Risastór gullaldarklassík kvikmyndabransans
Í dag er pálmasunnudagur. Ég eyddi þeim degi í mikla afslöppun eftir miklar annir seinustu daga og ákvað að horfa á gamla og góða stórmynd. Það hefur lengi verið svo með mig að ég tel svona helgidaga ágæta til að horfa á langar og veglegar myndir. Ég horfði á eðalmyndina Giant - stórfenglegt og ógleymanlegt meistaraverk frá miðjum sjötta áratugnum þar sem sagt er frá hinum geysilegu þjóðfélagsbreytingum sem áttu sér stað í Texas, er það breyttist úr mikilvægu nautgriparæktarhéraði í stærsta olíuiðnarfylki Bandaríkjanna á fjórða og fimmta áratug 20. aldarinnar. Hér segir frá nautgripabóndanum Jordan Benedict sem á stærsta búgarð Texasríkis, Reata, og rekur hann búið ásamt hinni kjarnmiklu systur sinni Luz Benedict í upphafi myndarinnar. Allt hans lífsmynstur tekur miklum breytingum er hann kynnist hinni auðugu Leslie Lynnton og giftist henni.
Er hann snýr aftur heim með eiginkonu sína breytist líf hans til muna er hún tekur til við að stjórna fjölskyldubúinu að sínum hætti og mislíkar systur hans ráðríki eiginkonunnar. Er hún fellur snögglega frá eftir að hafa dottið af baki á hesti eiginkonu bróður síns breytist lífsmynstrið á búgarðinum og tekur Leslie þá að fullu við húsmóðurhlutverkinu á staðnum. Er Luz Benedict fellur frá kemur í ljós að hún hefur ánafnað vinnumanninum á bænum, Jett Rink, stóran landskika af búgarði óðalseigandans. Reynir Jordan að borga honum jafnvirði skikans til að halda því innan fjölskyldunnar. Jett hafnar því og reynist skikinn luma á ofurgnótt olíulinda. Vinnumaðurinn rís úr öskustónni og reynir að ásælast völd og áhrif óðalsbóndans - upp hefst öflug valdabarátta þar sem öllum brögðum er beitt. Óviðjafnanleg kvikmynd sem lýsir hinum miklu þjóðfélagsbreytingum sem urðu í Texas um miðja 20. öldina á einstaklega góðan hátt.
Hér er allt til að skapa ógleymanlegt meistaraverk; handritið, myndatakan og tónlistin eru frábær, en aðall myndarinnar er leikstjórn meistarans George Stevens, sem hlaut óskarinn fyrir. Leikurinn er í klassaformi. Rock Hudson var aldrei betri og glæsilegri en í hlutverki óðalsbóndans Jordan Benedict. Mercedes McCambridge er stórfengleg í hinu litla en bitastæða hlutverki kjarnakonunnar Luz Benedict og hlaut hún óskarinn fyrir. Elizabeth Taylor er eftirminnileg í hlutverki ættmóðurinnar Leslie Lynnton Benedict og skapar eftirminnilega og heilsteypta persónu sem heldur reisn sinni og glæsileika til enda. Síðast en ekki síst er James Dean frábær í síðasta kvikmyndahlutverki sínu sem hinn áhrifagjarni og valdagráðugi Jett Rink sem fellur að lokum á eigin bragði. Hann lést í bílslysi hinn 30. september 1955, örfáum dögum eftir að tökum á myndinni lauk. Dean var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir leik sinn, eftir andlát sitt (fyrstur allra).
Hafði ég ekki séð þessa mynd alllengi er ég setti hana í tækið - en ég hafði keypt myndina á DVD fyrir rúmu ári. Var ég satt best að segja búinn að gleyma hvað þessi mynd er ótrúlega góð og sterkbyggð lýsing á Texas, fyrir og eftir breytingarnar miklu í olíubissnessnum. Þetta þriggja tíma svipmikla meistaraverk hefur staðist tímans tönn með eindæmum vel. Að mínu mati kunnu þeir sem gerðu myndir á fyrrihluta 20. aldarinnar betur þá miklu snilld að segja frá dramatískum stórátökum og skapa hina gullnu stórmynd en arftakar þeirra (með nokkrum undantekningum þó). Það er valinn maður á hverjum pósti í þessu epíska meistaraverki og hefur myndin jafnvel batnað með aldrinum, eins og hið allra besta rauðvín.
Semsagt: gullaldarklassík sem er nauðsynlegt öllum þeim sem hafa gaman af eðalmyndum kvikmyndasögunnar. Og ekki síst öllum þeim sem vilja verða vitni að seinustu töfrum hinnar gömlu kynslóðar sem gerði Hollywood að því stórveldi sem það er í dag. Ómótstæðilegt tímamótaverk - þessa verða allir að sjá (og upplifa með sínum hætti).
<< Heim