Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 apríl 2006

Reiðilestur Ingibjargar Sólrúnar

ISG

Sömu helgi og við sjálfstæðismenn héldum flokksráðs-, formanna- og frambjóðendafund okkar hér á Akureyri hittust Samfylkingarmenn á flokksstjórnarfundi í Reykjavík. Þar hélt ræðu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður flokksins og borgarfulltrúi. Þar flutti hún mikinn reiðilestur yfir flokksmönnum og skammaði allt og alla sem með einhverjum hætti tengjast Sjálfstæðisflokknum. Aðalfréttin eftir þennan fund var að hún veittist að flokknum og valdi honum vond orð. Ekki örlaði mikið á fréttum af stefnu Samfylkingarinnar eða tali formannsins um málefni væntanlegar kosningabaráttu í fréttum. Ég tel að allir hafi vitað um hug Ingibjargar Sólrúnar til Sjálfstæðisflokksins og þætti væntanlega ekki fréttnæmt þó að hún léti gremju sína í garð hans í ljós. Ingibjörg Sólrún virðist hafa mjög fátt fram að færa nema gremju í garð andstæðinga sinna. Það er ekki furða þó að pólitískir spekúlantar líti á Samfylkinguna sem furðulegt rekald í pólitík.

Ingibjörg Sólrún hefur þótt mistæk á formannsstóli Samfylkingarinnar. Flokkurinn átti í verulegri krísu fyrstu mánuði formannsferils hennar en hann hefur þó rétt örlítið úr kútnum seinustu vikur eftir dapurt gengi í könnunum. Hún átti í verulegum erfiðleikum með að fóta sig á sviðinu. Henni virðist sérstaklega reynast erfitt að fóta sig pólitískt eftir að Davíð Oddsson fór úr stjórnmálum. Öll hennar stjórnmálabarátta seinustu árin, eftir að hún kom aftur inn í landsmálin, eftir misheppnaða útgöngu úr hlutverki sameiningartákns R-listans (sem lauk með harkalegum hætti) hefur enda miðast við andstöðuna við Davíð Oddsson. Hún hefur allan þann tíma reynt að skáka Davíð. Henni tókst það aldrei í pólitískum slag við Davíð Oddsson og virkað vandræðaleg eftir brotthvarf hans. Ingibjörg Sólrún er nú að marka sér endanlega sess í landsmálum. Hún skipar heiðurssæti Samfylkingarinnar í borginni og það styttist því í að setu hennar í borgarstjórn ljúki.

Ingibjörg Sólrún birtist okkur sem fylgjumst með stjórnmálum sem mjög reið kona og reið út í andstæðinga sína. Það að einhverjum hafi þótt reiðilestur hennar yfir Sjálfstæðisflokknum efni í fyrstu frétt á forsíðum eða fréttatímum er stórundarlegt. Andstaða hennar við allt sem tengist Sjálfstæðisflokknum er fyrir löngu orðin landskunn og ergelsi hennar í garð Davíðs Oddssonar gleymist engum. Gamla platan virðist komin á nú þegar að styttist í kosningar. Það er kannski varla undarlegt með Sjálfstæðisflokkinn yfir í borginni og sterkan í könnunum í landsmálunum. Það stefnir allt í að Samfylkingin missi völdin í borginni og flokkurinn virðist ganga sneyptur í landsmálapælingum. Það er ekki undarlegt að Ingibjörg Sólrún sé reið. En það að reiði hennar sé aðalfréttin vekur athygli og um leið spurningar um hvort að þessi flokkur hafi engin málefni að keyra á í kosningabaráttunni nema stefnuleysi í varnarmálum og daður við einhverja óra um að Evrópuríkin taki að sér varnir landsins.

Það er því skiljanlegt að Ingibjörg Sólrún flytji reiðilestur yfir flokksmönnum sínum - þó telst það undarlegt að sá reiðilestur í garð Sjálfstæðisflokksins sé fréttnæmur. Það að formaður Samfylkingarinnar hafi ekkert fram að færa á slíkum fundi og var um helgina vekur mikla athygli, einkum á málefnastöðu flokksins.