Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 október 2002

Spennandi prófkjör - ungliðar gefa kost á sér
Í grein minni um prófkjör Sjálfstæðisflokksins sem birtist í dag á heimasíðu Heimdallar, fjalla ég um þá staðreynd að af þeim 17 sem gefa kost á sér eru 6 einstaklingar úr SUS, ungliðahreyfingu flokksins. Það er mikið ánægjuefni, sérstaklega að þrír formenn SUS gefi kost á sér, núverandi formaður og tveir fyrrverandi formenn. Ég þekki Guðlaug Þór Þórðarson, Sigurð Kára Kristjánsson og Ingva Hrafn Óskarsson af góðu einu og vona að þeim gangi vel í þessum slag. Sem ungur sjálfstæðismaður fagna ég sérstaklega framboði þeirra og vona að þeir nái góðum árangri. Gulli var á árum áður formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, þess góða félags sem ég er í og sit í stjórn nú. Hann hefur sannað að hann er traustsins verður. Hefur staðið sig vel í borgarstjórn og er umfram allt málefnalegur og trúr sannfæringu sinni. Sama má vissulega segja um Ingva Hrafn og Sigurð Kára. Það er mjög gott að tvær ungar konur fari í framboð og vona ég sérstaklega að Soffíu Kristínu Þórðardóttur gangi vel í þessum slag. Ljóst er að helstu sóknarfæri ungs fólks til að ná kjöri við komandi kosningar er í Reykjavíkurkjördæmunum og Suðvesturkjördæmi, enda mun þingsætum þessara kjördæma fjölga vegna nýrrar kjördæmaskipunar. Á landsbyggðinni mun þingsætum hinsvegar fækka og sitjandi þingmenn flokksins þar hyggja allir á endurkjör og berjast um færri örugg þingsæti en áður og því sýnilegt að lítil endurnýjun verður þar við þessar kosningar. Því er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn og stuðningsmenn hans á höfuðborgarsvæðinu notfæri sér þetta gullna tækifæri og tryggi að ungt fólki verði í þeim sætum sem barist verður um í vor. Ég hvet félaga mína í Heimdalli og alla sjálfstæðismenn í borginni til að tryggja að ungt fólk nái góðum árangri í þessum slag. Hæfileikaríkt ungt fólk þarf að ná góðum árangri í þessum slag.

Hafið tilnefnd til 12 Edduverðlauna
Í dag var tilkynnt um tilnefningar til Edduverðlaunanna, íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunanna 2002. Margt kemur á óvart þegar litið er yfir tilnefningarnar og sumt ekki. Kvikmynd Baltasar Kormáks, Hafið er tilnefnd til alls 12 verðlauna, þ.á.m. sem besta kvikmyndin og fyrir leik í aðal- og aukahlutverkum karla og kvenna. Er um frábæra kvikmynd að ræða og spái ég því að hún hljóti öll helstu verðlaunin þegar Eddan verður afhent 10. nóvember nk. Ég skrifaði umfjöllun um myndina í kjölfar þess að ég sá hana í september. Ég hvet ykkur til að líta á heimasíðu myndarinnar og lesa umfjöllun mína um myndina.

30 október 2002

Athyglisvert viðtal við menntamálaráðherra
Í Stúdentablaðinu í dag er að finna athyglisvert viðtal Eggerts Þórs Aðalsteinssonar við Tómas Inga Olrich menntamálaráðherra. Í þessu viðtali fer Tómas yfir pólitíkina á kosningavetri, ræðir um mennta- og menningarmálin, um málefni RÚV, Áslandsskóla, málefni Þorfinns Ómarssonar, utanríkismál og margt fleira mætti nefna. Ég hvet alla áhugamenn um pólitík til að lesa þetta viðtal Eggerts við Tómas Inga.

Skondin póstkosning Samfylkingarinnar
Mikið hefur verið rætt í vikunni um póstkosningu Samfylkingarinnar um Evrópumál þar sem flokkurinn mótaði stefnu sína í þeim efnum fyrir komandi þingkosningar. Eru deildar meiningar um úrslitin. Sérstaklega var athyglisvert að heyra forystu flokksins og formanninn hreykja sér af niðurstöðum kosninganna og tala um þau sem mikil tímamót. Það sem mér þykir athyglisverðast er að mikill minnihluti flokksmanna kemur að því að móta stefnuna og einungis 31% þeirra tók afstöðu í þessari kosningu. 69% ákváðu að senda ekki kjörgögnin til baka og lét sér þetta í engu skipta, þetta var greinilega ekki þeirra hjartans mál. Ég fjalla um þessi mál í vikulegri grein minni á heimasíðu Stefnis.

Harður prófkjörsslagur í Norðvesturkjördæmi
Framundan er spennandi prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi þar sem 10 frambærilegir einstaklingar sækjast eftir föstum þingsætum, þ.á.m. fimm sitjandi þingmenn flokksins í þeim þrem kjördæmum sem nú mynda hið nýja kjördæmi. Hafa ásakanir gengið manna á millum um að vissir þingmenn hafi myndað bandalög sín á milli til að tryggja sér betra gengi í þessum slag. Slíkt fylgir ávallt slíkum baráttum og ekki óeðlilegt svosem að hiti sé í leiknum meðan hæst stendur. Mikilvægast er þó að menn séu sáttir með niðurstöðuna eftirá og niðurstaðan verði sigurstranglegur listi flokksins í þessu stóra kjördæmi. Einn ungliði gaf kost á sér í prófkjörinu, Skjöldur Orri Skjaldarson. Ég vona að honum gangi vel og að almennt muni ungt fólk verða sýnilegt í þeirri kosningabaráttu sem senn hefst. Ennfremur verða spennandi prófkjör hjá Samfylkingunni sama dag og Sjálfstæðismenn velja frambjóðendur sína í Norðvesturkjördæmi. Það er ljóst að 9. nóvember verður athyglisverður dagur í pólitíkinni, þá verða fimm prófkjör sem skipta sköpum fyrir flokkana. Spennan magnast og athyglisvert að fylgjast með seinustu dögum prófkjörsslagsins. Svo styttist óðum í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í borginni. Nóvembermánuður verður athyglisverður fyrir okkur fréttafíklana og alla þá sem fylgjast almennt með pólitíkinni af áhuga.

29 október 2002

Athyglisverð umræða um sjávarútvegsráðherra
Í gær var Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra, dæmdur í héraðsdómi fyrir meiðyrði. Var ekki langt liðið frá dómsuppkvaðningu þegar vissir aðilar voru farnir að krefjast afsagnar hans á Innherjavef visir.is. Því fer víðsfjarri að ráðherrann verði að víkja sem ráðherra eða þingmaður vegna þessa dóms. Þetta hefur engin áhrif á kjörgengi hans við komandi kosningar eða ráðherrastörf hans. Það er ekkert í lögum sem segir að hann verði að víkja nema meirihluti þingmanna á Alþingi Íslendinga samþykki að rifta þinghelgi hans eða þá að ráðherrann verði dæmdur í varðhald, fjóra mánuði eða meira. Árið 1976 var Ólafur Jóhannesson þáv. dómsmálaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, dæmdur fyrir meiðyrði í héraðsdómi. Hann sat áfram á þingi og greiddi sekt og ákvað að áfrýja ekki. Hann var forsætisráðherra 1978-1979 og utanríkisráðherra í ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens, 1980-1983. Því er ljóst að sjávarútvegsráðherrann þarf ekki að víkja nema til komi fangelsisdómur eða riftun þinghelgi hans.

Félagsvísinda- og lagadeild við Háskólann á Akureyri
Merk tímamót urðu í 15 ára sögu Háskólans á Akureyri í gær. Þá samþykkti háskólaráð skólans á 200. fundi sínum, stofnun nýrrar deildar, félagsvísinda- og lagadeildar, við háskólann. Nám í deildinni mun hefjast haustið 2003. Sérstakir heiðursgestir á fundinum voru Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra, Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, Eiríkur Tómasson, deildarforseti lagadeildar HÍ og Ólafur Þ. Harðarson, deildarforseti félagsvísindadeildar HÍ. Í ávarpi sem menntamálaráðherra flutti í tilefni dagsins kom fram að hann teldi æskilegt að Félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri legði áherslu á að draga fram sérstöðu Íslands í námsframboði sínu og jafnframt mynda öflug tengsl við atvinnulífið. Undir þetta tóku rektor HÍ sem og deildarforsetar lagadeildar og félagsvísindadeildar HÍ. Gert er ráð fyrir þessu í tillögum frá undirbúningshópum þar sem lagt er til að sérstök áhersla verði lögð á samfélagslegt notagildi námsins án þess þó að slegið sé af akademískum kröfum. Þessum áfanga ber að fagna, enda Háskólinn stór partur af bæjarlífinu og mjög mikilvægur. Vegi hann vaxa og dafna á komandi árum.

Spennandi kosningar - athyglisverð grein
Fyrir rúmum mánuði hóf ég að skrifa greinar á vefrit Heimdallar. Skrifa þar tvær greinar á mánuði og hafa þar birst þrjár greinar eftir mig til þessa, í vikunni er von á þeirri fjórðu. Þann 5. nóvember ganga Bandaríkjamenn að kjörborðinu og kjósa sér nýja fulltrúadeild og kjósa um þriðjung af öldungardeildinni. Einnig verður kosið um 36 ríkisstjóraembætti að ótöldum öðrum embættum innan fylkjanna. Í ítarlegri og einkar fróðlegri grein á frelsi.is veltir Hrefna Ástmarsdóttir fyrir sér komandi kosningum vestanhafs og spáir t.d. í stöðu George W. Bush forseta Bandaríkjanna, nú þegar kjörtímabil hans er um það bil hálfnað og hvort hann muni áfram þurfa að búa við meirihluta Demókrata í öldungadeildinni eða hvort Repúblikanar nái þar völdum á ný. Hvet alla áhugamenn um stjórnmál til að lesa þessa grein Hrefnu.

28 október 2002

Leitað að lýðræðinu í póstinum - athyglisverð niðurstaða
Það er sennilega alveg óhætt að segja að niðurstöður skoðanakönnunar Samfylkingarinnar hafi ekki komið á óvart, enda fyrir löngu búið að móta stefnuna í Evrópumálum af forystu flokksins. Öll framkvæmd kosningarinnar og skipulag hennar miðaði að því að þessi yrði niðurstaðan og reynt að koma ESB-málinu í gegnum flokkinn. Flokkurinn stóð fyrir kynningarfundum um allt land til að boða þennan mikla Evrópufögnuð sem er sjáanlegur í öllum málflutningi forystumanna hans. Flokkurinn ákvað að fara lýðræðislegu leiðina eða svo var sagt. Allir flokksmenn áttu að fá að kjósa í þessu máli og niðurstöðurnar áttu að endurspegla að flokkurinn væri lýðræðislegur og opinn í gegn. Niðurstaðan sannar hinsvegar allt annað en stefnt var að. Rúmlega 2000 flokksmenn taka undir með forystunni og segja já við spurningunum sem mér þykja vera skoðanamyndandi. Rúmlega 400 segja nei. Það athyglisverðasta er hinsvegar að af rúmlega 8000 manns sem fengu kjörgögn send heim senda einungis rúmlega 2500 þau til baka útfyllt. Stór hluti flokksmanna (65-70%) tekur því ekki afstöðu og sýnir engan áhuga og telur í raun þetta óþarft brölt hjá forystu flokksins. Þetta þykir mér vera athyglisverðasta niðurstaðan. Meirihluti flokksmanna segir ekki skoðun sína og hefur engan áhuga á því að taka undir skoðanir forystunnar. Það er hinn háværi minnihluti sem keyrir þetta mál í gegnum flokkinn og gerir það að stefnu sinni. Þetta sannar að könnunin er ekki eins lýðræðisleg og lagt var upp með. Ég er algjörlega sammála félaga mínum, Valdimar Agnari Valdimarssyni sem skrifar mjög athyglisverða grein á Íslending, heimasíðu flokksins á Akureyri. Hann hefur mikið skrifað um Evrópumálin á síðuna og höfum við greinilega alveg sömu skoðanirnar í Evrópumálum. Sjálfstæðisflokkurinn mótar skoðanir sínar og afstöðu á fjölmennum landsfundum þar sem rúmlega 1200 flokksmenn af öllu landinu mæta, þverskurður af öllum þeim mikla fjölda fólks sem í flokknum er. Þar á stefnan að vera tekin og afstaða að mótast til slíkra mála. Það er mitt mat og afstaða mín eftir að hafa kynnst þessum vinnubrögðum hjá Samfylkingunni.

Skemmtileg helgi - blankheit í borginni
Á laugardaginn átti einn í fjölskyldunni stórafmæli og var skemmtileg veisla í tilefni þess. Á laugardagskvöldið komum við svo saman í föðurfjölskyldu minni hjá Hönnu ömmu, hér á Akureyri og áttum saman góða stund og borðuðum saman gott lambalæri, en nokkuð langt er um liðið síðan hópurinn hittist allur á sama staðnum, og löngu tímabært. Horfðum t.d. á Gísla Martein og góðan þátt hans. Sérstaka athygli mína vakti hvað Trausti veðurfræðingur er innilega fúllyndur maður og mér fannst hann ekki passa í kompaníið með feðgunum Guðna og Hilmi Snæ. Félagarnir í Ríó Tríó tóku lagið eins og þeim einum er lagið. Svo var mikið hlegið yfir Spaugstofunni. Skal fúslega viðurkenna að ég hef sennilega aldrei hlegið eins mikið og þegar ég sá Karl Ágúst Úlfsson í hlutverki borgarstýrunnar í Blankheit í borginni sem var í þessum leikþætti búin að afreka að setja Orkuveituna á hausinn. Karl fær hrós vikunnar hjá mér fyrir að ná borgarstjóranum með afbrigðum vel. Svo var aldeilis gert grín af kirkjunni og biskupinn var tekinn heldur betur í gegn og þjóðkirkjan sem er farin að huga að lögskilnaði, svo voru menn auðvitað teknir á teppið. Að þessu sjónvarpsglápi loknu var mikið spjallað yfir kaffibolla um landsins gagn og nauðsynjar og pólitíkin bar mjög á góma. Í kjölfarið horfðum við á frábæra bíómynd. Ég á í veglegu kvikmyndasafni mínu stórmyndina North by Northwest og horfðum við á hana. Þegar heim kom horfðum ég og nokkrir frændur mínir á spennutryllinn The Silence of the Lambs. Frábær mynd sem er alltaf jafn spennandi. Í gær skellti ég mér til Dalvíkur í brúðkaup vinar míns og kærustu hans, en þau voru loksins að gifta sig eftir langa sambúð. Semsagt; skemmtileg helgi hjá mér.

Elínu Hirst sem fréttastjóra
Í dag var tilkynnt að 7 einstaklingar hefðu sótt um stöðu fréttastjóra Ríkissjónvarpsins, en umsóknarfrestur um starfið rann út í gær. Meðal þessara sjö umsækjenda er Elín Hirst varafréttastjóri Sjónvarpsins. Það er mitt mat að hún sé hæfust þessara umsækjenda. Hún hefur verið stjórnandi á tveim fréttastofum og á að baki tveggja áratuga glæsilegan fréttamannsferil. Vann á DV 1984-1986, en þá hóf hún störf á Bylgjunni og var í hópi fyrstu fréttamanna stöðvarinnar. Árið 1988 varð Elín fréttamaður á Stöð 2 og ári síðar varð hún varafréttastjóri þar. Árið 1994 varð hún fréttastjóri stöðvarinnar og gegndi því starfi í tvö ár, eða til ársins 1996. Þá varð hún fréttastjóri DV. 1997 hóf hún störf hjá fréttastofu Sjónvarps og varð varafréttastjóri þar árið 1999. Ég tel því að hún sé hæfust umsækjendanna og eigi að fá þetta starf. Í hennar tilfelli fer saman langur ferill að fréttamennsku og stjórnunarreynsla í þessum bransa. Hún er traustsins verð og myndi sóma sér vel á fréttastjórastóli. Ég vona að hún njóti sannmælis og fái starfið.

27 október 2002

Mál- og fundafrelsi forsætisráðherra - ómálefnaleiki vinstrimanna
Í vikulegum pistli á heimasíðu sinni ræðir Björn Bjarnason, alþingismaður og leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins um prófkjör Sjálfstæðisflokksins í borginni, stjórnsýslu í Háskóla Íslands og jafnframt mál- og fundafrelsi forsætisráðherra. Hann setur fram svipaðar skoðanir og fram komu í grein minni í síðustu viku, en þar segi ég hreint út að umræða liðinnar viku fjalli í raun ekki um neitt nema þá hvort forsætisráðherrann hafi frelsi til að hitta þá sem hann vill eða tala við þá. Þetta er því með ólíkindum og sett fram til að reyna að grafa undan pólitískri stöðu Davíðs. Það hefur ekki tekist, enda byggist umræðan á upplognum sökum og ómálefnalegum persónuárásum vinstrimanna. Það liggur fyrir að forsætisráðherra hefur ekkert af sér gert eða staðið að neinni árás að þeim aðilum sem rætt er um. Þeir sem hæst tala geta hvorki sannað málflutning sinn eða beitt trúverðugleika í þessu máli, málflutningur þeirra er byggður á veikum grunni. Í staðinn er beitt lygum og ómerkilegheitum til að ráðast að persónu Davíðs Oddssonar. Það hefur löngum verið siður vinstrimanna að ráðast að persónu pólitískra andstæðinga sinna með ómálefnalegum hætti og þetta því engin undantekning þar á. Fyrr í haust býsnuðust vinstrimenn yfir því að forsætisráðherrann opinberaði skoðanir sínar og tjáði þær tæpitungulaust í viðtalsþætti á Stöð 2. Það var hægt að skilja málflutning þeirra á þann hátt sem svo að hann ætti bara að sitja með hendur í skauti og hvorki tjá sig né láta í sér heyra. Það er ekki óeðlilegt. Vinstrimenn eru greinilega dauðhræddir við Davíð Oddsson og vinsældir hans meðal þjóðarinnar og feril hans í landsmálum seinasta áratuginn. Því er þetta skiljanlegt en jafnframt ómerkilegt allt saman.

Spennandi prófkjör í borginni
Nú þegar liggur fyrir að 17 hæfileikaríkir einstaklingar hafi tilkynnt þátttöku sína í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í borgarkjördæmunum tveim, er ljóst að framundan er spennandi og athyglisvert prófkjör. Hvort nýliðum tekst að fella sitjandi þingmenn eða hvort þeir halda allir velli verður gaman að fylgjast með og má búast við því að þetta verði kraftmikill slagur. Þó er athyglisvert að flestir frambjóðendurnir hafa ráðið ungt fólk sem kosningastjóra sína. Björn Bjarnason valdi Hafstein Þór Hauksson, félaga minn úr SUS, sem kosningastjóra sinn og er ég ánægður með það val hjá honum. Hafsteinn er traustur og fínn strákur og mun stjórna baráttu hans af krafti. Halldór Karl stjórnar baráttu Ingva Hrafns Óskarssonar, Kjartan Vídó stjórnar kosningabaráttu Sólveigar Pétursdóttur, Haukur Þór stjórnar baráttu Sigurðar Kára, Jón Hákon verður hjá Birgi Ármannssyni, Sigþrúður Ármann stjórnar baráttu Ástu Möller og svona mætti lengi telja. Þetta verður áhugavert prófkjör og spennandi að sjá hvernig þetta fer að lokum.

26 október 2002

Vettvangspistill Björns - ómerkilegheit Alfreðs
Í Morgunblaðinu í dag birtist eins og alla aðra laugardaga, Vettvangspistill Björns Bjarnasonar, alþingismanns og leiðtoga borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Í dag fjallar Björn um málefni Landsbankans í kjölfar þess að ríkið seldi hlut sinn í bankanum, málefni Orkuveitu Reykjavíkur og tengsl þess við Línu.Net og hörmungarsögu þess fyrirtækis sem ekki sér fyrir endann á. Þessar vettvangsgreinar Björns eru skemmtilegar til lestrar og fræðandi og bera þess glögglega merki að hann kynnir sér málin ofan í kjölinn og tjáir sig af þekkingu á málunum. Málefnalegri stjórnmálamann og heiðarlegri er vart hægt að finna en Björn að mínu mati á Íslandi. Algjör andstæða hans er Alfreð Þorsteinsson, hinn ómálefnalegi forystumaður R-listans á vettvangi Orkuveitunnar. Alfreð er með ómerkilegri mönnum á íslenskum stjórnmálavettvangi. Hann hefur í gegnum tíðina komist upp með það að rífa kjaft á prenti með þeim hætti, að fólk treystir sér ekki til að svara honum. Í dag svarar Björn í Morgunblaðinu, fullyrðingum Alfreðs frá því fyrr í vikunni sem er að líða. Alfreð er óútreiknanlegur maður og beitir öllum brögðum til að klóra í bakkann og hikar ekki við að beita ósannindum. Reykvíkingar sýndu í verki á kjördag að þeir treysta ekki þessum manni en hann er engu að síður þungamiðjan í R-listanum og einn valdamesti maðurinn í borgarkerfinu. Er dapurlegt að Reykvíkingar skyldu hafa fest Alfreð í sessi með atkvæði sínu 25. maí sl.

Ómótstæðileg mafíumynd með frábærum leikurum
Fór í gærkvöldi í bíó og sá spennumyndina Road to Perdition, magnaða mafíumynd þar sem Tom Hanks og Paul Newman fara alveg á kostum. Sérstaklega er gamla brýnið Newman að standa sig vel og þykir mér mjög líklegt að hann verði tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir leik sinn, gott ef ekki bæði hann og Hanks. Þessi mynd er bæði æsispennandi og frábærlega leikin af sannkölluðum leiksnillingum. Skrifaði umfjöllun um myndina á kvikmyndir.is í kjölfar þess að hafa séð myndina. Skömmu eftir að heim var komið var svo farið að horfa á imbann og bar vel í veiði. Í ríkiskassanum var eðalræman Little Big Man þar sem Dustin Hoffman fer algjörlega á kostum. Góð mynd og vel leikin. Á sunnudaginn verður ein af mínum uppáhaldsmyndum sýnd hjá RÚV. Casablanca er sannkölluð klassamynd frá 1942 og skartar eilífðartöffaranum Humphrey Bogart og Ingrid Bergman í aðalhlutverki. Ómissandi fyrir alla kvikmyndafíkla. Þar sem ég er einn slíkur er garenterað að ég sitji fyrir framan Sjónvarpið á sunnudagskvöldið og njóti þess að hlusta á As Time Goes By í enn eitt skiptið. Besta kvikmynd 20. aldarinnar að mínu mati.

25 október 2002

Leiðtogamál flokksins í borginni
Nú liggur nokkuð ljóst fyrir að Davíð Oddsson og Geir H. Haarde muni leiða framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum. Björn Bjarnason hefur ákveðið að sækjast ekki eftir leiðtogastólnum í borginni, en fókuserar sig þess í stað á forystu í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins og þingmennsku fyrir borgarbúa á komandi árum. Ég er sammála Birni að með því sé hagsmunum borgarbúa í raun best borgið. Svo er engin þörf fyrir valdabaráttu innan Sjálfstæðisflokksins í þessu prófkjöri. Það er kosið um valdasæti á landsfundi en ekki í þessu prófkjöri. Mér finnst rétt af Birni að fókusera sig á borgarmálin, enda mun hann að öllu óbreyttu leiða flokkinn á komandi árum og stefnir að öllum líkindum að framboði árið 2006.

Glæsilegur fréttavefur Norðausturkjördæmis
Í dag opnaði nýr og glæsilegur fréttavefur sem er ætlaður fyrir hið nýja Norðausturkjördæmi. Eru þetta mjög góð tíðindi og í raun nauðsynlegt að þetta nýja kjördæmi hafi slíkan vef og upplýsingavettvang. Í tilefni dagsins skrifuðu Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri hér á Akureyri og Guðmundur Bjarnason bæjarstjóri í Fjarðabyggð, fyrstu fréttirnar á síðuna. Kristján Þór skrifaði frétt um vinsældir heimasíðu Akureyrarbæjar, en samkvæmt vefmælingum Modernus er síða bæjarins vinsælasta heimasíða íslenskra sveitarfélaga. Fréttavefur Norðausturkjördæmis er þarft framtak, þeir sem að því standa eiga skilið miklar þakkir fyrir þessa snjöllu hugmynd. Megi vefurinn vaxa og dafna.

Umsátursástandinu í Washington lokið
Svo virðist vera sem umsátri leyniskyttnanna í Washington sé lokið. Í gær voru handteknir tveir menn grunaðir um að hafa myrt 10 manns og sært tvo á seinustu þrem vikum. Í gærkvöldi var svo staðfest að skotvopn sem fundist hafði í fórum þeirra væri vopnið sem notað hefði verið til að skjóta á fólkið. Það er mikill léttur að þessu ástandi skuli vera lokið. Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með ástandinu í Washington, enda fólk vart þorað að vera utan dyra af ótta við árásir leyniskyttunnar. Ég hef fylgst nokkuð vel með fréttaflutningi af þessu máli seinustu vikurnar á fréttavef CNN, en sá vefur er með allra bestu fréttavefjum nútímans og er þar að finna ferskar fréttir og góða umfjöllun um það sem hæst ber.

Góð grein Ingvars Péturs - áfram Drífa!
Í dag birtist í Morgunblaðinu grein eftir félaga minn, Ingvar Pétur Guðbjörnsson, formann Fjölnis, þar sem hann skrifar til stuðnings Drífu Hjartardóttur alþingismanni og leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi. Góð grein hjá Ingvari og mjög mikilvægt að hann komi þessari skoðun sinni á framfæri. Ég er honum sammála, ég tel að það yrði flokknum fyrir bestu að Drífa leiddi flokkinn í Suðurkjördæmi.

24 október 2002

Spennandi prófkjör - 17 í framboði
Kl. 17:00 í dag rann út frestur til að skila inn framboðum vegna prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum, 22. og 23. nóvember nk. 17 eru í framboði, þ.á.m. allir þingmenn flokksins og auk þeirra bjóða sig fram fjöldi nýliða. Þau sem gáfu kost á sér eru eftirtaldir:

Ásta Möller, alþingismaður
Birgir Ármannsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Verslunarráðs
Björn Bjarnason, alþingismaður, borgarfulltrúi og fyrrv. menntamálaráðherra
Davíð Oddsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins
Geir H. Haarde, fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins
Guðlaugur Þór Þórðarson, borgarfulltrúi og fyrrv. formaður SUS
Guðmundur Hallvarðsson, alþingismaður
Guðrún Inga Ingólfsdóttir, hagfræðingur
Ingvi Hrafn Óskarsson, formaður SUS og aðstoðarmaður dómsmálaráðherra
Katrín Fjeldsted, alþingismaður
Lára Margrét Ragnarsdóttir, alþingismaður
Pétur H. Blöndal, alþingismaður
Sigurður Kári Kristjánsson, lögfræðingur og fyrrv. formaður SUS
Soffía Kristín Þórðardóttir, þjónustustjóri
Sólveig Pétursdóttir, dómsmálaráðherra
Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur
Vernharð Guðnason, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna

Það er því ljóst að prófkjörið verður spennandi og nýliðar sækja að þingmönnum flokksins. Í dag var tilkynnt að landsfundur Sjálfstæðisflokksins yrði haldinn dagana 27. - 30. mars á næsta ári, sá 35. í röðinni. Seinasti landsfundur var haldinn 11. - 14. október 2001. Framundan eru spennandi tímar fyrir Sjálfstæðisflokkinn - kraftmikill kosningavetur þar sem mikilvægt er að allir leggi sitt af mörkum til að tryggja forystu flokksins í landsmálunum.

Snjókorn falla...
Fyrsti vetrardagur er á laugardaginn. Óhætt er að segja að leiðindaveður hafi verið hér norðan heiða í þessari viku og snjóað þónokkuð. Eftir gott haust kólnaði snarlega. Það er vonandi að veturinn verði góður og snjóléttur. Sem betur fer er spáð hlýnandi veðri á þriðjudaginn.

23 október 2002

Athyglisverð umræða um ekki neitt
Seinustu daga hefur mikið verið rætt um samtal Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, og Hallgríms Helgasonar. Mér finnst sú umræða ansi undarleg, enda hefði ég ekki talið tilefni til þess að gera einkasamtöl fólks að umræðuefni. Mér sýnist sem svo að Hallgrímur hafi mætt sjálfviljugur og því ekki hægt að segja að hér sé eitthvað óeðlilegt á ferðinni. Mér sýnist að vinstrimennirnir séu orðnir svo örvæntingarfullir að þeir gera fjölmiðlamat úr sárasaklausu einkasamtali, þetta er með hreinum ólíkindum. Það er ekki hægt annað en að hlæja að þessari umræðu sem virðist sett fram einungis til að fólk hafi eitthvað að smjatta á í kjördæmaviku þingmanna, enda ekkert þinghald í þessari viku. Ég ætla að vona að forsætisráðherrann sé sjálfviljugur þess hverja hann vill tala við. Það er hinsvegar þeirra að ákveða hvort þeir mæti og tali við hann. Semsagt; þessi umræða er vitlausari en flest annað sem smjattað er á þessa dagana

Pistill um funda- og málfrelsi forsætisráðherrans
Ég settist niður í kvöld og skrifaði pistil um fjölmiðlaumræðuna sem vaknað hefur í kjölfar greinaskrifa Hallgríms Helgasonar og fundar hans með forsætisráðherra. Í þessum pistli set ég fram skoðanir mínar á þessum málum og er óhræddur við það eins og venjulega að tjá mig opinskátt. Pistill minn birtist á heimasíðu Stefnis, félags ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði, en þar skrifa ég vikulega pistla um stjórnmál. Hvet ykkur til að lesa þennan pistil og kynnast með því skoðunum mínum á þessu máli.

Sigurður Kári í prófkjörsslaginn - Guðlaugur Þór hugsar málið
Mikið ánægjuefni er að ungu fólki fjölgar sífellt í væntanlegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Félagi minn, Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og fyrrv. formaður SUS, hefur tilkynnt framboð sitt. Eins og ég sagði í gær hafa Ingvi Hrafn Óskarsson og Birgir Ármannsson þegar tilkynnt framboð. Einnig liggur fyrir að allir þingmenn flokksins í borginni fara fram á ný. Það er mjög mikilvægt að ungt fólk fari fram og því fagna ég mjög framboði þremenninganna. Þeir eru allir traustsins verðir. Einnig er líklegt að Guðlaugur Þór Þórðarson borgarfulltrúi og fyrrv. formaður SUS, gefi kost á sér í prófkjörinu, bendir flest til þess að svo verði.

22 október 2002

Spennandi prófkjör framundan
Framundan eru mörg spennandi prófkjör hjá flokkunum þar sem valið verður á framboðslista þeirra fyrir komandi kosningar. Óhætt er að segja að spennan magnist dag frá degi. Á fimmtudaginn rennur út framboðsfrestur í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum sem verður 22. og 23. nóvember nk. Þegar er ljóst að margir sækjast eftir góðu sæti á listum flokksins. Ennfremur má búast við að nýliðar sæki að þingmönnum flokksins. Ég fjalla nánar um prófkjörið í borginni þegar fyrir liggur hverjir munu taka þátt í því. Í Norðvesturkjördæmi verður prófkjör hjá flokknum 9. nóvember og verður þá kosið á milli 10 einstaklinga sem gáfu kost á sér. Er ljóst að slagurinn um leiðtogastólinn snúist á milli Sturlu Böðvarssonar, Einars K. Guðfinnssonar og Vilhjálms Egilssonar. Þarna slást fimm þingmenn um færri örugg sæti og ljóst að slagurinn verður harður. Hjá Samfylkingunni verða spennandi prófkjör sama dag í Suðvesturkjördæmi, Suðurkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmunum. Ljóst er að þrír þingmenn berjist um leiðtogastólana í borginni; Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Bryndís Hlöðversdóttir. Heyrst hefur að Össur, Bryndís og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri, hafi gert samkomulag sín á milli til að losna við Jóhönnu vegna skoðana hennar á Evrópumálum, en eins og flestir vita er hún á móti ESB-aðild, en það þykir ekki passa á þeim bænum. Í Suðvesturkjördæmi berjast Rannveig Guðmundsdóttir og Guðmundur Árni Stefánsson um forystuna en í Suðurkjördæmi, þau Margrét Frímannsdóttir og Lúðvík Bergvinsson. Framundan er því gósentími fyrir áhugamenn um pólitík og skemmtilegar spekúleringar fyrir prófkjörin.

Skemmtileg kvikmyndaplott - gamlar perlur
Gaman var að sjá The Maltese Falcon síðasta sunnudagskvöld, alltaf sama perlan. Plottið er svolítið flókið þegar maður sér myndina fyrsta sinni, þetta er ein af þessum myndum sem verður að horfa oftar en einu sinni á. Gott dæmi um slíkar myndir er nýlegt meistaraverk The Sixth Sense með Haley Joel Osment og Bruce Willis. Endirinn á myndinni varð þess valdandi að flestum brá (allavega mér) og þurftu því að sjá myndina aftur til að skilja plottið til fulls. Annars skilst mér að Sjónvarpið muni hafa klassískar úrvalsmyndir kvikmyndasögunnar á boðstólum reglulega á næstunni. Veislan hófst fyrir rúmri viku með High Noon, klassískum vestra með Gary Cooper og Grace Kelly, og heldur áfram næsta sunnudagskvöld með úrvalsmyndinni Casablanca frá 1942. Í henni fara þau Humphrey Bogart og Ingrid Bergman á kostum.

Tveir mætir félagar fara í prófkjörsslag
Félagi minn, Ingvi Hrafn Óskarsson formaður SUS, hefur ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, 22. og 23. nóvember nk. Ég er ánægður með þessa ákvörðun Ingva og vona að hann nái góðum árangri í þessum slag, það er nauðsynlegt að ungliðahreyfingin eigi fulltrúa á þingi og ég treysti Ingva til góðra verka. Einnig hefur Birgir Ármannsson tilkynnt um framboð sitt. Ég hvet félaga mína í ungliðahreyfingunni í borginni til að fylkja sér um þá og tryggja að þeir nái góðum árangri í prófkjörinu. Það er mjög mikilvægt að svo verði.

Heimasíða Fjölnis - ógleymanleg helgi á Hellu
Fjölnir, félag ungra sjálfstæðismanna í Rangárvallasýslu, hefur opnað heimasíðu á Netinu. Þar er umfjöllun um félagið og starfsemi þess og ýmsar upplýsingar. Þar er einnig að finna myndir sem teknar voru helgina 13. - 15. september sl. en þá var málefnaþing SUS á Hellu. Þessar myndir sanna glögglega að góð stemning var á staðnum. Allir skemmtu sér konunglega og hópurinn staðráðinn í að hafa bæði gagn og gaman af þessu. Ég skellti mér til Hellu og hafði virkilega gaman af þessu, athygli mína vakti hversu margir höfðu lesið pistlana mína og vissu almennt af tilvist minni, það var mér mikið ánægjuefni að fleiri en ég hafa gaman af þessum pælingum mínum um pólitíkina. Þegar ég skoðaði myndirnar fann ég mynd af mér (í bláu skyrtunni) og félaga mínum, Arnljóti Bjarka. Þessi mynd er tekin snemma föstudagskvölds, en það kvöld endaði í sumarbústað á bökkum Rangár þar sem Gísli Marteinn sjónvarpsstjarna og félagi minn, stjórnaði spurningaleik eins og honum einum var lagið í heita pottinum. Þetta var skemmtileg helgi og ógleymanleg.

20 október 2002

Gróskumikið menningarlíf á gömlu góðu Akureyri
Menningarlífið hér á Akureyri er í miklum blóma nú á haustdögum. Í lok september var Hamlet frumsýndur hjá Leikfélagi Akureyrar. Er þar um að ræða vandaða og góða sýningu sem vert er að mæla með. Leikhópurinn fer allur á kostum og Sveinn Einarsson hefur enn og aftur sannað yfirburði sína sem einn fremsti leikstjóri landsins. Ég fór að sjá sýninguna um frumsýningarhelgina og hafði mjög gaman af. Ógleymanleg kvöldstund bíður allra þeirra sem fara að sjá sýninguna í Samkomuhúsinu. En það eru fleiri stórviðburðir á Akureyri í menningarlífinu. Nýlega var opnuð í Listasafni Akureyrar sýningin Rembrandt og samtíðarmenn hans. Það er unaðslegt að drekka í sig listina á þessari sýningu og hefur hún svo sannarlega hitt beint í mark og slegið öll aðsóknarmet. Sýningin stendur til 27. október, það má enginn missa af þessum stórviðburðum hér á Akureyri; Hamlet og Rembrandt. Hægt er að fræðast meira um þessa viðburði með því að fara á Menningarvef Akureyrarbæjar þar sem allar upplýsingar eru fyrir hendi. Er þar um að ræða yfirgripsmikinn og fræðandi vef sem er stýrt af Helga Vilberg skólastjóra Myndlistaskólans á Akureyri. Það er því óhætt að segja að Akureyri standi undir nafni sem fyrsta flokks menningarbær.

Flugsögu Íslands gerð góð skil í mögnuðum þáttum
Seinustu þrjú sunnudagskvöld hefur flugsögu Íslendinga verið gerð góð skil á RÚV í frábærri heimildarþáttaröð Sögu Film. Næsta sunnudagskvöld er komið að fjórða og seinasta þættinum. Það sem einkennir þættina eru hressileg og skemmtileg efnistök umfram allt. Mikið af spennandi myndefni er í boði og skemmtileg viðtöl við þá sem komu nærri flugfélögunum á árum áður. Allt skapar þetta ógleymanlega heimildarþáttaröð sem ég hef persónulega haft mjög mikinn áhuga á að fylgjast með og er í senn bæði fræðandi og skemmtileg. Alltaf gaman að sjá íslenskt úrvalsefni hjá sjónvarpsstöð allra landsmanna, mætti vera meira af svona úrvalsefni á dagskránni.

19 október 2002

Athyglisverður áfangi - meiri einkavæðingu - góður pistill Björns
Í dag urðu mikil tímamót í íslensku viðskiptalífi. Ríkið hefur selt ráðandi hlut sinn í Landsbankanum. Ennfremur er stefnt að því að selja hlut ríkisins í Búnaðarbankanum fyrir lok þessa árs. Þetta sagði Davíð Oddsson forsætisráðherra í kvöldfréttum RÚV í kvöld. Þessu ber að fagna, enda hef ég persónulega lengi verið mikill stuðningsmaður einkavæðingar. Ég settist niður seinnipart dags og skrifaði pistil um þessi miklu tíðindi og einkavæðingu almennt. Þessar pælingar mínar birtust á Íslendingi, heimasíðu Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri. Í kvöld birtist á heimasíðu Björns Bjarnasonar ítarlegur pistill um Íraksdeiluna og málefni Línu.Nets og vinnubrögð R-listans í því máli. Athyglisverður pistill sem ég mæli með. Horfði á Gísla Martein í kvöld og góðan þátt hans. Þar var athyglisvert viðtal við Ingólf Margeirsson þar sem hann ræddi opinskátt veikindi sín. Einnig voru hjá honum Vala Matt og Bubbi Morthens. Bubbi söng lag af nýju plötunni sinni, sem ég tel að sé hans besta. Ég var búinn að fá leið á hinum pólitísku einstefnulögum hans, en verð að viðurkenna að þessi nýja plata er algjör gæðasmíð, er búinn að kaupa hana. Einnig tóku Selma og Hansa lagið, en þær eru einnig nýbúnar að senda frá sér disk. Spaugstofumenn voru beinskeyttir í kvöld og gerðu létt grín að landsliðinu og óförum þess gegn Skotum, hvalveiðum, rjúpnaskyttum og mörgu fleiru. Gert var létt grín af Kastljósviðtalinu við formenn stjórnmálaflokkanna. Það verður að segjast enn og aftur að Örn Árnason er sannkallaður snillingur. Hann fer á kostum í hlutverki Davíðs og enginn sem nær honum betur.

Veturinn handan við hornið - góður pistill Björns um SÞ
Veturinn er farinn að minna hressilega á að hann sé handan við hornið. Hér á Akureyri er farið að sjást glögglega hvaða árstími er að taka við. Hvít jörð og að verða nokkuð vetrarlegt. Sumarið hér fyrir norðan var afskaplega slappt en haustið hefur verið nokkuð gott og haldist gott nokkuð lengi allt þar til nú. Vonandi verður veturinn góður og snjóléttur, segi ég. Í kuldanum er gaman að lesa blöðin, sérstaklega fannst mér gaman að lesa Vettvangspistil Björns Bjarnasonar alþingismanns og borgarfulltrúa, um öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og mögulega þátttöku Íslands í því starfi á komandi árum í Morgunblaðinu í dag, en Ísland sækist nú eftir því að fá þar sæti. Björn hefur seinustu tvær vikur verið í New York og setið allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og því kynnst þessum málum glögglega af eigin raun. Pistlar Björns eru ávallt fræðandi og málefnalegir og skemmtilegir til lestrar. Flott hvernig borgarstjórnarflokkurinn hefur starfað seinustu vikurnar og tekið á R-listanum, t.d. í Línu.Nets-málinu á vettvangi borgarstjórnar og í stjórn Orkuveitunnar. Björn stjórnar flokknum rétta leið - á málefnalegan hátt.

Frábær spennutryllir - ógleymanlegur Möltufálki
Fór í gærkvöldi í bíó og sá spennumyndina Red Dragon þar sem sagt er frá fyrsta kaflanum í sögunni af mannætunni Hannibal Lecter. Þessi mynd gerist því á undan óskarsverðlaunamyndinni The Silence of the Lambs og Hannibal. Þessi mynd er bæði æsispennandi og frábærlega leikin af sannkölluðum leiksnillingum. Fremstur í flokki þeirra er að sjálfsögðu Anthony Hopkins sem hlaut óskarinn fyrir leik sinn í TSOTL. Hann er frábær leikari og túlkar brenglun Lecter óaðfinnanlega og ósmekklega matarsiði. Ég mæli með því að allir skelli sér í bíó og kíki á þessa úrvalsmynd. Skömmu eftir að heim var komið var svo farið að horfa á imbann og bar vel í veiði. Í ríkiskassanum var eðalræman Thirteen Days þar sem segir frá Kúbudeilunni 1962. Góð mynd og vel leikin, mjög góð sagnfræðilega séð og skemmtileg áhorfs og fræðandi. Á sunnudaginn ber svo vel í veiði en þá verður ein af mínum uppáhaldsmyndum sýnd hjá RÚV. The Maltese Falcon er sannkölluð klassamynd frá 1941 og skartar eilífðartöffaranum Humphrey Bogart í aðalhlutverki. Ómissandi fyrir alla kvikmyndafíkla. Þar sem ég er einn slíkur er garenterað að ég sitji fyrir framan imbann á sunnudagskvöldið með popp og kók, hvað annað!

18 október 2002

Nýr og spennandi vettvangur - upphaf skemmtilegra pælinga hjá mér
Jæja, nú er ég farinn að blogga. Sei, sei, hverjum hefði dottið það í hug. En jæja, meiningin er að hér birtist pælingar mínar á öllu mögulegu og ómögulegu ef því er að skipta. Skoðanir mínar munu birtast glögglega hér, svo og skemmtileg sýn á framtíðina eða allt mannlegt. Hver veit nema að skondnar mannlífslýsingar fylgi með. Ég vona að fólk kíki á þessi skrif mín. Allavega er ég kominn í fjölmennan hóp bloggara og hlakka til að ræða málin á þessum nýja og spennandi vettvangi. Heitir vettvangurinn: Pælingar Stebba!. Mottóið er: Stefán Friðrik Stefánsson fylgist vel með - honum er ekkert mannlegt óviðkomandi!

Opinská umræða um forsetaembættið
Skrifaði grein á frelsi.is í byrjun vikunnar um forsetaembættið og setti þar fram skoðanir mínar á embættinu og þeim sem situr á stóli forsetans nú, bóndanum Ólafi Ragnari. Gríðarlega góð viðbrögð, fékk fjölda tölvupóstbréfa og sannfærðist um það að margir vilja breyta þessu embætti og taka það í gegn. Það er mikilvægt að rætt verði um þessi mál og fólk myndi sér skoðun. Þess vegna skrifaði ég þessa grein og er mjög ánægður með hversu vel var tekið við henni og margir tilbúnir að ræða þessi mál við mig. Póstaði þessa grein á Innherjavefinn á visir.is, þar sem ég hef skrifað um pólitík í tvö ár og þar ætluðu vinstrimennirnir að verða vitlausir, enda þola þeir ekki að einhver hafi skoðanir á forsetaembættinu eða forsetanum. Þessar skoðanir eru þó settar fram af nafngreindum einstakling sem þorir að hafa eigin skoðanir. Ég tel réttast að skrifa þar undir nafni, enda hef ég ekkert að fela. Annars eru þeir skondnir vinstrimennirnir ómálefnalegu á Innherjavefnum. Endilega lesiði greinina og sendið mér póst

Guðni slær öll met - frábært hjá Gísla Marteini
Guðni Ágústsson fór á kostum í umræðum um stefnuræðu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, í byrjun mánaðarins. Guðni er satt best að segja farinn að minna mig á trúð. Hann gerir óspart grín að öllu og virðist ekkert heilagt. Síðasta laugardagskvöld var hann gestur Gísla Marteins og var um margt rætt í þessum flotta þætti Gísla. Guðni sýndi þar mjúku hliðina á sér og talaði um stóra systkinahópinn, fjölskylduna, brandarana og las ljóð Birgittu Haukdal sem var gestur einnig í þættinum ásamt hljómsveit sinni Írafár og Erni Árnasyni leikara. Ekki skrýtið þó að sumum framsóknarmönnum hugnist ekki að hann leiði flokkinn og vona að Halldór Ásgrímsson nái heilsu sem fyrst. Sendi bestu kveðjur til utanríkisráðherrans. Þó er þetta allt í góðum höndum, Dabbi stendur sig vel sem forsætisráðherra og starfandi utanríkisráðherra þessa dagana. Hlakka til að sjá Spaugstofuna annaðkvöld. Voru góðir síðasta laugardag og gerðu létt grín að ýmsu fólki. Pálmi Gestsson lék forseta vorn og Örn er frábær í hlutverki Davíðs. Alltaf gaman að félögunum í Spaugstofunni og svo lofar þáttur Gísla Marteins góðu. Pottþétt laugardagskvöld hjá ríkiskassanum.

Davíð og Blöndalinn segja sína meiningu
Davíð var flottur í kvöldfréttum Stöðvar 2 og sagði sína meiningu á verðlagningu Baugs og annarra fyrirtækja á matvörumarkaðnum. Ég er sammála Davíð í þessu máli og tek ennfremur undir það sem Halldór Blöndal forseti Alþingis, hefur sagt í ræðustól Alþingis og í blaðagreinum um þessi mál. Alltaf gott þegar menn þora að segja sína meiningu á málunum