Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 febrúar 2006

Olof Palme (1927-1986)

Olof Palme (1927-1986)

Í dag eru tveir áratugir liðnir frá því að Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar og leiðtogi sænska Jafnaðarmannaflokksins, var myrtur í Tunnelgötu í Stokkhólmi. Það var að kvöldi föstudagsins 28. febrúar 1986 sem að Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar, var skotinn í návígi í magann. Hann var ásamt eiginkonu sinni, Lisbeth, á heimleið frá kvikmyndahúsi í miðborg Stokkhólms þegar að tilræðismaður varð á vegi þeirra. Voru þau bæði skotin af tilræðismanninum. Palme lést á leiðinni á sjúkrahús en Lisbeth slapp lifandi frá árásinni. Þetta var eftirminnileg atburðarás og hafði áhrif á alla sem fylgdust með fréttum og upplifðu þennan tíma. Sérstaklega stóð þetta okkur nærri, enda Svíþjóð nálæg okkur og fram að því hafði það aldrei gerst að norrænn þjóðarleiðtogi hlyti slík örlög. Sænska þjóðin var enda felmtri slegin. Ég gleymi aldrei þessu föstudagskvöldi. Ég var þá eitthvað um tíu ára og hafði fengið að vaka frameftir við að horfa á kvikmynd í sjónvarpinu. Skyndilega var útsending Ríkissjónvarpsins rofin og Ómar Ragnarsson, sem var á fréttavakt, færði þjóðinni þær fregnir að Palme væri látinn og leit stæði yfir að morðingjanum. Tveim áratugum síðar er málið enn óupplýst.

Olof Palme hafði við andlát sitt verið einn af öflugustu stjórnmálamönnum Svíþjóðar í fjöldamörg ár. Hann hafði verið landsfaðirinn til fjölda ára og naut virðingar sem stjórnmálaleiðtogi langt út fyrir raðir flokks síns og nánustu stuðningsmanna. Það sópaði enda að honum, enda ræðuskörungur og friðarflytjandi sem hafði öðlast alþjóðavirðingu fyrir framlag sitt á stjórnmálavettvangi. Olof Palme fæddist í Östermalm í Svíþjóð þann 30. janúar 1927. Hann hóf ungur afskipti að stjórnmálum og hafði gríðarlegan áhuga á pólitík alla ævi og sagði skömmu fyrir lát sitt að hann hefði unun af því að tala og skrifa um stjórnmál. Sérstaklega var sérfræðiþekking hans á alþjóðastjórnmálum rómuð. Hann nam lög við háskólann í Stokkhólmi. Árið 1955 varð hann aðstoðarmaður Tage Erlander forsætisráðherra og leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins. Varð hann pólitískur trúnaðarvinur hans og náinn samstarfsmaður hans á sviði stjórnmála allt frá upphafi er hann tók þátt í ungliðastarfi ungra jafnaðarmanna í Svíþjóð. Erlander kom strax auga á snilli Palme sem stjórnmálamanns og ræktaði hann upp sem slíkan við hlið sína.

Palme var kjörinn á sænska þingið árið 1958 og átti þar sæti allt til dauðadags. Hann varð kornungur þingflokksformaður jafnaðarmanna og naut virðingar og stuðnings innsta kjarna flokksins alla tíð, þótt ungur væri er hann komst á framabraut. Honum voru allt frá upphafi falin mikilvæg verkefni. Hann varð heilbrigðisráðherra árið 1963 og tók við menntamálaráðuneytinu árið 1967. Þegar að Tage Erlander hætti afskiptum af stjórnmálum árið 1969, eftir að hafa setið á forsætisráðherrastóli í 23 ár, tók Palme við forystunni. Erlander hafði að segja má æft hann upp í að taka við forystunni og naut hann mikils stuðnings Erlander til að taka við mörgum lykilembættum og með því byggði Erlander upp öflugan og sterkan leiðtoga. Erlander bar skynbragð á það að ungt fólk í stjórnmálum á að njóta trausts og virðingar fyrir verk sín. Segja má að Palme hafi öðlast sinn sess vegna þess að Erlander tók af skarið með að byggja upp sterkan leiðtoga í honum. Palme leiddi Jafnaðarmannaflokkinn allt til dauðadags og varð sterkur og afgerandi leiðtogi hans þau 17 ár sem hann var þar í forystusveit. Segja má að Palme hafi verið lykilleiðtogi sænskra stjórnmála allan þann tíma.

Palme varð strax forsætisráðherra við brotthvarf Erlander og gegndi embætti til ársins 1976 er hægristjórn komst til valda undir forsæti Thorbjörn Fälldin. Hann varð svo forsætisráðherra að nýju árið 1982 og gegndi embættinu til dauðadags. Olof Palme var kraftmikill leiðtogi á alþjóðlegum vettvangi. Hann naut sérstaklega mikillar virðingar auðvitað á Norðurlöndum. En Palme þorði að vera umdeildur og þorði að hafa umdeildar skoðanir. Hann varð heimsþekktur fyrir andúð sína á Víetnamsstríðinu og öðlaðist virðingu margra fyrir að þora, einn örfárra þjóðarleiðtoga, að gagnrýna hlut Bandaríkjanna í stríðsátökunum. Segja má að Palme hafi oft orðið umdeildur og tekist á um skoðanir hans á alþjóðastjórnmálum, þó að hann hafi almennt notið virðingar sem slíkur. Hann var talsmaður friðar og sáttaumleitana og lét þá skoðun í ljósi oft á alþjóðavettvangi. Hann var talsmaður gegn kjarnorkuvopnaframleiðslu og afgerandi andstæðingur kynþáttamisréttisins í S-Afríku. Hann var líka talsmaður þess að alþjóðasamfélagið viðurkenndi tilvistarrétt Palestínu og studdi við bakið á Afríska þjóðarráðinu og blökkumönnum í forystu þess fyrir mannréttindum í S-Afríku.

Þegar að Palme var myrtur í Stokkhólmi hafði hann verið umdeildur á alþjóðavettvangi fyrir orð sín um Kúbu og Sovétríkin og vinstrilitaðar áherslur í garð Bandaríkjanna. Hann varð sennilega enn vinstrilitaðri með árunum, rétt eins og svo margir kratar á Norðurlöndum virðast vera. Hann var reyndar stjórnmálamaður umhleypinga og að mörgu leyti virtur fyrir að vera hvass og ákveðinn - umfram allt að þora að vera umdeildur. Palme varð mörgum harmdauði. Sænska þjóðin varð orðlaus þegar að fréttist af láti hans. Með dauða hans lauk kröftugu tímabili í sænskum stjórnmálum. Mikið tómarúm varð að honum látnum. Ingvar Carlsson, náinn samstarfsmaður Palmes og lærlingur hans í kratapólitíkinni, varð eftirmaður hans sem forsætisráðherra og flokksleiðtogi. Carlsson varð aðstoðarforsætisráðherra við valdatöku kratanna að nýju árið 1982 og varð sjálfkrafa eftirmaður Palmes er hann hvarf svo snögglega af hinu pólitíska sviði. Carlsson leiddi flokkinn í áratug og var forsætisráðherra 1986-1991 og 1994-1996. Honum auðnaðist þó aldrei að verða afgerandi leiðtogi landsins. Það hefur eftirmanni hans, Göran Persson, þó tekist.

Gátan um hver það var sem myrti Olof Palme á götuhorninu í Stokkhólmi fyrir tveim áratugum er eins og fyrr sagði óleyst. Þó bendir flest til þess að Christer Pettersson hafi myrt Palme. Lisbeth, ekkja Palmes, var eina manneskjan sem sá morðingjann augliti til auglitis. Hún hafði meðvitund allan tímann þrátt fyrir að hún hefði særst í árásinni. Hún bar vitni fyrir dómi um það að Pettersson væri morðinginn. Þrátt fyrir það var hann sýknaður. Reyndar má segja að lögreglan í Stokkhólmi sem stýrði rannsókninni hafi með öllu klúðrað henni á frumstigi og með því gert ókleift að leysa í upphafi hver myrti Palme. Pettersson neitaði til fjölda ára að hafa banað forsætisráðherranum. Á dánarbeði árið 2004 viðurkenndi hann að hafa myrt Palme. Sekt hans hefur þó aldrei formlega verið staðfest svo öruggt sé, þó flest bendi til þess að augljósast sé að hann hafi myrt hann. Nú fyrir skömmu kom fram í nýrri heimildarmynd til að minnast morðsins haft eftir vini Petterssons að hann hefði séð hann skjóta Palme, en það hafi verið fyrir mistök. Ætlun hans hafi verið að ráða eiturlyfjasala af dögum en farið mannavillt.

Nú, tveim áratugum eftir morðið á Palme, nýtur hann enn mikillar virðingar Svía sem og stjórnmálaáhugamanna um allan heim. Sjálfur hef ég alltaf haft gaman af því að kynna mér stjórnmálaferil hans og ævi - enda var Palme risi í skandinavískri pólitík. Við vorum ekki pólitískir skoðanabræður en ég hef alltaf virt mikils öflugt framlag hans til norrænna stjórnmála. Verst er hversu lítið hefur verið ritað um ævi hans, að mínu mati. Eftir stendur aðeins eitt meginrit um ævi hans, útgefið 1989, og það er reyndar ekki mjög ítarleg heildarúttekt á ævi hans og stjórnmálaþátttöku. Það hlýtur bráðlega að gerast að öflug ævisaga þessa litríka leiðtoga líti dagsins ljós. Reyndar var mikill skaði að honum auðnaðist ekki aldur til að rita um stjórnmálaþátttöku sína. Rétt eins og Önnu Lindh, sem hlaut hörmulegan dauðdaga árið 2003, er hans minnst fyrir öflugt framlag sitt. Það var enda sorglegt að ráðist hafi verið að norrænum forystustjórnmálamönnum með svo skelfilegum hætti - sérstaklega má fullyrða að ótímabært fráfall þeirra hafi haft afgerandi áhrif á sænsk stjórnmál.

Palme var einn af lykilleiðtogum norrænna stjórnmála og í forystusess í sænskum stjórnmálum í marga áratugi, allt frá því að hann hóf ungur þátttöku í ungliðastarfi flokks síns til hinna hörmulegu endaloka í miðborg Stokkhólms að kvöldi 28. febrúar 1986. Olof Palme var virtur langt út fyrir Svíþjóð og útlínur stjórnmálalitrófs Svíþjóðar. Framlags hans til stjórnmála er minnst víðsvegar um heim í dag. Hann markaði stór skref í norræn stjórnmál og setti svip á alþjóðastjórnmál til fjölda ára.

stebbifr@simnet.is

27 febrúar 2006

...og mundu að hjartanu ber að fylgja

Stefán Friðrik

Amma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir, var mæt kona - kjarnakona með alþýðutaug og skaplag úr gulli. Sennilega er það sú kona sem ég hef á ævi minni metið mest. Hún kenndi mér gullna lífsins reglu sem ég hef alltaf metið á ævinni mest. Hún sagði alltaf: "Berðu höfuðið hátt og mundu að hjartanu ber að fylgja". Lína amma var sterk kona - hún kenndi mér að vera sterkur og öflugur í gegnum hvað sem væri. Lína amma var alþýðukona að austan. Hún þekkti bæði lífsins gleði og sorgir. Ung missti hún frumburð sinn í hörmulegu slysi. Hún bar þann missi alltaf innra með sér. Sennilega var ég einn af örfáum sem hún treysti síðar fyrir sorg sinni og lýsti angistinni sem greip hana nóvemberdagana árið 1944 þegar að Veiga skildi við. Hún og ég höfðum svo margt sameiginlegt. Við vorum alla tíð mjög náin. Sennilega var taugin á milli okkar sterkari en á milli nokkurs sem ég hef kynnst á ævinni til þessa. Örlögin höguðu því svo að ég var einn hjá henni þegar að hún kvaddi þennan heim í litla fallega herberginu sínu á Dalbæ á Dalvík í janúarmánuði árið 2000. Það var táknræn stund í mínum huga.

Ég er reyndar alinn upp í kvennaríki með ömmur mínar, ömmusystur, tvær öflugar systur og frænkur mínar við stjórnvölinn - að ógleymdri mömmu. Ömmur mínar voru guðmæður mínar - pabba og mömmu hefur sennilega ekki litist meira á mig við komuna en svo að það bæri að setja mæður sínar í það verkefni að halda utan um snáðann og leggja honum reglur lífsins. Þær hafa svo sannarlega gert það og alla tíð hugsa ég til þessara mætu kvenna með virðingu að leiðarljósi. Báðar hafa þær verið akkeri lífs míns - reyndust mér alla tíð vel og voru gulls ígildi fyrir mig. Á mikilvægum stundum á ævi minni hafa þær verið til staðar með ráð og notalegheit sem mig hafa skipt miklu máli. Það er ekki amalegt að hafa átt svo styrkar stoðir að. Þær hafa alltaf verið mér mikilvægar. Þær kenndu mér lífsins gullnu reglur - bæði þær sem snúa að mannlegum samskiptum og hvernig maður á að meta sjálfan sig. Lína amma var manneskjan sem kenndi mér mestu og sterkustu karaktereinkenni mín: virðingu fyrir öðru fólki og kurteisi í garð þeirra sem manni þykir vænt um og styður til verka. Þessi einkenni eru grundvöllur hins öfluga einstaklings að mínu mati.

Hún var amman í kjallaranum: bjó á neðrihæðinni hjá okkur í Norðurbyggð, sá um okkur börnin fyrir og eftir skóla og var okkur svo innilega ómetanleg. Hún eldaði alltaf hádegismatinn meðan að mamma var að vinna og var til staðar. Það er eiginlega eins og gylltur ljómi yfir minningu hennar í huga mér. Við hana gat ég allt rætt og við treystum hvoru öðru fyrir miklu. Við vorum trúnaðarvinir. Ég launaði henni alla hlýjuna og trygglyndið seinustu árin er halla tók undan fæti hjá henni og heilsan byrjaði að dala. Hún átti það skilið að njóta atlætis míns þegar að hún gat ekki lengur séð um sig sjálf. Eitt atvik á ævi minni gleymist mér ekki - það er eiginlega fyrsta bernskuminningin. Það var þegar að við fjölskyldan bjuggum hér ofar í götunni, að Þórunnarstræti 118. Þá var ég fjögurra ára gamall og náði að strjúka. Ég var reyndar alltaf stríðinn og baldinn ungur maður og tók áhættur - bæði þá sem síðar. Fannst ég síðar sama dag niðrí Brekkugötu skammt frá heimili Hönnu ömmu fyrir merkilega tilviljun og farið var með mig heim. Þegar að komið var með mig heim brosandi út að eyrum eftir ævintýrið mætti mér amma brosandi yfir að ég hafði fundist. Brosið var hennar vörumerki.

Það er svo margt sem er fast í huga mér þessa dagana. Ég hef verið að hugsa mjög mikið seinustu vikurnar. Hugsa um hvað sé rétt og hvað sé rangt í stöðunni. Þær eru margar litlu fallegu minningarnar sem koma upp í hugann. Stöku sinnum koma þær beisku fram. Ég hef upplifað sjálfur lífsins gleði og sorgir. Ég hef grætt vini og misst vini - ég hef misst einstaka ástvini og ættingja, suma langt um aldur fram og ég hef eignast nýjar stoðir þegar að þær gömlu féllu. Sumar stoðirnar fóru alltof snemma - þær skilja eftir sig ummerki sem ég get og mun aldrei gleyma. Vil ekki gleyma þeim. Þó að stöku súrsæt minning einkenni sumt af þessu mæta fólki get ég ekki gleymt. Ég er og hef alla tíð verið tilfinningavera. Það kenndu mér guðmæður mínar. Ég verð að hafa skap úr stáli en huga úr gulli. Það er blanda sem reynist vel bæði á góðu og vondu augnablikunum. Það kallast á í mér góðu og vondu minningarnar núna þegar að ég skrifa þetta. Ég hef reyndar á seinustu vikum lært að skrifa meira frá hjartanu hérna inn - skrifa um það sem mér finnst og það sem mér langar til að tala um.

Það er einfaldlega minn stíll að tala hreint út og þessi vettvangur er minn. Hann tekur enginn af mér. Ég eiginlega elska að nota Netið til að skrifa frá hjartanu til míns sjálfs. Vonandi hafa aðrir gaman af þessu. Ég hef alltaf haft gaman af að skrifa og sennilega er það minn heimavöllur í lífinu umfram allt annað. Ég veit að sumir fylgjast með þessum vef glaðir og fá einhverja ánægju af pælingunum. Það er mér gleðiefni. Sumir eru ekki glaðir með að ég skrifi frá hjartanu og spyrja sig að því hvað ég taki nú upp á að skrifa næst um. Ég er og ég verð - einfalt mál. Þeir sem þekkja mig vita hvernig ég er og hvernig ég hugsa. Þeir hafa verið duglegir að hafa samband seinustu vikurnar - spyrja frétta og heyra hvað ég sé að hugsa. Þetta fólk hefur öðlast verðmætan sess í huga mér - þetta er það fólk sem ég treysti og eru mín stoð og stytta í lífsins önn og tilveru dagsins í dag. Þær stoðir sem ég styðst við í dag eru mikilvægar og ég met þær mikils. Ég met jú alla mikils sem hugsa vel um mig og minn hag. Þeir eru hugheilir og notalegir - spyrja hvort þeir geti eitthvað gert. Allt er það ómetanlegt!

Ég ætla á næstu vikum að fara að gullnu reglunum hennar ömmu. Ég ætla mér að bera höfuðið hátt og fylgja hjartanu. Þar sem hjartað slær - þar er jú tilvera manns. Maður verður að fylgja sannfæringu sinni og pælingum fyrir því sem maður telur vera hið rétta. Ég ætla að taka fegins hendi þeim tillögum vinar míns frá því um daginn um að ég ætti að fara nú eigin leiðir og hugsa um sjálfan mig og eigin hag næstu mánuðina. Það er svo margt skemmtilegt til í þessum heimi annað en stjórnmál. Nú ætla ég að fara að stúdera kvikmyndir og svo margt annað - gera það sem ég hef svo innilega vanrækt seinustu mánuðina og jafnvel árin. Ég ætla að vera einn og engum háður. Það var mér mikil lífsins lexía að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og ég lærði þar hverjum ber að treysta og hverjum ekki. Ég fór reynslunni ríkari úr þeim slag. Það sem meira er að ég kynntist betur hvernig ég ætti að haga næstu skrefum.

Hjartað leitar í átt að öflugum pælingum um lífið og tilveruna eins og áður - ég fylgi för. Ég man það sem mér var kennt að ég læt hjartað ráða förinni. Því ber jú að fylgja og engu öðru. Það hjálpaði mér með að taka ákvörðun um næstu skref mín og hvernig ég haga næstu mánuðum ævinnar. Ég þakka ömmu fyrir góðu lífsregluna sína sem hjálpaði mér að taka af skarið í huga mér í pælingum seinustu vikna. Ég mun vera sterkur og öflugur eins og ávallt og horfa í gegnum skuggana með bros á vör. Ég er þannig karakter, ekki satt?

stebbifr@simnet.is

25 febrúar 2006

Pælt í lífinu og tilverunni - að njóta góðrar bíómyndar

Stefán Friðrik

Seint í gærkvöldi fékk ég gott símtal frá góðum vin sem býr erlendis. Hann var að kanna stöðuna á undirrituðum. Ég sagði honum alla sólarsöguna af mér og mínum verkum og pælingum seinustu vikur. Hann hafði fylgst með skrifunum undanfarnar vikur en ekki haft samband við mig í síma fyrr en þá, sá greinilega á blogginu að ég var að róast aftur eftir skapkastið mikla sem ættingjar og vinir kannast ábyggilega orðið vel við, bæði af prívatsamtölum og lestri hér. Hann hlustaði meðan að ég lét móðan mása. Eftir það kom ein spurning sem hann hafði greinilega velt lengi fyrir sér allan tímann þær mínútur sem ég talaði og hann jánkaði á meðan greinilega hugsi. Spurningin var: Ætlarðu að láta bjóða þér þetta - hvað ætlarðu að gera eftir að hafa verið sjálfstæðismaður bakvarðasveitanna til fjölda ára? Þá kom að því að ég væri hugsi og ég sagði honum sem væri að ég væri að hugsa mín mál, væri að velta vöngum yfir því hvort maður ætti hreinlega að gefa skít í þetta allt saman og snúa við blaðinu eða jafnvel að vinna áfram í þessari blessuðu pólitík á eigin vegum áfram - spila sig sóló og gera þetta eftir behag.

Hann vissi sem var að pólitík og ég erum samofin, ég hef dýrkað stjórnmál og allt tengt því í mörg herrans ár. Það fær mig ekkert til að hætta að vera fréttafíkill par exellance og ekkert mun gera mig afhuga þeirri stjórnmálabakteríu sem hefur heltekið mig. Pabbi og ég erum alveg eins að svo mörgu leyti. Hann veit hvenær ég er stemmdur á hlutina og hvenær ekki. Hann varð reyndar svo reiður að hann sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum eftir að róaðist hafði eftir að við höfðum öll meðtekið stöðu mála hér á svæðinu. Hann sagðist ekki gefa mikið fyrir þennan flokk minn. Það er ekki alveg víst hvor okkar er þó meira hugsi yfir þessu öllu. Pabbi er reyndar ekki tryggasti sjálfstæðismaður sögunnar en hann hefur skoðanir og er stjórnmálafíkill eins og ég. Hann veit hvað ég er að hugsa og sagði við mig að hvað sem ég myndi segja myndi ekki breyta því að hann gæti ekki stutt þennan flokk í vor. Ég skil hann mjög vel og það má Guð vita að ekki rak ég á eftir honum með að skipta um skoðun. Skapið er ríkt í föðurættinni minni - ég erfði þetta skap svosem og kvarta ekki.

En aftur að þessum góðvini mínum. Hann sagði mér reyndar í spjallinu að ég ætti að slá þessu upp í kæruleysi, fara út úr þessu öllu og sinna öðrum hlutum og taka upp önnur áhugamál. Sagði mér í fúlustu alvöru að ég ætti að fara að velta mér upp úr kvikmyndunum aftur og verða bóhem svona meðan að maður væri enn ungur og ferskur. Kannski maður bara geri það - varð svarið hinumegin á línunni. Eftir það hló ég við og satt best að segja sá ég mig ekki staddan heima öll kvöld horfandi á kvikmynd og lesandi bækur og alls ekki að stússast í þessu öllu. En ég fór að hugsa um það hversu notalegt það væri bara að hugsa um sjálfan sig og gefa skít í allt annað. Púki í höfðinu á mér öskraði á mig um að gera einmitt það. Hinumegin var staddur engillinn sem sagði mér að ég ætti nú að hætta að hugsa um mig en þess þá meira um flokksins hag og behag ráðandi manna. Þetta er svona eins og í bíómyndunum: góði og vondi kallinn öskrandi sínhvor skilaboðin. Ég hafði bara nett gaman af þessum pælingum og við kvöddumst báðir í friði hvorn við annan.

Ég þakkaði ráðleggingarnar og sagðist hugsa málið - sem ég og enn geri. En gærkvöldið var mjög skemmtilegt að öllu leyti. Við Kári Allans fórum saman í bíó og fengum okkur að borða áður. Fengum okkur kjúlla á Crown Chicken og fórum svo að því loknu á kvikmyndina The Constant Gardener, sem nú er sýnd hér í Borgarbíói. Sú mynd er alveg stórfengleg og var eins og sætasti NóaSíríus-konfektmoli í augum mér. Ég hugsaði mikið meðan að myndin stóð - hún fékk mig til að hugsa gang lífsins tilveru með nokkuð merkilegum hætti. Ég fór úr bíóhúsinu mjög hugsi og naut myndarinnar mjög. Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu rithöfundarins John le Carré. Segir frá því er aktívistinn Tessa Quayle er myrt á afskekktu svæði í Norður-Kenía. Starfsfélagi hennar stingur af í kjölfarið og beinast öll spjót að honum. Sagt er að Tessa og samstarfsfélaginn hafi átt í ástarsambandi. Eiginmaður Tessu, Justin Quayle (leikinn af Ralph Fiennes) tekur fréttunum afar illa og neitar að trúa því að Tessa hafi verið honum ótrú. Hann heldur af stað og reynir að leysa gátuna.

Þetta er stórfengleg mynd - full af pælingum og stúderingum á lífinu. Leikkonan Rachel Weisz brillerar í hlutverki Tessu og hlýtur vonandi óskarinn fyrir sitt glæsilega framlag. Leikstjóri myndarinnar er Fernando Meirelles, en hann leikstýrði áður hinni stórfenglegu City of God. Fiennes var svo líka flottur sem maðurinn sem stendur eftir án konu sinnar og hugsi yfir lífsins gangi og döprum örlögum hennar. Það er ekki fjarri því að ég hafi skilið hann vel og sett mig í spor hans eilitla stund. Það er jú erfitt að halda áfram án þess akkeris sem tilvera manns hefur snúist utan um. Þetta var flott mynd, vel gerð og stórfenglega leikin. Mæli eindregið með henni. Eftir myndina fórum við Kári svo á Kaffi Karó og spjölluðum um lífsins gang og stjórnmálapælingar voru ekki langt undan. Við Kári höfum oft rætt saman í vetur og gaman að hafa hann fyrir norðan. Nú er hann að flytja aftur suður og leitt að hann fari finnst mér. Við Kári erum að pæla í stjórnmálum af lífi og sál og höfum virkilegan áhuga á málunum.

Það er bæði lærdómsríkt og áhugavert að ræða við svoleiðis fólk og stúdera málin. Alveg eðall að sitja með svoleiðis fólki yfir kaffibolla og útpæla pólitíkina. Lífsins pælingar eru gulls ígildi. Segja má það sama um kvikmyndir. Það er eðall að horfa á eðalmynd og njóta hennar frá öllum hliðum kvikmyndapælinganna sem fylgja ástríðu á kvikmyndum. The Constant Gardener er mynd sem situr enn eftir í huga mér daginn eftir að hafa séð hana - svoleiðis mynd situr lengur eftir en það. Það er mín lífsreynsla. Svoleiðis myndir er unun að sjá jafnt í fyrsta skiptið sem og hið tíunda ef út í það er farið. Góð kvikmynd er eins og gott rauðvín - ávallt gott, ávallt ferskt og umfram allt ávallt mannbætandi. Það er kannski spurning um að fá sér rauðvínsstaup og velja sér góða mynd til að horfa á í kvöld. Var að hugsa um að horfa jafnvel á Casino með Robert De Niro - mynd um mafíósa í spilavítisheimum hinnar fölsku en íðilfögru Las Vegas sem svífast einskis til að knésetja jafnvel stuðningsmenn sína og bandamenn. Mjög áhugavert, ekki satt?

Casino er flott mynd. Ég er semsagt að spá í að horfa á Casino með áhuga núna í kvöld og pæla jafnframt í svo mörgu öðru í leiðinni. Pælingarnar halda áfram - jafnt í huga mér sem og á þessari vefsíðu. Hér erum við alltaf lifandi og fersk í pælingum - ekki satt?

stebbifr@simnet.is

24 febrúar 2006

Listin að vera kvikmyndaáhugamaður

Stefán Friðrik

Seinustu vikur hef ég verið í miklum persónulegum pælingum, sennilega þeim mestu í ein sex til sjö ár. Það er margt sem er þess vert að hugsa um litið frá mínum bæjardyrum. Ég hef reyndar orð á mér fyrir það að vera mikill pælari, stúdera hlutina fram og til baka. Ég er samt persóna sem tek ákvarðanir mjög fljótt og afgerandi. Ég læt vaða, oft er það hið rétta en stundum ekki. Ég er ekki týpan sem hikar og verð aldrei. Það er eins og það er bara. Seinustu dagana hef ég verið að finna aftur kvikmyndaáhugamanninn inn í mér. Ég er genetískur kvikmyndaáhugamaður. Hef allt frá því að ég var smákrakki dýrkað kvikmyndaform og allt tengt því - gjörsamlega dýrkað kvikmyndalistina. Já, ég er svona týpa sem horfir á allar kvikmyndaverðalaunahátíðir, poppa á föstudagskvöldum yfir flottum myndum og mæti alltaf í bíósalinn með popp og kók. Ég er í öllum pakkanum. Sjálfur hef ég safnað kvikmyndum frá því að ég var um tíu ára aldurinn og á sennilega orðið um þúsund kvikmyndir hérna heima. Það að horfa á kvikmynd er listgrein að mínu mati - það er ekki það sama að horfa á mynd og að njóta hennar.

Einu sinni var kvikmyndaástríðan ríkari í mér en sú sem snýr að stjórnmálum. Þeir sem hafa kynnst mér nú á seinustu árum trúa því eflaust ekki. Sú var þó tíðin að ég skrifaði kvikmyndagagnrýni og þessi ástríða var meira áberandi en stjórnmálafíknin. Seinustu árin hefur bæði togast á í mér. Sennilega hef ég verið pólitískur fíkill alla mína ævi. Ég er reyndar kominn af fólki sem hefur alltaf verið mjög ákveðið og haft áhuga á stjórnmálum. Einu sinni fékk ég að heyra það að ég væri eins og langafi, Stefán gamli Jónasson. Reyndar erum við gríðarlega líkir já. Alla tíð hef ég haft áhuga á pólitík. En ég er sú týpa sem hef unun af rökræðum - maður sem hlustar og stundar spjall með rólegum og yfirveguðum hætti. Ég er reyndar mjög skapríkur maður og get tekið rosaleg skapgerðarköst ef því er að skipta. Sú hlið sem snýr að flestum er hin rólynda og yfirvegaða. En það fólk hefur sennilega aldrei séð mig í þeim ham sem ég bý yfir. Sumir vinir mínir hafa reyndar sagt mér seinustu daga að þessi hlið hafi verið mjög sýnileg hér á vefnum seinustu vikurnar. Er það vel.

Einn vinur minn sagði mér um daginn að ég ætti nú að fara að snúa mér að þeim gír sem er mér bestur - kvikmyndavettvangurinn. Skrifa kvikmyndagagnrýni og stúdera kvikmyndaformið betur. Honum fannst sennilega orðið komið nóg um hinn reiða og ákveðna mann sem skrifað hefur um stjórnmál frá prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Honum hefur sennilega ekkert litist á Stefán Friðrik hinn skapmikla - viljað mun frekar hinn rólega Stefán Friðrik í kvikmyndapælingunum. Það er reyndar alveg rétt að ég hef lítið stúderað kvikmyndir síðan að ég varð meira áberandi í stjórnmálum. Þessi hlið hefur farið í skuggann. Það er orðið nokkuð um liðið síðan að ég var að stúdera af ástríðu og sál um kvikmyndir. Reyndar fer ég alltaf í bíó í hverri viku - reyni það allavega. Ég verð að fara í bíó reglulega. Ég hef unun af flottum myndum og stúdera ekki bara leikarana heldur allan rammann - tek pælingar um allt frá kvikmyndatökunni til tónlistarinnar. Allt form kvikmyndar skiptir jú máli. Hver vill annars sjá mynd með góðum leikurum en í lélegum myndgæðum? Tja, enginn!

Kvöld eitt í byrjun vikunnar settist ég niður og horfði í einni runu á allar Guðföðurmyndirnar. Vá, það var alveg rosalega gaman!! Engin orð lýsa þeim gæðapakka nógu vel. Góðar myndir eru gulls ígildi. Fljótlega ætlum svo ég og góðvinur minn að eyða einum degi saman að horfa á Hringadróttinssögu. Það er dúndur, segi ég og skrifa. Allir sannir kvikmyndaáhugamenn hafa eflaust sett allar þrjár í DVD-spilarann sinn í einni runu. Þeir sem eiga það eftir eiga að drífa í því hið snarasta. Í vetur kynntist ég einum andstæðingi mínum í pólitík hér í bæ sem er í ungliðamálunum. Við höfum kynnst vel og höfum rætt pólitík mikið skiljanlega og engan veginn alltaf sammála. Eitt sinn fór ég að tala um kvikmyndir. Upp úr dúrnum kom sameiginleg ástríða á kvikmyndum og kvikmyndaforminu. Síðan þá höfum við margar eðalstundirnar átt ásamt fleirum við að stúdera kvikmyndir og eiginlega komnir með kvikmyndaklúbb. Það er alveg eðall - enda er jú fátt betra en rökræður um stjórnmál frá a-ö og kvikmyndapælingar við fólk sem dýrkar kvikmyndalistina jafnmikið og maður sjálfur.

Þeir sem einu sinni hafa helgað hjartað sitt kvikmyndum og pælingum um það vita vel hverju ég er að lýsa. Þetta er alveg eðall. Sennilega er rétt að kvikmyndaáhugamaðurinn Stefán Friðrik fari nú að pæla meira í kvikmyndum og helga meira rými fyrir þessa ástríðu sína? Ja, hver veit. Allavega er mikil list að vera sannur kvikmyndaáhugamaður. Eitt sinn var ég spurður hvaða mynd stæði hjarta mínu næst sem kvikmyndaáhugamaður. Ég hugsaði mikið þá og rann í huganum yfir allt safnið mitt. Eftir stóð ein mynd: hin ítalska og undurljúfa Cinema Paradiso. Þar eru æskuár kvikmyndagerðarmanns rakin og sagan sögð hvernig hann varð barnslega hugfanginn af listforminu. Þeir sem hana sjá gleyma sér í hugarheimi kvikmyndanna yfir henni - slíkur er kraftur hennar. Líf aðalsöguhetjunnar snýst allt frá æskuárum um kvikmyndina, listformið og það að finna hinn rétta tón í að njóta kvikmyndarinnar, en það er viss list útaf fyrir sig. Cinema Paradiso sameinar að mínu mati alla helstu grunntóna þess að njóta kvikmyndarinnar - dýrka hana sem ástríðu.

Kvikmyndin verður eilíf, ég tel það allavega. Þetta er það listform sem hefur sameinað kynslóðirnar í rúma öld og heillað þær, sagt sögur og mótað fólk verulega. Áhrifamáttur kvikmyndanna er gríðarlegur. Það segi ég allavega fyrir mig - verandi kvikmyndáhugamaður af ástríðu. Hvet alla til að njóta kvikmynda sem sannrar ástríðu. Það bætir alla. Ég ætla að halda áfram af krafti að rækta kvikmyndaástríðuna innra með mér - kannski fer maður að skrifa meira um kvikmyndir hérna en hefur verið? Ja hver veit!

stebbifr@simnet.is

23 febrúar 2006

Kraftur í ungu fólki á Akureyri

Stefán Friðrik

Það er mikill kraftur í ungu fólki hér á Akureyri nú á þessum febrúardögum. Þrátt fyrir döpur úrslit af hálfu ungliða í prófkjörum er kraftur í því unga fólki sem er í stjórnmálastarfi hér af ástríðu. Við munum ekki hætta að vera virk í umræðunni og við munum leitast við að láta rödd okkar heyrast - sú rödd á að vera öflug og full af leiftrandi neista. Landsmenn allir skynja þennan kraft þessa dagana. Nú um þessar mundir er mjög mikil umræða í fjölmiðlum um framtak ungs fólks, t.d. í menntamálum. Er það vel. Rödd ungs fólks er öflug sé hún sett fram af svona miklum krafti. Ungt fólk er mikilvægt í stjórnmálastarfi, sem og í samfélaginu. Rödd ungs fólks á alltaf að skipta máli. Þegar kemur að kosningum er rödd ungs fólks mikilvæg. Í sveitarstjórnarkosningunum í vor munu t.d. fjöldi ungs fólks ganga að kjörborðinu í fyrsta skipti - þetta er ungt fólk með skoðanir, fólk sem vill láta að sér kveða. Það vill vera áberandi og vill sækja fram - vera virk í að tjá skoðanir sínar og vera metið einhvers.

Að undanförnu hefur vakið athygli kraftur í ungu fólki í Menntaskólanum á Akureyri og í Háskólanum á Akureyri. Nemendur þar hafa mótmælt af hjarta og sál - sagt skoðanir sínar með einbeittum en umfram allt áberandi hætti. Þau mótmæli hafa vakið athygli langt út fyrir bæinn okkar. Þar sést vel hversu áberandi ungt fólk getur verið vilji það segja skoðun sína - vilji vera sýnilegt í að hafa skoðun. Á mánudag gengu nemar í HA út úr tíma og héldu fjölmennan mótmælafund á Borgum, rannsóknarhúsi skólans. Skilaboðin af þeim fundi voru einbeitt og skýr: nemar mótmæla fjársvelti skólans og stöðu mála. Þau skilaboð komust til skila með glæsilegum hætti og fólk var ákveðið og öflugt við að tjá sig með þeim hætti sem fundurinn skilaði frá sér. Uppskáru nemar við skólann mikla athygli og verðskuldaða að mínu mati. Í kjölfar fundarins kom stjórn Varðar saman og samþykkti eftirfarandi ályktun:

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, skorar á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra og þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að leita leiða til að tryggja starfsemi Háskólans á Akureyri til framtíðar og að hann fái að vaxa með sama krafti og áður. Mikilvægt er að hann haldi sterkri stöðu sinni. Skólinn hefur auðveldað til muna aðgengi fjölda fólks að námsframboði og tryggt fólki hér ný og spennandi tækifæri. Háskólinn á Akureyri hefur sýnt að hann á allt gott skilið.

Staða mála nú er óásættanleg: að mati okkar þarf að auka möguleika skólans til að afla sértekna, framlag til rannsókna þarf að hækka og húsaleigukostnað vegna Borga þarf að bæta. Við skorum á ráðherra að taka til sinna ráða því HA skiptir norðlenskt samfélag miklu máli. Krafa allra sem unna Háskólanum á Akureyri er að undirstoðir skólans verði styrktar. Mikilvægt er að fólk líti á nemendur skólans sem fjárfestingu en ekki kostnað.


Þessi ályktun vakti athygli í gær og fékk ég fjölda kommenta á hana. Ályktunin er afgerandi og tökum við í stjórninni undir mótmæli nemendanna og skilaboð þeirra. Það er sjálfsagt mál fyrir okkur að tala máli Háskólans á Akureyri. Það höfum við alltaf gert. Síðast sendum við frá okkur ályktun stöðu HA þann 28. desember sl. og er þessi ályktun mjög í anda hennar - skilaboðin þau sömu að mestu leyti. Ég hef margar greinarnar skrifað til varnar HA og ekkert nema sjálfsagt að taka undir mótmæli nemendanna með þessum hætti. Skrifaði ég síðast grein í byrjun vikunnar og birtist sú grein þá á fréttavefnum akureyri.net. Það er sjálfsagt fyrir okkur að senda ráðherranum og þingmönnum flokksins þessa kveðju með óskum um að þeir beiti sér. Rödd okkar er kannski ekki ráðandi en hún skiptir máli. Ungliðar allra flokka skipta alltaf máli, enda hafa þeir kosningarétt - hafi menn gleymt því er sjálfsagt að minna á það.

Í gær kom svo að því að ungt fólk við MA kæmi fram af sama krafti og nemar við HA. Nemendur skólans gengu líka út úr tíma í gærmorgun. Þrömmuðu nemendurnir í fylkingu niður á Ráðhústorg. Þar héldu þeir svo opinn mótmælafund til að vekja athygli á því sem þau telja að sé fyrirhugaður niðurskurður menntunar til stúdentsprófs vegna styttingar náms til stúdentsprófs. Mótmælunum stýrðu þær Edda Hermannsdóttir og Kristín Helga Schiöth. Töluðu Edda og Ottó Elíasson af miklum krafti á fyrrnefndum fundi gegn tillögum menntamálaráðherrans. Vinnustöðvun nemenda við nám stóð í heilan kennsludag og mæta þau aftur til náms klukkan 10 nú í morgun. Skilaboð þeirra eru táknræn: segjast þau með þessu sleppa 20% kennsluvikunnar - verða fyrir fjórðungsniðurskurði á námi, í anda tillagna ráðherrans. Var kraftur í nemunum og eftir athöfnina á Ráðhústorgi grilluðu þau pylsur og áttu góða stund saman. Það verður allavega seint sagt um nemana í MA að þau séu lítt áberandi.

Það er kraftur já í ungu fólki. Það verður seint sagt um ungt fólk hér að það sé líflaust eða láti sig málin ekki varða. Satt best að segja er gaman að fylgjast með þessu unga fólki og kraftinum sem einkennir framkomu þeirra hér seinustu dagana. Þetta er ungt fólk með skoðanir - ungt fólk sem minnir með mótmælum á að þau skipta máli. Flestallt er þetta fólk með kosningarétt og skiptir máli í samfélaginu. Rödd þeirra getur ekki verið sniðgengin - hvorki í málefnum samtímans né hvað varðar hlut þeirra í fremstu víglínu flokka og stjórnmálasamtaka. Hafi menn talið hlut þess og skoðanir léttvæga komast menn að því í kosningabaráttu að rödd þeirra og skoðun skiptir máli. Reyndar getur hún skipt svo miklu máli að hún getur ráðið úrslitum í tvísýnni kosningabaráttu þar sem hvert atkvæði ræður úrslitum um það hverjir veljast til forystu í landsmálum eða sveitarstjórnmálum. Það skiptir mjög miklu máli að reynt sé að höfða til þessa unga fólks í slíkri kosningabaráttu.

Framlag ungs fólks skiptir alltaf máli - hvort sem er í stjórnmálum eða í þjóðmálaumræðunni. Að lokum vil ég senda þessu öfluga unga fólki sem hér lætur rödd sína heyrast af krafti baráttukveðjur. Gangi þeim vel í að tjá skoðanir sínar á þessum vettvangi sem og öðrum. Rödd unga fólksins er mikilvæg - það sjáum við vel á kraftinum sem einkennir mótmælin hér fyrir norðan.

stebbifr@simnet.is

22 febrúar 2006

Ólga í bæjarpólitíkinni á Akureyri

Stefán Friðrik

Ég skynja mikla ólgu í bæjarpólitíkinni á Akureyri - meiri ólgu en verið hefur í um áratug. Sú ólga stafar ekki bara af því að ungu fólki er hafnað í prófkjörum hér í bæ innan stjórnmálaflokkanna heldur vegna þess að það stefnir í fjölda sérframboða. Það er nú þegar ljóst að það stefnir í fleiri framboð fyrir þessar sveitarstjórnarkosningar en voru árið 2002. Ragnar Sverrisson kaupmaður, hefur nú boðað sérframboð og sótt um listabókstafinn A fyrir þessar kosningar. Það hefur lengi legið í loftinu að Ragnar væri óhress með verk kjörinna fulltrúa í meirihlutanum og væri að hugleiða framboð á eigin vegum. Nú hefur það verið staðfest og nær öruggt að hann mun fara fram. Ef marka má yfirlýsingar hans útilokar hann ekki þingframboð heldur undir merkjum A-lista, hann er því að tala um Akureyrarframboð í þingkosningum rétt eins og hann gerði í áramótaþætti Aksjón 31. desember 2004. Veit ég ekki hvaða bakland Raggi hefur en ég skynja það sem svo að um sé að ræða sjálfstæðismenn í baklandi Ragga og hann muni sækja í þær raðir.

Í gær hringdi Björn Þorláksson fréttamaður, í mig og leitaði viðbragða minna við þeirri stöðu sem uppi er. Mínum verkum og okkar ungliða almennt fyrir Sjálfstæðisflokkinn var hafnað í prófkjörinu fyrir ellefu dögum. Það er mjög einfalt. Síðan þá hafa fjölmiðlamenn hringt mjög reglulega í mig og leitað viðbragða á því hvað ég muni gera varðandi þær kosningar sem framundan eru. Svar mitt er og hefur verið algjörlega einfalt. Ég bíð þess að kjörnefnd Sjálfstæðisflokksins á Akureyri ljúki störfum sínum. Hún á erfitt verkefni framundan. Hún á umfram allt að mínu mati það verkefni framundan að rétta hlut ungs fólks. Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri getur með engu móti boðið fram framboðslista í vor sem gerir ekki ráð fyrir því að ungliðar verði í forystusveitinni. Þegar að ég tala um forystusveit er ég að tala um efstu tíu sætin. Allt neðan við það er móðgun við mig og okkur hér í ungliðahreyfingu flokksins. Ég veit persónulega ekki hvað kjörnefnd hyggst fyrir en ég hef þó gefið það út að ég muni ekki sinna aðeins verkum bakvið tjöldin í þessari kosningabaráttu.

Fjölmiðlamenn hafa verið að spyrja mig um það hvort að uppi séu líkur á því að ungliðar Sjálfstæðisflokksins á Akureyri muni fara fram sér verði verk þeirra ekki metin. Því hef ég alltaf svarað eins: beðið er niðurstöðu kjörnefndar. Boltinn er þar alveg klárlega. Þetta snýr mjög einfalt við mér verandi formaður ungliðafélagsins í bænum. Vilji kjörnefnd ekki hafa virka ungliða á lista flokksins í vor eins og staða mála er orðin mun það aðeins flokkast undir höfnun á mínum verkum og annarra fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ef sú staða kemur upp er ekkert útilokað í stöðunni fyrir okkur. Ég hef starfað í stjórnmálum til fjölda ára og lagt mínar frístundir undir í því, skrifað greinar og verið mjög virkur í stjórnmálabaráttu. Ég hef í huga að leggja mín lóð á vogarskálarnar í þessari kosningabaráttu fyrir fólk sem metur verk mín í stjórnmálum. Hvort það verður hér á Akureyri eða annarsstaðar er ekki vitað nú. Það eitt veit ég að ég vil vera virkur í þeirri baráttu og það mun ég vera án nokkurs vafa.

Stjórnmálaáhugi minn er það heitur og kraftmikill að hann slokknar ekki á einni nóttu. Það er bara mjög einfalt og það vita allir sem þekkja mig. Annars blasir við öllum sem þekkja stjórnmál á Akureyri að það stefnir í ólgutíma næstu 100 dagana í pólitíkinni hér. Sérframboðin spretta upp, talað er um framboð háskólanema sem eru ósáttir við sinn hlut og talað er um að ungliðar flokkanna fari fram á eigin vegum. Ég man ekki aðra eins umbrotatíma hér lengi. Það er þó alveg ljóst að ungliðar sem hafa lagt krafta sína af hjarta og sál í stjórnmálabaráttu vilja ekki sitja hjá eins og hornkarlar í stjórnmálabaráttu næstu vikna. Þau vilja hafa tilgang og vilja hafa hlutverki að gegna. Það er eðlilegt í þessum bransa. Hafni fólk atbeina slíks fólks hlýtur það að líta í aðrar áttir - líta til þeirra átta sem vænlegar eru í stöðunni. Það er margt sem kemur til greina og margt sem er vænlegt komi sú staða upp.

stebbifr@simnet.is

21 febrúar 2006

Stöndum vörð um og eflum Háskólann á Akureyri!

Stefán Friðrik

Nú hafa nemendurnir við Háskólann á Akureyri fengið nóg. Skil ég það mætavel. Það hefur lengi stefnt í óefni með skólann og alveg ljóst að menntamálaráðherra hlustar ekki. Hún hlustar ekki á kröfur nemenda og hlustar ekki á kröfur flokkssystkina sinna hérna. Fyrir jól samþykktum við í stjórn Varðar ályktun um stöðu mála og höfum því sagt skoðun okkar afdráttarlaust. Styðjum við nemendur í baráttu sinni fyrir því að skólinn haldi reisn sinni og virðingu. Ég tel að nemendur geti verið stoltir, þeir hafa enda látið rödd sína heyrast með öflugum og góðum hætti. Í morgun héldu nemendur fund til að mótmæla sparnaðaraðgerðum sem að þeirra sögn stjórnendur skólans standa frammi fyrir að fyrirskipan stjórnvalda. Á fundinum talaði fulltrúi nemenda og ennfremur Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og Kristján L. Möller alþingismaður Samfylkingarinnar. Mikilvægt er að nemendurnir eigi frumkvæði að þessum mótmælum, enda sjá allir að stöðu skólans er stefnt í voða með úrræðaleysi menntamálaráðherrans.

Nemendur gengu úr tíma kl. 10:15 til að fara til mótmælafundarins. Náðu þeir með því eyrum almennings og létu rödd sína heyrast. Er það vel. Í sunnudagspistli mínum fyrir nokkrum mánuðum, þann 14. nóvember sl, fjallaði ég um málefni Háskólans á Akureyri. Þar sagði orðrétt: "Það er alveg ljóst að við hér fyrir norðan megum ekki vera sofandi á verðinum hvað varðar stöðu Háskólans á Akureyri. Við verðum að standa vörð um hann af miklum krafti - tryggja að hann haldi styrk sínum og stöðu með markvissum hætti. Hann hefur byggst upp af miklum krafti og nýtt námsframboð hefur verið einkenni hans. Þar hefur nemendum jafnt og þétt fjölgað. Hann hefur öðlast orðspor fyrir að vera góður valkostur fyrir nemendur er þeir halda á framtíðarbrautina. Þeir eru sofandi sem telja ákvörðun vikunnar vera lítilvæga. Ég geri mér grein fyrir því að það hefur verið þrengt að skólanum með þeim skrefum sem stigin hafa verið á þessu ári og það verður að horfast í augu við það." Svo mörg voru þau orð þá - er ég enn sömu skoðunar.

Þessi pistill var ritaður því ég taldi ákvörðun daganna á undan sem fólu í sér nýtt deildaskipulag og breytingar á stjórnsýslu og þjónustu fela í sér vond tíðindi fyrir skólann. Með þessu voru sparaðar 50 milljónir króna við þær 55 milljónir sem kynnt voru í upphafi þessa árs. Fól þetta í sér að deildum skólans var fækkað úr sex niður í fjórar og starfsmönnum fækkað. Hinsvegar minnkaði ekki námsframboð. Í desember var svo opinberað í skýrslu Ríkisendurskoðunar að kostnaður á hvern háskólanema er lægstur við Háskólann á Akureyri af öllum háskólum hérlendis. Er hann um 30% lægri en við Háskóla Íslands svo dæmi sé tekið. Er algjörlega ljóst með þessu að skólinn er fjársveltur og staða hans er engan veginn ásættanlegt. Tek ég undir orð Þorsteins Gunnarssonar rektors Háskólans á Akureyri, að þetta sé óásættanlegt og þótti mér yfirlýsing um málið sem kom út á fullveldisdaginn vera í senn bæði vel orðaða og tímabært innlegg í málið. Það er enda þarft verk að snúast nú til varnar skólanum í ljósi talnanna.

Eins og allir sjá af stöðu mála getum við ekki sætt okkur við hvernig búið er að skólanum. Fjársvelti hans er staðfest og við hljótum að krefjast þess að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, grípi til sinna ráða og komi skólanum til varnar. Ef marka má viðtöl í fjölmiðlum er svo fjarri lagi. Hún hefur borið á móti því að skólinn sé fjársveltur þó að tölur Ríkisendurskoðunar sanni það með óyggjandi hætti. Er svo komið að maður efast orðið um hvort menntamálaráðherra ber hag skólans í raun og sann fyrir brjósti. Staða Háskólans hér á Akureyri skiptir okkur verulega miklu máli. Framtíð Eyjafjarðarsvæðisins og uppbygging hér veltur að stóru leyti á framtíð Háskólans á Akureyri. Við getum alls ekki horft þegjandi á stoðir skólans veikjast og bogna til. Það tel ég að hafi gerst með þeim ákvörðunum sem fyrr eru nefndar. Við stöndum allavega vörð um skólann. Ég treysti því að menntamálaráðherrann okkar standi svo við þau fögru fyrirheit sín að tryggja farsæla framtíð skólans.

Við krefjumst þess öll hér. Ég tek heilshugar undir mótmæli nemenda við Háskólann á Akureyri. Háskólinn hér hefur að mínu mati sýnt það og sannað að hann á betra skilið, samfélagið hér fyrir norðan á mun betra skilið að mínu mati. Stöndum öll vörð um Háskólann á Akureyri! Það er skylda okkar.

stebbifr@simnet.is

20 febrúar 2006

Stjórnarseta í SARK - aðskilnaður ríkis og kirkju

Stefán Friðrik

Á laugardaginn var haldinn aðalfundur SARK, Samtaka um aðskilnað ríkis og kirkju. Var ég stofnfélagi í samtökunum og hef starfað þar til baka um langan tíma. Nú ætla ég að leggja þeim lið í fremstu víglínu og gaf kost á mér til stjórnar. Hlaut ég kjör. Vil ég þakka það traust sem mér var sýnt með kjörinu í stjórn. Með mér í stjórn sitja Edda Hrönn Atladóttir, séra Hjörtur Magni Jóhannsson, Kári Páll Óskarsson, Sigurður Hólm Gunnarsson, Sóley Gréta Sveinsdóttir og Stefán Friðriksson. Kemur þetta fólk úr mjög ólíkum áttum. Þarna eru bæði efasemdarfólk í trúarmálum og ennfremur fólk sem er mjög trúað, er ég þeirra á meðal. Hef ég lengi verið mjög trúaður en haft þó ákveðnar skoðanir í þessum efnum. Hlakkar mér til að vinna í stjórn þessara samtaka og met mikils það traust sem mér er sýnt með því að taka þar sæti. Er ég sennilega fyrsti sjálfstæðismaðurinn sem þar starfar af krafti innan stjórnar. Er það vel.

Nokkuð lengi hefur verið áberandi hér á landi umræða þess efnis hvort slíta skuli á tengsl milli ríkisins og kirkjunnar. Frá árinu 1000 hafa Íslendingar verið kristnir, frá 1550 hefur lúterstrú verið aðaltrú landsmanna, það ár átti sér stað siðaskipti og kaþólsk trú aflögð sem þjóðtrú. Á seinustu árum hefur komið fram í skoðanakönnunum mikill vilji almennings til að stokka þetta upp og binda enda á tengsl ríkis og kirkju. Til dæmis birtist sumarið 2003 skoðanakönnun Gallups sem sýndi þær niðurstöður að rúmlega 70% landsmanna vildu breyta þessu með þeim hætti að slíta á tengslin - hefur sú þróun haldið sér. Það er því ekki óeðlilegt að þessi umræða hefur verið í samfélaginu og hefur borist t.d. inn í kirkjuþing, þar sem lærðir og leiknir hittast til skrafs og ráðagerða. Eins og vel hefur komið fram í þeirri umræðu er það mat forystu kirkjunnar að hún vill ekki slíkan aðskilnað og mun ekki fara fram á hann. Hefur Karl Sigurbjörnsson biskup, margoft tjáð þá skoðun sína að hann væri ekki hlynntur aðskilnaði.

Í máli biskups hefur komið fram sú athyglisverða skoðun hans að auka skuli enn frekar frelsi þjóðkirkjunnar með því að rýmka almennt ramma kirkjulaga, og ljúka samningum milli ríkis og kirkju til að tryggja enn betur tekjustofna hennar svo hún geti brugðist við kröfum tímans og sinnt betur skyldum sínum við þjóðina, sem biðjandi, boðandi, þjónandi kirkja. Jafnframt hefur Karl Sigurbjörnsson og forysta kirkjunnar sagt margoft að kirkjan þyrfti að vera viðbúin því að stjórnvöld myndu vilja stokka þetta upp. Fyrir fjórum árum sagði Karl biskup á kirkjuþingi að búa þyrfti kirkjuna undir lögskilnað við ríkið en hefur verið mun hófstemmdari í yfirlýsingum sínum síðan. Í ræðu og riti hefur Björn Bjarnason kirkjumálaráðherra, lýst þeirri skoðun sinni að ekki skyldi rjúfa tengsl milli ríkis og kirkju. Sérstaklega hefur verið rætt um það hvort að taka eigi þessa umræðu inn í stjórnarskrárvinnuna. Er ég sammála og var samþykkt á aðalfundinum ályktun þess efnis.

Mín skoðun í þessu máli hefur lengi verið sú að rjúfa skuli á tengslin milli ríkis og kirkju. Það er ekki sagt vegna þess að ég sé trúlaus eða hafi ekki tekið þátt í starfi kirkjunnar eða sýnt því áhugaleysi. Mín fjölskylda hefur alla tíð verið mjög trúuð, báðar ömmur mínar voru alla tíð mjög virkar í kristnu starfi og kristin trú eitthvað sem hefur fylgt mér frá því ég man eftir mér. Fór ég í sunnudagaskóla hjá KFUM og K, enda amma virk þar í fjölda áratuga í innra starfinu. Kristin trú hefur alla tíð verið í mínum huga eitthvað sem hverri manneskju er nauðsynleg. Það hefur alla tíð verið mín sannfæring að trúin hafi oft hjálpað mínu fólki og haft mikið að segja. Það er hverri manneskju að ég tel mikilvægt að vera trúuð og sækja kirkju og taka þátt í kristnu starfi. En það er þó ekki þarmeð sagt að ríkið eigi að reka kirkju eða taka þátt í þessu með þeim hætti sem verið hefur. Það er mikilvægt að skilja þarna á milli.

Það er engin þörf á að boða kristna trú í nafni ríkisins. Þó svo fari að breytingar verði á kirkjunni með þeim hætti sem um ræðir, halda landsmenn fast við sína trú og fara í kirkju til að heyra guðsorð eða taka þátt í starfi innan sinnar trúhreyfingar. Þrátt fyrir að ég sé kristinn er það mín sannfæring að mikilvægt sé að öll trúfélög standi jöfn að þessu leyti. Það er á okkar dögum gríðarlega mikilvægt. Með því er í mínum huga hægt að vinna að því að efla enn frekar trúna og trúarbrögð í nafni þeirrar trúar sem viðkomandi einstaklingu velur sér. Það ætti að mínu mati að vera forgangsverkefni kirkjunnar að taka á þessum málum og leita eftir því við ríkið að hafinn verði undirbúningur að þessum breytingum og uppstokkun með viðeigandi hætti. Kristin trú getur alveg staðið jafnfætis öðrum trúarbrögðum og engin þörf á að ríkið sé áfram í þessu með þessum hætti.

stebbifr@simnet.is

19 febrúar 2006

Sunnudagspistillinn

Stefán Friðrik StefánssonÍ sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú mál:

- í fyrsta lagi fjalla ég um úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins á Akureyri þann 11. febrúar sl. og eftirmála þess. Eins og vel hefur komið fram var hlutur ungliða ekki góður í prófkjörinu og hef ég verið mikið í fjölmiðlaumræðunni vegna þess. Var ég gestur á Morgunvaktinni í vikunni og fór yfir stöðu mála og geri það ennfremur hér í pistlinum. Ennfremur fjalla ég um umræðu seinustu daga í Fréttablaðinu sem birt hefur gögn sem þeir hafa undir höndum og kölluð eru vinnugögn stuðningsmanna Kristjáns Þórs Júlíussonar bæjarstjóra. Brá mér mjög að heyra af þessum gögnum og sjá eðli þeirra. Annaðhvort er um að ræða stóralvarlegt mál fyrir flokkinn til að vinna úr hér eða alvarlegt skemmdarverk til að skaða okkur. Hvort tveggja er skelfilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri. Var hringt í mig vegna þessara gagna á föstudag þar sem ég var staddur á sveitarstjórnarráðstefnu Sjálfstæðisflokksins og ég beðinn að kommenta á þessi gögn. Auðvitað neita ég að trúa því að svona hafi verið unnið. Ef svo hefur verið gert er það svo alvarlegt mál að ekki verður úr unnið.

- í öðru lagi fjalla ég um sveitarstjórnarráðstefnu Sjálfstæðisflokksins sem haldin var í Valhöll á föstudag. Var það öflug og góð ráðstefna og flokksmenn samhentir í þeim verkefnum sem framundan eru næstu 100 dagana - stefna fram til sigurs undir merkjum Sjálfstæðisflokksins. Almennt var kraftur einkunnarorð fundarins. Sjálfstæðismenn eru í meirihluta í miklum meirihluta sveitarfélaga landsins og mikill hugur í okkar fólki með að halda þeim góða sess sem við höfum í sveitarstjórnum landsins. Mæting var alveg frábær - fór fram úr björtustu vonum og tóku hátt á annað hundrað manns þátt í fundinum. Málefnavinnan gekk mjög vel. Sveitarstjórnarráðstefna flokksins var öflug og sameinaði okkur öll í því verkefni sem hæst ber nú. Verkefnið nú er einfalt og menn einbeita sér að því sem máli skiptir - fram til sigurs í vor!

- í þriðja lagi fjalla ég um úrslit prófkjörs Samfylkingarinnar í Reykjavík. Þar sigraði Dagur B. Eggertsson báða borgarfulltrúa Samfylkingarinnar og felldi kvenkyns borgarstjóra af stalli sínum. Stærstu tíðindi þessa prófkjörs eru að mínu mati tvenn: höfnun á borgarfulltrúum Samfylkingarinnar innan R-listans og R-listamunstrinu á framboði Samfylkingarinnar. Stefán Jón og Steinunn Valdís hafa verið borgarfulltrúar Samfylkingarinnar seinustu árin en þeim var báðum hafnað sem leiðtogaefnum með mjög afgerandi hætti. Bæði brostu í gegnum tárin við úrslitin. Reyndar hefði allsstaðar verið talið stórtíðindi allsstaðar nema í Samfylkingunni að kvenkyns borgarstjóra væri hafnað með þessum hætti.


stebbifr@simnet.is

18 febrúar 2006

Afmæli Arnbjargar - sveitarstjórnarráðstefna í Valhöll

Arnbjörg Sveinsdóttir

Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, er fimmtug í dag. Hef ég frá kjördæmabreytingunni unnið talsvert innan flokksins, hér í Norðaustrinu, með Arnbjörgu Sveinsdóttur og kynnst þar kraftmikilli kjarnakonu sem er trú sannfæringu sinni og vinnur þau verk vel sem henni er treyst fyrir. Hún sat á þingi fyrir Austurlandskjördæmi 1995-2003 og hefur verið þingmaður Norðausturkjördæmis frá 2004. Hún hefur verið formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins frá 2005 en hafði áður leitt starf í nefndum og setið í fjölda nefnda Alþingis og unnið sín störf af krafti. Ég óska Öbbu innilega til hamingju með merkisafmæli sitt. Hún heldur upp á það með glæsilegum hætti heima á Seyðisfirði. Hafði ég ætlað að fara austur að afmælinu en af því gat því miður ekki orðið. Sendi ég henni góðar kveðjur á afmælisdeginum og vona að afmælisveislan verði henni og gestum hennar ógleymanleg.


Velheppnuð sveitarstjórnarráðstefna
Í gærmorgun fór ég með fyrstu vél suður til Reykjavíkur og hélt á sveitarstjórnarráðstefnu flokksins. Skarphéðinn mágur minn var með sömu vél og ræddum við um pólitík á leiðinni suður, en svo merkilega vildi til að við sátum saman í vélinni. Með vélinni fór svo ennfremur fjöldi forystufólks flokksins hér í bænum. Ráðstefnan hófst í Valhöll rúmlega níu um morguninn. Ráðherrar og aðrir sérfræðingar fóru yfir mikilvæg mál, rætt var um kosningar og kosningabaráttu og málefni landssvæða. Var mjög ánægjulegt að hitta fjölda góðs fólks þarna. Mat ég mikils að finna hlýjar og góðar kveðjur fundargesta sem ég heilsaði. Allir voru þeir notalegir og þótti mér vænt um hversu vel þau töluðu um mín störf fyrir flokkinn og ég yrði að halda þeim áfram af sama krafti þrátt fyrir prófkjör flokksins um síðustu helgi. Átti ég góð samtöl við fjölda fólks á fundinum og áhugavert að fara yfir stöðu mála.

Sérstaklega er notalegt að heyra hljóðið í sjálfstæðismönnum í borginni sem eru að halda í kosningabaráttu sína - eru með lista tilbúinn og öflugt veganesti. Almennt var kraftur einkunnarorð fundarins. Sjálfstæðismenn eru í meirihluta í miklum meirihluta sveitarfélaga landsins og mikill hugur í okkar fólki með að halda þeim góða sess sem við höfum í sveitarstjórnum landsins. Mæting var alveg frábær - fór fram úr björtustu vonum og tóku hátt á annað hundrað manns þátt í fundinum. Málefnavinnan gekk mjög vel. Í kjördæminu var hún leidd af Sigríði Ingvarsdóttur varaþingmanni. Áttum við gott spjall um málefni væntanlegrar kosningabaráttu. Lagði ég fram málefni sem við í SUS leggjum áherslu á. Sérstaklega er þar rétt að tala um aðkomu ungs fólks að kosningavinnunni og innlegg okkar í baráttuna. Sigga leiddi starfið af miklum krafti og umræðan varð fjörleg og góð - vekur góðar væntingar um væntanlegt kosningastarf.

Átti ég þar samtal við Hjalta Jón Sveinsson og Maríu Egilsdóttur, sem verða væntanlega í forystusveit flokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum. Bæði hafa ekki starfað í pólitísku starfi innan flokksins og því áhugavert að kynnast þeim og áherslum þeirra. Hvorugt þeirra þekkti ég áður. Tel ég að hópurinn hér á Akureyri sé sterkur. Mun ég vinna með flokknum af krafti í þeirri baráttu - það hafði ég sagt fyrir prófkjör og við það mun ég standa. Ég hef gríðarlega mikinn áhuga á stjórnmálum og legg flokknum mínum lið. Mér þykir vænt um flokkinn minn og hlakka til að vinna veg hans sem mestan í vor. En fundurinn var kraftmikill og góður - virkilega gaman af honum og að hitta hið góða fólk sem vinnur fyrir flokkinn í sveitarstjórnarpólitík. Að loknum fundi bauð sveitarstjórnarráð til kokteils í Valhöll. Að því loknu fór ég á góðan ritstjórnarfund hjá sus.is, þar sem við áttum gott spjall. Er mjög gaman að vinna með þessu góða fólki sem við höfum.

Helgin í borginni var notaleg og góð. Kom ég aftur heim síðdegis og undir kvöld fór ég til Skarphéðins og Línu systur í 45 ára afmæli Skarpa. Áttum við notalega og góða stund. Undir tíuleytið heyrði ég fréttir af prófkjöri framsóknarmanna hér í bæ. Eins og mig grunaði vann Jói Bjarna þar öflugan og góðan sigur. Tekur hann við forystu flokksins í bænum af Jakobi Björnssyni. Gerður Jónsdóttir varð önnur og Erla Þrándardóttir varð þriðja. Í næstu sætum urðu heiðursmennirnir Erlingur Kristjánsson og Ingimar Eydal. Þótti mér leitt að Elvar Árni Lund, sá mikli gæðamaður, skyldi ekki komast á blað. Elvar Árni er traustur og góður ungur maður sem hefur unnið vel fyrir Öxarfjarðarhrepp og mun vonandi vinna með framsóknarmönnum hér í bæ. Hann kom af krafti í prófkjörsbaráttu flokksins hér og skrifaði góðar og kraftmiklar greinar. Er undrunarefni að Framsókn hafi ekki kosið hann til verka að mínu mati.

En kannski eiga ungir karlmenn erfitt með að komast til forystu hér í bæ almennt? Mér sýnist það satt best að segja!

stebbifr@simnet.is

16 febrúar 2006

Viðtal á Morgunvaktinni - 100 dagar til kosninga

Stefán Friðrik

Í gærmorgun var viðtal við mig á Morgunvaktinni á Rás 1 um úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins á Akureyri laugardaginn 11. febrúar sl. Þar ræddum við Gestur Einar Jónasson um úrslitin og slæma útkomu ungliða í prófkjörinu. Allir ungliðarnir sem buðu sig fram lentu í neðstu sætum og athygli vakti að enginn frambjóðenda á SUS-aldri hlaut afgerandi stuðning. Þakka ég góð viðbrögð í kjölfar viðtalsins frá þeim sem ég hef starfað með innan SUS - þess fólks sem metur mest verk mín í flokksstarfinu. Ég hef alla tíð verið talsmaður fyrir áhrifum ungs fólks í stjórnmálum og skal því engan undra að mig og fleira fólki svíði nokkuð undan þeirri höfnun á ungum frambjóðendum sem hér átti sér stað í prófkjörinu. Þetta hef ég fjallað vel um seinustu daga - bendi ég vel á þá umfjöllun mína. Það er viðeigandi að maður verji hagsmuni ungliða í starfinu. Til þeirra verka var ég kjörinn sem formaður Varðar og ég mun ávallt standa vörð um hagsmuni ungs fólks í pólitík - þó það nú væri!


100 dagar til sveitarstjórnarkosninga

En það eru 100 dagar til sveitarstjórnarkosninga - niðurtalningin er hafin. Mitt í önnum þess sem á mér hefur dunið seinustu vikur vegna prófkjörsins og svo þessara sorglegu úrslita sem við okkur ungliðunum blasti í kjörinu hefst undirbúningur vegna kosninganna. Í þessum sveitarstjórnarkosningunum leggjum við öll allt okkar besta fram til að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn komi vel út úr kosningunum. Megingrunnur þess er að tryggja öfluga framboðslista - vel samsetta af kynjum og þar sé flott litróf aldurs og ólíks bakgrunns frambjóðenda. Eins og vel hefur komið fram seinustu daga skiptir máli að ungt fólk verði sýnilegt í forystusveitum fyrir þessar kosningar. Framlag ungs fólks er ómetanlegt - altént eigi að ná til ungs fólks. Ungt fólk er stór hópur kjósenda - það er alveg á hreinu að eigi að ná til þessa hóps verður að vera sýnilegir fulltrúar hópsins á listunum og flott samsetning ólíks bakgrunns öflugs fólks.

Á flestum stöðum mun vonandi verða staðinn vörður um að unga fólkið njóti sannmælis í stjórnmálastarfi. Það er eðlilegt og satt best að segja veitir ekki af að Sjálfstæðisflokkurinn verði duglegur að höfða til ungs fólks með forystufólki í ungliðahreyfingu og fólki sem hefur lagt á sig hita og þunga þess óeigingjarna starfs sem unnið er í ungliðahreyfingunni. Mitt í þessum pælingum um mikilvægi stjórnmálastarfs ungs fólks blæs Sjálfstæðisflokkurinn til vinnufundar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Valhöll á morgun. Um er að ræða fund sveitarstjórnarráðs Sjálfstæðisflokksins í samvinnu við þingflokk sjálfstæðismanna. Framsögumenn verða ýmsir sérfræðingar, ráðherrar og aðrir. Þátttakendur fá síðan tækifæri til að spyrja þá út úr að framsögum loknum. Seinni hluti fundarins fer í hópvinnu, þar sem skipt verður í hópa eftir svæðum, og gefst fundarmönnum þá kostur á að ræða og vekja athygli á málum sem þarfnast úrlausnar í þeirra heimabyggð.

Dagskráin gerir ráð fyrir fundi frá kl. 9:15 til kl. 16:00 og léttum veitingum í kjölfarið. Hafði ég ætlað að fara á þennan fund löngu fyrir prófkjörið og lagt inn meldingu um mætingu mína. Satt best að segja varð ég hugsi eftir þá útreið sem ég fékk frá flokksmönnum hér í prófkjöri um hvort ég ætti að fara. Eiginlega varð það næsta hugsun mín eftir að hafa meðtekið þennan skell sem mér og öðrum ungliðum var veittur. Satt best að segja varð ég að hugsa málið frá grunni. Hef ég þó ákveðið að fara suður þrátt fyrir allt. Vonandi verður þetta fróðlegur og góður fundur - umfram allt gagnlegur. Það er mikilvægt að hefja sóknina í þessum kosningum enda styttist í þær. Sjálfstæðisflokkurinn er eitthvað sem ég hef eiginlega metið allra hluta í tilverunni mest allt frá því að ég var unglingur. Atburðir í návígi hér breytir engu um það. Mikilvægt er að hefja nú sókn til sigurs í vor.

Öll verðum við að standa saman í þeirri baráttu - gömul sem ung. Við erum ósigrandi ef við tryggjum að allir aldurshópar fái tryggan sess í forystusveit. Sjálfstæðisflokkurinn er ósigrandi tryggi hann ungu fólki verðugan sess í fremstu víglínu. En já, fundurinn verður öflugur og hlakkar mér til að fara - þrátt fyrir allt sem dunið hefur á mér. Sjálfstæðisflokkurinn og öflugur sigur hans í vor er verkefni sem er æðra öllu öðru tengdu mér persónulega.

stebbifr@simnet.is

15 febrúar 2006

Ungt fólk er mikilvægt í stjórnmálastarfi

Stefán Friðrik

Seinustu daga hef ég fengið mikil viðbrögð við höfnun forystu Sjálfstæðisflokksins á Akureyri á ungliðum. Hún er aðaltíðindi þessa prófkjörs að mati langflestra sem hafa haft samband við mig. Enda er það auðvitað með hreinum ólíkindum að yngsti aðilinn í topp 13 sætum á listanum sé 36 ára að aldri. Satt best að segja er það svo verulegur áfellisdómur að það fólk sem hefur verið að vinna fyrir Vörð og borið því hitann og þungann af ungliðastarfinu fái ekki stuðning til verka. Ég hef verið í sambandi við marga af samherjum mínum í ungliðahreyfingunni. Hef ég allsstaðar fengið hvatningu til að halda áfram mínum verkum þó þau séu ekki metin í þessu prófkjöri á heimaslóðum. Hefur mér þótt alveg virkilega vænt um þessa bylgju stuðnings og hlýhugs í minn garð. Ég verð eiginlega að lýsa yfir því hér að mér þótti mikið til um koma að heyra hversu vel verk mín fyrir Samband ungra sjálfstæðismanna og Sjálfstæðisflokkinn eru metin af fólki sem hefur unnið með mér í SUS til fjölda ára. Ég er hrærður yfir að finna hversu margir hafa haft samband.

Mun ég að sjálfsögðu halda áfram að vinna á fullu fyrir SUS og Sjálfstæðisflokkinn. Mun ég að sjálfsögðu verða áfram formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Mín verk fyrir ungliðahreyfinguna eru mér mikilvæg og ég ætla ekki að víkja af braut þeirra verka þó tímabundið blási á móti hjá mér. Ég hef verið flokksbundinn í Sjálfstæðisflokknum síðan að ég var 16 ára gamall og unnið þar í mörg herrans ár í innra starfinu. Hér hef ég verið í forystu ungliðafélagsins á Akureyri seinustu ár og tekið mikinn þátt í starfinu þar. Var mjög erfitt að finna fyrir höfnun fólks hér í þessu prófkjöri - fyrst og fremst er undarlegt að fólk sem hefur verið á fullu í innra starfinu sé ekki metið að verðleikum þegar kemur að prófkjöri innan flokksins. Er ég svosem ekki sá eini sem hef unnið af krafti fyrir flokkinn sem var sparkaður niður í þessu kjöri. En Sjálfstæðisflokkurinn er mitt heimili í stjórnmálastarfi - því mun ekkert breyta. Það er alveg á hreinu.

Það er ekki laust við að ég hafi áhyggjur af því að framlag ungs fólks í stjórnmálum sé ekki metið að verðleikum. Ég hef allt frá því að ég fór að taka þátt í starfinu í ungliðahreyfingunni og fór að starfa í SUS verið að tala fyrir mikilvægi þess að ungt fólk skellti sér í stjórnmál og léti vaða - sæktist eftir áhrifum. Það er því undarlegt að vakna upp við það að ungu fólki sé ekki treyst. Því miður er afhroð ungliða hér á Akureyri ekki eini vísirinn að svona stöðu. Þó verður að segjast eins og er að þessi sterka höfnun á öflugum ungliðum eins og sást hér um síðustu helgi er fáséð. Höfnunin á fólkinu var svo skelfilega aggressív og óvægin. Þó að ég hafi lengi starfað í Sjálfstæðisflokknum man ég varla eftir öðru eins. Það er enginn vafi á því í mínum huga að ungt fólk skiptir máli í öllu starfinu sem fylgir stjórnmálum. Skilaboðin héðan voru því miður þau að ungt fólk ætti að passa sig á að vera þægt og halda sig vel í bakgrunninum.

Það er ekki fjarri því að einn góðvinur minn hafi rétt fyrir sér á blogginu sínu er hann segir að litið sé á ungliðana hér sem persona non grata. Það eru svo sannarlega súr skilaboð og óvægin. Það er vægt til orða tekið að hik sé komið á mig í ungliðastarfinu: því starfi sem felst í því að peppa ungt fólk til að koma og taka þátt - láta reyna á það að koma sér áfram í pólitík. Ef þetta eiga að vera skilaboðin til ungliða almennt er engin furða að flokkurinn eldist og fólk bíði eftir því að verða nógu "þroskað" til að láta slag standa. Enda hversvegna ætti fólk að fara í slaginn til að láta hafna sér? Ekki nema von að spurt sé þessarar stóru spurningar. Ég hef allt fram að laugardeginum 11. febrúar neitað að trúa því að ungliðum í pólitík séu ekki allir vegir færir. En svona er þetta víst. En er þetta eðlilegt í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins? Það finnst mér ekki og það á ekki að vera eðlilegt. Við í SUS munum aldrei geta gleypt það súra epli með brosi á vör.

En menn vakna til umhugsunar við höfnun - sérstaklega ef það er ungt og hefur áður verið talin trú um að það skipti máli í liðsheildinni sinni. Eða er ekki eðlilegt að fólki séu veitt tækifæri - séu veitt sóknarfæri til að sækja fram? Þegar að ungt fólk er barið niður eins og hver annar aumur girðingarstaur úti í sveit er ekki fjarri því að tvær spurningar vakni: hvar eru tækifærin - hvað varð um allan fagurgalann um mikilvægi ungs fólks í stjórnmálum? Ég er í sannleika sagt farinn að efast um að framlag okkar sé metið að þeim verðleikum sem eðlilegt er og ég ber kvíðboga yfir framtíðinni í stjórnmálastarfi ef þetta er það sem koma skal. Við lesendur verð ég að segja: ég neita að trúa því - segi ég og skrifa!!

stebbifr@simnet.is

14 febrúar 2006

Traustsrulla Sigrúnar Bjarkar

Stefán Friðrik

Svo virðist vera sem að skrif mín hafi náð eyrum fólks. Það er gott að rödd okkar ungliðanna hér í Sjálfstæðisflokknum er ekki alveg spörkuð niður, heldur berst út. Allir sem líta á úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins hér á laugardag sjá að hlutur ungliða er ekki góður. Okkur var ekki treyst - okkur var sparkað niður listann. Engu okkar var treyst fyrir því að fara ofarlega á lista eða taka við einhverjum verulegum áhrifum á framboðslista okkar af flokksmönnum. Það er ekki nema von að okkur sé spurn hvað við þurfum að gera til að vera treyst fyrir einhverju öðru en að mæta á fundi, skipuleggja fundi og hella upp á kaffið fyrir fundina. Það virðist vera sem að við þurfum að vera orðin 36 ára gömul að eiga einhvern séns á því að "meika það" í Sjálfstæðisflokknum á Akureyri, eins og við segjum. Mér finnst þetta ekki góð skilaboð. Nokkur okkar höfum verið í stjórnmálastarfi mjög lengi og lagt allt okkar að mörkum - gert allt okkar til að hlúa að starfinu og hljóta brautargengi og stuðning til að takast á hendur stór og mikil verkefni. Það virðist þó ekki duga.

En þetta er mikið áfall fyrir ungliða hér. Svo ég tali fyrir mig var mér áfall að finna það að forysta flokksins og almennir flokksmenn myndu ekki velja neitt okkar til æðstu metorða - í vonarsæti á framboðslistanum eða skipa varamannabekkinn í bæjarstjórn. Mér ber skylda sem formanni ungliðafélagsins að standa vörð um unga fólkið í flokknum. Það að okkur öllum sé hafnað með jafnafgerandi hætti eru mjög kraftmikil skilaboð - en þau eru bitur. Fyrst og fremst vaknar spurningin: hvernig skal ávinna sér traust í Sjálfstæðisflokknum á Akureyri? Ég sá í gærkvöldi viðtal við Sigrúnu Björk Jakobsdóttur í Íslandi í dag. Sigrún Björk hlaut annað sætið í þessu prófkjöri og hefur verið í bæjarstjórn af okkar hálfu í fjögur ár. Það kom mér verulega spánskt fyrir sjónir að heyra Sigrúnu Björk segja í viðtali við Björn Þorláksson að þegar að fólk hefði áunnið sér traust væri því allir vegir færir. Jahá þetta eru mjög merkileg skilaboð svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Í framboði á laugardag voru tveir formenn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Það eru ég og forveri minn, Guðmundur Egill Erlendsson. Hvorugur okkar hlaut brautargengi og hinum var sparkað niður rétt eins og okkur - ekki tryggður stuðningur frá æðstu stöðum í flokknum hér. Svo ég tali fyrir sjálfan mig hef ég verið flokksbundinn í Sjálfstæðisflokknum frá árinu 1993, verið stjórnarmaður í ungliðafélaginu hér í fjögur ár, formaður þess í tvö ár og stjórnarmaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna í þrjú ár. Ég hef unnið ötullega með flokknum hér seinustu árin og mætt svo til á alla fundi og sinnt flestöllum þeim verkefnum sem starfinu fylgja - enda haldið utan um flokksfélag og verið í mörgum verkefnum. Ég naut ekki trausts flokksmanna þrátt fyrir það. Hvað þarf eiginlega að gera til að öðlast traust í flokksstarfinu? Það er ekki nema von að ég spyrji eftir þessi ummæli Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur.

Kannski verðum við að vera orðin 36 ára og laus við ungliðastimpilinn af okkur - vera orðin "svona fullorðins" svo gripið sé í alkunnan frasa í frægri morgunkornaauglýsingu. Spurningarnar eru margar í huga mér eftir allt mitt flokksstarf en sú spurning sem helst lifir er: hvenær öðlast ungliðar traust almennra flokksmanna? Svar óskast! En ég vona að kjörnefnd flokksins hér beri gæfa til að meta verk okkar ungliðanna einhvers. Satt best að segja bind ég vonir við að rödd okkar verði ekki alveg keyrð niður í duftið fyrir þessar kosningar eða þingkosningarnar á næsta ári. Allavega er ljóst að prófkjörsúrslitin hér lofa ekki góðu!

stebbifr@simnet.is

13 febrúar 2006

"Verndum unga fólkið"

Stefán Friðrik

Svona hljómaði slagorð Hjalta Jóns Sveinssonar skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri, í prófkjörsbaráttu okkar sjálfstæðismanna. Hjalti Jón mun, ef að svipuð úrslit verða í næstu kosningum og þeim síðustu, verða bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í vor. Hann hafði er hann gekk í flokkinn undir lok síðasta árs aldrei starfað fyrir flokkinn eða mætt þar á fundi. Mér datt satt best að segja þetta slagorð Hjalta Jóns Sveinssonar í hug þegar að ég hugsa til prófkjörsins um seinustu helgi. Öllum ungliðunum sem í prófkjörsbaráttunni voru var hafnað í þessu kjöri. Ekkert okkar náði inn á topp tíu og við röðuðum okkur í neðstu sætin. Það er mikilvægt í kjölfar þessa prófkjörs að hlúð sé að félaginu okkar, Verði. Staðan er mjög döpur þykir mér. Mér sem formanni félagsins sárnaði vissulega að okkar verk voru ekki metin sem skyldi, hvorki af forystu flokksins hér á Akureyri né almennum flokksmönnum.

Margir þeirra studdu okkur ekki en svo virðist vera sem að við eigum bara að vera í bakgrunni og ekki krefjast metnaðar í pólitísku starfi nema þá mögulega innan SUS. Þetta eru vond skilaboð í ungliðapólitíkinni. Nokkur okkar hafa verið í pólitík af alvöru. Bæði ég og Guðmundur Egill Erlendsson höfum verið formenn Varðar. Verkum okkar er algjörlega hafnað og það með svo afgerandi hætti að það blasir við öllum sem þekkja okkur og þekkja flokkinn hér á staðnum. Útkoma okkar ungliðanna hlýtur að verða umhugsunarefni. Fyrir mig var þetta enginn heimsendir. Ég á alveg einstaklega góða fjölskyldu og góða vini sem hafa sýnt mér velvild og stuðning seinustu daga. Það er einstakt að eiga svona góða að. Það jafnast ekkert á við það. Fyrst og fremst þótti mér svo innilega vænt um það að fólkið mitt, sem sumt hefur aldrei stutt flokkinn, gekk í hann til að styðja mig. Ég get aldrei þakkað fyrir það með nægilega góðum hætti.

Verndum unga fólkið sem hefur metnað og áhuga á stjórnmálastörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri - það hefur jú áhuga á að vera með í forystunni en ekki bara að hella upp á kaffi eða sópa gólfin! Flokkurinn hér er veikari ef unga fólkið telur hag sínum betur borgið í öðru en stjórnmálum. Ég vona að kjörnefnd beri gæfu til þess að meta verk þess unga fólks sem hér starfar í stjórnmálum fyrir flokkinn - fólki sem hefur eytt öllum sínum frístundum fyrir flokkinn. Án ungs fólks getur Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri ekki höfðað til ungs fólks.

stebbifr@simnet.is

12 febrúar 2006

Kærar þakkir fyrir vináttuna

Stefán Friðrik

Síminn hefur varla stoppað hjá mér síðan á ellefta tímanum í gærkvöldi. Vinir mínir, allsstaðar af um landið og jafnvel utan úr heimi, hafa hringt í mig til að ræða stöðu mála. Ungliðar (vinir mínir) um allt land eru að leita einhverra skýringa á því af hverju sjálfstæðismenn á Akureyri hafna mér og mínum verkum - umfram allt hafna ungliðum í þessu prófkjöri. Hvað hafi gerst í prófkjörsslagnum hér undanfarnar vikur - hversvegna forystu flokksins hér í bæ hafi ekki borið gæfa til að styðja okkur. Spurningar eru mjög margar - en ég hef engin svör.

Yfir mig hefur rignt tölvupósti og SMS-skeytum. Ég á greinilega góða vini - vini sem þykja vænt um mig. Ég vildi bara skrifa og segja: takk fyrir allt! Ég veit núna hverjir eru vinir í raun! Sorglegt að segja að þá veit ég líka enn betur eftir þennan prófkjörsslag hverjir eru viðhlæjendur manns. Ég lærði margt á þessum prófkjörsslag - við skulum orða það þannig bara. Fyrst og fremst þekki ég orðið vinátta betur núna. Sannir vinir eru ómetanlegir! Þeir sem hafa haft samband munu alltaf verða hátt skrifaðir í mínum huga.

Stebbi


stebbifr@simnet.is

Ungliðum hafnað í prófkjöri á Akureyri

Stefán Friðrik

Úrslit eru nú ljós í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa haft samband við mig í kvöld í kjölfar þeirra úrslita - það met ég mjög mikils. Vinátta sannra vina er einstök og engin orð eru mér nógu góð held ég til að lýsa henni vel á þessari stundu. Eftir stendur að ungliðastarfinu sem ég hef leitt í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, var hafnað í dag í þessu prófkjöri - niðurstaðan er pent orðuð þannig að ungliðum í Sjálfstæðisflokknum var hafnað hér á Akureyri í dag. Eiginlega er það dapurlegra en orð fá lýst. Vegna þess að ég og annar ungliði slógumst um sömu sæti föllum við báðir niður og hröpum listann á enda. Ég verð greinilega verr úti.

Ég tek þessum úrslitum eins og þau eru. Ég vil þakka þeim sem studdu mig til verka hér. Ég stefndi hátt því að ég vildi að ungt fólk kæmist hér til forystu. Okkur var hér hafnað og ekkert sem hægt er að gera í því nema taka því af karlmennsku. Ég hefði getað stefnt á neðri sætin af þeim sem kosið var um og náð með því betri árangri. En þetta er eins og það er og þessi áhætta varð mér dýrkeypt. Verst af öllu er að eldra fólkið í flokknum studdi ekki okkur ungliðana. Það sést eiginlega allra best á því að í 13 efstu sætunum er yngsti aðilinn 36 ára gömul. Þetta er sannkallað kjaftshögg fyrir okkur ungliðana - okkur er alveg hafnað af þeim eldri.

Hinsvegar mun ég íhuga stöðu mína vel í kjölfarið. Tek ég mér nú gott hlé frá skrifum og huga að sjálfum mér næstu dagana. Satt best að segja er margt skemmtilegra en pólitík.

Stefán Friðrik Stefánsson


stebbifr@simnet.is

11 febrúar 2006

Ungt fólk í forystu!

Stefán Friðrik Stefánsson

Í sveitarstjórnarkosningunum 1998 fórum við sjálfstæðismenn fram undir kjörorðinu: Kraftur í stað kyrrstöðu. Það hefur sannast, svo ekki verður um villst, að kraftur hefur verið mikill hér og verið áþreifanlegur og sést í öllum tölum síðan, þegar farið er yfir stöðu mála. Kraftur kom í stað kyrrstöðu undir forystu okkar sjálfstæðismanna í samstarfi okkar fyrst við Akureyrarlista og síðar Framsóknarflokk, og hefur verið til staðar í valdatíð okkar í bænum.

Akureyri er í öndvegi sveitarfélaga, enda vel hér haldið á málum og staða bæjarins mjög sterk og kraftmikil þegar litið er til framtíðar. Við sem búum á Akureyri vitum vel og finnum á samfélaginu okkar hversu öflugt og kraftmikið það er. Segja má að lykilorð seinustu ára hér á Akureyri séu vöxtur og kraftur. Á yfirstandandi kjörtímabili var sameining Akureyrar og Hríseyjar samþykkt og hefur gengið vel að vinna með Hríseyingum - sameiningin gekk mjög vel.

Í dag fer fram prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Þar sækjum við sjálfstæðismenn fram í aðdraganda kosninga og veljum framboðslista okkar í kosningunum þann 27. maí - forystusveit flokksins á næsta kjörtímabili. Mikilvægt er að vel takist til og að Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri kom þar sterkur út - flokkurinn verði öflugur og samhentur í komandi verkefnum. Í prófkjörinu gefa 20 einstaklingar kost á sér - ég er þeirra á meðal.

Ég hef verið flokksbundinn í rúman áratug, tekið þátt í ungliðastarfi flokksins mjög lengi, verið í stjórn SUS frá 2003 og formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna hér í bænum, frá árinu 2004. Ég hef mikinn áhuga á stjórnmálum, hef skrifað mikinn fjölda pistla um stjórnmál til fjölda ára á vef mínum, www.stebbifr.com, og kynnt skoðanir mínar á málefnum samtímans af þeim krafti sem einkennir netskrifin.

Hef ég mikinn áhuga á að taka þátt í kosningunum í vor - vinna hag flokksins sem mestan. Umfram allt vil ég leggja mitt af mörkum fyrir flokkinn í forystusveit framboðslistans okkar í kosningabaráttunni í vor. Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri hefur leitt bæjarpólitíkina í átta ár og hefur sá tími einkennst af kraftmikilli uppbyggingu á mörgum sviðum. Farsæl forysta okkar hefur skipt Akureyri miklu máli og getum við verið stolt af verkum okkar. En alltaf eru næg verkefni framundan.

Að mínu mati eru framundan mjög spennandi tímar fyrir Akureyringa. Prófkjörsbaráttan seinustu vikur hefur verið mjög gefandi - ég hef kynnst nýju fólki og fundið kraftinn í þeim sem hafa unnið í flokknum hér til fjölda ára. Fyrst og fremst hef ég kynnst því að Akureyringar hafa brennandi áhuga á málefnum sveitarfélagsins. Ég hóf þessa baráttu mína seint á síðasta ári með jákvæðni og bjartsýni umfram allt sem veganesti.

Hef ég unnið þessa baráttu á mínum vegum með þeim hætti og hagað skrifum og baráttuandanum með þessi grunngildi að leiðarljósi. Ég er mjög þakklátur þeim sem hafa sýnt mér velvilja og stuðning í þessum prófkjörsslag. En nú er komið að úrslitastund.

Ég býð mig fram til að taka fullan þátt í kosningabaráttunni í vor. Ég vil leggja fram mína reynslu í stjórnmálum og félagsstörfum og vinna fyrir flokkinn minn í forystusveit sigurliðsins okkar í vor. Til þess þarf ég stuðning þinn!

stebbifr@simnet.is

10 febrúar 2006

Stefán Friðrik

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fer fram á morgun. Utankjörfundarkosningu er nú lokið og aðeins rúmlega 12 tímar þar til að kjörstaðir í Hamborg við Hafnarstræti 94 munu opna. Það styttist því óðum í úrslitastund í prófkjörinu - er því lýkur hefst næsta barátta. Hún er miklu mun mikilvægari en þessi. Kosningarnar í vor eru aðalmarkmiðið í mínum huga. Það verður gaman að taka þátt í þeirri baráttu við andstæðinga flokksins okkar. Hvernig svo sem þetta prófkjör fer mun ég vinna af krafti með flokknum í vor og taka þátt í því starfi sem mikilvægast er. Ég hef alltaf stutt Sjálfstæðisflokkinn - hann er mitt heimili í stjórnmálabaráttu. Því mun ekkert geta breytt.

Seinustu dagar hafa verið mjög annasamir. Ég hef upplifað það að vera þátttakandi í prófkjöri sé mjög tímafrekt. Þó er það mjög skemmtilegt verkefni. Það er í mörg horn að líta í slíkri vinnu - umfram allt er þetta gefandi vinna. Enda er gaman að tala við flokksfélagana og heyra í þeim hljóðið með stöðu mála og umfram allt heyra hvernig hjarta bæjarbúa slær í garð flokksins og stefnumálanna okkar. Símtölin sem ég hef átt við fólk hafa verið mörg en mjög ánægjuleg. Þegar að ég lauk við að hringja út síðdegis í dag komst ég að því að ég er einn hlekkur í stórri keðju. Þessi keðja er ótrúlega sterk og öflug. Það er mjög ánægjulegt að vera þátttakandi í þessum hóp - vera virkur þátttakandi í flokksstarfinu. Ég er stoltur af því.

Framundan er prófkjörsdagur hjá okkur sjálfstæðismönnum á Akureyri. Þá ræðst hverjir leiða lista okkar í vor. Hvernig svo sem kosningin fer mun ég gera allt mitt til að tryggja að 27. maí verði sannkallaður sigurdagur Sjálfstæðisflokksins. Umfram allt vona ég að morgundagurinn, 11. febrúar, verði sigurdagur Sjálfstæðisflokksins - flokkurinn sigri í þessu prófkjöri. Það er mikilvægast af öllu að við komum út úr því með sterkan og samhentan lista öflugs og góðs fólks - fólks sem er vinnusamt og samhent í því að vinna af bjartsýni og krafti fyrir flokkinn og grunnstefnu hans, sjálfstæðisstefnuna.

stebbifr@simnet.is

09 febrúar 2006

Stefán Friðrik

Tveir dagar eru í prófkjör. Eins og fyrr hefur komið fram er mjög mikið að gera hjá mér. Mikil vinna þessu tengd og í mörg horn að líta. Satt best að segja verð ég feginn eftir helgina að geta hugleitt annað en prófkjörið. Reyndar markar laugardagurinn í mínum huga upphaf kosningabaráttu flokksins. Þá eru rétt innan við 100 dagar í kosningar og lokabaráttan - sú mikilvægasta - tekur við af fullum krafti. Hlakkar mér mjög til þeirrar baráttu. Ég hitti eldri mann á Glerártorgi í dag og hann sagðist vera illa svikinn ef ég væri ekki afkomandi Stefáns Jónassonar. Sagði ég honum að svo væri og hann varð svo glaður við að sjá mig og hafði margar sögur að segja af þeim tíma er hann ungur vann hjá langafa. Margar skemmtilegar sögur sem gaman var að heyra. Hann ætlaði að styðja mig og var ekkert nema góðu orðin í minn garð. Mat mikils að heyra í honum, svo og öllum þeim sem ég hef hringt í seinustu dagana.

Nú var ég rétt áðan að koma af Hótel KEA. Þar var eini sameiginlegi fundurinn með okkur frambjóðendum. Þrír þeirra gátu ekki setið fundinn. Fyrirkomulagið var þannig að 10 spurningar voru settar upp og áttum við að svara tveim þeirra. Drógum við bæði um röð okkar og hvaða spurningar við myndum taka. Varð ég sjöundi í röðinni af okkur 17. Gekk fundurinn mjög vel - fjölmenni var og mjög áhugavert spjall sem við áttum við fólk bæði fyrir og eftir fundinn. Fundurinn var vel skipulagður af Gísla Aðalsteinssyni formanni málfundafélagsins okkar, Sleipnis. Vonandi er þetta aðeins gott og spennandi upphaf að ekta málfundum hjá Sleipni - hlakkar mér til spennandi málfunda um áherslur. Umfram allt lifandi og spennandi funda, svipuðum þeim og var fyrir viku. Gísli er að standa sig vel í uppsetningu svona funda að mínu mati. Fundinum var svo stjórnað með bravúr af Jónu Jónsdóttur varaformanni Varðar.


Fengum við semsagt 10 spurningar en ég dró upp þær sem voru nr. 2 og 6. Satt best að segja hefði ég mun frekar viljað nr. 1 og 3. Svaraði ég spurningunum fyrir fundinn en notaðist við punkta á fundinum til að fara eftir. Set ég hérmeð inn spurningarnar 10 og svörin við þeim öllum.


1. Ef ekki verður af því að álver verði reist á Norðurlandi á næstu árum, hvað eigum við Akureyringar þá að gera í okkar atvinnumálum?

Svar: Það er mjög mikilvægt að menn tryggji samstöðu um álver á Norðurlandi. Það er lykilatriði eins og staða mála er. Nú bíðum við dóms Alcoa um staðarval. Mikilvægt er að menn fari eftir því vali og horfi eftir það fram á veginn og tryggð sé samstaða og kraftur í kringum það val og framtíðin sé byggð upp eftir því mati. Er það von mín að fólk sameinist um valið í byggðum Norðurlands - sú samstaða er mikilvæg eigi okkur að auðnast að tryggja stóriðju, sem almenn sátt virðist að mestu um. Beri okkur ekki gæfa til að ná samstöðu og tryggja þessu uppbyggingu verðum við að styrkja þær stoðir sem við höfum til staðar.

Að mínu mati verða fleiri atvinnutækifæri og fjölbreyttara atvinnulíf helstu áherslumál unga fólksins hér á Akureyri í bæjarstjórnarkosningunum í vor. Enda býr hér vel menntað fólk og fólk kemur víðsvegar að af landinu til að nema í menntaskólunum og háskólanum. Það hefur valið sér hér búsetu og vill geta gengið að góðum störfum - búa við góð tækifæri. Það er að mínu mati ekki hlutverk hinna kjörnu fulltrúa almennings á sveitarstjórnarstiginu að þenja út starfsemi sveitarfélaganna eða að sjá til þess að þar sé fjölbreytt atvinnulíf með beinum hætti, en þeir verða að tryggja góð skilyrði á staðnum.

Þeir þurfa að hlúa að umgjörð sveitarfélagsins svo að það blómstri sem best og verði öflugt og gott - notaleg umgjörð fyrir gott atvinnulíf.


2. Er fíkniefnamisnotkun ungmenna verulegt vandamál á Akureyri? Ef svo er hvað vilt þú þá að bæjarstjórn geri í málinu?

Svar: Ég tel já að fíkniefnamisnotkun í bænum sé mikið vandamál. Við sáum vel í fyrra að staðan er slæm. Hinsvegar brugðust bæjarbúar við þeirri ógn með samhentum og öflugum hætti. Við lyftum upp rauða spjaldinu gegn dópdraugnum í aprílmánuði í fyrra og náðum athygli allra landsmanna - við sögðum skoðun okkar og það án orða og af miklum krafti. Við getum verið stolt af því, enda náðum við athygli annarra í þeim táknrænu mótmælum. Aukin fíkniefnaneysla ungs fólks er vissulega mikið áhyggjuefni sem verður að taka á af festu. Það vinnst ekki nema með samhentu átaki bæjaryfirvalda, stofnana, einstaklinga, yfirvalda og samtaka.

Aðkoma foreldra skiptir líka mjög miklu máli. Engin ein allsherjarlausn er til á málinu - ef hún væri til væri búið að leysa þennan vanda. En vandinn er til staðar en lausnin fellst í samhentum viðbrögðum fyrrnefndra aðila og því að samfélagið viðurkenni vandann og horfist í augu við hann. Það er lykilatriði að við náum tökum á þessum vanda.


3. Ef þú ættir að velja aðeins eitt atriði til að bæta grunnskóla bæjarins hvað mundirðu þá vilja gera?

Svar: Ég hef alla tíð verið mjög hlynntur valfrelsi á skólastiginu. Að mínu skiptir gríðarlega miklu máli að fólk eigi val - val er án nokkurs vafa framtíðin í skólamálum í pólitík samtímans. Það er mjög mikilvægt að tryggja að fersk hugmyndafræði og tillögur séu ávallt til vinnslu og við sjálfstæðismenn verðum að tryggja að við séum rödd þess ferskleika - sækjum ávallt fram af krafti. Að mínu mati er góð fyrirmynd fyrir okkur hér staða mála í Garðabænum, en það var mjög áhugavert og spennandi að fylgjast með því hvernig að Ásdís Halla Bragadóttir markaði sér skref á pólitískum ferli sínum með valfrelsi og öflugum valkostum í skólamálum á bæjarstjóraferli sínum.

Ég vil feta í sömu átt - ég vil sjá Akureyri sem öflugan valkost í skólamálum hvað snertir rekstrarform leik- og grunnskóla þar sem mismunandi hugmyndafræði er til staðar og val foreldra og nemenda þess því meira. Ég vil sjá aukna samkeppni um þá þjónustu sem er verið að bjóða á leik- og grunnskólastigi með mismunandi rekstrarformum og valfrelsi. Íbúar hér á Akureyri eiga í framtíðinni að geta valið að mínu mati um þjónustu hjá mismunandi aðilum. Það veitir nauðsynlegt aðhald og samkeppnin tryggir svo ennfremur aukin gæði.

Við eigum að stefna í sömu átt og mótuð var í Garðabæ - hafa sama metnað og sama kraft að leiðarljósi hér. Valfrelsi í skólamálum er framtíðin!


4. Telur þú það eigi að nota þær heimildir sem að bæjarstjórn hefur til að gera skoðanakönnun meðal íbúa samhliða sveitarstjórnarkosningum? Ef svo er hvaða málefni ættu þá erindi í slíka skoðanakönnun og hvaða málefni ættu ekki erindi?

Svar: Já það tel ég. Það mætti til dæmis íhuga mörg málefni sem gætu verið sett í dóm íbúa sveitarfélagsins. Sérstaklega tel ég mikilvægt að hafa þar í huga skipulagsmál. Oft á tíðum er deilt harkalega um skipulagsmál og sitt sýnist hverjum. Enda eru skipulagsmál sá málaflokkur sem flestir takast á um oftast nær. Mjög oft er um að ræða mál sem skerst þvert á pólitískar línur almennt og samstaða ekki um aðgerðir í málum eftir einföldum flokkslínum.

Verði deilur miklar um mikið hitamál tel ég vænlegt að leggja málið í dóm fólksins: fá þeirra mat. Það er í sjálfu sér eðlilegt að leita til íbúa í þeim tilfellum og láta þá skera úr um slík hitamál með atkvæði sínu. Vilji meirihlutans ræður þá för.


5. Ef þú gætir valið eitthvað eitt til að gera skipulagsmál bæjarins betri en þau eru í dag hvað mundirðu þá helst vilja ná fram?

Svar: Ég tel mjög mikilvægt að þétta byggð á miðbæjarsvæðinu. Þar eru lykilsvæði sem gott er að byggja á og það á að gera að mínu mati. Það er það mál sem ég tel helst blasa við og skipta máli. Fagna ég niðurstöðum íbúaþingsins í september 2004 og tillögum yfirvalda um nýjan miðbæ sem nú bíða afgreiðslu. Ef marka má þær munu um 330 íbúðir verða reistar á miðbæjarsvæðinu Mér líst vel á þessar tillögur - verður áhugavert að sjá þær verða að veruleika. Skiptir að mínu mati höfuðmáli að vinna vel að því að endurskipuleggja hjarta bæjarins okkar, miðbæjarins. Það er forgangsmál!


6. Á Akureyrarbær að selja hlut sinn í Landsvirkjun? En hvað með Norðurorku?

Svar: Tel ég rétt að sveitarfélögin fari með formlegum hætti úr rekstri Landsvirkjunar og selji hlut sinn. Viðræður voru við okkur hér á Akureyri og í Reykjavík um þessi mál en þeim viðræðum var slitið nýlega vegna þess að R-listinn sálugi, sem geispaði golunni síðastliðið sumar en stjórnar enn eins og vofa, gat ekki náð samstöðu um málið. Tel ég mikilvægt að þetta mál verði klárað með ábyrgum og öflugum hætti á næsta kjörtímabili. Ætti það að verða auðveldara eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið við völdum í Reykjavík og Vilhjálmur Þ. verður orðinn borgarstjóri. Ég tel ekki rétt að Akureyrarbær selji hlut sinn í Norðurorku.


7. Hvernig á fyrirkomulag sorpmála á Akureyri að vera í framtíðinni?

Svar: Mikilvægt er að sveitarfélögin í Eyjafirði komi sér sem fyrst saman um framtíðartilhögun í sorpmálum. Það er að mínu mati lykilatriði á næsta kjörtímabili. Samkomulag um þessi mál verður að koma til sem allra fyrst. Tel ég mikilvægast að leggja áherslu á samkomulag í þessum efnum og tel vænlegast að gera ráð fyrir byggingu förgunar- flokkunar- og mótttökustöðvar fyrir sorp allra Eyfirðinga. Ég tel að hugi beri því að sorpbrennslu.


8. Af hverju á Akureyrarbær að styrkja íþróttafélög? Þarf að breyta einhverju í samskiptum íþróttafélaga og bæjarins?

Svar: Það er mikilvægt að tryggja faglegt og umfram allt öflugt íþrótta- og tómstundastarf. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að bæjaryfirvöld tryggi góðan grundvöll fyrir íþróttastarfsemi. Íþróttir- og tómstundaiðkun er fólki nauðsynleg og það er mikilvægt að öflugt starf íþróttafélaganna sé tryggt. Það er mikilvægt að hlúa vel að íþróttastarfi og tryggja að það sé alltaf blómlegt.


9. Ef þú ættir að velja eitt atriði til að bæta hag aldraðra Akureyringa hvað myndir þú þá helst vilja gera?

Svar: Fyrst og fremst þarf ávallt að hlúa vel að öldruðum. Það er og verður alltaf lykilmarkmið. Þeir, sem hafa lokið sínu ævistarfi, eiga það svo sannarlega skilið að vel sé að þeim búið. Ávallt þarf að hafa það sem markmið að aldraðir séu virkjaðir til samfélagsþátttöku og tryggt að hlúð sé vel að þeim. Mikilvægur þáttur í nútímasamfélaginu er að tryggja að fólk geti sem allra lengst dvalið á eigin heimili.

Það á ávallt að vera forgangsmál okkar unga fólksins að tryggja að eldri borgarar geti lifað í sátt við aðstæður sínar - tryggja þarf ávallt hamingju allra kynslóða. Tryggir það sátt allra. Við sem erum ung verðum alltaf að hafa að leiðarljósi hag eldri borgara, forfeðra okkar. Tryggja hag þeirra sem sköpuðu hið góða samfélag sem við lifum í - samfélag tækifæra nútímans.


10. Á Akureyrarbær að leita eftir að taka við frekari verkefnum frá ríkisvaldinu? Ef svo er hver ættu þau verkefni þá að vera?

Svar: Huga mætti að því að sveitarfélögin tækju yfir rekstur framhaldsskólanna. Ennfremur mætti íhuga t.d. að sveitarfélagið ræki Akureyrarflugvöll. Endalausar pælingar vakna í mínum huga, en þær eru mun víðfeðmari en til næsta kjörtímabils.

stebbifr@simnet.is

08 febrúar 2006

Stefán Friðrik

Þrír dagar eru í prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Hjá mér er allt á fullu nú seinustu dagana. Ég hef hringt mörg símtöl seinustu daga og unnið í því að allt mitt fólk sem ekki verður í bænum kjósi fyrir lok utankjörfundarfundarkosningar á morgun. Á lokasprettinum er í mörg horn að líta. Ég hef staðið sjálfur í hringingum, enda legg ég áherslu á að ég sjálfur standi í því að ræða við fólk. Það er mikil vinna auðvitað en mjög gefandi að mörgu leyti. Ég vil skiljanlega ræða persónulega við sem flesta - taka spjall um málefnin. Ætla að vona að ég nái að klára þetta verk fyrir lok baráttunnar. Ef það tekst ekki vil ég færa góðar kveðjur til allra flokksmanna með hvatningu um að kjósa á laugardag. Ég legg mikla áherslu á að kynna mig og verk mín fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Með það veganesti og svör við spurningum sem vakna kveð ég fólk.

Ég vil eiga notalegt og gott spjall við fólk og láta það íhuga hvernig það vill velja á listann eftir þá kynningu. Ég vil þakka kærlega þeim sem hafa hitt mig á förnum vegi og rætt við mig um slaginn fyrir góðar kveðjur og óskir. Hlýhugur allra er mér ómetanlegur! Stuðningur og góðvilji systkina minna og foreldra er mér ómetanlegur í þessum prófkjörsslag. Satt best að segja var það mér persónulega mjög mikilvægt að finna fyrir miklum stuðningi fjölskyldu minnar og finna baráttuandann meðal fólksins míns. Foreldrar mínir gengu í flokkinn í aðdraganda prófkjörsins - til að styðja mig. Ég vil þakka þeim kærlega fyrir öll hvatningarorðin og stuðninginn. Pabbi og mamma eru kjarnafólk sem alltaf hafa stutt mig í mínum verkefnum. Þau eru mér ómetanleg. Þau þekkja mig best og persónu mína.

Mér er þakklæti efst í huga til allra sem hefur sýnt mér ástúð og kærleika í þessari prófkjörsbaráttu og í því sem ég hef staðið í seinustu vikur, bæði þessu kjöri og öðru sem gerst hefur. Hvernig svo sem prófkjörið fer mun ég ávallt meta mikils það að hafa kynnst nýjum vinum í slagnum og lært að meta enn betur vini mína og fjölskyldu - sem vilja styðja mig í mínum verkefnum. Sannir vinir eru einstakir. Allir sem hafa sent mér kveðjur - fólk um allt land - hefur öðlast ómetanlegan sess í huga mér. Þið eruð öll mér ómetanleg!


Mitt í önnum lokaslagsins er alveg með ólíkindum að sjá auglýsingu eins frambjóðanda í prófkjörinu í glugga við hliðina á Hamborg, aðstöðu flokksins í miðbænum. Ég hef satt best að segja ekki fyrr hugleitt að tala illa um meðframbjóðendur mína eða kosningabaráttu þeirra. Að mestu leyti er um að ræða hið besta fólk sem er tilbúið til að vinna flokknum okkar gagn með því að leggja á sig að gefa kost á sér í nafni hans. En það er ekki hægt annað en að tala um auglýsingar frambjóðandans í þessu tilfelli. Baldur Dýrfjörð sækist eftir þriðja sætinu í þessu prófkjöri eins og ég. Það er eiginlega fyrir neðan allt að hann skuli auglýsa í næsta húsi við aðstöðu flokksins og vekur miklar spurningar.

Ef marka má það sem ég hef heyrt í dag hefur Anna Þóra Baldursdóttir formaður kjörnefndar, kvartað yfir þessari auglýsingu. Er það ekki óeðlilegt. Veit ég ekki hvað frambjóðandinn gerir við kvörtunum kjörnefndar en satt best að segja hlýtur það að fara svo að hann taki auglýsingarnar niður. Um fátt hefur verið meira talað á lokasprettinum, enda er þarna gengið mjög langt að mínu mati. Þessar auglýsingar á þessum stað eru að mínu mati fyrir neðan öll mörk í þessum slag.

stebbifr@simnet.is

07 febrúar 2006

Stefán Friðrik

Fjórir dagar eru nú í prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Utankjörfundarkosning hefur staðið seinustu daga og lýkur á fimmtudag. Þeir sem vilja kjósa eiga að fara í Kaupang við Mýrarveg milli kl. 13:00 og 18:00 og í Valhöll við Háaleitisbraut á milli kl. 9:00 og 17:00. Ég vil á lokasprettinum þakka fyrir góðar og hlýjar kveðjur frá þeim fjölmörgu flokksmönnum sem ég hef rætt við seinustu daga. Ég met mikils góð orð öflugra stuðningsmanna - fólks sem ætlar að styðja mig í þessu prófkjöri og ennfremur met ég mikils stuðning ættingja minna - sá stuðningur er mér ómetanlegur. Allt þetta met ég mikils núna á lokasprettinum. Fyrst og fremst vona ég að Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri verði sigurvegari prófkjörsins á laugardag - útkoman verði sterkur og góður framboðslisti sjálfstæðismanna í kosningunum í maí.


Í dag tilkynnti Oddur Helgi Halldórsson bæjarfulltrúi, um framboð sitt í bæjarstjórnarkosningunum í maí. Stefnir hann að því að leiða áfram L-listann, Lista fólksins, í þeim kosningum. Oddur Helgi telst vissulega nokkur kraftaverkamaður í pólitík. Honum átti að bola burt fyrir kosningarnar 1998 úr bæjarfulltrúahópi Framsóknarflokksins, þar sem hann hafði tekið sæti sem aðalmaður árið 1997. Hann lét ekki bjóða sér varamannssæti á ný og fór í sérframboð og komst inn, þvert á margar spár. Fyrir síðustu kosningar bætti hann verulega við sig fylgi og fór inn við annan mann á lista, Marsibil Fjólu Snæbjarnardóttur. Oddur Helgi og Marsibil Fjóla hafa verið lítt áberandi á kjörtímabilinu og ekki mikið við að taka afstöðu til mikilvægra mála. Er oft erfitt að sjá hvar þau standa í málum og því verið minna áberandi, en önnur minnihlutaöfl - alltsvo Samfylkingin áður en hún hvarf í bæjarstjórn um jólin þegar að bæjarfulltrúi þeirra fór í annan flokk.

Oddur kynnti framboðið í dag á blaðamannafundi í fyrirtæki sínu, Blikkrás, og greinilega til í slaginn sem framundan er. Ef marka má yfirlýsingu Odds Helga og Lista fólksins í dag um framboð stefnir L-listinn á að bæta við sig manni í bæjarstjórn. Þau eru því að leggja mörkin við að ná inn þriðja bæjarfulltrúanum. Þess sáust merki í grein í Vikudegi í síðasta mánuði að Oddur Helgi væri kominn í gírinn er hann réðst að bæjarstjóranum með áberandi hætti. En já Oddur virðist vera kominn af stað á fullu. Ætlar L-listafólk að kynna framboðslista sinn fyrir komandi kosningar þann 18. mars - rúmum tveim mánuðum fyrir kosningar. Ef marka má orð Odds Helga í dag kom aldrei til greina í hans huga að fara aftur yfir í Framsóknarflokkinn, þrátt fyrir væntanleg leiðtogaskipti þar. Verður fróðlegt að sjá hvort að Oddur heldur fylginu sínu.


Það er orðið langt síðan að ég hef farið í bíó. Ætla mér að líta þangað í kvöld og sjá Munich - nýjustu kvikmynd Steven Spielberg. Lýsir hún því ástandi sem varð á Ólympíuleikunum í München árið 1972 sem leiddi til harmleiks. Myndin hefur fengið góða dóma og ég hlakka til að sjá hana.

stebbifr@simnet.is