Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 apríl 2006

Tvísýn staða í ítölsku þingkosningunum

Romano Prodi og Silvio Berlusconi

Það er óhætt að segja að gríðarleg óvissa ríki í ítölskum stjórnmálum þessa stundina meðan að talning í þingkosningunum þar stendur yfir. Valdablokkirnar til hægri og vinstri eru svo jafnar á metum að erfitt er að spá um hvor þeirra muni ríkja í landinu næstu árin. Seinustu vikurnar hafa Silvio Berlusconi forsætisráðherra, og Romano Prodi fyrrum forsætisráðherra og forseti ESB, slegist um hylli kjósenda og beitt öllu til að vekja athygli á sér og málstað sínum. Það er vægt til orða tekið að Berlusconi og Prodi séu litlir mátar. Þeir hafa tekist á í ítölskum stjórnmálum í mjög langan tíma, bæði fyrir og eftir að Prodi varð forseti ESB. Þeir áttust við í þingkosningunum í mars 1996 en þá beið Berlusconi ósigur fyrir ólífubandalaginu leiddu af Prodi. Hann lét af embætti vegna valdaátaka innan bandalagsins árið 1998 og fór til ESB er Jacques Santer hætti þar. Hann kom svo aftur inn í ítalska pólitík er skipunartíma hans hjá ESB lauk árið 2004.

Ef marka má seinustu tölur frá Ítalíu blasir við að Berlusconi hafi unnið kosningarnar með naumum hætti og haldi völdum í landinu. Fyrr í dag benti allt til hins gagnstæða. Útgönguspár sýndu nokkuð afgerandi sigur Ólífubandalagsins og flest benti til þess að Prodi næði að komast til valda líkt og fyrir áratug er han sigraði Berlusconi. Báðir leiðtogarnir voru þó varkárir og vildu engar yfirlýsingar gefa fyrr en heilsteypt mynd kæmist á stöðuna með talninguna. Það var varla furða enda hefur það gerst í ítölskum þingkosningum að útgönguspárnar séu rangar og þær endurspegli ekki endilega stöðu mála með afgerandi hætti. Það gerðist svo er fyrstu tölur komu á sjöunda tímanum að staðan varð allt önnur. Skyndilega var enginn afgerandi sigurvegari og úrslitin virtust hanga á bláþræði og ekki vitað hvoru megin sigurinn myndi liggja. Er líða tók á kvöldið tók staða Berlusconis mjög að vænkast og bendir nú flest til þess að hann muni hafa sigur í kosningunum en mjög nauman þó.

Silvio Berlusconi hefur verið forsætisráðherra Ítalíu í fimm ár, eða allt frá því í júnímánuði 2001 er þingkosningar fóru þar síðast fram. Þá vann hægriblokkin nokkuð afgerandi sigur, miðað við útgönguspár sem sýndu jafna stöðu fylkinganna. Berlusconi er sá forsætisráðherra Ítalíu sem lengst hefur setið frá stríðslokum en lengst af þessu tímabili sátu stjórnir í aðeins örfáa mánuði og heyrði til undantekninga ef að stjórnir sátu lengur en ár. Samfellt hafði Bettino Craxi setið lengst á valdastóli þar til að Berlusconi sló það valdamet í árslok 2003. Fari svo sem flest bendir til getur hann setið væntanlega við völd allt til ársins 2011. Það ræðst þó auðvitað allt á stærð meirihlutans ef hann sigrar kosningarnar en vængbrotin staða í annarri deildinni getur leitt til vandræða fyrir þá stjórn sem mynduð verður eftir kosningarnar. Þó blasir við að forsetaskipti verði brátt í landinu en sjö ára kjörtímabil Carlo Azeglio Ciampi lýkur í næsta mánuði.

Það verður ekki hægt að mynda nýja starfhæfa stjórn fyrr en forsetaskipti hafa orðið og nýr forseti hefur falið sigurvegara kosninganna það umboð. Haldi Berlusconi völdum mun hann sitja áfram eins og ekkert hafi gerst og beðið verður forsetaskipta með uppstokkun á ríkisstjórn. Tapi hann kosningunum mun hann aðeins verða starfandi forsætisráðherra þar til valdaskipti hafa farið fram. En kosningarnar á Ítalíu eru þær tæpustu í marga áratugi og nú þegar langt er liðið á talningu er enginn afgerandi sigurvegari kominn. En ef marka má stöðuna og fyrri reynslu af lokasprettinum heldur hægristjórnin völdum. Það vekur athygli í ljósi þess að stjórnarflokkarnir voru alla kosningabaráttuna undir í skoðanakönnunum en hafði jafnt og þétt minnkað forskotið.