Undarleg hæfnisröð í hæstarétti
Geir H. Haarde utanríkisráðherra, mun á næstu dögum skipa dómara við hæstarétt Íslands, í stað Guðrúnar Erlendsdóttur, sem lætur af embætti um miðjan mánuðinn eftir tveggja áratuga setu í réttinum. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, ákvað að víkja sæti við skipan dómara og Geir því settur dómsmálaráðherra í málinu. Það eru viss tímamót í því fólgin að Guðrún Erlendsdóttir láti af embætti dómsmálaráðherra. Hún var fyrsta konan sem skipuð var í hæstarétt Íslands og er eina konan sem gegnt hefur embætti forseta hæstaréttar. Aðeins hafa tvær konur verið skipaðar til setu í hæstarétti, Guðrún og Ingibjörg Benediktsdóttir. Guðrún er sjötug á árinu og því komu starfslokin engum á óvart.
Fjórar umsóknir bárust um stöðu dómara við hæstarétt að þessu sinni: frá Hjördísi Hákonardóttur, dómsstjóra Héraðsdóms Suðurlands, Páli Hreinssyni, lagaprófessor og deildarforseta lagadeildar Háskóla Íslands, Sigríði Ingvarsdóttur, héraðsdómara við héraðsdóm Reykjavíkur og Þorgeiri Inga Njálssyni, héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjaness. Í gær skiluðu dómarar í réttinum áliti sínu um mat á umsækjendur, en skv. fjórðu grein dómstólalaga ber dómurum að skila áliti um hvort umsækjendur séu hæfir til setu í réttinum. Telur rétturinn Pál vera hæfastan í embættið. Hjördís og Sigríður eru metnar næst og Þorgeiri Inga er raðað neðst í hópinn og greinilega tekið fram að hann sé skör neðar settur í matinu.
Hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson skiluðu sératkvæði og Jón Steinar tók sérstaklega fram þá skoðun þeirra að ekki eigi að raða umsækjendum í hæfnisröð. Tek ég undir mat þeirra. Það er verulega undarlegt, svo ekki sé nú meira sagt, að dómarar við Hæstarétt Íslands taki sér það bessaleyfi að raða umsækjendum í hæfnisröð og stilli þeim upp að eigin hætti. Finnst mér vera algjörlega óviðunandi að sitjandi dómarar við réttinn setjist niður og plotti um hverjir eigi að starfa með þeim í réttinum og hvort jafnvel einhverjir sæki um því sumum þar lítist ekki vel á einhvern fyrri umsækjenda, eins og vel sást í tilfelli seinustu skipunar í réttinn haustið 2004.
Að mínu mati er það alveg ljóst að dómarar eigi aðeins að leggja það mat hverjir séu hæfir til að gegna störfum í Hæstarétti, eins og fram kemur í fjórðu grein dómstólalaga frá árinu 1998. Reyndar má spyrja sig þeirrar spurningar hvort fyrirkomulag við skipan dómara sé ekki orðið úrelt og hvort rétt sé að dómarar við réttinn felli mat með þessum hætti hverjir séu hæfir og hverjir ekki. Er ekki eðlilegra að breyta lögunum með þeim hætti að nefnd lagaspekinga leggi mat á hæfni umsækjenda og skili úrskurði þar um, en ekki sitjandi dómarar að fella mat yfir því hverjir séu hæfari en aðrir til að vinna með þeim í réttinum á komandi árum. Þessi hæfnisröð dómara við skipan í stöðuna vekur upp margar spurningar óneitanlega.
Að mínu mati er nauðsynlegt að breyta lögum um réttinn og sérstaklega binda enda á að sitjandi dómarar hafi eitthvað um það að segja hverjir taka sæti í réttinum. Það er nauðsynlegt að stokka þessa 4. grein upp, láta óháða aðila sem ekki eiga sæti í réttinum meta umsækjendur með þessum hætti. Það verður erfitt verkefni fyrir ráðherra að velja einn af umsækjendum til starfa. Um er að ræða mjög hæfa einstaklinga sem sækja um og reynda á sínu sviði. Það bætir hinsvegar ekki úr skák, hvorki fyrir umsækjendur né ráðherra sem hefur skipunarvaldið varðandi stöðu dómara, að dómarar við Hæstarétt taki upp á því að raða mönnum í röð eftir geðþótta sínum eða velji einhverja sérstaka úr með þessum hætti.
Það eru margar spurningar sem vakna varðandi þessa hæfnisröð og það mat sem sitjandi dómarar leggja áherslu á að þessu sinni, rétt eins og haustið 2004 er síðast var skipað í réttinn. Mikilvægt er því eins og fyrr segir að breyta lögum um réttinn og að aðrir en sitjandi dómarar felli úrskurð um hæfni umsækjenda um stöðu dómara við réttinn.
Saga dagsins
1940 Hægri umferð var samþykkt á Alþingi - vegna hernáms Breta varð ekki af því, enda voru þeir vanir vinstri umferð. Það var loks á sjöunda áratugnum sem þetta varð að veruleika. Það var þann 26. maí 1968 sem formlega var fært úr vinstri umferð yfir í þá hægri.
1955 Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins, tilkynnti um afsögn sína úr embætti - hann hafði þá verið leiðtogi flokksins frá 1940 og forsætisráðherra tvívegis: 1940-1945 og frá 1951. Hann leiddi Bretland í gegnum seinni heimsstyrjöldina og hafði verið ötull talsmaður bandamanna í stríðinu gegn mætti nasista og Hitlers. Churchill var þá rúmlega áttræður, enginn hefur orðið eldri sem forsætisráðherra Bretlands. Churchill andaðist í janúar 1965.
1958 Ásgrímur Jónsson listmálari, lést, 82 ára að aldri - hann var brautryðjandi nútímamyndlistar á Íslandi og hélt fyrstu málverkasýningu sína árið 1903. Ásgrímur varð einn fremsti málari 20. aldarinnar.
1965 Leikkonan Julie Andrews hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á barnfóstrunni hnyttnu Mary Poppins - hún hlaut verðlaunin aftur ári síðar fyrir stórfenglega túlkun sína á hinni söngelsku nunnu Mariu í The Sound of Music. Dame Julie er ein af allra fremstu leikkonum Breta á 20. öld og hefur verið rómuð fyrir glæsilegan leik sinn, bæði á leiksviði og í kvikmyndum og næma túlkun sína.
1971 Söngleikurinn Hárið var frumsýndur í Glaumbæ og vakti bæði hrifningu og deilur. Sýningin varð gríðarlega vinsæl og vakti athygli. Hárið var sett upp aftur í misjöfnum útfærslum árin 1994 og 2004.
Snjallyrðið
Good works are links that form a chain of love.
Móðir Teresa (1910-1997)
<< Heim