Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 apríl 2006

Flokksráðsfundur á Akureyri

Sjálfstæðisflokkurinn

Flokksráðs-, formanna- og frambjóðendafundur Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar verður haldinn á Akureyri um helgina, 7. og 8. apríl. Hafa rúmlega 200 manns skráð sig til þátttöku á fundinum. Hann hefst með ávarpi formanns Sjálfstæðisflokksins, Geirs H. Haarde utanríkisráðherra, kl. 16.00 í dag í Brekkuskóla. Skólinn verður opinn frá kl. 15.00 og geta þátttakendur þá skráð sig og fengið afhent fundargögn. Að dagskrá lokinni býður Háskólinn á Akureyri til móttöku í Sólborg, stofu L201. Rútur aka fundarmönnum í háskólann og til baka á hótelin að móttöku lokinni.

Í kvöld verður snæddur hátíðarkvöldverður á Hótel Kea. Veislustjóri verður Gunnar Ragnars fyrrum formaður kjördæmisráðs í Norðausturkjördæmi og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Hátíðarræðu flytur Guðmundur Skarphéðinsson formaður kjördæmisráðs í Norðausturkjördæmi. Fundi verður fram haldið kl. 9.30 á laugardagsmorgun. Umræðuefni verða málefni aldraðra. Eftir hádegi verður umræða um málefni fjölskyldunnar og samhliða verður boðið upp á kynningu á kosningastarfi fyrir kosningastjóra og aðra þá sem koma að kosningabaráttunni. Fundinum lýkur kl. 16.00 á laugardag með ávarpi formanns Sjálfstæðisflokksins.

Það er svo sannarlega okkur sjálfstæðismönnum hér á Akureyri mjög mikill heiður að fundurinn verði haldinn hér á Akureyri, en þetta er í fyrsta skipti sem flokksráðsfundur í Sjálfstæðisflokknum er haldinn utan höfuðborgarsvæðisins. Stefnir í góðan og öflugan fund. Hann mun án nokkurs vafa marka með glæsilegum hætti upphaf kosningabaráttunnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 27. maí nk. Það verður gaman að hitta góða félaga í flokksstarfinu hér fyrir norðan um helgina.

Dagskrá flokksráðs-, formanna- og frambjóðendafundar á Akureyri