Bautinn 35 ára
Að mínu mati er Bautinn besti veitingastaðurinn á Akureyri og sá veitingastaður hér sem minnir mig mest á höfuðeinkenni miðbæjarins. Bautinn er enda fyrir margt löngu búinn að setja sterk einkenni á miðbæinn okkar. Í dag eru 35 ár liðin frá því að Bautinn opnaði. Allt frá upphafi hefur hann verið einn vinsælasti veitingastaður bæjarins og margir lagt leið sína þangað. Í raun verður enginn maður með mönnum hér fyrr en hann venur komur sínar á Bautann og fær sér þar úrvalsmat. Í dag var frábært tilboð á réttum á staðnum í tilefni afmælisins. Dreginn var fram matseðill frá fyrstu árunum og valdir af honum vinsælustu réttirnir og þeir boðnir á sama verði og fyrir 25 árum.
Meðal þess sem var í boði var turnbauti á 300 kr, körfukjúklingur á 245 kr. og hamborgari á 85 kr - hvorki meira né minna. Ég fór eftir vinnu síðdegis á Bautann og fékk mér ásamt fleirum borgarann á þessu lygilega 35 ára gamla verði. Borgarinn er fyrir löngu orðinn goðsagnakenndur og rann ljúflega niður. Það var gaman að líta á Bautann og þar var svo sannarlega fjölmenni að borða, sem ekki undrun er miðað við prísinn á þessum afmælisdegi. Ég vil nota tækifærið og óska þeim á Bautanum innilega til hamingju með afmælið og þakka fyrir mig. Það er alltaf gaman að fara á Bautann, borða góðan mat og njóta góðrar þjónustu sem þar er veitt.
<< Heim