Snorri poppstjarna Íslands 2006
Snorri Snorrason var í gærkvöldi kjörinn poppstjarna Íslands árið 2006 í æsispennandi úrslitakeppni í Idol-stjörnuleit í Vetrargarðinum í Smáralind. Keppti hann um sigurinn í keppninni við Ínu Valgerði Pétursdóttur. Alls bárust rúm 115.000 atkvæði og hlaut Snorri 63.800 atkvæði eða 55%. Ína hlaut 52.200 atkvæði eða 45% atkvæða. Var rafmagnað andrúmsloft er úrslitin voru tilkynnt. Bæði stóðu Snorri og Ína sig alveg frábærlega í þessum úrslitaþætti. Fóru þau bæði algjörlega á kostum og fluttu hvor um sig þrjú stórfengleg lög. Snorri er vel að sigrinum kominn í keppninni. Hann hefur notið mikillar hylli í keppninni allt frá upphafi og vakið athygli fyrir flott lagaval og að hafa sýnt bæði mjúku og hörðu hliðina. Snorri, sem kallaður er Hvíti kóngurinn, hefur verið hlédræga týpan og nokkuð til baka en hefur vaxið mikið í gegnum þátttöku sína í keppninni og vann hana enda með glans. Sama má segja um Ínu Valgerði, sem aðeins 18 ára gömul hefur komist lengst allra í keppninni undir tvítugu og hefur náð glæsilegum árangri.
Snorri söng He ain't heavy, he's my brother (með Hollies) og Feel (með Robbie Williams) á meðan að Ína söng Piece of my heart (með Janis Joplin) og Because you loved me (Celine Dion). Bæði sungu þau svo lagið Allt sem ég á, eftir John Reid, heimskunnan lagahöfund sem samið hefur lög fyrir Rod Stewart, Westlife, Tinu Turner og Kelly Clarkson, bandarísku poppstjörnuna 2002. Textinn við lagið var saminn af Stefáni Hilmarssyni. Snorri gerði þetta lag algjörlega að sínu og brilleraði við að syngja það. Hiklaust var það hans besta frammistaða í keppninni.
Bæði voru þau þess verðug að komast svo langt og þau hafa rækilega stimplað sig á tónlistarkortið. Snorri er hin sanna stjarna og vonandi gengur honum vel á framabrautinni, sem og öllum öðrum þátttakendum keppninnar þetta árið.
<< Heim