Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 apríl 2005

Össur SkarphéðinssonHeitast í umræðunni
Tæpir 40 dagar eru þar til landsfundur Samfylkingarinnar hefst. Bráðlega hefst svo formlega póstkosning um formannsembætti flokksins þar sem valið stendur á milli Össurar Skarphéðinssonar núverandi formanns, og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur varaformanns. Hefur slagurinn milli þeirra harðnað til muna seinustu daga. Í síðustu viku birtist grein í Mogganum eftir Einar Karl Haraldsson, einn helsta taktíska skipuleggjanda Össurar, þar sem skotið er mjög föstum skotum að Ingibjörgu og svokallaðri framtíðarnefnd undir forystu hennar á vettvangi flokksins. Er enginn teboðsbragur á þeirri grein og fast skotið. Á sunnudag kom svo Össur í Silfur Egils og tjáði sig um slaginn við Ingibjörgu og skaut í margar áttir. Athyglisverðust var sú yfirlýsing hans að framtíðarnefndin væri óttalega bitlaus og ekkert nýtt hefði komið frá henni nema fyrirfram töluð orð og stefna fyrri tíma. Framtíðarstefnan væri því engin. Sagði hann nefndirnar lokaðar og vinnubrögðin klíkuleg. Óneitanlega var um að ræða kraftmikið skot á svokölluð umræðustjórnmál Ingibjargar Sólrúnar.

Nú hefur svo komið fram að einn helsti talsmaður flokksins í utanríkismálum, Guðmundur Árni Stefánsson leiðtogi flokksins í kraganum, hafi sagt skilið við utanríkismálahluta hópsins því að hann hafi talið nefndina og starf hennar lokað og lítt þokast áfram í réttar áttir. Hefur hann í viðtölum í dag tekið undir gagnrýni Össurar í viðtalinu á sunnudag og sagt að vinnuferli nefndarinnar væri lokað og aðþrengt og erfitt fyrir nýtt fólk að komast þar að til beinnar ákvarðanatöku og að koma með skoðanir. Össur gekk reyndar svo langt að kalla stefnumörkun framtíðarnefndarinnar óttalegar skyndibitalausnir. Merkilegt var svo að sjá skrif Páls Baldvins Baldvinssonar í DV í síðustu viku. Er þar að finna beitta og vægðarlausa aðfinnslu að ISG og verkum hennar á borgarstjórastóli, en eins og flestir vita einkenndist ferill hennar af einu klúðrinu á eftir öðru. En þessi umræða er kostuleg og spurning hvort flokkurinn klofnar vegna innbyrðis átaka. Ljóst er að seinasti mánuður formannsslagsins verður harðskeyttur og beittur og sennilega eru átökin rétt að byrja. Þau hafa lengi verið bakvið tjöldin en koma nú beint fram í dagsljósið. Kemur svosem varla á óvart að það gerist, þegar átökin harðna. En þau eru á milli helstu forystumanna flokksins og því er ekki nema von að spurningin vakni hvort meginstoðir flokksins þoli slík hnútuköst. Ég fjalla annars meira um þessi mál í sunnudagspistli mínum og kem með mína sýn á átökin og það sem er að gerast í þessum svilaslag um formennsku Samfylkingarinnar.

Gunnar BirgissonSturla Böðvarsson samgönguráðherra, kynnti samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar í ítarlegri framsögu á Alþingi í dag. Í kjölfarið voru svo langar og ítarlegar umræður um ræðu ráðherra og áætlunina almennt. Hún hefur verið kynnt víða seinustu vikur og áherslur hennar liggja vel fyrir og hefur farið fram góð umræða um hana almennt í samfélaginu, sem veitir vart af. Samgöngumál eru stór og víðfeðmur málaflokkur sem skiptir okkur öll máli, enda eru samgöngur stór og veigamikill þáttur alls mannlífsins. Öll þurfum við jú að fara á milli staða og góðar samgöngur skipta því máli, sérstaklega okkur hér á landsbyggðinni. Sami söngurinn var eins og venjulega í vissum þingmönnum. Þar kom fram sá háværi og óttalega þreytandi söngur að hagsmunir höfuðborgarsvæðisins væru fyrir borð bornir og ekki tekið tillit til aðstæðna þeirra. Er þetta ekki nýr söngur og satt best að segja er hann farinn að hljóma æði falskur í augum flestra, nema viðkomandi einstaklinga.

Sérstaka athygli mína vöktu í dag stórkallalegar yfirlýsingar Gunnars I. Birgissonar alþingismanns og verðandi bæjarstjóra í Kópavogi, um Héðinsfjarðargöng. Hann kallaði þau vitleysu og lét hörð orð falla í garð þeirra. Þótti mér afskaplega hvimleitt, sem Norðlendingi sérstaklega, að heyra þessar yfirlýsingar flokksbróður míns og baráttufélaga í stjórnmálum og get ekki annað en gagnrýnt harkalega tjáningu hans á þessum málum og þann vettvang sem hann velur sér til tjáningar. Frjáls er hann að skoðunum sínum, en hann verður auðvitað að gera sér grein fyrir því að þessi ummæli hans verða ekki vel séð hjá landsbyggðarfólki. Með þessum ummælum er þingmaðurinn að tala almennt um samgöngur á landsbyggðinni og vinnsluferli þeirra og kalla mikilvægar samgöngutengingar úti á landi vitleysu og óþarfa og hendir í okkur hér fyrir norðan sérstaklega hrollkaldri vatnstusku. Sú tuska kemur þó ekki að óvörum, við höfum nefnilega séð hana áður. Það er svosem skiljanlegt að hann beri hag síns svæðis fyrir brjósti, en það afsakar ekki ótrúleg ummæli hans. Það er mjög hvimleitt að sjá baráttufélaga sína í stjórnmálum vega að svæðum hér úti á landi og gera lítið úr eðlilegum samgöngubótum. Eins ágætur og Gunnar er almennt verð ég að lýsa yfir hörðu vantrausti á tjáningu hans á samgöngumálum. Þessi tjáning hans á samgöngumálum hér fyrir norðan vekur reiði mína og undrun, svo vægt sé til orða tekið.

Punktar dagsins
Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, heilsar elsta Akureyringnum, Jóhönnu Jónsdóttur. Til hliðar eru forsetahjónin

Forsetahjónin komu í opinbera heimsókn til Akureyrar í gær. Á flugvellinum í gærmorgun tóku bæjarstjórahjónin, Kristján Þór Júlíusson og Guðbjörg Ringsted, á móti forsetahjónunum ásamt Þóru Ákadóttur forseta bæjarstjórnar. Var víða farið, t.d. í VMA, leikskóla, dvalarheimilið Hlíð og í Háskólann þar sem haldið var málþing um menntamál. Í gærkvöldi var haldin skemmtidagskrá í Íþróttahöllinni. Dagskráin var fjölbreytt; upplestur, dans og tónlistaratriði frá klassík til þungarokks. Fjöldi fólks kom þar saman og átti góða stund. Bæjarstjóri og forseti fluttu þar ávörp og sæmdi forseti þar 23 ungmenni verðlaunum sem bera heitið: Hvatning forseta Íslands til ungra Íslendinga". Í morgun fóru forsetahjónin í heimsókn í Menntaskólann á Akureyri og sátu þau fyrir svörum á Hólum, sal MA. Einnig fóru þau t.d. í Norðlenska, Norðurmjólk, Sundlaugina, Kexsmiðjuna, Vífifell, Slippstöðina, Kjarnalund og Íþróttahöllina. Opinberri heimsókn forsetahjónanna til Akureyrar lýkur í kvöld en á morgun fara þau í opinbera heimsókn í Eyjafjarðarsveit. Á vef bæjarins er að finna fjölda mynda frá ferð forsetahjónanna norður.

Meðal þeirra er mynd sem sýnir Kór aldraðra, sem söng fyrir forsetann á dvalarheimilinu Hlíð í gær. Amma mín, Hanna Stefánsdóttir, hefur verið í kórnum allt frá stofnun árið 1988. Hún var formaður kórsins í 13 ár, frá árinu 1992 og lét af því embætti fyrr á þessu ári. Á myndinni sést í kórinn í bakgrunni, er forseta var afhend mynd eftir einn vistmanna. Í fremstu röð, milli Dorritar og starfsmanns Hlíðar sem afhendir formlega myndina, eru amma og vinkona hennar, Helga. Amma er nær starfsmanni Hlíðar á myndinni. Hér fyrir ofan er hinsvegar mynd þar sem bæjarstjóri og forsetahjónin heilsa Jóhönnu Jónsdóttur, elsta íbúa Akureyrarbæjar, en hún er 105 ára gömul. Árið 1981 þegar Vigdís Finnbogadóttir kom í fyrstu opinberu heimsókn sína til Akureyrar fór hún einnig á Hlíð. Þá hitti hún ennfremur langafa minn, Stefán Jónasson útgerðarmann, sem þá var elsti íbúi bæjarins, 100 ára að aldri. Lést hann árið eftir. Á ég gamla blaðaúrklippu úr Vísi þar sem er mynd af langafa og Vigdísi. Er þar vitnað í að hann hafi verið spurður hvernig honum hefði þótt forsetinn. Svarið er einfalt: "Hún er myndarleg og heilsteypt kona og hefur notalega nærveru." Skemmtilegt að eiga þessa úrklippu.

Helle Thorning-Schmidt

Helle Thorning-Schmidt var í dag kjörin leiðtogi danska Jafnaðarmannaflokksins. Sigraði hún naumlega í kjörinu, hlaut 53% greiddra atkvæða en keppinautur hennar, Frank Jensen, hlaut 47% atkvæða. Tekur hún við forystu flokksins af Mogens Lykketoft sem var leiðtogi flokksins frá árinu 2002. Flokkurinn hefur verið í stjórnarandstöðu frá 2001 og missti þá leiðtogahlutverk sitt í dönskum stjórnmálum. Mistókst honum að endurheimta það í kosningunum í febrúar og missti reyndar meira fylgi í þeim. Óheillasagan hélt því áfram og Lykketoft sagði af sér sem leiðtogi. Deilt var harkalega í leiðtogaslagnum nú um áherslur til hægri og vinstri í flokksstarfinu. Thorning-Schmidt vildi leiða flokkinn að miðju eða jafnvel til hægri en Jensen vildi halda fast í róttæka vinstristefnu og gömul gildi flokksins. Þótti mörgum sú stefna hafa brugðist í seinustu kosningum og var Jensen umdeildur vegna skoðana sinna. Thorning-Schmidt hlaut t.d. stuðning Nyrups, fyrrum forsætisráðherra Danmerkur og leiðtoga flokksins í 10 ár. Mun nú það verða hlutskipti hennar að leiða flokkinn næstu árin og inn í kosningarnar 2009. Thorning-Schmidt er tengdadóttir Neil Kinnock sem var leiðtogi breska Verkamannaflokksins í áratug, 1983-1992. Verður fróðlegt að fylgjast með henni í hlutverki leiðtoga stjórnarandstöðunnar í dönskum stjórnmálum á næstu árum.

Sunset Boulevard

Horfði í gærkvöldi á meistaraverk Billy Wilder, Sunset Boulevard. Er hún ein af mínum uppáhaldsmyndum, alltaf klassísk. Mögnuð svört kómedía um leikkonuna Normu Desmond sem muna má sinn fífil fegurri frá tímum þöglu myndanna þegar hún var nafli alheimsins í bransanum. Nú er hún aðeins skugginn af sjálfri sér, alein og bitur og lifir í blekkingu um forna frægð sem er ekki lengur til staðar. Þegar hún kynnist ungum handritshöfundi sér hún í hillingum að hennar tími geti komið aftur, en er allt sem sýnist hjá leikkonunni? Endalaust er hægt að velta fyrir sér þessari mynd sem á eldfiman hátt fjallar um skuggahliðar kvikmyndabransans og á mjög opinskáan hátt. MGM mógúllinn Louis B. Mayer var sár yfir hversu óvæginn Wilder var í umfjöllun sinni, en þarna birtist einkar óvægin úttekt á bransanum og kostir og gallar Hollywood glyssins koma vel í ljós. Einnig hvernig frægðin getur gert fólk áhrifamikið og allt að því vitfirrt með tímanum. Hlaut óskarinn fyrir handritið og Wilder var tilnefndur fyrir leikstjórn sína. Gloria Swanson sem átti stórleik í hlutverki Normu Desmond var tilnefnd fyrir leik sinn en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Judy Holliday í Born Yesterday. Þótti hneyksli að Swanson vann ekki, enda var hún aldrei betri á ferli sínum en í þessari mynd. Hún geislar í hlutverki Normu. Stórfengleg kvikmynd, sem allir verða að sjá.

Hildur Vala Einarsdóttir

Rúmur mánuður er nú liðinn síðan að Hildur Vala Einarsdóttir var kjörin poppstjarna ársins 2005 í Idol-stjörnuleit. Fór hún alveg á kostum í keppninni og steig aldrei feilspor allan þann tíma sem keppnin stóð. Hún var allan tímann langbesti keppandinn og verðskuldaði því sigurinn mjög. Í dag var tilkynnt í Íslandi í bítið og Morgunblaðinu að Hildur Vala myndi taka við sem söngkona hljómsveitarinnar Stuðmanna. Ragnhildur Gísladóttir hefur ákveðið að hætta tímabundið að minnsta kosti í hljómsveitinni. Ljóst er að skarð hennar verður vel mannað og verður gaman að fylgjast með Hildi Völu í þessu hlutverki, þegar hún fer að taka gömlu góðu Stuðmannalögin. Er ljóst að enginn getur tekið skarð Ragnhildar en Hildur Vala fer eflaust þarna inn á eigin forsendum og tekur slaginn á eigin forsendum, sem og allt annað á seinustu mánuðum. Fyrir okkur Stuðmannaaðdáendurna verður gaman að fylgjast með Hildi Völu og Stuðmönnum þegar þau fara um landið í sumar.

Saga dagsins
1919 Snjóflóð féll úr Staðarhólshnjúk við Siglufjörð og tók með sér öll mannvirki síldarverksmiðju og sex önnur hús sem þar voru. Eyðileggingin varð algjör þar. Alls 9 manns létust í snjóflóðinu. Einnig féllu snjóflóð á Engidal við Siglufjörð og í Héðinsfirði. 7 manns létust í hinu fyrrnefnda en tveir í hinu
1945 Franklin Delano Roosevelt forseti Bandaríkjanna, deyr á heimili sínu í bænum Warm Springs í Georgíu-fylki. Roosevelt var 32. forseti landsins og hafði setið allt frá 1933 í embætti. Enginn hefur setið lengur á forsetastóli en hann. Leiddi hann Bandamenn í seinni heimsstyrjöldinni. Hann náði þó ekki að lifa það að sjá fullnaðarsigurinn í átökunum verða að veruleika með uppgjöf Þjóðverja í maí
1961 Sovétmaðurinn Yuri Gagarín fór fyrstur manna út í geiminn - hann varð heimsþekktur vegna þess og urðu Bandaríkjamenn æfir vegna þess að þeir náðu ekki að verða á undan Sovétmönnum í þessu mikla kapphlaupi. Náðu þeir þó lokasigri í geimmálunum 1969. Gagarín lést í flugslysi árið 1968
1983 Leikarinn Sir Ben Kingsley hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun á sjálfstæðishetju Indverja, Mahatma Gandhi, í kvikmyndinni Gandhi, sem fjallaði um ævi hans og öfluga baráttu fyrir sjálfstæði heimalandsins - túlkun hans á Gandhi þykir með betri leikframmistöðum 20. aldarinnar, enda náði hann með undraverðum hætti að tjá persónuna og gæða hana lífi í þessari stórglæsilegu úrvalsmynd
1987 Sir Sean Connery hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á hinum úrræðagóða Jim Malone í kvikmyndinni The Untouchables - Connery er einn besti leikari Breta og best þekktur fyrir að hafa fyrstur allra leikið njósnara hennar hátignar, James Bond, í kvikmynd og mótað hlutverkið leikrænt

Snjallyrðið
A dream we dream alone is only a dream. But a dream we dream together is reality.
Yoko Ono Lennon tónlistarmaður (1933)