Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 apríl 2006

Könnun á fylgi framboðanna á Akureyri

Akureyri

Nú hefur loksins birst skoðanakönnun um fylgi flokkanna í bæjarmálunum hér á Akureyri. Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri gerði könnunina meðal 500 Akureyringa á aldrinum 18 til 80 ára, og var svörun liðlega 60%. Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar árlega hjá RHA allt frá árinu 2000 og birtist sú síðasta í nóvembermánuði 2004. Alls tilgreindu 59% þeirra sem svöruðu ákveðinn flokk, 38% voru óákveðnir eða neituðu að svara og 3% sögðust ekki ætla að kjósa. Fylgi flokka í könnuninni var með þessum hætti: Sjálfstæðisflokkur hefur 34%, Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur 22%, Samfylkingin er með 17%, Framsóknarflokkur nýtur stuðnings 12% og Listi fólksins hefur 9%. Eru þessar niðurstöður mjög athyglisverðar. Skv. þessu fengi Sjálfstæðisflokkurinn 4 fulltrúa kjörna, vinstri grænir hafa 3, Samfylking hefur tvo og Framsóknarflokkur og Listi fólksins hafa 1. Samkvæmt þessu er því meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fallinn.

Kosningabaráttan hér á Akureyri er vart hafin enn af krafti. Mesti krafturinn í henni verður þá 40 daga sem verður eftir páskahátíðina. Þetta er fyrsta skoðanakönnunin sem birtist á fylgi flokkanna hér eftir að framboðslistar framboðanna fimm sem buðu fram í síðustu kosningum, árið 2002, voru tilbúnir. Ennfremur er þetta fyrsta könnunin frá því í fyrrasumar. Það er því óhætt að segja það að mörgum hafi hlakkað til að sjá einhverja vísbendingu um stöðuna. Miklar breytingar hafa orðið á forystu þriggja af þessum fimm framboðum og því margt með öðrum brag en áður var. Jakob Björnsson, Valgerður H. Bjarnadóttir og Oktavía Jóhannesdóttir munu enda ekki verða í bæjarstjórn á næsta kjörtímabili en Oktavía leiddi Samfylkinguna í kosningunum 2002 en skipar nú 13. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins (gekk í flokkinn í desember). Mikið hafði verið rætt um mögulega stöðu mála hvað varðar framboðin fimm og margir biðu niðurstöðu þessarar könnunar með þónokkurri eftirvæntingu.

Verði úrslit kosninganna eftir 50 daga eitthvað í líkingu við þessar tölur blasir við nýr meirihluti. Þó er greinilega mjög lítið sem þarf að gerast til að Framsóknarflokkurinn bæti við sig öðrum manninum, væntanlega á kostnað VG eða Lista fólksins. Slíkt myndi hafa það í för með sér að meirihlutinn héldi velli en hann hefur sjö bæjarfulltrúa nú af ellefu. Við í Sjálfstæðisflokknum getum þónokkuð vel við unað en skv. þessari könnun erum við nær með sama fylgi og í kosningunum 2002 og höldum okkar hlut. Það er ánægjulegt hversu sterk staða okkar er eftir átta ára forystu okkar í meirihluta bæjarstjórnar og átta ára bæjarstjóraferil Kristjáns Þórs Júlíussonar. VG kemur sterkt til leiks á þessum tímapunkti undir forystu Baldvins H. Sigurðssonar á meðan að Framsóknarflokkurinn virðist í algjörri rúst. Það er reyndar merkilegt að sjá hversu illa leikinn Framsóknarflokkurinn er um allt land en hann virðist víðast um landið algjörlega sleikja botninn.

Einn félagi minn sem verulegan áhuga hefur á stjórnmálum var mjög hissa á stöðu VG í þessari könnun og velti fyrir sér ástæðum þess. Ég benti honum rólegur á brá á það að VG hafði nákvæmlega sama byr í kosningabaráttunni 2002. Hann mældist með þrjá menn inni þá og Framsókn var þá, eins og nú, að sleikja botninn með aðeins leiðtogann Jakob Björnsson öruggan inni. Niðurstaðan varð sú að Framsókn varð næststærst og hlaut þrjá bæjarfulltrúa en VG hlaut einn og munaði reyndar litlu að Valgerður Hjördís hefði ekki náð inn en VG var á mörkunum að missa hana út á kosninganótt og úrslitin urðu VG veruleg vonbrigði. Staða Framsóknarflokksins er þrátt fyrir allt tal um að flokkurinn mælist lægri í könnunum en kosningum verulegt áhyggjuefni fyrir forystu flokksins. Jóhannes G. Bjarnason var kjörinn nýr leiðtogi flokksins í prófkjöri í febrúar en virðist ekki vera að leiða flokkinn til öflugs fylgis og ráðandi stöðu í bæjarstjórn á næsta kjörtímabili.

Niðurstaða þessarar könnunar hlýtur ennfremur að vera verulegt áfall fyrir Samfylkinguna. Flokkurinn sótti fram af krafti með prófkjöri strax í nóvemberbyrjun og kynnti lista sinn langfyrst allra, strax í janúarmánuði, en virðist ekki vera að sækja fram af þeim krafti sem að var stefnt. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Hermann Tómasson og hans fólk að vera að mælast með minna fylgi en VG undir forystu flugvallarvertsins Baldvins H. Sigurðssonar. Ef marka má þetta kemst Kristín Sigfúsdóttir, systir Steingríms J. Sigfússonar, inn og ennfremur Dýrleif Skjóldal en ekki samfylkingarkonan Helena Karlsdóttir. Stór tíðindi þessarar könnunar er svo vissulega að Gerður Jónsdóttir bæjarfulltrúi Framsóknar, er fallin úr bæjarstjórn. Ennfremur er Þórarinn B. Jónsson bæjarfulltrúi okkar sjálfstæðismanna ekki inni en ef marka má tölur vantar varla mikið upp á að hann nái inn. Við erum með sama fylgi og 2002 og þá munaði litlu að við héldum fimmta manninum.

Þessi skoðanakönnun er auðvitað ekkert nema vísbending um stöðu mála þegar að 50 dagar eru til sveitarstjórnarkosninga. Aðalbaráttan er ekki hafin og enn eiga framboðin eftir að leggja fram málefnaskrár sínar og hefja lykilslaginn sinn. Það er því aðalhiti baráttunnar eftir og mjög erfitt að spá um hvernig fer að baráttunni lokinni. Það er þó ánægjuefni fyrir okkur að sjá hversu öruggur Hjalti Jón Sveinsson er skv. þessu og hversu litlu munar á að Þórarinn B. Jónsson haldi sínu sæti. En nú hefst aðalbaráttan og verður hún auðvitað spennandi. Þessi könnun sýnir okkur smámynd af stöðunni. Þó skal á það bent að tæpur helmingur aðspurðra hefur ekki myndað sér skoðun á því hvaða framboð það muni kjósa í kosningunum. Þessi stóri óákveðni hópur mun ráða úrslitum í kosningunum og því hverjir leiða bæinn á næstu árum.

Ef marka má þessa könnun eru Baldvin, Hermann og Oddur komnir með meirihluta. En það kemur þó vel fram í könnuninni að Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, hefur langmest fylgi er kemur að því að spurt er hvern fólk vilji að sé bæjarstjóri eftir kosningar. Kristján Þór mælist með 46% fylgi er þessi spurning er borin upp. Næstur kemur Jóhannes Bjarnason leiðtogi Framsóknarflokksins með 12%. Himinn og haf skilja því að leiðtoga meirihlutaflokkanna er kemur að spurningunni um bæjarstjórastólinn. Það er þó greinilegt að fáir nefna leiðtoga minnihlutaflokkanna sem er vart undarlegt. Það eru enda greinilegt að fáir bæjarbúar vilja fá leiðtoga þessara flokka í bæjarstjórastólinn sjálfan og til áhrifa.

Eins og allir bæjarbúar vita er aðeins ein leið til að tryggja að Kristján Þór verði bæjarstjóri að loknum kosningum og að haldið verði áfram af sama krafti og frá 1998 - það er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn þann 27. maí og tryggja honum sem glæsilegasta kosningu. Þessi könnun sýnir allavega sterka stöðu okkar sjálfstæðismanna - það er satt best að segja gott að finna fyrir því að bæjarbúar vilja Kristján Þór áfram sem bæjarstjóra og að flokkurinn haldi lykilstöðu sinni nú eftir átta ára valdaferil og farsæla forystu Sjálfstæðisflokksins í forystu meirihluta bæjarstjórnar frá árinu 1998. Það kemur skýrt fram þó greinilega sjáist veik staða Framsóknarflokksins jafnt á landsvísu sem og í bæjarmálum.

Fólk hér vill greinilega sterkan Sjálfstæðisflokk og öflugan bæjarstjóra áfram við völd.