Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 október 2003

Heitast í pólitíkinni
Michael Howard lýsti í gær yfir framboði sínu til embættis leiðtoga breska Íhaldsflokksins. Margir þeirra sem áður voru taldir líklegir til að gefa kost á sér hafa hætt við framboð, þ.á.m. Kenneth Clarke, David Davis, Michael Ancram og Michael Portillo. Er nú nær öruggt að Howard verði einn í kjöri og samstaða náist um að hann taki við forystu flokksins án slítandi átaka, sem myndu skaða flokkinn. Mikilvægt er að breskir hægrimenn sameinist og snúi sér að því lykilmarkmiði sínu að fella Blair og Verkamannaflokkinn.
Hart er deilt á þingi um vændisfrumvarp Kolbrúnar Halldórsdóttur. Konur í öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki virðast styðja það og því gengur málið þvert á línur stjórnar og stjórnarandstöðu. Ásta Möller kom með athyglisvert innlegg í málið í þingræðu í dag.

Landsfundur Samfylkingarinnar hefst í dag, og enn er óvissa með hvort Margrét Frímannsdóttir gefur kost á sér til formannsembættis í framkvæmdastjórn. Eru þó allar líkur á að svo verði og með því líklegt að hún nái kjöri, enda hún með víðtækan stuðning eftir störf í stjórnmálum til fjölda ára. Verður eflaust um að ræða átök milli alþekktra fylkingabrota innan flokksins sem berjast um völdin þar.

Svona er frelsið í dag
Í dag fjallar María Margrét í góðum pistli um húsafriðanamál. Hún veltir upp spurningunni: hversu langt á hið opinbera að ganga í því að skerða rétt eigenda húsa til þess að fara með eignir sínar eins og þeim gagnast best? Hún bendir á að menntamálaráðherra skipi í húsafriðunarnefnd. Í nefndina tilnefnir Arkitektafélag Íslands einn fulltrúa, Samband íslenskra sveitarfélaga einn og þrír fulltrúar fari þangað inn án tilnefningar. Það er þeirra að ákveða hvort viðkomandi hús hafi listrænt og menningarlegt gildi. Er það mat mitt og ennfremur Maríu Margrétar í greininni að ákvörðunarréttur um húsafriðun eigi að vera í höndum almennings ekki einhverrar silkihúfunefndar. RÚV-vikan heldur áfram af krafti. Í dag skrifar Ragnar athyglisverðan pistil um málið. Ennfremur var útvarpsstjóra í dag afhent formlega af Ragnari fyrir hönd stjórnar Heimdallar bréf þar sem útvarpsráði er sagt upp störfum. Það er enda með öllu óþarfi að pólitískt skipaðir fulltrúar séu að vasast með þessum hætti í fyrirtæki sem ætti auðvitað ekki að vera til. Ríkið af fjölmiðlamarkaði!

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í Íslandi í dag, í gærkvöldi, voru kynnt úrslit í skoðanakönnun Plússins fyrir Stöð 2 um það hver eigi að vera forseti Íslands kjörtímabilið 2004-2008. Þau fimm sem voru í þeirri könnun voru Bryndís Schram, Davíð Oddsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Baldvin Hannibalsson og Ólafur Ragnar Grímsson. Úrslitin voru á þá leið að sitjandi forseti naut afgerandi stuðnings í könnuninni til forsetasetu áfram, annar var Davíð, svo komu hjónin Jón og Bryndís en neðst var Ingibjörg (sem kom reyndar á óvart). Um þessar niðurstöður ræddu Jóhanna og Þórhallur við Egil Helgason og Andrés Magnússon. Ennfremur ræddu þau um stöðu embættisins og fleira því tengt. Var það mjög skemmtilegt spjall. Í Kastljósinu var gestur Svansíar og Sigmars, Kristján Ragnarsson fráfarandi formaður LÍÚ, en hann lét í dag af störfum sem formaður eftir 33 ára setu á þeim stóli. Í rúma þrjá áratugi hefur Kristján verið andlit LÍÚ og útvegsmanna í fjölmiðlum og talsmaður þeirra sem formaður og framkvæmdastjóri, en hann lét af því starfi árið 2000. Í hans stað var í dag kjörinn á formannsstól Björgólfur Jóhannsson forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Var þetta gott viðtal við Kristján sem nú hverfur úr kastljósi fjölmiðlanna eftir að hafa verið þar aðalpersóna til fjölda ára.

Kvikmyndir - bókalestur - MSN
Eftir að hafa horft á dægurmálaþættina fór ég í bíó og sá spennuþrillerinn The Rundown. Góð mynd með t.d. The Rock og óskarsverðlaunaleikaranum Christopher Walken. Þegar heim var komið fór ég að lesa fyrra bindi ævisögu um Ólaf Thors. Horfði ég svo á Sopranos, magnaður þáttur. Í gær var hörkuspenna í gangi og sjálfum Ralphie var stútað með eftirminnilegum hætti. Gaman að horfa á þessa flottu þætti aftur, þó svo um endursýningu sé að ræða. Beðið er með óþreyju eftir næstu seríu. Fór ég svo á MSN og átti gott spjall við marga félaga um hin ýmsu mál.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á að líta á vef Hæstaréttar. Þar getur að líta dóma réttarins og ýmsar upplýsingar um sögu hans og fleira tengt dómsmálum.

Snjallyrði dagsins
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt
Einar Benediktsson skáld. (Einræður Starkaðar)

30 október 2003

Heitast í pólitíkinni
Meirihluti þingmanna breska íhaldsflokksins lýsti í gær yfir vantrausti á Iain Duncan Smith, leiðtoga flokksins. Með þessu lýkur tveggja ára setu hans á leiðtogastóli flokksins. Samkvæmt flokkslögum kemur nú að því að kjósa nýjan leiðtoga flokksins, fráfarandi leiðtogi getur ekki tekið þátt í þeim slag. Allt bendir til þess að Michael Howard taki við forystu flokksins og samstaða geti náðst um hann án kosningar.

Innan Samfylkingarinnar eru læti framundan á því sem átti að vera klappfundur fyrir sjálfkjörinn formann og varaformann með rússneskum hætti án kosningar. Margrét Frímannsdóttir hefur í hyggju að leggja í Stefán Jón Hafstein í kosningu um formann framkvæmdastjórnar. Þar verður barist um stöðu valdaklíkanna innan flokksins, sá sem sigrar í þessu kjöri verður mótandi í öllu starfi hans næstu tvö árin.

Á stjórnarfundi í SUS í gærkvöldi var samþykkt ályktun þar sem vinnubrögð fulltrúaráðs flokksins í Reykjavík og afskipti af málefnum Heimdallar eru hörmuð og jafnframt lýst yfir fullum stuðningi við fráfarandi og núverandi stjórn Heimdallar. Áréttað er að hún fái sem fyrst fullan vinnufrið.

Suðurferð - fundur í ritnefnd og SUS stjórn
Fór suður seinnipartinn í gær til að fara á ritnefndarfund hjá frelsi.is og stjórnarfund SUS í Valhöll. Kom suður um sexleytið og var haldið þá beint á Café Victor á ritnefndarfund sem Snorri stýrði kröftuglega. Fórum við þar yfir ýmis mál og lögðum línurnar næstu vikurnar í umfjöllun á vefnum. Eftir þetta fórum við Snorri á Kaffibrennsluna í miðbænum og fengum okkur að borða. Að því loknu fórum við upp í Valhöll. Þar hófst stjórnarfundur í SUS klukkan átta. Var gaman að hitta aðra stjórnarmenn og ræða málin þarna. Fundurinn tók tvo og hálfan tíma. Voru miklar og líflegar umræður að hætti ungra hægrimanna á fundinum og samþykktar tvær ályktanir að hálfu stjórnarinnar. Eftir fundinn hélt góður hópur stjórnarmanna á Café Victor og þar voru málin rædd. Áttum við félagar og nafnar, ég og Stefán Einar gott spjall um ýmis mál, t.d. kirkjuna, forsetaembættið og málefni Heimdallar. Virkilega gaman. Hélt aftur norður í morgun snemma með flugi, er heim var komið hóf ég að semja pistil um stjórnarfundinn.

Gestapistillinn
Í dag birtist á vefsíðu minni þriðji gestapistillinn. Fyrir viku skrifaði Hafsteinn Þór Hauksson á vefinn. Í dag birtist gestapistill um bresk stjórnmál eftir Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur varaformann SUS. Íhaldsflokkurinn í Bretlandi hefur verið í leiðtogaklemmu í um 8 ár. Þrír leiðtogar flokksins (John Major, William Hague og Iain Duncan Smith) hafa reynt að fylla fótspor Margaret Thatcher á seinustu 13 árum, eftir að 11 ára valdaferli hennar lauk í nóvember 1990. Í gær lauk enn einum kafla í sögu flokksins þegar Iain Duncan Smith missti stöðu sína sem leiðtogi flokksins eftir vantraustskosningu. Smith tapaði með naumum meirihluta en 90 þingmenn lýstu yfir vantrausti en 75 vildu hann áfram í leiðtogasætinu. Í pistlinum fer Tobba vel yfir það hvað nú taki við innan flokksins og hvar flokkurinn stendur nú.

Svona er frelsið í dag
Í dag skrifar Bjarki Már Baxter góðan pistil um fjárhættuspil og spilaviti. Fram kemur í grein Bjarka að umræðan um spilavíti og fjárhættuspil skjóti annað veifið upp kollinum og þá aðallega þegar lögregla gerir innrás inná slíka starfsemi. Síðast hafi verið ráðist til inngöngu í spilavíti sl. vetur og voru þar gerð upptæk tæki og áhöld til rekstur ólöglegs spilavítis. Umræðan væri oftast neikvæð og sjaldan talað um sóknarfæri í þessu sambandi. Hvet alla til að lesa pistil Bjarka. RÚV vikan heldur áfram á fullu og auglýsingar Heimdallar, hljóma nú ennfremur á Bylgjunni. Virkilega gott.

Vefur dagsins
Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar var lagt fram á þingi 1. október sl. Hvet ég alla til að líta á vef frumvarpsins, fjarlog.is og kynna sér frumvarpið.

Snjallyrði dagsins
Ég uni illa böndum og illa í nokkurs höndum, er flýgur fjöðrum þöndum mín frelsisþráin heit.
Ólöf Sigurðardóttir skáldkona frá Hlöðum.

29 október 2003

Heitast í pólitíkinni
Eitthvað eru þeir hjá Ríkisútvarpinu að vakna uppúr ritskoðunarstandinu, enda var auglýsing Heimdallar lesin í hádeginu í dag. Sú auglýsing sem lesin var hljómaði á þessa leið: "Þessi auglýsing skekkir samkeppnisstöðu fjölmiðla. Einkavæðum Ríkisútvarpið. Heimdallur". Ekki er gott að sjá hvaða munur er á þessari auglýsingu og hinni sem hafnað var í gær. En það er þó gott að vita að stjórnendur þarna í Efstaleiti hafa látið af ritskoðuninni.

Í dag birtist ný skoðanakönnun DV. Þar kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin-grænt framboð hafa bætt við sig fylgi frá þingkosningunum í vor. Hinsvegar hafa Framsóknarflokkur, Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn tapað nokkru fylgi.

Olíumálið heldur áfram að vinda upp á sig, fram kemur í dag að borgarstjóri hafi verið yfirheyrður vegna þess með stöðu grunaðs manns. Endurtekur borgarstjórinn í dag að hann hafi traust R-listans vegna málsins. Hversu lengi kjörnir fulltrúar R-listans sem bera ábyrgð á honum muni verja hann verður athyglisvert að fylgjast með.

Svona er frelsið í dag
Í dag skrifar Tobba góðan pistil þar sem hún fjallar um aðalfund samtaka Hollvinafélags Ríkisútvarpsins. Það er eingöngu sett á fót til að standa vörð um það að ríkið (ég og þú með okkar peningum) reki fjölmiðil. Er undarlegt að fólk leggi nafn sitt við slíkan boðskap og geti glaðst yfir því að verja í raun slík vinnubrögð að hálfu ríkisins. Spurning er hvort ekki sé kominn tími til að við andstæðingar ríkisaðildar á fjölmiðlamarkaði stofnum samtök undir nafninu, Ríkið af fjölmiðlamarkaði! Þessi hugmynd vaknar í mínu hugskoti við pælingar um RÚV og það úrelta rekstrarkerfi sem blómstrar þar í skjóli Framsóknarflokksins sem engu vill þarna breyta. Atli Rafn formaður Heimdallar, skrifar ennfremur pistil um starfsemi innan félagsins. Hún blómstrar nú mánuði eftir aðalfundinn og langt síðan svo blómlegt hefur verið. Gott mál - RÚV vikan heldur svo áfram, ég mun í næsta sunnudagspistli fara vel yfir þessi mál. Það verður mitt framlag til RÚV viku Heimdallar og hægrimanna almennt. Þetta er baráttumál okkar allra!

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Áfram var haldið á Stöð 2 að kynna þá sem urðu í efstu sætum í skoðanakönnun Plúsins fyrir stöðina. Í gær voru kynntir til leiks tveir aðrir í fimm manna hópinn sem kosið verður á milli. Það voru þau Davíð Oddsson forsætisráðherra, og Bryndís Schram sem þá voru kynnt til leiks. Á morgun verður tilkynnt nafn fimmta og seinasta aðilans, sem er sennilega sitjandi forseti. Í framhaldinu verður kosið á milli þeirra eins og fyrr segir. Ennfremur var rætt í Íslandi í dag um 90% húsnæðislánin sem Framsókn vill keyra í gegn. Um það ræddu þeir Hjálmar Árnason þingflokksformaður Framsóknarflokksins og Lúðvík Bergvinsson alþingismaður. Er ég algjörlega mótfallinn þessum hugmyndum og tek heilshugar undir ályktun SUS-stjórnar í vor. Í Kastljósinu var rætt um þann skelfilega sjúkdóm átröskun. Var sýnt ennfremur brot úr þætti um konu sem haldin er þessum sjúkdómi og sýndur var á mánudagskvöld. Skelfilegt alveg. Missti því miður af þættinum um daginn og horfi á hann í endursýningu. Mikilvægt er að berjast af krafti gegn þessum skelfilega sjúkdómi.

Sjónvarpsgláp - spjall - bækur
Eftir dægurmálaþættina horfði ég á The Amazing Race. Æsispennandi þáttur, magnað kapphlaup um heiminn. Af 12 liðum eru nú 6 eftir og duttu blökkukonurnar Monica og Sheree út í gær. Þetta verður spennandi á næstu vikum og fylgst vel með þessu. Eftir þáttinn átti ég nokkur símtöl vegna SUS-fundarins í dag, ég fer suður seinna í dag vegna hans og á ritnefndarfund hjá frelsi.is, þar sem línurnar í umfjöllun næstu vikna á vefnum verða lagðar. Að því loknu fór ég á bláu könnuna og hitti Helgu og Gylfa og röbbuðum við þar um pólitík almennt og ýmislegt fleira yfir kakó og tertusneið. Virkilega gott spjall. Að því loknu var haldið heim og klárað að lesa ævisögu Einars Ben, hef verið að lesa hana í þriðja sinni seinustu vikuna og haft gaman af. Nú verður tekið til við að lesa ævisögu Ólafs Thors forsætisráðherra.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á að líta á menntagátt.is, vef Menntamálaráðuneytisins. Meginmarkmið menntamálaráðuneytisins með uppbyggingu Menntagáttar er að veita skólum greiðan aðgang að upplýsingum og þjónustu sem er aðgengileg á Netinu. Góður og gagnlegur vefur.

Snjallyrði dagsins
Þú frelsisást, sem fjötur engan ber, um fangans múr þinn ljómi bjartast skín.
Byron lávarður

28 október 2003

Heitast í pólitíkinni
Nú er hafin sérstök RÚV vika hjá Heimdalli. Tilgangur með henni er að vekja athygli á að tímaskekkja sé að ríkið reki fjölmiðla. Var ætlunin að birta í Ríkisútvarpinu í dag lesna auglýsingu frá Heimdalli á samtengdum ríkisrásunum. Átti hún að vera á þessa leið: "Slökkvum á Ríkisútvarpinu. Heimdallur". Stutt og laggott. Auglýsingunni var hafnað af RÚV sem "ótilhlýðilegum áróðri". Ríkisútvarpið telur að fylgja verði siðareglum sem leyfa ekki tiltekna auglýsingu. Í dag sendi stjórn Heimdallar útvarpsstjóra bréf vegna málsins. Það verður að teljast mikil tímaskekkja að ríkisútvarp hafni auglýsingum með þessum hætti. Enda virðist fréttastofa útvarps taka afstöðu með Heimdalli. Orðið ritskoðun kemur upp í hugann við þessa ákvörðun RÚV. Þessi ákvörðun eflir ungt hægrifólk áfram í baráttunni.

Framundan er uppgjör innan breska Íhaldsflokksins um stöðu Iain Duncan Smith leiðtoga flokksins. 25 þingmenn lýstu yfir vantrausti á hann og því verður að kjósa á morgun meðal þingmanna um hvort hann leiði áfram flokkinn. Ef hann tapar þeim slag verður haldið nýtt leiðtogakjör og getur hann ekki boðið sig fram þar.

Þing hefur komið saman á ný eftir kjördæmavikuna, þar tóku alls 6 varamenn sæti í dag!

Svona er frelsið í dag
Í dag birtist góður pistill eftir Kristinn Má. Þar svarar hann skrifum Sverris Jakobssonar á Múrnum fyrir nokkrum dögum. Þar gerði Sverrir lítið úr niðurskurðartillögum Heimdallar sem kynntar voru fyrir tæpri viku og sagði þær "dæmi um íhaldssemi, fáfræði, þröngsýni og andúð á hugvísindum". Kristinn Már svarar af krafti og bendir á að niðurskurðartillögur Heimdallar séu dæmi um að frjálshyggjufólk vilji stokka upp hlutina og berjast fyrir miklum breytingum í átt til frelsis. Þær megi finna í tillögum Heimdallar. Fram kemur í skrifum Sverris að hægrimenn séu á móti hugvísindum vegna tillagna Heimdallar. Eins og Kristinn segir er svo víðsfjarri, enda ekki verið að vinna gegn neinum, enda geti einkaaðilar vel séð um þessa þætti. RÚV-vika Heimdallar er eins og fyrr er sagt hafin og þar verður margt athyglisvert gert. Mikilvægt er að mínu mati að þetta sé gert og ég fagna framtaki Heimdallar, enda er það tímaskekkja hin mesta að ríkið reki fjölmiðla á okkar dögum. Þetta hef ég oft tjáð opinberlega, seinast í grein á frelsi.is fyrir rúmri viku. Mín skoðun og Heimdellinga í þessu fer vel saman. Ég hvet þá til dáða í þessari baráttu.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Eftir umræðu seinustu daga um forsetaembættið lét Stöð 2 gera fyrir sig skoðanakönnun um hvern Íslendingar vilja að sitji á forsetastóli. Var könnunin framkvæmd af Plúsnum á netinu. Í þessari viku mun Stöð 2 kynna í Íslandi í dag þá fimm sem flest atkvæði hlutu í tilviljanakenndri röð. Í gær var því sýndur prófíll um tvo af þessum fimm, þau Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur varaþingmann og Jón Baldvin Hannibalsson sendiherra. Kom þar margt mjög athyglisvert fram. Næstu daga verða hinir þrír nefndir og fjallað um þá með sama hætti. Ennfremur var í þættinum rætt um nýja skýrslu um vændi, þar sem fram kemur að algengara er að strákar selji sig í vændi en stelpur. Kom Mummi í Götusmiðjunni og var mjög athyglisvert spjall sem Jóhanna og Þórhallur áttu við hann. Í Kastljósinu var gestur þáttarins, Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra. Umræðuefnið eldi á löxum og gagnrýni á frumvarp hans því tengt. Fór hann mikinn og talaði með þjósti og var ófeiminn við að sýna skap sitt þegar þáttastjórnendur sóttu að honum. Í lokin komu Guðrún Agnarsdóttir og Svanborg Sigmarsdóttir og ræddu jafnrétti og ráðstefnu um það sem stendur næstu daga undir forsæti Guðrúnar. Semsagt, líflegt dægurmálaspjall.

Stjórnmálafundur - kvikmyndir - MSN
Eftir að hafa horft á dægurmálaþættina í gærkvöld var haldið upp í Kaupang, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri. Þar kom saman stjórn og varastjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri til fundar við Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra (starfandi forsætisráðherra). Björn var á ferð hér í firðinum í dag, hitta sýslumenn í Eyjafirði, hitta lögregluyfirvöld og hitta nemendur lagadeildarinnar í Háskólanum. Björn vildi sérstaklega hitta unga sjálfstæðismenn á Akureyri, ræða málin og kynnast sjónarmiðum ungra hægrimanna hér. Það er gríðarlega mikilvægt að finna fyrir því að dómsmálaráðherra sýnir því sérstakan áhuga að hitta unga fulltrúa sjálfstæðisstefnunnar hér. Í samstarfi við Björn til fjölda ára hef ég kynnst vel að hann vill sérstaklega ræða við ungt fólk og heyra þeirra áherslur. Enda er hann mjög vinsæll meðal ungra hægrimanna, hann sýnir öllu þeirra starfi mikinn áhuga, mættu margir forystumenn okkar flokks taka hann sér til fyrirmyndar í þeim efnum. Á fundinum ræddi hann þau mál sem viðstaddir vildu bera upp og var farið yfir mörg athyglisverð mál. Útkoman létt og gott spjall við dómsmálaráðherra, mjög gott kvöld. Eftir fundinn með Birni, hélt ég heim og horfði á restina á athyglisverðri kvikmynd á Stöð 2, Path to War sem lýsir Víetnamsstríðinu og pólitískum erfiðleikum Lyndon B. Johnson forseta, tengt því. Að myndinni lokinni fór ég á netið og átti gott spjall sem fyrr við Kristinn Má, félaga minn og kommentaraði á góðan pistil hans sem fyrr er getið.

Vefur dagsins
Í dag hvet ég alla til að líta á stórgóðan vef Stjórnarráðs Íslands. Þar er hægt að finna allar fréttir tengdar ráðuneytunum, sögu þeirra og fréttatilkynningar. Ómissandi vefur í dagsins önn!

Snjallyrði dagsins
Enginn hefði munað eftir miskunnsama samverjanum, hefði hann verið bara hjartagóður. Hann átti líka peninga.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1979-1990)

27 október 2003

Heitast í pólitíkinni
Í dag birtist skoðanakönnun Fréttablaðsins sem sýnir að fimmti hver landsmaður vill nýjan forseta á Bessastöðum eða almennt annað en núverandi forseta. Forsetinn nýtur stuðnings tæplega 68% þjóðarinnar, rúmlega 21% er á móti en 12% eru óákveðnir. Fram kemur að hann njóti meira fylgis úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Í sambærilegri könnun haustið 1995 hafði Vigdís Finnbogadóttir um 90% stuðning almennings og þetta því allt önnur staða og vekur athygli hversu umdeildur ÓRG er. Afstaða ungra sjálfstæðismanna er á þá leið að leggja beri embættið niður, enda mörgum hægt að fela störf forseta.

Norðurlandaráðsþing er hafið og helst bar til tíðinda í dag að forsætisráðherra og formaður VG rifust þar á íslensku, ekki er vanalegt að talað sé á íslensku á slíku þingi. Gott mál. Enn er haldið áfram að ræða málefni Heimdallar á Deiglunni og birtist þar um helgina ein ómálefnalegasta grein um þetta mál allt sem birst hefur, þar sem málflutningur MÞG var mistúlkaður. Er ótrúlegt að fylgjast með þessum vinnubrögðum og niðurrifsstarfsemi sem þarna er um að ræða.

Svona er frelsið í dag
Í dag skrifar Snorri athyglisverða grein um útþenslu ríkisins á seinustu árum og minnir á þá staðreynd að ríkið eyðir meira fé á næsta ári en það gerði á síðasta fjárlagaári. Bendir hann á það að sjá megi í niðurskurðartillögum Heimdallar að raunaukning ríkisútgjalda milli áranna 2003 og 2004 verði 10,61% Þá eigi jafnfram eftir að taka tillit til fjáraukalaga. Ekkert ráðuneytanna hafi séð sér fært að skera niður. Þessi þróun er vissulega sorgleg. Svigrúm til skattalækkanna minnkar vitanlega eftir því sem ríkið eyðir meiru eins og Snorri bendir á. Mikilvægt er að tekið verði til hendinni í þessum málum. Það er verkefni Sjálfstæðisflokksins að taka til í þessum málum. Tækifærið er núna, nota á þetta kjörtímabil til að stokka þetta upp. Það er hægt að gera miklu betur en nú er gert. Góð frétt er á frelsinu um fyrrnefnda könnum um forsetann.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gærkvöldi var Gísli Pálsson prófessor, gestur Kristjáns í Kastljósinu. Umræðuefnið var nýútkomin ævisaga Gísla um landkönnuðinn Vilhjálm Stefánsson. Fóru þeir yfir ýmis mál tengd einkalífi hans og uppljóstrunum nýlegum um hann. Virkilega skemmtilegur þáttur og gott spjall. Að því loknu hófst nýr fréttaskýringaþáttur Sjónvarpsins, Í brennidepli, í umsjón Páls Benediktssonar. Þarna er farið yfir nokkur mál ítarlega og minnir formið ansi mikið á 60 minutes. Fjallað var um gengjaslagsmál í Breiðholtinu, lyfjaþróun á byggi og mann sem starfar sem einkaspæjari í Reykjavík. Fróðlegt og skemmtilegt, verður gaman að fylgjast með þessu í vetur, þátturinn verður á dagskrá mánaðarlega. Svona fréttaskýringarþátt hefur lengi vantað og gott að hann sé kominn á skjáinn.

Sjónvarpsgláp - kvikmyndir
Eftir að hafa horft á dægurmálaþættina horfði ég á viðtalsþátt Jóns Ársæls, Sjálfstætt fólk. Gestur hans í þætti gærdagsins var Árni Magnússon félagsmálaráðherra. Var virkilega skemmtilegt að fylgjast með daglegum önnum ráðherrans og kynnast persónu hans betur. Hann stökk fram sem pólitísk stjarna í vor þegar hann komst inn á þing á kostnað fyrrum borgarstjóra og varð ráðherra í kjölfarið, nýliði á þingi. Áður hafði hann verið bæjarfulltrúi í Hveragerði og unnið lengi innan flokksins sem framkvæmdastjóri hans og aðstoðarmaður utanríkisráðherra. Í þætti Sigmundar Ernis á Skjá einum í gærkvöldi ræddi hann maður á mann við Siv Friðleifsdóttur umhverfisráðherra. Var rætt um pólitískar áherslur hennar, einkalíf og allt þar á milli. Virkilega gott spjall og gaman af þessum þætti. Að þættinum loknum horfði ég á seinustu Indiana Jones myndina, hef seinustu daga horft á þær allar. Algjörar perlur.

Vefur dagsins
Í þessari viku er ég með vefi sem tengjast stjórnkerfinu, í seinustu viku voru það bloggvefir vina minna. Daglega lít ég á vef Alþingis Íslendinga og les þar dagskrá þingsins, lít á æviágrip þingmanna, les ræður og margt fleira. Alþingisvefurinn er ómissandi og stórgóður vefur.

Snjallyrði dagsins
Frelsi er að hlýða þeim lögum sem maður hefur sjálfur sett sér.
Rousseau

26 október 2003

Heitast í pólitíkinni
Í gær var haldið kjördæmisráðsþing Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Þar voru líflegar umræður og farið yfir stöðu stjórnmála í kjördæminu og mikilvægustu málin sem snúa að okkur hér um þessar stundir. Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, var kvaddur sem ráðherra, enda lætur hann af ráðherraembætti eftir tvo mánuði og væntanlega þingmennsku á næsta ári og tekur sennilega við sendiherraembætti í Frakklandi. Það er okkur mikið áfall að missa ráðherrastólinn á þessum tímapunkti. Gunnar Ragnars var endurkjörinn formaður kjördæmisráðsins og ný stjórn kjörin undir hans forsæti. Ennfremur var kosið í nefndir kjördæmisráðsins og í flokksráð. Sjálfstæðismenn í kjördæminu horfa fram á veginn, niðurstaða seinustu kosninga var okkur hér mikil lexía og mikilvægt að undirbúa vel næstu skref og hefja strax markvissa sókn sem mun vonandi ljúka með góðum sigri í kjördæminu í næstu þingkosningum, sem verða í síðasta lagi árið 2007. Hvet alla til að lesa góðan pistil Björns á vefnum, hann fer þar vel yfir málefni kirkjunnar og blaður í R-lista- og Samfylkingarliðinu.

Sunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um framtíð sambúðar ríkis og kirkju – mikið hefur verið rætt um hvort skilja skuli þar á milli og fer ég yfir afstöður biskups og ráðherra í málinu og að sjálfsögðu tjái ég mína skoðun. Að mínu mati er mjög mikilvægt að rjúfa á tengslin þarna á milli, kirkjan mun að mínu mati styrkjast við að stokka þetta upp. Fjalla um forsetaembættið – Ólafur Ragnar Grímsson hefur setið á forsetastóli í 7 ár og öðru kjörtímabili hans lýkur senn og tel ég mikilvægt að tjá mig um stöðu embættisins nú. Hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að leggja eigi embættið niður og ítreka afstöðu mína og SUS sem samþykkti ályktun þessa efnis á þinginu í Borgarnesi. Að lokum tjái ég mig um niðurskurðartillögur Heimdallar sem afhentar voru fjárlaganefnd Alþingis í vikunni – er þar mjög margt athyglisvert sem fram kemur.

Sjónvarpsgláp - kvikmyndir
Í gærkvöldi var venju samkvæmt horft á Laugardagskvöld með Gísla Marteini. Þar var fjöldi góðra gesta. Flosi Ólafsson leikari, kom ásamt Lilju konu sinni og talaði um lífið í ellinni og nýja bók sína um sambúð þeirra hjóna í hálfa öld. Flosi fór sem fyrr alveg á kostum. Færeyska söngkonan Eivör Pálsdóttir kom í létt spjall og söng eitt lag af nýrri plötu sinni. Eivör syngur alveg virkilega vel, hafði ég mjög gaman af að fara á tónleika með henni í sumar í kirkjunni í heimabæ hennar, Götu í Færeyjum, í Færeyjaferð minni í júní sl. Óskar Pétursson tenór og einn Álftagerðisbræðra kom og tók eitt lag af nýrri plötu sinni, Aldrei einn á ferð. Tóku þeir Flosi lagið saman. Að lokum söng Bubbi eitt lag af nýrri plötu sinni. Í gærkvöld var horft á aðra Indiana Jones myndina, og að því loknu á Matrix, sem er alltaf pottþétt skemmtun. Að lokum var horft á klassíkerinn The Big Sleep með Humphrey Bogart og Lauren Bacall. Það er ekki hægt að enda kvöldið betur en með þeirri stórmynd.

Vefur dagsins
Í dag vil ég sérstaklega benda öllum fastagestum á blogginu á góðan vef frænku minnar, Svanhildar Hólm Valsdóttur. Svansí sem skrifar undir nafninu Fjölmiðlalæðan, er óhrædd við að tjá skoðanir sínar og ræðir hispurslaust málin. Hvet alla til að skella sér í heimsókn til hennar nú þegar.

Snjallyrði dagsins
Ég hef haft þá meginreglu að stökkva yfir lækinn þegar ég kem að honum. Ég hef séð fólk stökkva yfir lækinn nokkrum metrum áður en komið er að honum - það er ofboðslega hlægilegt
Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

25 október 2003

Heitast í pólitíkinni
Í fréttum í dag er enn meira fjallað um olíumálið og rannsókn á því. Sagt er að rannsóknin beinist eins og fjallað var um í gær að æðstu stjórnendum olíufélaganna og millistjórnendum þar á tímabilinu 1993-2001. Það blasir við að um er að ræða sjálfstæða rannsókn sem byggir að mestu á gögnum Samkeppnisstofnunar. Staða borgarstjóra vegna málsins er mjög óljós. Ljóst er að leiðtogar R-listaflokkanna og borgarfulltrúar meirihlutans bera pólitíska ábyrgð á borgarstjóra, enda hann hvorki kjörinn fulltrúi borgarbúa eða situr þar í umboði kjósenda. Enn er verið að ræða varnarmálin og viðbúið að viðræður um framtíð varnarsamningsins fari á fullt á næstunni. Deilur eru þó milli ráðuneytanna stóru í Bandaríkjunum og ljóst að ekkert gerist fyrr en eftir næstu forsetakosningar. Það verður ríkisstjórnin sem tekur við 20. janúar 2005 sem mun stýra málinu af hálfu BNA. Í dag skrifar Magnús Þór Gylfason grein í Moggann og rekur málefni Heimdallar fyrir seinasta aðalfund. Góð grein hjá honum. Í öllu samstarfi við Magga í flokknum í gegnum tíðina hef ég kynnst heiðarleika hans og drenglyndi, hann er einn af heiðarlegustu mönnum sem ég hef kynnst.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í Íslandi í dag í gærkvöldi voru Ingvi Hrafn Jónsson útvarpsmaður og fyrrv. fréttastjóri, og Stefán Jón Hafstein borgarfulltrúi, gestir eins og venjulega á föstudagskvöldi og fóru þeir yfir fréttir vikunnar með léttum hætti eins og venjulega. Engin lognmolla er í kringum þá í þættinum og reyndar er alltaf magnað að hlusta á Ingva fara yfir málefni dagsins í Hrafnaþingi á Útvarpi Sögu milli 2 og 3 alla virka daga. Magnað og ómissandi yfirlit yfir pólitíska umræðu dagsins. Í Kastljósinu var líka rabbað um vikuna og gestir þar Ólafur Sigurðsson fréttamaður, Stefán Karl Stefánsson leikari og Hera Ólafsdóttir leikstjóri. Í gærmorgun var Gunnar Smári Egilsson gestur í Íslandi í bítið, og á víst að vera vikulegur gestur. Verð að viðurkenna að ummæli hans um daglega pólitík koma alltaf jafnmjög á óvart.

Sjónvarpsgláp - kvikmyndir
Eftir dægurmálaþættina var farið að horfa á sjónvarpið og fylgst með Simpson og Idol - stjörnuleit. Það verður alveg að segjast eins og er að Idol er magnað sjónvarpsefni. Bubbi, Sigga og Þorvaldur fara á kostum í hlutverkum dómaranna og þeir Simmi og Jói fínir sem kynnar. Þættirnir eru ekkert síðri en þeir bandarísku og jafnvel skemmtilegri ef eitthvað er. Í gær kepptu 8 manns og aðeins 2 gátu komist áfram. Öll stóðu þau sig mjög vel en niðurstaðan var afgerandi. Sjóarinn Karl frá Grindavík og sjarmatröllið (eins og Bubbi kallaði hana) Anna Katrín frá Akureyri komust áfram. Eftir þáttinn horfði ég á fyrstu Indiana Jones myndina (frá 1981) með Harrison Ford, en ég keypti í gær heildarsafnið á DVD, en það var gefið út í vikunni. Alltaf mögnuð skemmtun. Eftir það fór ég á netið og byrjaði að semja sunnudagspistil vikunnar á stebbifr.com og sinna ýmsu fleiru.

Leikstjóraumfjöllun
Steven Spielberg fæddist í Cincinnati í Ohio í Bandaríkjunum, 18. desember 1946. Hann er án nokkurs vafa valdamesti kvikmyndaleikstjóri samtíðarinnar og hefur mikil áhrif bæði sem leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi. Meðal stórmynda hans eru Schindler´s List, Saving Private Ryan, ET, Jaws, Jurassic Park og Minority Report. Spielberg telst hiklaust einn af allra bestu kvikmyndaleikstjórum Bandaríkjanna á 20. öld og mun setja sterkan svip á þessa öld, að öllu óbreyttu. Ég fjalla um feril þessa magnaða leikstjóra í nýjustu leikstjóraumfjöllun minni á kvikmyndir.com.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á að líta á góðan bloggvef Hjörleifs vinar míns. Hleypidómar Hjörleifs er skemmtilegur vettvangur fyrir skoðanir Hjölla og þar tjáir hann sig um málin.

Snjallyrði dagsins
Þeir sem neita öðrum um frelsi eiga það ekki skilið sjálfir.
Abraham Lincoln forseti Bandaríkjanna (1861-1865)

24 október 2003

Heitast í pólitíkinni
Samkvæmt fréttum í dag er olíumálið komið á borð ríkislögreglustjóra og rannsókn hafin á þætti forstjóra félaganna og millistjórnenda á tímabilinu 1993-2001. Meðal þeirra sem falla undir þá rannsókn er Þórólfur Árnason borgarstjóri, en hann var markaðsstjóri ESSO 1993-1998. Hans þáttur í olíumálinu var mikið ræddur í sumar og fór ég yfir málið þá vel og hvet áhugasama til að lesa pistla um þetta á stebbifr.com. Mikið hefur verið rætt um niðurskurðartillögur Heimdallar sem kynntar voru í gær. Atli Rafn og félagar mínir í Heimdalli fengu verðskuldaða athygli fyrir sínar góðu tillögur sem ég vona að ríkisstjórn og fjárlaganefnd taki fyrir og gefi gott klapp - því svona eiga menn að gera! Enn er verið að deila um mál á Kárahnjúkum og verða mál þar eflaust bitbein í kjaraviðræðum sem brátt hefjast. Árni Magnússon félagsmálaráðherra, ávarpaði í gær ASÍ þing og var lágstemmt tekið, eftir varaforsetakjör sem Ingibjörg Guðmundsdóttir vann naumlega. Það er ljóst að félagsmálaráðherra hefur verið langmest áberandi framsóknarráðherra eftir kosningar. Er þarna kominn eftirmaður Halldórs, það er stóra spurningin?

Svona er frelsið í dag
Á frelsinu í dag skrifar Ragnar félagi minn, athyglisverðan pistil um Arnold Schwarzenegger, verðandi ríkisstjóra Kaliforníu, og skoðanir hans. Um það er vart deilt að hann er frjálshyggjumaður, sjálfur segist hann virða mjög Milton Friedman og lífsskoðanir hans. Ríkisstjórinn verðandi sem tekur við embætti 17. nóvember nk, af Gray Davis, á fyrir höndum erfitt verkefni við að bæta fjárhag Kaliforníufylkis og ennfremur styrkja undirstöður þess á margan hátt. Verkefnin eru næg og mikilvægt að Arnold taki vel til hendinni. Það er mikilvægt að hann vinni af krafti, mun í því reyna á skoðanir hans og sannfæringu í pólitík. Á frelsi er linkað í dag á gestapistil Hafsteins Þórs sem birtist á stebbifr.com í gær.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í Íslandi í dag var fjallað um kvennafrídaginn sem er í dag. 28 ár eru liðin frá því að konur héldu fjölmennan fund á Lækjartorgi og kröfðust meiri réttinda og minntu á sig. Vegna þess komu Svanborg og Katrín Anna og ræddu þessi mál. Konur voru hvattar til að mæta á vinnustað og krefjast 14% launahækkun. Vegna málsins var rætt við konur og þær spurðar hvað þær myndu gera. Ennfremur var málið rætt við borgarstjóra, fjármálaráðherra og stjórnendur í stórfyrirtækjum. Sérstaklega var athyglisvert að heyra komment þessara valdamiklu manna og mjúk svör þeirra. Það er ljóst að konur eiga að minna á sig og ekki óeðlilegt að krafist sé launajafnréttis. Misrétti af þessu tagi skal ekki líða og borga á jafnt fyrir sömu verk óháð kyni. Ekki á að gera upp á milli.

Kvikmyndir - MSN spjall
Eftir að hafa horft á dægurmálaþættina samkvæmt venju var farið að horfa á bíómyndir (hvað annað). Horfði ég á tvær magnaðar myndir og poppaði og alles - pure afslöppun og syndasvall að mínum hætti, hehe. Sá fyrst Adaptation, mögnuð mynd þar sem Nicolas Cage, Meryl Streep og Chris Cooper (fékk óskarinn - enda brillerar) fara á kostum. Svo var komið að því að sjá Chicago með Renée Zellweger, Richard Gere og Catharine Zeta Jones (sem er skemmtilega nastí í óskarsrullunni sinni). Pottþétt kvöld. Eftir þetta var skellt góðum jassdisk á fóninn og skellt sér á netið, þar sem rætt var við vini og kunningja í gegnum hið einstaka spjallkerfi MSN. Áttum við Kristinn Már virkilega gott spjall um flokkinn og innviði hans. Við Kristinn erum góðir í plottinu saman!

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum sem líta á mig á blogginu til að skella sér í heimsókn á magnaðan bloggvef Hauks Þórs, góðvinar míns. Hann fer þar á kostum. Stóridómur alltaf flottur. Kanzlarinn hittir alltaf á réttu punktana í umfjöllun sinni.

Snjallyrði dagsins
Til þess að njóta frelsisins verðum við að hafa stjórn á okkur sjálfum.
Virginia Woolf

23 október 2003

Heitast í pólitíkinni
Kjördæmavika þingmanna stendur nú yfir og þingmenn á ferð og flugi, þinghald hefst svo eftir helgi á ný. Mikið hefur seinustu daga verið rætt um málefni ríkis og kirkju og hvert skilja skuli þar á milli. Á Kirkjuþingi tjáðu biskup og kirkjumálaráðherra þá skoðun sína að svo ætti ekki að gera. Þeim er ég ósammála, ég tel borðleggjandi að rjúfa skuli tengslin á milli. Ekki á að gera upp á milli trúflokka og þau eiga að standa jöfn. Ríkistrú á ekki við á Íslandi í dag. Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, hefur átt erfiða mánuði að undanförnu og hefur þurft að horfa upp á að ná lágmarki í vinsældum og sæta yfirheyrslum vegna máls Dr. Kelly. Nú á dögunum veiktist hann, fékk hjartsláttartruflanir og var skipað að taka sér hvíld. Á meðan dala vinsældirnar og nú hefur hann náð sögulegri lægð í vinsældum. Demókrataslagurinn fyrir forsetakosningar á næsta ári er að verða sífellt spennandi. Sýnist á öllu að Wesley Clark sé þar í forystu. Það er þó enn rúmt ár til kosninga og langur vegur að tilnefningu flokksins. 10 í framboði þar, en í mars munu í mesta lagi 3-4 standa eftir.

Gestapistillinn
Á hverjum fimmtudegi héðan í frá verður á heimasíðu minni gestapistlar eftir þá sem ég hef kynnst í pólitísku starfi seinasta áratuginn. Fyrir viku skrifaði Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi á Akureyri, en í þessari viku er komið að Hafsteini Þór Haukssyni formanni SUS, að munda pennann og tjá skoðanir sínar á vefnum. Í pistli sínum fjallar Hafsteinn um ofbeldi gegn börnum. Í vikunni fór hann fyrir hönd SUS á fund um ofbeldi gegn börnum sem haldinn var á Nordica Hotel af menntamálaráðuneytinu, Barnaverndarstofu og Æskulýðsráði ríkisins. Bendir hann á í pistlinum að mikilvægt sé að leitað verði leiða til að stemma stigu við slíku ofbeldi, snúa vörn í sókn. Til þess þurfi samhent átak á víðum grundvelli. Við þurfum semsagt að vera vera vakandi fyrir því þjóðfélagsböli sem kynferðisofbeldi gegn börnum er. Það er á ábyrgð okkar allra, ekki bara fagfólks á vegum hins opinbera, að hlusta á börn, taka mark á þeim og kveikja á perunni þegar ekki er allt með felldu.

Svona er frelsið í dag
Aðalumfjöllunarefni á frelsinu í dag eru niðurskurðartillögur Heimdallar sem unnið hefur verið að af krafti seinustu vikur. Í morgun afhenti stjórn félagsins svo fjárlaganefnd Alþingis, niðurskurðartillögur þess vegna fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2004. Það var Magnús Stefánsson, formaður fjárlaganefndar, sem tók við tillögum Heimdallar í Alþingishúsinu. Við sama tækifæri afhenti stjórn Heimdallar fjárlaganefnd gullfisk til merkis um að hömlulaus eyðsla hins opinbera minni um margt á hegðun gullfiska. Þeir kunna sér ekki magamál og hætta ekki að éta þrátt fyrir að hafa fengið nóg. Háttur hins opinbera þegar kemur að útgjöldum er sambærilegur en eyðslunni virðast lítil takmörk sett. Hvet ég alla til að kynna sér tillögur félagsins í þessum efnum. Í skrifum á vefsíðu minni hef ég ítrekað skoðanir SUS á þessu máli, leita þarf allra leiða til að draga úr þenslu ríkisins og skera niður þar sem við á. Tillögur Heimdellinga í þessum efnum eru mikilvægar. Þetta er lofsvert framtak.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gærkvöldi í Íslandi í dag var Drífa Snædal í viðtali um skýrslu sína sem fjallar um vændisþjónustu almennt. Margt athyglisvert sem fram kom í spjallinu við hana. Gestur í Kastljósinu var m.a. mótmælandi Íslands nr. 1, Helgi Hóseasson sem þekktur er fyrir að hafa atað skyri á þingmenn og tjöru á Stjórnarráðið til að vekja athygli á skoðunum sínum. Í lok vikunnar verður frumsýnd mynd um hann. Vegna þess kom hann í spjall við Sigmar og Svansí. Litríkur karakter og spjallið kraftmikið. Kom einlæglega fram og tjáði sínar skoðanir hispurslaust. Fór á kostum er kom að því að útskýra skammstöfunina RÍÓ. Í Pressukvöldi Sjónvarpsins var gestur biskup Íslands. Umræðuefnið aðskilnaður ríkis og kirkju og umræða um ummæli hans um drauga. Komst biskup vel frá viðtalinu, tjáði skoðanir sínar af krafti. Fréttamenn hefðu mátt vera beittari og komast betur að vissum punktum, en mér fannst biskup svara lokaspurningunni um drauga vel.

Vefur dagsins
Í dag vil ég sérstaklega benda öllu sem líta hingað inn á góðan bloggvef vinar míns, Gísla Haukssonar, gjaldkera SUS. Þar tjáir hann sínar skoðanir án þess að hika og finnur oftast léttu hliðarnar á hlutunum til að krydda lýsingar sínar. Bendi einkum á góð ummæli hans um borgarstjórann í Reykjavík og umræðu um aðskilnað ríkis og kirkju. Litríkt og skemmtilegt blogg.

Snjallyrði dagsins
Óvinir frelsisins rökræða ekki; þeir skrækja og skjóta.
William R. Inge

22 október 2003

Heitast í pólitíkinni
Í gær var tilkynnt að Samfylkingin hefði eytt 81 milljón króna í kosningabaráttu sína fyrir seinustu alþingiskosningar. Af því eru tæplega 40 milljónir einvörðungu í auglýsingar. Þetta er 10 milljónum meira en t.d. Framsóknarflokkurinn borgaði fyrir sinn heildarpakka. Mikið auglýst - en árangurinn vart sá sem að var stefnt. Enn er verið að ræða dóm Hæstaréttar í öryrkjamálinu í seinustu viku. Eiríkur Tómasson kom fram í byrjun viku og sagði að öryrkjar yrðu aftur að höfða mál til að fá úr skorið um sín mál. Undarleg afstaða, tel þetta liggja vel fyrir. Úthlutun byggðakvóta til Akureyrar hefur komið forsvarsmönnum Akureyrarbæjar á óvart. Eins og flestir vita er bærinn eitt kvótahæsta sveitarfélag landsins og fékk í sinn hlut 5,4 þorskígildistonn, meira en t.d. Grímsey fékk. Enn fjalla netmiðlar á borð við Deigluna um Heimdallarslaginn með stórundarlegum hætti, reyndar gerist þetta (ótrúlegt en satt!) þrem vikum eftir að honum lauk. Deiglunnar var sárt saknað fyrir 1. október í umræðunni um þetta. Einhverra hluta vegna þögnuðu menn þar og tjáðu sig lítt um málið. Nú er hinsvegar lítið fjallað um annað en þetta á vefnum. Allskondið svo ekki sé fastar að orði kveðið í haustblíðunni.

Svona er frelsið í dag
Í dag skrifar Kristinn Már athyglisverðan pistil á frelsinu um frumvarp sem liggur fyrir þinginu um lækkun áfengiskaupaaldurs úr 20 árum niður í 18. Að baki frumvarpinu standa þingmenn úr öllum flokkum, þar af þrír sjálfstæðisþingmenn; Drífa Hjartardóttir, Bjarni Benediktsson og Einar Kristinn Guðfinnsson. Við ungt hægrifólk tökum að sjálfsögðu vel í það að þessar breytingar liggi fyrir og líklegt sé að þessu sé breytt. Tek ég undir með Kristni að á þá gleði fellur sá skuggi að aðeins sé gert ráð fyrir að 18 ára fólk megi kaupa áfengi sem er undir 22% vínandamörkum. Þetta er auðvitað fáránlegt og enn fáránlegra að 18 ára fólk sem er sjálfráða samkvæmt lögum (fullorðið fólk) megi ekki kaupa áfengi ef það vill. Þessi forræðishyggja hefur alla tíð verið fáránleg og enn vitlausara að setja svo svona mörk á. Engin mörk - fullorðið fólk á að fá að ráða sjálft sínum málum! Það er pointið á frelsinu í dag!

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gærkvöldi var rætt í Kastljósi um þjónustugjöldin í bönkunum og allt sem þeim fylgir. Svansí fékk til sín þá Guðjón Rúnarsson, Gylfa Arnbjörnsson og Vilhjálm Bjarnason til að ræða þessi mál. Við sem eigum greiðslukort vitum auðvitað vel að þjónustugjöldin eru mörg og endalaust er þeim dengt á fleiri staði og hækkuð eftir dúk og disk. Er nú svo komið að þjónustugjöldin eru hærri en sem nemur öllum launakostnaði tveggja stærstu banka landsins en slagar hátt í það hjá hinum þriðja. Guðjón átti í mesta basli að verjast enda sóttu Gylfi og Vilhjálmur hart að honum. Komu þeir fram með allskyns beitt og góð rök en Guðjón stóð eftir varnarlaus enda fátt til svara, annað en að bankarnir hækka gjöldin og þeim fjölgar stöðugt. Vilhjálmur sem var beittur í umræðunni um Eimskip á dögunum kom sterkur til leiks.

Kvikmyndir - tónlist
Í gærkvöldi eftir að hafa glápað á Kastljósið og þreytulegan bæjarstjórnarfund á Aksjón (þar sem Doddi og Oktavía áttu eina snerru) skellti ég mér í bíó á myndina Kill Bill. Virkilega góð hasarmynd að hætti meistara Quentin Tarantino. Hafði ég mjög gaman að henni, enda hasar alltaf líflegur á haustkvöldi, ekki satt?? Er heim var komið var litið á netið og haldið áfram að lesa á þeim bókum sem ég hef nefnt að verið er að lesa af miklum áhuga. Keypti mér í vikunni nýja diskinn hans Bubba, virkilega góður og skemmtilegur. Sannkallað eyrnakonfekt fyrir alla sanna Bubbaáhugamenn. Skráði mig í gær svo á vefinn tonlist.is þar sem hægt er að sækja lög af netinu og hafa í tölvunni, spennandi kostur fyrir alla þá sem vilja hafa góða íslenska tónlist í lagasafninu í tölvunni.

Vefur dagsins
Í dag vil ég sérstaklega benda öllum fastagestum á blogginu á góðan vef félaga míns og nafna, Stefáns Einars Stefánssonar. Hann er óhræddur við að tjá skoðanir sínar og ræðir hispurslaust um menn og málefni. Hvet alla til að skella sér í heimsókn til hans nú þegar - ef ekki hefur þegar verið litið á vefinn hans.

Snjallyrði dagsins
Þar eru menn frjálsir þar sem þeim er óhætt að afla sér óvinsælda
Adlai Stevenson sendiherra og forsetaframbj. demókrata 1952 og 1956.

21 október 2003

Heitast í pólitíkinni
Aðalumræðuefnið í dag er umfjöllun Neytendasamtakanna um banka og tryggingarfélög til dæmis. Fram kemur í blöðum í dag að NS segir bankana hafa hagnast um 3,7 milljarða fyrstu sex mánuði ársins vegna óeðlilegs vaxtamunar og hárra þjónustugjalda. Þetta eru athyglisverðar tölur og reyndar vekur öll umfjöllun NS áhuga neytenda í landinu, eins og gefur að skilja. R-listinn er enn í sárum eftir að Steinunn Birna gekk á dyr, í dag segir hún á mbl.is að henni hafi verið meinað að tjá eigin skoðanir um Austurbæjarbíó og ennfremur að henni hafi oft verið settur stóllinn fyrir dyrnar - svona er nú lýðræðið í borgarmálaráði R-listans þessa dagana. Kristján Pálsson er aftur genginn í Sjálfstæðisflokkinn. Það er gott segja eflaust einhverjir. Ekki tel ég svo vera. Maður sem kostaði flokkinn forystuna í Suðurkjördæmi og þingsæti, er vart aufúsugestur. Betra hefði verið að Kristján hefði dregið sig í hlé fyrir kosningar og beðið eftir næstu kosningum, en það er vart við að búast að hann verði dreginn fram í dagsljósið fyrir flokkinn framar.

Svona er frelsið í dag
Á frelsinu er alltaf fjör og fjölbreytt umfjöllun. Í dag skrifar Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir virkilega góðan pistil um nöfn og ennfremur um mannanefndanefnd og hlutverk hennar. Fer Helga yfir málið á athyglisverðan hátt. Bendir ennfremur á mörg skondin nöfn sem nefndin hefur samþykkt. Það er ekki laust við að maður fái á tilfinninguna að þetta sé ein silkihúfunefndin gagngert sett fram til að hafa ekkert að gera. Miðað við þau nöfn sem samþykkt kemur spurning dagsins, af hverju mannanefnanefnd til að stjórna almenningi og nöfnum á börn fólks. Enginn tilgangur með þessu, burt með svona bákn! En Helga á heiður skilið fyrir góða umfjöllun.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gærkvöldi var rætt í Íslandi í dag um skýrslu Neytendasamtakanna um iðgjöld og fleira því tengt. Þar voru Jóhannes Gunnarsson neytendaformaður og Gunnar Felixson forstjóri TM að rífast um þetta og fóru yfir málin, með mjög ólíkar skoðanir eins og við var að búast. Eftir spjall þeirra stóð eftir spurningin hvor hefur rétt fyrir sér. Eiga ásakanir NS um of há þjónustugjöld, sér rök í veruleikanum, ef svo er á ekki að taka á því. Fá þetta á borðið takk! Í Kastljósinu ræddu Gísli Gíslason bæjarstjóri á Skaganum og þingmaðurinn Magnús Þór Hafsteinsson (sem eitt sinn var víst fréttamaður) um kvótamál á Skaganum og ekki sammála um það. Auðvitað vona allir að farsæl lending verði í þessu máli, en öfgaskoðanir þingmannsins vekja mikla athygli. Ennfremur kom Einar Mar í viðtal um athyglisverða skýrslu sína um flokka og kjósendur, virkilega fróðlegir punktar hjá honum.

Bækur - kvikmyndir
Þessa dagana er ég meðfram pistlaskrifum á frelsið, kvikmyndir.com og Íslending að lesa aftur seinasta bindi ævisögu Einars Ben eftir Guðjón Friðriksson. Alveg einstök bók, sannkallað augnakonfekt. Skemmtilega sagt frá þessum einstaka karakter. Er einnig að lesa í ljóðabók Jónasar Hallgrímssonar, en ég hef miklar mætur á kveðskap þeirra Einars og Jónasar. Horfði í gærkvöldi á All About Eve, sannkölluð perla þar sem Bette Davis, George Sanders og Anne Baxter eiga stjörnuleik. Um helgina horfði ég á stórmyndir Spielbergs, Schindler´s List og Saving Private Ryan áður en ég skrifaði leikstjórapistil um hann. Svo horfði ég á The Bridge on the River Kwai á sunnudaginn, semsagt háklassabíó á mínu heimili. Enda er ég og mitt kvikmyndasafn vinsæl hjá fjölskyldunni! hehe

Vefur dagsins
Í þessari viku er þema á vef dagsins, vinablogg. Benti í gær á vef Kidda. Í dag er svo komin röðin að góðum bloggvef Helgu sem er frelsispenni eins og ég. Helga er ekki feimin að tjá skoðanir sínar og dugleg að blogga þegar hún hefur skoðanir, perla á vefnum!

Snjallyrði dagsins
Frelsi þýðir ábyrgð. Það er þess vegna sem flestir menn óttast það
George Bernard Shaw

20 október 2003

Breytingar á blogginu
Frá og með deginum í dag verður sú breyting á bloggvef mínum að þar verður á ný dagleg umfjöllun og farið yfir það helsta í pólitík og þjóðmálum almennt. Ennfremur vel ég vef dagsins, ávallt skal þar vera vefur sem ég lít á daglega og fylgist vel með. Þær breytingar sem verða að auki koma eftir hendinni, nú er bara að fylgjast vel með!

Ríkið í fjölmiðlarekstri - tímaskekkja á 21. öld
Í dag birtist pistill eftir mig á frelsi.is. Viðfangsefni hans er ríkið og fjölmiðlar á 21. öld - er það ekki tímaskekkja að ríkið sé að reka fjölmiðla þegar einkaaðilar eru fullfærir um slíkt? Það er það að mínu mati, mínar hugsjónir segja mér að rangt sé að ríkið sé að vasast í slíku á okkar dögum. Fer ég yfir málið í pistlinum og bendi á skoðun SUS í þessu máli og mína sem stjórnarmanns þar. Afstaða ungra sjálfstæðismanna til fjölmiðlunar af hálfu ríkisins er alveg skýr. Í ályktun efnahags- og viðskiptanefndar SUS sem samþykkt var á þingi þess í Borgarnesi, 12. – 14. september 2003 kemur skýrt fram vilji ungs hægrifólks til þess að hafinn verði undirbúningur þess að einkavæða RÚV og selja strax t.d. Rás 2. Það er verkefni hægrimanna að binda enda á ríkisrekstur á fjölmiðlum.

Góður pistill um hátekjuskattinn
Á föstudaginn skrifaði Hædí (Heiðrún Lind Marteinsdóttir stjórnarmaður í Heimdalli) alveg virkilega góðan pistil um hátekjuskattinn sem um þessar mundir fagnar því miður tíu ára afmæli sínu. Fram kemur í pistli hennar að hátekjuskatturinn hafi fyrir löngu vitanlega runnið sitt skeið. Verið sé með honum að flækja skattkerfið að óþörfu og skattbyrðin leggist enn þyngst á þá sem sýna dugnað. Höfundi þykir miður að stjórnarflokkarnir skuli heiðra hátekjuskatt á 10 ára afmæli með því að blása í hann lífi enn á ný. Ég tek algjörlega undir orð hennar og bendi ennfremur á fínan pistil Maríu Margrétar í seinustu viku um menningarmál. Flottar stelpurnar á frelsi!

Vefur dagsins
Vefur dagsins er hiklaust góður bloggvefur vinar míns Kristins Más Ársælssonar ritstjóra á frelsi.is. Hann bloggar oft á dag um hugðarefni sín og það sem hann vill tjá sig um. Fersk og góð umfjöllun hjá Kristni Má. Allir að líta í heimsókn til hans.

19 október 2003

Ársafmæli bloggvefs Stebba
Í dag er ár liðið síðan ég hóf bloggskrif á netinu. Það var seinnipart októbermánuðar 2002 sem ég ákvað að opna eigin bloggsíðu og tjá þar skoðanir mínar á málefnum samtímans. Fyrr sama ár hafði ég opnað eigin heimasíðu. Fyrir mér var bloggheimurinn frá upphafi einkar spennandi vettvangur til að tjá skoðanir mínar og hef ég uppfært bloggvefinn reglulega allan þennan tíma. Seinustu mánuði hef ég eytt að mínu mati of miklum tíma í spjalli við kverúlanta á einum kima netsins. Þetta horfir nú allt á betri veg fyrir þá fjölmörgu sem líta hér inn og ég mun nú á þessum tímamótum hefja á ný dagleg bloggskrif og verða virkari í þeim en t.d. seinustu mánuði. Pælingarnar halda áfram af krafti.

Öryrkjadómurinn – ómálefnalegheit á spjallvefum
Í sunnudagspistli vikunnar á heimasíðunni, fjalla ég um dóm Hæstaréttar í máli öryrkja gegn ríkinu í vikunni, niðurstöður dómsins og afleiðingar hans. Jafnframt sé ég ástæðu til að beina orðum mínum að umfjöllun stjórnarandstöðunnar um málið á þingi seinnipart vikunnar og sérstaklega gífuryrðum varaþingmanns Samfylkingarinnar sem fór í pontu og lét ummæli falla sem vart teljast eðlileg af manneskju í hennar stöðu sem verðandi sjálfkjörins varaformanns næststærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar. Að lokum fjalla ég um umræður á spjallvefum á Netinu og um þátttöku mína á þeim seinustu þrjú árin, en ég hef þar ávallt tjáð skoðanir mínar og staðið vörð um mínar hugsjónir í pólitík.

Sendiráð Svavars innréttað
Athyglisvert var að horfa á kvöldfréttir Ríkissjónvarpsins. Þar var viðtal við Svavar Gestsson sendiherra í Svíþjóð og fyrrv. ráðherra og formann Alþýðubandalagsins. Umræðuefnið í viðtali fréttamanns við sendiherrann var það að sendiráðsskrifstofan í Stokkhólmi hefur verið tekin í gegn og gagngerar endurbætur átt sér stað. Þarna tjáði fyrrum kommaþingmaðurinn hverjir hefðu lagt til húsgögnin og hvaðan innréttingarnar hefðu komið. Allt auðvitað í fyrsta klassa og gasalega flott. Það vakti eflaust athygli fleiri en mín að kommaformaðurinn sem eitt sinn trallaði nallann væri kominn í glanslífið með þessum hætti, viðtalið minnti helst á slappa eftiröpun á Völu Matt og Innliti - útliti. Svavar sagði að öllum líði vel í sendiráðinu nýinnréttaða - enda hví ekki? Free expenses og allt greitt. Þetta er hið ljúfa líf. Óskandi er að fréttastofan muni fylgja fréttinni eftir með ítarlegri fréttaskýringu um kostnað skattgreiðenda við þessar framkvæmdir, sem og við önnur sendiráð víða um heim.

17 október 2003

Gestapistlar á stebbifr.com
Hér eftir munu gestapistlar birtast á heimasíðu minni, stebbifr.com, alla fimmtudaga. Til þess að skrifa þá fæ ég fjölda fólks sem ég þekki og hef kynnst í gegnum tíðina í stjórnmálastarfi. Í þessum skrifum fá viðkomandi frjálsar hendur til að tjá sig á eigin hátt. Með því vil ég krydda síðuna með öðrum áherslum og fá inn fólk til liðs við mig sem ég hef áhuga á að tjái sig á vefsíðu minni. Fyrst með gestapistil er Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og formaður menningarmálanefndar bæjarins. Í pistli sínum fjallar Sigrún Björk á athyglisverðan hátt um fyrirlestur Adrianne Clarkson í HA í vikunni og tengsl þjóða á norðurslóðum.

16 október 2003

Burt með kynjapólitík
Athygli vekur að halda eigi stjórnmálanámskeið fyrir konur undir yfirskriftinni „Láttu að þér kveða!“ á vegum Stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins, Sambands ungra sjálfstæðismanna, Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, og Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík. Taldi ég þessa kynjapólitík að baki en sé svo að nú skal leitað til fortíðar í þessu. Get ég ekki annað en lýst yfir vonbrigðum mínum með þetta og tel reyndar ástæðu til að segja afdráttarlaust að í pólitík eigi allir að standa jafnir og komast áfram á eigin verðleikum en ekki kynjastaðals. Í því ljósi get ég ekki verið sáttur við það að öðru kyninu sé hyglað frekar en hinu með þessum hætti.

Jóhannes Páll páfi II á páfastóli í aldarfjórðung
Jóhannes Páll páfi II fagnaði í dag aldarfjórðungssetu sinni í embætti en enginn annar páfi á 20. öld hefur setið jafn lengi og hann og einungis þrír aðrir páfar hafa ríkt lengur en hann. Páfi hefur haldið fast við stefnu sína þrátt fyrir sífellt hrakandi heilsu. Tugir þúsunda pílagríma flykktust á Péturstorgið í Róm til að vera viðstaddir messu sem hófst kl. fjögur að íslenskum tíma eða á sama tíma og hvítur reykur reis upp úr reykháfi Páfagarðs fyrir 25 árum til merkis um að kardínálar hefðu komið sér saman um nýjan páfa. Pólverjinn Karol Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali.

Umdeildur páfi - setið allt til enda á stóli
Enginn vafi er á að þrátt fyrir farsæla setu á páfastóli er Jóhannes Páll II umdeildur páfi. Fylgismenn hans staðhæfa að hann hafi átt drjúgan þátt í endalokum kommúnismans með baráttu sinni fyrir frelsi og mannlegri reisn í Póllandi og öðrum A-Evrópuríkjum. Andstæðingar hans segja að páfi hafi hrakið milljónir manna úr kaþólsku kirkjunni með íhaldssemi. Hann sé andvígur því að konur gegni prestþjónustu, hann leggist gegn getnaðarvörnum, ástarsamböndum samkynhneigðra og því að prestar kvænist. Þrátt fyrir slæmt heilsufar hyggst Páfi sitja á stóli til dauðadags og vísar á bug að hann víki vegna heilsubrests. Það sé hans sannfæring að aðeins Guð geti bundið enda á það verkefni sitt að þjóna í embætti sínu kaþólsku fólki.

15 október 2003

Góð ummæli Sigurðar Kára
Undanfarna daga hefur Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, tjáð sig af krafti um frumvarp sem Lúðvík Bergvinsson hefur lagt fram ásamt öðrum þingmönnum úr Samfylkingunni á þingi. Í frumvarpinu er lagt til að Samkeppnisstofnun verði gert kleift að leita á heimilum stjórnenda fyrirtækja að gögnum. Í viðtali við frelsi.is segir Sigurður Kári um frumvarpið: "Það er varasamt að veita rannsóknaraðilum of víðtækar rannsóknarheimildir. Með þessu frumvarpi er allt of langt gengið. Það er varasamt að veita rannsóknaraðilum of víðtækar rannsóknarheimildir. Samkeppnisstofnun er stjórnvald en ekki lögregla.

Það er ekki rétt að veita stjórnvaldi svo ríkar heimildir og slíkt getur farið í bága við ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem kveðið er á um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Það er engin ástæða til að færa Samkeppnisstofnun slík völd, ekki frekar en öðrum stjórnvöldum á borð við skattstjóra og Fiskistofu. Ef Samkeppnisstofnun telur þörf á slíkri húsleit á hún að beina þeim grunsemdum til lögreglu. Það er hinsvegar ástæðulaust að stofna nýja lögreglu, eins og mér sýnist frumvarpið ganga út á". Tek ég heilshugar undir ummæli Sigurðar Kára og fagna viðbrögðum hans við frumvarpi Samfylkingarmanna á þingi.

12 október 2003

Ríkið í megrun! – ný pólitísk stjarna í Kaliforníu
Í sunnudagspistli vikunnar fjalla ég um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, sem lagt var fram 1. október sl. Ennfremur fer ég yfir helstu tölur sem því fylgja, þær sem skipta alla landsmenn miklu máli. Legg á það áherslu að þingmenn standi sig í að skera niður útgjöld ríkisins eftir fremsta megni og minni á ályktanir SUS-þings í Borgarnesi og afstöðu ungs hægrifólks í þeim efnum. Fram hefur komið í fréttum að gjöld ríkisins á hvern bensínlítra muni hækka um tæplega fjórar krónur, fordæmi ég þá ákvörðun með tilliti til kosningaloforða í vor. Að síðustu fjalla ég um pólitíkina í Kaliforníufylki í vikunni, en Arnold Schwarzenegger var kjörinn ríkisstjóri með afgerandi hætti, er þar ný pólitísk stjarna komin fram á sjónarsviðið.

Leikstjóraumfjöllun - Billy Wilder
Í vikunni birtist leikstjóraumfjöllun á kvikmyndir.com um leikstjórann Billy Wilder. Billy Wilder átti hann einstakan feril í kvikmyndaheiminum og telst hiklaust einn af mestu snillingum bandaríska kvikmyndaheimsins á tuttugustu öld. Fáir innflytjendur sem flutt hafa til Bandaríkjanna hafa náð betur að fanga ameríska mannlífsmenningu eða notað tungumálið jafn listilega í kvikmyndahandritum sínum og hann. Wilder var einn fremsti kvikmyndagerðarmaður 20. aldarinnar, sannkallaður meistari í að tjá mannlíf og koma með húmorinn á rétta staði í handrit og gæða þau einstöku lífi. Hann var brautryðjandi gamanmyndanna eins og við þekkjum þær í dag. Hann var snillingur í fremstu röð.

11 október 2003

Arnold Schwarzenegger kjörinn ríkisstjóri
Kvikmyndaleikarinn Arnold Schwarzenegger var í vikunni kjörinn næsti ríkisstjóri Kaliforníu. Gray Davis sem fyrir tæpu ári var endurkjörinn ríkisstjóri, tapaði kosningu um hvort hans umboð myndi halda út kjörtímabilið. Allt frá því hann var endurkjörinn hafa aukist efasemdarraddir um hæfni hans til að gegna embættinu. Fram hefur komið í fjölmiðlum að opinber sjóðþurrð blasi við í þessu auðugasta og fjölmennasta ríki Bandaríkjanna. Efnahagskerfi Kaliforníu er það fimmta stærsta í heiminum, en fjárlagahallinn nemur yfir 35 milljörðum dollara. Kosningin fór þannig fram að kjósendur merktu við hvort hann ætti að sitja áfram á ríkisstjórastóli og jafnframt að velja á milli 135 frambjóðenda um embættið. Sigur Schwarzenegger er mikið áfall fyrir demókrata, enda vann Al Gore sigur í fylkinu árið 2000, þetta hefur verið eitt aðalfylki demókrata og repúblikani ekki unnið þar sigur í forsetakosningum frá 1988 er Bush eldri vann Michael Dukakis. Það verður athyglisvert að fylgjast með forsetaslagnum í fylkinu á næsta ári, enda ríkisstjórinn þá repúblikani.

Edduverðlaun afhend - Nói albinói með 6 verðlaun
Edduverðlaunin 2003 voru afhent í gærkvöld. Kynnar kvöldsins voru Sverrir Þór Sverrisson og Eva María Jónsdóttir. Sigurvegari kvöldsins var kvikmyndin Nói albinói sem hlaut 6 eddur. Leikkonuverðlaunin hlutu Edda Heiðrún Backman (fyrir að leika fyrrverandi borgarstjóra í Skaupi) og skáldkonan Didda (fyrir leik sinn í Stormviðri). Leikaraverðlaunin hlutu Tómas Lemarquis og Þröstur Leó Gunnarsson (fyrir leik í Nóa albinóa). Ómar Ragnarsson fékk Edduna sem fréttamaður ársins og Jón Ársæll fyrir besta sjónvarpsþáttinn, Sjálfstætt fólk. Gísli Marteinn Baldursson var valinn sjónvarpsmaður ársins og Dagur Kári Pétursson hlaut verðlaun fyrir leikstjórn og handrit Nóa albinóa. Heiðursverðlaun akademíunnar hlaut Knútur Hallsson fyrrv. ráðuneytisstjóri.

07 október 2003

Þing kemur saman – málefni Heimdallar - bréfasafn Laxness
Í sunnudagspistli vikunnar fjalla ég um þingbyrjun, en þing var sett af forseta Íslands 1. október sl. Þann dag var fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar lagt fram, ég lít yfir það frumvarp og ennfremur beini ég orðum mínum að 17. og jafnframt seinustu stefnuræðu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, “í þessum áfanga” eins og hann sagði sjálfur í lok ræðunnar. Stefnuræðu forsætisráðherra var lekið til fréttastofu Stöðvar 2, þann 30. september, ég fjalla um að grafalvarlegt sé að kjörinn þingmaður brjóti trúnað og leki efni ræðunnar, það kallar væntanlega á breytingar á þingsköpum eins og forsætisráðherra hefur sjálfur sagt. Ný stjórn Heimdallar var kjörin á aðalfundi félagsins í vikunni, flest benti til harðvítugra átaka á aðalfundinum en þess í stað var Atli Rafn Björnsson sjálfkjörinn formaður félagsins og framboðslisti hans til stjórnar, ég fer yfir það mál og eftirmála aðalfundarins og atburða vikunnar í Heimdalli. Að lokum fjalla ég um þá stórundarlegu ákvörðun fjölskyldu Halldórs Laxness að láta loka bréfasafni hans fyrir fræðimönnum næstu þrjú árin.

Ályktun SUS
Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar var venju samkvæmt lagt fram á þingi á þingsetningardegi. Í tilefni þess var eftirfarandi ályktun samþykkt á stjórnarfundi SUS, að kvöldi 2. október: “Samband ungra sjálfstæðismanna fagnar þeim fyrirhuguðu skattalækkunum sem fjallað er um í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2004, en á árunum 2005 til 2007 er stefnt að því að um 20 milljörðum króna verði varið til skattalækkana. Hins vegar harmar SUS að gert sé ráð fyrir að lagaheimild til að leggja á hátekjuskatt verði endurnýjuð, en að öllu óbreyttu hefði hátekjuskattur runnið sitt skeið á enda í árslok. Ástæða er einnig til að fagna því að í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir umtalsverðum tekjuafgangi. Um leið leggur SUS á það áherslu að þingmenn leiti leiða til að skera niður útgjöld ríkisins. Við umræður um fjárlögin er mikilvægt að þingmenn hafi það hugfast að fara skal sparlega með það fé almennings sem þeim er treyst fyrir.”

Breytingar hjá frelsi.is
Ný stjórn Heimdallar kom saman í vikunni og skipti með sér verkum í kjölfar aðalfundar. Atli Rafn Björnsson formaður Heimdallar, kynnti tillögu að stjórnarskipan. Ragnar Jónasson verður varaformaður, en hann var ritari stjórnarinnar áður. Heiðrún Lind Marteinsdóttir verður ritari í stað Ragnars, en Kristinn Árnason verður gjaldkeri í stað Atla Rafns. Við ritstjórn frelsi.is taka Kristinn Már Ársælsson og Snorri Stefánsson. Jón Hákon Halldórsson lætur þarmeð af störfum sem ritstjóri vefsins. Vil ég nota tækifærið og þakka honum gott samstarf í gegnum vefinn og í flokksstarfinu síðastliðið ár. Hann á mikið hrós skilið fyrir gott verk. Ég tek sæti í ritnefnd vefsins við þessar breytingar ásamt góðum hópi fólks. Samhliða flutningum til höfuðborgarsvæðisins mun ég taka meiri þátt í störfum flokksfélaganna þar, þegar ég flyt frá Akureyri.

01 október 2003

Aðalfundur Heimdallar - ný stjórn
Aðalfundur Heimdallar var haldinn í dag. Á honum var kjörin ný stjórn félagsins, næsta starfsárið: 2003-2004. Fyrir upphaf aðalfundarins dró Bolli Thoroddsen frambjóðandi til formennsku í félaginu, og 11 stjórnarmenn framboðs sem hann leiddi, framboð sín til baka. Atli Rafn Björnsson var þá aðeins einn í framboði til formennsku og ellefu til stjórnar og voru þau sjálfkjörin til setu í stjórn Heimdallar. Stjórn félagsins skipa: Atli Rafn Björnsson formaður, Hafrún Kristjánsdóttir, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Ingólfur Snorri Kristjánsson, Kristinn Árnason, Kristinn Már Ársælsson, Ólafur Hvanndal Ólafsson, Ósk Óskarsdóttir, Ragnar Jónasson, Svanhildur Sigurðardóttir, Snorri Stefánsson og Steingrímur Arnar Finnsson. Ég óska þeim góðs gengis í störfum sínum fyrir Heimdall.

Þingsetning
Í dag var Alþingi Íslendinga sett af forseta Íslands. Framundan er að öllum líkindum kraftmikill pólitískur vetur. Skammt er þó liðið frá þingkosningum, þar sem stjórnarflokkarnir hlutu endurnýjað umboð til að vinna af krafti. Þinghald í vetur mun eflaust bera þess keim að kjörtímabilið er nýhafið og langt til kosninga, að öllu óbreyttu. Þær verða ekki fyrr en í maímánuði 2007 í síðasta lagi, en sveitarstjórnarkosningar verða eftir tæp 3 ár. Því er langt þar til landsmenn ganga næst að kjörborðinu. Pólitíska andrúmsloftið mun því einna helst einkennast af snerrum milli stjórnar og stjórnarandstöðu í þingsölum. Það má búast við mörgum utandagskrárumræðum um ýmsa hluti og þingfrumvörpum þar sem stjórnarandstaðan reynir að minna á sig, enn betur en fyrir seinustu þingkosningar, þar sem stefnu stjórnarandstöðunnar, t.d. í sjávarútvegsmálum, var að mestu hafnað.

Stefnuræðu lekið
Athygli vakti að fréttastofa Stöðvar 2 fjallaði um stefnuræðu forsætisráðherra á ítarlegan hátt í gærkvöldi og greindi þar frá efni hennar. Í fréttinni sást eintak af stefnuræðunni (þar sem stóð stórum stöfum trúnaðarmál) og því ljóst að henni hafði verið lekið til fréttastofunnar. Samkvæmt þingsköpum skal eintaki af stefnuræðu forsætisráðherra afhend þingmönnum þrem dögum áður en hún er flutt í þingsal. Það er því ljóst að einn þingmanna hefur afhent fréttastofu Stöðvar 2, annaðhvort sjálfur eða með atbeina þriðja aðila ræðuna. Slíkt er auðvitað mjög alvarlegt mál og ber að taka á með viðeigandi hætti. Eins og fram hefur komið er líklegt að þingsköpum verði breytt með þeim hætti að aðeins ræðumenn við stefnuræðuna fái eintak af henni eða þá að henni verði fyrst dreift til þingmanna sama dag og hún er flutt. Réttast væri að viðkomandi gæfi sig fram og tekið yrði með þeim hætti á málinu, enda liggja allir þingmenn undir grun.