Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 apríl 2006

Þrátefli í ítölskum stjórnmálum

Silvio Berlusconi og Romano Prodi

Það stefnir í þrátefli í ítölskum stjórnmálum. Þjóðin er skipt í tvennt eftir fylkingum og í raun enginn afgerandi meirihluti til staðar eftir þingkosningarnar í landinu. Samkvæmt úrslitum náði Olífubandalagið, vinstriarmur leiddur af Romano Prodi fyrrum forsætisráðherra og forseta ESB, naumum meirihluta í báðum þingdeildum ítalska þingsins. Sigurinn er þó svo naumur að aðeins er um að ræða 1-2 sæta meirihluta. Silvio Berlusconi forsætisráðherra, neitar með öllu að staðfesta þessa stöðu mála og hefur sagst krefjast endurtalningar á vafaatkvæðum en athygli vakti hversu mörg atkvæði voru dæmd ógild. Munurinn er svo lítill í atkvæðum að aðeins er um að ræða um 20.000 af um 40.000.000 atkvæða. Forsætisráðherra telur mörg mistök hafa verið gerð og telur óhugsandi að láta þetta við kyrrt liggja og hefur krafist endurtalningar og yfirferðar á atkvæðunum sem úrslitum ráða.

Niðurstaðan er mjög einföld: það er vængbrotin staða. Það sjá allir að engin trúverðug stjórn situr í þessu þingi með 1 eða 2 sæta meirihluta. Menn á Ítalíu hafa talað um þjóðstjórn en það verður ekki auðvitað, enda geta Berlusconi eða Prodi ekki unnið saman. Það gæti farið svo að það yrði að kjósa einfaldlega aftur. Í öllu falli getur Prodi ekki ríkt einn allt tímabilið í skjóli svo naums meirihluta. Það er enda svo eftir þessar kosningar að hvorug fylkingin hefur afgerandi afl til að stjórna. Það verður allavega seint sagt að Ólífubandalagið hafi hlotið eitthvað lykilumboð til verka eða til að gera mál sín af krafti í gegn. Bandalagið eru alls níu flokkar með mjög ólíka eigin stefnu og það sjá allir sem vit hafa á að það verður erfitt að halda því í svona naumum meirihluta. Á það ber svo að benda að Prodi er ekki leiðtogi neins flokksins heldur bara forsætisráðherraefni bandalagsins beint.

Þetta minnir mig í fljótu bragði á bandarísku forsetakosningarnar fyrir sex árum. Munurinn er enda svo lítill að nú fer endurtalning væntanlega af stað með öllum þeim lagaflækjum og óvissu sem því fylgir. Þeir sem voru andstæðingar George W. Bush í þeim kosningum um allan heim hljóta að telja nauðsyn á að endurtelja öll atkvæði og fara yfir öll vafaatkvæði. Munurinn er enda það naumur að fara verður yfir alla þætti. Það hefur hægrabandalagið nú þegar gert og það gætu tekið við vikur eða mánuðir í allsherjaróvissu og kaosi. Það er allavega ljóst að engin afgerandi stjórn kemur út úr þessum kosningum. Hvort sem fer að hægrið eða vinstrið tekur við völdum er ljóst að menn fá mjög vængbrotna stjórn.

Það blasir því við þrátefli um völd á Ítalíu. Það er svo einfalt. Hvort að annaðhvort Berlusconi eða Prodi getur myndað stjórn í því umhverfi skal ósagt látið en takist það getur það aðeins orðið stjórn sem situr til bráðabirgða. Taflið er enda svo jafnt og óskýrt að ekkert afgerandi kemur út úr því.