Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 desember 2005

Áramótauppgjör 2005

Áramót

Árið 2005 líður senn í aldanna skaut. Að baki er eftirminnilegt ár fyrir margra hluta sakir. Í ítarlegum áramótapistli mínum, sennilega þeim lengsta og ítarlegasta sem ég hef ritað á löngum pistlaferli mínum, sem birtist í dag á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna fer ég yfir árið með mínum hætti og það sem ég tel standa helst eftir þegar litið er yfir það.

Ársins 2005 verður í framtíðinni eflaust einna helst minnst hér heima sem ársins er Davíð Oddsson hætti þátttöku í stjórnmálum eftir glæsilegan feril, Geir H. Haarde varð formaður Sjálfstæðisflokksins, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks varð tíu ára gömul, Síminn var seldur, tölvupóstar Jónínu Ben birtist í blöðum, skýrsla fjölmiðlanefndar var kynnt, tillögur til breytinga á RÚV voru kynntar, Ingibjörg Sólrún varð formaður Samfylkingarinnar, R-listinn leið undir lok, Bobby Fischer geistist með krafti til Íslands, sameiningu sveitarfélaga var hafnað, tekist var á um fréttastjóraráðningu á Ríkisútvarpinu, Gunnar Örlygsson gekk í Sjálfstæðisflokkinn, hræringar urðu í Framsóknarflokknum og Halldór Ásgrímsson gekk í gegnum pólitíska erfiðleika og deilt var um framboð Íslands í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

Á erlendum vettvangi bar hæst að hryðjuverkamenn létu til skarar skríða í Lundúnum, náttúruhamfarir gengu yfir Pakistan og suðurríki Bandaríkjanna, Jóhannes Páll II páfi lést og þýski kardinálinn Joseph Ratzinger varð páfi, Angela Merkel varð kanslari Þýskalands fyrst kvenna og Gerhard Schröder vék af kanslarastóli eftir sjö ára feril, Tony Blair vann sigur í þriðju þingkosningunum í röð, David Cameron varð leiðtogi breska Íhaldsflokksins, þingkosningar fóru fram í Írak eftir 51 árs hlé í skugga einræðis, stjórnarskrá Evrópusambandsins beið skipbrot, Jacques Chirac beið táknrænan ósigur, uppstokkun varð í hæstarétti Bandaríkjanna, danska stjórnin hélt velli á árinu meðan að hin norska féll og hinn sögufrægi heimildarmaður The Washington Post í Watergate-málinu, er nefndur var Deep Throat, var loks afhjúpaður.

Að baki er svo sannarlega merkilegt ár. Í tilefni áramótanna er rétt að líta yfir nokkra hápunkta ársins 2005. Hvet ég ykkur til að lesa þessi skrif mín. Að mínu mati ber algjörlega hæst brotthvarf Davíðs Oddssonar úr stjórnmálum. Hafði sú ákvörðun veruleg áhrif. Hún leiddi til þess að ný forysta tók við Sjálfstæðisflokknum og breytinga almennt á stjórnmálalitrófinu. Davíð hafði verið í forystu stjórnmála í aldarfjórðung, bæði á vettvangi borgarmála og landsmála. Fer ég í pistlinum vel yfir brotthvarf hans og tíðindin sem því fylgdu. Jafnframt fer ég vel yfir endalok R-listans. Erlendis voru náttúruhamfarir og hryðjuverk áberandi. Fjalla ég um öll þessi málefni í ítarlegum pistli og vona ég að þið njótið pistilsins og lesið hann af áhuga.


Maður ársins 2005

Thelma Ásdísardóttir

Við áramót er litið yfir sviðið og spurt hver sé maður ársins, hver skaraði framúr og stendur hæst þegar nýtt ár tekur við. Það er enginn vafi á því í mínum huga að Thelma Ásdísardóttir sé sú sem þann heiður eigi að hljóta að þessu sinni. Ég verð að viðurkenna að ég komst við þegar að ég heyrði hana segja sögu sína í viðtali í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í október. Thelma sagði þar söguna af því grófa kynferðislega ofbeldi sem hún var beitt af hálfu föður síns og fleiri karlmanna árum saman á æskuárum sínum. Styrkur hennar og kraftur við að segja frá beiskri æsku snerti alla landsmenn að mínu mati. Fyrst og fremst dáist ég að því hugrekki sem Thelma sýnir með því að rjúfa þögnina sem er svo mikilvægt að verði gert - þögnina um líkamlegt og andlegt ofbeldi og kynferðislega misnotkun.

Fáum blandast hugur um að sú bók sem hafi haft mest áhrif á samfélagið á árinu hafi verið bókin: Myndin af pabba - Saga Thelmu sem kom út í haust og var rituð af Gerði Kristnýju. Segja má með sanni að Thelma Ásdísardóttir hafi orðið táknmynd hugrekkis og mannlegrar reisnar og hvernig hægt hafi verið að rísa upp yfir aðstæður sínar til að takast á við erfiðleika fortíðar. Þegar ég leit yfir árið og var að velta fyrir mér því hver hefði verið sá sem ætti þennan heiður skilið var enginn sem komst ofar á blaðið mitt. Thelma stóð algjörlega upp úr að öllu leyti. Það er virðingarvert hversu hugrökk hún hefur verið við að segja frá sögu sinni. Að mínu mati er Thelma Ásdísardóttir sannkölluð hetja! Ég er stoltur af því að velja hana mann ársins 2005.


Táknrænar svipmyndir ársins 2005

Oft eru merkustu svipmyndir ársins og atburðir best tjáðar með táknrænum myndum sem einhvernveginn segja allt sem segja þarf um atburðinn sem hann lýsir - algjörlega án allra orða. Ekki ætla ég að draga upp margar myndir af árinu, tel mig hafa gert upp árið allavega pólitískt með mínum hætti í löngum pistli sem ég vona að einhverjir hafi jafngaman af og ég hafði af að skrifa hann og gera upp atburði, sem standa merkast pólitískt. Þrjár myndir eru að mínu mati lýsandi sem myndir ársins þegar það kveður. Þrjár táknrænar myndir.

Sú fyrsta lýsir í hnotskurn þeim miklu þáttaskilum sem urðu er Davíð Oddsson tilkynnti á blaðamannafundi í Valhöll þann 7. september að hann myndi víkja úr forystu íslenskra stjórnmála eftir farsælan stjórnmálaferil. Önnur myndin sýnir Jóhannes Páll II páfa blessa mannfjöldann í hinsta skiptið á Péturstorginu í Róm þann 30. mars 2005. Sú síðasta sýnir nýja forystu Sjálfstæðisflokksins á landsfundi í október - Geir H. Haarde og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.


Davíð OddssonJóhannes Páll II páfiÞorgerður Katrín og GeirSaga dagsins
1791 Skólapiltar í Hólavallaskóla í Reykjavík héldu áramótabrennu, þá fyrstu sem fram fór hérlendis.
1935 Vilhjálmur Þ. Gíslason síðar útvarpsstjóri, flutti annál ársins í fyrsta skipti í Ríkisútvarpinu að kvöldi gamlársdags. Hann flutti slíkt áramótaávarp til starfsloka hjá RÚV 1967. Allt frá starfslokum Vilhjálms til ársins 2004 héldu eftirmenn hans þeirri hefð að flytja ávarp að kvöldi gamlársdagsins.
1956 Styrkir úr rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins voru veittir í fyrsta skipti - það árið voru heiðraðir Snorri Hjartarson og Guðmundur Frímann. Margir helstu rithöfundar okkar hafa hlotið viðurkenningu.
1964 Ólafur Thors fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, lést, 72 ára að aldri. Ólafur sat á Alþingi í 38 ár, allt frá 1926 til dauðadags. Hann var formaður Sjálfstæðisflokksins, lengst allra í sögu hans, eða í 27 ár, 1934-1961. Ólafur Thors myndaði ráðuneyti alls fimm sinnum á löngum stjórnmálaferli, oftar en aðrir. Ólafur var frábær ræðumaður og gleymist seint ræðusnilld hans.
1999 Boris Yeltsin forseti Rússlands, segir af sér embætti í áramótaræðu á skrifstofu sinni í Kreml. Kom afsögn hans mjög óvænt, enda hafði verið talið að hann myndi sitja í embætti þar til kjörtímabili hans lyki í júní 2000. Eftirmaður hans í embætti varð Vladimir Putin forsætisráðherra. Var Putin svo kjörinn forseti í mars 2000 og endurkjörinn með yfirburðum í mars 2004 og situr í embætti til 2008.

Snjallyrðið
Nú árið er liðið í aldanna skaut
og aldrei það kemur til baka,
nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,
en minning þess víst skal þó vaka.

En hvers er að minnast? Og hvað er það þá,
sem helst skal í minningu geyma?
Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá,
það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.
En miskunnsemd Guðs má ei gleyma.

Nú Guði sé lof fyrir gleðilegt ár
og góðar og frjósamar tíðir,
og Guði sé lof, því að grædd urðu sár,
og Guði sé lof, því að dögg urðu tár.
Allt breyttist í blessun um síðir.

Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár
og góðar og blessaðar tíðir.
Gef himneska dögg gegnum harmanna tár,
gef himneskan frið fyrir lausnarans sár
og eilífan unað um síðir.
Valdimar Briem prestur (1848-1930) (Nú árið er liðið)

29 desember 2005

Oktavía gengur til liðs við Sjálfstæðisflokkinn

Oktavía Jóhannesdóttir

Oktavía Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi, tilkynnti á blaðamannafundi í dag í Hamborg, húsnæði Sjálfstæðisflokksins í miðbænum hér á Akureyri, að hún hefði ákveðið að segja skilið við Samfylkinguna og genga til liðs við okkur í Sjálfstæðisflokknum. Hún mun sitja áfram í bæjarstjórn fram til vorsins og sitja í þeim nefndum sem hún hefur verið kjörin til setu í. Með þessu missir Samfylkingin á Akureyri sinn eina bæjarfulltrúa. Jafnframt eflist með þessu meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Áður voru sjö bæjarfulltrúar sem tilheyrðu meirihlutanum en verða nú átta. Bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins fjölgar því nú um einn og verða þeir fimm talsins frá og með þessu. Þetta hljóta að teljast mikil tíðindi, enda hafði Oktavía ekki boðið sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar og flestir talið að hún myndi hætta í sveitarstjórnarmálum með vorinu.

Oktavía Jóhannesdóttir var kjörin í bæjarstjórn Akureyrar í bæjarstjórnarkosningunum 1998 af hálfu Akureyrarlistans. Skipaði hún þá annað sæti listans. Ákváðu Akureyrarlisti, sem var sameiginlegt framboð vinstriflokka, og Sjálfstæðisflokkur í kjölfar kosninganna að mynda saman meirihluta. Varð Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og Oktavía gegndi ýmsum forystustörfum í nefndum á kjörtímabilinu. Í aðdraganda kosninganna 2002 varð Oktavía leiðtogi Samfylkingarinnar. Tók hún ekki þátt í prófkjöri flokksins í nóvembermánuði og talið að hún myndi alfarið hætta þátttöku í stjórnmálum. Varamaður hennar í bæjarstjórn, Hermann Jón Tómasson, ákvað að gefa kost á sér til leiðtogastöðunnar og þótti flestum ljóst að Oktavía hefði átt erfiðan slag fyrir höndum - hefði hún gefið kost á sér.

Í yfirlýsingu Oktavíu segir að það hafi verið henni sárt sem stofnfélaga í Samfylkingunni að þurfa að viðurkenna fyrir sjálfri sér að flokkurinn hafi ekki verið og verði seint sá frjálslyndi og framsækni jafnaðarmannaflokkur sem hún hafi reiknað með. Hún kveður því Samfylkinguna með köldum kveðjum í garð flokksins. Hún tekur því þá ákvörðun að víkja úr flokknum, væntanlega við litla hrifningu fyrrum samherja hennar. Enda stendur Samfylkingin nú eftir án fulltrúa í bæjarstjórn næsta hálfa árið, fram að kosningum. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvaða áhrif þessi breyting hefur fyrir Samfylkinguna, sem nú á ekki lengur neinn fulltrúa í bæjarstjórn og missir væntanlega nefndarmenn sína í kjölfarið.

Saga dagsins
1984 Rajiv Gandhi og Kongress-flokkurinn vinnur mikinn sigur í indversku þingkosningunum, sem haldnar voru nokkrum vikum eftir að móðir hans, Indira Gandhi sem verið hafði forsætisráðherra nær samfellt í 20 ár, var myrt. Rajiv sat í embætti til ársins 1989, en féll fyrir morðingjahendi í maí 1991.
1986 Harold Macmillan fyrrum forsætisráðherra Bretlands, lést, 92 ára að aldri - hann sat í embætti sem forsætisráðherra og leiðtogi breska Íhaldsflokksins 1957-1963 og hlaut viðurnefnið Super Mac og Mac the Knife í breskum stjórnmálum. Hann hætti afskiptum af stjórnmálum vegna heilsubrests 1963.
1989 Vaclav Havel kjörinn forseti Tékkóslóvakíu - hann sat í embætti þar til landinu var skipt í tvennt árið 1993. Varð þá forseti Tékklands og sat í embætti í tvö 5 ára kjörtímabil og lét af embætti 2003.
1992 Fernando Collor de Mellor forseti Brasilíu, segir af sér embætti vegna hneykslismála - Mellor var fyrsti lýðræðislega kjörni forseti landsins í 29 ár og sigraði naumlega í forsetakosningum árið 1990.
1995 Ríkisstjórnin samþykkti að banna umsækjendum um opinberar stöður að njóta nafnleyndar.

Snjallyrðið
Máninn hátt á himni skín, hrímfölur og grár.
Líf og tími líður og liðið er nú ár.
Bregðum blysum á loft bleik þau lýsa um grund.
Glottir tungl og hrín við hrönn og hratt flýr stund.

Kyndla vora hefjum hátt, horfið kveðjum ár.
Dátt hér dansinn stígum dunar ísinn grár.
Bregðum blysum á loft bleik lýsa um grund.
Glottir tungl og hrín við hrönn og hratt flýr stund.

Komi hver sem koma vill! Komdu nýja ár.
Dönsum dátt á svelli, dunar ísinn blár.
Bregðum blysum á loft bleik lýsa um grund.
Glottir tungl og hrín við hrönn og hratt flýr stund.
Jón Ólafsson skáld (1835-1920) (Álfareiðin)

28 desember 2005

Ár frá hörmungum

Eftir hörmungarnar

Mikill harmur var kveðinn yfir heimsbyggðinni eftir hina skelfilegu jarðskjálfta sem gengu yfir Asíu á öðrum degi jóla fyrir ári. Skjálftinn, sem varð um klukkan átta að morgni þess dags er einn sá öflugasti sem orðið hefur vart á jörðinni í yfir fjörutíu ár og sá fimmti öflugasti síðan á aldamótunum 1900. Upptök skjálftans, sem mældist 9 á Richter-skala, voru nálægt eyjunni Súmötru á Indónesíu. Hann varð neðan sjávar og minnst sex eftirskjálftar urðu í kjölfarið, þar af einn sem mældist yfir 7 á Richter. Á eftir fylgdu gríðarlegar flóðbylgjur, sem líklega náðu yfir 10 metra hæð. Flóðbylgjurnar skullu á ströndum Indlands, Indónesíu og Sri Lanka og ollu þar gríðarlegri eyðileggingu. Tæplega 300.000 manns fórust. Sorglegust er sú staðreynd að aldrei verður hægt með vissu að staðfesta endanlegar tölur, enda voru engar mannfjöldaskrár til staðar yfir fjölda þeirra svæða sem urðu fyrir náttúruhamförunum. Liggur fyrir að flest fórnarlömb náttúruhamfaranna voru í Indónesíu og á Sri Lanka.

Mikið var af ferðamönnum í Asíu um jólin 2004 og ljóst að margir þeirra voru Norðurlandabúar. Fjöldi Svía fórust í hamförunum. Ekki hafa jafnmargir Svíar farist síðan farþegaskipið Estonia sökk haustið 1994 með þeim afleiðingum að 500 létust. Nú þegar minnst er árs afmælis þessara mannskæðu hamfara koma upp í hugann fréttamyndir af hörmungunum. Þar sést er öldurnar hrifsuðu með sér fólk og hluti eins og ekkert væri, rústuðu heilu bæjunum og þorpunum og eyðilagði líf fjölda fólks og fjölskyldna. Afleiðingarnar voru alveg skelfilegar, mannfall varð eins og fyrr segir gríðarlegt, milljónir manna glötuðu lífsviðurværi sínu og heimili og stóðu eftir slyppir og snauðir, misstu ættingja sína og allt annað sem það átti. Ennfremur hefur verið mjög átakanlegt að rifja upp þessa atburði og minnast þess áfalls sem maður varð fyrir um jólin fyrir ári að heyra fregnirnar af þessum miklu hamförum.

Um heim allan var fólki brugðið vegna þessara hörmunga og um allan heim var safnað til styrktar þeim sem áttu um sárt að binda og til að styrkja hjálparstarf. Það gerðist á Íslandi í janúar 2005 og söfnuðust um 300 milljónir króna til bjargar fólkinu og sýndi það samhug í verki af hálfu Íslendinga í garð þeirra sem allt sitt misstu. Reyndar hafði aldrei safnast áður svo há upphæð hér á landi til alþjóðlegs hjálparstarfs Rauða krossins á svo skömmum tíma. Ennfremur var boðin fram aðstoð Íslendinga til hjálpar slösuðum Norðmönnum og Svíum frá Asíu og á heimaslóðir, eða á sjúkrahús á Íslandi. Þessir atburðir eru enn ofarlega í huga okkar allra og við minnumst þessa skelfilega atburðar og helgum þeim sem fórust í hamförunum hugsanir okkar á þessum tímamótum.

Saga dagsins
1832 John C. Calhoun verður fyrsti varaforseti Bandaríkjanna, sem segir af sér embætti í sögu þess.
1871 Leikritið Nýársnóttin eftir Indriða Einarsson fyrst sýnt - varð opnunarverk Þjóðleikhússins 1950.
1897 Leikritið Cyrano de Bergerac, frumsýnt í París - eitt af frægustu leikverkum í sögu Frakklands.
1908 Jarðskjálfti í Messina á Sikiley verður 75.000 manns að bana - skjálftinn í Messina varð einn af stærstu jarðskjálftum aldarinnar og telst hann hiklaust einn af 5 stærstu og mannskæðustu á 20. öld.
1967 Borgarspítalinn í Fossvogi var tekinn í notkun - hann varð svo hluti af Landsspítalanum árið 1999.

Snjallyrðið
Fögur er foldin,
heiður er Guðs himinn,
indæl pílagríms ævigöng.
Fram, fram um víða
veröld og gistum
í Paradís með sigursöng.

Kynslóðir koma,
kynslóðir fara,
allar sömu ævigöng.
Gleymist þó aldrei
eilífa lagið
við pílagrímsins gleðisöng.

Fjárhirðum fluttu
fyrst þann söng Guðs englar,
unaðssöng , er aldrei þver:
Friður á foldu,
fagna þú, maður,
frelsari heimsins fæddur er.
Matthías Jochumsson prestur og skáld (1835-1920) (Fögur er foldin)

27 desember 2005

Jólahátíðin og jólabækurnar

Akureyrarkirkja

Ég vona að lesendur vefsins hafi haft það gott yfir jólin og hafi notið hátíðarinnar. Jólin hjá mér voru mjög hefðbundin og að mestu mjög lík því sem hefur verið í gegnum árin. Veðrið var notalegt og gott yfir hátíðirnar - snjólaust og því komust allir sinnar leiðar yfir hátíðirnar. Var staða mála þessi jólin allt önnur en á jólunum fyrir ári. Þá var stórhríð og blindbylur á aðfangadag og var lítið ferðaveður - enda mikil ófærð um bæinn jóladagana. Nú var rólegt yfir á aðfangadag og því hægt að sinna föstum hefðum dagsins með eðlilegum hætti, ólíkt árinu áður. Um hádegið fór ég upp í kirkjugarð til að vitja leiða látinna ástvina og ættingja sem hafa kvatt þennan heim - mikilvægt er á hátíðarstundu að minnast þeirra sem hafa verið manni kærir. Í fyrra fór ég upp í garð en það var nöturlegt og í raun dapurleg skilyrði sem þá voru uppi til að vera þar. Nú var notaleg og góð stemmning í kirkjugarðinum þegar ég fór þangað á aðfangadegi og margir sem leggja leið sína í garðinn á þessum helga degi.

Þessi jólin er Guðrún Gíslína Kristjánsdóttir frænka mín stödd hér á Akureyri ásamt eiginmanni sínum, Antonio Orpinelli. Hún hefur búið á Spáni í á fjórða áratug. Dvelur hún nú hér á jólum í fyrsta skipti í áratug. Faðir hennar og ömmubróðir minn, Kristján Stefánsson, veiktist alvarlega í vetur og hefur hann barist við þau veikindi með hetjulegum hætti. Áttum við notalega stund með honum á spítalanum að kvöldi aðfangadags. Dáist ég að styrk hans í veikindastríðinu og ennfremur er sjálfsagt að verða að liði fyrir Gullý og Antonio þessi jólin - leitt er að þau hafi þurft að eyða jólunum hér heima við þessar erfiðu aðstæður. Það er alltaf leitt að horfa upp á sína nánustu veika og þetta er dapurlegt. Seinna að kvöldi aðfangadags fórum við í miðnæturmessu í Akureyrarkirkju, kirkjuna mína. Sr. Svavar Alfreð Jónsson predikaði að þessu sinni og mæltist honum vel í predikun sinni. Hymnodia, kammerkór Akureyrarkirkju, söng falleg jólalög með snilldarbrag undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar organista.

Ég hef ávallt farið í kirkju á jólum. Það er að mínu mati nauðsynlegt að fara í messu og eiga þar notalega stund. Aðfangadagskvöld og upphaf jólanætur er sú stund um jól sem ég tel helgasta. Því er réttast að fara í messu þá. Það er fallegur siður að fara á þessu kvöldi í messu í kirkjuna sína.

Bækur

Þessa daga var bara haft það rólegt, notið kyrrðar hátíðarinnar og slappað af. Farið var í jólaboð og þess á milli borðaður góður matur og lesnar góðar bækur. Hef ég gegnum tíðina haft mikla ánægju af lestri góðra bóka. Fékk ég fjölmargar góðar bækur í jólagjöf, bæði ævisögur og skáldsögur. Las ég á jóladag bókina Ég elska þig stormur eftir Guðjón Friðriksson, sem fjallar um ævi fyrsta ráðherra Íslendinga, Hannesar Hafstein. Er það stórfengleg bók - sem hlýtur að verða mjög sigurstrangleg þegar kemur að veitingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hún er listilega rituð og veitir okkur góða innsýn í ævi Hannesar og færir okkur nýjar hliðar á þessum þekkta manni sem er svo samofinn íslensku samfélagi á fyrstu áratugum 20. aldarinnar og markaði sér sess sem fyrsti ráðherra landsmanna. Þeir sem vilja kynna sér ævi Hannesar betur er bent á frábæran kafla Davíðs Oddssonar bankastjóra, um Hannes í Forsætisráðherrabókinni, sem kom út árið 2004. Er hann leiftrandi af skemmtilegum upplýsingum og góðri frásögn.

Nú hef ég lokið lestrinum og hef hafið lestur á Laxness, þriðja og síðasta bindi ævisögu nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Laxness, eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Þar er lýst seinustu fimmtíu árunum á ævi skáldsins, 1948-1998 - sem telja má frægðarárin hans mestu. Hann hlaut nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1955 og markaði sér sess í bókmenntasögu aldarinnar og gnæfði yfir íslensku samfélagi á tuttugustu öld. Var hann valinn maður 20. aldarinnar af landsmönnum. Er það ekki undarlegt, enda var hann svo samofinn öldinni að það duldist engum. Hef ég notið mjög að lesa snilldarlega ritaðar bækur Hannesar Hólmsteins um Laxness. Þær eru alveg stórfenglegar að öllu leyti. Hannes Hólmsteinn á mikið hrós skilið fyrir að hafa fært okkur svo góðar og gagnrýnar bækur um skáldið, afrek hans og umdeild atriði á æviferlinum. Fór Hannes altént með ferskari og fróðlegri hætti yfir ævi skáldsins en Halldór Guðmundsson gerði í fyrra, í annars góðri ævisögu sem mjög gaman var að lesa um seinustu jól.

Hannes dregur í umfjöllun sinni saman mikinn og góðan fróðleik um skáldið. Best bókanna þriggja um Laxness er að mínu mati miðritið Kiljan sem kom út um jólin fyrir ári. Það er einhver besta ævisaga sem ég hef lesið - tekur hún með góðum hætti á miklum hitamálum á ferli Laxness og miklum umbrotatíma stjórnmálalega séð sem Halldór tengdist og Hannes býr yfir umtalsverðri þekkingu á. Það hefur verið hrein unun að sitja og lesa bækur Hannesar um Halldór. Vil ég færa Hannesi mikið hrós frá mér fyrir að hafa lagt í það mikla verkefni og sýnt mikið hugrekki við að skrifa um Halldór og segja okkur sögu hans alla. Það var mjög glæsilega gert hjá honum. Er þetta að mínu mati eitthvert besta ævisögusafn um einn mann hérlendis í sögu íslenskra bókmennta. Stór orð vissulega - en Hannes verðskuldar þau. Þessar bækur eru óneitanlega paradís fyrir þá sem unna sögunni, verkum Laxness og vandaðri frásögn. Verður fróðlegt að sjá hvað Hannes muni nú skrifa um, en áður hefur hann ritað frábæra ævisögu um Jón Þorláksson.

Framundan er lestur margra bóka. Fékk ég margar góðar bækur í gjöf. Næst á blaði er lestur á Vetrarborgum eftir Arnald Indriðason. Hef ég ætlað að lesa þá bók um nokkurn tíma en komst aldrei í að kaupa mér hana fyrir jólin og lesa vegna anna. Fékk ég hana svo í jólagjöf og ætla mér að lesa hana nú milli jóla og nýárs. Það jafnast enda ekkert á góðan krimma eftir meistara Arnald. Sem jafnan fyrr er aðalsöguhetjan, Erlendur Sveinsson lögreglumaður, og samstarfsfólk hans, Elínborg og Sigurður Óli, sem áður hafa komið við sögu t.d. í Kleifarvatni, Mýrinni, Grafarþögn og Röddinni. Hlakkar mér til að lesa bókina, enda hefur það verið virkilega gaman að gleyma sér í sagnaheimi Arnaldar í gegnum tíðina og lesa magnaða frásögn hans á mönnum og ekki síður rannsókn á voðaverkum sem spinna upp á sig. Það besta er hvernig hann yfirfærir krimmann yfir á íslenskt samfélag. Arnaldur er á heimsmælikvarða sem spennusagnahöfundur - hefur hlotið alþjóðlega frægð og hlaut á árinu Gullna rýtinginn, bresku glæpasagnaverðlaunin.

Framundan er lestur á góðum bókum, t.d. Höfuðlausn eftir Ólaf Gunnarsson, Thorsararnir eftir Guðmund Magnússon, Játningar Láru miðils eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson, Tíma nornarinnar eftir Árna Þórarinsson og Gæfuspor (gildin í lífinu) eftir Gunnar Hersvein. Ennfremur hef ég mikinn áhuga á bókum Þórarins Eldjárns og Steinunnar Sigurðardóttur. Fyrir jólin hafði ég lesið vandaða og góða bók Guðna Th. Jóhannessonar, Völundarhús valdsins. Eins og ég hef vel sagt frá fyrir jólin var sú bók virkilega góð og ein besta bók sagnfræðilegs og stjórnmálalegs eðlis hin seinni ár. Hvet ég alla til að lesa hana, hvort sem þeir hafa fengið hana að gjöf þessi jólin eður ei. Ekki veit ég hvenær ég kemst yfir allar jólabækurnar til fulls, en ljóst er að mikill lestur er framundan og áhugaverður. Nú um helstu jóladagana hef ég helgað mig lestri á ævisögunum um þá Hannes og Halldór, en það er ljóst að góð bókajól verða á mínu heimili.

Saga dagsins
1977 Breski leikarinn Sir Charles Chaplin jarðsunginn í Sviss - hann lést á jóladag, 88 ára að aldri.
1979 Sovétríkin ná völdum í Afganistan og stjórnvöldum landsins var steypt af stóli. Leiddi það til blóðugra átaka, hörmunga og borgarastyrjaldar sem stóðu í landinu í rúma tvo áratugi með hléum.
1985 Lík bandaríska náttúrufræðingsins Dian Fossey, finnst í Rwanda. Dian sem var 53 ára, var myrt.
1986 Snorri Hjartarson skáld og bókavörður, lést, áttræður að aldri. Snorri var eitt lisfengasta skáld landsins og hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1981, fyrir bókina Hauströkkrið yfir mér.
2004 Viktor Yushchenko kjörinn forseti Úkraínu - hann hlaut 51,9% atkvæða en Viktor Yanukovych forsætisráðherra, hlaut 44,1%. Miklar deilur voru vegna forsetakjörs nokkru áður. Yushchenko vann sigur í fyrri umferðinni í byrjun nóvember og var spáð sigri í seinni umferðinni. Raunin varð þó sú að Yanukovych vann og hlaut 2% meira. Stjórnarandstaðan sakaði forsætisráðherrann og stuðningsmenn hans um kosningasvik í austur- og norðurhéraði landsins. Efndu stjórnarandstæðingarnir til mótmæla sem leiddu til þess að kosningarnar voru endurteknar. Deilur hafa einkennt forsetatíð hans og þykir sem að góð fyrirheit hafi ekki ræst. Samstarfi hans og Yuliyu Tymoshenko lauk svo um haustið 2005.

Snjallyrðið
Þau lýsa fegurst er lækkar sól
í bláma heiði, mín bernskujól.
Er hneig að jólum mitt hjarta brann
dásemd nýrri hver dagur rann.

Það lækkaði stöðugt á lofti sól
þau brostu í nálægð, mín bernskujól
og sífellt styttist við sérhvern dag
og húsið fylltist af helgibrag.

Ó, blessuð jólin er barn ég var
ó, mörg er gleðin að minnast þar
í gullnum ljóma hver gjöf mér skín.
En kærust voru mér kertin mín.

Ó, láttu, Kristur þau laun sín fá
er ljós þín kveiktu er lýstu þá.
Lýstu þeim héðan er lokast brá,
heilaga guðsmóðir, himnum frá.
Stefán frá Hvítadal skáld (1887-1933) (Jól)

24 desember 2005

Jólakveðja
Ég óska lesendum gleðilegrar jólahátíðar!


Hátíð fer að höndum ein,
hana vér allir prýðum,
lýðurinn tendri ljósin hrein,
líður að tíðum,
líður að helgum tíðum.
Gerast mun nú brautin bein,
bjart í geiminum víðum,
ljómandi kerti á lágri grein,
líður að tíðum,
líður að helgum tíðum.
Jóhannes úr Kötlum (1899-1972) (Hátíð fer að höndum ein)

23 desember 2005

Jólahugleiðingar

Jólatréð á Ráðhústorgi 2004

Framundan er hátíðlegasti tími ársins, trúarhátíð kristinna manna um allan heim. Jólin eru í senn hátíð ljóss og friðar. Á slíkri hátíðarstundu hugsum við flest hlýlega til okkar nánustu og fjölskyldur hittast og eiga saman notalega stund. Skammdegið er lýst upp með fallegum ljósum og skreytingum í tilefni hátíðarinnar. Jólin eru kjörið tækifæri til að slappa af; lesa góðar bækur, borða góðan mat og njóta lífsins. Jólin eru ánægjulegasti tími ársins. En aðventan getur hinsvegar verið öllu þungbærari. Fæstir nýta því miður desembermánuð til þess að bíða og hugleiða raunverulegan anda jólanna, eins og hugtakið aðventa vísar til. Því miður getur streitan sem fylgir ansi oft jólaundirbúningnum verið gífurleg. Fólk gleymir sér í skreytingum, jólakortaskrifum, jólabakstri, gjafakaupum og búðarrápi, svo fátt eitt sé nefnt. Í slíku andrúmslofti, sem getur skapast við þess háttar aðstæður, er mjög brýnt að minnast þeirra sem að þarfnast hjálpar okkar með.

Mörgum finnst það spilla heilagleika jólanna hversu snemma verslanir taka að kynna jólin og auglýsingamennskan vegna þeirra hefst. Dæmi má nefna að það var upp úr miðjum októbermánuði sem jólavörur fóru að verða áberandi í verslunum í Reykjavík. Í byrjun desember taka síðan jólaseríur heimilanna að prýða glugga íbúðarhúsanna. Þetta er orðin nokkuð venjubundin þróun og eftirtektarverð. Mörgum finnst að jólin komi með þessu of snemma og heilagleiki þeirra verði minni en ella. Ég er ekki sammála því. Mér finnst ekki óeðlilegt að jólatíminn lengist og verði áberandi þegar í nóvember sem dæmi. Einnig þykir mér gott að skreyta snemma og njóta jólaskrautsins lengur en einungis örfáa daga. Ég man að á mínum bernskuárum var jafnan skreytt á mínu heimili tveim eða þrem dögum fyrir jól, mér þótti það alltof seint og skreyti nú alltaf í byrjun desember, enda gott að njóta þess að hafa jólalegt allan desembermánuð og lýsa upp svartasta skammdegið.

Jólasveinn

Einnig er mikið rætt um hvenær eigi að byrja að spila jólalögin. Mörgum finnst of snemmt að fara að spila þau í nóvember, aðrir fara að spila þau þá. Ég er svolítið íhaldssamur þegar kemur að jólalögunum, finnst réttast að byrja að spila þau í byrjun desember, ekki fyrr. Mér finnst t.d. svolítið stingandi þegar farið er spila heilögustu jólalögin, t.d. Ó helga nótt og Heims um ból, í lok nóvember eða byrjun desember. Mér finnst það alls ekki viðeigandi og tel að eitthvað verði að vera mönnum heilagt. Það að spila hátíðlegustu jólalögin á þeim tíma sem aðventan er að hefjast finnst mér nálgast við að mega kallast guðlast, verð bara hreinlega að segja það.

Á aðventunni og jólunum er mikilvægt að minnast ástvina og ættingja sem hafa kvatt þessa jarðvist og helga þeim hluta af hugsunum sínum, hvort sem um er að ræða ástvini sem hafa kvatt á árinu eða á seinustu árum. Ég fer alltaf fyrir jólin í garðinn hér og hugsa um leiðin sem tengjast mér eða minni fjölskyldu. Þetta er eitthvað sem ég tel mikilvægt. Ég get ekki haldið gleðileg jól, nema að hafa sinnt þessu. Gleði í sálinni fæst með svo mörgu, mest að ég tel með að gefa af sér, bæði kærleika og góðan hug til annarra. Kærleikur er ekki mældur í peningum, hann er ómetanlegur. Fólk nær aldrei árangri í lífi sínu nema með því að hugsa um aðra á mikilvægum stundum, gefa af sér einhvern hluta af góðu hjartalagi í það minnsta. Ég hef oft farið eftir þessu og það á best við á jólunum, á heilögustu stund ársins.

Jólaundirbúningurinn

Jólatré

Í dag hef ég verið á fullu við að klára jólaundirbúninginn. Jólalegt er orðið hér í bænum og mikil jólastemmning. Veðrið hér norðan heiða hefur verið svosem ágætt síðasta sólarhringinn. Ljóst er að það verða rauð jól að þessu sinni. Það er nokkur kuldahrollur þó en snjó hefur ekki fest. Er um að ræða allt aðra stöðu en fyrir ári, en á aðfangadag var blindbylur og á jóladag var allt ófært um bæinn. Sýnist á nýjustu veðurspánum að það verði milt veður en kalt. Það verður annars gott næstu daga eftir annir seinustu daga að hafa það notalegt, fara í jólaboð, lesa jólabækurnar, borða góðan mat eða horfa á sjónvarpið. Fór í dag í búðir við að klára að kaupa það sem eftir er. Að mestu var ég þó búinn að því sem gera þurfti fyrir jólin í byrjun mánaðarins.

Jólaundirbúningurinn hefst venju samkvæmt hjá okkur mánuði fyrir jól með laufabrauðsgerð. Um mánaðarmótin er húsið alveg skreytt og skrifað á jólakort. Að því loknu keyptar gjafir. Í gær var farið að kaupa jólamat og klára tvær gjafir sem ég vildi bæta við. Var gríðarlegur fjöldi að versla í gær og nóg um að vera. Hitti maður mikinn fjölda fólks sem maður þekkir og átti gott spjall. Fórum við nokkur í tilefni afmælis míns í gær á Greifann og fengum okkur að borða. Þetta var annasamur en góður dagur. Ekkert jafnast annars á við að fá sér að borða á Greifanum, frábær veitingastaður sem ég fer oftast á þegar ég fer út að borða hér.

Saga dagsins
1193 Þorlákur Þórhallsson biskup að Skálholti, lést, sextugur að aldri. Helgi Þorláks var lögtekin á Alþingi 29. júní 1198 og ári síðar var messudagur hans ákveðinn 23. desember. Önnur messa hans er á fæðingardegi Þorláks, 20. júlí. Jóhannes Páll páfi II, staðfesti svo helgi Þorláks, þann 14. janúar 1984.
1905 Páll Ólafsson skáld, lést, 78 ára að aldri. Páll var meðal allra bestu alþýðuskálda Íslendinga. Meðal þekktustu ljóða Páls voru t.d. Sumarkveðja (Ó blessuð vertu sumarsól) og Sólskríkjan.
1936 Lestur á jólakveðjum hófst á Þorláksmessu í Ríkisútvarpinu. Frá 1933 hafði lesturinn farið fram á aðfangadag, en hefur allt frá 1936 verið á Þorláksmessu. Ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum er að hlusta á lestur jólakveðjanna, sem berast af öllu landinu og erlendis og skreyttar með jólalögum.
1958 Ríkisstjórn Emils Jónssonar tók við völdum - hún var minnihlutastjórn Alþýðuflokksins og sat að völdum í tæpt ár. Var undanfari að viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem sat í 12 ár.
1968 Til mikilla átaka kom í Reykjavík milli lögreglu og fólks sem hafði þá mótmælt Víetnamsstríðinu.

Snjallyrðið
Heims um ból, helg eru jól,
signuð mær son Guðs ól,
frelsun mannanna, frelsisins lind,
frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind
meinvill í myrkrunum lá.

Heimi í hátíð er ný,
himneskt ljós lýsir ský,
liggur í jötunni lávarður heims,
lifandi brunnur hins andlega seims,
konungur lífs vors og ljóss.

Heyra má himnum í frá
englasöng: "Allelújá".
Friður á jörðu því faðirinn er
fús þeim að líkna, sem tilreiðir sér
samastað syninum hjá.
Sveinbjörn Egilsson rektor (1791-1852) (Heims um ból)

22 desember 2005

Afmæli

Stefán Friðrik Stefánsson

Í dag fagna ég 28 ára afmæli mínu. Árin líða orðið heldur betur hratt. Í dag hef ég fengið mörg símtöl frá vinum og kunningjum, góðar kveðjur á MSN, góðar óskir og gjafir frá þeim sem ég þekki og eru mér nákomnir. Um síðustu helgi hélt ég upp á afmælið með lágstemmdum hætti hér heima og bauð til mín nokkrum vinum og ættingjum. Það er alltaf gaman að finna fyrir góðum straumum og því að fólk muni eftir manni. Það er alltaf jafn ánægjulegt að finna fyrir því á degi sem þessum. Ég þakka öllum þeim sem mundu eftir deginum og komu til skila góðum heillaóskum og kveðjum - eru sannir vinir. Jafnframt þakka ég líka þeim sem sendu mér tölvupóst í tilefni dagsins. Ég met þetta allt mjög mikils, annars er aldrei nægilega hægt að þakka fyrir eða meta til fulls að ég tel sanna og góða vináttu, en ekki virðist mér skorta vinina ef marka má þessi viðbrögð. Það var notalegt að finna fyrir hlýjum kveðjum og því að svo margir skyldu muna eftir deginum. Kærar þakkir!

Kristján Þór lýsir yfir framboði

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri

Í morgun sendi Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri út svohljóðandi yfirlýsingu:

"Ég hef ákveðið að gefa kost á mér áfram sem oddviti framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og set því stefnuna á 1. sæti í prófkjöri flokksins þann 11. febrúar næstkomandi. Að því loknu hyggst ég leggja mig allan fram, ásamt félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum, um að vinna að glæstum árangri flokksins á Akureyri í næstu bæjarstjórnarkosningum.

Ég hef ítrekað verið spurður að því undanfarnar vikur hvort ég hyggist gefa kost á mér á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kosningum til Alþingis vorið 2007. Í því sambandi vil ég taka fram:

Þegar ég tilkynnti um framboð mitt til varaformanns Sjálfstæðisflokksins sl. haust lýsti ég því yfir að ég stefndi að því að næsta viðfangsefni mitt á pólitískum vettvangi yrði að leiða lista Sjálfstæðismanna á Akureyri til forystu í bæjarstjórn að loknum kosningum vorið 2006. Þessi skoðun mín hefur ekkert breyst.

Jafnframt lýsti ég því yfir að ég hefði alla tíð haft áhuga á því að takast á við ný og ögrandi verkefni á pólitískum vettvangi. Meðan sá áhugi er fyrir hendi þá útiloka ég ekki neitt það viðfangsefni sem kjósendur og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins kunna að fela mér í framtíðinni.

Á meðan mér er falið umboð til að vinna að framfaramálum í þágu Akureyringa skiptir það mig höfuðmáli að hafa sem víðtækan stuðning við úrlausn þeirra verkefna sem unnið er að hverju sinni. Ég vonast því eftir víðtækum stuðningi við þá ákvörðun mína að gefa kost á mér í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í komandi bæjarstjórnarkosningum.

Ég óska Akureyringum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs."

Ég fagna þessari yfirlýsingu Kristjáns Þórs - ég styð hann heilshugar í fyrsta sæti framboðslista flokksins í þessum sveitarstjórnarkosningum. Undir hans forystu hefur okkur gengið vel og hann hefur leitt flokkinn farsæla braut. Ég met forystu hans mikils og mun styðja hann áfram til þess að leiða lista okkar í maímánuði.

Saga dagsins
1897 Klukka er sett upp í turni Dómkirkjunnar í Reykjavík - hún telur enn stundirnar fyrir borgarbúa.
1989 Einræðisstjórn kommúnistaleiðtogans Nicolae Ceausescu fellur í Rúmeníu. Ceausescu-hjónin reyndu að flýja höfuðborgina Búkarest þegar sýnt var að uppreisn almennings yrði ekki stöðvuð með valdi lengur, en þau voru handsömuð skömmu síðar. Þau voru tekin af lífi eftir réttarhöld á jóladag.
1989 Brandenborgar-hliðið í Berlín, sem skildi að austur- og vesturhluta Berlínarborgar opnað fyrir almenningi að nýju, eftir tæplega þriggja áratuga hlé, í kjölfar falls Berlínarmúrsins sem stóð í 28 ár.
1991 Rússneska þingið staðfestir að Rússland verði sjálfstætt ríki og hluti af samveldi sjálfstæðra ríkja frá 1. janúar 1992. Með þessu var formlega staðfest að Sovétríkin heyrðu sögunni til, flest ríki landsins höfðu þá lýst yfir sjálfstæði sínu og staðfest það. Mikhail Gorbachev forseti Sovétríkjanna, stóð eftir valdalaus sem þjóðhöfðingi án ríkis í raun og veru. Hann tilkynnti formlega um afsögn sína í ávarpi til þjóðarinnar á jóladag og batt með því enda á vangaveltur um hvað yrði um pólitíska stöðu sína eftir þessi sögulegu þáttaskil. Gorbachev, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels 1990, hætti í pólitík.
2000 Halldór Kiljan Laxness rithöfundur, valinn maður aldarinnar í aldamótakönnun Gallup. Í sömu könnun var frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslands, valin kona aldarinnar. Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var hinsvegar valinn stjórnmálamaður aldarinnar.

Snjallyrðið
Ó helga nótt, þín stjarna blikar blíða,
Þá barnið Jesús fæddist hér á jörð.
Í dauða myrkrum daprar þjóðir stríða,
uns Drottinn birtist sinni barna hjörð.
Nú glæstar vonir gleðja hrjáðar þjóðir
því Guðlegt ljós af háum himni skín.
Föllum á kné.
nú fagna himins englar,
Frá barnsins jötu blessun streymir,
blítt og hljótt til þín.
Ó helga nótt, ó heilaga nótt.

Vort trúar ljós, það veginn okkur vísi,
hjá vöggu Hans við stöndum hrærð og klökk
Og kyrrlát stjarna kvöldsins öllum lýsi,
er koma vilja hér í bæn og þökk.
Nú konungurinn Kristur Drottinn fæddist
hann kallar oss í bróður bæn til sín.
Föllum á kné,
nú fagna himins englar,
hjá lágum stalli lífsins kyndill,
ljóma, fagurt skín.
Ó helga nótt, Ó heilaga nótt.
Sigurður Björnsson framkvæmdastjóri (1935) (Ó, helga nótt)

21 desember 2005

Jólamyndir

It´s a Wonderful Life

Um jólin er viðeigandi að horfa á góðar úrvalsmyndir og sérstaklega við hæfi að horfa á góðar myndir sem fjalla um boðskap jólanna. Tvær þeirra standa upp úr í mínum huga og hafa alla tíð gert. Fjalla ég um þær nú.

Kvikmynd Frank Capra, It's a Wonderful Life er ein þekktasta fjölskyldumynd 20. aldarinnar, gleðigjafi fyrir alla heimsbyggðina allt frá frumsýningardegi. Mynd sem kemur manni ávallt í sannkallað jólaskap. Hér segir frá George Bailey sem eyðir ævi sinni í að fórna lífsdraumum sínum til að vinna í haginn fyrir bæinn sinn, Bedford Falls, og að lokum sér tækifæri sín renna í súginn. Myndin gerist á aðfangadag og horfir hann yfir ævi sína, komið er að tímamótum, hann er niðurbrotinn maður og til alls líklegur þegar jólahátíðin gengur í garð. Hann er orðinn þreyttur á því hvaða stefnu líf hans hefur tekið og gæti gripið til örþrifaráða.

Til bjargar kemur verndarengill hans, Clarence, til að reyna að sýna honum fram að án hans hefði bærinn aldrei verið samur og að hann á marga að, fjölskyldu og fjölda vina. Hann sýnir honum lífið eins og það hefði verið ef hann hefði aldrei komið til og vonast til að með því verði hægt að snúa hlutunum við. James Stewart á stórleik í hlutverki George, að mínu mati er þetta ein af bestu leikframmistöðum hans á glæsilegum ferli. Ennfremur fara Donna Reed, Lionel Barrymore, Thomas Mitchell, Beulah Bondi, Henry Travers og Ward Bond á kostum.

Myndin var tilnefnd til fimm óskarsverðlauna, þ.á m. sem mynd ársins, fyrir leikstjórn og leik Stewart. Ómótstæðilegt meistaraverk, sem á jafnt við árið 2005 og 1946. Sígildur boðskapurinn á alltaf við. Fastur partur jólunum - ómissandi þáttur heilagra jóla að mínu mati.

Miracle on 34th Street

Ein besta jólamynd allra tíma er hin sígilda kvikmynd George Seaton, Miracle on 34th Street. Segir frá því er gamall maður að nafni Kris Kringle, fer að vinna sem jólasveinn í stórmarkaði. Segist hann vera hinn eini sanni jólasveinn. Er hann þarmeð talinn galinn og hann verður að sanna hver hann er fyrir dómstólum. Einstaklega hugljúf mynd sem skartar Edmund Gwenn, Natalie Wood, Maureen O'Hara og Thelmu Ritter í aðalhlutverkum. Gwenn hlaut óskarinn 1947 fyrir magnaðan leik sinn í hlutverki hins hugljúfa manns. Þessi kemur alltaf í gott jólaskap, skylduáhorf að mínu mati á jólum. Myndin var endurgerð árið 1994. Þar voru Sir Richard Attenborough, Mara Wilson, Dylan McDermott og Elizabeth Perkins í aðalhlutverkum. Tókst vel upp, en stenst hinni eldri ekki snúning. Hún er alveg einstök.

Love Actually

Ein af bestu jólamyndum seinni tíma er hin óviðjafnanlega breska gamanmynd Love Actually. Hún hefur verið mér mjög kær allt frá því að ég sá hana fyrst í bíói fyrir tveim árum. Þetta er í senn bæði ljúf og sykursæt mynd. Í aðalhlutverki eru Hugh Grant, Liam Neeson, Emma Thompson, Alan Rickman, Keira Knightley og Rowan Atkinson. Semsagt topplið breskra leikara. Þessi góða ástarsaga fjallar um átta mjög ólík pör í London rétt fyrir jól, sem glíma við ýmis vandamál í ástarlífinu. Ástin er þemað í myndinni. Saga þessa ólíka fólks spinnst mjög skemmtilega saman í lok hennar. Mögnuð mynd sem ég mæli eindregið með. Er algjörlega fullkomin. Punkurinn yfir i-ið er flottur flutningur Billy Mack (í glæsilegri túlkun Bill Nighy) á laginu Christmas is all around (áður Love is all around með Wet, Wet, Wet). Þessi er alveg ómissandi yfir jólin seinni árin - verður svo væntanlega um ókomin ár!

Vonandi eigið þið annars góð bíójól og horfið á góðar myndir um jólin heima og í kvikmyndahúsum. Gott dæmi yfir úrvalið í bíói um jólin eru myndir á borð við t.d. King Kong, The Family Stone, Harry Potter and the Goblet of Fire, The Chronicles of Narnia, Memoirs of a Geisha og The Brothers Grimm. Er reyndar þegar búinn að sjá King Kong og ætla að skrifa um hana milli jóla og nýárs þegar að ég geri upp bíóárið. Nóg af úrvalsefni er því í boði í kvikmyndahúsunum. Gott úrval kvikmynda og þátta verður svo í sjónvarpi yfir jólin.

Jólatónlist

Elly og Vilhjálmur syngja jólalög

Get ekki annað en bent á tvo ómissandi jóladiska í lokin að þessu sinni. Jólin hjá mér koma ekki fyrr en settur hefur verið í spilarann stórfenglegur jóladiskur systkinanna Elly Vilhjálms og Vilhjálms Vilhjálmssonar, sem gefinn var út árið 1971. Hann er fallegri en allt annað að mínu mati - ennfremur jólalegri en allt annað. Sígildur og góður - algjörlega ómissandi. Elly og Vilhjálmur voru með bestu söngvurum sinnar kynslóðar og sungu allt fram í andlátið. Vilhjálmur lést í bílslysi, langt fyrir aldur fram, árið 1978, aðeins 33 ára að aldri. Elly lést úr krabbameini árið 1995, sextug að aldri. Þau voru að mínu mati aldrei betri en á þessum ljúfa jóladiski sem varð fastur hluti jólanna um leið og hann kom út. Ég ólst upp með þessari plötu og keypti mér útgáfu hennar á diski árið 1992 og hef spilað hann mjög mikið síðan. Algjör snilld að mínu mati - jólalegasti jóladiskurinn.

Á jólanótt

Fyrir áratug gaf Tjarnarkvartettinn í Svarfaðardal út jóladiskinn Á jólanótt. Um leið og hann kom út ávann hann sér sess í huga mér. Diskurinn er löngu orðinn fastur liður jólaundirbúningsins. Það er afslappandi og notalegt að setja hann í spilarann og njóta þeirrar kyrrðar sem hann færir. Þar syngur kvartettinn jólalög án undirleiks. Aðeins er fagur söngur - rólegt og undurljúft. Tjarnarkvartettinn var skipaður þeim Hjörleifi Hjartarsyni, Kristjáni Hjartarsyni, Kristjönu Arngrímsdóttur og Rósu Kristínu Baldursdóttur. Hann hætti að syngja opinberlega fyrir nokkrum árum, en gaf út þennan disk og tvo til. Allir sem njóta fallegrar og notalegrar jólatónlistar verða að eignast þennan.

Marga fleiri diska mætti nefna, t.d. eru jóladiskar Kristjáns Jóhannssonar, Boney M, Diddúar, Bing Crosby, Mahaliu Jackson og Borgardætra mikið spilaðir á mínu heimili. Alltaf bætist svo við - þessi jólin kom út jóladiskur systkinanna Ellenar og KK sem hefur þegar unnið sér fastan sess. Falleg jólatónlist er ómissandi í jólaundirbúningnum.

Saga dagsins
1945 Ölfusárbrú við Selfoss var opnuð til umferðar - var þá langstærsta og mesta brú sem byggð hafði verið hérlendis. Hún er 134 metra löng og leysti af hólmi eldri brú sem tekin var í notkun 1891.
1952 Kveikt var á 15 metra háu jólatré á Austurvelli í Reykjavík. Þetta var fyrsta tréð sem Oslóarbúar gáfu Reykvíkingum. Frá þessu hefur það verið árleg hefð að tré komi þaðan sem gjöf til Reykvíkinga.
1958 Charles De Gaulle hershöfðingi, kjörinn með miklum meirihluta sem forseti Frakklands, og hlaut mun meiri pólitísk völd en forverarnir. De Gaulle sat í embætti allt til ársins 1969, og lést 1970.
1988 Flugvél Pan Am-flugfélagsins, á leið frá London til New York, sprakk í loft upp yfir smábænum Lockerbie á Skotlandi. 258 létust, þarmeð taldir allir farþegar vélarinnar og fólk á jörðu niðri er vélin hrapaði til jarðar. Líbýskir menn grönduðu vélinni og voru þeir handteknir og sóttir til saka 2001.
1999 Þingsályktun um framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun var samþykkt á Alþingi. Síðar var fallið frá þessum áformum, sem kennd voru við Eyjabakka og ákveðið að stefna frekar að Kárahnjúkavirkjun.

Snjallyrðið
Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröld ljósið skein,
það er nú heimsins þrautarmein
að þekkja hann ei sem bæri
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

Í Betlehem var það barnið fætt,
sem best hefur andar sárin grætt,
svo hafa englar um það rætt
sem endurlausnarinn væri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

Fjármenn hrepptu fögnuð þann,
þeir fundu bæði Guð og mann,
í lágan stall var lagður hann,
þó lausnari heimsins væri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

Lofið og dýrð á himnum hátt
honum með englum syngjum brátt,
friður á jörðu og fengin sátt,
fagni því menn sem bæri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.
Sr. Einar Sigurðsson á Heydölum (1538-1626) (Nóttin var sú ágæt ein)

20 desember 2005

Stefán Friðrik Stefánsson

Í gær var framboðslisti Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar 27. maí nk. samþykktur á fjölmennum fundi Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, í Valhöll. Listann skipa 15 karlar og 15 konur, þar af eru 5 karlar og 5 konur í 10 efstu sætum framboðslistans og 8 konur og 8 karlar í 16 efstu sætunum. Kynjaskiptingin er því mjög góð. Efstu þrettán sætin eru skipuð eftir úrslitum prófkjörs flokksins í byrjun nóvembermánaðar. Í fyrstu tíu sætunum eru: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Jórunn Ósk Frímannsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Bolli Skúlason Thoroddsen og Marta Guðjónsdóttir. Þetta er sigurstranglegur og góður listi að mínu mati. Eins og skoðanakannanir hafa verið að spilast er Sif gulltrygg inn í borgarstjórn. Reyndar virðist mér á seinustu tveim skoðanakönnunum Gallups að verið sé að spila um níunda mann sjálfstæðismanna inn í borgarstjórn. Það er að mínu mati ekki óviðeigandi að stimpla níunda sætið sem hið sanna baráttusæti - berjast eigi af krafti eftir því að ná góðum sigri með góðri útkomu með níu borgarfulltrúum.

Bolli Thoroddsen formaður Heimdallar, skipar níunda sætið. Eins og fyrr segir hafa kannanir Gallups verið að spilast með þeim hætti að níundi maður framboðslistans sé inni. Það er enginn vafi á því í mínum huga að menn eigi að leggja kosningabaráttuna upp með þeim hætti að tryggja kjör Bolla Thoroddsen inn í borgarstjórn – tryggja að unga kynslóðin í flokknum eigi tryggan fulltrúa inn í borgarstjórn. Það væri glæsilegt fyrir okkur alla hægrimenn ef flokkurinn hlyti sterkt og gott umboð með því að ná inn níu borgarfulltrúum í þessum kosningum. Öll hljótum við að vilja sigur flokksins sem stærstan. Ef marka má nýja skoðanakönnun Gallups í dag hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn rúm 55% atkvæða og hefur algjöra yfirburði. Vinstriflokkarnir eru í rúst bara, bandalag þeirra myndi ekki hljóta meirihluta og eru mjög fjarri því. Þó að þeir vildu starfa saman er það enginn valkostur haldist þessi öfluga staða Sjálfstæðisflokksins. Það blandast engum hugur um það sem lítur á þessa könnun að vatnaskil hafa átt sér stað í borgarmálunum. Vinstrimeirihlutinn í borgarstjórn er enda samkvæmt þessum tölum kolfallinn og víðsfjarri því að eiga möguleika á að halda sínu, með sex borgarfulltrúa inni.

Samfylkingin fengi rúm 25% og 4 borgarfulltrúa og VG hefur rúm 12% og 2 borgarfulltrúa. Lífakkeri hins steindauða R-lista, Framsóknarflokkurinn, er heillum horfinn þrátt fyrir að hafa nú losnað við fyrrum heillagrip R-listans, Alfreð Þorsteinsson, úr forystusveitinni. Framsókn hefur um 5% fylgi og hefur bætt sig örlítið, en er samt nokkuð frá því að ná inn manni. Þetta gerist þrátt fyrir brotthvarf Alfreðs og innkomu Björns Inga Hrafnssonar inn á sviðið. Frjálslyndir hafa svo rúm 2%. Hvorki Framsóknarflokkurinn né Frjálslyndir fengju því kjörinn borgarfulltrúa. Þessi könnun er mjög öflug fyrir Sjálfstæðisflokkinn - sérstaklega á þessum tímapunkti er framboðslistinn liggur fyrir. Verkin eftir R-listann sáluga eru nú dæmd eftir tólf ára valdaferil í þessari skoðanakönnun sem mælir stöðuna og landslagið nú alveg afdráttarlaust. Borgarbúar hafa fengið nóg af vinstristjórninni í borginni og vilja skipta um forystu. Það undrast fáir, það þýðir ekki fyrir vinstriöflin að flýja R-listann til að reyna að halda völdum. Það stoðar lítið.

Forysta R-listans í þrjú kjörtímabil skilur eftir sig næg verkefni og fjölda úrlausnarefna, sem brýnt er að takast á við. Þeir sem kynna sér lykilmálefni borgarinnar sjá ókláruð verkefni - áskoranir um að gera betur og taka af skarið. Gott dæmi um það eru skipulagsmálin. En þessi könnun sýnir okkur þáttaskil í borgarmálunum - nýtt landslag. Nú er brýnt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vinna af krafti - og vinna þessar kosningar með miklum glæsibrag og tryggja níu borgarfulltrúa inn í vor!

Dimmugljúfur

Nýlega las ég bók Ómars Ragnarssonar, Kárahnjúkavirkjun - með og á móti, þar sem hann fer yfir kosti og galla Kárahnjúkavirkjunar. Ómar er landsmönnum vel þekktur, hann hefur verið til fjölda ára ötull í fjölmiðlum, mikill flugmaður og náttúruunnandi en þekktastur þó væntanlega sem sjónvarpsmaður. Enginn vafi leikur á því að náttúra landsins er honum mikils virði. Í gegnum verk hans hefur komið fram hversu mjög hann ann íslenskri náttúru og sögu hennar. Nægir að líta á Stikluþætti hans sem löngu eru orðnir klassískir og þætti hans á seinustu árum, Fólk og firnindi. Hefur hann seinustu fimm árin sinnt mjög því áhugamáli sínu að fá fram umræðu um virkjun á Austurlandi og álver við Reyðarfjörð.Kynnti hann þessi mál í mynd sinni: Á meðan land byggist, árið 2002 og heldur nú þeirri umfjöllun áfram í bókinni. Er hún sett þannig upp að mál eru greind í opnur og á annarri blaðsíðunni er farið yfir jákvæða punkta málsins en á hinni neikvæða, báðar skoðanir koma vel fram.

Er þessi bók mjög fróðleg lesning og ætti að vera áhugaverð öllum þeim sem hafa kynnt sér málið, þekkja til náttúru landsins og Austfjarða. Lengi hefur mér verið annt um Austurland, enda á ættir mínar að rekja þangað og tel nauðsynlegt að standa vörð um mannlíf þar. Þó að við Ómar séum ósammála um þetta mál, met ég það að hann reyni af krafti að tjá báðar skoðanir með þessum hætti og fái fram umræðu um það. Það er nefnilega það nauðsynlega við þetta, að fá umræðu um kosti og galla framkvæmdarinnar og þess sem gera þarf til að styrkja og efla Austfirðina. Enginn vafi er á því að virkjun við Kárahnjúka og álver við Reyðarfjörð eru gríðarlegur áfangi fyrir þjóðina. Það stefnir í nýtt og öflugt hagvaxtarskeið, atvinnuástand mun styrkjast verulega, kaupmáttur aukast og tekjur þjóðarbús og landsmanna hækka. Mikill uppgangur hefur verið á öllum sviðum á Austurlandi.

Fór ég austur í Fjarðabyggð í sumar og þótti mjög ánægjulegt að sjá hversu vel gengur þar núna og að finna fyrir þeim mikla krafti sem býr í fólki þar og öllum framkvæmdum sem í gangi eru. Framkvæmdirnar þar styrkja Norðausturkjördæmi í heild og efla Austurland og síðast en ekki síst mannlífið í Fjarðabyggð. Það er því rétt að taka umræðuna um málið, en eftir stendur að kostirnir við framkvæmdina yfirgnæfa alla mögulega galla sem tíndir eru fram í bók þessari. Er enginn vafi á því að virkjun á Austurlandi og virkjun í Reyðarfirði er kraftmikil byggðaframkvæmd sem mun styrkja stöðu mála í kjördæminu til framtíðar.

It Happened One Night

Horfði í gærkvöldi á úrvalsmynd leikstjórans Frank Capra, It Happened One Night. Í aðalhlutverkum í þessari mögnuðu mynd eru Claudette Colbert og Clark Gable. Segir í myndinni frá hinni ofdekruðu Ellie Andrews sem flýr undan ofríki föður síns sem vill ekki leyfa henni að giftast glaumgosa einum. Á leiðinni í rútu til New York kynnist hún útbrenndum blaðamanni Peter Warner. Þegar rútan bilar á leiðinni lenda þau í vandræðum enda hætta á að faðir hennar komist að því hvar hún er, blaðamaðurinn þekkir auðmannsdótturina og vonast til að þarna sé komið efni í stórfrétt sem kemur honum á sporið aftur í bransanum. Vandræðin hefjast þó fyrir alvöru er þau verða ástfangin á leiðinni til New York. Stórfengleg kvikmynd sem varð gríðarlega vinsæl og hlaut 5 óskarsverðlaun 1934, sem besta kvikmynd ársins, fyrir leik Gable og Colbert, fyrir leikstjórn Capra og handritið. Var It Happened One Night fyrsta kvikmyndin sem hlaut óskarinn í 5 stærstu flokkunum; kvikmynd, leikstjórn, bestu aðalleikarar og handrit. Aðeins tvær myndir hafa náð þeim árangri frá 1934, One Flew Over The Cuckoo's Nest 1975 og The Silence of the Lambs 1991: báðar miklar gæðamyndir.

Þorsteinn Pálsson

Þorsteinn Pálsson fyrrum forsætisráðherra og sendiherra, tilkynnti í viðtali í Laufskálanum á Rás 1 í morgun að hann hefði tekið þá ákvörðun að hætta við að rita sögu þingræðis á Íslandi. Forsætisnefnd Alþingis samþykkti snemma í haust að fela honum það verk og hann hafði hafið ritunina eftir að hann lét af sendiherraembætti í Danmörku snemmvetrar. Í kjölfar þessa mótmæltu fræðimenn því að Þorsteini hefði verið falið að skrifa söguna og ennfremur var það gagnrýnt í þingumræðu, þó að allir flokkar í forsætisnefnd hefðu staðið að valinu á Þorsteini. Sagði Þorsteinn í Laufskálaviðtalinu að forsendur væru brostnar fyrir ákvörðun forsætisnefndarinnar og hann hefði ákveðið að hætta við. Þorsteinn er mikill heiðursmaður og tekur rétta ákvörðun. Hann fer frá þessu máli hnarreistur og með glæsilegum hætti. Ég óska honum góðs í þeim verkefnum sem hann tekur sér nú fyrir hendur eftir að hann lét af sendiherraembætti.

KK og Ellen

Keypti mér um daginn geisladisk systkinanna Ellenar og KK - Jólin eru að koma. Mæli mjög með þessum diski. Á honum er undurfögur jólatónlist með einföldum og tærum blæ. KK spilar á kassagítarinn og syngur ásamt Ellen ógleymanleg jólalög. Fer þetta fallega saman og skapar flotta jólastemmningu, sem flýtur notalega í gegn. Góður diskur - sem á vel við nú á aðventunni.


Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem hafa sent mér notalegar og góðar kveðjur vegna ákvörðunar minnar um framboð í prófkjörinu í febrúar. Það er gott að eiga góða vini að!

Saga dagsins
1930 Ríkisútvarpið tók formlega til starfa - útvarpað var í upphafi þrjá tíma á kvöldin, en eftir því sem árin liðu lengdist útsendingartíminn og er nú útvarpað á Rás 1 frá 6:45 til 01:00 að nóttu. Árið 1966 hóf RÚV rekstur fyrstu sjónvarpsstöðvar landsins og 1983 var svo stofnuð önnur útvarpsrás, Rás 2. Fyrsti útvarpsstjórinn var Jónas Þorbergsson, en núverandi útvarpsstjóri RÚV er Páll Magnússon.
1973 Aðskilnaðarsamtök Baska, ETA, ráða Luis Carrero Blanco forsætisráðherra Spánar, af dögum í sprengjutilræði í Madrid - almenn þjóðarsorg var á Spáni vegna dauða hins sjötuga forsætisráðherra.
1974 Snjóflóð féllu á Neskaupstað og ollu stórtjóni á mannvirkjum. 12 manns fórust í snjóflóðinu, margir voru grafnir lifandi upp úr snjónum. Tvítugur piltur bjargaðist eftir rúmlega 20 klukkustundir.
1975 Kröflueldar hófust með miklu eldgosi í Leirhnjúki - gosið stóð allt fram til febrúarmánaðar 1976.
1983 Kvótakerfi á fiskveiðar var samþykkt á Alþingi - kerfið sem varð umdeilt tók gildi 1. janúar 1984.

Snjallyrðið
Framtíð okkar svo fallvölt er,
fortíð leit hjá sem blær
jólanóttin er nú og hér.
Nóttin heilög og kær.

Glæddu jólagleði í þínu hjarta
gleymdu sorg og þraut
vittu til að vandamálin hverfa á braut.
Glæddu jólagleði í þínu hjarta
gjöf, sem dýrmætust er.
Í kærleika að kunna að gefa af sjálfum sér.

Hér og nú hjartkær vinafjöld
hjá oss eru í kvöld sem fyrr.
Jólabarn við oss brosir rótt
björt er jólanótt, hljóð og kyrr.
Ómar Ragnarsson fréttamaður (1940) (Glæddu jólagleði í þínu hjarta)

19 desember 2005

Hjallastefnan í Hólmasól

Kristján Þór Júlíusson og Margrét Pála Ólafsdóttir

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og Margrét Pála Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar ehf. undirrituðu í dag, mánudaginn 19. desember, samning um rekstur leikskólans Hólmasólar við Helgamagrastræti. Samningurinn gildir til 31. desember 2009. Hugmyndafræði Hjallastefnunnar samanstendur meðal annars af nokkrum meginatriðum sem lita allt leikskólastarfið. Fyrst ber að nefna að nemendahópnum er skipt eftir kynjum í kjarna (deildir, bekki) til að mæta ólíkum þörfum beggja kynja og til að geta leyft stelpna- og strákamenningu að njóta sín jafnhliða því að unnið er gegn neikvæðum afleiðingum hefðbundinna staðalímynda og kynhlutverka um möguleika stúlkna og drengja. Í öðru lagi er áhersla á opinn og skapandi efnivið og lausnir barnanna sjálfra í stað leikfanga og hefðbundinna námsbóka. Í þriðja lagi er lagt upp úr jákvæðum aga og hegðunarkennslu þar sem nemendur læra lýðræðislega samskiptahætti innan ákveðins ramma.

Námskrá Hjallastefnunnar byggir á og uppfyllir öll skilyrði. Aðalnámskrár leikskóla. Í dag er enginn biðlisti fyrir börn 2ja ára og eldri hjá leikskólum Akureyrar. Um 95% barna á Akureyri á aldrinum 2ja – 5 ára eru í leikskóla. Meðal dvalartími þeirra í leikskóla eru um 7,4 klukkustundir á dag. Stöðugildin í leikskólunum á Akureyri eru í heild 220, þar af eru 139 stöðugildi vegna deildarstarfs og 64 % af deildarstöðugildunum eru mönnuð fagfólki. Leikskólinn Hólmsól er sex deilda leikskóli og er gert ráð fyrir að hann rúmi allt að 157 börn. Stöðugildin verða um 30. Leikskólagjöld verða þau sömu og eru í öðrum leikskólum Akureyrarbæjar. Þegar nýi leikskólinn tekur til starfa í apríl næstkomandi verða 13 leikskólar starfandi hér á Akureyri. Frá og með næsta hausti verður pláss fyrir um 1.150 börn í leikskólunum hér og þá verður 18 mánaða börnum boðið upp á leikskólapláss.

Þetta er gleðilegt og gott skref sem stigið er með þessum samningi. Lengi hef ég verið talsmaður þess að skólar hér verði einkareknir. Sérstaklega hef ég verið talsmaður þess að grunnskóli hér í bæ verði rekinn með þessu kerfi og horfi ég þar að sjálfsögðu til Naustaskóla sem rísa mun á næstu árum. Tel ég ennfremur rétt að við tökum hér á Akureyri upp sama kerfi og er í Garðabæ - það er módel sem ég tel að hafi reynst vel og rétt sé að stefna að verði virkt hér af krafti. En fyrst og fremst fagna ég þessum samningi bæjarins við Möggu Pálu og óska henni alls góðs við rekstur Hólmasólar næstu fjögur árin - þann tíma sem fyrrnefndur samningur gildir.

Saga dagsins
1901 Tólf hús brunnu í miklum bruna á Akureyri og rúmlega fimmtíu manns urðu þá heimilislausir.
1956 Lög um bann við hnefaleikum voru samþykkt á Alþingi - samkvæmt því var bönnuð öll keppni
eða sýning á hnefaleikum hérlendis. Ólympískir hnefaleikar voru leyfðir að nýju á Íslandi árið 2001.
1969 Aðild Íslands að EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu, var samþykkt á Alþingi - tók gildi 1970.
1984 Bretar og Kínverjar undirrita samkomulag þess efnis að Kína taki við stjórn Hong Kong af Bretum 1. júlí 1997 - valdaskiptin fóru fram eins og samið var um og með því lauk 150 ára stjórn Breta.
2000 Hæstiréttur dæmdi að tekjuskerðing örorkubóta vegna tekna maka væri ólögleg - dómurinn sem var sögulegur, leiddi til þess að stjórnin breytti lögum um örorkugreiðslu og fyrirkomulag þeirra.

Snjallyrðið
Mundu að þakka guði
gjafir, frelsi og frið,
þrautir, raunir, náungans
víst koma okkur við.
Bráðum klukkur klingja
kalla heims um ból
vonandi þær hringja flestum
gleði og friðarjól.

Biðjum fyrir öllum þeim
sem eiga bágt og þjást
víða mætti vera meira um kærleika og ást.

Bráðum koma jólin
bíða gjafirnar
út um allar byggðir
verða boðnar kræsingar.
En gleymum ekki guði
hann son sinn okkur fól
gleymum ekki að þakka
fyrir gleði og friðarjól.
Magnús Eiríksson tónlistarmaður (1945) (Gleði og friðarjól)

18 desember 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í síðasta sunnudagspistli ársins 2005 fjalla ég um þrjú mál:

- í fyrsta lagi fjalla ég um þá ákvörðun mína að gefa kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, sem haldið verður 11. febrúar nk. Hef ég ákveðið að gefa kost á mér í þriðja sæti listans. Ég hef verið flokksbundinn í tólf ár og gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn og tel rétt að gefa kost á mér nú. Spennandi barátta er framundan. Mun ég í prófkjörsbaráttunni kynna vel mína framtíðarsýn fyrir Akureyri og hverju eigi að stefna að á næsta kjörtímabili. Það er alveg ljóst að rödd yngri kjósenda þarf að vera virk í bæjarmálum hér. Mér þykir doði vera í stjórnmálalitrófi ungra kjósenda hér og rödd þeirra hafa gleymst. Því verður að breyta. Skoðanir okkar og stefnumál skipta að mínu mati sköpum í kosningabaráttunni á næsta ári. Við þurfum að koma með okkar mat á stöðuna: hvað viljum sjá á næsta kjörtímabili? – að hverju viljum við stefna að? – hvernig á bærinn að vera á næstu árum? Allt eru þetta stórar spurningar. En það er mikilvægt að við svörum þeim. Ég mun allavega fara á þennan vettvang af krafti.

- í öðru lagi fjalla ég um bækur sem komið hafa út á seinustu árum um Halldór Kiljan Laxness. Nýlega kom út þriðja og síðasta bindi Hannesar Hólmsteins um hann – þar kemur margt nýtt fram. Sérstaklega hefur þar borið hæst umfjöllun um nóbelsverðlaunin 1955. Komið hefur í ljós nánari umfjöllun en áður hefur sést um atburðarásina sem leiddi til þess að Halldór Kiljan Laxness hlaut nóbelsverðlaunin í bókmenntum fyrir hálfri öld. Lengi hefur verið vitað að valið stóð þá á milli Halldórs og annars öndvegisrithöfundar, Gunnars Gunnarssonar. Lengi hafa margar kjaftasögur gengið um rás atburða og hið sanna legið í þagnargildi. Það hefur nú breyst. Í bók sinni lýsir Hannes því hvernig menn reyndu með ófrægingarherferð að koma í veg fyrir að Gunnar Gunnarsson hlyti verðlaunin. Fer ég yfir það mál í pistlinum.

- í þriðja lagi fjalla ég um Geir Hallgrímsson fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins, en á föstudag voru 80 ár liðin frá fæðingu hans. Á löngum stjórnmálaferli sínum varð Geir í senn bæði sigursæll leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borgar- og landsmálum og leiddi hann ennfremur á miklum erfiðleikatímum sem mörkuðust bæði af klofningi innan flokksins og áberandi deilum í forystusveit hans á áttunda og níunda áratug 20. aldar. Í ítarlegum pistli á vef SUS á föstudag fór ég yfir ævi hans og stjórnmálaferil. Þakka ég kærlega fyrir þau góðu viðbrögð sem ég fengið við pistlinum. Þótti mér áhugavert að rita pistilinn og ánægjulegt að fara yfir merka ævi og feril Geirs í stjórnmálum. Í gær ritar svo Björn Bjarnason vandaðan og góðan pistil um Geir.


Menn ársins 2005 hjá TIME

Menn ársins 2005 hjá TIME

Í dag tilkynnti bandaríska fréttatímaritið TIME um val sitt á mönnum ársins. Fyrir ári hlaut George W. Bush forseti Bandaríkjanna, þennan heiður. Það var í annað skiptið sem forsetinn hlaut nafnbótina. Hann var valinn maður ársins 2000, skömmu eftir að hafa unnið nauman sigur í umdeildum og sögulegum forsetakosningum í Bandaríkjunum. Í umsögn blaðsins fyrir ári sagði að forsetinn hefði verið valinn vegna þess að honum tókst að ná endurkjöri með því að hljóta rúmlega helming greiddra atkvæða og að hafa náð að efla stöðu sína fyrir kosningarnar með afgerandi hætti og að ná til hins almenna landsmanna og með því styrkt leiðtogaímynd sína. Þá kom fram í mati Jim Kelly ritstjóra blaðsins, að Bush forseti, væri áhrifamikill en jafnframt umdeildur maður í heimalandi sínu og um allan heim og það væri t.d. ein af ástæðum þess að hann hefði verið valinn sem maður ársins, öðru sinni. Hann hefði verið sá maður á árinu sem öll umræða hefði snúist um. Sigur hans hefði svo verið toppurinn á velheppnuðu ári af hans hálfu. Var það í sjötta skipti sem einhver hlaut heiðurinn tvívegis.

Að þessu sinni hlutu heiðurinn þrír einstaklingar, sem er óvenjulega mikið. Nær er því að tala um fólk ársins að mati blaðsins. Heiðurinn hlutu írski rokksöngvarinn og mannréttindafrömuðurinn Bono og bandarísku hjónin og mannvinirnir Bill og Melinda Gates. Hljóta þau titilinn vegna starfa sinna að mannúðarmálum til fjölda ára, sem náð hefði hámarki á árinu 2005. Eins og allir vita er Bill Gates einn af ríkustu mönnum heim, en hann stofnaði fyrir tveim árum hugbúnaðarrisann Microsoft. Kemur fram í mati TIME að Gates-hjónin hljóti heiðurinn vegna þess að þau hafi farið mjög nýstárlegar leiðir í góðgerðamálum og mannúðarmálum. Ennfremur hafi þau haft áhrif á stjórnmál og knúið fram af krafti við að tala máli réttlætis. Hafi þau aukið von og hvatt aðra til að fylgja fordæmi þeirra. Bono er valinn vegna forystu sinnar á árinu við að koma upp Live8-tónleikunum í júlímánuði, þar sem tónlistarmenn hvöttu stjórnmálamenn í iðnríkjunum 8 til að hlúa að vanþróuðum löndum. Hafi hann leitt verkefnið með krafti og hlýju - sem hafi skilað miklum árangri.

Ennfremur velur TIME þá George H. W. Bush og Bill Clinton fyrrum forseta Bandaríkjanna, fyrir ötult og heilsteypt mannúðarstarf sitt í kjölfar flóðbylgjunnar í Asíu í lok ársins 2004 og fellibylsins Katrínar í suðurríkjum Bandaríkjanna í sumar. Minnist blaðið sérstaklega á það að þeir hafi orðið gegnheilir vinir eftir samstarf sitt í þessum málum. Þeir voru eins og flestir vita andstæðingar í forsetakosningunum 1992, en Clinton felldi Bush eldri af forsetastóli. Unnu þeir saman af hugsjón og krafti til að efla mannúðarstarf í kjölfar þessar hörmunga. Er mjög ánægjulegt að lesa umfjöllun TIME og er ég svo sannarlega sammála vali blaðsins á fólki ársins. Öll verðskulda þau heiðurinn, enda má með sanni segja að þau hafi öll unnið með gegnheilum og virðingarverðum hætti að mannúðarmálum á árinu. Framlag þeirra skipti sköpum.

Saga dagsins
1897 Fyrsta sýningin hjá Leikfélagi Reykjavíkur - sýndir voru þá á sviði Iðnó tveir danskir leikþættir.
1958 Spámaðurinn, lífsspeki í ljóðum eftir Kahlil Gibran, kom út í íslenskri þýðingu eftir Gunnar Dal. Bókin hefur síðan verið gefin út 12 sinnum og hefur selst hérlendis í alls fjörutíu þúsund eintökum.
1982 Kvikmyndin Með allt á hreinu, var frumsýnd. Ágúst Guðmundsson leikstýrði myndinni og í aðalhlutverkum voru hljómsveitirnar Stuðmenn og Grýlurnar. Myndin sló öll aðsóknarmet og um 115.000 Íslendingar sáu hana í bíó. Framhaldsmynd: Í takt við tímann, var frumsýnd um jólin 2004.
1997 Frumvarp um að Skotland fái eigið þing og heimastjórn kynnt í Glasgow. Áður höfðu Skotar samþykkt heimastjórn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Donald Dewar varð fyrsti forsætisráðherra landsins.
1998 Eldgos hófst í Grímsvötnum í Vatnajökli, hið sextugasta síðan árið 1200, stóð það í rúma viku. Í upphafi náði mökkur frá eldstöðvunum upp í 10 kílómetra hæð og öskufalls varð vart norðanlands.

Snjallyrðið
Ljósadýrð loftin gyllir
lítið hús yndi fyllir
og hugurinn heimleiðis leitar því æ
man ég þá er hátíð var í bæ.

Ungan dreng ljósin laða
litla snót geislum baðar
Ég man það svo lengi sem lifað ég fæ
lífið þá er hátíð var í bæ.
Ólafur Gaukur Þórhallsson tónlistarmaður (1930) (Hátíð í bæ)

17 desember 2005

Prófkjör í febrúar - ákvörðun um þátttöku

Sjálfstæðisflokkurinn

Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna á Akureyri ákvað á fundi sínum að kvöldi 7. desember að efna til prófkjörs vegna vals á framboðslista flokksins við komandi sveitarstjórnarkosningar þann 27. maí 2006. Hefur verið ákveðið að halda prófkjörið þann 11. febrúar nk. Á fundinum var kjörnefnd undir forystu Önnu Þóru Baldursdóttur falið að ákveða nánari tilhögun prófkjörsins í samræmi við gildandi prófkjörsreglur Sjálfstæðisflokksins. Þessi fundur var mjög góður - tillaga kjörnefndar var samþykkt einróma og engin önnur tillaga var borin upp til atkvæða. Var mikil samstaða um það að fara prófkjörsleiðina að þessu sinni en framboðslisti flokksins hér á Akureyri hefur verið valinn með uppstillingu í tveim seinustu kosningum, árin 1998 og 2002.

Þann 17. nóvember sl. tilkynnti ég um afsögn mína úr kjörnefnd og jafnframt gerði ég opinbert að ég hefði áhuga á að gefa kost á mér í komandi sveitarstjórnarkosningum, óháð því hvort að um prófkjör eða uppstillingu væri að ræða. Fimm dögum síðar samþykkti kjörnefnd tillögu sína um prófkjör og sendi þá ákvörðun til stjórnar fulltrúaráðs, sem boðaði til fyrrnefndar fundar fulltrúaráðsins á stjórnarfundi þann 28. nóvember. Fagna ég því mjög að ákvörðun um framboðsaðferð liggi fyrir og nú sé hægt að halda í þá vinnu sem mikilvægt er að halda í á þessum tímapunkti - tryggja sterkan og öflugan framboðslista flokksins í komandi kosningum.

Ég tilkynni hér með um framboð mitt í prófkjörinu 11. febrúar nk. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til setu í þriðja sæti framboðslistans - í seinustu kosningum sat Þórarinn B. Jónsson bæjarfulltrúi, í því sæti. Hann hefur nú ákveðið að gefa kost á sér til setu í fimmta sæti framboðslistans. Ávarpaði hann fyrrnefndan fund og tilkynnti um fyrirætlanir sínar. Orðrómur hafði verið uppi um að hann myndi draga sig í hlé eins og Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar. Svo verður ekki - Þórarinn B. gefur kost á sér í prófkjörinu - sækist eftir fimmta sætinu og tekur því ákvörðun sem kemur sumum á óvart. Þórarinn B. hefur setið í bæjarstjórn frá árinu 1994 og er þekktur fyrir góð verk í bæjarmálum. Með þessu losnar þriðja sætið og því ekki óeðlilegt að sækjast eftir því.

Framundan eru spennandi vikur og mánuðir - ég gef kost á mér til verka í forystusveit flokksins hér. Svo er það flokksmanna að vega og meta frambjóðendur. Ég tel rétt að gefa fólki kost á því að velja ungt fólk til forystu og tilkynni því um áhuga minn til að taka þátt í forystustörfum hér. Engum þarf að dyljast áhugi minn á stjórnmálaþátttöku og því hið eina rétta að gefa kost á sér og taka þátt af þeim krafti sem mikilvægur er í slíku starfi. Margir hafa væntanlega áhuga á þátttöku í prófkjörinu og hið eina rétta að allir sem slíkan áhuga hafi gefi kost á sér.

Saga dagsins
1843 Bókin A Christmas Carol eftir Charles Dickens kom út í fyrsta skipti - ein þekktasta jólasagan.
1982 Lee J. Strasberg lést, áttræður að aldri. Strasberg var fremsti leiklistarkennari Bandaríkjanna á 20. öld og kenndi mörgum af helstu leikurum landsins á öldinni, t.d. Marlon Brando, Robert DeNiro, Geraldine Page, Paul Newman, Al Pacino, Marilyn Monroe, Jane Fonda, James Dean, Dustin Hoffman og Jack Nicholson. Aðeins sjö sinnum lék hann sjálfur hlutverk í kvikmynd. Þeirra þekktast er án vafa hlutverk mafíuhöfðingjans aldna í New York, Hyman Roth, í myndinni The Godfather Part II árið 1974.
1989 Fyrsti þátturinn í teiknimyndaflokknum Simpson-fjölskyldan var sýndur í bandarísku sjónvarpi. Þátturinn gengur enn, nú 15 árum síðar, og er orðinn einn lífseigasti framhaldsþáttur Bandaríkjanna.
1998 Umdeilt frumvarp Ingibjargar Pálmadóttur um gagnagrunn á heilbrigðissviði var samþykkt á Alþingi með 37 atkvæðum gegn 20. Stjórnarandstæðingar sökuðu stjórnina um gerræði í málinu.
2003 Kvikmyndin The Lord of the Rings: The Return of the King, sem var byggð á þriðja og seinasta hluta Hringadróttinssögu eftir J. R. R. Tolkien, frumsýnd í London - hlaut 11 óskarsverðlaun 2004.

Snjallyrðið
Ég man þau jólin, mild og góð
er mjallhvít jörð í ljóma stóð.
Stöfum stjörnum bláum,
frá himni háum
í fjarska kirkjuklukknahljóm.
Ég man þau jól, hinn milda frið
á mínum jólakortum bið
að ævinlega eignist þið
heiða daga, helgan jólafrið.
Stefán Jónsson alþingismaður og skáld (1923-1990) (Hvít jól)

16 desember 2005

Geir Hallgrímsson (1925-1990)

Í dag eru 80 ár liðin frá fæðingu Geirs Hallgrímssonar fyrrum forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins og SUS. Á löngum stjórnmálaferli sínum varð Geir í senn bæði sigursæll leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borgar- og landsmálum og leiddi hann ennfremur á miklum erfiðleikatímum sem mörkuðust bæði af klofningi innan flokksins og áberandi deilum í forystusveit hans á áttunda og níunda áratug 20. aldar. Honum auðnaðist þó að leiða flokkinn út úr þeirri miklu kreppu og skilaði honum heilum af sér við lok formannsferils síns í flokknum og er hann vék af hinu pólitíska sviði. Í ítarlegum pistli á vef SUS í dag fer ég yfir ævi hans og stjórnmálaferil. Jafnan hefur mér þótt mikið til Geirs koma. Ég hef lesið mér mikið til um feril hans og verk hans á vettvangi stjórnmálanna. Skrifaði ég um hann ritgerð eitt sinn, sem þessi grein er að mestu byggð á. Geir hóf stjórnmálaþátttöku ungur og helgaði Sjálfstæðisflokknum krafta sína alla tíð á þeim vettvangi. Stjórnmálaferill hans var lengst af sigursæll, hann var borgarstjóri samfellt í 13 ár og varð forsætisráðherra 1974, eftir glæstasta kosningasigur Sjálfstæðisflokksins.

Eftir tvær kosningar 1978 gjörbreyttist staða Geirs og var ferill hans á næstu fimm árum ein sorgarsaga. Flokkurinn klofnaði vegna stjórnarmyndunar 1980 og óróleiki varð innan hans vegna þess. En Geir sannaði styrk sinn með því að landa málinu með því að sameina brotin við lok formannsferils síns 1983. Það merkilegasta við arfleifð Geirs að mínu mati er það að hann skilaði flokknum heilum og vann verk sín af hógværð og heiðarleika - var heill í verkum sínum. Geir var að mati samherja og andstæðinga í stjórnmálum heilsteyptur stjórnmálamaður sem hugsaði um hagsmuni heildarinnar umfram eigin og stöðu stjórnmálalega séð. Hann var maður hugsjóna og drenglyndis í stjórnmálastarfi. Óháð átökum kom hann fram með drengilegum hætti - talaði opinberlega í ræðu og riti ekki illa um andstæðinga sína, innan flokks og utan. Til dæmis er víða talað um að þrátt fyrir átök rifust hann og Gunnar Thoroddsen aldrei opinberlega. Þrátt fyrir valdabaráttu var tekist á með hætti heiðursmanna. Hann var öflugur á vettvangi stjórnmála - jafnt í meðbyr sem mótbyr.

Það er með þeim hætti sem ég tel að hans verði minnst, bæði af samtíðarmönnum og eins þeim sem síðar lesa stjórnmálasögu 20. aldarinnar og kynna sér persónu og verk Geirs Hallgrímssonar á löngum ferli. Hvet alla lesendur, sem eru áhugamenn um stjórnmál, til að lesa pistil minn.

Heath Ledger og Jake Gyllenhaal í Brokeback Mountain

Í vikunni var tilkynnt um tilnefningar til Golden Globe verðlaunanna, sem verða afhent 16. janúar 2006, í 63. skiptið. Golden Globe eru kvikmynda- og sjónvarpsverðlaun sem erlendir blaðamenn í Hollywood veita ár hvert. Þykir kvikmyndahluti verðlaunanna veita almennt mjög góðar vísbendingar um Óskarinn, sem er afhentur í marsbyrjun. Oftast nær fara þær mjög nærri tilnefningum til Óskarsverðlauna. Kvikmyndin Brokeback Mountain, í leikstjórn Ang Lee, hlaut flestar tilnefningar, sjö alls, tvær fyrir leik, fyrir leikstjórn, auk þess sem hún var tilnefnd sem besta dramatíska kvikmyndin. Kvikmyndirnar Good Night, and Good Luck, Match Point og The Producers hlutu allar fjórar tilnefningar.

Besta dramatíska myndin
Brokeback Mountain
Match Point
Good Night, and Good Luck
The Constant Gardener
A History of Violence

Besta gaman- og söngvamyndin
The Producers
Mrs. Henderson Presents
Pride & Prejudice
The Squid and the Whale
Walk the Line

Tilnefndir sem leikari í dramatískri mynd
Russell Crowe - Cinderella Man
Philip Seymour Hoffman - Capote
Terrence Howard - Hustle & Flow
Heath Ledger - Brokeback Mountain
David Strathairn - Good Night, and Good Luck

Tilnefndar sem leikkona í dramatískri mynd
Maria Bello - A History of Violence
Felicity Hoffman - Transamerica
Gwyneth Paltrow - Proof
Charlize Theron - North County
Ziyi Zhang - Memoirs of a Geisha

Tilnefndir sem leikari í gaman- og söngvamynd
Pierce Brosnan - The Matador
Jeff Daniels - The Squid and the Whale
Johnny Depp - Charlie and the Chocolate Factory
Nathan Lane - The Producers
Cillian Murphy - Breakfast on Pluto
Joaquin Phoenix - Walk the Line

Tilnefndar sem leikkona í gaman- og söngvamynd
Judi Dench - Mrs. Henderson Presents
Keira Knightley - Pride & Prejudice
Laura Linney - The Squid and the Whale
Sarah Jessica Parker - The Family Stone
Reese Witherspoon - Walk the Line


Fjöldi athyglisverðra tilnefninga er þetta árið og stefnir allt í spennandi verðlaunaafhendingu í janúar. Bendi lesendum á að kynna sér tilnefningar til verðlaunanna, en eins og fyrr segir er bæði um kvikmynda- og sjónvarpsverðlaun að ræða. Bendir flest til þess að verðlaunaafhendingin verði jöfn og áhugaverð. Mikla athygli mína, sem og flestallra kvikmyndaáhugamanna, vekur að kvikmyndir á borð við King Kong, Munich og Bewitched hljóta ekki tilnefningu sem besta mynd ársins í sínum flokkum. Spurning hvort að þær verði heppnari er kemur að Óskarnum. Svo er merkilegt að þær myndir sem hljóta tilnefningar eru flestallar gerðar af minni kvikmyndaverunum. Svo virðist sem tími stórmyndanna frá stóru verunum séu á enda - í bili að minnsta kosti. Merkileg breyting - minnir mann á það sem gerðist fyrir ca. tíu árum er gömlu veldin liðu undir lok og önnur komu til sögunnar, t.d. Dreamworks og Miramax. Er erfitt að spá um sigurvegara allavega að þessu sinni.

Sá eini sem er öruggur um að fara heim með styttu í janúar er breski leikarinn Sir Anthony Hopkins. Hann mun hljóta Cecil B. DeMille-heiðursverðlaunin fyrir æviframlag sitt til kvikmynda við þetta tilefni. Verður fróðlegt að fylgjast með afhendingu Gullhnattarins eftir mánuð, en eins og venjulega mun ég fylgjast, sem allmikill kvikmyndaáhugamaður, vel með þessu.

Richard Pryor

Bandaríski gamanleikarinn Richard Pryor lést um síðustu helgi, 65 ára að aldri, eftir erfið veikindi. Hann lést úr hjartaáfalli en hann hafði barist við MS-hrörnunarsjúkdóminn í tvo áratugi. Það er óhætt að segja að Richard Pryor hafi verið einn besti gamanleikari Bandaríkjanna á 20. öld. Sennilega varð hann fyrsti blökkuleikarinn sem sló í gegn fyrir gamanleik og hlaut sess sem slíkur. Hann gerði óhikað grín af litarafti sínu og upprunanum. Sló hann fyrst í gegn sem sviðsgrínisti en hóf leik í kvikmyndum á sjöunda áratugnum. Frægðarsól hans reis hæst á áttunda áratugnum en þá lék hann í fjölda óborganlegra kvikmynda. Var Pryor lengi í uppáhaldi hjá mér og hann er ógleymanlegur fyrir leik sinn, t.d. í Silver Streak, Toy, Lady Sings the Blues, California Suite og Brewster's Millions. Ég hressist alltaf þegar að ég sé seinustu stórmyndina hans, See No Evil, Hear No Evil. Þar fór hann á kostum með félaga sínum, Gene Wilder. Blessuð sé minning Richard Pryor - hann kunni þá snilld að kæta og létta tilveruna. Hann var einstakur gamanleikari.

Sagan af Jesúsi

Þeir eru algjörir snillingar á Baggalúti - segi ég og skrifa. Kíki á Baggalút á hverjum degi. Lögin hafa létt mörgum lundina. Á hverju ári bíðum við svo eftir sykursætu aðventulagi vefsins og vel rokkuðu jólalaginu. Í ár er lagið dísætara en allt sem sætt er. Aðventulagið heitir þetta árið, Sagan af Jesúsi. Alveg stórfenglegt lag - sem allir eru að tala um þessa dagana og flestallir hafa væntanlega í spilaranum sínum í tölvunni. Eins og Baggalútsmenn segja á vefnum er um að ræða lítinn helgileik byggðan á raunverulegum atburðum sem gerðust fyrir mörgum árum í útlöndum. Alveg frábærir - allir að hlusta á lagið. Þeir fáu sem eiga eftir að sækja það endilega drífið í því. Eflaust þekkja allir lagið, en það er Keeping the Dream Alive með Freiheit. Eldgamalt og gott lag sem Baggalútsmenn gera að sínu með glæsilegum hætti. Svo bendi ég á fyrri lög þeirra félaga. Ekki má svo gleyma jólalaginu í ár, Föndurstund. Rokkað og gott lag.

Pabbi

Það er bara rúm vika til jóla. Ég er búinn að skreyta allt og hef skrifað á kortin og keypt alla pakka - nema einn. Klára þetta allt um helgina. Þannig að það verður bara róleg og góð lokavika sýnist mér. Alveg merkilegt að fara í búðirnar þessa dagana og sjá allt stressið og lætin í sumum. Annars finnst mér rólegheitin reyndar meiri nú en sum fyrri jól hér - en víða er mikil örtröð í búðum. Egill Helga afgreiddi þetta með penum og flottum hætti í góðum pistli sem hann flutti á NFS í vikunni. Vonandi að flest fólk hafi lært að forgangsraða almennilega. Pabbi kom í kaffispjall um daginn og tók ég þessa mynd þá. Þarna er hann greinilega að segja frá einhverju skemmtilegu. :)

Saga dagsins
1879 Ingibjörg Einarsdóttir, eiginkona Jóns Sigurðssonar forseta, lést í Kaupmannahöfn, 75 ára að aldri. Hún lést aðeins 9 dögum á eftir Jóni. Ingibjörg og Jón voru jarðsungin í Reykjavík 4. maí 1880.
1916 Framsóknarflokkurinn var stofnaður - flokkurinn var frá upphafi tengdur búnaðarsamtökunum. Fyrsti formaður flokksins var Ólafur Briem, núv. formaður er Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra.
1942 Ríkisstjórn Björns Þórðarsonar, utanþingsstjórnin, tók við völdum - hún sat í tæplega tvö ár.
1984 Mikhail Gorbachev síðar leiðtogi Sovétríkjanna, kemur til London og á viðræður við Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands - viðræðurnar þóttu takast vel og bötnuðu samskipti landanna.
1989 Uppreisn stjórnarandstöðunnar í Rúmeníu hefst formlega - hún leiddi til falls stjórnar landsins.

Snjallyrðið
Það dimmir og hljóðnar í Davíðsborg,
í dvala sig strætin þagga.
Í bæn hlýtur svölun brotleg sál
frá brunni himneskra dagga.
Öll jörðin er sveipuð jólasnjó
og jatan er ungbarns vagga.

Og stjarna skín gegnum skýjahjúp
með skærum lýsandi bjarma.
Og inn í fjárhúsið birtan berst
og barnið réttir út arma,
en móðirin, sælasti svanni heims
hún sefur með bros um hvarma.

Og hjarðmaður birtist, um húsið allt
ber höfga reykelsisangan.
Í huga flytur hann himni þökk
og hjalar við reifarstrangann.
Svo gerir hann krossmark, krýpur fram
og kyssir barnið á vangann.
Kristján frá Djúpalæk skáld (1916-1994) (Hin fyrstu jól)