Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 apríl 2006

Farsælar tillögur í skipulagsmálum

Akureyrarvöllur

Í gær kynntu leiðtogar meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn tillögu sína til breytinga á fyrri vinnsluhugmyndum um skipulag Akureyrarvallarsvæðisins. Eins og flestir vita er aðalleikvangur bæjarins staðsettur í hjarta bæjarins en það svæði mjög lítið nýtt. Tekin hefur verið nú sú ákvörðun að vallarsvæðið verði tekið undir útivistarsvæði, verslun og þjónustu ásamt íbúðabyggð en fyrri tillaga gerði ekki ráð fyrir verslun á svæðinu. Með þessu næst það fram að tengja saman núverandi miðbæ og verslunarsvæði á Gleráreyrum, kennt við Glerártorg. Eins og gefur að skilja þarf með þessu að stokka upp skipulag lykilíþrótta og huga að annarri staðsetningu. Stefnt er að því að frjálsíþróttaaðstaðan verði byggð upp á íþróttasvæði Þórs við Hamar í tengslum við Bogann og muni verða tilbúin fyrir Landsmót UMFÍ 2009. Um er að ræða að mínu mati mjög góða tillögu - umfram allt tillögu sem sættir ólík sjónarmið.

Þetta er að mínu mati tillaga sem ég tel mjög vænlega í stöðunni. Við blasir auðvitað þó að ekki er hægt að taka Akureyrarvöll úr notkun með formlegum hætti fyrr en að samkomulag liggur fyrir við íþróttafélögin KA og Þór um stuðning bæjarsjóðs við uppbyggingu félagsvæða þeirra. Ég tel þetta lausn sem bæði eflir félagssvæðin og aðstöðu þeirra og ennfremur tryggir betri nýtingu á eldra vallarsvæðinu en ég tel núverandi nýtingu þess óviðunandi miðað við aðstæður. Það hefur lengi verið mín skoðun að rétt sé að binda enda á núverandi nýtingu þessa svæðis í hjarta bæjarins og stokka það algjörlega upp. Er ég sammála þessum tillögum og fagna þeim mjög, enda efla þær þetta góða svæði á nýjum forsendum. Það er að öllu leyti til eflingar miðbænum að taka þetta lykilsvæði undir annað en íþróttastarfsemi og mun betra að helga það öðrum möguleikum og efla með því miðbæinn.

Ennfremur kynntu leiðtogar meirihlutaflokkanna í gær tillögur sínar að legu tengibrauta. Þar er gert ráð fyrir að Miðhúsabraut, frá Súluvegi að Mýrarvegi, verði lögð á þessu ári í einum áfanga. Stefnt er að því að til verkefnisins verði veitt 100 milljóna króna aukafjárveiting við endurskoðun fjárhagsáætlunar fyrir árið 2006. Er það auðvitað gleðiefni að Miðhúsabraut komi til sögunnar og tel ég að þetta sé farsæl lausn og mun tilkoma hennar verða til góða. Enn frekar fagna ég þeirri ákvörðun að Dalsbraut, sunnan Þingvallastrætis, sé sett á skipulag. Tekið er fram í þessari yfirlýsingu að framkvæmdir við götuna hefjist ekki fyrr, en áhrif af lagningu Miðhúsabrautar hafa verið könnuð og aðrir kostir reyndir til þrautar. Verði gatan lögð yrði haft samráð við íbúa og hverfisnefndir um hönnun hennar. Það er fyrir mestu að þessar tillögur liggi nú fyrir og með því sætt ólík sjónarmið.

Ég bý við Þórunnarstræti, eina fjölförnustu götu Akureyrarbæjar. Ég fagna því að Dalsbraut sé aftur sett inn á skipulag. Satt best að segja þótti mér það ekki kræsilegt að setja alla umferð í Naustahverfið í gegnum Þórunnarstrætið og hef verið þeirrar skoðunar að Dalsbraut eigi að leggja. Hún hefur verið inni á skipulagi allt frá árinu 1974 og kemur því engum að óvörum, hvorki bæjarbúum almennt né heldur þeim sem byggt hafa íbúðarhús sín eða byggingar af öðru tagi á þessu svæði. Ég tel mikilvægt að Dalsbraut í þeirri mynd sem rætt hefur verið um verði að veruleika fyrir lok næsta kjörtímabils. Sem íbúi við Þórunnarstræti tel ég það algjörlega óhjákvæmilegt. En ég fagna þessum tillögum og tel þær mjög til góða.