Sunnudagspistill - 9. apríl 2006
Tvö mál eru í brennidepli í sunnudagspistlinum:
- Það eru sjö vikur til sveitarstjórnarkosninga - þá ganga landsmenn að kjörborðinu og kjósa sér fulltrúa sína á sveitarstjórnarstiginu. Í aðdraganda kosninganna komum við sjálfstæðismenn saman hér á Akureyri um helgina og stilltum saman strengi okkar. Þessi fundur var sögulegur að mörgu leyti. Umfram allt vegna þess að þetta er í fyrsta skipti í 77 ára sögu Sjálfstæðisflokksins sem fundur af þessu tagi er haldinn utan Reykjavíkur og er svo sannarlega kominn tími til myndi einhver segja. Það var okkur sjálfstæðismönnum á Akureyri sannur heiður og gleðiefni að fundinum skyldi valinn staður hér norðan heiða. Fundurinn gekk alveg ljómandi hreint fyrir sig og hingað mættu rúmlega 200 manns til fundahalda og skemmti sér konunglega.
- Á fimmtudag birtist fyrsta skoðanakönnunin á fylgi framboðanna á Akureyri fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 27. maí nk. Voru niðurstöðurnar athyglisverðar. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 4 fulltrúa, vinstri grænir 3, Samfylking 2 og Framsóknarflokkur og Listi fólksins hafa 1. Samkvæmt þessu er því meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fallinn. Ástæðan er auðvitað fylgishrun Framsóknarflokksins. Greinilegt er að frægðarsól Framsóknarflokksins í þessu gamla höfuðvígi þeirra er eitthvað farin að síga. Þessi könnun er vísbending á stöðu mála en kosningabaráttan er rétt að hefjast og verður spennandi.
Viðbót
Að lokum vil ég benda á að ég hef ákveðið að hætta að birta ágrip sögu dagsins og snjallyrði eins og ég hef gert mjög lengi. Tel ég rétt að stokka upp umfjöllun á vefnum og munu færslurnar nú verða um eitt tiltekið efni og fleiri en ein færsla á hverjum degi. Það er eftirsjá af þessum gömlu fastaliðum en ég tel mig hafa staðið mig ágætlega við að benda á sögulega punkta og snjallyrði og tel ágætt að stokka þetta upp nú. Eftir sem áður mun ég reyna að blanda sögulegum punktum í skrifin á vefnum.
kv. SFS
<< Heim