Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 ágúst 2005

Punktar dagsins
Díana, prinsessa af Wales (1961-1997)

Átta ár eru í dag liðin frá því að Díana prinsessa af Wales, fórst í hörmulegu bílslysi í París. Mikið hefur verið rætt og ritað um ævi og örlög Díönu prinsessu, bæði fyrir og eftir sviplegt andlát hennar. Óhætt er að fullyrða að hún hafi verið ein mest áberandi kona 20. aldarinnar og sett svip sinn á samtíð sína með mjög miklum hætti. Eins og frægt var sagt í blöðum er hún lést var hún mest myndaða kona sögunnar. Hún var sannkölluð fjölmiðlastjarna sem skreytti bresku konungsfjölskylduna og var áberandi bæði fyrir og eftir að hún giftist inn í fjölskylduna. Hún heillaði allan almenning um leið og hún var kynnt fyrst fyrir fjölmiðlum fyrir 24 árum og var athyglisvert mótvægi við Karl Bretaprins, sem hún giftist hinn 29. júlí 1981. Sögulega séð verður hennar sennilega helst minnst fyrir að hafa gifst Karli, ríkiserfingja Bretlands, og að vera móðir væntanlegs konungs Bretlands, Vilhjálms Bretaprins. Brúðkaup Díönu og Karls í St. Paul's dómkirkjunni í London í júlí 1981 var á þeim tíma kallað brúðkaup aldarinnar. Hjónaband þeirra virtist í upphafi ætla að styrkja konungdæmið í Bretlandi og verða hamingjusamt. Eignuðust þau synina William og Harry á fyrri hluta níunda áratugarins. Brestir komu þó fljótt í hjónabandið og þau skildu að borði og sæng í desember 1992, 11 árum eftir giftinguna.

Lögskilnaður þeirra varð svo að veruleika í ágúst 1996 og hélt Díana titli sínum sem hin konunglega hátign. Díana prinsessa gerði grein fyrir sinni hlið fallandi hjónabands síns í frægri bók árið 1992. Á þeim tíma var ekki gefið upp að hún væri heimildarmaður bókarinnar en Andrew Morton ljóstraði loks formlega upp um það eftir lát hennar. Þó varð öllum ljóst að Díana sjálf hefði veitt viðtöl vegna bókarinnar og hún hafði leyft nánustu vinum sínum að tjá sig um hjónaband hennar og árin ellefu í hjónabandinu við Karl. Í bókinni kom fyrst fram opinberlega að Díana hefði verið haldin átröskunarsjúkdómnum búlimíu og strítt jafnframt við sjálfmorðshugsanir á tímabili. Á síðasta ári voru fyrst birtar opinberlega hljóðupptökur af samtölum Díönu við Andrew Morton ævisöguhöfund hennar, en samtölin voru hljóðrituð 1991, ári fyrir útgáfu bókarinnar. Árið 1995 tjáði hún sig svo opinberlega í fyrsta skipti um hjónabandið í viðtali í þættinum Panorama og lét ekkert eftir liggja í frásögnum. Bæði bókin og sjónvarpsviðtalið sýndi ævintýraprinsessuna í nýju ljósi. Á bakvið brosin og gleðina sem á yfirborðinu voru sýnileg í fjölmiðlum var eymd og sársauki. Þetta kom vel fram seinustu æviár hennar. Í raun má segja að uppljóstrun þessara þátta hafi sýnt Díönu í öðru ljósi og haft áhrif á það hvernig sagan metur hana.

Allir sem upplifðu sunnudaginn 31. ágúst 1997 muna eftir því hversu mjög andlát hennar kom á óvart. Segja má að flesta hafi sett hljóða við fregnina um dauða hennar. Fráfall hennar snerti marga. Það er sennilega best að segja sem svo að andlát hennar hafi sett mark sitt á almenning allan. Um London var blómahafið ótrúlegt, fólk kom með blóm í miðborg London við heimili hennar í Kensington-höll og við Buckingham-höll til minningar um hana, og sorgin var ólýsanleg. Vikan sem leið frá sviplegu fráfalli hennar til jarðarfararinnar var ólýsanlegur tími sorgar og hluttekningar almennra borgara í garð konu sem fallið hafði frá - konu sem flest þeirra höfðu aldrei talað við en töldu sig þekkja af kynnum sínum af henni í fjölmiðlum og í fjarlægð meðan hún var eiginkona ríkisarfa Bretlands og móðir væntanlegs konungs Bretlands. Persónulega hef ég alltaf borið mikla virðingu fyrir Díönu prinsessu. Það mun sennilega líða á löngu áður en ein manneskja mun hafa jafnmikil áhrif á jafnmarga og hún gerði, bæði í lifanda lífi og eftir dauða sinn. Þeim sem vilja kynna sér ævi Díönu bendi ég á bók Andrew Morton um hana frá árinu 1992 og minningabók Anthony Holden um hana, sem kom út árið 1998.

Kenneth Clarke

Leiðtogakjör er framundan í breska Íhaldsflokknum. Reglum vegna kjörsins hefur nú verið breytt. Nú er það þingflokkur Íhaldsflokksins og áhrifamenn innan flokksins sem velja leiðtogann. Þannig var það allt til ársins 2001 er Iain Duncan Smith var kjörinn leiðtogi af öllum flokksmönnum í póstkosningu. Reglunum hafði verið breytt árið áður og var þeim ætlað að breyta ásýnd flokksins. Er Duncan Smith var steypt af stóli innan flokksins fyrir tveim árum varð Michael Howard sjálfkjörinn sem eftirmaður hans á leiðtogastóli. Hann boðaði brotthvarf sitt af leiðtogastóli eftir að Íhaldsflokknum mistókst að vinna þingkosningarnar fyrr á þessu ári og afla flokknum fleiri en 300 þingsæti. Stefnir allt í mikil átök um val á eftirmanni hans. Í gær lýsti Kenneth Clarke fyrrum fjármálaráðherra Bretlands, yfir framboði sínu til leiðtogastöðunnar. Er þetta í þriðja skiptið sem hann fer fram, en hann tapaði í leiðtogakjöri árin 1997 og 2001. Hefur hann lengi verið umdeildur innan flokksins vegna skoðana hans á Evrópumálunum. Ennfremur hefur Malcolm Rifkind fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, tilkynnt um framboð sitt. Er hann almennt talinn í vinstriarmi flokksins. Er öruggt að David Davis muni gefa kost á sér, en hann er framarlega í núverandi skuggaráðuneyti flokksins. Jafnframt bendir flest til þess að Liam Fox og David Cameron munu ennfremur gefa kost á sér. Framundan er því án nokkurs vafa mjög spennandi kjör í Íhaldsflokknum á nýjum leiðtoga flokksins.

Árni Þór Sigurðsson

Óhætt er að segja að Árni Þór Sigurðsson leiðtogi VG í borgarstjórn og fyrrum forseti borgarstjórnar, hafi komið mörgum á óvart í gær með því að bjóða sig fram í annað sætið á framboðslista VG fyrir væntanlegar borgarstjórnarkosningar. Hann ætlar greinilega að leggja allt undir og leggur áherslu á að VG sækist hið minnsta eftir tveim borgarfulltrúum og leggur sig að veði, hann fari þá út ef flokkurinn nær ekki þeim fjölda í borgarstjórn sem hann hefur nú innan R-listans, semsagt tveim. Nær öruggt er að Svandís Svavarsdóttir fari fram í fyrsta sætið. Svandís er vel ættuð pólitískt. Faðir hennar er Svavar Gestsson sendiherra og fyrrum ráðherra og formaður Alþýðubandalagsins. Hún er móðir Odds Ástráðssonar formanns ungra vinstri grænna. Hún er núverandi formaður VG í borginni. Engum þarf að blandast hugur um það hversu sterk hún er innan flokkskjarnans. Svo er staða Bjarkar Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa, með öllu óljós eftir að hún varð undir á frægum félagsfundi VG um daginn. Katrín Jakobsdóttir ætlar væntanlega ekki að fara fram í borgarmálunum. Væntanlega stefnir hún á þingframboð árið 2007. Nú hefur Árni Þór minnt á sig og opnað heimasíðu á netinu. Byrjar hann með krafti með skondnum pistli um vefskrif Össurar.

Eyðileggingin í New Orleans

Fellibylurinn Katrín gekk yfir Louisiana, Mississippi og Alabama í byrjun vikunnar og olli gríðarlegu tjóni og eyðileggingu. Talið er að Katrín sé umfangsmesti fellibylur og ofsaveður sem yfir Bandaríkin hafi gengið í manna minnum. Glundroði ríkir í New Orleans og er óttast um að mörg hundruð manns, jafnvel þúsundir, hafi farist í flóðum eftir hamfarir Katrínar. Flætt hefur um meginpart borgarinnar og eyðileggingin er gríðarleg. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, flýtti lokum sumarfrís síns í Crawford í Texas og hélt til Louisiana og flaug yfir hamfarasvæðin. Tjáði hann sig um málið að því loknu og lofaði yfirvöldum á svæðinu allri mögulegri aðstoð sem til þyrfti. Sagði forsetinn að náttúruhamfarirnar séu með því versta sem yfir Bandaríkin hafi dunið í manna minnum. Ljóst er að uppbyggingarstarf muni taka mörg ár, jafnvel áratugi. Ljóst er að Katrín hefur valdið mun meira eigna- og fjártjóni en aðrar náttúruhamfarir síðustu árin. Hugur allra er þessa dagana hjá íbúum suðurríkja Bandaríkjanna sem orðið hefur fyrir eignatjóni og misst aðstandendur sína í hamförunum.

Markús Örn Antonsson

Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, lætur af störfum í dag. Við blasir að nokkur þáttaskil eru framundan hjá RÚV samhliða útvarpsstjóraskiptum. Það hefur komið vel fram í fjölmiðlum eftir að tilkynnt var um skipan Páls Magnússonar í þetta embætti að hann hefur um margt ólíkar skoðanir á hlutverki RÚV og stefnu þess en forverinn. Hvaða skoðanir sem menn hafa svosem á verkum Markúsar Arnar má fullyrða að hann hafi sett mikið mark á Ríkisútvarpið. Hefur hann enda starfað með hléum hjá RÚV allt frá árinu 1966. Hann var einn af fyrstu fréttamönnum Sjónvarpsins og starfaði þar allt til þess að hann varð stjórnmálamaður. Eftir störf að stjórnmálum og setu í útvarpsráði var hann skipaður útvarpsstjóri árið 1985. Hann var borgarstjóri í Reykjavík í þrjú ár, 1991-1994, og varð svo aftur útvarpsstjóri árið 1997. Hefur RÚV breyst mjög á starfstíma hans og við blasa enn meiri breytingar á fjölmiðlalandslaginu. Á þessum tímamótum hjá RÚV samhliða því að Markús Örn hættir og heldur til starfa í utanríkisþjónustunni blasir nýtt starfsumhverfi og aðstæður í harðnandi samkeppni á fjölmiðlamarkaði við eftirmanni hans.

Saga dagsins
1919 Jóhann Sigurjónsson skáld og rithöfundur, deyr í Kaupmannahöfn. Hann var þá 39 ára að aldri.
1980 Silfursjóður fannst við Miðhús á Fljótsdalshéraði - hefur verið deilt um aldur silfursins síðan þá.
1980 Verkalýðssamtökin Samstaða voru stofnuð í Póllandi - leiddi uppreisn gegn stjórn kommúnista.
1994 Írski lýðveldisherinn lýsir yfir fullu vopnahléi, eftir rúmlega 25 ára baráttu með sprengjuárásum.
1997 Díana prinsessa af Wales, deyr, í bílslysi í París. Díana prinsessa var 36 ára gömul er hún lést.

Snjallyrðið
Fyrir löngu, löngu bjó
ljúflingsmey í steini,
hjúfraði og hörpu sló
svo hljómurinn barst út að sjó
til eyrna ungum sveini;
eitthvert töfraafl hann dró
yfir skriður, holt og mó
að Ljúflingasteini.
En þó varð hörpuhljómurinn
að heitu, sáru veini;

Opna steininn ei ég má
aldrei færð þú mig að sjá
en hug minn áttu og hjartans þrá
heillavinurinn eini.
Margur er þeim að meini,
sem búa í steini.

Sveinninn hlýddi hljóður á
og hugsaði margt í leyni.
Í steininum heyrði hann hjarta slá
og utan um hann örmum brá,
kyssti hann og kreisti hold frá beini.
Margt er þeim að meini
sem eiga það, sem þeir elska mest,
inni í steini.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Margt er þeim að meini)

Þakka þeim sem hafa sent komment á ljóðin sem ég hef birt á vefnum. Það er ánægjulegt að fleiri hafa haft gaman af þessum ljóðum en ég.

30 ágúst 2005

Punktar dagsins
Gísli Marteinn Baldursson

Gísli Marteinn Baldursson varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, tilkynnti á fjölmennum fundi með stuðningsmönnum sínum í Iðnó á sunnudag um framboð sitt í leiðtogasæti á framboðslista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningar 27. maí nk. Það er því ljóst að kosið verður milli manna hvað varðar efsta sætið, en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi, sem verið hefur leiðtogi borgarstjórnarflokksins frá árinu 2003, sækist eftir umboði flokksmanna til áframhaldandi forystu og því að leiða framboðslistann. Báðir eru Vilhjálmur og Gísli Marteinn mætir menn sem hafa unnið fyrir flokkinn af heilindum og hafa metnað til að vinna vel fyrir kjósendur. Það er auðvitað bara eðlilegt að ungir menn á borð við Gísla Martein sem hafa áhuga á stjórnmálum hafi ambisjónir fyrir sig og vilji vinna fyrir flokk sinn og kjósendur. Það er svo flokksmanna að velja á milli manna, velja þann sem leiðir flokkinn í kosningunum. Það er ekkert að því að menn hafi val í þeim efnum. Það er einfaldlega bara merki um lýðræði og opin vinnubrögð innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að valkostir séu uppi í stöðunni og það mun svo verða almennra flokksmanna að taka svo af skarið og velja þann sem leiðir flokkinn í kosningunum - til sigurs! Lykilatriði er að sjálfstæðismenn velji sér þann leiðtoga sem leitt getur flokkinn á sigurbraut.

Alveg ljóst er að Gísli Marteinn hefur á að skipa fjölmennum hópi stuðningsmanna sem samanstendur af flokksbundnum sjálfstæðismönnum og eins af þeim sem vilja breytingar í borgarmálum og hafa ekki valið sér það hlutskipti að ganga í flokk. Kristallast þetta vel í skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt er í dag. Þar kemur fram að flestir Reykvíkingar vilja Gísla Martein sem næsta borgarstjóra. Tæpur fjórðungur þeirra sem tóku afstöðu valdi hann. Næstur kemur Stefán Jón Hafstein, svo Vilhjálmur Þ. og loks kemur Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri. Nýtur Gísli Marteinn fylgis um 24%, Stefán Jón hefur um 20%, Vilhjálmur Þ. um 18% og Steinunn Valdís hefur rétt rúm 10%. Athygli vakti að Gísli Marteinn og Stefán Jón voru saman í báðum dægurmálaspjallþáttunum í gærkvöldi og fóru yfir leiðtogaslaginn sem framundan er innan bæði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Greinilegt er að vinstrimenn óttast mjög leiðtogaframboð Gísla Marteins. Skýrt dæmi um þetta eru skrif Össurar Skarphéðinssonar leiðtoga Samfylkingarinnar í RN og fyrrum formanns flokksins, í bloggfærslu sinni í gær. Það er greinilegt að menn óttast á þeim vængnum Gísla Martein og ef marka má þessa skoðanakönnun Fréttablaðsins er það varla óeðlilegt. Hann nýtur mikils fylgis.

Ég fór í Iðnó á sunnudaginn og var viðstaddur það þegar að Gísli Marteinn lýsti yfir framboði sínu, áður en ég hélt með síðdegisvél heim eftir góða helgi fyrir sunnan. Þar var jákvæð og góð stemmning. Gísli Marteinn lætur reyna á sína stöðu sem er mjög jákvætt. Nú eru örlög hans og annarra frambjóðenda sett í hendur almennra flokksmanna. Persónulega líkar mér vel við Gísla Martein og ákvörðun hans um að gefa kost á sér. Það er eðlilegt að hann láti reyna á hvar hann standi meðal flokksmanna. Það sem mér líkar best við hann er jákvæðni og málefnalegheit. Hann er jákvæður í framsetningu málefnapunkta sinna og kemur fram með góðum hætti. Þannig verður kosningabarátta sjálfstæðismanna að verða í næstu kosningum. Það sem mestu skiptir nú fyrir Sjálfstæðisflokkinn er að þar sé unnið saman að því markmiði að vinna borgina. Áður velja flokksmenn forystuna - talsmenn framboðsins í kosningunum. Þar verður kosið milli manna. Að því loknu verða menn að einhenda sér í það verkefni að vinna saman og tryggja að vinstriöflunum verði komið frá. Það sem hefur verið akkilesarhæll sjálfstæðismanna í borgarmálunum undanfarin ár er sundurlyndi. Nú eru menn samhentir, vonandi, í því markmiði að snúa bökum saman. Kosningarnar á næsta ári er lykilpunkturinn - það eru átökin sem mestu skipta.

Nú skiptir mestu að sjálfstæðismenn í Reykjavík velji þann sem leiða á flokkinn til sigurs. Að mínu mati tel ég rétt að flokkurinn velji ungt fólk til forystu og komi fram með ferska ásýnd og öfluga liðsheild undir forystu yngri kynslóðarinnar í flokknum. Sögulega séð hefur það alltaf reynst best í borgarmálunum. Það blasir við ef sagan er skoðuð allt frá upphafi. Það er enginn vafi á því í mínum huga að þannig eigi það að vera núna. En sjálfstæðismenn verða að vinna saman að sigrinum til að geta náð honum. Það er alveg ljóst. Framundan er spennandi prófkjörs- og kosningabarátta næstu mánuðina í borgarmálunum í Reykjavík.

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins

Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins á fylgi flokkanna í borgarmálunum sem kynnt var í gær nýtur Sjálfstæðisflokkurinn nú langmests fylgis allra framboða sem verða í kjöri í næstu borgarstjórnarkosningum. Sjálfstæðismenn fengju hreinan meirihluta í borginni, eða níu borgarfulltrúa kjörna, ef marka má könnunina. Greinilegt er að endalok R-listans hafa leitt til vatnaskila í borgarmálunum. Nú skiptist fylgið sem eyrnamerkt var R-listanum upp og eftir stendur gjörbreytt pólitískt landslag í borginni í sveitarstjórnarpólitík. Það allavega blasir við þegar litið er á þessa skoðanakönnun, sem vissulega er bara vísbending en segir þó óneitanlega ansi margt. Sjálfstæðismenn hafa unnið vel á kjörtímabilinu og hafa nú hafið fundarferð um borgina. Öflugt forskot Sjálfstæðisflokksins nú kristallar það að kjósendur vilja breytingar - betri borg! Samkvæmt könnuninni fengi Samfylkingin 29,7%, eða fimm borgarfulltrúa. VG hlyti einn borgarfulltrúa kjörinn, en hvorki Framsóknarflokkurinn né Frjálslyndi flokkurinn næðu manni inn í borgarstjórn. Tæp 5% segjast styðja Framsóknarflokkinn en aðeins rúm 2% segjast styðja Frjálslynda. Það er því greinilegt að Samfylkingin fær fleiri borgarfulltrúa kjörna en þeir hefðu fengið í R-listanum en missa völdin.

Mörg sóknarfæri sjást í stöðunni fyrir Sjálfstæðisflokkinn þegar litið er á þessa skoðanakönnun og pólitísku stöðuna almennt í borginni. Fyrst og fremst segir þessi könnun það að Sjálfstæðisflokkurinn á mjög góða möguleika á að vinna kosningarnar og það vinna þær með mjög öflugum hætti. Dauði R-listans segir margt um stöðu mála, en endalok þessa hræðslubandalags breytir stöðunni hvað varðar meirihlutann sem nú ríkir og greinilegt að hann á erfitt með að halda saman fram til kosninga og auðvitað með það að halda meirihlutafylginu í sundruðum framboðum. Hljóti Sjálfstæðisflokkurinn ekki hreinan meirihluta er vandséð að R-listaflokkarnir vinni áfram saman, heldur keppist þeir þá við að reyna að komast í meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Það stefnir allavega í mjög spennandi kosningar og uppstokkun innan flestra flokkanna hvað varðar frambjóðendur og uppröðun á framboðslista. Reyndar blasir við slagur í Samfylkingunni hvað varðar leiðtogastólinn en Stefán Jón Hafstein sem leiðir Samfylkinguna innan R-listans hefur lýst yfir framboði í leiðtogastól flokksins í kosningabaráttunni og ljóst að hann mun a.m.k. keppa við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra, um þann stól. Andar greinilega mjög köldu þar á milli.

Svo er auðvitað óljóst hvað gerist með Össur Skarphéðinsson leiðtoga Samfylkingarinnar í RN og fyrrum formann flokksins. Hann hefur komið með krafti inn í borgarmálaumræðuna og verið mjög áberandi þar. Hann hikaði ekki við að gagnrýna borgarstjórann á föstudag er hún sagði við leiðtogaframboði Stefáns Jóns að hann hefði lengi gengið með borgarstjórann í maganum. Össur tók sig til að kvöldi föstudagsins og ritaði merkilega bloggfærslu sem birtist aðfararnótt laugardagsins. Þar sagði hann að orð Steinunnar Valdísar hefðu verið ósmekkleg. Skrif Össurar vöktu verðskuldaða athygli. Eins og fyrr segir virðist ótti borgarstjórans skiljanlegur, enda nýtur hún mun minna fylgis en Stefán Jón. Tel ég að ég verði sannspár er á hólminn kemur, en ég spáði því að þau tvö sem mestu myndu tapa með dauða R-listans yrðu borgarstjórinn og forseti borgarstjórnar. Sá síðarnefndi var reyndar ansi fyndinn í gær þegar hann kom í fjölmiðla eins og hinn veruleikafirrti vegna lítils fylgis Framsóknar í borginni og sagði framsóknarmenn oft hafa séð það svartara. Fátt varð þó um svör þegar spurt var um hvenær það hefði verið. Það mætti segja mér að það sé farið að fara um Alfreð innan um þjónana sína í glæsihýsi OR að Bæjarhálsi sem væntanlega verður langlífasti minnisvarði hins steindauða R-lista. Það eru flestir farnir að flýja hann.

Snæfellsjökull

Um síðustu helgi var ég fyrir sunnan og átti mjög góðar stundir þar. Var áhugavert að fara um borgina, hitta góða vini og eiga notalegt spjall um stjórnmál og margt fleira. Að morgni laugardags fór ég ásamt góðvini mínum, Gunnari Ragnari Jónssyni, í sumarferð Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Var ferðinni heitið á Snæfellsnesið. Var góður hópur fólks með í för. Sérstaklega hafði ég gaman af að spjalla við það eldra fólk sem var með í för og fara yfir ýmis ólík mál. Fararstjórar í ferðinni voru t.d. borgarfulltrúarnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Kjartan Magnússon. Vorum við í þeirri rútu sem Kjartan var fararstjóri í. Var ánægjulegt að heyra lýsingar Kjartans á svæðinu en hann kynnti það sem fyrir augu bar á leiðinni með miklum glæsibrag. Var þetta mjög góður dagur og gleðilegt að fara þennan hring um Snæfellsnesið. Það er visst ævintýri að kynna sér þetta svæði og virða fyrir sér náttúrufegurðina þar. Að Arnarstapa var grillað og skemmt sér vel og spjallað um margt og mikið.

Fórum við svo að Gestastofu að Hellnum, þar sem er mjög athyglisvert og gott minjasafn. Þar kynnti Guðbjörg Gunnarsdóttir þjóðgarðsvörður, okkur safnið og sögu svæðisins. Skoðuðum við svo safnið og var það mjög ánægjulegt, enda margt þar sem vekur áhuga sögufróðra. Að þessu loknu keyrðum við fyrir nesið og sérstaklega var ánægjulegt að keyra um byggðirnar þar, Ólafsvík, Hellissand og Grundarfjörð. Að því loknu var keyrt aftur til Reykjavíkur. Hef ég nokkrum sinnum áður farið um Snæfellsnesið. Eru reyndar fjögur ár síðan ég fór hringinn um nesið síðast en ég fór þá í leiðinni í heimsókn til ættingja minna í Stykkishólmi, en þar bjuggu tveir bræður mömmu og frændi minn, Árni Helgason, ennfremur, en hann og mamma eru systkinabörn. Hafði ég mjög gaman af þessari ferð og ég er ekki fjarri því að ég hafi hugleitt margt á þessari ferð, enda er Snæfellsnesið einstaklega fallegt og þar er mikil náttúrufegurð og vettvangur kyngimagnaðra atburða. Reyndar gerir Laxness því skondin skil í Kristnihaldinu og sr. Árni Þórarinsson lýsir fólkinu á svæðinu kostulega í ævisögu sinni.

Gunnar Ragnar og Stefán Fr. Stef.

Við komuna til Reykjavíkur héldum við Gunni í það að hafa fataskipti fyrir afmælishátíð SUS sem haldin var að laugardagskvöldinu í Þjóðleikhúskjallaranum. Fórum við þangað saman og áttum við félagarnir mjög góða stund. Þar voru fluttar margar góðar ræður og farið var yfir sögulega punkta í merkri sögu SUS í 75 ár. Átti ég þar gott spjall við marga mæta félaga. Sérstaklega var gaman að heyra ræðu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, og Vilhjálms Egilssonar ráðuneytisstjóra og fyrrum alþingismanns og formanns SUS. Óhætt er að segja að Gústaf Níelsson útvarpsmaður á Útvarpi Sögu, sem var viðstaddur afmælishátíðina og var um tíma í stjórn SUS, hafi sett svip á þessa afmælishátíð en hann ávarpaði afmælishátíðina og kom með marga skemmtilega sögulega punkta. Áttum við gott spjall en við sátum við sama borð á kvöldverðinum. Gústaf er þekktur fyrir það að tjá skoðanir sínar óhikað og var ánægjulegt að ræða málin við hann. Þetta var góð og ánægjuleg helgi.

Cherie Booth Blair

Cherie Blair forsætisráðherrafrú Bretlands, er þessa dagana stödd hér á landi. Ávarpaði hún í gærmorgun heimsfund menningarráðherra úr röðum kvenna sem haldinn er í tilefni af 75 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur fyrrum forseta Íslands, sem fyrst kvenna í heiminum var kjörin forseti heimalands síns með lýðræðislegum hætti árið 1980. Kynnti Cherie þar skýrslu World Economic Forum (Women's Empowerment: Measuring the Global Gender Gap). Er Cherie kynnti skýrsluna kom fram þar að Ísland væri í öðru sæti hvað varðaði hlut kvenna í stjórnmálaákvörðunum. Erum við í þeim efnum aðeins á eftir Svíþjóð. Getum við vel við unað við þá staðreynd mála. Aðeins er ár síðan að Cherie kom síðast til landsins. Í ágústlok í fyrra kom hún til landsins og ávarpaði ráðstefnuna Konur, völd og lögin. Jafnframt kom hún til Akureyrar í þeirri heimsókn til landsins og opnaði listsýninguna Ferð að yfirborði jarðar, á verkum hinnar bresku Boyle-fjölskyldu, á Akureyrarvöku. Kemur hún aftur til Akureyrar í þessari Íslandsför sinni. Þó að ég og Cherie deilum ekki sömu pólitísku hugsjónum hef ég alltaf borið virðingu fyrir henni sem persónu. Leikur enginn vafi á því að hún á mikinn þátt í því hversu farsæll stjórnmálamaður eiginmaður hennar, Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, er. Að kvöldi síðastliðins sunnudags ræddi Eyrún Magnúsdóttir við Cherie í Kastljósinu. Bendi ég lesendum vefsins á að líta á það viðtal.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra

Í áratug hefur Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, haft heimasíðu á netinu. Allan þann tíma hefur hann tjáð þar af miklum krafti skoðanir sínar og skrifað um pólitík og fleiri þætti þjóðmálaumræðunnar, birt þar dagbók og ennfremur allar ræður og greinar sínar. Var Björn brautryðjandi í vefskrifum íslenskra stjórnmálamanna á netinu og er fyrirmynd margra í netvinnslu og í því að skrifa á vefnum. Á vefnum er hægt að fylgjast með verkum og skrifum Björns allan feril hans sem ráðherra, þingmanns og borgarfulltrúa. Eru þeir ekki margir íslensku stjórnmálamennirnir sem hafa á að skipa vef með skrifum í heilan áratug þar sem efnið er óbreytt og sígilt. Sama er hægt að segja um í því tilfelli að hann hefur skrifað allan tímann af krafti. Vefur hans er safn öflugra og vandaðra skrifa um málefni samtímans á hverjum tíma. Nú hefur Björn breytt eilítið forsíðu heimasíðu sinnar og breytt aðeins umfjölluninni og skrifar nú dagbókarfærslur í bloggformi og tekur fyrir málefnin þar með öðrum hætti auk pistlaskrifa sinna vikulega. Ég óska Birni til hamingju með þessa breytingu á vefnum. Það er nú sem ávallt fyrr ánægjulegt að fylgjast með skrifum hans.

Saga gærdagsins
1862 Akureyri fékk kaupstaðarréttindi - þá bjuggu þar 286, en nú búa í bænum rúm 16.000 manns.
1948 Baldur Möller 34 ára lögfræðingur, varð skákmeistari Norðurlandanna, fyrstur allra Íslendinga.
1966 Hljómsveitin The Beatles, hélt seinustu tónleika sína, í San Francisco. Hljómsveitin hætti 1970.
1982 Sænska óskarsverðlaunaleikkonan Ingrid Bergman lést úr krabbameini í London, 67 ára að aldri. Ingrid Bergman var ein frægasta leikkona 20. aldarinnar og hlaut óskarsverðlaun alls þrisvar sinnum.
2000 Fyrsta sólarhringsverslun 10-11 opnuð, flestar verslanir 10-11 eru nú opnar allan sólarhringinn.

Saga dagsins
1720 Jón Vídalín biskup, lést á leið norður í Kaldadal - staðurinn hefur síðan heitið Biskupsbrekka.
1779 Hið íslenska lærdómsfélag var stofnað í Kaupmannahöfn - það var loks lagt niður árið 1796.
1935 Íslenska ríkið eignaðist Geysi í Haukadal - svæðið hafði þá verið í eigu útlendinga í rúm 10 ár.
1967 Borgarskálabruninn - vöruskemmur Eimskips við Borgartún brunnu, en í skemmunum voru þá þúsundir tonna af vörum. Um var að ræða mesta eignartjón í eldsvoða hérlendis, fram að þeim tíma.
1967 Thurgood Marshall verður hæstaréttardómari í Bandaríkjunum - fyrstur allra þeldökkra manna.

Snjallyrðið
Ég skrifa þér með blýant, því blek er ekki til,
og blaðið það er krypplað, og ljósið er að deyja.
En þegar þú færð bréfið, þá veistu hvað ég vil,
og veist að ég er heima, og í náttkjól meira að segja.

Ég svík þig ekki vinur og sendi þetta bréf
til að sýna þér að ég er hvorki hrædd við þig né gleymin.
Til að segja, til að segja, til að segja að ég sef,
undir súðinni að norðan, ég er svo voðalega feimin.

Í guðsbænum þú verður að ganga ósköp hljótt,
og gæta vel að öllu, hvort nokkur fer um veginn.
Læðstu inn um hliðið þegar líða fer á nótt,
og læðstu upp að húsinu eldhúsdyramegin.

Beint á móti uppgöngunni eru mínar dyr,
elsku vinur hægt, hægt, svo stiginn ekki braki.
Og þó þú hafir aldrei, aldrei farið þetta fyrr,
þá finn ég að þú kemur, og hlusta bíð og vaki.

Gættu að því að strjúka ekki stafnum þínum við,
og stígðu létt til jarðar og mundu hvað ég segi.
Það iðka sjálfsagt margir þennan ævintýrasið,
sem aldrei geta hist þegar birta fer að degi.

Opnaðu svo hurðina hún er ekki læst,
hægt elsku vinur það er sofið bak við þilið.
Í myrkrinu, í myrkri geta margir draumar ræst,
og mér finnst við líka eiga það skilið.

Ég veit að þú ert góður og gætir vel að þér,
og gengur hægt um dyrnar, farðu helst úr skónum.
Þá er engin hætta, þú mátt trúa mér,
þei, þei, húsið er fullt af gömlum ljónum.

Það grunar engan neitt svona í allra fyrsta sinn,
og engum nema þér skal ég gefa blíðu mína.
Og þó að ég sé feimin, þá veistu vilja minn,
og veist að ég er heima, þín elsku hjartans Stína.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Bréfið hennar Stínu)

Get ekki annað en birt þetta fallega ljóð, það á minningar í huga mínum og mér finnst lag Heimis Sindrasonar við ljóð meistara Davíðs undurfagurt. Enginn hefur sungið það betur að mínu mati en Herdís Ármannsdóttir úr Eyjafirðinum á plötunni Skref fyrir skref sem kom út árið 2001. Undurfagurt og tært. Þetta ljóð á stað í hjartanu á mér, það er alltaf einlægt og eitthvað svo sætt í gegn. Það er rétt eins og öll ljóð Davíðs Stefánssonar með einlægri tilfinningu sem skilar sér til þess sem þau lesa.

28 ágúst 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi um sameiningarmálin, en kosið verður um sameiningu níu sveitarfélaga hér við Eyjafjörð eftir sex vikur. Nú hefur samstarfsnefnd sveitarfélaganna vegna kosningarinnar kynnt niðurstöður fjögurra vinnuhópa sinna. Koma þar fram mjög athyglisverðar tillögur. Fer ég yfir helstu niðurstöður þeirra og bendi lesendum á að kynna sér þær vel. Er framundan öflug umræða um kosti og galla sameiningar og það sem skiptir máli í þessari kosningu. Það er nauðsynlegt að fram fari krefjandi og opinská umræða um kosti og galla málsins. Á málinu eru að mínu mati bæði miklir kostir en ennfremur gallar eins og ávallt þegar um stórmál er að ræða. Hinsvegar hef ég alltaf verið jákvæður fyrir sameiningu hér við fjörðinn. Það er okkur öllum til heilla að efla fjörðinn sem eina heild og vinna saman að þeim verkefnum sem skipta eiga okkur máli á komandi árum. Sameinuð erum við auðvitað mun sterkari en sundruð. En taka verður gallana inn í myndina.

- í öðru lagi fjalla ég um þýsku þingkosningarnar sem verða eftir þrjár vikur. Eigast þar við sömu valdablokkir og jafnan áður. Ljóst er að mikil vatnaskil þurfa að eiga sér stað næstu þrjár vikurnar í þýskum stjórnmálum eigi Angelu Merkel að mistakast ætlunarverkið; að fella Schröder af valdastóli. Nú skilja rúm 10% að íhaldsmenn og krata í slagnum. Sigur Merkel er í sjónmáli. Hún talar af krafti, segir að án nýrrar stefnu og forystu sé framundan glundroði á atvinnumarkaði, gjaldþrot og uppsagnir, algjört skuldafen og jafnvel gjaldþrot ríkiskassans. Hefur hún þegar valið lykilhóp sinn með í stjórn muni flokkurinn vinna kosningarnar. Hún græðir hiklaust á beittum tóni og skýrum valkosti með mannskapi og stefnu. Hún talar það mál sem Þjóðverjar skilja. Þeir finna dapra stöðu og svikin loforð vinstristjórnarinnar á eigin stöðu. Það er því rökréttast fyrir hægrimenn að nota staðreyndir efnahagslífsins og atvinnumálin sem sinn kosningagrunn.

- í þriðja lagi fjalla ég um sumarfundi þingflokka stjórnarflokkanna í vikunni þar sem fjárlagavinnan var rædd. Fór þingflokkur okkar sjálfstæðismanna yfir mörg málefni á fundi sínum (sem haldinn var á Ísafirði) eins og ávallt þegar fjárlögin eru annars vegar og gengu eins og framsóknarmenn frá útgangspunktum frumvarpsins. Eins og venjulega er fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar aðalmál þingsins hina fyrstu daga. Strax í upphafi þingvetrar kynnir fjármálaráðherra fjárlögin, sem er eins og ávallt ítarlegt og mikið plagg að vöxtum. Er umræða um þau ávallt umfangsmikil og langdregnar, enda um margt að ræða er kemur að þessum efnum.


Pólitíska ræman
Gandhi

Á sunnudögum í sumar hef ég fjallað um kvikmyndir sem fjalla um stjórnmál með einum eða öðrum hætti. Er nú komið að þeirri síðustu sem ég nefni að sinni. Ein besta kvikmyndin sem fjallar um pólitík, lífsins baráttu fyrir bæði í senn mannlegri tilveru og hugsjónum er óskarsverðlaunamyndin Gandhi. Sannkallaður kvikmyndarisi sem greinir frá lífi og starfi Mahatma Gandhi og stjórnmálaþróuninni á Indlandi fyrir og eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna 1948. Rakinn er ferill þessarar frelsishetju Indverja allt frá því að hann byrjar stjórnmálaþáttöku sína, fátækur lögfræðingur í Afríku, og allt þar til að hann verður alþjóðleg friðarhetja fyrir mannúðarskoðanir sínar og friðsamar mótmælaaðferðir allt þar til fullnaðarsigur vinnst. Ben Kingsley fer á kostum í hlutverki frelsishetjunnar og er ótrúlega líkur fyrirmyndinni og er einstaklega heillandi í persónusköpun sinni, hann fékk enda óskarsverðlaunin fyrir sannkallaðan leiksigur sinn, hann hefur aldrei leikið betur á ferli sínum.

Kvikmyndin hreppti alls níu óskarsverðlaun, þ.á.m. sem besta kvikmyndin og einnig fyrir einstaklega góða óskarsverðlaunaleikstjórn breska leikstjórans Richards Attenborough, fyrir hið stórkostlega handrit sem vakti mikla athygli, fyrir einstaklega vandaða búninga og stórkostlega myndatöku. Þetta er íburðarmikil og einstaklega vönduð kvikmyndaframleiðsla með mörgum mjög stórbrotnum hópsenum sem veita mikla og heillandi innsýn í merkilega tíma í lífi indversku þjóðarinnar, en líka smærri, ljóðrænni myndir sem gefa ekki síst dýrmæta og fágæta innsýn í líf hins stórmerkilega indverska kennimanns sem féll fyrir morðingjahendi 30. janúar 1948, skömmu áður en draumur hans um sjálfstætt Indland rættist loks. Stórbrotin mynd, verðið endilega að sjá hana ef þið hafið ekki gert það nú þegar.

Saga dagsins
1818 Landsbókasafn Íslands stofnað - Jón Árnason varð fyrsti landsbókavörðurinn. Landsbókasafnið og Háskólabókasafnið voru sameinuð í Þjóðarbókhlöðu Íslands við opnun hennar 1. desember 1994.
1910 Vígslubiskupar vígðir fyrsta sinni: Valdimar Briem að Skálholti og Geir Sæmundsson að Hólum.
1963 Dr. Martin Luther King flutti eftirminnilega ræðu á fjölmennum mótmælafundi í Washington.
1974 Ríkisstjórn undir forsæti Geirs Hallgrímssonar tók við völdum - stjórn Geirs sat í rúm fjögur ár.
1986 Bylgjan hóf útsendingar - varð fyrsta einkarekna útvarpsstöðin í kjölfar loka einokunar ríkisins.

Snjallyrðið
Ég vil fara... fara eitthvað
langt, langt í burt,
svo enginn geti að mér sótt,
enginn til mín spurt,
engin frétt, engin saga
eyrum mínum náð.
Ég vil aldrei troða akur,
sem aðrir hafa sáð.

Ég vil fara... fara þangað
sem ég þekki engan mann,
og engin ólög ráða,
og enginn boðorð kann -
hvíla á mjúkum mosa
við hið milda stjörnuljós,
með eilífðina eina
fyrir unnustu og vin.

Ég vil þangað, sem ég heyri
minn eigin andardrátt,
og allt er undrum vafið
og ævintýrablátt
og ég get innsta eðli mitt
eitt til vegar spurt.
Ég vil fara, fara eitthvað
langt, langt í burt.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Ég vil fara)

26 ágúst 2005

Punktar dagsins
Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson

Eins og sést hefur á veðurfarinu undanfarna daga er farið að hausta að - óvenjusnemma vissulega en það er öllum ljóst að sumarið tekur brátt enda. Stjórnmálastarfið er víðast allt að hefjast eftir heitt sumar og ánægjuleg ferðalög víða um landið, nú eða jafnvel heiminn. Rúmur mánuður er í að þingið komi saman. Mörg mál verða þar til umræðu og við blasir að hiti verði í stjórnmálastarfi almennt vegna væntanlegra sveitarstjórnarkosninga undir lok maímánaðar á næsta ári. Þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks funduðu í gær um málefni fjárlaga. Hittust sjálfstæðismenn á Ísafirði en framsóknarmenn funduðu í borginni. Má búast við niðurstöðu fundar sjálfstæðismanna í dag, sem hafa undanfarna daga verið fyrir vestan og farið yfir fjöldamörg mál. Þarf yfir mörg málefni að fara eins og ávallt þegar fjárlögin eru annars vegar og jafnan er gengið frá útgangspunktum frumvarpsins á þessum sumarfundum. Eins og venjulega er fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar aðalmál þingsins hina fyrstu daga. Strax í upphafi þingvetrar kynnir fjármálaráðherra fjárlögin, sem er eins og ávallt ítarlegt og mikið plagg að vöxtum. Er umræða um þau ávallt umfangsmikil og langdregnar, enda um margt að ræða er kemur að þessum efnum.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum síðasta sólarhringinn bendir flest til þess að ekki verði gert ráð fyrir breytingum á virðisaukaskatti í vinnu við fjárlögin. Ekki virðist enn vera farið að ræða breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Eins og allir vita hafa umfangsmiklar skattalækkanir verið ákveðnar og munu þær koma til framkvæmda stig af stigi á kjörtímabilinu, eins og flokkarnir lofuðu í síðustu þingkosningum. Í stjórnarsáttmálanum er talað um að endurskoða eigi matarskattinn (virðisaukaskatt á matvæli) en hann er nú 14% og hugmyndir hafa verið eins og kunnugt er verið um að lækka hann niður í 7%. Ekkert slíkt mun vera á döfinni nú ef marka má fréttir. Fyrirfram ákveðnar og lögfestar tekjuskattslækkanir standa auðvitað en virðisaukaskattsbreytingarnar muni því bíða betri tíma. Eins og fram kom í fréttum í gær er gengi krónunnar hátt; víða skortur á vinnuafli, laun hækka og kaupmáttur jafnframt, aldrei hefur jafnmikið verið flutt inn af neysluvöru og á fyrri helmingi þessa árs. Allt veldur þetta þenslu og flestir efnahagssérfræðingar landsins hafa í fjölmiðlum opinberað ótta sinn við verðbólguskot á næsta ári og jafnvel hraða og mikla lækkun á genginu. Því sé ekki rétt að huga að breytingum á kerfinu nú.

Tek ég undir raddir þeirra sem svo tala. Fyrirfram ákveðnar skattalækkanir sem gera ráð fyrir 4% lækkun tekjuskatts einstaklinga, afnám eignarskatts á einstaklinga og fyrirtæki og hækkun barnabóta um 2,4 milljarða króna eru gleðilegur áfangi sem lengi verður í minnum hafður. Þetta var sögulegur áfangi sem við öll munum njóta ríkulega á næstu árum. Heildaráhrif þessara aðgerða á afkomu ríkissjóðs eru metin til rúmlega 22 milljarða króna að teknu tilliti til veltuáhrifa sem einkum falla til á árunum 2006 og 2007. Um var að ræða mikið fagnaðarefni fyrir okkur ungt sjálfstæðisfólk sem höfum barist seinustu ár fyrir lækkun skatta. Voru með þessu frumvarpi stigin í senn bæði ánægjuleg og gagnleg skref til hagsbóta fyrir landsmenn, einkum hinn vinnandi mann. Rétt er að staldra við að svo stöddu - en það blasir þó við að breytingar á virðisaukaskattskerfinu er verkefni sem kemur brátt til framkvæmda. Það er verkefni sem huga þarf að fyrir lok kjörtímabilsins og vinna að með krafti.

Alfreð Þorsteinsson og Anna Kristinsdóttir

Eins og allir vita er R-listinn dauður. Í gærkvöldi skrifuðu framsóknarmenn undir dánarvottorð R-listans með því að lýsa yfir sérframboði sínu í Reykjavík fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar á flokksfundi sínum. Undanfarna daga hafa sögulega tengdir menn R-listanum minnst hins látna (R-listans) og farið yfir það sem eftir hann standi. Frekar er það rytjulegur samtíningur og fátt sem eftir stendur nema orðin vesen og vandræði. Blasir við að framsóknarmenn stefni að prófkjöri til að velja lista sinn. Á fundinum í gærkvöldi lýsti Alfreð Þorsteinsson forseti borgarstjórnar og leiðtogi Framsóknarflokksins innan R-listasamstarfsins, allt frá árinu 2002, yfir framboði til fyrsta sætis á framboðslista flokksins fyrir kosningarnar næsta vor. Hann hefur verið ötull talsmaður R-listans og reyndi allt til að tryggja áframhaldandi framboð hans að þessu sinni, án nokkurs árangurs. Alfreð er sennilega síðasti stórlax borgarmálapólitíkur gamla hluta framsóknarmanna í borginni. Hann varð borgarfulltrúi flokksins á áttunda áratugnum, dró sig svo í hlé og kom aftur inn við stofnun R-listans árið 1994 og hefur verið borgarfulltrúi listans allan valdaferil hans. Það hafa margir deilt á störf hans undanfarin þrenn kjörtímabil, en hann hefur setið eins og allir vita í öndvegi í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í nafni stjórnmálaflokkanna sem að R-listanum standa.

Nú stefnir allt í að Alfreð fái mótframboð til leiðtogastöðunnar. Eins og fram kom í fréttum í gær skora nú margir framsóknarmenn á Önnu Kristinsdóttur um að gefa kost á sér til þess sætis. Anna er dóttir Kristins Finnbogasonar, sem var einn helsti fjármálastjórnandi flokksins til fjölda ára og bankaráðsmaður flokksins í Landsbankanum allt til dauðadags árið 1991. Anna varð borgarfulltrúi R-listans árið 2002 og leysti þá af hólmi Sigrúnu Magnúsdóttur sem leitt hafði framsóknarmenn allt frá árinu 1982. Þá varð Alfreð leiðtogi framsóknarmanna. Þó munaði aðeins um 20 atkvæðum að Alfreð hefði orðið undir og tapað fyrir nýliðanum Önnu. Nú stefnir í harðan slag um leiðtogastöðuna. Margir eiga harma að hefna í garð Alfreðs og hyggja á leiðtogaskipti og skapa flokknum nýja ásýnd. Alfreð hikaði ekki um daginn í viðtali og sagði bara þeim sem væri á móti sér að leggja í sig, án þess að hika. Flest stefnir í að svo fari. Ennfremur er rætt um aðra kandidata og nöfn Björns Inga Hrafnssonar og Marsibilar Sæmundardóttur heyrast nefnd. Bæði eru þau af yngri kynslóðinni. Alfreð er af mörgum talinn tákn liðinna tíma. Hann ætlar þó ekki að fara sjálfviljugur og stefnir því í átök milli fylkinga sem lengi hafa barist innan borgarmálahóps flokksins um völdin.

Styttan af Helga magra og Þórunni hyrnu

Framkvæmdir eru fyrir löngu komnar á fullt við byggingu nýs leikskóla hér í hverfinu. Er hann hér ofar í götunni á lóðinni milli Þórunnarstrætis og Helgamagrastrætis, þar sem gamli gæsluvöllurinn var. Hefur verið ánægjulegt að fylgjast með framkvæmdununum, en byggingin tekur á sig mynd með hverjum deginum og gengur mjög vel að byggja leikskólann. Margar minningar tengjast þessu svæði en ég var á gæsluvellinum sem var þarna á svæðinu í ein þrjú ár, eða á meðan fjölskyldan átti heima hér ofar í götunni, að Þórunnarstræti 118. Það var gaman þar að vera og ég kynntist mörgum góðum félögum fyrstu árin mín þar. Það er ánægjulegt (og hið eina rétta) að leikskóli fyrir þetta öfluga og góða hverfi rísi á þessum stað. Og nú hefur leikskólinn loks fengið nafn. Á fundi skólanefndar Akureyrar í vikunni var samþykkt tillaga frá Brynhildi Þórarinsdóttur þess efnis að leikskólinn við Helgamagrastræti fái nafnið Hólmasól. Er leikskólinn nefndur í höfuðið á Þorbjörgu hólmasól, sem var fyrsta barnið sem fæddist í Eyjafirði eftir því sem Landnáma segir frá. Þorbjörg hólmasól var dóttir Helga magra og Þórunnar hyrnu. Leikskólinn stendur auðvitað við götur sem nefndar eru eftir þeim og styttan fræga af landnámshjónunum er hér á klöppunum hér fyrir neðan. Lýsi ég yfir mikilli ánægju minni með þetta nafn - það er glæsilegt og mjög viðeigandi.

Bílar í miðbænum

Frá og með deginum í dag verður stýring á nýtingu á bílastæðum hér í miðbænum á Akureyri með bifreiðastæðaklukkum í stað stöðumæla. Þegar lagt verður í bílastæðin í miðbænum er skylt að hafa bifreiðastæðaklukku á mælaborðinu sem sýnir hvenær bílnum var lagt í stæðið. Með þessum þáttaskilum heyra stöðumælar að öllu leyti sögunni til hér á Akureyri - en starfsmenn bæjarins unnu í gær við að taka þá niður. Mun heimiluð tímalengd á gjaldfrjálsa stöðu bíls í klukkustæði verða mismunandi eftir svæðum, allt frá 15 mínútum upp í eina eða tveir klukkustundir. Auk þess verður fjöldi fastleigustæða aukinn verulega. Klukkurnar eru vandaðar að allri gerð. Þær eru einskonar umslag með klukkuskífu innan í. Ofan á "umslaginu" stendur skífan út úr því til að hægt sé að stilla hana. Í "glugga" á "umslaginu" sjást tölurnar á skífunni. Mikilvægt er að klukkan sé stillt á þann tíma sem bílnum er lagt í stæðið. Á bakhlið klukkunnar er kort af miðbænum sem sýnir hvar klukkustæðin eru og þá tímalengd sem heimilt er að leggja þar án gjalds og auk þess leiðbeiningar um notkun klukkunnar. Stöðuverðir munu eftir sem áður hafa eftirlit með því að bílum sé ekki lagt lengur en heimilt er í viðkomandi bílastæði. Þetta er jákvætt og gott skref sem stigið er með þessu - öll fögnum við því að stöðumælarnir fari.

Akureyrarvaka

Um helgina mun menningarlífið á Akureyri blómstra - eins og ávallt er menningarhátíð bæjarins, Akureyrarvaka, haldin þessa seinustu helgi ágústmánaðar. Hún hefst formlega í Lystigarðinum í kvöld með ávarpi Þóru Ákadóttur forseta bæjarstjórnar. Veitt verða verðlaun fyrir fallegustu garðana, Lystigarðurinn verður upplýstur og fjölbreytt dagskrá víðsvegar um garðinn. Sönghópurinn Hymnodia mun flytja lög við ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Það er jafnan notaleg og rómantísk stemmning í garðinum þetta kvöld í sumarrökkrinu. Á morgun verður svo menningardagskrá um bæinn allan og skemmtileg stemmning í miðbænum. Til dæmis verður nýbygging Brekkuskóla vígð á morgun við hátíðlega athöfn. Hvet ég alla til að kynna sér vel dagskrá Akureyrarvöku. Akureyrarvakan er frábært framtak sem komið er til að vera - óviðjafnanlegur óður til menningar í bænum. Því miður þarf ég að vera fjarri þessa helgi, í fyrsta sinn frá upphafi hennar. Mín bíður skemmtileg helgi hinsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Vona ég að aðrir Akureyringar njóti menningar og skemmtilegrar hátíðar um helgina.

Snjallyrðið
Ef ég sé fjöll í fjarlægð blána,
þá finn ég alltaf sömu þrána.
Á ljóðsins vængjum á loft ég fer,
og leita og skyggnist eftir þér.

Ég heyrði í svefni söng þinn hljóma.
Ég sá þig reika milli blóma.
Í bjarmadýrð þú birtist mér,
með brúðarkrans á höfði þér.

Þá lést þú sól á lönd mín skína
og lyftir undir vængi mína.
Svo hvarfst þú bak við fjarlæg fjöll
sem feykti blærinn hvítri mjöll.

En síðan reyni ég söngva þína
að seiða í hörpustrengi mína.
Í hljómum þeim á hjartað skjól
og heima bak við mána og sól.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Brúður söngvarans)

24 ágúst 2005

Punktar dagsins
Loftmynd af Eyjafirði

Kosið verður um sameiningu níu sveitarfélaga hér í Eyjafirði eftir tæpa tvo mánuði, laugardaginn 8. október nk. Er utankjörfundarkosning þegar hafin. Er umræða um sameininguna og málefni tengd henni að hefjast nú af krafti og má búast við spennandi rökræðum um kosti og galla sameiningar. Reyndar hefur að undanförnu blandast í þá umræðu málefni hitaveitu í Ólafsfirði. Seinustu mánuði hefur samstarfsnefnd sveitarfélaganna, sem í sitja tveir fulltrúar hvers sveitarfélags, unnið að gerð málefnaskrár sem kynnt verður íbúum Eyjafjarðarsvæðisins í aðdraganda kosninganna. Komið var á fót vinnuhópum til að vinna skýrslu um framtíðina innan nýs sveitarfélags, yrði sameining samþykkt. Vinnuhóparnir voru fjórir talsins: stjórnsýsluhópur, skólahópur, fjölskylduhópur og skipulagshópur. Hóparnir skiluðu tillögum sínum í júlí og síðan hefur stýrihópur unnið eftir vinnudrögum og mótað málefnaskrá sem nú hefur verið kynnt opinberlega á heimasíðu samstarfsnefndarinnar um sameiningu í Eyjafirði. Er stefnt að kynningarfundum í september í öllum sveitarfélögunum níu og ennfremur gefinn út ítarlegur kynningarbæklingur um málið. Hef ég kynnt mér vel tillögur vinnuhópanna í þeim fjórum málaflokkum sem lagt var upp með. Er það að mörgu leyti mjög athyglisverð lesning.

Í tillögum stjórnsýsluhópsins er lagt til að sveitarstjórn í nýju sveitarfélagi verði skipuð 15 bæjarfulltrúum. Það er leyfilegur hámarksfjöldi fyrir sveitarfélag af þessari stærð. Lagt er til að stjórnsýslan grundvallist á þremur fagsviðum; stjórnsýslu- og fjármálasviði, skóla- og félagssviði ásamt tækni- og umhverfissviði. Lagt er til að nefndir og ráð sveitarfélagsins verði skipaðar fimm aðal- og varamönnum. Lagt er til að umfangsmestu nefndirnar skuli aðeins skipaðar aðalmönnum í sveitarstjórn og er hér átt við bæjarráð sem jafnframt er framkvæmdaráð, stjórn fasteigna sveitarfélagsins, umhverfisráð, skólanefnd, stjórnsýslunefnd og félagsmálaráð. Formenn allra fastanefnda verða aðalmenn í sveitarstjórn. Leggur nefndin til að ný bæjarstjórn og nefndir starfi eins og bæjarkerfið hér á Akureyri, þannig að nefndir hafi heimild til fullnaðarákvörðunar. Ennfremur munu verða starfandi í sveitarfélaginu hverfanefndir undir titlinum samráðsnefndir í gömlu sveitarfélögunum. Uppi eru tvær hugmyndir um samráðsnefndir. Sú fyrri að á fyrsta kjörtímabili verði eldri sveitarstjórnir í hlutverki samstarfsnefnda. Sú seinni gerir ráð fyrir fimm manna samráðsnefndum sem kjörnar eru á almennum íbúafundi. Þær nefndir verði ópólitískar og án tengsla við stjórnmálaflokka eða framboð.

Vinnuhópur um skólamál er sammála um að leggja til að allir grunnskólar á Eyjafjarðarsvæðinu verði reknir áfram, verði sveitarfélögin sameinuð í haust. Hópurinn bendir þó á að ekki sé hægt að binda hendur sveitarstjórna í þessum efnum. Þetta er merkileg yfirlýsing. Er ég sammála því að til staðar verði að vera skólar í öllum þéttbýlisstöðunum en svo verður að ráðast með hina minni að mínu mati. Eins og við þekkjum hvað varðar Húsabakkaskóla í Svarfaðardal er erfitt að lofa hvort hægt sé að reka alla skóla óbreytta eftir sameiningu. Það verður auðvitað að ráðast af hagkvæmni og skynsömum forsendum umfram allt. Eins og allir þekkja af deilunum í Dalvíkurbyggð vegna Húsabakkaskóla er þetta og verður ávallt viðkvæmt mál. En í skólamálakaflanum er farið ítarlega yfir allan grunn skólamála hér í firðinum og hvet ég fólk til að lesa hann. Í fjölskyldumálakaflanum er farið ítarlega yfir málaflokkinn og kynntar þar margar spennandi tillögur. Að lokum er það svo skipulagshópurinn þar sem spennandi stefna í skipulagsmálum er kynnt. Hvet ég lesendur til að lesa skýrslur vinnuhópanna og taka svo afstöðu til málanna eftir að kynna sér stöðuna og rökræða svo um kosti og galla hugmyndanna.

Skýrsla stjórnsýsluhóps
Skýrsla skólahóps
Skýrsla fjölskylduhóps
Skýrsla skipulagshóps

George W. Bush forseti

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, er enn í sumarfríi á búgarði sínum að Crawford í Texas og hefur verið þar nærri allan mánuðinn. Bandarísku spjallþáttastjórnendurnir þreytast ekki á að koma með brandara um fimm vikna langt sumarleyfi hans. Þrátt fyrir að hann slappi af og hafi það rólegt á heimaslóðum hefur hann ekki getað komist hjá því að taka eftir þeim sem hafa fylgt honum nær alla leiðina í fríið. Ein helsta fréttin í bandarískum fjölmiðlum seinustu vikurnar hefur nefnilega verið miðaldra húsmóðir í tjaldferðalagi í Crawford. Þeir sem ekki þekkja til aðstæðna undra sig sjálfsagt á því hvernig svo megi vera. Jú, ferðalagið er engin skemmtiferð og húsmóðirin er ekki að tjalda sér til ánægju. Cindy Sheehan tæplega fimmtug kona tjaldaði til að heimta þess að fá að hitta Bush og spyrja hann um málefni bandaríska hersins í Írak. Sonur hennar féll í átökunum þar í fyrra og hún heimtar þess að fá að hitta hann augliti til auglitis og hann svari spurningunni hversvegna sonur hennar var sendur þangað til að deyja. Bush hefur neitað að hitta hana, hefur reyndar hitt hana einu sinni og rætt við hana um mál. Stephen Hadley þjóðaröryggisráðgjafi, hefur farið og rætt við Cindy en hún haggast ekki og vill hitta Bush.

Þetta er heitasta málið vestanhafs. Þó að Cindy hafi orðið að yfirgefa Crawford um helgina vegna veikinda móður sinnar heldur mótmælastaðan áfram í Texas, Bush og samstarfsmönnum hans til nokkurrar gremju. Um er nefnilega að ræða stigvaxandi mál í fjölmiðlunum. Og ekki batnar það að umfangi. Fríið fer reyndar að verða búið og hætt við að þetta fjari út. Bush er reyndar staddur nú í Idaho í stuttu leyfi til ríkisstjórans þar. Hann tjáði sig þar um málið í gær. Sagðist hann skilja afstöðu Cindy og vilja hennar til að ræða þessi mál. Hinsvegar neitaði hann því að hún væri dæmigerður fulltrúi þeirra sem hefðu misst börn sín í Írak. Hún væri í baráttu á eigin vegum en ekki hóps sem slíks. Fleiri notuðu tækifærið. Ein þekktasta þjóðlagasöngkona heims, baráttukonan heimsfræga gegn Víetnamsstríðinu, sjálf Joan Baez, fór til Texas á sunnudag og söng fyrir mótmælendur og hvatti þá áfram. Það að Bush tjái sig um málið í Idaho segir margt. Eflaust er hann orðinn dauðleiður á þeim sem eltu hann í fríið og reynir að tjá þá gremju með vægum hætti. Hinsvegar er auðvitað óneitanlega skondið að miðaldra kona í tjaldi fyrir utan búgarð forseta Bandaríkjanna sé aðalfréttaefnið vestanhafs.

Dr. Angela Merkel

Í gær fjallaði ég ítarlega um þýsku þingkosningarnar sem framundan eru. Eins og vel kom fram í þeim skrifum er kosningabaráttan hörð og spennandi þrátt fyrir að allar fylgistölur segi pólitískum áhugamönnum að spennan um úrslit þeirra sé ekki til staðar. Reyndar hefur nú forskot hægriblokkarinnar aukist og í dag munar fimmtán prósentustigum á CDU og SPD. Það er því engin furða að harka sé uppi og kanslarinn reyni allt sem hann getur til að halda sér inni í slagnum. Nú hefur reyndar skotið upp merkilegt deilumál í kosningaslagnum. Reyndar snýst það hvorki um stefnu eða persónur kanslaraefnanna. Deilt er um hið sígilda dægurlag Rolling Stones, Angie, sem allir þekkja fram og til baka. CDU hefur notað lagið sem kosningaþema á fjöldafundum og spilað þegar að kanslaraefnið Dr. Angela Merkel er kynnt. Við þetta er rokkbandið ekki sátt og þaðan af síður söngvari sveitarinnar, eilífðarpoppgoðið Mick Jagger. CDU neitar að taka lagið úr umferð og bíður því heim hættunni á kæru vegna notkunar lagsins með þessum hætti. En þetta er óneitanlega skondið mál burtséð frá stöðu baráttunnar. Reyndar þarf eins og fyrr segir mjög mikil vatnaskil að eiga sér stað til að koma í veg fyrir að Angie hinna kristilegu demókrata verði fyrsti kvenkyns kanslari Þjóðverja.

George Peppard og Audrey Hepburn í Breakfast at Tiffany's

Þokkagyðjan Audrey Hepburn var ein glæsilegasta leikkona 20. aldarinnar. Glæsileiki hennar kom vel fram í fjölda ógleymanlegra kvikmynda. Að mínu mati er hennar besta mynd hin óviðjafnanlega Breakfast at Tiffany's frá árinu 1961. Þar er rakin saga lífsnautnakonunnar Holly Golightly sem lifir lífinu svo sannarlega hátt í borg borganna, New York. Þegar rithöfundurinn Paul Varjak flyst í sama íbúðarhúsið og Holly laðast hún að honum. En þegar Paul tekur að kynnast hinni svokölluðu gleðidrottningu kemst hann að því að saga hennar er fjarri því himnasæla heldur hefur hún átt við mikla erfiðleika að stríða í lífinu og á sér talsverða fortíð. Þessi mynd er enn í dag ein besta heimild um þann tíðaranda sem hún lýsir. Audrey var í toppformi í þessari mynd, var aldrei betri og glæsilegri en í þessu hlutverki. Hún er mjög heillandi í túlkun sinni og nær að túlka gleði og sorgir Hollyar með bravúr. George Peppard á einnig glæsilegan leik í hlutverki Pauls. Buddy Ebsen var aldrei betri en í hinni lágstemmdu túlkun sinni á Doc Golightly, og með innkomu hans komumst við að leyndarmálum Hollyar. Rúsínan í pylsuendanum í myndinni er besta kvikmyndalag 20. aldarinnar, hið undurfagra Moon River eftir Henry Mancini sem sló í gegn á sínum tíma. Þessi kvikmynd er sígilt meistaraverk og er alltaf sannur gleðigjafi - hana verða allir sannir kvikmyndaunnendur að sjá.

ISG og Össur í kosningaslagnum

Að lokum er ekki hægt að sleppa því að fjalla um það að nú hefur Ingibjörg Sólrún birt reikninga sína vegna formannskjörsins í Samfylkingunni fyrr á þessu ári. Ingibjörg Sólrún greiddi tvöfalt meira fyrir kosningabaráttu sína en mótframbjóðandi hennar og forveri á formannsstóli, Össur Skarphéðinsson. Kosningabarátta ISG kostaði tæpar 5,3 milljónir króna, framlögin voru svipað há. Eftir stóðu í bókhaldinu 70.000 krónur í plús. Merkilegast af öllu er að ekkert framlaganna er hærra en 499.000 kr. Það er ekki hægt annað en að hlæja að þessum hámarksupphæðum á vegum Samfylkingarinnar, enda er nákvæmlega engin trygging fyrir því að fólk borgi ekki oftar en einu sinni slíka upphæð. Þessi vinnubrögð þeirra eru efni í marga brandara. Hver man ekki eftir siðareglunum frægu nú eða opna bókhaldinu? Bæði virðist hafa horfið eins og dögg fyrir sólu. Skrifaði ég pistil á vef Heimdallar um þau mál, sem ég bendi lesendum á.

Saga dagsins
1903 Ríkið keypti jarðirnar Hallormsstað í S-Múlasýslu og Vaglir í S-Þingeyjarsýslu, til skógarfriðunar og skógargræðslu. Þar eru nú ræktarlegustu skógar á landinu: Hallormsstaðaskógur og Vaglaskógur.
1906 Símskeytasamband við útlönd hefst með formlegum hætti - fyrsti sæsíminn var um 534 sjómílur.
1968 Norræna húsið í Reykjavík vígt við hátíðlega athöfn - arkitekt hússins var Finninn Alvar Aalto.
2001 Helgi Símonarson frá Þverá í Svarfaðardal, lést, 105 ára að aldri - Helgi varð elstur allra manna.
2004 Bill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna, kom til Íslands ásamt eiginkonu sinni Hillary Rodham Clinton. Var þetta fyrsta heimsókn núverandi eða fyrrum þjóðarleiðtoga Bandaríkjanna í átján ár, en Ronald Reagan kom á leiðtogafund stórveldanna í Reykjavík í október 1986. Fóru Clinton-hjónin víða: t.d. í heimsókn á heimili Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, héldu að Lögbergi að Þingvöllum og fóru í miðborg Reykjavíkur að styttu Jóns forseta. Frægt varð að Clinton fékk sér pylsu á Bæjarins bestu. Clinton, sem þekktur er fyrir alþýðleika, lét ráðleggingar lífvarða sinna lönd og leið er hann fór í verslanir, heilsaði upp á fólk í miðbænum og tók t.d. í hendur fjöldamargra og heilsaði börnum.

Snjallyrðið
Langt inn í skóginn leitar hindin særð
og leynist þar, sem enginn hjörtur býr,
en yfir hana færist fró og værð.
Svo fjarar lífið út.

Ó, kviku dýr,
reikið þið hægt, er rökkva tekur að
og rjúfið ekki heilög skógarvé,
því lítil hind, sem fann sér felustað
vill fá að deyja ein á bak við tré.
Um blóð, sem fyrr var bæði ungt og heitt,
mun bleikur mosinn engum segja neitt.

En þú, sem veist og þekkir allra mein,
og þú, sem gefur öllum lausan taum,
lát fölnað laufið falla af hverri grein
og fela þennan hvíta skógardraum.

Er fuglar hefja flug og morgunsöng
og fagna því, að ljómar dagur nýr,
þá koma öll hin ungu, þyrstu dýr
að uppsprettunnar silfurtæru lind -

- öll, nema þessi eina, hvíta hind.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Skógarhindin)

23 ágúst 2005

Punktar dagsins
Dr. Angela Merkel og Gerhard Schröder

Þingkosningar munu fara fram í Þýskalandi þann 18. september nk. Kosningabaráttan hefur náð hámarki og barist er af krafti um atkvæði almennings. Allar skoðanakannanir benda til öruggs sigurs hægriblokkarinnar í kosningunum. Fari svo mun Dr. Angela Merkel leiðtogi CDU (Kristilegra demókrata) verða fyrsta konan sem sest á stól kanslara Þýskalands. Hatrömm kosningabarátta vinstri- og hægriblokkarinnar er jafnvel enn beittari nú en fyrir þrem árum er Gerhard Schröder kanslara, tókst naumlega að halda embætti sínu. Nú horfir enn verr fyrir honum og Jafnaðarmannaflokknum, SPD. Schröder neyddist til að boða til kosninganna í sumarbyrjun, ári áður en kjörtímabil ríkisstjórnar krata og græningja átti að ljúka. Ástæða þess var sögulegt tap kratanna í sambandsþingkosningunum í Nordrhein-Westfalen í maí. Í seinustu þingkosningum, í september 2002, hélt vinstristjórnin í landinu, undir forsæti Schröder naumlega völdum. Jafnaðarmannaflokkurinn missti mikið fylgi en stjórnin hélt velli vegna fylgisaukningar samstarfsflokksins, græningja. Munaði mjög litlu að kosningabandalag hægrimanna, undir forystu Edmund Stoiber leiðtoga CSU, næði þá völdum. Hefur stjórn Schröders allt frá því verið veik í sessi og staðið höllum fæti gegn öflugri stjórnarandstöðu í þinginu.

Angela Merkel, sem virðist hafa hnossið í höndunum, hefur þrátt fyrir allt átt frekar gloppótta kosningabaráttu. Henni tókst með kostulegum hætti að taka feil á nettó og brúttó í spjallþætti fyrir nokkrum vikum og tók feil á þekktum efnahagslegum hugtökum. Hún hefur jafnan þótt vera með harðneskjulegt yfirbragð en hefur verið mýkt verulega upp með aðstoð stílista og almannatengslaráðgjafa CDU. Hún græðir aðallega á tvennu: óvinsældum kanslarans (sem hefur ekki tekist að efna fögru loforðin frá kosningunum 1998) og frjálslegt yfirbragð. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í henni og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík og þykir í flestu andstæða hins íhaldssama Edmund Stoiber. Angela komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl, sem var kanslari Þýskalands samfellt í 16 ár, og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans. Hún er fimmtug, tvífráskilin, nýlega gift í þriðja skiptið og barnlaus og því langt í frá lík t.d. Stoiber sem þótti vera ímynd hins heilbrigða fjölskyldulífs sem hinn harðgifti fjölskyldufaðir. Schröder og Merkel eiga það sameiginlegt að hafa gifst oftar en einu sinni og vera allskrautlegar týpur sem hika ekki við að taka vinnuna framyfir einkalífið - vera miklir vinnuhestar.

Schröder hefur reynt af krafti að snúa vörn í sókn - en átt erfitt uppdráttar. Svikin kosningaloforð og vandamál á mörgum sviðum samfélagsins eru honum mikill Þrándur í Götu. Hann er um margt með sömu loforðin nú og í kosningunum 2002. Mörgum þykir nóg komið - fullreynt sé með forystu hans. Ferskleiki hefur þó verið nokkur í baráttu hans og hafa Schröder-hjónin reynt af krafti að fara um landið og bæta stöðu flokksins og kanslarans. Fylgið virðist eitthvað vera að aukast, en það er þó miklu minna en fylgi CDU. Sjarmi kanslarans og persónutöfrar í samskiptum við almenning eru helsti kostur hans. Á það hefur hann óspart spilað. Hefur hann virkað mun sleipari í framkomu en Merkel í þessum kosningaslag. Hún þykir hafa mun minni útgeislun - en hún talar hreint út, er með ákveðna stefnu og mikla pólitíska plotthæfileika. Það er þó ekki sýnilegt á sjónvarpsskjánum. Því hefur Schröder óspart farið fram á sjónvarpskappræður og þær fleiri en færri. Hægriblokkin hefur aðeins samþykkt eitt sjónvarpseinvígi og það skömmu fyrir kosningar. Er það til marks um að CDU telur ekki vænlegt að etja þeim tveim saman að ræða málin og stóli á fjölmiðlaframkomu Merkel á fjöldafundum þar sem hún flytur miklar og öflugar ræður og talar af krafti til almennings um svikin loforð kratanna.

Ljóst er að mikil vatnaskil þurfa að eiga sér stað næstu 26 dagana í þýskum stjórnmálum eigi Dr. Angelu Merkel að mistakast ætlunarverkið; að fella Schröder af valdastóli. Nú, er þetta er skrifað, skilja rúm tíu prósentustig að íhaldsmenn og krata í slagnum. Sigur Merkel er í sjónmáli. Hún talar af krafti, segir að án nýrrar stefnu og forystu sé framundan glundroði á atvinnumarkaði, gjaldþrot og uppsagnir, algjört skuldafen og jafnvel gjaldþrot ríkiskassans. Hefur hún þegar valið lykilhóp sinn með í stjórn muni flokkurinn vinna kosningarnar. Hún græðir hiklaust á beittum tóni og skýrum valkosti með mannskapi og stefnu. Hún talar það mál sem Þjóðverjar skilja. Þeir finna dapra stöðu og svikin loforð vinstristjórnarinnar á eigin persónulegu stöðu. Það er því rökréttast fyrir hægrimenn að nota staðreyndir efnahagslífsins og atvinnumálin sem sinn kosningagrunn. Staðan er enda ekki beysin. Það er því ekki furða að Schröder og kratarnir tali minna um málefni og reyni að vega að hægrimönnum með öðrum hætti og tali um gífuryrði og svartnættishjal. Þeir reyna að stóla á gullfiskaminni kjósenda. Eins og sést á könnunum eru æ minni líkur á því að Schröder takist að sjarmera kjósendur.

En eins og fyrr segir er innan við mánuður í kjördaginn í Þýskalandi. Það ræðst því fyrr en síðar hvort að "stúlkan hans Kohls" eins og hin fimmtuga austurþýska járngella íhaldsmanna er almennt kölluð nái völdum og komist í sögubækurnar eða hvort að Schröder tekst að næla sér í þriðja kjörtímabilið, þvert á allar kosningaspár. Framundan er harðskeyttur lokasprettur í þessum kosningaslag.

Matur

Eins og fram hefur komið í fréttum seinustu daga átti Sláturfélag Suðurlands eina tilboðið í skólamáltíðir í mötuneytinu í grunnskólanum í Dalvíkurbyggð. Því var tekið. Það þætti svosem varla í frásögur færandi nema vegna þess að maturinn verður keyrður frá Hvolsvelli til Dalvíkur, um 500 kílómetra leið, á hverjum virkum degi. Um er að ræða foreldaðan mat sem fluttur er í bökkum norður og hitaður svo upp fyrir neyslu. Því er nú varla hægt að neita að þessi tíðindi séu allmerkileg. Það eru greinilega engin vandkvæði virðist vera að keyra mat um langan veg til neyslu í mötuneytum ef þetta form gengur upp. Það eru þó vissulega vonbrigði að ekkert fyrirtæki eða aðili á Eyjafjarðarsvæðinu, nú eða hér á gervöllu Norðurlandi, bjóði í þetta tiltekna verkefni. Eðlilegast hefði mér þótt að kokkur á svæðinu hefði einfaldlega tekið að sér verkefnið eða boðið í það og styrkt hefði verið við bakið á matseld héðan á svæðinu. Það eru því auðvitað tíðindi að ekkert slíkt tilboð berist. Í flestum mötuneytum er starfandi kokkur sem eldar mat ofan í viðkomandi aðila sem þar borða.

Segja má að það marki mikil þáttaskil þegar að nemendur í skóla í Eyjafirði eru farnir að borða álbakkakeyrðan mat sunnan frá Hvolsvelli, matvinnslu SS, sem er í nokkurra hundruða kílómetra fjarlægð. Það eru tíðindi sem fá allavega mig til að hugsa um hvernig komið sé fyrir norðlenskum matvinnslufyrirtækjum.

Johnny Depp í Ed Wood

Í gærkvöldi horfði ég á hina ógleymanlegu kvikmynd Ed Wood. Í henni er sönn saga þessa eins af kostulegustu leikstjórum í Hollywood á 20. öld sögð. Snemma kom í ljós að hann bar í brjósti sér þann draum að verða kvikmyndagerðarmaður. Þegar fyrstu myndir hans bar fyrir augu gagnrýnenda var samdóma álit þeirra að verri og lélegri myndir hefðu vart verið gerðar í Hollywood. En dómarnir höfðu engin áhrif á Ed Wood, sem hélt sínu striki og safnaði um sig hópi fólks sem átti það sameiginlegt að vilja starfa með honum, þrátt fyrir algert hæfileika- og eða getuleysi. Þeirra á meðal var hinn útbrunni drykkjumaður, Bela Lugosi, en hann lék í velflestum myndum Wood og lét sér yfirleitt nægja áfengi að launum. Leikstjóri þessarar frábæru myndar er Tim Burton sem fékk brennandi áhuga á Ed Wood og lífshlaupi hans eftir að hann sá myndir á borð við Plan 9 From Outer Space og Glen or Glenda eftir Wood, og einsetti hann sér að gera mynd um þennan sérstaka mann sem lét engan segja sér fyrir verkum eða trufla sig á leið sinni að takmarkinu. Johnny Depp fer á kostum í hlutverki Wood og Martin Landau hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun á Bela Lugosi. Meistaraleg úttekt á lífi, starfi og persónu þessa litríka kvikmyndaleikstjóra sem fór á spjöld kvikmyndasögunnar sem einn af misheppnuðustu leikstjórum allra tíma.

Ennio Morricone

Ítalinn Ennio Morricone er eitt virtasta tónskáld í sögu kvikmynda seinustu áratuga. Hann á að baki mikinn fjölda ógleymanlegra tónverka sem sett hafa svip sinn á kvikmyndasöguna. Nýlega keypti ég heildarsafn (það allra besta af glæsilegum ferli) bestu verka hans sem er á geislaplötunni: Very Best of Ennio Morricone. Hann hóf feril sinn með því að semja hina ódauðlegu tónlist í Spagettívestrum Sergio Leone. Allir þeir sem horft hafa á The Untouchables, A Fistful of Dollars, The Good, The Bad & The Ugly, The Mission, Cinema Paradiso, Love Affair, My Name is Nobody, Unforgiven, The Bridges of Madison County, Malena, Il Postino, Bugsy, In the Line of Fire og Frantic (svo aðeins örfá dæmi eru nefnd) muna eftir ógleymanlegri tónlist þessa mikla meistara, sem setti órjúfanlegan svip sinn á þær. Í huga mínum standa þrenn verk eftir sem það besta sem hann hefur gert: það eru Gabriel's Oboe úr The Mission, The Death Theme úr The Untouchables, og síðast en ekki síst Love Theme úr Cinema Paradiso (sem er að mínu mati fallegasta kvikmyndastef seinustu aldar). Öll síðastnefndu stefin snerta hjartað, svo falleg eru þau. Morricone er sannkallaður meistari kvikmyndatónlistarinnar. Hann er maður tilfinninga í tónlist kvikmyndanna. Þessi geisladiskur er fyrir þá sem elska kvikmyndirnar og stefin í þeim.

(Smellið á nöfn kvikmyndanna að ofan og heyrið brot úr nokkrum verkum Ennio Morricone)

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi

Eins og athugulir lesendur hafa eflaust tekið eftir hef ég birt fjölda ljóða Davíðs Stefánssonar skálds frá Fagraskógi, að undanförnu. Það er engin tilviljun á bakvið það. Davíð hefur mjög lengi verið mitt uppáhaldsljóðskáld. Ljóð hans eru full af tilfinningu og þar er taug beint til þess sem les þau. Fáum íslenskum skáldum tókst betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn. Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Davíð orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar. Hann allavega talar til hjartans míns - þess vegna er hann ávallt í heiðurssessi þessa vefs þegar ljóð eru annarsvegar.

Saga dagsins
1954 Steinkista Páls biskups Jónssonar, sem lést árið 1211, fannst við fornleifauppgröft í Skálholti.
1967 Íslendingar töpuðu fyrir Dönum í frægum landsleik í fótbolta í Kaupmannahöfn. Úrslitin: 14:2.
1990 Saddam Hussein birtist í íröksku sjónvarpi með gíslum - þetta atvik var fordæmt út um allan heim. Valdaferli Saddams lauk 13 árum síðar, er honum var steypt af stóli, og hann bíður nú dóms.
1990 Tilkynnt um sameiningu V-Þýskalands og A-Þýskalands - hún tók loks gildi hinn 3. október 1990.
2000 Airbus A320 flugvél frá Gulf Air ferst við Bahrain í Persaflóa - 143 manns létu lífið í flugslysinu.

Snjallyrðið
Margt er það, já margt er það,
sem minningarnar vekur,
og þær eru það eina,
sem enginn frá mér tekur.

Þær eru það eina,
sem ég á í þessum heimi.
Uppi í háu hömrunum
er hugurinn á sveimi.

Gott var uppi í hömrunum
í hreiðrinu mjúka.
Þangað leitar hugurinn,
er hríð og stormar fjúka.

Þangað leitar hugurinn,
er þöglar stjörnur skína.
Þær eru einu vinirnir,
sem vita um gleði mína.

Þyngri voru sporin
en því verði lýst með orðum.
Vilji minn er sá sami
og undir vængjunum þínum forðum.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Söknuður)

21 ágúst 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um tvö fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um dramatísk endalok R-listans sem geispaði golunni í vikunni. Fer ég yfir málið frá nokkrum hliðum sem við blasa að séu mest áberandi þegar gert er upp merkileg endalokin á þessu langa dauðastríði sem R-listinn hefur háð seinustu árin. Jafnframt spái ég í framhaldinu, t.d. hvernig flokkunum gangi að vinna saman fram að kosningum. Það hefur óneitanlega verið nokkuð merkilegt að fylgjast með þessu kosningabandalagi (ég kalla það oftast hræðslubandalag) líða undir lok. Atburðarásin var fyrirséð nokkuð lengi - menn höfðu búist við endalokunum allt frá því er horft var upp á VG og Framsókn steypa Ingibjörgu Sólrúnu af stóli innan R-listans um jólin 2002. Þeir sem upplifðu þann hasar allan og gerningaveður á heilagasta tíma ársins gleyma honum ekki. Endalokin komu engum á óvart - þegar þau loks komu. Ekki einu sinni völdin gátu haldið fólki saman enn aðrar kosningarnar - svo mikill kuldi var kominn í skjól andstæðinga Sjálfstæðisflokksins að völdin gátu ekki megnað að halda hjörðinni í sömu réttinni. Þessi endalok urðu engin stórfrétt - þetta var eitthvað sem allir bjuggust við.

- í öðru lagi fjalla ég um umræðuna um flugvöll á höfuðborgarsvæðinu. Farið er nú að tala um raunhæfa kosti í málunum í stað hnútukasts um grunnatriði. Er það gleðiefni. Nú hefur rykið verið dustað af þriggja áratuga gamalli tillögu um völl á Lönguskerjum, sem Trausti Valsson kom manna fyrstur með, og Hrafn Gunnlaugsson færði í glæsilegan myndrænan búning í mynd sinni, Reykjavík í öðru ljósi, á árinu 2001. Ég lýsi yfir ánægju minni með nýja stöðu málsins nú. Menn eru farnir að tala um raunhæfa kosti og raunhæft mat á grunni málsins. Hugmyndin um flugvöll á Lönguskerjum er mjög góður kostur. Kanna verður þó alla þætti málsins og hvort hún sé raunhæf að því leyti að hún geti gengið upp – átt sér líf utan teikniborðsins og myndar Hrafns um skipulagsmál í borginni.


Pólitíska ræman
Wag the Dog

Hvers vegna dillar hundur skottinu? Vegna þess að hundurinn er snjallari en skottið. Ef skottið væri snjallara mundi það dilla hundinum. Þetta er augljós sannleikur og speki sem á svo sannarlega við í Wag the Dog, hinni frumlegu, fyndnu og sérlega skemmtilegu mynd óskarsverðlaunaleikstjórans Barry Levinson. Það eru aðeins 11 dagar í forsetakosningar og tíminn því ekki heppilegur fyrir alvarlegt hneyksli þar sem forsetinn sjálfur er aðal sökudólgurinn. Ásakanir þess efnis að hann hafi beitt eina starfsstúlku Hvíta hússins kynferðislegri áreitni eru komnar fram og málið er mjög líklegt til að hafa afgerandi áhrif á siðvanda kjósendur. Til að bjarga málunum er ákveðið að kalla í Conrad Brean, en hann er svokallaður spunalæknir (spin doctor), þ.e. sérfræðingur í að hafa áhrif á almenning í gegnum fjölmiðla og fréttatilkynningar. Conrad gerir sér þegar grein fyrir alvöru málsins og til að dempa umræður um hneykslið finnur hann upp enn alvarlegri fréttir sem hafa með kjarnorkusprengju og stríð í Albaníu að gera.

Til að gera "fréttirnar" sem allra trúverðugastar flýgur hann til fundar við Hollywood-leikstjórann Stanley Motts og fær hann í lið með sér. Hlutverk hans er að framleiða í einum grænum trúverðugar fréttamyndir frá "átakasvæðinu" og koma þeim á framfæri. Þeir Stanley og Conrad verða skottið sem dillar hundinum. Og hundurinn er í þessu tilfelli öll heimsbyggðin. Wag the Dog er án nokkurs vafa ein af bestu kvikmyndum ársins 1997. Óskarsverðlaunaleikararnir Dustin Hoffman og Robert De Niro fara algjörlega á kostum í hlutverkum Motts og Brean. Hoffman var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Pólitískir klækir þeirra og vinnubrögð jafnast á við heila kennslubók í pólitíska spinnplottinu á bakvið tjöldin. Þessi mynd er fjársjóður fyrir áhugamenn um stjórnmál. Þeir sem sjá þessa kynnast mörgum trixum sem bæði eru í bókinni heilögu um áróðursklæki og eins finnast ekki nema í vinnubrögðum þeirra allra færustu í bransanum. Áhugaverð mynd - sem allir áhugamenn um stjórnmál ættu að hafa sannkallað gagn og gaman af.

Saga dagsins
1011 Njálsbrenna - Njáll Þorgeirsson og fjölskylda hans brennd inni á Bergþórshvoli í Landeyjum.
1238 Örlygsstaðabardagi háður í Blönduhlíð í Skagafirði - þar féll á sjötta tug manna. Bardaginn er almennt talinn einn af þeim örlagaríkustu hérlendis en í honum börðust þrjár af voldugustu ættum landsins um áhrif og völd. Kolbeinn ungi Arnórsson vann sigur í orrustunni með atbeina Gissurar Þorvaldssonar jarls. Sighvatur Sturluson og Sturla sonur hans féllu t.d. í bardaganum með liði sínu.
1968 Tilraun stjórnvalda í Tékkóslavakíu til að færa stjórnarfar landsins til lýðræðisáttar er kaffærð með valdaráni þarlendra fulltrúa Sovét-kommúnistanna - lýðræðislegri stjórn landsins steypt af stóli.
1983 Benigno Aquino leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Filippseyjum, myrtur á flugvellinum í Manila
við heimkomu til landsins, en hann hafði þá verið í útlegð í Bandaríkjunum í 3 ár. Morðið á honum efldi stjórnarandstöðuna í baráttunni gegn Marcos einræðisherra landsins. Corazon Aquino, ekkja Benignos, leiddi baráttuna og varð forseti landsins í febrúar 1986 er Marcos var loks steypt af stóli.
1991 Valdarán harðlínuaflanna í Moskvu mistekst og forystumenn valdaránsins eru handteknir - Gorbatsjov sleppt úr varðhaldi, snýr aftur til Moskvu þar sem blasir við gjörbreytt valdaumhverfi.

Snjallyrðið
Enn birtist mér í draumi sem dýrlegt ævintýr,
hver dagur, sem ég lifði í návist þinni.
Svo morgunbjört og fögur í mínum huga býr
hver minning um vor sumarstuttu kynni.

Og ástarljóð til þín verður ævikveðja mín,
er innan stundar lýkur göngu minni
þá birtist mér í draumi sem dýrlegt ævintýr,
hver dagur, sem ég lifði í návist þinni.
Tómas Guðmundsson skáld (1901-1983) (Játning)

19 ágúst 2005

Punktar dagsins
Fundarsalur borgarstjórnar

Aðalfréttaefni vikunnar hefur verið R-listinn. Það hefur óneitanlega verið nokkuð merkilegt að fylgjast með þessu kosningabandalagi (ég kalla það oftast hræðslubandalag) líða undir lok. Atburðarásin var fyrirséð nokkuð lengi - menn höfðu búist við endalokunum allt frá því er horft var upp á VG og Framsókn steypa ISG af stóli innan R-listans um jólin 2002. Þeir sem upplifðu þann hasar allan og gerningaveður á heilagasta tíma ársins gleyma honum ekki. Ég hef fylgst með sigrum og sorgum R-listans allt frá stofnun árið 1994. Allan tímann hef ég verið mikill áhugamaður um stjórnmál og fylgst vel með borgarmálunum. Það verður seint sagt að ég hafi verið aðdáandi R-listans. Hugur hins sanna sjálfstæðismanns hefur verið kaldur í garð R-listans alla tíð. Það er því algjör óþarfi að leyna ánægju sinni með þessi sögulegu þáttaskil. Endalokin komu engum á óvart - þegar þau loks komu. Það varð enginn hissa í raun, fjölmiðlarnir sögðu frá þessu með krafti en almenningur hafði búið sig undir þetta. Um var að ræða ferli sem allir vissu mjög lengi hvernig myndi enda. Ekki einu sinni völdin gátu haldið fólki saman enn aðrar kosningarnar - svo mikill kuldi var kominn í skjól andstæðinga Sjálfstæðisflokksins að völdin gátu ekki megnað að halda hjörðinni í sömu réttinni. Þessi endalok urðu engin stórfrétt - þetta var eitthvað sem allir bjuggust við.

Margir fylgdust með skrifum mínum um R-listann í vikunni. Sumir töldu þau vera ansi áberandi og kveinkuðu sér undan umfjölluninni. Öðrum fannst þau vel framsett og hörmuðu lítt hversu mikið ég fjallaði um hinn látna - R-listann. Vil ég nota tækifærið og þakka þeim fjölda einstaklinga sem sendi mér tölvupóst vegna skrifanna. Sumir voru ósammála, fundu að hinu og þessu og komu með svarkomment, - en enn fleiri mjög sammála, og höfðu fín komment á skrifin. Það er alltaf gaman af góðum rökræðum. Það er alltaf gaman að heyra í öðru fólki og fá beint í æð skoðanir lesendanna á því sem maður er að pára niður á bloggsíðuna - þeim skoðunum sem maður hefur og vill kynna fyrir öðrum. Í því mikla hafi tölvupósta sem ég fæ dag hvern finnst mér alltaf ánægjulegast að fá póst með viðbrögðum um skrifin mín. Í gegnum það hef ég kynnst fjölda fólks. Skemmtilegast er jafnan að tala við pólitísku andstæðingana. Átti ég semsagt mörg lífleg skoðanaskipti þessa vikuna við fólk um lífið eftir R-listann. Sumt var æði fyndið - annað mátulega fróðlegt spjall um sögu og staðreyndir tengdar R-listanum. Hafði ég þónokkuð gaman af þessu. Það er auðvitað öllum frjálst að senda tölvupóst til mín og tjá sig um efnið sem hér birtist - hafi fólk á því skoðanir. Fagna ég hverjum þeim sem vill spjalla.

En já, saga R-listans er öll - þeir sem lifðu í veikri von um annað voru slegnir endanlega af laginu með ákvörðun Samfylkingarinnar um eigið framboð. Einn af þeim sem biðu og vonuðu - eins og sagði í laginu fræga - var Alfreð Þorsteinsson. Hann vonaði og beið - hélt í vonina um kosningabandalag í einhverri mynd. Í dag virtist sem hann væri búinn að átta sig og talaði hann þar í fyrsta skipti um lífið handan R-listans. Hann ætlar að halda áfram og bauð þeim byrginn sem hafa gagnrýnt hann í eigin röðum og sagði bara andstæðingunum að leggja í sig ef þeir vildu losna við hann. Alfreð hikar hvergi og ætlar sér greinilega að leggja á framboðshöfin á vegum Framsóknarflokksins í næstu kosningum. Í gær minnti Alfreð heldur betur á sig þegar að hann lagði fram tillögu í borgarráði um að hætt skyldi við umdeilda gjaldskrárhækkun á leikskóla, sem Stefán Jón Hafstein formaður borgarráðs og menntaráðs, hafði fyrr um daginn varið með kjafti og kló á fundi með fulltrúum háskólastúdenta. Það er greinilegt að kosningabaráttan er hafin. Og Alfreð er farinn að stríða samstarfsmönnum sínum innan R-listann - og minnir á sig með þessu. Engum blandast hugur um það að titringur er orðinn innan meirihlutans. Það kristallast altént í þessu.

Í dag birtist ítarlegur pistill minn um endalok R-listans á vefritinu íhald.is. Þar fer ég yfir atburði vikunnar og þessi táknrænu endalok kosningabandalagsins. Bendi ég lesendum vefsins á þau skrif. En ég endurtek enn og aftur þakkir til þeirra sem hafa kommentað til mín á skrif vikunnar um R-listann og þau ánægjulegu samskipti sem spunnist hafa útfrá því. Það er alltaf ánægjulegt að eiga góð samskipti við fólk í gegnum tölvupóst. Þeir sem hafa skoðanir á þessum nýjasta pistli - hafið endilega samband! Ég svara öllum pósti, um leið og ég les hann.

ISG

Fyrir sex árum setti Samfylkingin sér siðareglur. Gott og vel - það er þeirra valkostur og þeirra hlið á málin. Þetta var í aðdraganda alþingiskosninganna vorið 1999. Þeim kosningum fylgdist ég vel með. Sennilega er það ein skemmtilegasta kosningabarátta sem ég hef tekið þátt í. Sjálfstæðisflokkurinn vann þá einn sinn merkilegasta kosningasigur og við sjálfstæðismenn hlutum mest fylgi allra framboða í hinu gamla Norðurlandskjördæmi eystra. Það var mikil gleði aðfararnótt 9. maí 1999 þegar því var fagnað að Halldór Blöndal varð fyrsti þingmaður kjördæmisins, í þessum seinustu kosningum í kjördæminu. Sennilega er það hápunktur stjórnmálaferils Halldórs - þetta var sögulegur sigur fyrir okkur hér á þessu svæði okkar - því getur enginn neitað. En rétt eins og þetta eru ánægjulegar kosningar fyrir okkur sjálfstæðismenn - tengdar ólýsanlega gleðilegum minningum - hugsa Samfylkingarmenn til þeirra með hryllingi. Aldeilis var markið sett hátt með svokallaðri sameiningu vinstrimanna í Samfylkinguna. Ekki reið flokkurinn feitum hesti frá þeim bardaga og sleiktu sárin lengi á eftir, fyrstu árin þeirra voru mögur og eymdarleg. En já siðareglurnar komu til í aðdraganda kosninganna. Það var ein leið flokksins til að virka nútímalegur og vinna gegn óeðlilegum tengslum þingmanna flokksins.

Siðareglurnar margfrægu banna þingmönnum Samfylkingarinnar að sitja í stjórnum banka, stofnana og fyrirtækja þar sem hætta er á hagsmunaárekstrum. Samfylkingin varð fyrst flokka til að marka sér siðareglur með þessu tagi - er eina stjórnmálaaflið sem það hefur gert. Gott og vel - en hvernig hefur til tekist með reglurnar, spyr sig sjálfsagt einhver. Jú, það er í fréttum nú sex árum síðar að flokkurinn fer ekki eftir þeim. Fjölmiðlamenn þaulleita að þessum frægu siðareglum og enginn finnur neitt. Það er eins og að ætla að leita að nál í heystakk að reyna að ramba á þessar frægu reglur. Í gærkvöldi birtist merkileg frétt í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 um það að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar, sem tekið hefur sæti á þingi, ætli ekki að segja sig úr stjórn Seðlabankans, þar sem hún hefur setið frá árinu 2003 (er henni mistókst að komast inn á þing í frægu þingframboði sem gekk ekki upp). Hún telur enga hagsmunaárekstra felast í því að hún sitji í stjórninni. Það segir hún þrátt fyrir að þessar siðareglur segi að þingmenn flokksins megi eins og fyrr segir ekki vera í stjórnum banka. Ver hún það með því tali að í siðareglunum sé talað um viðskipta- og fjárfestingabanka. Seðlabankinn sé hvorugt og því engin brot á siðareglunum. Það er merkilegt að heyra þessa skilgreiningu hjá formanninum.

Það er auðvitað ekki hægt annað en að hlæja af þessu máli öllu. Samfylkingin setur sér siðareglur sem enginn hefur orðið fyrir því að virða. Ekki einu sinni formaður flokksins virðir þær. Hún er ekki ein um það því að Helgi Hjörvar situr í stjórn Landsvirkjunar og hafnarráði Faxaflóa, Jón Gunnarsson er í stjórn Sparisjóðsins í Keflavík og Einar Már Sigurðarson í stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins. Nú ver varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar þetta í fjölmiðlum með því að segja að þingflokkurinn hafi ekki tekið á þeirra máli vegna þess að þeir hafi verið tilnefndir af sveitarfélögunum. Þetta er samt sem áður mjög húmorískt, svo ekki sé meira sagt. Siðareglurnar sem varla finnast neinsstaðar eru brotnar fram og til baka af þingmönnum flokksins. En hvað ætla þeir að gera varðandi formann sinn? Þessi hlægilegi útúrsnúningur hennar á brotum á siðareglum flokksins segja margt um hvernig tekið hefur verið á þessum dæmum innan flokksins. Það er gaman að þykjast vera siðapostuli með því að setja siðareglur. En það er óneitanlega fyndið að sömu postular virði svo ekki eigin reglur. En það er vissulega undrunarefni að flokkur sem hefur sett sér svona siðareglur skuli ekki fylgja þeim eftir. Eru þetta bara puntsiðareglur sem ekki er fylgt eftir?

Viti einhver hvar þessar siðareglur er að finna á netinu væri gaman að fá tölvupóst um það - ég hef nefnilega þónokkurn áhuga á að lesa þær.

Murder on the Orient Express

Í gærkvöldi horfði ég á kvikmyndina Murder on the Orient Express. Þetta er vönduð og vel gerð úrvalsmynd byggðri á þekktri skáldkonu Agöthu Christie, sem skartar fjölda heimsþekktra leikara í aðalhlutverkum. Í þessari mynd var uppskriftin gefin að öllum Agatha Christie-spennusagnamyndunum sem fylgdu í kjölfarið, en allt frá því þetta meistaraverk kom út hefur verið gerður mikill fjöldi kvikmynda- og framhaldsþátta byggðar á þekktum sögum Christie. Hér er valinn maður í hverju rúmi og myndar ógleymanlega kvikmynd. Hercule Poirot tekur sér á hendur ferð með Austurlandahraðlestinni árið 1935 eftir að hafa leyst mál og gengur ferðin vel þar til hana fennir inni í snjóskafli á leiðinni. Er uppgötvast að einn farþeganna hefur verið myrtur á hrottalegan hátt, hefur Poirot morðrannsókn sína og uppgötvar fljótt sér til mikillar skelfingar að allir farþegar lestarinnar tengdust hinum myrta í gegnum barnsrán í kringum 1910 sem kennt var við Daisy Armstrong-málið. Nú er hann í vanda staddur og áttar sig á að allir farþegarnir höfðu nægilega ástæðu og tilefni til að hafa myrt hinn látna. Það vantar semsagt ekki fólk sem er undir grun. En spurningin vaknar - hver þeirra er morðinginn?

Það er hrein unun að fylgjast með þessari stórfenglegu kvikmynd og fylgjast með úrvalsleikaranum Albert Finney í hlutverki Hercule Poirot og fylgjast með honum fást við þetta dularfulla og undarlega morðmál áður en hann hóar hinum grunuðu saman og bendir á hina seku. Stjarna í hverju hlutverki og leikstjóri myndarinnar, úrvalsleikstjórinn Sidney Lumet, stjórnar öllu saman með velviðeigandi blöndu af húmor og spennu. Að öllum ólöstuðum er stjarna myndarinnar fyrir utan Albert Finney, óskarsverðlaunaleikkonan Ingrid Bergman, sem fer hér á kostum í hlutverki Gretu, sænsks trúboða sem er farþegi í lestinni. Hún hlaut sinn þriðja og jafnframt síðasta óskar fyrir hreint magnaðan leik sinn í þessari mynd. Ennfremur má meðal leikarana nefna Lauren Bacall, Martin Balsam, Wendy Hiller, John Gielgud, Vanessu Redgrave, Sean Connery og Dame Wendy Hiller. Einnig eru hér leikararnir Anthony Perkins, Richard Widmark, Rachel Roberts, Jacqueline Bisset og Michael York. Sannkölluð stórmynd með úrvalsleikurum, vel leikstýrð og afar vel útfærð. Þeir sem hafa gaman af stórbrotnum sakamálamyndum með ekta bresku ívafi mega ekki missa af þessari. Sannkölluð klassamynd.

John Williams

Enginn vafi leikur á því að John Williams sé eitt virtasta tónskáld í sögu kvikmynda seinustu áratuga. Hann á að baki fjölda ógleymanlegra tónverka sem sett hafa svip sinn á kvikmyndasöguna. Nýlega keypti ég heildarsafn (samt bara smábrot þess) bestu verka hans sem er á geislaplötunni: The Music of John Williams: 40 Years of Film Music. Hann hefur komið víða við á löngum ferli. Hann hefur samið tónlist við nær allar kvikmyndir Steven Spielberg. Allir þeir sem horft hafa á E.T., Schindler's List, Star Wars, The Deer Hunter, Indiana Jones, Jaws, Stepmom, Nixon, Born on the Fourth of July, Saving Private Ryan, Jurassic Park, Catch Me If You Can, JFK, Superman, Home Alone, og Sugarland Express (svo aðeins örfá dæmi eru nefnd) muna eftir ógleymanlegri tónlist þessa mikla meistara, sem setti órjúfanlegan svip sinn á þær. Hann hefur hlotið óskarsverðlaun fimm sinnum fyrir verk sín og hlotið 32 tilnefningar á rúmlega þrem áratugum. Það segir allt um snilli hans á þessum vettvangi. Tónlist hans hefur kallað fram mörg svipbrigði: hann hefur skelft fólk (allir fá hroll sem sjá Jaws), snert hjartað (allir sem sjá The Deer Hunter og Schindler's List tárast yfir stefunum) og glatt fólk (tónlistin hans úr Star Wars og Superman er pjúra snilld). Hann er það núlifandi kvikmyndatónskáld sem ég ber mesta virðingu fyrir. Alltaf fagmannlegur og kemur alltaf á óvart. Þessi geisladiskur er fyrir þá sem dýrka kvikmyndirnar - jafnast á við hið besta koníak. :)

(Smellið á nöfn kvikmyndanna að ofan og heyrið brot úr nokkrum verkum John Williams)

Klassískt retirement-dæmi :)

Hrós vikunnar að þessu sinni fær Húsasmiðjan. Fyrirtækið vantar fólk til starfa - náði það athygli almennings með auglýsingum sínum í dagblöðum um miðja vikuna er þeir auglýstu eftir starfskröftum - skiljanlega fyrst vantar fólk er gripið til þess ráðs. En það sem var merkilegast við auglýsinguna er það að óskað var eftir eldri borgurum til að sinna vissum störfum í fyrirtækinu. Viðbrögðin voru mjög góð - sá ég viðtal við Stein Loga Björnsson forstjóra fyrirtækisins, í vikunni í sjónvarpi þar sem hann lýsti því að fjöldi fólks hefði sótt um. Fannst mér þetta glæsilegt framtak hjá Húsasmiðjunni. Eins og allir vita er fólk á sjötugsaldri afburða starfskraftar og búa yfir enn meiri starfsorku en fólk á sama aldri fyrir nokkrum áratugum. Þetta er jú allt annað samfélag en þá. Margt fólk er afskrifað er það dettur inn á sjötugsaldurinn. Það er mjög slæmt, því eldra fólk býr yfir mikilli starfsreynslu og hefur þrek og heilsu til að taka að sér störf. Allavega gladdi þetta hjartað mitt og viðbrögðin sýna okkur hversu vel heppnað þetta var hjá Húsasmiðjunni. Þeir fá hrós í hnappagatið allavega frá mér.

Saga dagsins
1871 Alþingismenn stofnuðu Hið íslenska þjóðvinafélag, í þeim tilgangi að vekja og lífga skilning Íslendinga á því að þeir væru sjálfstætt þjóðfélag. Félagið hefur frá 1875 gefið út árlegt almanak.
1964 Bítlamyndin A Hard Day's Night frumsýnd í Tónabíói í Reykjavík - myndin sló sýningarmet um allan heim og markaði upphaf hinna gríðarlegu vinsælda bresku popphljómsveitarinnar The Beatles.
1991 Mikhail Gorbachev forseta Sovétríkjanna, steypt af stóli og hnepptur í stofufangelsi í leyfi sínu á Krímskaga, með valdaráni harðlínuaflanna í Moskvu - valdaránið fór út um þúfur tveim dögum síðar og Gorbatsjov var sleppt úr varðhaldinu og sneri aftur til Moskvu. Við heimkomuna blasti gjörbreytt pólitískt landslag við og Jeltsín forseti Rússlands, hafði fangað athygli heimsins og landsmanna með framgöngu sinni. Veldi Gorbatsjovs og Kommúnistaflokksins hrundi á nokkrum vikum og í lok ársins 1991 voru Sovétríkin svo að lokum leyst upp og Gorbatsjov missti í kjölfar þess öll sín pólitísku völd.
1993 Shimon Peres utanríkisráðherra Ísraels, kom í opinbera heimsókn til landsins. Í mótmælaskyni við Peres og ísraelsk stjórnvöld afþökkuðu leiðtogar þáverandi stjórnarandstöðuflokka, t.d. Ólafur Ragnar Grímsson núverandi forseti Íslands, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir síðar borgarstjóri, að sitja kvöldverðarboð forsætisráðherrans, honum til heiðurs. Mánuði eftir heimsókn Peres tókust svo sögulegar sættir á milli Ísraels og Palestínu, í kjölfar mjög umfangsmikilla samningaviðræðna í Noregi.
1993 Íslenskir togarar hófu veiðar utan lögsögunnar, í Smugunni - upphaf allmikilla milliríkjadeilna.

Snjallyrðið
Þú varst minn vetrareldur.
Þú varst mín hvíta lilja,
bæn af mínum bænum
og brot af mínum vilja.
Við elskuðum hvort annað,
en urðum þó að skilja.

Ég geymi gjafir þínar
sem gamla helgidóma.
Af orðum þínum öllum
var ilmur víns og blóma.
Af öllum fundum okkar
slær ævintýraljóma.

Og þó mér auðnist aldrei
neinn óskastein að finna,
þá verða ástir okkar
og eldur brjósta þinna
ljós á vegum mínum
og lampi fóta minna.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Vetrareldur)