MA sigrar í Gettu betur
Menntaskólinn á Akureyri sigraði í kvöld í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna. Ásgeir, Tryggvi og Magni unnu góðan, sannfærandi og umfram allt glæsilegan sigur. MA hlaut 34 stig en Verzlunarskóli Íslands hlaut 22 stig. MA tók þetta með miklu trompi og hlaut 24 stig í hraðaspurningunum. Sigur MA var því aldrei í raunverulegri hættu. Það er gleðiefni að sjá þennan góða árangur strákanna og þeir eiga sigurinn svo sannarlega skilið eftir að hafa tekið Verzló í gegn með svo afgerandi hætti. Útsendingin var vel heppnuð og sérstaklega gaman að sjá félaga minn, Júlla, sem er með mér í stjórn Varðar taka lagið með félaga sínum.
Þeir sem muna eftir gullaldartímanum er MA vann ógleymanlega sigra í keppninni fagna í kvöld. MA vann keppnina árin 1991 og 1992. Liðið var þá skipað af Pálma Óskarssyni (bróður Magna), Finni Friðrikssyni og Magnúsi Teitssyni. Þessi gullaldartími í byrjun tíunda áratugarins sem var kenndur við Akureyri var alveg ógleymanlegur og gengi skólanna okkar hér er mörgum ferskur í minni en árið 1992 kepptu MA og VMA til úrslita. Það var alveg frábær keppni og Íþróttahúsið alveg troðið. Var ég staddur þar er sú keppni fór fram - þá var sko stemmning! Síðan hefur gengi MA verið brokkgengt en í fyrra keppti MA til úrslita gegn Borgarholtsskóla en tapaði slagnum.
Innilega til hamingju Ásgeir, Tryggvi og Magni. Þið hafið mikið haft fyrir sigrinum og verðskuldið hann svo sannarlega. Það er leitt að hafa ekki getað verið staddur í Reykjavík og fylgst með keppninni þar en maður varð að gera sér áhorf í sjónvarpi sér að góðu og gleðst með MA-ingum hér norðan heiða í snjóbylnum sem hér geisar. Góða ferð með hljóðnemann verðmæta norður strákar! :)
Félagi minn, Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, var í Gettu betur-liði MS (sem hefði átt að komast mun lengra en raunin varð). Hann fór yfir Gettu betur veturinn í flottri færslu á bloggvefnum sínum í kvöld.
<< Heim