Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 apríl 2006

Að loknum flokksráðsfundi

Fálkinn

Flokksráðs-, formanna- og frambjóðendafundi Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var um helgina hér á Akureyri lauk á fimmta tímanum í dag. Fundurinn var vel sóttur og mjög kraftmikill. 49 dagar, sjö vikur, eru nú til sveitarstjórnarkosninga. Flokksmenn, í forystu félaga og á framboðslistum flokksins um allt land, komu saman til fundar ásamt flokksráðsfulltrúum og ræddu kosningamál þeirrar kosningabaráttu sem framundan er. Í stjórnmálaályktun fundarins kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn vill færa verkefni á sviði öldrunarmála til sveitarfélaga og leggur áherslu á að áfram verði haldið varnarsamstarfi við Bandaríkin í ljósi breyttra aðstæðna. Á fundinum var farið yfir kosningamálin og flokksmenn lögðu línurnar í kosningabaráttunni með stjórnmálaályktuninni og vinnunni sem þar fór fram. Fundurinn var líflegur og hressandi og gaman að hitta góða félaga.

Yfirskrift fundarins var: "Aukinn árangur - vaxandi velferð". Við leggjum enda mikla áherslu á að kynna öfluga forystu okkar og verk í landsmálum og á sveitarstjórnarstiginu. Á þeim góða árangri byggjum við í starfi okkar og áherslum á næstu árum í aðdraganda tveggja kosninga. Fram kemur í stjórnmálaályktun okkar að við viljum breytta hugsun í málefnum aldraðra þar sem sjálfstæði, sjálfræði og aukið valfrelsi í eigin málum er lagt til grundvallar. Nú sem ávallt fyrr er Sjálfstæðisflokkurinn ásýnd ferskleika og framsýni í stjórnmálum hérlendis. Í ályktuninni var orðum sérstaklega beint að R-listanum sáluga í Reykjavík. "Fjármálastjórn" vinstri manna þar er enda víti til varnaðar - R-listanum sáluga tókst jú á mesta hagsældarskeiði þjóðarinnar að stórhækka álögur á íbúana og margfalda skuldir stærsta sveitarfélags landsins. Á þessu verður breyting við valdaskipti í vor.

Geir H. Haarde

Fundurinn hófst síðdegis í gær með kraftmikilli ræðu formanns okkar, Geirs H. Haarde utanríkisráðherra. Þar fjallaði hann um stjórnmál dagsins í dag með sínum hætti. Fannst mér honum mælast vel og var góður rómur gerður að ræðu hans. Halldór Blöndal leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi flutti öfluga og góða ræðu að lokinni ræðu formannsins. á Að því loknu kynnti Kristján Þór drög að stjórnmálaályktun fundarins. Eftir setningarathöfnina héldum við í móttöku í Háskólanum á Akureyri og þar kynnti Þorsteinn Gunnarsson rektor, sögu skólans og það mikilvæga starf sem þar fer fram. Hátíðarkvöldverður hófst á Hótel KEA um áttaleytið. Þar flutti Guðmundur Skarphéðinsson formaður kjördæmisráðs, hátíðarræðu og Gunnar Ragnars var veislustjóri og gerði það með glans eins og hans er von og vísa.

Mikil og góð stemmning var á Hótel KEA. Er líða tók á nóttu héldum við þau allra hörðustu skemmtanafíklarnir á skemmtistað úti í bæ og sungum og dönsuðum langt fram á nóttina. Þetta var svo sannarlega frábært kvöld. Fundur hélt áfram kl. 9:30. Áherslur fundarins voru á málefni aldraðra og fjölskyldunnar. Góð erindi voru þar flutt og við sem vinnum að kosningabaráttu flokksins um allt land fengum gott námskeið í þeirri vinnu sem framundan er. Í alla staði heppnaðist fundurinn vel og við förum öll glöð og hress heim til okkar að honum loknum - staðráðin í því að vinna öll af krafti. Lykilmarkmiðið er að tryggja Sjálfstæðisflokknum góðan og glæsilegan sigur í kosningunum eftir 49 daga.

Fram til sigurs!