Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 september 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um málefnaþing Sambands ungra sjálfstæðismanna sem haldið var á Selfossi um helgina. Það var góð stemmning um helgina á þessu þingi og ungt hægrifólk mætti sameinað í þeim anda að vinna vel og ræða málin af krafti og staðráðið í að vinna í þágu flokksins og sjálfstæðisstefnunnar. Flokksþing Repúblikanaflokksins var haldið í New York í vikunni. Lokahnykkur kosningabaráttunnar í Bandaríkjunum er hafinn og stefnir allt í gríðarlega hörð átök um persónur og málefni á þeim 60 dögum sem eru til kosninganna. Að lokum fjalla ég um undarlega ákvörðun Símans að kaupa hlut í Skjá einum. Hvet ég ríkisstjórnina og þingmenn stjórnarflokkanna til að klára einkavæðingu Símans hið fyrsta og minni á þá skoðun mína að einkavæða eigi Ríkisútvarpið og ríkið eigi að fullu að víkja af fjölmiðlamarkaði. Þessi undarlega og kolvitlausa fjárfesting Símans og innganga ríkisins í fyrirtæki í samkeppnisrekstri á fjölmiðlamarkaði kallar á tafarlausa sölu Símans, fyrir áramót. Stjórnarflokkarnir eru samstiga um að hefja einkavæðingarferli Símans fyrir lok ársins og stefnt er að því ríkið hafi selt öll hlutabréf sín í fyrirtækinu snemma á næsta ári. Ég hvorki get né vil með nokkrum hætti verja þessa vitleysu Símans og hvet forystumenn flokksins að klára einkavæðingu Símans sem fyrst. Ég blæs á fornaldarbrag vinstri grænna í þessum málum sem vilja halda í Símann bara til að halda lífi í gamaldags forræðishyggju og fornaldarvinnubrögðum. Einkavæðum Símann og RÚV hið allra fyrsta. Ríkið á að hverfa af fjölmiðlamarkaði og losa um ítök sín í Ríkisútvarpinu og Skjá einum!

SUSGott málefnaþing hjá SUS
Málefnaþing Sambands ungra sjálfstæðismanna fór fram á Selfossi um helgina. Á þinginu mótuðu ungliðar í Sjálfstæðisflokknum stjórnmálastefnu sína, sem stjórn SUS mun vinna eftir, fram að sambandsþingi sem verður fyrir lok septembermánaðar 2005. Málefnastarf fór fram í sex nefndum á þinginu: um skattamál, utanríkismál, sveitastjórnarmál, einkarekstur í heilbrigðis- og menntakerfinu og niðurskurð ríkisútgjalda. Nefnd um stjórnskipun sem SUS og Heimdallur stóðu saman að, skilaði tillögum sínum á þinginu. Þinghaldi lauk klukkan hálffimm í dag er stjórnmálaályktun þingsins var samþykkt. Hvet ég alla til að líta á vef okkar á næstu dögum og kynna sér vel ályktanirnar og niðurstöðu okkar á þinginu. Ástæða er til að hrósa stjórn Hersis, félags ungra sjálfstæðismanna í Árnessýslu, einkum Grétari Magnússyni formanni félagsins, með framkvæmd þingsins og góða gestrisni þessa helgi og færi ég þeim góðar kveðjur. Þetta þing var sérstaklega skemmtilegt, vegna þess að málefnin voru rædd af krafti og ólíkar skoðanir ræddar á sama vettvangi. Þing SUS-ara eru jafnan mjög ánægjuleg, að mínu mati efldi þetta málefnaþing mjög samstöðuna og samheldnina okkar á milli. Ég þakka öllum samherjum mínum sem ég hitti á Selfossi um helgina, fyrir skemmtilega og góða helgi og góða skemmtun og notalegt spjall.

Dagurinn í dag
1942 Þýskar sprengjuflugvélar gerðu loftárás á Seyðisfjörð - nokkrar skemmdir urðu á húsum
1972 Varðskip beitti togvíraklippum á breskan togara í fyrsta skipti - varð mjög árangursríkt
1979 Mountbatten jarðsunginn í Westminster Abbey dómkirkjunni í London - lést í sprengjuárás IRA
1987 Háskólinn á Akureyri var settur í fyrsta skipti við hátíðlega athöfn í Akureyrarkirkju
1997 Móðir Teresa handhafi friðarverðlauna Nóbels, sem eyddi ævi sinni í að sinna hinum þurfandi, einkum sjúkum og fátækum, deyr í Kalkútta á Indlandi. Hún var 87 ára gömul er hún lést

Snjallyrði dagsins
Don't be economic girlie-men!
Arnold Schwarzenegger ríkisstjóri í Kaliforníu (úr ræðu á flokksþingi repúblikana)