Úrslitin í Idol - stjörnuleit í kvöld
Úrslitastundin rennur upp í Idol-stjörnuleit í Vetrargarðinum í Smáralind í kvöld. Þá keppa Ína Valgerður Pétursdóttir og Snorri Snorrason um titilinn poppstjarna Íslands 2006. Rúmt ár er nú liðið frá því að Hildur Vala Einarsdóttir söng sig inn í hug og hjörtu landsmanna og vann titilinn poppstjarna Íslands. Árið áður hafði Karl Bjarni Guðmundsson unnið titilinn fyrstur allra. Fullyrða má að þau Ína og Snorri standi bæði vel að vígi við lok keppninnar. Þau eru enda óneitanlega frábærir tónlistarmenn. Þau hafa staðið sig vel alla keppnina og átt glæsilegar frammistöður í keppninni.
Að mínu mati stendur þó Ína óneitanlega sterkar að vígi fyrir lokakvöldið. Hún hefur glansað í gegnum alla keppnina, aldrei stigið feilspor og er eftirminnilegust þeirra sem keppt hafa nú að mínu mati. Ína og Snorri syngja þrjú lög í kvöld. Ína syngur lögin Piece of my heart (með Janis Joplin), Because you loved me (með Celine Dion) og nýtt frumsamið lag, Allt sem ég á, sem samið er fyrir sigurvegarann í keppninni þetta árið. Eftir keppnina verður lagið gefið út í flutningi þeirra beggja með flutningi sigurvegarans auðvitað á undan. Snorri syngur He ain't heavy, he's my brother (með Hollies), Feel (með Robbie Williams) og svo auðvitað lagið Allt sem ég á.
Ég verð staddur á hátíðarkvöldverði á Hótel KEA vegna flokksráðsfundarins hér á Akureyri í kvöld og get því ekki séð keppnina í beinni. En ég mun sjá upptöku seint í kvöld. Í mínum huga eru þó bæði Ína og Snorri sigurvegarar kvöldsins og þau munu bæði hafa mikil og góð tækifæri úr að spila eftir þessa keppni og flotta frammistöðu sína.
<< Heim