Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 apríl 2006

Umfjöllun um kosningarnar hafin á fullu

NFS

Það styttist óðum í sveitarstjórnarkosningar. Þær verða í lok næsta mánaðar, laugardaginn 27. maí - 53 dagar eru því til kosninga. Utankjörfundarkosning er þegar hafin, hófst formlega á mánudaginn. Lokaundirbúningsvinna kosningabaráttunnar á sér stað þessa dagana - framboðslistar eru á flestum stöðum þegar tilbúnir og helstu áherslur liggja fyrir á flestum stöðum. Þó er enn rúmur mánuður eftir af framboðsfrestinum og verður ekki ljóst endanlega fyrr en þann 6. maí hversu mörg framboð verði í framboði í sveitarfélögum landsins. Það blasir við auðvitað nú þegar að lykilbaráttan hefst vart fyrr en eftir páskahátíðina og því verði mesta púðrið í baráttunni seinustu 40 dagana, en þann 18. apríl eru 40 dagar til kosninga. Nú fer að styttast í að staða mála í kosningabaráttunni verði sýnilegri á stöðu mála utan Reykjavíkur, þar sem búist er við mestu átökunum um völdin og reyndar má segja að krafturinn hafi verið mestur fram að þessu í kosningaslagnum í borginni.

Það styttist ennfremur nú í að við fáum að sjá skoðanakannanir í sveitarfélögunum utan Reykjavíkur. Eins og við er að búast finnst mér sérstaklega fróðlegt að sjá kannanir á stöðu mála hér á Akureyri. Ég lenti nýlega í könnun Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri á fylgi flokkanna hér í bæ og bíð því spenntur eftir að sjá könnunina. Væntanlega kemur hún á næstu dögum. Verður mjög athyglisvert að sjá þar helstu stöðu mála eins og hún er nú eftir prófkjörin en öll fimm framboðin sem náðu kjöri í bæjarstjórn í sveitarstjórnarkosningunum árið 2002 hafa gengið frá framboðslistum sínum og stutt í að málefnaskrár allra framboða liggi fyrir og með því hefjist formleg kosningabarátta. Hefð er fyrir því hér og almennt á landsbyggðinni að kosningabaráttan sé stutt og snörp og taki fljótt af. Hefjist rétt rúmum mánuði fyrir kosningar og sé tekin með miklum krafti undir það síðasta. Það er reyndar fátt sem jafnast á við það að vinna undir álagi og vera í þessu brasi frá morgni fram á kvöld.

Í kvöld hófst formlega kosningaumfjöllun NFS með borgarafundi á Akranesi og kynningu á þeim framboðum sem þegar hafa gengið frá skipan á framboðslista sína. Fannst mér mjög áhugavert að kynna mér pólitíkina á Skaganum og ekki var verra að sjá skoðanakönnun á fylgi flokkanna en þar mælist Sjálfstæðisflokkurinn langstærstur og mjög nærri hreinum meirihluta. Var fínt að heyra staðreyndir um stöðu mála í bænum og kynna sér kosningabaráttuna þar og væntanlega átakapunkta baráttunnar. Er greinilegt að mikill metnaður er lagður í kosningaumfjöllun NFS. Það er tekið á málefnum stærstu sveitarfélaganna og farið yfir lykilpunkta á hverjum stað. Jafnframt er svo kynnt ný skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun hefur gert í hverju sveitarfélagi. Mjög áhugaverður pakki og verður spennandi að fylgjast með þessu.

Hef heyrt í dag talað um óánægju víða með hversu snemma NFS fer af stað. Það er ekkert undrunarefni að þeir fari af stað. Það eru 50 dagar til kosninga og baráttan er komin á fullt og utankjörfundarkosning hafin. Flestir eru eins og fyrr segir komnir með lista og hafi þeir ekki komið fram eru menn að klára þetta fyrir páska. Það geta enda varla verið mörg framboð sem bíða með listaskipan fram yfir páskana. Seinustu 40 dagarnir verða aðalbaráttan eins og fyrr segir - dagarnir eftir páskahátíðina. Annars líst mér eins og fyrr segir vel á umfjöllun NFS og verður áhugavert að kynna sér pólitíkina í landsbyggðarsveitarfélögunum næstu vikurnar.