Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 febrúar 2003

UT 2003 á Akureyri
Í dag, kl. 13:00 hófst í Verkmenntaskólanum á Akureyri, UT2003, ráðstefna um upplýsingatækni í skólastarfi og mun hún einnig standa á morgun. 600 þátttakendur eru skráðir á ráðstefnuna. Þetta er í fimmta sinn sem UT ráðstefna er haldin og segja aðstandendur ráðstefnunnar að þátttökufjöldi sé umfram væntingar. Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, flutti við setningu ráðstefnunnar ítarlegt og fræðandi ávarp. Á ráðstefnunni verður lögð áhersla á að miðla af reynslu undanfarinna ára með skírskotun til framtíðarinnar. Menntun stendur nú á þeim tímamótun að gera þarf markvissar framtíðaráætlanir um víðtæka notkun upplýsingatækni í námi. Í fyrra sóttu um 1.300 manns UT ráðstefnuna en það var metþátttaka. Þar sem ráðstefnan er að þessu sinni haldin á landsbyggðinni í fyrsta sinn var búist við um 500 þátttakendum en um 5-900 manns hafa jafnan sótt UT ráðstefnunar. Þátttakan er því mjög góð miðað við að ráðstefnan er haldin á landsbyggðinni. Það er menntamálaráðuneytið sem hefur staðið fyrir UT ráðstefnunum en tilgangur þeirra er að vera vettvangur fyrir skólastjórnendur, kennara og aðra áhugasama til að finna nýjar lausnir, leysa vandamál og miðla nýjungum í upplýsingatækni í skólastarfi. Á ráðstefnunni verða ítarlegir fyrirlestrar, málstofur og sýnistofur. Á sýningarsvæði ráðstefnunnar eru kynntar nýjungar innan upplýsingatækni í skólastarfi og er það opið á meðan á ráðstefnunni stendur. Ég kíkti á ráðstefnuna í dag og var mjög fróðlegt að kynna sér umræðurnar og allt sem stendur til boða. Sérstaklega er ánægjulegt að ráðstefnan sé haldin í skólabænum Akureyri.

27 febrúar 2003

Samkomulag um heilsugæslu og öldrunarþjónustu undirritað
Í dag undirrituðu Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri og Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, víðtækt samkomulag heilbrigðisráðuneytisins og bæjaryfirvalda á Akureyri sem felur í sér að bæjarfélagið tekur nú að sér að sjá um alla heilsugæslu og öldrunarþjónustu í Akureyrarumdæmi til ársloka 2006. Heilbrigðisráðherra og bæjarstjórinn á Akureyri undirrituðu sömuleiðis samning um verulega fjölgun hjúkrunarrýma á Akureyri á næstu misserum með sérstökum rammasamning um viðbyggingu við Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri. Hjúkrunarrýmum fjölgar um 60 fram til ársins 2006 og skal fyrsta áfanga ljúka í árslok 2004 og á byggingunni að vera lokið í ársbyrjun 2006. Heilbrigðisráðherra mun skipa nefnd þriggja manna til að sjá um undirbúning verksins og skal nefndin skipuð einum fulltrúa ráðuneytisins og tveim fulltrúum Akureyrarbæjar eftir tilnefningu bæjarstjórnar. Nefndin skal vinna með þeim aðila sem ráðinn verður til að gera frumathugun fyrir verkið. Þessi frumathugun skal vera tilbúin 30. apríl 2003. Akureyri hefur verið svokallað reynslusveitarfélag hin síðari ár og hefur sem slíkt séð um heilsugæslu og rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila fyrir aldraða á grundvelli sérstaks samkomulags þar um. Með samningnum sem nú hefur verið undirritaður er gengið skrefi lengra, samningstími lengdur og samið um öll helstu atriði heilbrigðisþjónustunnar á svæðinu. Er þetta gert vegna þess að heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið telur að góð reynsla sé af stjórn heimamanna á heilbrigðisþjónustunni. Ánægja hefur sömuleiðis verið ríkjandi með fyrirkomulagið meðal íbúa eins og komið hefur fram í viðhorfskönnunum. Meginmarkmið samningsins er að efla stjórn sveitarfélagsins á málaflokknum, laga stjórnsýsluna betur að staðbundnum aðstæðum, bæta þjónustu við íbúana og nýta betur fjárveitingar hins opinbera. Samningnum er einnig ætlað að stuðla að framkvæmd Heilbrigðisáætlunar til ársins 2010, sem Alþingi hefur samþykkt. Samningurinn felur í sér framhald á tilfærslu heilsugæslu- og öldrunarþjónustu frá verkkaupa til verksala í Akureyrarumdæmi í samræmi við meginmarkmið samningsins. Heimamenn stjórna sömuleiðis áfram rekstri hjúkrunar- og dvalarheimilum í Hlíð, Kjarnalundi og Bakkahlíð og auk þess öllum rekstri heimaþjónustu og dagvistar aldraðra. Ennfremur taka heimamenn alfarið að sér rekstur heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri gegn rammafjárveitingu. Samningurinn tekur ekki til þeirrar þjónustu sem Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri veitir. Til þess að sinna verkefnum samningsins mun ríkið tryggja sveitarfélaginu að árlegar fjárveitingar til verkefnisins verði um 972 milljónir króna á ári miðað við verðlagsgrunn ársins 2003. Um 306 milljónir renna til reksturs heilsugæslunnar, um 487 milljónir til rekstur hjúkrunarrýma, 140 milljónir til reksturs þjónusturýma, 20 milljónir króna renna til dagvistunar og húsnæðisgjald verður um 20 milljónir króna á ári.

Kárahnjúkavirkjun verður að veruleika
Í næstu viku verður samþykkt á Alþingi frumvarp Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um Kárahnjúkavirkjun. Með því ætti málið að vera í höfn og virkjun loks að verða að veruleika og álver rísa við Reyðarfjörð. Það er ánægjulegt að loks sér fyrir endann á þessu máli og framkvæmdin nái fram að ganga. Merkum áfanga var náð í baráttunni fyrir Kárahnjúkavirkjun og álveri við Reyðarfjörð í janúarmánuði 2003. Óhætt er að fullyrða að 10. janúar verði framvegis hátíðisdagur fyrir Austfirðinga, einkum íbúa Fjarðabyggðar. Stjórn bandaríska álfyrirtækisins Alcoa samþykkti þann dag á fundi sínum í New York í gær að ráðast í byggingu Fjarðaáls. Er álverið hluti af einni umfangsmestu fjárfestingu sem ráðist hefur verið í á Íslandi. Áætlað er að framkvæmdir við bygginguna hefjist árið 2005 og álverið hefji framleiðslu árið 2007. Byggingarkostnaður Fjarðaáls er áætlaður 1,1 milljarður dala, eða um 90 milljarðar íslenskra króna og dreifist hann á næstu fjögur ár. Er gert ráð fyrir því að álverið muni skapa um 450 störf í álverinu sjálfu og um 300 störf í tengdum iðnaði og þjónustu. Virkjun við Kárahnjúka og álver við Reyðarfjörð eru gríðarlegur áfangi fyrir þjóðina. Stefnir í nýtt og öflugt hagvaxtarskeið, atvinnuástand mun styrkjast, kaupmáttur aukast og tekjur þjóðarbús og landsmanna hækka. Úrtöluraddir alþingismanna VG eru öllum kunnar og fræg voru ofstopafull ummæli Kolbrúnar Halldórsdóttur í New York Times í fyrra. Augljóst er að þingmenn VG lifðu í þeirri óskhyggju að upphafleg frestun framkvæmdanna væri endanleg og málið væri úr sögunni. Það kemur æ betur í ljós að sá flokkur er andsnúinn allri jákvæðri uppbyggingu á landsbyggðinni. Ég geri mér fulla grein fyrir því að virkjanaandstæðingar munu sennilega finna upp á einhverju nýju til þess að geta haldið andófinu áfram en fá hálmstrá eru eftir fyrir þá að grípa í. Málið verður að veruleika. Í kjölfar samþykktar borgarstjórnar Reykjavíkur og bæjarstjórnar Akureyrar er málið í höfn með samþykki þingsins og það ætti að fást í næstu viku, enda allir þingmenn hlynntir frumvarpinu nema vinstri-grænir. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur stýrt málinu farsællega til lykta og nú horfir fyrir endann á málinu. Virkjað verður við Kárahnjúka og álverið mun rísa til hagsbóta fyrir landsmenn. Mikilvægt framfaraspor verður stigið með afgreiðslu málsins á þingi.

26 febrúar 2003

Athyglisverð skoðanakönnun DV
Athyglisvert er að kynna sér tölur í skoðanakönnun DV sem gerð var í gærkvöldi og birtar eru í blaðinu í dag. Þar kemur fram að stjórnarflokkarnir séu samanlagt með 36 þingmenn. Sjálfstæðisflokkurinn er með 38,8% í könnuninni og Framsóknarflokkur með 17,1%, hækkar sig um tæp 5 prósentustig. Fylgi Samfylkingarinnar minnkar um tæp 6% og er nú 33,7%. Vinstrihreyfingin-grænt framboð fær 9,3% og Frjálslyndi flokkurinn 1,1%. Samkvæmt könnuninni er Framsókn með 11 þingsæti, Sjálfstæðisflokkurinn 25, Samfylkingin 21 og vinstri/grænir með 6. Þetta er vissulega eftirtektarverðar tölur og það sem sérstaklega er vert að taka eftir er að Samfylkingin tapar miklu fylgi að því er virðist til Framsóknarflokksins. Allavega verður fróðlegt að sjá könnun Gallups sem væntanlega kemur um helgina. En svo virðist vera sem fylgið sé að jafnast út og það fylgi sem ISG bætti við Samfylkinguna sé að leita aftur til baka í fyrri staði. Eftir að ISG kom aftur á vettvang landsmálanna eftir níu ára fjarveru, jókst fylgi Samfylkingarinnar nokkuð en nú virðist sú sveifla vera að hjaðna. Fyrsta alvöru ræða hennar sem forystumanneskju innan flokksins var á flokksstjórnarfundi í Borgarnesi 9. febrúar síðastliðinn og bjuggust margir við að þar færi hún yfir helstu málefni flokksins og sín sem leiðtoga í komandi kosningabaráttu. Hætt er við að þeim sem áttu von á ítarlegri ræðu um stefnu flokksins og framtíðarsýn hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum. Hvergi er hægt að sjá í ræðunni að leiðtogaefni Samfylkingarinnar hafi málefnalega víðsýni eða ætli að vera boðberi einhverra sérstaka málefna í baráttunni. Ræða hennar einkenndist í senn af rakalausum dylgjum og gróusögum sem settar voru fram til að koma því inn hjá þjóðinni að stjórnvöld væru gerspillt og þau færu illa með vald sitt. Var einkennilegt að forystumanneskja í pólitík mætti í landsmálin stefnulaus og greinilega full af persónulegu hatri í garð forsætisráðherrans. Það er greinilegt að prímus mótor hennar í baráttunni mun vera andstyggð hennar á Sjálfstæðisflokknum og leiðtoga hans. Það er ljóst að kjósendum gremst málefnafátækt leiðtogaefnisins og að þeir vilja fá málefnalega umræðu og greinargóða stefnu fram í dagsljósið. ISG mun vonandi ekki komast upp með að gleyma málefnunum og verður að kynna skoðanir sínar og viðhorf, nema hún ætli að halda áfram að vera eins og Gróa á Leiti. Það verður athyglisvert að fylgjast með þessu næstu 73 dagana.

Góðar myndir í bíó
Seinustu vikurnar hefur verið nóg af góðum myndum í bíó og því hef ég oft skellt mér og kíkt á nýjustu myndirnar. Nú styttist í Óskarsverðlaunaafhendinguna og því eru allar þær myndir sem hafa hlotið tilnefningu óðum að koma í bíó. Nóg er af góðum myndum og ekki hægt að segja annað en að bíóárið 2002 sé vel heppnað, allavega er baráttan um verðlaunin jafnari nú en oft áður og margar frábærar leikframmistöður úrvalsleikara tilnefndar. Hef skrifað kvikmyndagagnrýni seinustu fimm árin á kvikmyndir.is, frábærum kvikmyndavef Helga Páls Helgasonar og Gunnars Þórissonar. Hef haft gríðarlegan áhuga á bíómyndum í mörg ár og á mikinn fjölda góðra bíómynda. Skrifaði nú síðast gagnrýni um Chicago, About Schmidt, Catch Me If You Can og Iris. Fleiri umfjallanir eru væntanlegar og framundan margar bíóferðir á næstu vikum.

Gísli Marteinn 31 árs í dag
Í dag er félagi minn, Gísli Marteinn Baldursson sjónvarpsmaður, 31 árs gamall. Ég sendi honum mínar bestu hamingjuóskir með daginn.

25 febrúar 2003

Átak í uppbyggingu menntunar og menningar
Í gær undirrituðu Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, og Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, samkomulag um átak í uppbyggingu menntunar og menningar á landsbyggðinni. Skilgreind hafa verið verkefni í samræmi við byggðaáætlun 2002-2005 þar sem lögð er áhersla á tengsl menntunar og menningar við þróun atvinnulífs í dreifðum byggðum. Upplýsingatækni verður markvisst nýtt til að efla símenntun og starfsmenntun á landsbyggðinni og stuðla að auknu námsframboði á öllum skólastigum. Einnig verður unnið að því að auka aðgengi að menningarefni frá ólíkum landssvæðum. Ráðuneytin munu sameiginlega leggja fram að lágmarki 100 milljónir króna á ári í þrjú ár, samtals 300 milljónir króna, í verkefni í ólíkum landshlutum. Í byggðaáætlun er lögð áhersla á að starfsemi símenntunarmiðstöðva verði efld með það að markmiði að styrkja landsbyggðina með bættu aðgengi að menntun á grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólastigi. Þetta á einnig við um starfsnám þar sem nemendur geta sinnt bóklegu námi í fjarnámi en verklegu námi í heimabyggð. Þá hefur mikilvægi símenntunar aukist á undanförnum árum og þarf hún að standa almenningi til boða óháð búsetu. Símenntunarmiðstöðvar eru starfræktar í öllum landshlutum. Hlutverk þeirra er að efla símenntun með því að miðla námskeiðum og auka samstarf atvinnulífs og skóla til að tryggja samkeppnishæfni byggðarlaga. Símenntunarmiðstöðvar gegna mikilvægu hlutverki í að veita stoðþjónustu við nemendur og aðstöðu fyrir kennslu. Þannig hefur skapast grundvöllur fyrir frekari þjónustu vegna háskólanáms og verður unnið að uppbyggingu háskólanámssetra á Egilsstöðum og Húsavík sem byggja munu á grunni símenntunarmiðstöðva. Einnig verður stutt við þjónustu vegna háskólanáms á Vestfjörðum. Í samræmi við byggðaáætlun verður unnið að uppbyggingu starfsnáms á landsbyggðinni með fjarnámi. Þar verður byggt á þeim grunni sem lagður hefur verið með kjarnaskólum í starfsmenntun. Í samvinnu við starfsgreinaráð hafa kjarnaskólar forgöngu um að þróa námsefni og kennsluaðferðir og aðstoða aðra skóla og fyrirtæki við umbætur í kennslu og starfsþjálfun á viðkomandi sviði. Framhaldsskólar á landsbyggðinni verða styrktir til að halda úti fámennum námshópum í starfsmenntun og hefja samstarf við kjarnaskóla og fyrirtæki í sínu byggðarlagi. Kjarnaskólar munu veita framhaldsskólum á landsbyggðinni þjónustu vegna þjálfunar kennara, kennslu, skiplagsvinnu og námsefnis. Einnig munu framhaldsskólar vinna að því að fyrirtæki taki að sér hluta kennslunnar í samvinnu við kjarnaskóla. Þetta er mjög ánægjulegt skref sem ráðherrarnir stíga með þessari undirritun og þetta hið besta mál.

Lögreglan tekur Ingibjörgu Sólrúnu á teppið
Í dag er greint frá því á Fréttavef Morgunblaðsins að stjórn Landssambands lögreglumanna hafi átt fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarfulltrúa, vegna ummæla hennar á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í Borgarnesi, þann 9. febrúar sl. Í yfirlýsingu Landssambandsins segir að ræða Ingibjargar Sólrúnar í Borgarnesi og tilsvör hennar í fjölmiðlum í framhaldi af því hafi vakið undrun og óánægju innan raða lögreglunnar. Skilja hafi mátt orð hennar svo, að aðrar en faglegar ástæður geti legið að baki opinberra rannsókna sem tengist tilteknum fyrirtækjum á Íslandi. Stjórn Landssambands lögreglumanna segir það vera ábyrgðarhlut að maður í stöðu Ingibjargar Sólrúnar tjái sig um þessi mál á þann hátt sem hún gerði og leggja megi þann skilning í ummæli hennar, að hún hafi í raun verið að vega að starfsheiðri lögreglunnar og eftir atvikum ákveðnum eftirlitsstofnunum ríkisins. Einnig segir í yfirlýsingunni að Ingibjörg Sólrún hafi fullyrt að dregið hafi verulega úr trausti á öllum helstu stofnunum samtímans og nefnt þar ýmsar til sögunnar þar á meðal lögreglu. Lögreglumenn telja að það gangi þvert á niðurstöður allra viðhorfskannana sem gerðar hafi verið síðustu ár, sem sýni að yfir 70% landsmanna beri traust til lögreglunnar. Engin önnur stofnun hafi áunnið sér slíkt traust almennings að undanskildum Háskóla Íslands.

24 febrúar 2003

Góð pæling hjá Skapta
Í dag skrifar félagi minn, Skapti Örn Ólafsson mjög góða pælingu á heimasíðu Eyverja, f.u.s. í Vestmannaeyjum um skattastefnu ríkisstjórnarinnar og aðför vissra fjölmiðla að góðum árangri Sjálfstæðisflokksins í landsmálum. Er ég honum innilega sammála og verð að birta hluta þessarar góðu greinar hans; "Fyrst ber að nefna "fréttaflutning" fréttastofu Stöðvar 2 sem sló því fram í síðustu viku að skattar hér á landi hafi hækkað í stjórnartíð Davíðs Oddssonar þó að hið rétta í málinu sé að skattar hafi verið að lækka á einstaklinga og fyrirtæki frá 1991. Á síðustu árum hafa eignaskattar m.a. lækkað um helming og skattar á fyrirtæki lækkað úr 30% í 18%. Þá hefur tekjuskattshlutfall á einstaklinga lækkað á síðustu árum. Ekki sá fréttastofa Stöðvar 2, með Kristján Má Unnarsson í fararbroddi, sér ástæðu til að greina frá þessu. Þá er það til marks um óábyrgan málflutning og hræsni þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir að ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafi "ekkert gert" í skattamálum og að skattar hefi hér verið að hækka - þó að annað sé í raun rétt. Skoðum hvernig Ingibjörg Sólrún "stóð sig" sem borgarstjóri og "lækkaði" skatta á borgarbúa. Um hver mánaðarmót greiðir fólk svokallaða staðgreiðslu sem samanstendur af útsvari til sveitarfélags og tekjuskatti til ríkisins. Í stjórnartíð Davíðs Oddssonar hefur tekjuskattshlutfallið lækkað úr 32,80% í 25,75%. Á þessum sama tíma hefur Ingibjörg Sólrún hækkað útsvarsprósentu Reykjavíkurborgar í nær hámark og einnig sett á svokallaðan holræsaskatt. Staðreyndirnar tala sínu máli og er staðreyndin sú að Ingibjörg Sólrún hefur hækkað skatta í stjórnartíð sinni sem borgarstjóri á meðan Davíð Oddsson hefur lækkað skatta umtalsvert í sinni stjórnartíð." Flott hjá þér Skapti, nú er að berja á þessu liði!

Davíð flottur í Hrafnaþingi Ingva Hrafns
Í dag var Davíð Oddsson forsætisráðherra, gestur Ingva Hrafns Jónssonar á Hrafnaþingi á Útvarpi Sögu. Þar sagði Davíð að hann teldi ekki vera efni til þess að borga forstjórum hér á landi 70 milljónir króna í árslaun, en eins og kunnugt er var tilkynnt um helgina að Sigurður Einarsson forstjóri Kaupþings, hefði fengið 70 milljónir króna í árslaun á síðasta ári. Davíð sagði að það yrði að vera hóf í slíkum hlutum sem öðrum og þetta skapaði undarlegar tilfinningar. Það væri óhóf að greiða 6 milljónir króna á mánuði í laun. Sagði Davíð að forstjóraæði, sem verið hefði í Bandaríkjunum fyrir nokkrum misserum og lýsti sér í óhófsgreiðslum til þeirra, væri að ganga til baka. „Við eigum ekki að ganga þessa götu," sagði hann t.d. í þættinum. Þeir Davíð og Ingvi Hrafn ræddu um skattalækkanir en Davíð sagði á viðskiptaþingi nýlega að nú væri að skapast lag til að lækka skatta frekar. Sagði Davíð í útvarpsþættinum að fólk gæti treyst því að þegar hann talaði um skattalækkanir yrði því fylgt eftir. Hann sagðist vera mjög ánægður með að Framsóknarflokkurinn skuli á flokksþingi sínu um helgina hafa tekið vel undir þessar hugmyndir. Forsætisráðherrann sagði að hann teldi sig ekki eiga neitt inni hjá kjósendum þótt frammistaða hans og ríkisstjórna hlyti að verða metin þegar kjósendur gerðu upp hug sinn. Hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn yrði með markvissa stefnu og markviss loforð fyrir kosningarnar og segja við fólk: "Við hlaupum ekki frá loforðum okkar og þið vitið hvar þið hafið okkar". Þá sagði Davíð að honum hefði fundist afar góður tónn í garð stjórnarsamstarfsins á flokksþingi Framsóknarflokksins, þar hefðu menn verið jákvæðir og talað fallega til samstarfsflokksins. Það hlyti að þýða að góður andi sé í stjórnarsamstarfinu.

23 febrúar 2003

Velheppnaður fundur með þingkonunum
Í dag, kl. 15:00, var haldinn á Hótel KEA fundur með þingkonum Sjálfstæðisflokksins, í tilefni konudagsins. Jafnframt var öllum konum boðið á sama tíma til kaffisamsætis bæði á Akureyri og í kvöld á Fosshóteli á Húsavík. Þar voru mættar átta þingkonur flokksins og fluttu þær ræður og kynntu stefnu flokksins og fyrir hvað hann stendur. Hugmyndina að þessum fundum átti þingmaður okkar, Sigríður Ingvarsdóttir. Var það hennar mat að sér fyndist konur ekki sækja pólitíska fundi nógu mikið. Því hafi þeim (þingkonunum) þótt tilvalið að bjóða konum til fundar við þær í tilefni konudagsins. Ekki var annað að sjá í salnum en að eyfirskar og þingeyskar konur væru áhugasamar um að hlýða á þær þingkonur og ræða málin auk þess sem heyra mátti Kvennakór Akureyrar og Gospelkór Húsavíkur flytja nokkur lög á fundunum. Vel var mætt og góð stemmning hjá konunum vegna komandi kosninga og mikið spjallað um pólitík jafnt sem önnur brýn málefni.

22 febrúar 2003

Framsóknarmenn sparka í ISG og Samfylkinguna
Um helgina er haldið í Reykjavík, flokksþing Framsóknarflokksins. Hörð gagnrýni kom fram á Samfylkinguna á flokksþinginu í dag. Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins, sagði m.a. ef einhverjum dytti það í hug í flokknum að skipa sérstakan talsmann í flokknum sem ætti að tala fyrir sína hönd, þá myndi hann segja af sér. Var hann með þessu að vísa til Samfylkingarinnar og hlutverks Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þar. Þá sagði Halldór ljóst að ef flokkurinn fengi ekki nægilegt afl í kosningum til að koma fram sínum málum og stöðugleikanum væri hætt, þá færi flokkurinn ekki í ríkisstjórn. Í lok fyrirspurnartíma á flokksþinginu voru ráðherrar flokksins spurðir með hverjum þeir vildu helst vinna eftir kosningar. Ráðherrarnir lögðu áherslu á að ef flokkurinn fengi aðeins 8-9 þingmenn eins og kannanir bentu til, yrði flokkurinn ekki í næstu ríkisstjórn. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra sagðist þó hafa fulla trú á því að flokkurinn ynni sigur í kosningunum og lagði áherslu á að Ingibjörg Sólrún væri ekki forsætisráðherraefni Framsóknarflokksins, heldur Halldór Ásgrímsson. Þá sagði hann það gróft af hálfu Samfylkingarinnar að halda því fram, að ekki væri hægt að kjósa Halldór eða Davíð vegna þess hve þeir væru búnir að vera formenn flokka sinna lengi. Sagði Guðni að þjóðin myndi kjósa þá báða. Halldór sagðist telja það fráleitt skipulag í stjórnmálaflokki að formaður flokksins sæti á þingi og síðan sé talsmaður flokksins utan þings. Hann sagði að flokkurinn gæti ekki verið í ríkisstjórn nema hafa afl til þess og hvernig hann gæti komið fram þeim málum sem samþykkt yrðu á flokksþinginu. Hann sagði einnig að flokkurinn myndi ekki taka þátt í neinni ævintýramennsku. Gott mál að frammarar sparki í Sollu skattó og hennar lið.

21 febrúar 2003

Málefnasnauð Samfylking - Gróa á Leiti mætt til leiks
Eins og flestir vita er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi, aftur komin á vettvang landsmálanna, eftir níu ára fjarveru. Hún hélt fyrstu alvöru ræðu sína sem forystuefni jafnaðarmanna á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í Borgarnesi, 9. febrúar sl. Bjuggust margir við að þar færi hún yfir helstu málefni flokksins og sín sem leiðtoga í komandi kosningabaráttu. Hætt er við að þeim sem áttu von á ítarlegri ræðu um stefnu flokksins og framtíðarsýn hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum. Hvergi er hægt að sjá í ræðunni að leiðtogaefni Samfylkingarinnar hafi málefnalega víðsýni eða ætli að vera boðberi einhverra sérstaka málefna í baráttunni. Ræða hennar einkenndist í senn af rakalausum dylgjum og gróusögum sem settar voru fram til að koma því inn hjá þjóðinni að stjórnvöld væru gerspillt og þau færu illa með vald sitt. Var einkennilegt að forystumanneskja í pólitík mætti í landsmálin stefnulaus og greinilega full af persónulegu hatri í garð forsætisráðherrans. Það er greinilegt að prímus mótor hennar í baráttunni mun vera andstyggð hennar á Sjálfstæðisflokknum og leiðtoga hans. Samfylkingin stendur enda mjög veikum fótum málefnalega séð og hefur engin málefni til að kynda kosningavél sína áfram. Þar er hræðsluáróður drifkrafturinn í aðdraganda kosninganna. Þessar ásakanir leiðtogaefnis Samfylkingarinnar eru með öllu órökstuddar og settar fram sem einskonar gróusögur sem almenningur á að taka sem sannleik. Með þessu vegur leiðtogaefnið gróflega að starfsheiðri lögreglumanna og starfsfólks embættis Skattrannsóknarstjóra. Það er með ólíkindum að forystumanneskja í pólitík sem vill láta taka sig alvarlega mæti á vettvang landsmála með gróusögur sem helsta bakgrunn boðskaps síns. Eðlilegra hefði verið að hún hefði tilkynnt þjóðinni áherslur sínar og stefnu í komandi kosningum og opnað hið fræga Pandórubox sitt. Það er helst hægt að skilja á ræðu hennar í Borgarnesi að málefnaleg staða hennar sé mjög veik og þar séu engin málefni til að tala um. Það er kannski skiljanlegt ef litið er á stöðu mála. Það eru engar forsendur fyrir breytingum. Hverjum myndi detta í hug að skipta út skipstjóra sem hefði verið fengsælli en nokkur annar á miðunum í 12 ár bara vegna þess að það þurfi að breyta. Sennilega engum heilvita manni. Fjalla ítarlega um þetta í pistli á heimasíðu Heimdallar í dag.

Góðir pistlar á frelsi.is
Í vikunni hafa birst á frelsi.is margir góðir pistlar. Í byrjun vikunnar fjölluðu Ragnar og Hafsteinn Þór um valkostina í komandi kosningum í ítarlegri grein sem ég hef áður fjallað um hér. Á þriðjudag fjallaði frændi minn, Atli Rafn Björnsson gjaldkeri Heimdallar um skattalækkunarhugmyndir forsætisráðherra og varaði við að menn kysu yfir sig skattahækkunardrottninguna Ingibjörgu Sólrúnu. Á miðvikudaginn fjallaði Kristinn Már Ársælsson um traust á stjórnmálamönnum og spurði einfaldlega; Hverjum getum við treyst? Í gær var svo Þorbjörn Þórðarson stjórnarmaður í Heimdalli með góða grein um kenningar Person, Tabellini og fleiri manna um það hversu skynsamir kjósendur séu og að þeir telji sig geta séð fyrir efnahagsstefnu stjórnvalda og þróun helstu efnahagsstærða. Bendir Tobbi réttilega á að sú útkoma myndi verða okkur hægrimönnum mjög til góða við þessar kosningar. Nú þegar tæpir þrír mánuðir eru til kosninga er ljóst að við sem skrifum á frelsinu erum farin að búa okkur undir beitta kosningabaráttu og spennandi. Það er greinilegt að við erum komin í kosningagírinn og munum verða virk í komandi átökum.

20 febrúar 2003

Athyglisverð könnun á fylgi flokkanna í Norðausturkjördæmi
Samkvæmt könnun sem Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri gerði kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru með mest fylgi í Norðausturkjördæmi. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fengju þrjá þingmenn, hvor flokkur, Samfylkingin tvo og Vinstrihreyfingin-grænt framboð einn kjördæmakjörinn mann. Samkvæmt könnuninni fengju Vinstri grænir jöfnunarsætið og samtals því tvo þingmenn. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist í könnuninni 28,1%, fylgi Framsóknarflokks 27,8%, fylgi Samfylkingar 24,1%, fylgi VG 17,8% og fylgi Frjálslynda flokksins mælist 2,4%. Fylgi Framsóknarflokksins er minnst á Eyjafjarðarsvæðinu eða 19% en langmest á Austurlandi þar sem það mælist 45%. Fylgið við Framsóknarflokkinn á norðausturhorninu er 29%. Fylgi Sjálfstæðisflokksins var svipað um allt kjördæmið. Það mældist mest í Eyjafirði eða 29%, 27% á Austurlandi og 25% á norðausturhorninu. Fylgi Samfylkingarinnar var minnst á Austurlandi,19%, en mest í Eyjafirði, 27%. Á norðausturhorninu mældist fylgið 21%. Fylgi VG mældist aðeins 7% á Austurlandi en 22-23% í Eyjafirði og á norðausturhorninu. Fylgi Frjálslynda flokksins var 2-3% á öllu svæðinu. Könnunin var gerð í gegnum síma 29. janúar til 12. febrúar og var úrtakið 1.000 manns á aldrinum 18 til 80 ára. Endanlegt úrtak var 900 manns og svör fengust frá 635 eða 71% úrtaksins. Samtals voru 30% þátttakenda óákveðnir eða neituðu að svara og 6% sögðust ekki ætla að kjósa. Ef þessar tölur yrðu úrslit kosninga yrðu þessir einstaklingar þingmenn kjördæmisins.

Borgarstjóri viðurkennir svikin loforð R-listans
Ítarlegar umræður fóru fram í borgarstjórn Reykjavíkur í dag. Þar var farið yfir svör Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, við fyrirspurn borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins um skuldastöðu borgarinnar í valdatíð R-listans. Fór Björn Bjarnason yfir svör borgarstjóra í ítarlegri ræðu í borgarstjórn og sagði m.a.: "Í svörum borgarstjóra við fyrirspurn sjálfstæðismanna er allt það staðfest, sem sjálfstæðismenn hafa sagt um þróun fjármála borgarinnar og ekki hnekkt neinu af því, sem fram hefur komið í máli þeirra. Með svari borgarstjóra er enn hið sama staðfest og talsmenn R-listans viðurkenndu á síðasta fundi borgarstjórnar, að skuldir Reykjavíkurborgar hafa margfaldast frá því að þeir tóku við fjármálastjórn borgarinnar. Verður í raun sífellt sérkennilegra að heyra útskýringar fulltrúa meirihlutans um fjármálastöðu borgarinnar, einkum í ljósi þess, að þeir hafa hvað eftir annað lofað borgarbúum að lækka skuldir þeirra. Nú er staðan hins vegar orðin sú, að skuldabagginn á mann er þyngstur í Reykjavík, þegar borið er saman við stóru sveitarfélögin í landinu, það er 733 þúsund krónur. Það að verja vondan málstað með innantómum slagorðum breytir ekki þeirri staðreynd, að Reykvíkingar verða fyrr eða síðar að greiða þessar skuldir. Er sorglegt að verða vitni að því, þegar talsmenn R-listans fagna því að hafa kastað þessum byrðum á komandi kynslóðir og telja sér það til sérstaks hróss. Það er ljóst að það nægir ekki að líta á fegraðan borgarsjóð, þegar rætt er um skuldir Reykvíkinga – það verður að líta á skuldir Reykjavíkursamstæðunnar. Aðeins með því fáum við rétta mynd af þeim skuldum, sem hvíla á Reykvíkingum fyrir tilverknað R-listans. Enn segist R-listinn vilja minnka skuldir, þótt þær vaxi ár frá ári og um 30% umfram áætlun á árinu 2002. Er það af ótta við, að það stefni í sömu átt á árinu 2003, að borgarstjóri treystir sér ekki til að miða við fjárhagsáætlun þess árs í svari sínu?".

19 febrúar 2003

Ársafmæli heimasíðunnar minnar
Í dag, 19. febrúar 2003, er ár liðið frá því að ég opnaði heimasíðu á Netinu. Ég ákvað eftir mikla umhugsun að réttast væri að ég setti pistlana mína saman á einn stað, það væri athyglisvert að geyma þá alla á sama staðnum. Ég hef alla tíð haft mjög mikinn áhuga á stjórnmálum og pólitískri umræðu og fannst þá tilvalið að ég kæmi fram með mínar skoðanir og gerði það á minn hátt. Ég hef frá upphafi engan leynt að ég er flokksbundinn Sjálfstæðismaður og er málsvari hugsjóna þeirra sem flokkurinn hefur kennt sig við og er dyggur stuðningsmaður flokksins og forystumanna hans. Þegar ég tók þá ákvörðun að setja upp mína eigin síðu renndi ég eiginlega blint í sjóinn með það, ég vissi ekki hvaða viðtökur ég myndi fá og hvort fólk myndi yfir höfuð hafa áhuga á síðunni sem slíkri. Fyrst í stað var því ekki hægt að sjá hversu margir litu á hana. Með því að setja upp teljara hef ég fylgst með fjölda gesta hér og 24. ágúst 2002 náði sá fjöldi yfir 10.000 heimsóknir, í nóvember fór talan í 20.000 og í janúar í 30.000. Í dag, á ársafmæli síðunnar, er fjöldi heimsókna komin í 35.000. Í kjölfar þess að ég opnaði bloggsíðuna fyrir fimm mánuðum, hefur fjöldinn aukist mjög og ljóst að margir hafa áhuga á að lesa þær pælingar mínar og greinar eftir mig. Þeir sem líta á síðurnar mínar eru alls ekki allt einstaklingar sem eru sammála mér í stjórnmálum. Ég er mjög ánægður með að pistlarnir vekja áhuga fólks úr ýmsum flokkum og eru lesnir af fólki með mjög ólíkar stjórnmálaskoðanir. Ég hef fengið marga tölvupósta þar sem fólk tjáir sig um síðuna og um sínar skoðanir, ég er ánægður með þessi viðbrögð, og þakka kærlega fyrir þau.

Hannes Hólmsteinn fimmtugur
Í dag er dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, fimmtugur. Það er held ég á engan hallað þó að ég fullyrði að Hannes sé einn ötulasti og atorkusamasti talsmaður frelsisins á Íslandi. Máttur hans er slíkur að allir hlusta á það sem hann segir og um hann eru mjög deildar meiningar, en allir hlusta á hann og taka mark á orðum hans, þó andstæðingar hans fullyrði annað. Annars myndu þeir ekki tjá sig um stefnu hans og tjáningu hans á henni með þeim hætti sem gert er. Í tæpa þrjá áratugi hefur dr. Hannes verið duglegri en flestir aðrir að boða frjálsræði í hverri þeirri mynd sem fólk kannast við. Hann hefur verið talsmaður frjálsra fjölmiðla, frjálsri gjaldeyrisnotkun, lækkun skatta, einkavæðingu, afnámi hafta og svona mætti lengi telja. Með baráttu sinni hefur hann orðið óvinur vinstrimanna nr. 1 á Íslandi og hiklaust táknmynd frjálshyggjunnar hérlendis, hvorki meira né minna. Það eru fáir menn í nútímanum hér á landi sem orðið hafa umdeildari í lifanda lífi. Eitt má dr. Hannes eiga, skoðanir hans eru þær sömu og voru fyrir þrem áratugum, hann hefur ekki lent í gjaldþroti með hugsjónir sínar eins og vinstrimenn sem fylgt hafa mörgum boðskapnum gegnum tíðina og strandað með honum. Hann getur óhræddur horfst í augu við hugsjón sína eftir öll þessi ár - og það sem meira er, verið stoltur af henni á sama tíma. Dr. Hannes hefur verið maður til að standa og falla með skoðunum sínum og getur staðið hnarreistur á þessum tímamótum er litið er yfir farinn veg, hann má vera stoltur af sinni framgöngu og skoðunum. Í hann er vitnað jafnt af samherjum sem og andstæðingum og tekið er mark á því sem hann segir, það er besti vitnisburður þess að hann hefur boðað rétta stefnu. Ég óska frænda mínum; hugsjónamanninum og fræðimanninum Hannesi Hólmsteini til hamingju með daginn. Það er greinilegt að við sem erum af Guðlaugsstaðaættinni þorum að tjá okkar skoðanir og standa og falla með því. Hvet alla til að lesa frábæra afmælisgrein um Hannes á VefÞjóðviljanum.

Jón Hákon byrjaður að blogga aftur
Það er gott að vita til þess að vinur minn og félagi, Jón Hákon ritstjóri frelsi.is, sé farinn að blogga á ný eftir nokkurt hlé. Hlakka til að lesa vangaveltur hans um pólitíkina á næstu mánuðum. Svo má ég til með að þakka bæði honum og vini mínum og félaga á frelsinu, Hauki kanzlara, fyrir að bæta mér á tenglalistana sína. Við félagarnir verðum svo duglegir við að tjá skoðanir okkar á frelsinu í aðdraganda kosninganna. Það er verk að vinna og við munum hamra á andstæðingunum í kosningabaráttunni.

18 febrúar 2003

Deiglan 5 ára - stjórnmálamaður ársins 2002 valinn
Sl. laugardag var haldið upp á 5 ára afmæli vefritsins Deiglunnar í hátíðarsal Menntaskólans í Reykjavík. Var þar mikið fjölmenni samankomið til að fagna afmæli vefsíðunnar, og leit ég í veisluna eftir forystumannaráðstefnu SUS. Heiðursgestur var Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, en hann varð eins og kunnugt er sextugur á dögunum. Hélt ráðherra ítarlega og góða ræðu og talaði um fjölmiðlun á Netinu og mikilvægi þess og jafnframt öra þróun netskrifa um pólitík á seinustu árum á ýmsum vefsíðum tengdum ólíkum stjórnmálaskoðunum. Að lokinni ræðu ráðherrans flutti Egill Helgason sjónvarpsmaður, ávarp um síðuna og gildi hennar í þjóðfélagsumræðunni seinustu 5 árin. Eins og flestum er kunnugt er Egill einn af brautryðjendum spjallþátta um pólitík eins og við þekkjum þá nú í dag og þáttur hans Silfur Egils, mikilvægur punktur í umræðunni. Að þessu loknu var tilkynnt um val á stjórnmálamanni ársins 2002 og varð Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ, fyrir valinu. Hann sneri aftur á vettvang sveitarstjórnarmála á síðasta ári er hann tók við leiðtogastól Sjálfstæðisflokksins í bænum af Ellert Eiríkssyni og vann afgerandi sigur eftir að hafa tvívegis beðið ósigur í borgarstjórnarkosningum, fyrir hinni ómálefnalegu Ingibjörgu Sólrúnu. Átti Árni skilið sigurinn í fyrra og ekki síður þessa útnefningu Deiglumanna. Að þessu loknu var boðið upp á veitingar og spjallað saman og er óhætt að segja að pólitík hafi þar verið ofarlega á baugi.

Samfylkingin bakkar í Evrópumálum í kjölfar kannana
Í morgun voru Björn Bjarnason og Össur Skarphéðinsson, gestir Jóhönnu og Þórhalls í Íslandi í bítið og þar var farið yfir pólitísk mál seinustu vikna. Í kjölfar kostulegrar Evrópukosningar innan flokksins kom formaður Samfylkingarinnar fram og sagði að þar færi eitt af stærstu kosningamálum 2003; semsagt Evrópumálin. Í morgun bar svo við að sami leiðtogi hefur snúist einn hring í viðbót kringum sjálfan sig, eða svo sýnist mér. Nema hann hafi farið öfugum megin framúr rúminu sínu í morgunsárið. Þá sagði formaðurinn að hann hefði ekki lagt þunga áherslu á vilja sinn til að Ísland gangi inn í Evrópusambandið. Það er alveg greinilegt að hann er annaðhvort minnislaus orðinn maðurinn eða hefur ekki heyrt eins vel frá sjálfum sér og við sem fylgjumst með pólitíkinni allajafnan. Í morgun sagði hann uppúr þurru að Evrópumálin yrðu ekki eitt af höfuð kosningamálunum. Hann telur þetta ekki verða eitt af höfuð kosningamálunum. Þá er sennilega von að einhver með vit í kollinum spyrji sjálfan; hvernig stóð eiginlega á því að Samfylkingin hélt risastóra póstkosningu um málið innan sinna raða fyrir aðeins örfáum mánuðum síðan og voru í kjölfarið með gapandi munninn í sjónvarpsþáttum og fréttum næstu vikur á eftir að reyna að breiða út þann fagnaðarboðskap sinn að Íslendingar gengju Evrópusambandinu á hönd og predikuðu þessa stórkostlegu niðurstöðu sem kom fram í kosningunni. Formaður Samfylkingarinnar hefur aldrei þótt trúverðugur pólitíkus og því kannski engin frétt að hann snúist enn einn hring. Það skyldi þó ekki vera að Skoðanakannafylkingin láti stjórnast af nýjustu skoðanakönnunum sem sýna lítinn stuðning við ESB-aðild Íslendinga. Það kæmi ekki á óvart, enda forystan oft búin að segja að stefna flokksins yrði mótuð af skoðanakönnunum. Þetta er gleggsta dæmi þess. Fjalla betur um þetta í pistli á heimasíðu Stefnis í dag.

17 febrúar 2003

Skemmtileg suðurferð
Fór suður á laugardagsmorgun til að fara á forystumannaráðstefnu SUS í Valhöll. Ráðstefnan var mjög gagnleg, ræðurnar mjög góðar og athyglisverðar. Sérstaka athygli mína vakti afbragðsgóð ræða Haraldar Johannessen um efnahagsmál. Þar fór hann yfir frábæran árangur Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum seinustu þrjú kjörtímabil. Ásdís Halla Bragadóttir fór yfir árangur flokksins í menntamálum og var ræða hennar mjög kraftmikil. Svo voru Sigurður Kári, Þorgerður Katrín og Ásta með mjög góðar ræður. Í lokin gerði Hafsteinn Þór grein fyrir störfum nefndar innan SUS vegna komandi kosninga og kynnti áherslur ungliðanna í baráttunni. Var ræða Haffa mjög kraftmikil og mikil ánægja með áherslurnar sem nefndin kom fram með. Mikið var spjallað í kaffihléinu og á eftir ráðstefnunni og plottað um næstu vikurnar í pólitíkinni og greinilegt að mikil samstaða er meðal sjálfstæðismanna nú þegar styttist í þingkosningarnar. Margir mættu á ráðstefnuna og góð stemmning og greinilegt að mikil endurnýjun er að eiga sér stað um allt land í félögum ungliðanna. Mjög ánægjulegt var að ræða við forystumenn félaganna um allt land og finna þann góða samhljóm sem var í máli okkar allra. Ef baráttan verður málefnaleg og jákvæð óttast ég ekki úrslitin. Enda sé ég engar forsendur fyrir breytingum þegar svo vel gengur sem nú er raunin í þjóðfélaginu. Um kvöldið hélt Heimdallur svo partý og var mikil gleði þar og allir í góðu stuði. Þetta var mjög góð helgi.

Góður pistill Hafsteins og Ragnars
Í dag birtist á heimasíðu Heimdallar góður pistill eftir Hafstein Þór Hauksson varaformann SUS og Ragnar Jónasson stjórnarmann í Heimdalli. Þar segja þeir að kjósendur hafi skýran valkost í kosningunum í vor. Hægri eða vinstri. Þeir rekja síðan að ekkert eitt baráttumál sýni betur muninn á hægri og vinstri en afstaðan til skattamála. Hægrimenn vilja eins og flestir vita lægri skatta en vinstrimenn sífellt hærri. Þeir fara síðan yfir skattalækkanir þær sem forsætisráðherra lýsti yfir vilja sínum til á dögunum. Hann treystir einstaklingum betur en ríkinu til að ráðstafa tekjum sínum, að þeirra mati. Svo segja þeir: "Vinstrimenn hafa nú í aðdraganda kosninga reynt að beina athyglinni frá því sem máli skiptir. Í stað þess að tala um málefnin er helsta baráttumál þeirra að koma Davíð Oddssyni frá völdum. Rökin eru einfaldlega þau að hann hafi setið of lengi. Þetta eru auðvitað fráleit rök enda öllum ljóst hvílíkar umbætur hafa orðið í efnahagsmálum sem og á flestum öðrum sviðum þjóðfélagsins síðan Sjálfstæðisflokkurinn tók við af síðustu vinstristjórn." Er þeim sammála og tel grein þeirra virkilega góða og segja allt sem segja þarf. Skattalækkanir sýna nefnilega mun betur en nokkuð annað baráttumál kjarna þess sem hægrimenn berjast fyrir. Það er ekki hægt að hugsa sér skynsamlegri leið til að eyða peningum skattgreiðenda en að endurgreiða þá, enda á það að heyra til undantekninga að ríkisvaldið þurfi að taka peninga af borgurunum og ákveða fyrir þá hvernig er best að ráðstafa þeim. Að lokum segja þeir félagar: "Ómálefnalegur málflutningur vinstrimanna dæmir sig sjálfur. Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn stendur nú sem fyrr fyrir sömu grundvallarsjónarmið - frelsi einstaklingsins og minni ríkisumsvif. Það er mikilvægt að vinstrimönnum takist ekki að slá ryki í augu kjósenda, eins og skoðanakannanir hafa bent til. Ef einhver er í vafa ætti sá hinn sami að rifja upp helstu „afrek“ síðustu vinstristjórna lýðveldisins. Þá ætti valið í vor að verða auðvelt." Hvet alla til að lesa pistil þeirra og jafnframt Moggagrein Sigga Kára sem birtist í dag.

15 febrúar 2003

Forystumannaráðstefna SUS 2003 í dag
Í dag, kl. 13:00, verður í Valhöll, forystumannaráðstefna SUS 2003. Kosningabaráttan vegna komandi alþingiskosninga, laugardaginn 10. maí 2003, er að hefjast af fullum krafti og því mikilvægt að ungir sjálfstæðismenn hittist og ræði málin í upphafi baráttunnar og stilli saman strengi sína. Vönduð dagskrá er á ráðstefnunni og margar athyglisverð erindi og góðir ræðumenn. Eftir setningu Ingva Hrafns Óskarssonar formanns SUS, mun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir alþingismaður, fjalla um Íslenska stjórnsýslu. Haraldur Johannessen hagfræðingur, talar um efnahagsmál. Ásdís Halla Bragadóttir bæjarstjóri í Garðabæ, flytur erindi um menntamál, og Ásta Möller alþingismaður, um heilbrigðismál. Sigurður Kári Kristjánsson verðandi alþingismaður, fjallar um Ísland og Evrópusambandið. Að lokum mun Hafsteinn Þór Hauksson 1. varaformaður SUS fjalla um störf nefndar innan flokksins um alþingiskosningarnar í vor og áherslur ungra sjálfstæðismanna vegna þeirra. Að því loknu má búast við miklu spjalli um komandi kosningabaráttu og rætt um það sem hæst ber. Um kvöldið býður Heimdallur svo í fagnað. Framundan er skemmtileg ráðstefna og skemmtilegar pælingar um kosningabaráttuna framundan. Að sjálfsögðu skelli ég mér á ráðstefnuna og flýg með tíuvélinni suður í dag.

Umfjöllun um bloggara í Fréttablaðinu
Í dag birtist í Fréttablaðinu umfjöllun um bloggara og bloggmenninguna sem grasserar nú um stundir. Er ég einn af fimm bloggurum sem segja frá sinni hlið á þessu og áhugamálum sem fram koma í skrifunum. Eins og gestir síðunnar taka eftir eru stjórnmál veigamikill þáttur skrifa minna hér, enda hef ég mikinn áhuga á þeim. Einnig skrifa ég oft um kvikmyndir og svo fljóta inn á milli daglegar pælingar. Aðallega eru þetta þó stjórnmálaskoðanir mínar sem birtast hér. Frá því ég byrjaði að pára þetta í október 2002, hef ég fengið marga pósta og spjalla við marga sem fylgjast með þessum skrifum. Er gríðarlega gaman að því, enda alltaf áhugavert að skiptast á skoðunum við annað fólk. Tók þá ákvörðun í upphafi að kalla þetta Pælingar Stebba svona til að undirstrika að ég hér væru léttar pælingar um allt mögulegt og skoðanir settar fram af miklum krafti. Greinilegt að einhverjir hafa á þessu áhuga, enda hefur fjöldi heimsókna aukist mjög og gaman að sjá teljarann staðfesta það að fylgst er með þessu. Var í fyrstu ekkert alltof hrifinn af þessu tjáningarformi og þrjóskaðist lengi vel við að byrja, þó margir þeirra sem ég þekki hefðu byrjað og hvatt mig til að byrja á þessu. Byrjaði svo í október og síðan er ég "óstöðvandi", eins og einn félagi minn sagði. Ætla að halda þessu áfram og hlakka til að tjá mig hérna í kosningabaráttunni, sem verður lífleg ef fram fer sem horfir. Það var gaman að tjá sig um bloggskrifin þegar eftir því var leitað og skemmtilegt að vera í þessum góða hópi eðalbloggara sem þar tjáir sig.

14 febrúar 2003

Afmæli Tómasar Inga
Í gær varð Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, sextugur. Tómas og Nína Þórðardóttir eiginkona hans, tóku á móti gestum í Oddfellow-húsinu á Akureyri síðdegis í gær í tilefni þess. Auk skyldmenna þeirra mættu til fagnaðarins fjölmargir vinir og samstarfsmenn. Þar voru einnig samankomnir forystumenn Sjálfstæðisflokksins, í ríkisstjórn, þingflokknum og í kjördæminu. Veislustjóri var Guðmundur Heiðar Frímannsson og fjöldi góðra ræðna voru fluttar. Geir H. Haarde fjármálaráðherra, flutti ræðu fyrir hönd formanns flokksins og forsætisráðherra, sem var erlendis á fundi. Hann afhenti Tómasi gjöf fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og flutti góða ræðu. Sigríður Anna Þórðardóttir þingflokksformaður, ávarpaði menntamálaráðherra, fyrir hönd þingflokksins og Halldór Blöndal forseti Alþingis, fyrir hönd sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi. Ennfremur flutti Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, ræðu fyrir hönd samstarfsmanna úr Framsóknarflokknum í ríkisstjórninni og Tryggvi Gíslason skólameistari MA fyrir hönd fyrrum samstarfsmanna úr Menntaskólanum, en þar kenndi Tómas í rúma tvo áratugi. Gunnar Ragnars formaður kjördæmisráðsins, flutti ræðu fyrir hönd sjálfstæðisfélaganna í kjördæminu og Þorsteinn Gunnarsson rektor HA flutti ræðu. Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, flutti einnig hnyttna ræðu sem viðstaddir hlógu mjög að, enda skemmtileg mjög. Að lokum ávarpaði afmælisbarnið gesti og þakkaði fyrir sig í löngu og ítarlegu máli. Þetta var skemmtileg afmælisveisla sem lengi verður í minnum höfð.

Athyglisverð skoðanakönnun Talnakönnunar
Í skoðanakönnun Talnakönnunar fyrir vefsvæðið heimur.is dagana 10.-13. feb. fengu Sjálfstæðisflokkur og Samfylking áþekkt fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 38,4% fylgi (36,4% síðast), Samfylkingin mælist með 37,7% (39,7%), Framsóknarflokkurinn 11,6% (13,3%) Vinstri-Grænir 9,8% (8,8%) og Frjálslyndir 2,1% (2,5%). Samkvæmt þessu fengi Sjálfstæðisflokkur 24-25 þingmenn (26 núna), Samfylking 23-24 (17 nú), Framsókn 7 (12 nú) og Vinstri grænir 6-7 (6 nú). Líklega dyttu Frjálslyndir út vegna þess að þeir fengju engan kjördæmakjörinn mann (2 nú). Síðasta könnun Talnakönnunar var gerð 20-22. janúar 2003. Greinilegt er að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa meira fylgi meðal karla en kvenna en þessu er öfugt varið með Samfylkinguna. Þessi könnun sýnir ekki mikla breytingu frá því síðasta könnun var gerð. Samfylkingin og Framsókn eru ívið minni og Sjálfstæðisflokkur og Vinstri-Grænir ívið stærri, sé miðað við síðustu könnun. Munurinn á könnununum tveim er ekki marktækur. Skv. frétt heims.is eru vikmörk allnokkur eða miðað við 95% vissu eru þau +/-5,0%. Þetta þýðir t.d. að í spá um fjölda þingmanna Samfylkingar og Sjálfstæðismanna gæti munað 2-3 þingmönnum til eða frá. Hjá hinum flokkunum er óvissan minni í prósentustigum talið eða 1-2 þingsæti. Sem fyrr segir ræður miklu hvort Frjálslyndir ná inn manni en það virðist ólíklegt miðað við þessa könnun. Í nýjustu könnun Fréttablaðsins var fylgi Samfylkingarinnar talsvert meira og Sjálfstæðismanna minna en það virðist hafa verið úrtaksfrávik. Í öðrum könnunum eru niðurstöður áþekkar og því líklegt að þessi könnun endurspegli vel stöðuna í þjóðmálum núna. Það vekur athygli að margir eru óákveðnir og Samfylkingin er að taka fylgi frá vinstri samherjum sínum og spurning hvenær fylgið leitar til baka. Hvet fólk til að lesa pistil Benedikts Jóhannessonar um ræðu ISG í Borgarnesi, góð úttekt hjá honum.

13 febrúar 2003

Tómas Ingi Olrich sextugur
Í dag er Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, sextugur. Tómas Ingi fæddist á Akureyri og ólst þar upp. Hann lauk stúdentsprófi frá MA 1963, stundaði nám í frönsku og sagnfræði vid 1963-64, stundadi nám í frönsku og frönskum bókmenntum, ensku og atvinnulandafræði 1964-70 við Université de Montpellier í Frakklandi og lauk þaðan Maître ès lettres modernes-prófi 1970. Hann var kennari við MA 1970-91, aðstoðarskólameistari MA 1973-83, hótelstjóri Hótel Eddu á Akureyri 1971-73, ritstjóri Íslendings 1984-85. Tómas Ingi hefur verið alþingismaður Nordurlandskjördæmis eystra fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1991 og menntamálaráðherra Íslands frá 2. mars 2002, er hann tók við ráðherraembætti af Birni Bjarnasyni. Hann sat í iðnaðarnefnd Alþingis 1991-95, í menntamálanefnd 1991-2001, í umhverfisnefnd 1991-1999, í sérnefnd um stjórnarskrármál 1994-96, í utanríkismálanefnd 1995-2002, formaður utanríkismálanefndar 1997-2002, í heilbrigðis- og trygginganefnd 1999-2002, í fjárlaganefnd 2001-2002. Tómas Ingi var varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri 1974-76 og bæjarfulltrúi 1976-1978, í skipulagsnefnd Akureyrar um árabil og formaður hennar 1990-91, formaður Háskólanefndar Akureyrar 1985-87, í stjórn Háskólans á Akureyri 1988-90, formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga 1983-91, í stjórn Skógræktarfélags Íslands 1985-91, í stjórn KA 1988-91, í stjórn Slippstöðvarinnar á Akureyri 1991-92. Hann var varaformaður Ferðamálaráðs Íslands 1993-99 og formaður ráðsins 1999-2002. Ennfremur var Tómas Ingi var formaður útvarpslaganefndar 1992-94 og formaður nefndar um stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málefnum upplýsingasamfélagsins 1995-96. Hann sat í endurskoðunarnefnd um stjórn fiskveiða 1999-2001. Ég óska honum innilega til hamingju með daginn.

Gettu betur hefst í Sjónvarpinu í kvöld
Í kvöld hefst spurningaleikurinn frábæri Gettu betur í Sjónvarpinu. Eftir standa nú átta lið eftir útvarpskeppnina, allt úrvalslið sem eiga góða möguleika á að sigra. Eins og flestir vita hefur Menntaskólinn í Reykjavík unnið nú samfellt í áratug. Þykir mörgum (þ.m.t. mér) að nú sé tími til kominn að annað lið fari með sigur af hólmi. Því verður þó ekki neitað að MR-ingar hafa staðið sig gríðarlega vel í keppninni í gegnum árin og vel að skipulagningu staðið þar á ári hverju. Það er hreint ótrúlegt að sami skóli haldi velli jafn lengi og raun ber vitni, með MR og greinilega mikill metnaður í skólanum fyrir því að ná árangri í keppninni. Menntaskólinn á Akureyri heldur uppi heiðri okkar Akureyringa eins og svo oft áður, en skólinn vann keppnina 1991-1993. Þau lið sem komast í átta liða úrslitin auk MR og MA eru: Verzlunarskóli Íslands, Flensborgarskólinn í Hafnarfirði, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Fjölbrautaskólinn Ármúla, Menntaskólinn við Sund og Fjölbrautaskóli Suðurnesja. Hef mikinn áhuga á góðum spurningakeppnum og því pottþétt mál að ég fylgist með af áhuga næstu vikurnar með viðureignum skólanna og skemmtilegum spurningum. Dómari í ár er eðalbloggarinn Sveinn Guðmarsson, spyrill er Logi Bergmann Eiðsson og stigavörður er engin önnur er Varðarkonan og bloggarinn Svanhildur Hólm Valsdóttir, frænka mín. Í dag opnaði svo stórskemmtilegur vefur helgaður keppninni. Hvet alla til að líta á hann og horfa að sjálfsögðu á keppnirnar!

12 febrúar 2003

Davíð vill skattalækkanir - mikið ánægjuefni
Í dag flutti Davíð Oddsson forsætisráðherra, athyglisverða ræðu á viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands. Þar boðaði skattalækkun - loksins, hefði einhver sagt. Hann sagði að staða ríkissjóðs væri sterk og að það væri ástæðulaust að láta hann fitna um of. Davíð sagði í ræðu sinni að hagvöxtur á þessi ári yrði um 1,75%, á næsta ári 3% og á næstu árum þar á eftir væri áætlað að hann yrði enn hærri. Það er mikið ánægjuefni að skattalækkanir séu framundan. Það hefur lengi verið mikið baráttumál Sambands ungra sjálfstæðismanna að lækka skatta og yngstu þingframbjóðendur flokksins lögðu mikla áherslu á það í prófkjörsbaráttum sínum í nóvember. Því er ánægjulegt að forysta flokksins tryggi að skattar verði lækkaðir, fyrir kosningar. Þetta er löngu tímabært. Forsætisráðherrann sagði einnig lækkandi „vextir Seðlabanka Íslands og stigvaxandi uppkaup hans á gjaldeyri sem notaður er til að greiða niður skammtímaskuldir sem safnað var þegar aðstæður voru þveröfugar við það sem nú gerist, ættu að stuðla að betra jafnvægi þegar fram í sækir, þannig að útflutningsgreinarnar geti búið við þolanlega stöðu gengisins.“ Þá sagði hann að ríkið hlyti einnig að velta fyrir sér hvort það geti breytt erlendum skuldum sínum í innlendar. Þó þyrfti um leið að geta þess að slíkar aðgerðir leiði ekki til ótímabærrar hækkunar á innlendum vöxtum. „Aðgerðir og ákvarðanir á markaði, ákvarðanir hins opinbera og sérstaklega framangreindur atbeini Seðlabanka Íslands ættu að geta haft úrslitaáhrif á að lífvænlegt jafnvægi gengis náist sem fyrst,“ sagði Davíð. Forsætisráðherra sagði að fólk þyrfti að átta sig á að hækkandi vextir slái hraðar á þenslu en lækkandi vextir veki væntingar. Lækkandi vextir þurfi því lengri tíma til að hafa áhrif inn í þjóðfélagið en hækkandi. Þá sagði Davíð: „Menn horfa til vaxtaákvarðana og verðbólgu í sama vetfangi, en manni virðist þó stundum að vextir séu ekki alltaf ákveðnir til þess að hafa áhrif á verðbólguna, heldur sendir til þess að elta hana. Þannig á ekki að nota vexti. Vaxtaákvarðanir verða að vita að framtíðinni vegna þess hve hægt vaxtabreytingar virka sem efnahagstæki.“

Ingibjörg Sólrún rökstyðji aðdróttanir sínar
Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna ályktaði á fundi sínum í gær að fordæma málflutning Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarfulltrúa. Ályktunin fer hér á eftir: "Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna fordæmir málflutning Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sl. sunnudag. Þar lét borgarfulltrúinn að því liggja að forsætisráðherra hefði staðið fyrir rannsóknum lögreglu og skattyfirvalda hjá tilteknum fyrirtækjum og einstaklingum. Þessar aðdróttanir eru með öllu órökstuddar og beinast ekki aðeins að forsætisráðherra heldur einnig starfsheiðri lögreglumanna og starfsfólks embættis Skattrannsóknarstjóra. Árlega sæta tugir íslenskra fyrirtækja rannsókn af hálfu yfirvalda, svo skattyfirvalda, lögreglu eða samkeppnisstofnunar og gefur ekki tilefni til ásakana um valdníðslu. Er með miklum ólíkindum að stjórnmálamaður sem vill láta taka sig alvarlega skuli byggja málflutning sinn á tilhæfulausum dylgjum og rætnum kjaftasögum sem eru fyrst og síðast sprottnar úr hennar eigin herbúðum. Ungir sjálfstæðismenn krefjast þess að Ingibjörg rökstyðji aðdróttanir sínar en biðjist ella afsökunar." Fagna mjög þessari ályktun félaga minna í stjórninni og tel mikilvægt að borgarfulltrúinn færi sönnur á mál sitt (aðdróttanir) eða biðji þá afsökunar sem hún réðist að með órökstuddum dylgjum. Það er nú þannig með þessa konu að hún hefur komist upp með það í mörg ár að þvaðra án þess að færa sönnur á mál sitt. Ef hún er svona viss um þetta, hlýtur hún að geta rökstutt það sem hún segir. Ef ekki á hún að skammast til að koma með stefnu sína í næstu kosningum.

11 febrúar 2003

Tilnefningar til Óskarsverðlauna - Chicago með 13 tilnefningar
Í dag var tilkynnt í Los Angeles um tilnefningar til Óskarsverðlaunanna 2003. Dans- og söngvamyndin Chicago hlaut flestar tilnefningar eða 13 talsins, m.a. sem besta kvikmyndin. Þá var leikstjór myndarinnar Rob Marshall tilnefndur fyrir bestu leikstjórn og leikararnir Renée Zellweger, Catherine Zeta-Jones, Queen Latifah og John C. Reilly tilnefnd fyrir leik sinn í myndinni. Myndirnar The Hours, The Lord of the Rings: The Two Towers, The Pianist og Gangs of New York voru einnig tilnefndar sem bestu myndir ársins. Auk Rob Marshall var leikstjórinn Stephen Daldry tilnefndur fyrir bestu leikstjórn í myndinni The Hours, Martin Scorsese fyrir Gangs of New York, Roman Polanski fyrir The Pianist og spænski leikstjórinn Pedro Almodovar fyrir Talk to Her. Jack Nicholson bætti enn einni Óskarsverðlaunatilnefningu í safn sitt, hlaut sína 12. tilnefningu fyrir hlutverk sitt í myndinni About Schmidt, enginn karlleikari hefur hlotið fleiri. Meryl Streep hlaut sína þréttándu leiktilnefningu fyrir leik sinn í aukahlutverki í Adaptation og er hún þar með orðin sú leikkona sem fengið hefur flestar tilnefningar til verðlaunanna á ferli sínum en næst á eftir henni kemur leikkonan Katharine Hepburn sem hlaut tólf tilnefningar til Óskarsverðlauna á ferli sínum, Streep hefur tvisvar hlotið verðlaunin. Hægt er að lesa ýmislegt fróðlegt efni um verðlaunin og kynna sér betur tilnefningarnar á heimasíðu verðlaunanna. Þau verða afhent í LA eftir 40 daga, sunnudaginn 23. mars nk.

Ríkisstjórnin samþykkir að flýta framkvæmdum og auka fé til atvinnuþróunar
Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögur Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra, að láta auka vegaframkvæmdir á næstu 18 mánuðum og flýta vinnu við þegar ákveðin verkefni til að stuðla að eflingu atvinnutækifæra fram til þess tíma er áhrifa af stóriðjuframkvæmdum fer að gæta til fulls. Jafnframt er samþykkt að hrinda í framkvæmd áætlun um menningarhús og auka fé til atvinnuþróunar. Davíð og Halldór sögðu á blaðamannafundi í ráðherrabústaðnum í dag, að vegna slaka í efnahagslífinu hefðu m.a. aðilar vinnumarkaðarins talið rétt að ríkisstjórnin gripi inn í með tímabundnum aðgerðum. Stjórnarandstaðan hefði sömuleiðis verið að kalla eftir aðgerðum. Það væri mögulegt nú vegna góðrar stöðu ríkissjóðs. Á honum hefði verið 11 milljarða afgangur um nýliðin áramót vegna sölu á Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Vegaframkvæmdir verða stórauknar á næstu 18 mánuðum og vinnu flýtt við þegar ákveðin verkefni í þeim tilgangi að efla atvinnulífið fram til þess tíma er áhrifa stóriðjuframkvæmda á Austurlandi fer að gæta til fulls. Öll þessi viðfangsefni verða komin í gang á næstu 18 mánuðum, flest mjög langt komin en ekki endilega öllum lokið. Eftir því sem nær dregur höfuðborgarsvæðinu tekur meiri tíma að koma þeim í gang vegna skipulags- og umhverfismála. Ánægjulegt útspil hjá ríkisstjórninni.

10 febrúar 2003

Haugalygi Ingibjargar Sólrúnar í Borgarnesi
Ræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarfulltrúa, staðfesti það endanlega að hún er ekki á leið í landsmálin á málefnalegum forsendum heldur einvörðungu þeim forsendum að hún er með Davíð Oddsson forsætisráðherra, á heilanum. Það var undarlegt að heyra lýsingar hennar á fyrirtækjum og því hvernig stjórnmálin geta skaðað þau. Hún talaði um að Davíð og flokksmenn hans hefðu svo mikil afskipti af fyrirtækjum landsins að það skaðaði þau verulega, jafnvel jafn mikið og þegar þau kæmust í "ónáðina" hjá honum. Þetta er náttúrulega bara kjaftæði sem er gert til þess eins að slá ryki í augu fólks, segja fólki að Davíð sé vondur og spilltur stjórnmálamaður sem hann auðvitað er ekki. Það er rétt að skoða þessi mál út frá sanngjörnum og réttum sögulegum forsendum. Við komu Davíðs í borgarstjórastól vorið 1982 urðu viss tímamót, einkavæðing hófst í fyrirtækjum eins og Bæjarútgerð Reykjavíkur og fleiri fyrirtækjum. Þar með var hann brautryðjandi að því að minnka afskipti stjórnmálamanna að fyrirtækjarekstri. Það hafði ekki verið gert í stjórnartíð vinstri manna á árunum 1978-1982 og voru þó tækifærin næg. Þegar hann varð forsætisráðherra 1991 urðu ákveðin kaflaskil því þá hófst einkavæðing fyrir alvöru, bankarnir eru nýjasta dæmið tengt þessu og Landssíminn er næstur í röðinni ásamt fleiri minni einkavæðingum. Þetta er allt gert til þess að Davíð og félagar, þ.e. ríkisstjórnin geti haft minni afskipti af fyrirtækjum landsins. Ingibjörg nefndi dæmi um að Davíð hefði skaðað þau, fyrsta dæmið var Íslensk Erfðagreining þar sem hún sagði að Davíð hefði skaðað ímynd fyrirtækisins og þó sérstaklega sú skoðun manna að hann hefði dálæti á fyrirtækinu. Þessu geta menn ekki verið sammála enda hlýtur þetta að vera skoðun hennar. Niðurstaðan er sú eftir að hafa kynnt sér þessa ræðu Ingibjargar Sólrúnar að hún er bara rugl - og flytjandi hennar er ekki heiðarlegri en svo að fara með ósannindi sem virðast vera gerð til þess eins að slá ryki í augu fólks.

Davíð svarar Ingibjörgu Sólrúnu
Í kvöld var rætt við Davíð Oddsson um ummæli ISG þar sem hún talaði um óeðlileg afskipti Davíðs af markaðnum. Hann komst sérlega vel frá málinu og sýndi fram á hversu fáránleg ummæli hennar væru, sérlega í ljósi þess að húsleitir væru gerðar hjá miklu fleiri fyrirtækjum en bara þeim sem hún nefndi og afhverju hún bendlaði ekki sig við þær líkt og hinar sem hún tiltók. Menn eru eflaust búnir að gleyma hótunarbréfi Össurar "formanns" Samfylkingarinnar þar sem hann kallaði Bónusfeðga "gangstera" og "hreinræktaða drullusokka". Mig minnir að hann hafi einnig í þessu bréfi bent á að hann væri maður sem hlustað væri á, hefði mikil völd og klikkaði svo út á ummælunum "you, ain't seen nothing yet" og var þar með að benda Bónusfeðgum á þá staðreynd að vegna þess að þeir vildu ekki leyfa bróður Össurar að skúra hjá sér fyrirtækið þá myndi hann beita pólitískum áhrifum sínum til þess að skaða fyrirtækið. Þetta bréf er skýrasta dæmið sem hægt er að taka til í íslenskri samtímasögu þar sem stjórnmálamaður hefur reynt að beita pólitíkinni fyrir sig í baráttu við fyrirtæki í einkarekstri. Nú hefur Davíð rofið þagnarmúrinn, lýst skoðun sinni á ummælum ISG og sýnir nú að hún hefur lítið í hann að gera þegar þau mætast jafnoft í fjölmiðlum. Þess má geta að Jón Ólafsson á fyrirtæki sem heitir Norðurljós hf. Yfirmaður þýðingadeildar Norðurljósa er Hjörleifur Sveinbjörnsson eiginmaður ISG og Norðurljós var eitt af þeim fyrirtækjum sem Ingibjörg nefndi máli sínu til stuðnings er hún gaspraði um Davíð Oddsson.

09 febrúar 2003

Yfirformaður skyggir á formanninn - undarleg ummæli
Það er greinilegt að formanni Samfylkingarinnar hefur verið endanlega ýtt til hliðar, hann er fallinn í skuggann á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarfulltrúa, sem var í sviðsljósinu á flokksstjórnarfundi í Borgarnesi í dag. Enginn fjallaði um ræðu Össurar og ekki nokkur hafði áhuga á að ræða við hann um flokkinn sem hann leiðir að nafninu til, hann er núll og nix í eigin flokk, réttkjörinn formaður! Nýr yfirformaður er kominn í flokkinn án þess að hafa verið kjörin til forystu eða valin af stofnunum innan flokksins, hún er þar án alls umboðs. Hún ávarpaði flokksmenn á fundinum og greinilegt að flokkurinn ætlar að byggja baráttu sína upp sem slag milli Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, og Ingibjargar Sólrúnar. Engin málefni eru nefnd sem sérstök kosningamál, enda hefur flokkurinn veika málefnalega stöðu um þessar mundir. Fáir vita fyrir hvað ISG og flokkurinn stendur nema að vera á móti Sjálfstæðisflokknum. Í ræðu sinni sagði yfirformaðurinn að rök mætti færa fyrir því að afskiptasemi stjórnmálamanna af fyrirtækjum landsins væri ein aðal meinsemd íslensks efnahags- og atvinnulífs. Nefndi hún þar sérstaklega forsætisráðherra. Hún gleymdi hinsvegar algjörlega að minnast á formann síns flokks sem fyrir 11 mánuðum kallaði forsvarsmenn Baugs, eins af stærstu fyrirtækjum landsins, hreinræktaða drullusokka og gangstera í frægum e-mail til fyrirtækisins. Svo virðist vera sem hún hafi haldið að allir væru búnir að gleyma því. Að loknum fundinum spurði fréttamaður Sjónvarps hana nokkurra spurninga og meðal annars hvort Samfylkingin væri eitthvað saklaus af slíkum ummælum, kom hik á yfirformanninn og sagði hún að allt þjóðfélagið væri orðið gegnsýrt af slíkum ummælum. Ekki bað forsætisráðherra, formann Samfylkingarinnar um að skrifa Baugsfeðgum, hann gerði það af fúsum og frjálsum vilja og því ljóst að yfirformaðurinn skýtur föstum skotum að hinum sviplausa formanni flokksins. Ummæli hennar eru því afar bitlaus.

Fróðlegir og góðir þættir
Í kvöld var á dagskrá seinasti þáttur í þáttaröðinni um 20. öldina. Þetta hefur verið fræðandi og einkar athyglisverð heimildarþáttaröð prófessoranna Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og Ólafs Þ. Harðarsonar um 20. öldina. Í þessum þáttum er farið ítarlega yfir sögu þjóðarinnar á seinustu öld. Athyglisverðar svipmyndir frá fréttum aldarinnar hefur verið blandað við viðtöl við fólk sem setti sterkan svip á þetta tímabil. Í gær var fjallað um seinasta áratug aldarinnar, 1991-2000, og þátturinn alveg sérstaklega umfangsmikill og fræðandi, skemmtileg úttekt á þessu tímabili. Sérstaka athygli mína á þessari þáttaröð hefur vakið margt fróðlegt efni sem ekki hefur verið sýnt frá lengi, t.d. gömul viðtöl og fréttasvipmyndir. Mér hefur alltaf líkað íslenskt fræðandi efni og fagna því að þessir þættir hafi verið sýndir, það er alltaf gaman að kynnast betur sögu þjóðarinnar. Mætti sýna meira af svona góðu íslensku efni.

08 febrúar 2003

Eurovision 2003 - 15 lög í boði
Það hefur sennilega ekki farið framhjá neinum (allavega ekki tónlistarspekúlöntum og júróvisjón-áhugafólki) að um næstu helgi verður framlag Íslands í Eurovision 2003 valið í beinni útsendingu RÚV. Sjónvarpið tekur nú þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í sextánda sinn. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fer fram í Riga í Lettlandi þann 24. maí n.k. og verður fulltrúi Íslands fyrstur á svið ytra. Að þessu sinni var ákveðið að halda veglega forkeppni og valdi dómnefnd 15 lög úr þeim 204 lögum sem bárust í keppnina. Lögin voru frumflutt í kynningarþáttum í Sjónvarpinu vikuna 3.-7. febrúar og voru einnig spiluð á Rás 2. Keppnin verður í beinni útsendingu í Sjónvarpinu og verður einnig send út á Rás 2. Kynnar verða Gísli Marteinn Baldursson og Logi Bergmann Eiðsson. Eins og fyrr segir er þetta í sextánda skiptið sem Íslendingar taka þátt í keppninni frá 1986, en vegna slakrar frammistöðu í tvö skipti höfum við misst þátttökurétt, 1998 og 2002. Lögin 15 eru auðvitað eins misjöfn og þau eru mörg en þó þykja mér 5 þeirra standa uppúr og vill svo einkennilega til að flytjendur þeirra eru allt kvenmenn, merkilegt nokk. Nema kannski að ég sé bara að horfa á stelpurnar, gæti verið!! Þetta verður þrusukeppni, pottþétt mál, enda vel að þessu staðið á allan hátt. Mikið hefur verið spáð í spilin á tónlistarspjalli visir.is. T.d. verið rætt um bestu lög okkar frá upphafi og valdi ég mín uppáhaldslög. Oft heyrir maður hjá sumum að þeir hafi engan áhuga á þessu og ætli ekki að horfa á og svo eru viðkomandi þeir fyrstu að skjánum til að horfa á. Hef alltaf haft áhuga á keppninni og mun því fylgjast vel með. Verð fyrir sunnan nk. laugardag á forystumannaráðstefnu SUS og ætla á keppnina í Háskólabíó um kvöldið.

Skrif Fréttablaðsins - áhugi á skrifum
Var staddur í afmælisveislu í gærkvöld þegar einn félagi minn nefndi við mig að Fréttablaðið hefði minnst á skrif mín á spjallsíður og vefsíður tengdar flokknum, í blaði föstudagsins. Hafði ekki lesið þessa klausu og taldi fyrst að hann væri að grínast, en svo reyndist ekki vera þegar aðrir viðstaddir fóru að taka undir orð hans. Hef ekki lesið Fréttablaðið í marga mánuði og kom þetta því þægilega á óvart. Fór á visir.is og las þessa klausu um mig. Snýst hún um mælingar eins þeirra sem skrifa á Innherjavef visir.is á fjölda skeyta og uppruna þeirra og kom í ljós að ég var sá á stjórnmálaspjallinu sem hafði komið með flest skeyti. Þar segir sá sem skrifar að ég sé "sjálfsagt einn öflugasti málsvari Sjálfstæðisflokksins og frjálshyggjunnar í netheimum". Hef nú kynnst ýmsu frá vissum starfsmönnum þessa blaðs, hefur áður sagt frá þráhyggju Þórarins Þórarinssonar blaðamanns þar í minn garð. Síðast þegar ég leit á vefsíðu hans fyrir nokkrum vikum, voru hann og einhverjir nafnlausir félagar hans í makindalegum samræðum um persónu mína og skrif. Er greinilegt að þeir eru mjög forvitnir um mína hagi og pælingar og fylgjast vel með þeim, hver veit því nema fyrrnefndur Þórarinn haldi á penna í þessum pælingum á föstudögum. Það er greinilegt á þessum skrifum FB að skrif mín skipta máli, og að sumum er ekki sama, hvað ég segi. Sumir hafa löngum lagt það í vana sinn að ráðast á þá með persónulegum svívirðingum, sem þeim svíður mest undan, svo að ég hef tekið árásum sumra sem hinu mesta hóli, t.d. skrifum á badabing.is. Allavega er greinilegt á miklum fjölda heimsókna á vefsíður mínar að fólk fylgist með þessu og ég hef fengið mörg komment frá þeim sem lesa greinarnar á frelsi.is. Þrátt fyrir þetta hefur áhugi minn á Fréttablaðinu ekki aukist enda vart við því að búast, vegna fyrri kynna af vissum fréttamönnum þar. Þeir fylgjast þó greinilega með öllum pælingum mínum.

07 febrúar 2003

Geirfinns- og Guðmundarmál fylgja þjóðinni inn í nýja öld
Árið 1974 hurfu tveir menn, Geirfinnur Einarsson og Guðmundur Einarsson, sporlaust í Keflavík og Hafnarfirði. Með því hófust eftirminnilegustu sakamál 20. aldarinnar . Fór svo að lokum að málið var upplýst með því að Sævar Marinó Ciesielski, Erla Bolladóttir, Kristján Viðar Viðarsson, Guðjón Skarphéðinsson og fleiri voru dæmd árið 1980 fyrir að hafa orðið þeim að bana, eftir ítarlegar rannsóknir fjölda manna. Lík þeirra fundust hinsvegar aldrei og aldrei hefur sannast með vissu hvað varð af þeim. Efasemdir hafa vaknað á undanförnum árum um það hvort rétt fólk hafi verið sakfellt fyrir að vera völd að hvarfi þessara manna og hafa þau fjögur sem fyrr eru nefnd krafist þess að málið verði tekið upp á ný svo mögulegt megi vera að sanna sakleysi þeirra, en þau hafa á seinustu árum upplýst að játningar þeirra á þessum glæpum hafi verið fengnar fram með harðræði rannsóknaraðila. Meðal þeirra sem sakaðir voru um að hafa orðið Geirfinni að bana var Magnús Leópoldsson fasteignasali, og sat hann inni í 105 daga árið 1976, saklaus. Hann var látinn laus eftir að í ljós kom að hann átti ekki aðild að málinu og var látið að því liggja að hin fræga Leirfinnsstytta hefði verið mótuð eftir myndum af honum, gagngert til að nafn hans blandaðist í rannsókn málsins. Í gegnum árin hefur hann barist fyrir því að hreinsa nafn sitt af þessu máli. Skipaði dómsmálaráðherra árið 2001 sérstakan saksóknara, Láru V. Júlíusdóttur til að rannsaka þann hluta málsins og birti hún í vikunni ítarlegar niðurstöður sínar á málinu og fór hún yfir allt málið og málskjöl sem til eru (en nokkuð vantar á að allt efni sé enn til staðar) og lætur í ljósi eigið álit á málinu og rannsókn þess.

Niðurstöður Láru - taka á allt málið til skoðunar
Segir Lára í skýrslu sinni, að ef lögreglan á þeim tímapunkti hefði grunað Magnús um að vera manninn í Hafnarbúðinni, hefði verið mun auðveldara fyrir lögreglu að fá úr því skorið með löglegum og venjubundnum aðgerðum. Verkefni hennar var m.a. að kanna ýmsa þætti frumrannsóknarinnar, svo sem hvers vegna leirmyndin (Leirfinnur), sem líktist Magnúsi, var gerð og einnig hvers vegna Magnús sat svo lengi í gæsluvarðhaldi. Í skýrslunni kemur fram að nafn Magnúsar og veitingastaðarins Klúbbsins hafi snemma komið við sögu í rannsókn lögreglu á hvarfi Geirfinns, en erfitt sé að fullyrða hvort það hafi verið fyrir birtingu leirmyndarinnar eða ekki. Hins vegar sé ljóst að lögreglan hafi lagt mikla vinnu í að rannsaka allar hugsanlegar vísbendingar um hvarfið en einbeitti sér ekki að Magnúsi eða öðrum þeim sem tengdust rekstri Klúbbsins. Meginástæðan sem leiddi til handtöku hans og fleiri aðila árið 1976 er að mati Láru rangur framburður Sævars Marínós Ciesielskis, Erlu Bolladóttur og Kristjáns Viðars Viðarssonar. Kemur fram í skýrslunni að leirmyndin hafi ekki vísvitandi verið gerð til að bendla Magnús við málið. Í skýrslunni koma fram ýmsar nýjar upplýsingar um dauðdaga Geirfinns og hugsanlegar ástæður hvarfs hans. Hefur ráðuneytið ritað ríkissaksóknara bréf, þar sem vakin er athygli á þessum upplýsingum, sem vörðuðu ekki efni rannsóknar setts saksóknara, og verður það hans að meta hvort þau gögn dugi til endurupptöku málsins eða frekari rannsóknar á því. Ég sé þá einu leið færa til að leiða þetta fræga sakamál til lykta að það verði tekið upp alveg upp á nýtt og gerð heiðarleg tilraun til að rannsaka hvort þau sem dæmd voru fyrir þessi mál hafi verið sek eða saklaus. Ég tel lítinn vafa leika á að þau hafi verið dæmd saklaus og því er það eindregið skoðun mín að þessi mál verði könnuð alveg upp á nýtt. Þessu máli lýkur ekki fyrr en allir þættir þess verða rannsakaðir ítarlega á nýjan leik. Það er siðferðisleg skylda stjórnvalda að taka þetta mál upp og rannsaka það betur.

06 febrúar 2003

Rimma Björns og Þórólfs - valdalaus borgarstjóri
Í dag sat Þórólfur Árnason borgarstjóri, sinn fyrsta borgarstjórnarfund. Þar endurtók Björn Bjarnason spurningar þær sem hann beindi til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarfulltrúa, á seinasta fundi hennar sem borgarstjóra fyrir viku, en nú var þeim beint til eftirmanns hennar, þar sem henni brast kjarkur við lok valdaferils síns að svara þeim. Spurningarnar fjölluðu um skuldasöfnun Reykjavíkurborgar undanfarin ár, en hreinar skuldir borgarinnar án lífeyrisskuldbindinga hafa hækkað um 1100% á sama tíma og sambærilegar skuldir ríkissjóðs hafa lækkað um 13%. Einnig er staðreynd að heildarskuldir á hvern Reykvíking eru 733.000 krónur og þar með hærri en í nokkru öðru sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu. Skemmst er frá því að segja að borgarstjórinn svaraði í engu þessum spurningum og skautaði yfir þær á sama hátt og forveri hans. Kom til harðra orðaskipta á milli hans og Björns, og ljóst að nýr borgarstjóri er hörundsár maður og á erfitt með að rökræða um skuldirnar af ótta við að styggja yfirboðara sína í hinum pólitíska heimi. Þegar kom að því að svara raunverulegum spurningum sat borgarstjórinn kjurr og í pontu fór Alfreð nokkur Þorsteinsson sem á dögunum varð formaður borgarráðs í stað drottningarinnar föllnu. Er hann líklega valdamestur þeirra smákónga sem drottna nú yfir borginni eftir fráfall drottningarinnar harðneskjulegu.

Ronald Reagan 92 ára í dag
Í dag verður Ronald Reagan 40. forseti Bandaríkjanna, 92 ára gamall. Í grein í Washington Post í dag er fjallað um seinustu ár, en Reagan greindist með Alzheimer-veikina skömmu eftir að hann lét af forsetaembætti. Er nú svo komið að hann þekkir ekki sína nánustu og lifir í skugga frægðar sinnar. Reagan var á árum áður vinsæll leikari en skellti sér í pólitíkina á sjöunda áratug síðustu aldar. Árið 1966 varð hann ríkisstjóri í Kaliforníu. Árið 1980 varð hann 40. forseti Bandaríkjanna, 69 ára gamall, elsti maðurinn sem kjör hefur hlotið í forsetaembættið. Hann sat í embætti, tvö kjörtímabil, 1981-1989, en þá varð varaforseti hans, George Bush eftirmaður hans á forsetastóli. Hvet fólk til að kynna sér ævi hans á þessari síðu.

05 febrúar 2003

Colin Powell birtir gögn um vopnaeign Íraka
Í dag ávarpaði Colin Powell utanríkisráðherra Bandaríkjanna, öryggisráð Sameinuðu þjóðanna þar sem hann lagði fram sannanir fyrir því að Írakar búi yfir gereyðingarvopnum. Sagði ráðherrann að gögnin sem Bandaríkjamenn hefðu undir höndum væru mikið áhyggjuefni. Meðfram málflutning sínum spilaði hann m.a. segulbandsupptökur af samræðum íraskra embættismanna þar sem þeir ræða um hvernig leika eigi á vopnaeftirlitsmenn og sýndi gervihnattamyndir af hernaðaruppbyggingu Íraka, þar á meðal verksmiðjum. Powell sagði að sönnunargögnin kæmu m.a. frá heimildarmönnum sem hefðu hætt lífi sínu við að afla þeirra. Hann sagði t.d. að Saddam Hussein og stjórn hans væru að leyna tilraunum sínum til að framleiða meiri gereyðingarvopn. Sagði hann ennfremur að Írakar beittu kerfisbundnum blekkingum og undanbrögðum til að fela hernaðaruppbyggingu sína. Sagði hann að segulbandsupptökurnar sem hann lék væru ekki einstök tilvik heldur hluti af stefnu sem framfylgt væri í æðstu stigum íraska stjórnkerfisins. Powell sagði m.a. að íraskir embættismenn hefðu falið gögn um herstöðvar, fyrirskipað að óleyfileg vopn væri fjarlægð frá stöðum þar sem vitað væri að vopnaeftirlitsmenn myndu koma og falið vopn, tölvugögn og ýmsa aðra hluti á heimilum sínum. Þá sagði Powell að Írakar hefðu ekki gert grein fyrir sýkla- og efnavopnum, sem vitað sé að þeir höfðu undir höndum og að þeir byggju yfir 18 hreyfanlegum sýklavopnaverksmiðjum sem auðvelt væri að fela og sem gætu m.a. framleitt miltisbrandsgró í stórum stíl. Ennfremur kom fram í máli hans að Bandaríkjamenn hefðu engar vísbendingar um að Saddam Hussein hefði hætt við tilraunir til að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Sagði Powell að Írakar réðu nú yfir 2 af þeim þremur grundvallarþáttum sem þurfi til að smíða kjarnorkusprengju. Allur málflutningur ráðherrans er þess eðlis að þar koma fram óyggjandi sönnunargögn sem ekki verða hrakin. Það er ljóst að tíminn er að renna út fyrir Íraka og tímabært að grípa til aðgerða gegn ríkisstjórn einræðisherrans ef hún afvopnast ekki með góðu. Bendi í lokin á góða grein félaga míns, Hafsteins Þórs Haukssonar varaformanns SUS, sem birtist á heimasíðu Heimdallar, 12. desember sl.

Úrskurður Jóns - viðbrögð VG
Í síðustu viku felldi Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra og settur umhverfisráðherra, úrskurð sinn vegna Norðlingaölduveitu. Er skemmst frá því að segja að Jón hafi farið bil beggja við úrskurð sinn og er niðurstaðan sú að friðlandið verður ekki fyrir skaða vegna væntanlegra framkvæmda. Er það mikið gleðiefni og ber því vitni að Jón er sannkallaður sáttasemjari og lagði sig allan fram um að reyna að skila úrskurði sem öllum myndi líka við og sátt myndi skapast um framkvæmdina. Sú verður þó ekki raunin, enda eru þingmenn VG ekki á þeim buxunum að láta af andstöðu sinni við Norðlingaölduveitu. Það er von að einhver spyrji hversvegna sú er raunin, eftir að ljóst er að friðlandinu verður hlíft. Það var lengi boðskapur þeirra að ekki mætti sökkva friðlandi en nú eru þau enn sömu skoðunar, þrátt fyrir úrskurð ráðherrans. Þarna sannast hið fornkveðna að andstaða VG byggist ekki á umhverfissjónarmiðum heldur því eingöngu að vinna gegn öllum virkjunarframkvæmdum með hvaða brögðum sem er. Er með ólíkindum að fylgjast með boðskap fulltrúa þessa flokks og undarlegum ummælum þeirra í fjölmiðlum. Kreddufull andstaða þeirra er hörð, burtséð frá öllum umhverfissjónarmiðum. Það er hin gamaldags stóriðjufóbía sem þar ræður ríkjum eins og fyrri daginn.

04 febrúar 2003

Árásir á Halldór - skítabrögð á þingi
Með ólíkindum hefur verið að fylgjast með umræðum á Alþingi um skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna fyrrv. forstjóra Landssímans. Þar felldi Halldór Blöndal forseti Alþingis, úrskurð sinn vegna kröfu þingmanna Samfylkingarinnar um að fá aðgang að skýrslunni eftir að stjórn fyrirtækisins hafði hafnað því. Úrskurður forseta var byggður á álit Stefáns Más Stefánssonar lögmanns, og því farið eftir lögfræðilegum forsendum. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa hinsvegar ítrekað ráðist að forseta vegna þessa máls og látið hörð orð falla. Er vægt til orða tekið að segja að hér sé um algjöra skítmennsku að ræða hjá þingmönnum þessa flokks og ekki þeim til sóma að ráðast að forseta þingsins með þessum hætti. Í dag tjáði Davíð Oddsson forsætisráðherra, að einsdæmi væri að ráðist væri með svo ómerkilegum hætti að forseta þjóðþings. Eru það orð að sönnu, þess eru fá fordæmi að forseti þjóðþings í lýðræðisríki þurfi að sitja undir slíku skítkasti og ómerkilegheitum. Af þessu öllu er mikill kosningafnykur og ljóst að þingmenn þessa auma flokks ætla að reyna að slá sig til riddara með þessum ómerkingshætti, vonandi er að þeim verði ekki kápan úr því klæðinu.

Fyrirspurn til borgarstjóra - mikilvægt að kanna fjármál RVK
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu á borgarráðsfundi í dag fram fyrirspurn til Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, um það hvort hann ætli að óska eftir úttekt á því hvað hafi valdið mikilli skuldaaukningu hjá Reykjavíkurborg, og hvort hann hyggist beita fyrir sér að snúa af þessari braut skuldaaukningar. Eins og fram hefur komið ítarlega í fjölmiðlum eftir blaðamannafund borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hafa hreinar skuldir borgarinnar 11-faldast í stjórnartíð núverandi meirihluta. Þeir benda á að útkomuspá fyrir nýliðið ár geri ráð fyrir tæplega 10 miljarða króna meiri skuldum borgarinnar en stefnt var að í fjárhagsáætlun. Því er mikilvægt að vita hvort Þórólfur ætli sér að grípa í taumana svo þessi þróun haldi ekki áfram. Það er krafa sjálfstæðismanna að gerð sé úttekt á þróun fjármála Reykjavíkurborgar í borgarstjóratíð forvera Þórólfs. Það sé réttasta leiðin til hjálpa honum að horfast í augu við hina ótrúlegu skuldasöfnun borgarinnar undir forystu ISG sem lofaði borgarbúum 1994 að skuldir Reykjavíkurborgar yrðu lækkaðar undir hennar forystu. Það er óskandi að borgarstjóri verði við þessari kröfu.

03 febrúar 2003

Borgarstjóraskipti í Reykjavík - brothætt bandalag
Í morgun urðu borgarstjóraskipti í Reykjavíkurborg. Þórólfur Árnason borgarstjóri, tók við lyklavöldum að Ráðhúsinu af forvera sínum Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarfulltrúa. Ingibjörg tók á móti Þórólfi á skrifstofu borgarstjóra og bauð hann velkominn til starfa. Ingibjörg segir af sér embætti og víkur burt sár í bragði yfir því að vera beygð. Hún stekkur nú í óvissuna og hverfur af braut, situr áfram í borgarstjórn en er ekki lengur forystumaður borgarinnar. Framundan er brothætt stjórn þriggja flokka sem virðast ekki vera sammála um margt, enda margoft legið í loftinu að uppúr syði. Það má búast við spennandi tímum ef þetta verður það sem bíður borgarbúa næstu 40 mánuðina, þann tíma sem R-listinn hengur saman valdanna vegna. En nú tekur valdalaus embættismaður við af drottningunni. Á bakvið tjöldin stjórnar Alfreð, óvinsælasti stjórnmálamaður borgarkerfisins sem verður pólitískur forystumaður meirihlutans. Gaman verður að sjá hvort þetta hangi til 2006, ég leyfi mér að efast um það. Allir sjá að nýi borgarstjórinn er valdalaus með öllu, hlutskipti forstjórans fyrrverandi verður ekki öfundsvert. Hann á að leiða þrjá ósamhenta flokka í borgarstjórn og tala máli þeirra sem framkvæmdastjóri rétt eins og Egill Skúli forðum. Völdin verða ekki á hans herðum, heldur leiðtoganna þriggja nú þegar borgarstjóranum sigursæla hefur verið sparkað í burtu. Hann verður enginn leiðtogi í þessu samstarfi, völdin verða hjá formanni borgarráðs. Vonandi er að framkvæmdastjóra borgarinnar farnist betur við fjárhagsstjórnunina en forvera hans sem þverskallaðist við staðreyndum um fjárhag borgarinnar eins og frægt varð. Vonandi þarf ekki að rífast um grundvallartölur og almennar staðreyndir við bissnessmanninn.

Sæludögum lokið - hvað er í boxinu?
Nú þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og fyrrverandi borgarstjóri, hefur yfirgefið pólitískt verndað umhverfi sitt í Ráðhúsinu, stendur R-listi þriggja flokka eftir forystulaus7. Ja, að vísu er Alfreð Þorsteinsson orðinn formaður borgarráðs og með því pólitískur leiðtogi R-listans, valdamesti forystumaður hans eftir þær valdasviptingar sem urðu innan borgarstjórnarmeirihlutans í beinni útsendingu fjölmiðla þegar menn hlupu um borgina til að bjarga því sem bjarga varð af rústum meirihlutans. Ekki er hægt að sjá fyrir á nokkurn hátt fyrir hvaða málefni borgarfulltrúinn ætlar að berjast fyrir eða fyrir hvað hún stendur í pólitík. Sjálf sagði hún 30. desember sl. að nú yrði Pandóruboxið opnað og skoðanir hennar myndu verða öllum kunnar. Það er hálf hlægilegt að forystumaður stærsta sveitarfélags landsins til rúmlega átta ára ætli fyrst núna að segja fyrir hvað hún stendur í pólitík, maður hefði haldið að það lægi fyrir. Svo er þó ekki. Frægar sögur eru til af Pandóru og boxinu hennar og skondið að borgarfulltrúinn hafi borið sig saman við þá kellu á þessum tímamótum að hún neyðist til að segja af sér embætti vegna trúnaðarbrests við samherja í borgarstjórn. Já, það verður gaman að sjá þegar boxið verður opnað, ég vona að Pandóra sýni okkur fyrir hvað hún stendur á næstunni, það verður athyglisvert að sjá hvað er í boxinu þegar á hólminn er komið. Ég fjalla um endalok sæludaga borgarfulltrúans og pandórubox hennar í pistli í dag á heimasíðu Stefnis.

02 febrúar 2003

Athyglisverð könnun Gallups - SF nær hápunkti
Nýjasta skoðanakönnunin frá Gallup er mjög athyglisverð og staðfestir að mikil hreyfing er á fylgi stjórnmálaflokkanna og Samfylkingin að taka mikið fylgi af VG. Þarna eru að myndast tvær stórar blokkir meðan aðrir flokkar eru að verða smáflokkar. Ef þetta yrðu úrslit kosninga yrði löng stjórnarkreppa sem myndi ljúka með stjórnarmyndun flokkanna tveggja sem mest fylgi hafa, sé ekkert annað raunhæft í stöðunni enda flokkarnir tveir (minni) í sárum í þessari stöðu og ekki til stórræðanna í stjórnarmyndun. Samfylkingin hefur verið ein í sviðsljósinu seinustu vikurnar, en nú má búast við að flokkarnir tveir ráðist harkalega að fyrrverandi borgarstjóra, enda hún þeirra helsti andstæðingur í komandi kosningum. Fram kom í fréttum í dag að forspárgildi kannana er ekkert og því aðeins um stöðumat að ræða. Það er mitt mat að þessi könnun þjappi andstæðingum Samfylkingarinnar saman gegn henni.

Spennandi en jafnframt óvægin barátta framundan
Það er ekki hægt að neita því að komandi kosningabarátta verður meira spennandi og óvægnari en jafnvel var áður talið. Í könnunum kemur skýrt fram að Samfylkingin er að ganga frá samstarfsflokkum í borgarstjórn og þeir eru að fóta sig nú eftir að borgarfulltrúinn sveik gefin loforð. Þessi skoðanakönnun er athyglisverð mæling á stöðunni núna og segir tvennt. Í fyrsta lagi að fylgi VG er í miklu lágmarki og það fylgi sem þeir missa fer yfir til Samfylkingarinnar. Spurningin er; fer það aftur til baka eða verður þetta útkoma þeirra. Ef svo er blasir við að smáflokkarnir munu báðir eiga í mikilli tilvistarkreppu á komandi árum og ekki líklegt að þeir verði aðilar að ríkisstjórn með þetta fylgi. Ég tel útilokað að þessir flokkar mælist svona lágt í kosningum. Í öðru lagi að það er mikið lausafylgi á landsbyggðinni og um það verður barist, það gæti ráðið úrslitum í þessum kosningum hvert það fer. Við blasir semsagt að Samfylkingin er að bæta við sig fylgi á kostnað tveggja flokka, samstarfsflokka í borgarstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn heldur velli eftir 12 ára stjórnarforystu. Ég minni á að Samfylkingin hefur náð hámarki og því spurningin hvenær fylgið leitar til baka í flokkana tvo. Ef það gerist ekki blasir við endalok þessara tveggja flokka. Íslenskir kjósendur eru vanafastir eins og fram kemur í lokaverkefni Einars Arnar Jónssonar og Birnu Óskar Hansdóttur í stjórnmálafræði . Framsókn er alltaf vanmetin og VG eflaust líka miðað við þessar tölur. Hvaðan munu þessir flokkar taka fylgi sitt á ný. Ekki frá Sjálfstæðisflokknum, svo mikið er víst.

01 febrúar 2003

Geimferjan Columbia ferst
Bandaríska geimferjan Columbia fórst nokkrum mínútum fyrir lendingu um klukkan tvö í dag. Sjö menn voru um borð, tvær konur og fimm karlar. Geimferðastofnunin NASA missti samband við geimferjuna í lendingu á Kennedy geimstöðinni í Florída klukkan 14, 16 mínútum áður en hún átti að lenda. Ferjan var í næstum 300.000 feta hæð yfir jörðu þegar sambandið rofnaði. Ferð Columbiu að þessu sinni var eingöngu í vísindaskyni, og ferjan kom ekki við í alþjóða geimstöðinni. Áhöfnin gerði meira en 80 vísindalegar tilraunir úti í geimnum en alls tók ferðin 16 daga. Öryggisráðstafanir voru óvenjumiklar, einkum vegna þess að ísraelskur ofursti, Ilan Ramon, var um borð. Ramon tók þátt í árás Ísraelsmanna á íraskan kjarnakljúf á síðasta áratug. Bandaríska sjónvarpsstöðin CNN hefur að undanförnu rætt við fólk sem var vart við það þegar Columbia splundraðist yfir Texas. Suzy Falgout, sem býr á hestabúgarði í Huntington í miðhluta ríkisins segist hafa heyrt skruðninga um níuleytið að staðartíma. Mikil þoka er á þeim slóðum. Hundar og hestar trylltust og einn starfsmaðurinn kom og sagði frá því að hann fyndi brunalykt. Suzy segir að á sínum slóðum og í næstu sýslum hafi brot úr ferjunni dreifst. Hún segist hafa heyrt lögregluna tala um það á lögreglurásinni sem hún getur hlustað á að brotin séu að öllum líkindum úr geimferjunni og að ráðleggja verði fólki að snerta ekkert og koma ekki nálægt neinu. Það geti verið mengað. Columbia er elsta geimferja Bandarikjanna og fór í fyrstu geimferðina árið 1981. Þetta er mesta áfall í sögu bandarískra geimferða síðan geimferjan Challenger fórst í flugtaki í janúarlok 1986 með sjö menn innanborðs. Hægt er að fylgjast með ítarlegum fréttum af þessum tíðindum á fréttavef CNN.

Hörmulegt slys - viðbrögð mín
Frétti fyrst af þessu hörmulega slysi laust eftir tvö í dag. Var að vinna að skrifum í grein þegar ég ákvað að kíkja á póstinn minn, að því loknu leit ég á fréttavef CNN og þar voru fyrst óljósar fréttir af Columbiu og slysinu. Jafnvel voru fyrst spekúlasjónir um hryðjuverk eða annarskonar hermdarverk. Eftir því sem leið á þriðja tímann komu skýrari fréttir og atburðarásin varð ljósari. Rúmlega þrjú varð ljóst að geimferjan hefði farist og ekki hefði verið um hryðjuverk að ræða. Var mjög athyglisvert að fylgjast með tíðindunum þróast á þennan hátt og minnti mig í raun á 11. september 2001 þegar hryðjuverkamenn réðust á Bandaríkin og hinn siðmenntaða heim með grimmdarlegum árásum. Frétti ég fyrst af þeim árásum á sama hátt, með því að líta á fréttavef CNN í hádeginu þann dag. Kveikti í kjölfarið á sjónvarpinu og sá þegar seinni vélin flaug á annan turn World Trade Center. Þeim degi gleymi ég ekki meðan ég lifi og sennilega verður eins með þennan dag, 1. febrúar sem þegar er orðinn sögulegur. Minnir þetta einnig á 28. janúar 1986 þegar Challenger fórst, gleymi aldrei fréttamyndunum af þeim viðburði. Þetta eru svipmyndir sem gleymast aldrei, þær greypast í huga manns.