Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 mars 2004

John Allen MuhammadHeitast í umræðunni
Dómari í Manassas í Virginíu í Bandaríkjunum dæmdi í gær John Allen Muhammad, til dauða fyrir að myrða 10 manns í Virginíu, Washington og Maryland haustið 2002. Muhammad hélt íbúum á svæðinu í greipum óttans um margra vikna skeið ásamt Lee Boyd Malvo, 18 ára gömlum samverkamanni sínum, með því að skjóta á fólk með veiðiriffli úr launsátri. Dómarinn, LeRoy F. Millette Jr. hafnaði ósk verjenda Muhammad um að þyrma lífi hans. Skipaði dómarinn svo fyrir að Mohammed skyldi líflátinn 14. október en áfrýjanir munu líklega breyta þeirri dagsetningu. Kviðdómur fann Muhammad, sem er 43 ára, sekan um morð að yfirlögðu ráði í október 2003, og mælti með því að hann yrði dæmdur til dauða fyrir morðið á Dean Harold Meyers við bensínstöð í Virginíu. Í dag var svo Malvo dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir þátt sinn í fjöldamorðunum. Malvo er átján ára og frá Jamaíku. Hann var dæmdur fyrir morð 14. október 2002 af yfirlögðu ráði á alríkislögreglukonunni Lindu Franklin fyrir utan verslun í Virginíu. Fyrsta morð þeirra Malvos og Muhammads var 2. október 2002 þegar þeir skutu 55 ára karlmann til bana fyrir utan stórmarkað í Maryland. Daginn eftir voru fimm manneskjur drepnar, þar af fjórar þeirra á tveggja klukkustunda bili. Gott er að þessu máli sé lokið og dómur fallinn. Morðingjarnir voru handsamaðir 24. október 2002, þann dag birtist bloggfærsla um það hér.

ReykjavíkFulltrúar 10 sveitarfélaga skrifuðu í gær undir viljayfirlýsingu um að Reykjavíkurhöfn, Akraneshöfn, Grundartangahöfn og Borgarneshöfn skuli sameinaðar í eitt fyrirtæki frá og með 1. janúar 2005. Yfirlýsingin var gerð í samráði við samgönguráðherra, sem lýsir stuðningi við markmið hennar. Reykjavíkurhöfn mun eiga 75% í sameinuðu fyrirtæki, Grundartangahöfn 22% og Akraneshöfn 3%. Samkvæmt yfirlýsingunni verður Grundartangahöfn efld til að geta tekið við starfsemi sem fyrirhuguð var í Geldinganesi í Reykjavík en áform um höfn í Geldinganesi verða alveg lagðar til hliðar. Þá ætla aðstandendur viljayfirlýsingar að stuðla að því að hraðað verði undirbúningi framkvæmda við Sundabraut og vinna að framgangi þess verkefnis. Mikið ánægjuefni er að R-listinn bakki frá því óheillamarkmiði sínu að hafa höfn á Geldinganesi. Er það gott að þau sjá að stefnumál Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn til fjölda ára, og í tveim kosningum, sé rétt. Mikilvægt er að þar verði komið upp íbúðabyggð og stefnt að því frekar en Úlfarsfelli. Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2002 skrifaði ég mikið á spjallvefi og man eftir mörgum rifrildum við stuðningsmenn R-listans um Geldinganesið og hvernig best væri að nýta það. Þá sem fyrr þverskallaðist R-listafólk við að viðurkenna að stefna hægrimanna með Nesið væri rétt. Nú er þó loks tekin sú stefna að viðurkenna hana. Hlýtur að vera erfitt að vera brottrekinn borgarstjóri og formenn skipulagsnefnda í tíð R-listans og þurfa að kyngja stöðu mála í dag. Og hvað þá um allt R-listafólkið sem blaðraði þá, en stendur nú eftir orðlaust.

Bush vs. KerryJohn Kerry öldungadeildarþingmaður, sigraði í forkosningum demókrata í fjórum suðurríkjum í Bandaríkjunum í nótt. Eftir eru auk hans í framboði Al Sharpton og Dennis Kucinich, en þeir hafa frá upphafi forkosningaslagsins verið taldir vonlitlir um að ná fleiri kjörmönnum en 50. Kerry hefur nú nánast tryggt sér nægilega marga kjörmenn á flokksþingi Demókrataflokksins í Boston í júlí til að hreppa útnefningu flokksins sem forsetaefni. Kerry fékk 77% atkvæða á Flórída, 70% í Louisiana, 78% í Mississippi og 67% í Texas. Vantar Kerry aðeins 140 kjörmenn til að landa útnefningunni. Væntanlega mun hann ná þeim í forkosningum í Illinois í næstu viku. Kosningabaráttan er hinsvegar þegar hafin og skiptast Kerry og George W. Bush forseti, á skotum þessa dagana. Framundan er harður kosningaslagur fram í nóvember.

Halldór BlöndalGestapistill
Halldór Blöndal forseti Alþingis og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, flutti fróðlega og góða ræðu á hátíðarráðstefnu í Kaupmannahöfn, 5. mars 2004. Þar fjallar hann um aldarafmæli heimastjórnar og þingræðis á Íslandi, en þann 1. febrúar 2004 voru 100 ár liðin frá þeim merku tímamótum. Ég birti ræðuna á vef mínum sem gestapistil en hún birtist fyrst á Íslendingi, vef okkar sjálfstæðismanna hér á Akureyri. Orðrétt segir Halldór: "Hinn 1. febrúar árið 1904. Sá dagur er tvíheilagur í hugum okkar Íslendinga. Þá fengum við fyrsta íslenska ráðherrann, Hannes Hafstein, og þá var þingræði komið á á Íslandi, aðeins þrem árum síðar en í Danmörku. Það sýnir hversu hratt hlutirnir gerðust eftir aldamótin 1900. Á Íslandi var vorhugur í mönnum. Vissulega höfðu mikil harðindi gengið yfir þjóðina og örbirgðin orðið svo mikil, að milli 15 og 20 þúsundir manna fluttu vestur um haf síðustu 30 árin, en Íslendingar voru um aldamótin innan við 80 þúsundir. En nú voru mörg teikn á lofti um að betri dagar væru í vændum. Verslunin hafði færst í hendur landsmanna sjálfra og í lok 19. aldar hafði fiskiskipastóllinn verið að eflast og styrkjast. 1904 tók Íslandsbanki til starfa, en hann kom með nýtt fjármagn inn í atvinnulífið, sem greiddi fyrir því að fyrstu togararnir voru keyptir til landsins, sem áttu eftir að umbylta íslensku efnahagslífi. Jarðvegurinn var því góður fyrir fyrsta íslenska ráðherrann, en um ráðherradóm Hannesar Hafsteins fórust Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra svo orð, að með honum hefðu orðið "þáttaskil í sögu landsins, svo sem hinir bjartsýnustu höfðu búist við, og þótt þjóðin væri enn örsnauð var af meiri röskleika og glæsibrag af stað farið en nokkru sinni síðar hefur verið haldið"."

Heiðrún Lind MarteinsdóttirSvona er frelsið í dag
Heiðrún Lind fjallar á frelsinu í dag í góðum pistli um falskt frelsi Femínistafélagsins. Orðrétt segir hún: "Í 3. tbl. Veru á síðastliðnu ári var umfjöllun um staðalímyndahóp Femínistafélags Íslands. Sögðu femínistar m.a. „Við viljum frelsi, frelsi kvenna til að ráða sjálfar líkama sínum og eiga hann sjálfar, frelsi til þess að vera kynverur á okkar eigin forsendum, ekki á forsendum markaðarins eða kynlífsiðnaðarins, frelsi til að vera feitar, mjóar, málaðar, ómálaðar, með stór eða lítil brjóst, rakaðar eða órakaðar, frelsi til að velja og hafna því hvort við sjáum alsbera, lystarstolslega og barnunga kvenlíkama seljandi bíla og jafnvel í kynlífsathöfnum.” Já, þær vilja aldeilis frelsi til athafna þessir femínistar var það fyrsta sem undirritaðri kom til hugar. Það má fyllilega taka undir þessi orð málsvara femínista. Einstaklingar eiga að ráða líkama sínum og lífi sjálfir svo lengi sem það ekki skaði aðra. Við erum öll fær um að ákvarða hvað sé okkur fyrir bestu, hvað okkur þykir skemmtilegt og hvaða stefnu við kjósum að taka í lífinu." Líst vel á þessi skrif Heiðrúnar og hvet alla til að líta á.

Dagurinn í dag
* 1934 Dregið var í fyrsta skipti í Happdrætti Háskóla Íslands
* 1941 Togaranum Reykjaborg var sökkt norður af Skotlandi eftir árás þýsks kafbáts
* 1944 Flugfélagið Loftleiðir stofnað - árið 1973 sameinaðist það Flugfélagi Íslands
* 1967 Þrjú timburhús á horni Lækjargötu og Vonarstrætis brunnu til grunna
* 1991 Davíð Oddsson kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins

Snjallyrði dagsins
There's nothing tragic about being fifty. Not unless you're trying to be twenty-five.
Joe Gillis í Sunset Boulevard