Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 apríl 2006

To Be or Not to Be

Jack Benny og Carole Lombard í To Be or Not to Be

Það var létt og notalegt sjónvarpskvöld hjá mér á þessu miðvikudagskvöldi. Eftir að hafa horft á dægurmálaþættina ákvað ég að horfa á tvær eðalmyndir kvikmyndasögunnar. Um er að ræða kvikmyndir sem hafa lengi verið meðal uppáhaldsmyndanna minna en það var orðið nokkuð um liðið er ég setti þær í tækið í kvöld frá því að ég sá þær síðast. Þessar tvær myndir eru frá gjörólíkum tímabilum í kvikmyndasögunni en segja hinsvegar nákvæmlega sömu söguna. Kvikmyndin To Be or Not to Be er ein besta svarthvíta gullaldargamanmynd fimmta áratugar síðustu aldar. Hún var gerð í miðjum klíðum stríðsátakanna í seinni heimsstyrjöldinni og lýsir lífinu í skugga átakanna og fléttast þar vel saman hárfín kómík og alvara stríðsins. Myndin var kvikmynduð á árinu 1941 en frumsýnd í ársbyrjun 1942. Hún hlaut miklar vinsældir og sló umsvifalaust í gegn. Í aðalhlutverkum voru Carole Lombard, eitt mesta kyntákn kvikmyndasögunnar, og gamanleikarinn Jack Benny, sem má án nokkurs vafa telja einn fremsta gamanleikara Bandaríkjanna á 20. öld.

Myndin gerist skömmu eftir upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. Stríðsátökin hófust þann 1. september 1939 með hernámi Þjóðverja í Póllandi. Með því markaðist upphaf stríðsins, sem stóð í hálft sjöunda ár og skók heimsbyggðina með áþreifanlegum hætti í marga áratugi eftir að því lauk. Í hersetnu Póllandi í seinna stríðinu er sögð saga af leikhóp í höfuðborginni. Í forystu hans eru hjónin Joseph og Maria Tura. Þau eins og allir eiga sér sitt líf og sína sögu og stríðið hefur áhrif á líf þeirra eins og allra annarra sem horfast í augu við að landið sitt sé hersetið. Það hefur marktæk áhrif á leikhúsið þeirra og daglegt líf. Andspyrnuhreyfingar spretta upp sem reyna að verjast áhrifum nasista í landinu og úr myndast hópar sem reyna að standa vörð um lífsgildi sín og landið sitt. Tura-hjónin komast að því að nasistarnir séu með öllum ráðum að reyna að grafa undan andspyrnuhreyfingunni og komast að því hverjir leiða hana.

Þau ákveða að grípa til sinna ráða þegar að þau komast að því fyrir tilviljun að Alexander Siletsky prófessor, ætli að afhenda yfirmönnum nasista í Póllandi lista með nöfnum forystumanna andspyrnuhreyfingarinnar. Með útsjónarsemi og snilld sinni á leiklistarsviðinu láta þau til skarar skríða og reyna að slá tvær flugur í einu höggi: ná listanum og bjarga með því lífi andspyrnuleiðtoganna. Úr verður kostuleg skemmtun og unaðsleg gamanmynd sem lifað hefur með kvikmyndaáhugamönnum og er enn jafnfersk og skemmtileg í dag og hún var er hún var frumsýnd fyrir rúmum sex áratugum. Lombard og Benny fara á kostum í hlutverkum hjónanna og sérstaklega toppar Benny sig í hlutverki Tura sem vinnur sinn stærsta leiksigur í raun í því að ná listanum úr höndum prófessorsins og að koma atburðarásinni heim og saman í því verkefni. Lombard býr svo yfir þeim þokka og æskufegurð sem fylgja þarf hlutverkinu sínu og er sem ferskur blær inn í heildarmyndina alla.

Rétt áður en myndin var frumsýnd í ársbyrjun 1942 fórst Carole Lombard í hörmulegu slysi er flugvél hennar fórst í Table Rock-fjallagarðinum í Nevada-fylki. Fráfall hennar í blóma lífsins var sorglegt. Eiginmaður hennar var Clark Gable, einn af frægustu kvikmyndaleikurum 20. aldarinnar (best þekktur sem Rhett Butler í Gone with the Wind). Hann syrgði Carole mjög og mun aldrei hafa verið samur maður á eftir. Eins og vel hefur komið fram í umfjöllun um ævi hans tók það hann fjöldamörg ár að halda áfram lífi sínu eftir flugslysið sem hann kenndi sér alltaf um, enda hafði hann krafist að Carole færi í flugferðina örlagaríku. Hlutverk Mariu Tura varð seinasta kvikmyndahlutverk hinnar glæsilegu Carole Lombard. Meðal annarra leikara í myndinni sem eru eftirminnilegir eru sérstaklega Robert Stack í hlutverki Stanislavs, Sig Ruman sem Ehrhardt og Stanley Ridges í hinu smáa en þýðingarmikla hlutverki Siletsky.

To Be Or Not To Be

Fjórum áratugum eftir gerð myndarinnar ákvað leikstjórinn Alan Johnson að endurgera To Be or Not to Be. Til liðs við sig fékk hann góðan leikhóp. Í forystu hans voru hjónin Mel Brooks og Anne Bancroft. Úr verður stórfengleg gamanmynd sem uppfærir margt úr eldri myndinni og býður ennfremur upp á smábreytingu í söguþræði, en ekki það mikla að áhorfandinn taki eftir. Það sem helst blasir við þeim sem fyrst sér gömlu myndina er að aðalsöguhetjurnar heita öðrum nöfnum. Í stað Tura-hjónanna eru þau kennd við Bronski, Frederick og Anna Bronski. Handritið er að langstærstum hluta grunnurinn úr eldri myndinni en á stöku stað er kryddað við. Ég hef lengi verið mikill aðdáandi Mel Brooks, allt í senn sem leikara, handritshöfundar og leikstjóra. Hann túlkar Bronski með gamansömum brag og er auðvelt að hlæja dátt yfir túlkun hans. Anne Bancroft gæðir persónu Önnu mýkt og glæsileika sem er í fararbroddi myndarinnar.

Fyrir alla þá sem þekkja eldri myndina er sú nýlegri sem flott viðbót og skemmtileg ný sýn á myndina. Leikhópurinn gerir myndina mjög eftirminnilega. José Ferrer birtist í hlutverki Siletsky prófessors og stelur senunni þá skömmu stund sem hann er á skjánum. Senuþjófur myndarinnar er þó hiklaust Charles Durning sem með skemmtilega góðum ofleik gerir Ehrhardt ofursta að ógleymanlegum karakter. Það er allavega auðvelt að hlæja dátt yfir myndinni og njóta hennar til fulls. Fyrst og fremst er galdurinn við báðar þessar myndir sígildur húmor. Þær eru léttar og ferskar gamanmyndir sem hitta beint í mark. Það er einmitt þess vegna sem þær hafa lifað svo lengi í hugum kvikmyndaunnenda. Þær eru sem ferskur vindblær á köldu vetrarkvöldi. Allavega skemmti ég mér vel yfir þeim báðum í kvöld.

Ég hvet alla til að sjá myndirnar. Það er þó frekar erfitt að nálgast þá eldri, enda ekki víða til. Þeir sem þekkja mig og vilja sjá hana skulu endilega láta mig bara vita.