta Chamarro kjörin forseti Nicaragua - sandínistar missa völdin eftir 11 ára einræði

Snjallyrði dagsins
There's only one proper way for a professional soldier to die: the last bullet of the last battle of the last war.
George S. Patton í Patton

24 febrúar 2004

George W. Bush og Laura Welch BushHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarpaði í gær ríkisstjóra Repúblikanaflokksins á fundi með þeim í Washington. Í ræðunni réðst hann á andstæðinga sína í Demókrataflokknum, sem sækjast eftir útnefningu flokksins vegna forsetakosninganna 2. nóvember nk. Sagði Bush í ræðunni að þeir væru talsmenn hærri skatta og hefðu ómarkvissa stefnu í baráttunni gegn hryðjuverkum. Um demókratana í framboði sagði forsetinn: "an interesting group with diverse opinions -- for tax cuts and against them; for NAFTA and against NAFTA; for the Patriot Act and against the Patriot Act; in favor of liberating Iraq and opposed to it." Einnig kom fram: "They now agree that the world is better off with Saddam [Hussein] out of power. They just didn't support removing Saddam from power. Maybe they were hoping he'd lose the next Iraqi election." Forsetinn sagði að andstæðingar sínir hefðu ekki mikið fram að færa til sigurs í stríðinu eða til að efla efnahagslífið. Hann sagði að það eina sem heyrðist úr herbúðum demókrata væri gamalkunnur biturleiki og reiði manna sem hafa tapað nokkrum kosningum í röð. Bush forseti hyggst hefja kosningabaráttu sína með öflugri auglýsingaherferð 4. mars nk, tveim dögum eftir ofurþriðjudaginn svokallaða.

Charlize TheronBandarísku SAG-kvikmyndaverðlaunin voru afhent á sunnudagskvöld. Þau eru hátíð Samtaka kvikmyndaleikara í Bandaríkjunum. Charlize Theron var valin leikkona í aðalhlutverki fyrir leik sinn í myndinni Monster, og bendir nú flest orðið til að hún hljóti óskarinn á sunnudag fyrir leik sinn. Johnny Depp fékk verðlaunin sem leikari í aðalhlutverki, fyrir hlutverk sitt í Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black Pearl. Val Depp kom á óvart en Sean Penn hafði verið álitinn sigurstranglegur fyrir hlutverk sitt í Mystic River og ennfremur Bill Murray fyrir Lost in Translation. Kvikmynd Peter Jackson, LOTR: Return of the King, sigraði í vali um bestu kvikmyndina og var Peter Jackson valinn leikstjóri ársins. Tim Robbins og Renée Zellweger voru valin sem bestu leikarar í aukahlutverki, hann fyrir Mystic River og hún fyrir Cold Mountain. Leikarinn Karl Malden hlaut heiðursverðlaun SAG að þessu sinni. Hafa SAG verðlaunin lengi þótt góð vísbending um verðlaunaveitingar á Óskarsverðlaunahátíðinni og hafa þau styrkst á tíu árum sem ein helstu kvikmyndaverðlaun samtímans.

Davíð Oddsson forsætisráðherraDavíð Oddsson forsætisráðherra, kom í opinbera heimsókn til Úkraínu síðdegis í gær. Með ráðherranum í ferðinni eru Ólafur Davíðsson ráðuneytisstjóri, Illugi Gunnarsson aðstoðarmaður ráðherrans, og Albert Jónsson sérfræðingur ráðuneytisins í utanríkismálum, auk sendinefndar athafnamanna úr viðskiptalífinu. Í dag átti Davíð fund með Viktor Yanukovych forsætisráðherra Úkraínu, undirrituðu þeir tvíhliða samning milli landanna og héldu sameiginlegan blaðamannafund. Ennfremur hitti Davíð, Kostyantyn Hryschchenko utanríkisráðherra. Davíð heimsótti einnig þjóðþing Úkraínu og átti fund með þingforsetanum, Volodymyr Lytvyn. Í hádeginu hitti hann borgarstjórann í Kiev, Olexandr Omelchenko, og síðdegis átti hann fund með Leonid Kuchma forseta Úkraínu. Heimsókn Davíðs til Úkraínu, lýkur á morgun.

Helga Lára HauksdóttirSvona er frelsið í dag
Í dag birtist pistill Helgu Láru um skólagjöld og umræðu um þau seinustu vikur. Orðrétt segir hún: "Um síðustu áramót tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir við embætti menntamálaráðherra. Strax í upphafi sýndi hún það hugrekki að taka upp umræðu um skólagjöld í HÍ. Hún tjáði þá skoðun sína að gera þyrfti heildstæða úttekt á fjárhag háskólans og í kjölfarið mætti skoða möguleika á útfærslum á skólagjöldum. Hún lagði mikla áherslu á að Háskóli Íslands stæðist ítrustu kröfur um gæði háskólamenntunar. Þá væri það mikilvægt að hafa í huga að þegar og ef skólagjöld yrðu tekin upp hefðu þau ekki áhrif á jafnrétti fólks til náms. Það er gömul saga og ný að það sem er ókeypis er oft ekki metið sem skyldi. Í þessu sambandi er umhugsunarefni að brottfall nemenda úr Háskóla Íslands er mun meira en í háskólum sem krefjast skólagjalda. Er hugsanlegt að nemendur sem greiða skólagjöld taki nám sitt að einhverju marki alvarlegar, en þeir sem ekki þurfa að reiða fram fé til að stunda nám? Á það t.d. sinn þátt í að algengt er að um helmingur nemenda falla á 1. ári í mörgum deildum HÍ?" Góð skrif hjá Helgu Láru.

The Royal TenenbaumsRæðuskrif - kvikmyndir
Eftir að hafa horft á það venjulega, fréttir, dægurmálaþætti og bæjarmálafréttirnar á Aksjón, fór ég í tölvuna að vinna að ræðu sem ég á að flytja um sendiráðin á fundi utanríkismálanefndar SUS á föstudag, en ég á sæti í henni og hef undanfarið fjallað mikið um málefni sendiráðanna á vettvangi SUS. Eftir góða törn við vinnslu ræðunnar fór ég að horfa á kvikmyndina The Royal Tenenbaums. Sennilega eiga fáar fjölskyldur við jafnmörg og fjölbreytt vandamál að stríða og Tennenbaum-fjölskyldan. Fjölskyldufaðirinn Royal var vægast sagt ótillitsamt foreldri og yfirgaf börnin sín þrjú áður en þau uxu úr grasi. Móðir þeirra ól þau upp til að verða að snillingum. Það tókst sæmilega en því miður hafði uppeldið, sérstaklega tillitsleysi Royals, þær aukaverkanir að öll eiga þau við einhvers konar taugavandamál að stríða. Raunar hefur hvert og eitt þeirra lokað sig af í eigin heimi strax frá unga aldri. Sagan gerist þegar börnin eru öll í kringum þrítugt. Royal hefur komist að því að konan hans ætlar kannski að giftast aftur og ákveður hann að reyna að stöðva það. Verður sú endurkoma kostuleg þar sem móttökurnar sem hann fær frá fjölskyldunni sem hefur ekki séð hann í mörg ár eru vægast sagt blendnar. Gene Hackman fer á kostum í hlutverki fjölskylduföðurins og ennfremur eiga Anjelica Huston, Ben Stiller, Owen Wilson, Danny Glover og Bill Murray góðan leik. Mögnuð gamanmynd.

KastljósDægurmálaspjallið
Í gærkvöldi var rætt í Íslandi í dag mikið um greinargerð með nýjum hugmyndum um skipulag í miðborg Reykjavíkur, sem kynntar voru á fundi sem Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkur hélt. Ræddu Jóhanna og Þórhallur hugmyndir um skipulag miðborgarinnar við Margréti Harðardóttur arkitekt hjá Studio Granda, sem vann að útfærslu hugmyndanna, og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur formann skipulagsnefndar. Í Kastljósinu ræddu Kristján og Sigmar við Sigurð Kára Kristjánsson alþingismann, og Karl Th. Birgisson, um forsetaembættið. Flest bendir nú til að forseti gefi kost á sér til endurkjörs og hann fái mótframboð frá tveim aðilum og því kosningar í vor. Þetta embætti verður sífellt tilgangslausara og reyndar svo lítilfjörlegt að forseti Íslands fer í frí þegar mikilvægu afmæli í sögu þjóðarinnar er fagnað.

Dagurinn í dag
* 1630 Skálholtsstaður brann til kaldra kola - mikið af verðmætum munum brunnu
* 1924 20 þingmenn stofnuðu Íhaldsflokkinn - önnur tveggja stoða Sjálfstæðisflokksins 1929
* 1924 Líkneskið af Ingólfi Arnarsyni eftir Einar Jónsson, á Arnarhóli í Reykjavík, afhjúpað
* 1981 Karl Bretaprins og lafði Díana Spencer, tilkynna um trúlofun sína - giftust síðar sama ár
* 1991 Minnisvarði um Sveinbjörn Egilsson rektor og skáld, afhjúpaður í Innri Njarðvík

Snjallyrði dagsins
Ernest Hemingway once wrote, "The world is a fine place and worth fighting for." I agree with the second part.
William Somerset í Seven

23 febrúar 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, færði að því rök í fréttaskýringaþættinum Í brennidepli, í gærkvöld, að hann fari jafnvel í dómsmálaráðuneytið í haust. Davíð sagðist í þættinum ekki vera búinn að ákveða hvað hann taki sér fyrir hendur í haust, hvort hann hætti í stjórnmálum eða ekki, en ráða mátti af svari hans að ólíklegt sé að hann sé á förum úr íslenskri pólitík. Kom fram að Davíð þætti spursmál hvort að formaður flokks vilji vera heima en ekki í utanríkisráðuneyti, þar sem menn þurfa að vera mjög mikið burtu. Hinsvegar er hefð fyrir því að flokksformenn þess flokks sem ekki hefur forsætisráðuneytið, séu utanríkisráðherrar. Það hafa þeir verið síðustu 16 ár. Halldór Ásgrímsson hefur verið formaður Framsóknarflokksins í 10 ár í vor, og utanríkisráðherra næstum allan þann tíma eða frá apríl 1995. Þar á undan var Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra í tveimur ríkisstjórnum, jafnframt því að vera formaður Alþýðuflokksins, hann var utanríkisráðherra 1988-1995. Ljóst er að sárindi eru framundan innan Framsóknarflokksins, enda þarf þar að taka einn ráðherra út til að rýma fyrir að Halldór verði forsætisráðherra. Stefna allir ráðherrar flokksins á að halda áfram. Var velt upp mörgum möguleikum um hver færi þar út og ljóst að stefnir í gríðarleg átök milli ráðherra um stöðu þeirra innan stjórnarinnar.

Í brennidepliÓhætt er að segja að fréttaskýringarþátturinn hafi verið vandaður og vel farið yfir uppstokkunina sem verður í stjórninni í haust. Rætt var við alla núverandi ráðherra og nokkra stjórnmálaáhugamenn. Ljóst er að verði Davíð dómsmálaráðherra í haust, mun hann fá meiri tíma til að efla flokkinn og innra starf hans. Þá liggur ennfremur beinast við að Björn Bjarnason fari í utanríkisráðuneytið. Er enginn vafi á að hann er hæfastur allra í þingflokki Sjálfstæðisflokksins til að taka við því ráðuneyti, ef Davíð tekur annað ráðuneyti. Tel ég ekkert fararsnið vera á Davíð og fagna ég því, enda tel ég að hans hlutverki sé langt í frá lokið og mikilvægt að hann leiði flokkinn til sigurs í næstu þingkosningum og þá taki flokkurinn að nýju við forystu í ríkisstjórninni. Í þættinum var Hannes Hólmsteinn Gissurarson spurður um framtíðarforystumenn flokksins og nefndi hann þar þrjú nöfn, Ásdísi Höllu Bragadóttur, Gísla Martein Baldursson og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Hægt væri að nefna marga fleiri, en ljóst er að þessi þrjú eiga eftir að vera í forystusveit flokksins er fram líða stundir. Óháð því hvað Davíð gerir er vandinn í þessari uppstokkun ekki okkar megin, heldur í Framsóknarflokknum þar sem verður raunverulegur slagur milli fólks.

Tony BlairTony Blair forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í viðtali við blaðið News Of The World, um helgina að hann hefði í hyggju að sitja sitt þriðja kjörtímabil sem forsætisráðherra. Hefur hann því ekki í hyggju að draga sig í hlé, eins og ýjað hafði verið að. Undanfarnar vikur hafði sá orðrómur orðið æ háværari að hann hygðist láta af embætti í kringum fimmtugsafmæli Cherie eiginkonu sinnar, í haust. Blair ætlar sér að gefa kost á sér sem leiðtogi Verkamannaflokksins á næsta flokksþingi og segist vera rétt að byrja undirbúning fyrir næstu þingkosningar. Þær eiga að fara fram í síðasta lagi í maí 2006, en þá lýkur fimm ára kjörtímabili ríkisstjórnarinnar. Það hefur gustað allverulega um Blair seinustu vikur og mánuði. Hutton-skýrslan, Íraksstríðið og skólagjöld í háskólum hafa verið meðal mála sem ágreiningur hefur verið um. Staða íhaldsmanna hefur aldrei verið sterkari en nú í valdatíð forsætisráðherrans, og því ljóst að hann á við ramman reip að draga.

Snorri StefánssonSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu góður pistill Snorra um óræðar lýðræðishugmyndir. Orðrétt segir í pistlinum: "Það felst í lýðræðinu að fólkið ráði. Kosningar eru ætlaðar til þess að koma í veg fyrir að valdhafarnir geri mistök. Þegar þeir gera mistök má skipta. Það var ekki hugmynd þeirra sem börðust fyrir lýðræði að ríkið yrði allsráðandi og að kosningum væri ætlað að velja þá sem stjórnuðu daglegu lífi fólks. Það er í reynd ríkisræði." og ennfremur: "Raunverulegt lýðræði felur auðvitað í sér að fólkið ráði. Það er hið eina sanna lýðræði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið vörð um rétt fólks til að haga sínu lífi svo sem það kýs. samfylkingin hefur engann áhuga á því, í þeirra huga er kemst bara eitt að: ríkisræði." Ennfremur er á frelsinu ítarleg umfjöllun um málfund Heimdallar í Háskólanum í Reykjavík, sl. fimmtudagskvöld. Í umfjölluninni er farið vel yfir erindi Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, Jóns Steinars Gunnlaugssonar og Jónasar H. Haralz, um frjálshyggju. Fundurinn var haldinn eins og flestir vita í tilefni þess að 25 ár voru liðin frá útgáfu bókarinnar Uppreisn Frjálshyggjunnar, sem gefin var út af Kjartani Gunnarssyni.

Egill HelgasonDægurmálaspjallið
Margt athyglisvert var hjá Agli í Silfrinu í gærkvöldi. Fyrst var rætt við Ásgeir Jónsson hagfræðing, um stöðu viðskiptamála og efnahagslífsins almennt, því næst um bandarísku forsetakosningarnar en slagurinn þar er verulega að harðna og að síðustu við Hannes Hólmstein Gissurarson og Jón Steinar Gunnlaugsson um frjálshyggju. Spjallið við Hannes og Jón var virkilega skemmtilegt og víða farið yfir og rætt um stjórnmál nútímans og áhrif frjálshyggju á stjórnmál hérlendis seinustu árin, einkum til góðs. Við blasir að gríðarlegar breytingar hafa orðið seinustu 13 árin í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins, til betri vegar og fóru þeir yfir það. Einkum fannst mér Jón Steinar útskýra vel hver framtíð frjálshyggju er, en við blasir að hún er björt og sífellt fleiri líta í þá átt að frelsi sé hverjum einstakling mikilvægast. Það á ekki að sætta sig við neitt annað. Í Kastljósinu ræddi Svansí við Ástþór Magnússon forsetaframbjóðanda, og stóð sig vel í að krefja hann svara um framboð sitt og ýmis helstu mál því tengt. Gott spjall þar og gengið hreint til verks eftir svörum. Eftir Kastljósið horfði á fréttaskýringaþáttinn Í brennidepli, þar sem fjallað var um hrókeringar í ríkisstjórninni, áhrif rafsegulsviðs á fólk og dósasöfnun í samfélaginu. Virkilega athyglisverður og vel gerður þáttur.

Cold MountainKvikmyndir
Eftir að hafa horft á dægurmálaþættina fórum við í bíó. Litum á nýjustu kvikmynd óskarsverðlaunaleikstjórans Anthony Minghella, Cold Mountain. Myndin sem tilnefnd er til alls sjö óskarsverðlauna, byggir á samnefndri skáldsögu bandaríska rithöfundarins Charles Frazier. Segir frá suðurríkjamanninum Inman sem ákveður að berjast í her suðurríkjamanna í þrælastríðinu. Heima í þorpinu Cold Mountain skilur hann eftir kærustu sína, Ödu Monroe. Kynni þeirra hafa verið einkar stutt en tilfinningar krauma innra með þeim. Þegar líður á stríðið og Inman hefur áttað sig á tilgangsleysi þess og þeirri villimennsku sem á sér stað í því leggur hann í langferð að finna sína heittelskuðu. Áferðarfalleg og einkar áhrifamikil úrvalsmynd, sem við höfðum gaman að. Jude Law og Nicole Kidman standa sig vel í hlutverkum elskendanna. Senuþjófurinn er þó hiklaust Renée Zellweger sem á stórleik í hlutverki hinnar ákveðnu Ruby. Er lítill vafi á að hún fær óskarinn fyrir leik sinn. Heilsteypt og góð kvikmynd, sem ætti að hæfa flestu kvikmyndaáhugafólki vel.

Dagurinn í dag
* 1927 Tónskáldið Sveinbjörn Sveinbjörnsson lést - hann samdi þjóðsöng Íslendinga
* 1940 Pinocchio, fyrsta teiknimynd Walt Disney, frumsýnd í Bandaríkjunum
* 1966 Aldo Moro myndar sína fyrstu ríkisstjórn á Ítalíu - hann var myrtur 1978
* 1981 Uppreisn gerð á Spáni - valdarán uppreisnaraflanna stóð ekki nema í 22 klukkustundir
* 1987 Konur í fyrsta skipti aðalfulltrúar á Búnaðarþingi - tvær konur sátu þá þingið

Snjallyrði dagsins
Good health is the most important thing. More than success, more than money, more than power.
Hyman Roth í The Godfather: Part II

22 febrúar 2004

Ralph NaderHeitast í umræðunni
Ralph Nader neytendafrömuður og forsetaframbjóðandi Græningjaflokksins í Bandaríkjunum árið 2000, tilkynnti í dag að hann myndi gefa kost á sér í forsetakosningunum 2. nóvember nk. Hann tilkynnti um framboð sitt í fréttaþættinum Meet the Press á NBC. Með þessu virti hann að vettugi beiðni demókrata um að halda sig utan við kapphlaupið í ár svo keppnin væri aðeins á milli frambjóðanda Demókrataflokksins og Bush forseta. Allt frá kosningunum 2000 hafa demókratar kennt Nader um að Al Gore tapaði fyrir Bush, því er líklegt að framboð hans nú veki ekki hrifningu þeirra. Nader fékk tæplega 3% atkvæða í forsetakosningunum 2000 og í nýlegri könnun kemur fram að 2/3 Bandaríkjamanna vilja ekki að Nader bjóði sig fram. Orðrétt sagði Nader í þættinum Meet the Press: "Báðir flokkarnir eru að falla á prófinu, repúblikanar með D mínus og demókratar með D plús. Það er kominn tími til að breyta jöfnunni“. Ljóst er að samkvæmt þessu að líkur forsetans á að halda velli aukast til muna. Líklegt er að demókratar reyni að grafa undan trúverðugleika Naders, til að ná til markhóps hans árið 2000, þess hóps sem hefði getað tryggt Gore sigur þá.

Björn BjarnasonÍ pistli sínum fjallar Björn um fyrirspurnir til hans á þingi um áfengisauglýsingar og stjórnarráðssögu, ennfremur um líkfundinn á Austurlandi og varnarsamstarfið. Orðrétt segir í pistlinum: "Ég lét af embætti menntamálaráðherra 2. mars 2002 og fékk rúmar 200 þúsund krónur greiddar fyrir formennsku í ritstjórninni á því ári. Þóknananefnd hefur ekki ákveðið greiðslur fyrir árið 2003 eða 2004 en samkvæmt reglum á ég rétt á greiðslum til þess tíma, þegar ég varð dóms- og kirkjumálaráðherra í maí 2003. Frá mínum bæjardyrum séð hefur DV rekið þetta stjórnarráðssögumál á þeirri forsendu að gera hlut okkar, sem að verkinu höfum staðið sem tortryggilegastan, án þess á hinn bóginn að hafa til þess nokkra aðra ástæðu en eigin hugarburð. Hefði ég að óreyndu ætlað, að ritstjórum blaðsins þætti sómi af meira metnaði en hér birtist. Ég get skýrt framgöngu Marðar Árnasonar með vísan til pólitískrar óvildar í minn garð og forsætisráðherra – en þar sem allir stjórnendur Baugstíðinda segjast yfir hana hafnir á ég enga skýringu á þessum dylgjum og hálfsannleika í DV um okkur, sem höfum leitast við að gera stjórnarráðssöguna sem best úr garði."

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um málefni ráðuneyta og mögulega uppstokkun á þeim samhliða framtíðarbreytingum á Stjórnarráðinu, tel ég mikilvægt að hefjast handa við að finna leiðir til mikillar hagræðingar í rekstri ráðuneyta í Stjórnarráðinu. Mikilvægt er að mínu mati að ganga mun lengra en gert var í tillögum sem samþykktar voru á ríkisráðsfundi 1. febrúar sl. Fer ég yfir tvær leiðir til þess með breytingar á ráðuneytum, en aðra þeirra hefur SUS sérstaklega lagt áherslu á og samþykki ályktun um á SUS þingi í Borgarnesi 2003. Ég fer ennfremur yfir stöðu mála í kosningaslagnum í Bandaríkjunum, sem harðnar stöðugt, og að lokum fjalla ég um eitt helsta fjölmiðlamál seinustu viku, líkfundinn í Neskaupstað.

A Beautiful MindSjónvarpsgláp - kvikmyndir
Hanna systir og fjölskylda komu í mat til okkar í gærkvöldi og áttum við virkilega góða stund og var mikið spjallað, virkilega gott kvöld. Horfðum á Laugardagskvöld með Gísla Marteini og Spaugstofuna. Eftir það litum við á magnaða kvikmynd Ron Howard, A Beautiful Mind. Í henni er rakin saga nóbelsverðlaunahafans og stærðfræðisnillingsins John Forbes Nash sem hlaut nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1994, eftir einstakan feril. Sagan hefst árið 1947 þar sem hann er við nám í Princeton. Strax er ljóst að hann er ekki eins og venjulegt fólk á að sér að vera, er bæði sérvitur og einkar ómannblendinn. Í náminu kynnist hann Charles Herman og er vinátta að því er virðist einstök og ósvikin. Eftir námið fær Nash prófessorsstöðu við virtan háskóla og svo virðist sem hann muni feta hinn beina og greiða veg, þegar hann kynnist nemanda sínum Aliciu og verður hrifinn af henni. Það breytist þó allt þegar í ljós kemur að stærðfræðisnillingurinn er geðklofi. Mögnuð úrvalsmynd á allan hátt, hlaut fern óskarsverðlaun, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins 2001. Russell Crowe fer á kostum í hlutverki stærðfræðisnillingsins og túlkar persónu hans og andlega erfiðleika óaðfinnanlega. Þetta er besta leikframmistaða hans að mínu mati. Jennifer Connelly sem er stórfengleg í hlutverki Aliciu Nash, vinnur sannkallaðan leiksigur og vann óskarinn fyrir leik sinn. Eðalmynd eins og þær gerast bestar.

Dagurinn í dag
* 1903 Fríkirkjan í Reykjavík vígð - í söfnuðinum voru þá um fimm þúsund manns
* 1952 Hús Þjóðminjasafns Íslands við Suðurgötu vígt við hátíðlega athöfn
* 1979 Menningarverðlaun DV afhent í fyrsta skipti - eru veitt árlega
* 1980 Hæstiréttur kvað upp dóma í Guðmundar- og Geirfinnsmálum
* 1991 Sigríður Snævarr verður fyrst íslenska kvenna sendiherra

Snjallyrði dagsins
Perhaps it is good to have a beautiful mind, but an even greater gift is to discover a beautiful heart.
John Nash í A Beautiful Mind

21 febrúar 2004

Ástþór Magnússon og Natalía WiumHeitast í umræðunni
Ástþór Magnússon kynnti í dag formlega framboð sitt til embættis forseta Íslands og opnaði nýjan vef tengdan framboðinu. Á vefsíðunni kynnir Ástþór forsetasamning sem hann vill gera milli sín sem forseta og kjósenda sinna. Í forsetasamningnum eru meðal annars ákvæði um að ný lög skuli lögð fyrir forsetann á fundum ríkisráðs. Sé forsetinn staddur erlendis þegar halda þarf ríkisráðsfundi, muni hann leitast við að nota nútíma fjarfundartækni til þátttöku í viðkomandi fundi. Þá segir þar að forsetinn skuli stuðla að virku lýðræði á Íslandi og þjóðinni verði gefinn kostur á aukinni þátttöku með þróun á beinu lýðræði með nútíma tækni. Forsetinn skuli nota neitunarvaldið til að leggja umdeild mál fyrir þjóðina til úrskurðar telji hann að viðkomandi lagasetning sé á skjön við meirihlutavilja þjóðarinnar. Að mati Ástþórs snúast kosningarnar nú um hlutverk forseta Íslands sem boðbera friðar. Þetta er í þriðja sinn sem Ástþór býður sig fram til embættis forseta Íslands. Árið 1996 var hann í framboði ásamt núverandi forseta og þrem öðrum frambjóðendum í kosningum um eftirmann Vigdísar Finnbogadóttur. Árið 2000 bauð hann sig fram en náði ekki að safna tilskyldum fjölda meðmælenda. Ólafur Ragnar Grímsson hefur ekki enn tilkynnt hvort hann bjóði sig fram í þriðja skipti til forsetaembættis. Forsetakosningar eiga að fara fram 26. júní, ef fleiri en einn gefur kost á sér til embættisins.

Forseti ÍslandsForseti Íslands kom fyrir tæpri viku, heim til Íslands, úr skíðafríi sínu til Aspen í Bandaríkjunum. Eins og frægt varð ákvað forsetinn frekar að dvelja í Aspen en hérlendis þann 1. febrúar sl. er 100 ár voru liðin frá stofnun heimastjórnar á Íslandi. Birtist forseti glaðhlakkalegur í afmælisveislu Alfreðs Þorsteinssonar stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur, um seinustu helgi og virtist una sér vel. Vill forseti nú ekkert segja um samskipti sín við handhafa forsetavaldsins. Samkvæmt fréttum RÚV vill forseti ekki tjá sig "að svo stöddu" um samskipti við handhafa forsetavalds og hefur ekki rætt þau við þá. Forseti sagði við fréttamann RÚV í dag að ekki væri tímabært að tjá sig um þessi mál og vildi heldur ekkert um það segja með hvaða hætti hann mundi gera það. Ennfremur vildi hann ekki tjá sig um hvort hann gæfi kost á sér til forsetaembættis á ný. Þrír mánuðir eru nú þar til framboðsfrestur til forsetakjörs rennur út.

Red DragonSjónvarpsgláp - kvikmyndir
Venju samkvæmt var litið á sjónvarpið í gærkvöldi. Horft á Idol og Af fingrum fram. Eftir það var horft á spennumyndina Red Dragon. Gerð eftir fyrstu bók rithöfundarins Thomas Harris um geðsjúklinginn og mannætuna dr. Hannibal Lecter. Hér er því um að ræða fyrsta kafla sögunnar um Lecter og atburðir hennar undanfari óskarsverðlaunamyndarinnar The Silence of the Lambs og Hannibal. Hér segir frá FBI-manninum Will Graham sem er sestur í helgan stein eftir að hafa eytt þrem árum í að fanga dr. Hannibal Lecter og koma honum á bak við lás og slá. Friðurinn er hinsvegar snarlega úti þegar hann er beðinn um aðstoða félaga sína hjá lögreglunni við að finna óhugnanlegan morðingja, Tannálfinn. Morðin eiga það öll sameiginlegt að hafa öll verið framin þegar tungl er fullt og því hafa þeir einungis þrjár vikur til að finna morðingjann áður en hann lætur til skarar skríða á ný. Will ákveður að leita til Hannibals í þeirri von að fá hjá honum aðstoð við að hafa upp á morðingjanum. Framundan er spennandi og athyglisverð leit lögreglumannsins að fjöldamorðingjanum. Þar getur allt gerst. Stórfengleg spennumynd sem hittir beint í mark og fangar athygli allra sannkallaðra spennufíkla. Þrátt fyrir góða takta stenst Red Dragon meistarastykkinu TSOTL ekki snúninginn, er þó miklu betri en Hannibal. Aðall myndarinnar er magnað handrit Ted Tally og frábær leikur sannkallaðra leiksnillinga. Sir Anthony Hopkins fer enn og aftur á kostum í hlutverki mannætunnar og geðlæknisins sem þrátt fyrir sturlun sína er fágaður fagurkeri. Hopkins hlaut óskarinn fyrir leik sinn í TSOTL og hefur mótað á magnaðan hátt einhverja eftirminnilegustu persónu spennumyndanna. Edward Norton á einnig stórleik í hlutverki Will Graham. Ennfremur eru þau Emily Watson, Harvey Keitel og Philip Seymour Hoffman frábær í hlutverkum sínum. Ómótstæðilegur spennutryllir.

ÓskarinnÓskarsvefurinn
Óskarsverðlaunin, kvikmyndaverðlaun bandarísku kvikmyndaakademíunnar, verða afhent í Los Angeles sunnudaginn 29. febrúar í 76. skipti. Eins og ég hef áður bent á hér, hefur kvikmyndir.com opnað í tilefni af afhendingu verðlaunanna, hinn sívinsæla óskarsvef sinn. Mun ég sjá þar um að setja inn efni og skrifa um verðlaunin, fyrir og eftir afhendingu þeirra. Þegar hefur þar birst ítarlegur pistill um tilnefningar til verðlaunanna, og samantekt um fróðleiksmola tengda verðlaununum. Ennfremur hafa verið settir þar inn listar yfir sigurvegara helstu flokka. Þar eru listar um sigurvegara í flokki bestu kvikmynda, leikstjóra, leikara, leikkonu, aukaleikara og aukaleikkonu. Á næstunni mun birtast meira efni á óskarsvefnum og t.d. bráðlega pistill þar sem ég spái í spilin fyrir hátíðina.

Dagurinn í dag
* 1599 Leikmannabiblía var gefin út á Hólum í Hjaltadal - aðeins tvö eintök til af henni
* 1895 Kvennablaðið kom út fyrsta sinni - ritstjóri var Bríet Bjarnhéðinsdóttir
* 1945 Dettifoss sökk norður af Íslandi - með því fórust alls 15 manns
* 1965 Blökkumannaleiðtoginn umdeildi, Malcolm X, myrtur í Harlem
* 1972 Söguleg heimsókn Richard Nixon forseta Bandaríkjanna, til Kína, hófst

Snjallyrði dagsins
We've met before, but something tells me you're going to remember me this time.
Lester Burnham í American Beauty

20 febrúar 2004

AlþingiHeitast í umræðunni
Mikið var rætt á Alþingi um málefni Palestínu og aðskilnaðarmúrinn þar. Alþingismenn fordæmdu allir ástandið í landinu og múrinn sem umlykja á palestínskar byggðir á Vesturbakkanum í löngum umræðum. Þingmenn vinstri grænna mæltu fyrir þingsályktunartillögu um að mótmæla byggingu múrsins við ísraelsk stjórnvöld og á alþjóðavettvangi. Tillaga tveggja þingmanna VG var í þremur liðum, fyrsti sá að þingið ályktaði að fela ríkisstjórn að mótmæla við ísraelsk stjórnvöld formlega og á alþjóðavettvangi. Með því krefjist Ísland þess að framkvæmdir við múrinn verði tafarlaust stöðvaðar og hann fjarlægður. Að auki árétti þingið stöðu sína til deilumála Ísraela og Palestínumanna og álykti að alþjóðlegt friðargæslulið verði sent á svæðið til verndar óbreyttum borgurum. Fram kom í máli utanríkisráðherra að íslensk stjórnvöld hefðu lengi talað fyrir réttindum Palestínumanna og að öryggi Ísraels yrði tryggt. Íslensk stjórnvöld hafa fordæmt múrinn, eins og aðrar þjóðir í Evrópu, enda sé hann á engan hátt í samræmi við alþjóðalög, eða vegvísi til friðar. Hvorugur deiluaðilinn fer reyndar eftir honum, eins og fram hefur komið í fréttum. Margir þingmenn tóku þátt í langri umræðu um múrinn og allir sammála í þessu máli. Gott er að þetta mál sé rætt á þingi, enda þessi múr sorglegur á allan hátt og honum ber að mótmæla á afgerandi hátt.

Ali KhameiniÍranar ganga að kjörborði í dag og kjósa sér nýtt þing. Búist er við að harðlínumenn fari þar með sigur af hólmi en ýmsir flokkar og samtök umbótasinna ætla að sniðganga kosningarnar, vegna einræðistilburða stjórnvalda. Ali Khameini erkiklerkur var meðal fyrstu manna á kjörstað í morgun og hvatti hann landsmenn til að kjósa. Hann sagði að andstæðingar írönsku þjóðarinnar og íslömsku byltingarinnar reyndu að fá fólk til að sniðganga kosningarnar. Úrskurðarnefnd harðlínumanna bannaði fyrirfram framboð um 2.500 manna og hátt í 2.000 til viðbótar drógu þá framboð sitt til baka. Ákvað stærsti flokkur umbótasinna að taka ekki þátt í kosningunum þar sem mörgum forystumanna flokksins var beinlínis meinað að vera í framboði. Meðal þeirra sem ætlar að sitja heima á kjördegi er baráttukonan og mannréttindafrömuðurinn Shirin Ebadi, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels, í fyrra. Kosið verður um 289 þingsæti af 290, en kosið verður seinna um þingsætið fyrir borgina Bam, sem fór illa í jarðskjálfta í desember sl.

RannsóknFyrir lá í gær endanlega hver fannst í höfninni í Neskaupstað, 11. febrúar sl. Um er að ræða 29 ára litháískan mann að nafni Vaidas Jucevicius. Hann var fæddur 20. nóvember 1974. Hann kom hingað með flugi frá Kaupmannahöfn 2. febrúar og átti pantað far þangað aftur 6. febrúar. Í tilkynningu frá sýslumanninum á Eskifirði í gær kom fram að í sakaskrám lögreglunnar í Wiesbanden hefði maðurinn verið skráður með fæðingarárið 1977 og að hann hefði gefið upp tvö nöfn, annars vegar Vilkas Vaidas og hins vegar Vaidas Jucevicius. Seinna nafnið er hið rétta, kemur fram í þessum skrám að hann hafi starfað sem ljósmyndari. Hann var frá Telsiai, smábæ í vesturhluta Litháen. Talsmaður lögreglunnar í Vílníus, höfuðborg Litháens, upplýsti ennfremur að Vaidas hefði verið þekktur sem bílaþjófur í Litháen. Hann væri sem slíkur á sakaskrá þar og í Þýskalandi. Seinustu daga hefur þetta mál skýrst að mestu og helstu þættir þess liggja nú fyrir.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Venju samkvæmt er nóg af góðum pistlum á frelsinu í dag, alls eru þeir þrír. Sá fyrsti er eftir Erling og fjallar um sorgardaginn 1. september 2003 þegar eina einkarekna heilsugæsla landsins, Læknalind, var lokað. Orðrétt segir: "Hvað var það þá sem fór úrskeiðis? Var þetta einhver áminning um það að einkarekstur í heilbrigðisgeiranum sé ómögulegur? Nei, þetta var fyrst og fremst greinileg ummerki þess að einhverjar uppstokkunar væri þörf í heilbrigðiskerfinu. Ég spyr sjálfan mig hvers vegna hægt var að reka heilsugæslu án ríkisstyrkja í yfir ár, en heilsugæslur sem að greiddar eru niður af ríkinu og innheimta komugjald eru í vanda staddar? Ég leyfi mér að fullyrða að hefði Læknalind fengið þó ekki nema helming þess fjármagns sem að hinar heilsugæslunar fá, hefði reksturinn skilað hagnaði." Í pistli sínum fjallar Stefán Ottó um það sem ekki má, fínn pistill. Þar segir orðrétt: "Á Íslandi er bannað að tala um það opinberlega hver sé besta bjórtegundin eða hvaða sígarettur er best að reykja. Þetta er klárt brot á tjáningarfrelsi borgaranna. Ákveðin skoðanaskipti hafa verið bönnuð opinberlega. Aukin heldur er þetta ansi þungbært á þau fyrirtæki sem stunda innflutning og sölu á þessum efnum. Nú þurfa þau að fara í feluleik við lögin bara til að koma sínum skoðunum á framfæri. Þetta er hræðilegt ástand!" Að lokum birtist grein Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, sem jafnframt birtist í Morgunblaðinu. Ber hún heitið "Leigubílstjóri ríkisins".

DalvíkurkirkjaMinningartónleikar
Í gærkvöldi fórum við til Dalvíkur á minningartónleika í Dalvíkurkirkju um mætan Dalvíking, Daníel Hilmarsson. Daníel sem hefði orðið fertugur 8. febrúar, lést í desember 2002 og var öllum mikill harmdauði. Aðstandendur Daníels ákváðu á síðasta ári að stofna minningarsjóð um hann sem ætlað væri að styrkja efnilega skíðamenn. Daníel var iðinn skíðamaður allt frá æskuárum og mikill afreksmaður á skíðum. Hann vann til fjölda verðlauna á glæsilegum ferli sínum og vann sér sess sem einn fremsti vetraríþróttamaður Íslendinga á seinustu öld. Það er vel við hæfi að settur sé á fót sjóður sem styrkir í hans nafni aðra á þeirri braut sem hann hélt sjálfur áður. Á tónleikunum komu fram t.d. Páll Rósinkranz ásamt hljómsveit, Þórarinn Hjartarson, Hundur í óskilum, Jón Ólafsson, Björn Ingi Hilmarsson (bróðir Daníels) og Helga Bryndís Magnúsdóttir, sem var unnusta hans. Eftir tónleikana hitti ég marga mæta félaga og voru málin rædd og ákveðið að láta ekki jafnlangt líða á milli næsta fundar okkar. Alltaf gaman að hitta góða vini og eiga gott spjall. Kvöldið var mjög gott og tónleikarnir tókust mjög vel upp. Minningin um mætan mann lifir.

Death on the NileSpjall - kvikmyndir
Þegar heim kom aftur til Akureyrar var litið í tölvuna og ræddi ég við nokkra félaga fyrir sunnan um velheppnað málþing Heimdallar í Háskólanum í Reykjavík um frjálshyggju. Þar voru Jón Steinar Gunnlaugsson, Jónas H. Haralz og Hannes Hólmsteinn Gissurarson með erindi. Var Jónas heiðraður af félaginu fyrir verk sín í þágu frjálshyggjunnar. Tilefni málþingsins var að 25 ár voru liðin frá því bókin Uppreisn frjálshyggjunnar kom út. Bókin var gefin út árið 1979 af Kjartani Gunnarssyni framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. Eftir þetta var litið á góða kvikmynd. Að þessu sinni var horft á Death on the Nile, sem er byggð á magnaðri spennusögu Agöthu Christie. Hercule Poirot fær það hlutskipti að leysa morðmál um borð í báti sem er á siglingu niður ána Níl. Hin myrta, auðug hefðarmær, átti sér marga óvildarmenn um borð og koma allir til greina. Tekst að leysa málið áður en siglingunni lýkur. Mögnuð mynd, og ennþá jafn heillandi. Skartar mögnuðum leikhóp, t.d. þeim Peter Ustinov, Bette Davis, Miu Farrow, Maggie Smith, David Niven og Angelu Lansbury. Góð mynd fyrir alla þá sem unna fínum spennumyndum.

Dagurinn í dag
* 1816 Ópera Rossini, Rakarinn frá Sevilla, frumsýnd í Róm
* 1882 Kaupfélag Þingeyinga, fyrsta kaupfélagið, stofnað formlega
* 1902 Samband Íslenskra samvinnufélaga, stofnað að Ystafelli í Köldukinn
* 1911 Fiskifélag Íslands stofnað formlega
* 1962 John Glenn verður fyrsti Ameríkumaðurinn til að fara út í geiminn

Snjallyrði dagsins
There never was, and there never will be, another like you.
Addison DeWitt í All About Eve