Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 maí 2004

Dufti kastað í Tony BlairHeitast í umræðunni
Það efast enginn um það lengur að pólitísk staða Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, hefur veikst mjög að undanförnu. Fréttaflutningur seinustu daga af innanflokkserjum innan Verkamannaflokksins hefur staðfest að mikil undiralda er að myndast innan flokksins um að leiðtogaskipti verði að eiga sér stað fyrir kosningar. Það blasir hinsvegar við að eins og staðan er núna getur forsætisráðherrann ekki farið frá með góðu, það séu of mörg verk eftir óunnin eða í flækju til að hann geti farið frá völdum á þessum tímapunkti. Í athyglisverðu viðtali í Today Programme á BBC við John Major fyrrum forsætisráðherra Bretlands, tjáir hann sig um pólitíska stöðu Blairs og ástandið í Írak. Sagði hann útilokað að forsætisráðherrann myndi víkja sjálfviljugur á þessum tímapunkti, enda hafi hann ekki náð að ljúka mikilvægum málum til að tryggja arfleifð sína í embætti, en hann hefur setið á forsætisráðherrastóli í sjö ár, eða frá kosningasigrinum yfir Major og Íhaldsflokknum árið 1997. Í dag var breska þingið rýmt í kjölfar þess að maður á áhorfendabekkjum þingsins kastaði purpurarauðu dufti í Blair, lenti það aftan á forsætisráðherranum eins og sést á meðfylgjandi mynd. Öryggisverðir handtóku manninn og forseti þingsins, Michael Martin, sleit þingfundi. Mun atvikið leiða til uppstokkunar á öryggismálum í þinginu.

Manmohan Singh verðandi forsætisráðherra IndlandsMikill órói hefur verið innan indverska Kongressflokksins í kjölfar þess að Sonia Gandhi leiðtogi flokksins, tilkynnti um þá ákvörðun sína að sækjast ekki eftir embætti forsætisráðherra landsins. Á þingi var hún hvött af þingmönnum flokksins að endurskoða ákvörðun sína, en hún hefur nú tilkynnt að ákvörðun sín sé endanleg í stöðunni og hefur minnt á að hún hafi alla tíð aldrei viljað gegna opinberu embætti. Hefur Kongressflokkurinn, að tillögu frú Gandhi, tilnefnt Manmohan Singh til að taka við forsætisráðherraembættinu. Tók hann við stjórnarmyndunarumboði í dag frá Abdul Kalam forseta landsins. Singh er 71 árs gamall hagfræðingur frá Oxford-háskóla. Hann verður fyrsti forsætisráðherra landsins sem ekki er hindúi. Singh starfaði um tíma hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og var fjármálaráðherra Indlands í valdatíð Kongressflokksins 1991-1996. Hann hefur til margra áratuga verið náinn samstarfsmaður Gandhi hjónanna og hefur verið áhrifamikill innan flokksins eftir fráfall Rajivs árið 1991, og aðstoðað frú Gandhi í stefnumótun flokksins eftir að hún varð leiðtogi hans 1998. Þrátt fyrir að Sonia Gandhi verði ekki forsætisráðherra, leikur enginn vafi á að hún muni leiða landið bak við tjöldin. Singh og stjórn hans tekur við völdum á laugardag.

AlþingiÞriðja umræða um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar hófst á Alþingi í morgun. Allsherjarnefnd Alþingis afgreiddi frumvarpið í gærkvöldi með þeim tveim breytingartillögum er kynntar voru á mánudag. Meirihluti nefndarinnar stendur heill að afgreiðslu málsins. Allt bendir því til þess að fjölmiðlafrumvarpið verði að lögum á næstu dögum. Öruggur meirihluti er fyrir því á þingi. Óljóst er hvort sama andrúmsloft verður uppi við þriðju umræðu en var í seinustu viku er önnur umræða fór fram. Þá beitti stjórnarandstaða sér með því að halda uppi málþófi og hver þeirra talaði vel á aðra klukkustund í minnsta lagi. Nú skiptast þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu á skoðunum á þingi, en við blasir að það styttist í afgreiðslu málsins. Við samþykkt málsins þar fara þau sem lög á borð forseta Íslands sem annað hvort samþykkir þau eða synjar þeim um samþykki sem leiðir til þjóðaratkvæðagreiðslu. Fróðlegt að sjá svo ályktun R-listans um frumvarpið, sem er hönnuð til að beina umræðunni frá fjármálaklúðri þeirra í aðrar áttir.

Helga Baldvinsdóttir BjargardóttirSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Helga um störf jafnréttisnefndar Heimdallar sem nýlega var stofnuð. Orðrétt segir í pistlinum: "Í dag snýst jafnréttisbaráttan að miklu leyti um jöfnun milli ólíkra hópa samfélagsins. Hin svokölluðu jafnréttislög nr. 96 frá árinu 2000 heita í raun lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og fela meðal annars í sér jöfnun milli þessara tveggja hópa samfélagsins. Samkvæmt 22. grein er meginreglan sú að hvers kyns mismunun eftir kynferði er óheimil. Þó eru á því tvær undantekningar: 1. Sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna eða karla til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna ganga ekki gegn lögunum. 2. Sama á við ef nauðsynlegt telst að ráða annað kynið vegna hlutlægra þátta er tengjast starfinu. Þannig brýtur það ekki gegn lögunum að ráða karlkyns baðvörð í sturtuklefa karla í sundlaugum. Þá telst það ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar og barnsburðar." Ennfremur kemur fram: "Nokkrir ungir Heimdellingar tóku sig saman í kjölfar þeirrar umræðu sem þá skapaðist og stofnuðu sérstaka Jafnréttisdeild Heimdallar. Deildin er sammála þeirri ályktun stjórnar Heimdallar að afnema beri jafnstöðulögin á þann hátt að þær greinar sem miða að því að tryggja jafnrétti færist til innan lagabálka, en hinum sem miða að jafnri stöðu kynjanna sé eytt." Góður pistill sem ég hvet alla til að lesa.

TroyKvikmyndaumfjöllun - Troy
Magnþrungin saga Tróju hefur lengi verið vinsælt umfjöllunarefni, Ílýonskviður Hómers er endalaus uppspretta vangaveltna og pælinga. Saga Tróju hefur nú verið færð í glæsilegan kvikmyndabúning af leikstjóranum Wolfgang Petersen sem á að baki meistaraverk á borð við Das Boot, In the Line of Fire og The Perfect Storm. Segir frá valdaátökum milli Grikkja og Trójumanna sem skapast er Paris, yngri sonur konungins af Tróju, hefur ástarsamband við Helenu hina fögru. Leiðir sambandið til þess að Grikkir vígbúast og ætla sér að taka yfir Tróju með góðu eða illu, en það er eini staðurinn sem þeir ráða ekki yfir í Eyjahafinu. Í fremstu víglínu Grikkja stendur hinn dularfulli Akkiles sem telst án vafa einn mesti bardagakappi fyrr og síðar. En það er ekkert sjálfgefið í átökum, eins og sannast hér. Gríðarlega sterk og vönduð mynd sem skartar glæsilegum bardagaatriðum sem ættu að heilla alla kvikmyndaunnendur. Leikurinn er virkilega góður: Brad Pitt hefur sjaldan verið betri en sem hinn einbeitti Akkiles, Orlando Bloom er glæsilegur sem Paris, Eric Bana mjög traustur í hlutverki Hector og Diane Kruger á sterka innkomu sem Helena hin fagra, ekki má svo gleyma Brian Cox sem er magnaður í hlutverki Agamemnon konungs. Allt fer saman til að skapa glæsilega mynd: leikur, tónlist, tæknibrellur, klipping og handritið renna vel saman. Eini mínusinn (ef mínus skyldi kalla) er lengdin, en hún hafði ekki mikil áhrif á mig. Helsti aðall myndarinnar er þó traust leikstjórn meistarans Petersen, sem enn og aftur sannar hversu snjall leikstjóri hann er. Undir hans stjórn verður Troy (Trója) ein mikilfenglegasta mynd ársins og ein helsta sumarmyndin þetta árið. Hvet alla til að líta á þessa í bíó.
stjörnugjöf

Dagurinn í dag
1536 Anne Boleyn, önnur eiginkona Henry VIII afhöfðuð, var dæmd til dauða fyrir framhjáhald
1950 Farþegaskipið Gullfoss kom til landsins - var notað í siglingum til landsins til 1973
1974 Valéry Giscard d'Estaing kjörinn forseti Frakklands - sat í embætti til ársins 1981
1990 Húsdýragarðurinn í Laugardal í Reykjavík, opnaður af Davíð Oddssyni þáv. borgarstjóra
1994 Jacqueline Bouvier Kennedy Onassis fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, deyr í New York, 64 ára gömul - fyrri eiginmaður hennar, John F. Kennedy, var forseti Bandaríkjanna 1961-1963

Snjallyrði dagsins
A man is a success if he gets up in the morning and gets to bed at night, and in between he does what he wants to do.
Bob Dylan