Kvikmyndaskoðun ríkisins lögð niður
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, hefur lagt fram á þingi frumvarp um að leggja niður Kvikmyndaskoðun ríkisins. Í kjölfar þess verður það í valdi útgefenda kvikmynda, tölvuleikja og sjónvarpsefnis að meta hvort efnið sé heppilegt fyrir börn undir 16 ára aldri. Það er svo sannarlega gleðiefni að þetta skref sé stigið. Er enda enginn vafi á því að núverandi fyrirkomulag beri öll einkenni ritskoðunar. Eins og flestir vita hafa tveir fyrrum menntamálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins talað fyrir því að þetta skref yrði stigið en ekki náðist þá samstaða. Björn Bjarnason talaði fyrstur menntamálaráðherra flokksins fyrir málinu og vék að því í pistli á vef sínum árið 2001. Það kom í hlut eftirmanns Björns, Tómasar Inga Olrich, að fylgja málinu eftir í kjölfar ráðherraskipta í menntamálaráðuneytinu í marsbyrjun 2002. Lagði Tómas Ingi fram frumvarp þessa efnis skömmu eftir að hann tók til starfa sem ráðherra.
Í greinargerð með frumvarpi Tómasar Inga Olrich árið 2002 var vísað til þess að vernd skoðanafrelsis og tjáningarfrelsis hefðu verið styrkt í sessi hér á landi með heildarendurskoðun á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar árið 1995. Þar sagði: "Samkvæmt viðurkenndri skýringu á 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, nær vernd tjáningarfrelsis nú til hvers konar tjáningar án tillits til efnis og þess forms, sem tjáning birtist í. Meðal annars nær vernd tjáningarfrelsis til kvikmynda." Þá kom ennfremur fram að önnur ástæða fyrir flutningi frumvarpsins hafi verið að sú almenna stefna sem mörkuð hafi verið að opinber eftirlitsstarfsemi sé ekki umfangsmeiri en þörf sé á. Með frumvarpinu fylgdu tveir samningar sem fylgiskjöl. Fyrri samningurinn var á milli Félags kvikmyndahúsaeigenda og SMÁÍS - samtaka myndbandarétthafa en sá síðarnefndi á milli fjölmiðlarisanna á ljósvakamarkaði, Ríkisútvarpsins og Norðurljósa. Var frumvarp Tómasar Inga mjög umfangsmikið og mikil vinna lögð í það.
En frumvarpið fór ekki í gegn fyrir lok ráðherraferils Tómasar Inga. Samstaða náðist ekki endanlega milli stjórnarflokkanna um afgreiðslu þess og það dagaði því miður uppi. Í kjölfar þess að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók við ráðherraembætti fór vinnan af stað aftur og hefur hún nú skilað því að frumvarp liggur fyrir og samstaða um að það verði að lögum með fljótvirkum hætti. Ætti að geta náðst þverpólitísk samstaða vonandi um þessa stöðu mála, enda vandséð hver vill halda lífinu í ritskoðunarbákni eins og Kvikmyndaskoðun ríkisins. Verður reyndar fróðlegt að fylgjast með tali stjórnarandstöðunnar um þetta mál og hvort þar séu einhverjir þeir afturhaldssinnar til sem vilja hafa uppi óbreytt kerfi í þessum efnum. Enginn vafi er á því að þetta frumvarp er gleðiefni fyrir okkur í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Við höfum til fjölda ára barist fyrir því að þessi breyting verði samþykkt og við höfum margoft ályktað um það.
Í dag sendi stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna frá sér eftirfarandi ályktun um málið: "Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna fagnar framkomnu frumvarpi menntamálaráðherra um að leggja niður Kvikmyndaskoðun og aflétta þannig ritskoðun af hálfu hins opinbera á kvikmyndum. SUS fagnar sérstaklega því viðhorfi sem fram kemur í frumvarpinu að opinber eftirlitsstarfsemi skuli ekki vera umfangsmeiri en þörf er á. Með frumvarpinu er leitast við að minnka hið opinbera bákn, dregið er úr forræðishyggju, almenningi er gefið aukið frelsi í eigin málum og grundvallarmannréttindi einstaklingsins eru virt. Sambærilegt frumvarp var lagt fram af þáverandi menntamálaráðherra vorið 2002 en náði ekki fram að ganga. SUS skorar eindregið á þingmenn að veita frumvarpinu brautargengi að þessu sinni."
Þessi ályktun er mjög öflug og góð og tjáir vel skoðanir mínar á málinu. Hef ég lengi verið mjög afgerandi þeirrar skoðunar í starfinu innan SUS að þessi breyting verði gerð á. Við í SUS gleðjumst auðvitað yfir því að þessi áfangi hafi náðst og samkomulag liggi fyrir um afgreiðslu frumvarpsins á milli stjórnarflokkanna. Sjálfsagt er að hrósa Þorgerði Katrínu fyrir að leggja frumvarpið fram.
<< Heim