Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 apríl 2006

Valdaferli Ariel Sharon lýkur formlega

Ariel Sharon

Fimm ára forsætisráðherraferli Ariel Sharon í Ísrael og hálfrar aldar litríkum stjórnmálaferli hans lauk formlega í dag. Þá samþykkti ríkisstjórn Ísraels einróma þá ákvörðun, að höfðu samráði við lækna á Hadassah-sjúkrahúsinu í Ísrael, að hann væri varanlega óhæfur til að gegna ráðherraembætti og stýra ríkisstjórn landsins vegna veikinda. Rúmir þrír mánuðir eru liðnir síðan að Sharon féll í dá eftir alvarlegt heilablóðfall. Síðan hefur hinn 78 ára gamli forsætisráðherra legið í dái á sjöundu hæð sjúkrahússins og með hverjum deginum minnka líkurnar á því að hann vakni til meðvitundar að nýju. Þegar að Sharon hvarf af pólitísku sjónarsviði með svo snöggum hætti hafði hann snúið ísraelskum stjórnmálum á hvolf. Hann yfirgaf Likud-bandalagið, sem hann stofnaði ásamt fleirum árið 1973, og sagði af sér leiðtogaembætti flokksins og stofnaði nýjan flokk, Kadima (Áfram). Boðað var til kosninga og flest stefndi í að Sharon kæmi sem sigurvegari út úr þeim.

Löngum var góð heilsa og úrvalsúthald eitt af aðalsmerkjum Ariels Sharon. Hann var maður sem vann alla tíð langan vinnudag, helgaði sig vinnu og áhugamálum tengdum stjórnmálum. Seinni kona hans, Lily, lést úr krabbameini árið 2000, ári eftir að Sharon varð leiðtogi Likud. Var það honum mikið áfall og vann hann sig út úr því áfalli með meiri vinnu og álagi tengdu henni. Helgaði hann sig pólitískri baráttu og lagði sig allan fram í þingkosningunum í febrúar 2001, þar sem hann var forsætisráðherraefni Likud-bandalagsins. Hafði hann sigur á Ehud Barak þáv. forsætisráðherra og leiðtoga Verkamannaflokksins. Með því varð Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, 73 ára að aldri. Sharon hafði tekist það sem flestum hafði þótt óhugsandi jafnvel nokkrum árum áður - að komast til valda í Ísrael. Í þingkosningunum 28. janúar 2003 fékk Likud flest atkvæði og Sharon hélt yfirburðastöðu sinni í ísraelskum stjórnmálum.

Stórsigur Sharons í kosningunum 2003 var sögulegur, enda var þetta í fyrsta skipti frá árinu 1980 sem sitjandi forsætisráðherra Ísraela vann endurkjör. Eftir nokkra stjórnarkreppu myndaði hann stjórn hægri- og trúarflokka. Entist hún ekki til loka kjörtímabilsins - vík varð milli vina í Likud. Deilt var um leiðir í M-Austurlöndum. Á gamals aldri varð hinn herskái Sharon allt í einu friðelskandi maður innan Likud og deilurnar vegna stefnu hans í friðarmálum leiddu til klofnings flokksins. Hann hafði eftir lát Yasser Arafat í árslok 2004 breytt um tón og stefnu í friðarmálum og varð allt í einu maður friðarboðskapar í M-Austurlöndum. Hefði fáum órað fyrir því að það myndi gerast fyrir aðeins tveim til þrem árum, t.d. miðað við boðskap hans í þingkosningunum 2003. Sharon ákvað að sverfa til stáls og reyna á stöðu sína með stofnun eigin flokks, eins og fyrr var nefnt.

Flestir vissu að myndi fyrrnefnd leikflétta Sharons sem hann hannaði eftir heppnast myndi blasa við gjörbreytt pólitískt landslag á komandi árum - pólitískt landslag skapað og stjórnað af Ariel Sharon. Það sem gerðist var það sem ekki einu sinni hinn sterki vinnuþjarkur og stjórnsami Sharon gaft haft nokkra stjórn á. Er stefndi í líflega kosningabaráttu og næg verkefni til úrlausnar hjá Sharon kom að því að úthald hans brást. Þess sáust merki laust fyrir jólin að heilsa Sharons væri tekin að dala. Þann 18. desember sl. var hann fluttur með hraði á sjúkrahús í Jerúsalem eftir að hafa fengið vægt heilablóðfall og misst meðvitund. Sharon sýndi þá engin merki alvarlegrar heilabilunar eða þess að veikindin hefðu sett mark á hann að neinu alvarlegu ráði. Sharon var útskrifaður af sjúkrahúsinu tveim dögum síðar. Birtist hann skælbrosandi er hann yfirgaf spítalann og sagði heilsu sína góða. Fréttir bárust þó af því að læknar hefðu fyrirskipað honum að leggja af, en hann hefur til fjölda ára verið of þungur og barist við offituvandamál.

Ákveðið var að hann tæki blóðþynningarlyf til að ná sér eftir veikindin og ákveðið var að hann færi í aðgerð í upphafi nýs árs til að laga meðfæddan hjartagalla sem komið hafði í ljós og talinn þáttur í veikindunum. Síðdegis þann 4. janúar sl. fékk Sharon annað heilablóðfall. Var hann fluttur á Hadassah-sjúkrahúsið öðru sinni. Fljótlega kom í ljós að það væri mun alvarlegra en hið fyrra - staða mála væri grafalvarleg. Var hann færður í bráðaaðgerð eftir að komið hafði í ljós í sneiðmyndatæki alvarleg heilablæðing. Var forsætisráðherrann á skurðarborðinu í tæpa sjö klukkutíma. Að því loknu var heili Sharons kannaður að nýju í sneiðmyndatækinu. Kom önnur blæðing í ljós og önnur aðgerð tók við, að þessu sinni í rúma fjóra tíma. Sólarhring síðar tók við þriðja aðgerðin. Umheiminum varð ljóst að veikindi Sharons væru lífshættuleg. Síðan hefur ekkert gerst. Hann er enn í dái og batahorfur minnka með degi hverjum.

100 dögum eftir valdatöku Ehud Olmert var komið að þeim tímapunkti að meta hvort Sharon gæti snúið aftur. Það getur ekki gerst. Kadima vann kosningarnar undir lok mars og flokkurinn varð ráðandi í ísraelskum stjórnmálum og mun leiða stjórnmálin þar. Sá sigur vannst í skugga veikindanna og var sigurinn helgaður þeim sem tók áhættuna og þorði í hita átakanna. Nú er það ljóst að valdaferli Sharons er lokið. Tekin hefur verið ákvörðun um að halda áfram án jarðýtunnar, eins og hann var svo eftirminnilega kallaður. Stjórnmálaferill hans er á enda en við blasir að mesta barátta hins aldna leiðtoga verði að berjast fyrir lífi sínu. Það sem átti að verða sigurferð hins aldna höfðingja á vettvangi stjórnmálanna rann út í sandinn en eftirmennirnir taka við völdum í skugga þeirrar áhættu sem leiðtoginn Sharon tók fyrir nokkrum mánuðum.

Þó að ekki séu allir stjórnmálaáhugamenn sammála um aðferðir í ísraelskum stjórnmálum er þó samdóma álit flestra að sjónarsviptir sé af Ariel Sharon úr stjórnmálum með þessum hætti. Nú er það eftirmanna hans að taka við valdataumunum með trúverðugum hætti og mynda stjórn - halda áfram á eigin vegum en byggðum á verkum og forystu Ariel Sharon. Hvort að Ehud Olmert tekst að leiða Ísrael með sama öfluga hættinum og Sharon tókst á fimm ára forsætisráðherraferli sínum skal ósagt látið nú.