Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 maí 2005

Ráðhús ReykjavíkurHeitast í umræðunni
Allt virðist loga í illdeilum innan R-listans. Er þetta sífellt að verða algengara og hversdagslegra að þar sé allt á kafi í innri valdaerjum og deilum um meginatriði í málefnum borgarinnar. Þessar vikurnar eiga sér stað samningaviðræður um áframhaldandi samstarf Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs eftir að þessu kjörtímabili lýkur. Eftir þrjá borgarstjóra á jafnmörgum árum er R-listinn óneitanlega orðinn frekar tuskulegur og stendur mun veikar að velli en oft áður. Ekkert sameiningartákn er meginpunktur listans eins og var lengi vel. Þegar að formaður Samfylkingarinnar var borgarstjóri var henni stillt upp án prófkjörs í áttunda sætið, meira að segja þrátt fyrir prófkjör R-listaflokkanna 1998. Hún stóð einfaldlega til hliðar og þurfti ekkert að leggja á sig að fara í slíkt. Enda hverjum ætli hefði dottið í hug að borgarstjórinn þeirra þyrfti að fara í prófkjör. Hún var auðvitað undanþegin því, meðan frambjóðendurnir urðu að fara í slíkt. Þetta er auðvitað alveg kostulegt.

Ég tel að R-listinn hafi í raun dáið í þeirri mynd sem við höfum þekkt hann í valdatíð hans fyrir hálfu þriðja ári þegar að formaður Samfylkingarinnar hrökklaðist frá borgarstjóraembætti vegna trúnaðarbrests við samstarfsfólk sitt. Síðan hafa menn samið um tímabundnar ráðstafanir til að klára kjörtímabilið. Eftirmaðurinn varð að segja af sér vegna hneykslismála og nýji borgarstjórinn, sá þriðji á innan við þrem árum, var valin vegna þess að hún var lægsti samnefnari hópsins. En nú er R-listinn að því er virðist endanlega vera að fuðra upp í innri hnútuköstum og leiðindum þessa dagana. Svo virðist vera þessa dagana í samningaviðræðunum að helst muni bera á milli vegna skiptinga á sætum á lista, ekki eru það málefnin. En það sem er að gerast innan R-listans núna segir allt um stöðu mála á því heimili. Þetta er eins og að horfa á hjónaband sigla í þrot. Og þessa dagana erum við að horfa framan í nýjustu erfiðleikana á þessu vandræðaheimili borgarstjórnarmeirihlutans. Annars er R-listinn með blæ hjónabands sem hefur þjónað tilgangi sínum. Það vill þó enginn flytja út eins og við segjum og hjónin dankast saman þetta af gömlum vana. Og hvað annað en orkumálin, sem er klassískt deilumál innbyrðis í R-listanum, er það sem nú ber á milli flokkanna.

Afturhald alls íslensks afturhalds, VG, hefur nú ákveðið að vera andsnúin á vettvangi borgarkerfisins, innan borgarstjórnar og stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, raforkusölu til stóriðju. Það er því ljóst að borgarstjórnarmeirihlutinn í heild er ekki sá bógur að standa við fyrri áform í þá átt að OR selji álveri í Helguvík raforku. Í fréttatíma í gærkvöldi lét Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi, að því liggja að afstaða VG skipti ekki máli í raun því að þá myndi bara koma til meirihluti með Sjálfstæðisflokknum innan stjórnar Orkuveitunnar, því að þeir styðji eflaust slíka ákvörðun. Þessi ummæli Alfreðs hleyptu mjög illu blóði í vinstri græna og þeir sendu frá sér ályktun í morgun þar sem þeir fara yfir málið. Telja þeir að afstaða Alfreðs sé ekki til annars fallin en að spilla viðræðum um framtíð R-listans og setja framtíð samstarfsins í uppnám. Segja þau ummæli Alfreðs hótanir um að slíta meirihlutanum og stofna nýjan. Hann geri lítið semsagt úr þeirra skoðunum. Og hverju svarar Alfreð. Hann segir að fyrri orð standi og gerir lítið með tal VG. Með öðrum orðum: hann kemur bara og segir við VG: Fariði bara ef þið þorið! Einfalt mál. R-listinn sem verið hefur alla tíð samnefnari flokka og fólks um að halda sem lengst í völdin veikist sífellt.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherraÓhætt er að fullyrða að yfirlýsingar Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra, um orkumál vegna álvers hafi vakið ólgu á Suðurnesjum. Þar eru menn af miklum krafti rétt eins og við hér fyrir norðan að berjast fyrir stóriðju. Gott og vel, það er vart óeðlilegt að fólk vilji fá slíkan kost í sitt hérað og berjist fyrir því. Þeir eru greinilega ósáttir með það að ráðherra hafi allt að því lokað á þá og telja að hún sé að tala eingöngu fyrir hagsmunum síns kjördæmis, vinni semsagt á okkar kostnað gegn þeim. Ég verð nú að segja alveg eins og er að ég hef ekki séð forystu Valgerðar að neinu leyti í þessu máli. Ekki er hún að vinna að neinni ákveðinni staðsetningu hér eða beitir sér í einhverja ákveðna átt. Ég hef gagnrýnt framsetningu hennar við kannanir fyrr á þessu ári og ítreka það hér. Ég veit ekki alveg hvert Valgerður er að fara eða hvaðan hún þá er að koma.

Klárlega vill Valgerður álver í sitt kjördæmi, það dylst varla neinum. En ekki getur hún tekið af skarið. Það er jákvætt svosem að hún hafi fært það skref yfir til bæjarstjórans hér á Akureyri. Ekki kvarta ég yfir því. En Valgerður hefur greinilega með framgöngu sinni sært Suðurnesjamenn og greinilega þá einna helst framsóknarmenn á þeim slóðum. Ekki er Hjálmari Árnasyni þingmanni framsóknarmanna frá Keflavík, sama um hvernig flokkssystir hans heldur á málum. Hann er þó jafnan þekktur fyrir að vera úrræðagóður. Ekki get ég neitað því að ég hafi brosað út í eitt þegar ég heyrði af því í morgun að Hjálmar hefði fengið ráðherrann í óopinbera heimsókn til Keflavíkur og henni kynnt staða mála þar. Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ, fór með ráðherranum og Hjálmari í Helguvík og sýndi henni þar staðhætti og aðstæður. Óneitanlega skondið. En menn bregðast skjótt við og framsóknarmenn þar öðrum mönnum fremur við að reyna að hafa stjórn á orðum og framsetningu ráðherrans í þessu máli. Valgerður hefur greinilega sært flokksbræður sína á Suðurnesjunum og reynir nú að hafa þá góða og gerir svo lítið að ferðast til Helguvíkur til að heilla Hjálmar. Húmor, ekki satt?

Punktar dagsins
Stefán Friðrik StefánssonJóna Jónsdóttir

Aðalfundur Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, var haldinn í Kaupangi á Akureyri í gærkvöldi. Fundurinn fór mjög vel fram. Í upphafi fundar flutti ég skýrslu fráfarandi stjórnar. Þar fór yfir síðasta starfsár og þau verkefni sem blöstu við í upphafi nýs starfsárs. Að því loknu gerði Sindri Guðjónsson gjaldkeri, grein fyrir fjármálum félagsins. Á fundinum tók ný stjórn við félaginu. Ég gegni áfram formennsku í Verði næsta starfsárið. Með mér í stjórn munu sitja á næsta starfsári: Bergur Þorri Benjamínsson, Hanna Dögg Maronsdóttir, Henrik Cornelisson, Jóna Jónsdóttir, Sindri Alexandersson og Sindri Guðjónsson. Á fundinum var Jóna kjörin varaformaður, Bergur Þorri gjaldkeri og Sindri Guðjónsson ritari. Í varastjórn voru kjörnir: Atli Hafþórsson, Júlíus Kristjánsson og Sigurgeir Valsson. Á fundinum var formlega opnuð heimasíða félagsins. Netið hefur opnað mörg spennandi tækifæri til samskipta á milli fólks og þau geta skipt sköpum í harðri baráttu þar sem mikilvægt er að hrífa fólk með sér og setja fram stefnu sína og skoðanir á markvissan og öflugan hátt. Slík miðlun upplýsinga skiptir mjög miklu og skapar mörg sóknarfæri fyrir fólk að geta tjáð skoðanir sínar. Því er mikilvægt að þessi vefur okkar hefur nú opnað - góður vettvangur okkar í pólitískri baráttu.

Einar Kristinn Guðfinnsson

Einar Kristinn Guðfinnsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur opnað heimasíðu sína að nýju með nýju og glæsilegu útliti. Einar Kristinn hefur verið með vef á netinu í þrjú ár. Hann hefur verið þar með öflug skrif og tekið virkan þátt í að tjá sig á netinu. Þar heldur hann úti vönduðum og líflegum upplýsingavef um sig og störf sín. Í nýjasta pistli sínum á vefnum fjallar hann um landsfund Samfylkingarinnar og formannsskiptin í flokknum. Frábær skrif, sem vert er að mæla með. Þar segir hann orðrétt: "Landsfundurinn var flugeldasýning, sem við fylgdumst með af mis miklum áhuga. Nú er þeirri sýningu lokið. Þegar rýnt er í raunveruleikann blasir við mynd sem er öllu ókræsilegri. Flokkur sem er lemstraður af innanflokksátökum. Flokkur sem er með málefnalega veika stöðu. Og flokkur sem greinilega leggur áherslu á að tala sig út úr vandræðum sínum. Formaðurinn grípur síðan til gamalkunnugs ráðs. Reynir að bægja athyglinni frá vandræðunum með aumkunarverðu tali um klíkurnar í landinu. Sama tilbrigðið og reynt var í Borgarnesi forðum tíð með hörmulegum árangri. Og þetta leyfir sér að segja sá stjórnmálamaður, sem einmitt þessa dagana liggur undir harkalegu ámæli félaga sinna í R-listanum, fyrir klíkuskap og flokksvæðingu borgarkerfisins í Reykjavík."

Sjálfstæðisflokkurinn

Í dag eru 76 ár liðin frá stofnun Sjálfstæðisflokksins. 25. maí 1929 sameinuðust þingflokkar Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins í Sjálfstæðisflokkinn. Við stofnun voru tvö mál tilgreind sem aðalstefnumál Sjálfstæðisflokksins. Hið fyrra var að vinna að því og undirbúa, að Ísland myndi taka að fullu í sínar hendur eigin mál, samhliða því að 25 ára samningstímabili sambandslaganna væri á enda. Hið seinna var að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta að leiðarljósi. Með þessu voru markaðir tveir höfuðþættir sjálfstæðisstefnunnar: sjálfstæði þjóðarheildarinnar og sjálfstæði einstaklinganna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt frá upphafi staðið vörð um einkaframtakið og hefur frelsi einstaklingsins og ábyrgð í ríkisfjármálum verið einkunnarorð Sjálfstæðisflokksins. Forysta flokksins í landsmálum hefur verið traust og leitt til hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Sjálfstæðisstefnan er nú rétt eins og 1929 sú stefna sem mun reynast íslensku þjóðinni farsælust. Er flokkurinn varð 75 ára fyrir ári ritaði ég ítarlegan pistil í tilefni þess sem ég minni á nú.

ESB

Frakkar ganga að kjörborðinu á sunnudag og kjósa um stjórnarskrá Evrópusambandsins. Flest bendir til þess nú að Frakkar muni hafna stjórnarskránni. Um tíma var munurinn mikill andstæðingum stjórnarskrárinnar í vil en svo náðu stuðningsmenn hennar forskoti um stundarsakir. Það hefur nú snúist við í seinustu skoðanakönnunum - í könnun Paris Match eru 46% Frakka hlynntir stjórnarskránni en 54% andvígir. Hefur forskot andstæðinganna stigvaxið seinustu vikuna. Ljóst er að andstæðingarnir séu með mikið forskot í Hollandi, en þar á að kjósa um stjórnarskrána í næsta mánuði. Frakkar og Hollendingar eru tvær af sex stofnþjóðum Efnahagsbandalags Evrópu, sem er forveri Evrópubandalagsins, sem varð að Evrópusambandinu árið 1994. Það er algjörlega ljóst að hafni þessar tvær þjóðir stjórnarskránni er stjórnarskráin ekkert nema pappírssnepill og einskis virði. Verður fróðlegt að sjá hvað Frakkar gera á sunnudag og Hollendingar í framhaldi af því. Á þessari stundu stefnir flest í sigra andstæðinga stjórnarskrárinnar. Slík niðurstaða hefði gríðarleg áhrif og myndi auðvitað ganga frá þeirri stjórnarskrá sem er verið að kjósa um.

Í dag birtist á Íslendingi pistill eftir mig og vin minn, Berg Þorra Benjamínsson gjaldkera Varðar, um aðgengismál fatlaðra. Þótti okkur félögum rétt að fjalla um þessi mál og vekja á þeim athygli.

Saga dagsins
1787 Stjórnarskrárráðstefna haldin í Philadelphiu í Bandaríkjunum - undirbúningur að stjórnarskrá
1929 Sjálfstæðisflokkurinn stofnaður - þá sameinuðust Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn
1958 Steinn Steinarr, er var eitt merkasta ljóðskáld 20. aldarinnar, deyr í Reykjavík, 49 ára að aldri
1961 John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, kynnir stórhuga geimferðaráætlun ríkisstjórnar sinnar
1997 Strom Thurmond verður sá þingmaður Bandaríkjanna sem lengst hefur setið, þá alls í 47 ár og 10 mánuði - Thurmond sat á þingi til janúarmánaðar 2003. Hann lést í júní 2003, var þá aldargamall

Snjallyrðið
The best preparation for good work tomorrow is to do good work today.
Elbert Hubbard rithöfundur (1859-1915)