Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 janúar 2006

Stefán Friðrik Stefánsson

Eftirfarandi grein birtist á Íslendingi í dag:


Mikilvægi valfrelsis í skólamálum

Ég hef alltaf verið mikill talsmaður frelsisins. Það er mikilvægt að tryggja fólki frelsi til að velja. Allan þann tíma sem ég hef verið virkur í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins hef ég stutt stefnumótun innan Sambands ungra sjálfstæðismanna um að tryggja að það frelsi sem mikilvægt er eigi málsvara í stefnu SUS. Í gegnum tíðina hefur SUS verið í forystusveit á því sviði. Ég hef sem stjórnarmaður í SUS í þrjú ár verið að vinna að því að tala máli frelsisins. Það hefur verið mjög gleðilegt að taka þátt í því í fremstu víglínu að móta stefnu SUS og leiða málaflokka við þá stefnumótun. Einn af þeim málaflokkum sem ég hef metið mest að vinna við á því sviði eru skólamálin. Það er alveg óhætt að segja að rödd okkar SUS-ara í skólamálum hafi verið öflug. Þar höfum við talað máli frelsisins – umfram allt.

Ég hef alla tíð verið mjög hlynntur valfrelsi á skólastiginu. Að mínu skiptir gríðarlega miklu máli að fólk eigi val – val er án nokkurs vafa framtíðin í skólamálum í pólitík samtímans. Ég skrifaði fjölda greina á heimasíðu mína, www.stebbifr.com, árið 2004 þegar að málefni leikskólans Hólmasólar voru til umræðu, er Samfylkingin gagnrýndi ákvarðanir meirihlutans og fór yfir mínar skoðanir vel. Þar talaði ég máli þess að innleiða nýja stefnu í skólamálum: tryggja frelsi fólks til að velja í skólamálum. Það er mjög mikilvægt að tryggja að fersk hugmyndafræði og tillögur séu ávallt til vinnslu og við sjálfstæðismenn verðum að tryggja að við séum rödd þess ferskleika - sækjum ávallt fram af krafti.

Að mínu mati er góð fyrirmynd fyrir okkur hér staða mála í Garðabænum, en það var mjög áhugavert og spennandi að fylgjast með því hvernig að Ásdís Halla Bragadóttir markaði sér skref á pólitískum ferli sínum með valfrelsi og öflugum valkostum í skólamálum á bæjarstjóraferli sínum. Ásdís Halla mat orðið frelsi mikils – enda einn af fyrrum forystumönnum okkar í SUS. Við öll sem unnum með Ásdísi Höllu í forystusveit SUS og höfum verið þar síðan vitum öll að stefna okkar átti öflugan málsvara í henni á meðan að hún leiddi meirihluta okkar sjálfstæðismanna í Garðabæ – hún þorði í þessum málaflokki: umfram allt þorði að starfa eftir skoðunum og áherslum okkar í SUS. Það hef ég alla tíð metið mjög mikils.

Það hefur verið ánægjulegt að kynna sér stefnu Garðabæjar í skóla- og menntamálum og þátt Ásdísar Höllu í þeirri stefnu sem þar hefur verið mörkuð með mjög farsælum hætti. Þriðja hvert barn á leikskólaaldri í Garðabæ er í einkareknum leikskóla og nú er nýr skóli opnar á þessu ári í Sjálandshverfi mun þetta hlutfall hækka í annað hvert barn. Með verkum sínum í Garðabænum hefur Ásdís Halla horft til framtíðar í þessum málaflokki og ennfremur farið nýjar og markvissar leiðir – horft til framtíðar, farið eftir áherslum sem eru réttar: fylgt eftir áherslum þess frelsis sem mestu skiptir. Í Garðabæ tókst að umbylta skólakerfi bæjarins með glæsilegum hætti og stokka það upp og gera það að fyrirmyndarkerfi í íslenskum menntamálum: kerfi sem aðrir hafa hug á að taka upp og þróa í þá átt að fylgja frumkvæði sjálfstæðismanna þar.

Ég vil feta í sömu átt – ég vil sjá Akureyri sem öflugan valkost í skólamálum hvað snertir rekstrarform leik- og grunnskóla þar sem mismunandi hugmyndafræði er til staðar og val foreldra og nemenda þess því meira. Ég vil sjá aukna samkeppni um þá þjónustu sem er verið að bjóða á leik- og grunnskólastigi með mismunandi rekstrarformum og valfrelsi. Íbúar hér á Akureyri eiga í framtíðinni að geta valið að mínu mati um þjónustu hjá mismunandi aðilum. Það veitir nauðsynlegt aðhald og samkeppnin tryggir svo ennfremur aukin gæði.

Við eigum að stefna í sömu átt og mótuð var í Garðabæ undir pólitískri forystu Ásdísar Höllu - hafa sama metnað og sama kraft að leiðarljósi hér. Valfrelsi í skólamálum er framtíðin!

stebbifr@simnet.is

30 janúar 2006

Stefán Friðrik

Ég vil þakka kærlega fyrir þá pósta og kveðjur sem ég hef fengið send til mín. Ég er ekki alveg stemmdur í skrif í dag en reyni að koma mér í gírinn sem þarf til þess á morgun. Færi þess í stað hér í dag upp færslu föstudagsins en þá birti ég eftirfarandi grein mína, en hún birtist í Vikudegi fimmtudaginn 26. janúar sl.

Stefán


Öflugt og vaxandi sveitarfélag

Það er mjög þægilegt að búa á Akureyri – samfélagið er notalegt og bæjarbragurinn er góður. Þetta er góður staður – enda er það notalegt að þegar maður fer út í búð, í bíó eða jafnvel í leikhús að þekkja flest andlitin og þekkja þá sem maður hittir á förnum vegi. Hér er enda allt sem við metum mikils: góðar og greiðar samgöngur, fjölbreytt menningarstarfsemi, framúrskarandi skólar, faglegt íþrótta- og tómstundastarf og snyrtilegt samfélag.

Að mínu mati verða fleiri atvinnutækifæri og fjölbreyttara atvinnulíf helstu áherslumál unga fólksins hér á Akureyri í bæjarstjórnarkosningunum í vor. Enda býr hér vel menntað fólk og fólk kemur víðsvegar að af landinu til að nema í menntaskólunum og háskólanum. Það hefur valið sér hér búsetu og vill geta gengið að góðum störfum – búa við góð tækifæri. Það er að mínu mati ekki hlutverk hinna kjörnu fulltrúa almennings á sveitarstjórnarstiginu að þenja út starfsemi sveitarfélaganna eða að sjá til þess að þar sé fjölbreytt atvinnulíf með beinum hætti, en þeir verða að tryggja góð skilyrði á staðnum. Þeir þurfa að hlúa að umgjörð sveitarfélagsins svo að það blómstri sem best og verði öflugt og gott – notaleg umgjörð fyrir gott atvinnulíf.

Akureyri þarf ávallt að vera í fremstu röð - vera besti kosturinn til að búa á – til að fá góð störf, lifa við bestu tækifærin sem bjóðast og njóta þess besta sem til er. Það er forgangsmál að auka atvinnutækifæri og gera Akureyri að staðnum sem vissulega er gott að heimsækja en enn betra er að búa á. Frá árinu 1998, seinustu tvö kjörtímabil, hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í meirihluta í bæjarstjórn Akureyrarbæjar síðustu árin og verið í forystu bæjarmálanna. Kjörnir fulltrúar flokksins hafa á þessum tíma unnið með miklum krafti að því að bæta umgjörð sveitarfélagsins – tryggja að það sé blómlegt og kraftmikið.

Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 11. febrúar gefa 20 einstaklingar kost á sér - ég er þeirra á meðal. Ég hef verið flokksbundinn í rúman áratug, tekið þátt í ungliðastarfi flokksins mjög lengi, verið í stjórn SUS frá 2003 og formaður Varðar, félags ungra, frá árinu 2004. Ég hef mikinn áhuga á stjórnmálum, hef skrifað mikinn fjölda pistla um stjórnmál til fjölda ára á vef mínum, www.stebbifr.com, og kynnt skoðanir mínar á málefnum samtímans af þeim krafti sem einkennir netskrifin. Það er mjög skemmtilegt að skrifa á netinu – enda er það lifandi og góður vettvangur.

Ég sækist eftir þriðja sætinu á lista flokksins og vona að sú reynsla sem ég hef öðlast í stjórnmálum og í félagsstörfum nýtist bæjarfélaginu á næsta kjörtímabili. Framtíðarsýn mín er að Akureyringar verði ávallt stoltir af sveitarfélaginu sínu. “Hér vil ég búa – við öll lífsins gæði” er gott slagorð sem gildir um okkur hér. Það er mikilvægt að áfram verði haldið á þeirri farsælu braut sem við sjálfstæðismenn á Akureyri höfum mótað og Akureyri verði í forystusveit sveitarfélaga á komandi árum – sem og á síðustu átta árum undir okkar forystu.

stebbifr@simnet.is

29 janúar 2006

Minningarkrossinn í Kirkugarði Akureyrar

Mér er orða vant á þessum sunnudegi - ætla þó að reyna að segja eitthvað. Ömmubróðir minn, Kristján Stefánsson, lést í gær eftir erfið veikindi. Eftir standa í huga mér ógleymanlegar minningar, minning um mann sem alltaf var tilbúinn til að fórna sér fyrir mig, tilbúinn til að styrkja mig og styðja alla mína ævi. Kiddi frændi var í mínum huga einstakur maður - alla tíð fórnaði hann sér fyrir fjölskylduna sína og var að svo mörgu leyti eins og Hugrún systir hans sameiningartáknið þegar að eitthvað bjátaði á. Það var alveg einstakt að eiga Kidda og konu hans, Kristínu Jensdóttur, að. Það var einstakt að geta leitað til þeirra í Hríseyjargötu, þar sem þau byggðu sér glæsilegt heimili. Það var heimili hjartahlýju og kærleika - það er erfitt með nægilega góðum orðum að lýsa þeim.

Stína og Kiddi voru mér ómetanlegur styrkur á erfiðum tímum á ævi minni og hafa verið stór hluti tilveru minnar. Nú hafa þau bæði kvatt - með stuttu millibili, en Stína lést vorið 2004. Þá kvaddi ég hana með þessum orðum. Tæpt ár er síðan að Huja frænka kvaddi. Það hefur verið dapurlegt að horfa upp á hversu hratt Kidda hefur farið aftur seinustu mánuði en að mörgu leyti er hvíldin hið besta þegar að svo er komið málum. En minningin lifir.

Við biðjum góðan Guð að launa
gæðin öll og þína tryggð
ástkær minning þín mun ávallt lifa
aldrei gleymsku hjúpi skyggð.

Falinn sértu frelsaranum
frjáls í náðarörmum hans
hljótir þú um eilífð alla
ástargjafir kærleikans.
Stefán Fr. Stef. (2005)

stebbifr@simnet.is

Stefán Friðrik

Merkileg tímamót urðu í gær hér á svæðinu er Siglfirðingar og Ólafsfirðingar samþykktu að sameina sveitarfélögin frá og með sveitarstjórnarkosningunum þann 27. maí nk. Í sameiningarkosningunum hér í haust, þann 8. október 2005, var kosið um sameiningu allra sveitarfélaga í Eyjafirði, utan Grímseyjar. Þá felldu öll sveitarfélögin sameiningu - nema Ólafsfjörður og Siglufjörður. Því var auðvitað rökrétt að feta áfram sameiningarleiðina með því að þessi tvö sveitarfélög sem ljáðu máls á sameiningu myndu kjósa um það hvort að þau vildu sameinast. Það hefur nú verið samþykkt með yfirgnæfandi hætti. Á Siglufirði sögðu 86% kjósenda já við sameiningu og 77% Ólafsfirðinga. Það er því alveg ljóst að afgerandi vilji fólks stefnir í þessa átt. Kjörsókn á Siglufirði var rúmlega 60% og var svo um 70% á Ólafsfirði. Með þessu verður til nýtt sveitarfélag þann 1. júní nk - íbúar þess eru rúmlega 2300 manns.

Okkur varð það ljóst í haust að tillaga um sameiningu með þeim hætti sem þá var stillt upp naut ekki fylgis. Fólk vildi ekki taka skrefið þá - af svo mörgum ástæðum. En ég fagna því að smærri skref í þessa átt eru nú stigin. Þau skref sem Ólafsfirðingar og Siglfirðingar hafa nú stigið marka þau tímamót að ferlið er ekki staðnað. Segja má að svipað skref hafi falist í sameiningu Akureyrar og Hríseyjar sumarið 2004. Ég hef alla tíð verið hrifinn af sameiningu sveitarfélaga og því ferli sem markast af meiri samvinnu milli svæða sem hafa sameiginleg verkefni á sveitarstjórnarstiginu og lík grunnsjónarmið að leiðarljósi. Ég vil samfagna fólkinu út með firði með þessa ákvörðun og það hversu afgerandi skilaboð fylgja úrslitunum. Framundan er nú uppbygging á svæðinu samhliða því að Héðinsfjarðargöng verða loks að veruleika. Það verður svo fróðlegt að fylgjast með sameiningarferlinu í firðinum næstu árin - einkum og sér í lagi eftir að göngin verða komin til sögunnar.


Það fór eins og margir spáðu seinustu daga: Baldvin H. Sigurðsson matreiðslumeistari, bar sigurorð af Valgerði Hjördísi Bjarnadóttur bæjarfulltrúa, í prófkjöri VG hér á Akureyri í gær. Fyrir nokkrum vikum var talið nánast formsatriði að Valgerður Hjördís myndi vinna afgerandi sigur. Eftir að hún vann sigur í málaferlum gegn félagsmálaráðherra þótti hún ósigrandi og ætti auðvelt verkefni fyrir höndum í þessu prófkjöri. Hún hefur á nokkrum vikum misst þetta frá sér - með hreint ótrúlegum hætti, einkum í augum okkar sem fylgjumst með pólitíkinni hér. Er Baldvin kom fram þótti mönnum þetta vera grín hjá honum og ekkert væri að marka hann - altént sem leiðtogakandidat. Nú hefur honum tekist að vinna góðan sigur á Valgerði í flokksprófkjörinu. Þetta eru því vissulega nokkur tíðindi. Baldvin hefur verið áberandi hér í bæ - þekktur sem kokkurinn í matvöruversluninni í Hrísalundi og er nú með flugkaffið út á flugvelli. Hann nýtur vinsælda og virðingar margra.

Niðurstöðurnar voru þær að Baldvin sigraði, Valgerður varð önnur, Dilla Skjóldal varð þriðja, Kristín Sigfúsdóttir (systir Steingríms J.) lenti í fjórða, Jón Erlendsson varð fimmti og Lilja Guðmundsdóttir sú sjötta. Eins og fram kom í gær verður svo að vera skv. reglum flokksins að jöfn kynjaskipting sé í efstu sætum: þrjár konur og þrír karlar. Eins og allir sjá af þessu eru þarna fjórar konur og tveir karlar. Það blasir því við að Jón Erlendsson færist upp í fjórða sætið og Kristín niður í það fimmta. Karlmaður verður svo í sjötta sætinu, væntanlega er það Wolfgang Frosti Sahr kennari. Lilja færist niður í það sjöunda vegna kynjakvótans. En eitt vakti mikla athygli mína í gærkvöldi er tilkynnt var um úrslit prófkjörsins. Þar komu ekki fram atkvæðatölur frambjóðenda - munur t.d. á leiðtogaefnunum - og svo stóð að eftir væri enn að ræða niður frambjóðendum í kynjaröð - ekki væri enn vitað hvort allir vilji það sæti sem þeim er boðið.

Það er undarlegt orðalag að tala um "boðið" í ljósi þess að hér er um prófkjör að ræða og fastakosningu í sex efstu sætin. Það er því alveg ljóst að vilji kjósenda liggur fyrir. Valgerður beið lægri hlut og nýr leiðtogi hefur verið kjörinn í VG sem fer fyrir flokknum í kosningunum í vor. Svo er það auðvitað stóra spurningin sem vaknar í ljósi þessa orðalags í yfirlýsingu kjörnefndar VG - ætlar Valgerður að taka annað sætið? Ég stórefast um að hún muni gera það - sá orðrómur hefur farið um bæinn að hún hefði lagt allt undir. VHB væri að sækjast eftir leiðtogasætinu - engu öðru. Væntanlega ræðst þetta fljótlega. Fari svo að Valgerður taki ekki sætið munu allar konurnar sem voru í prófkjörinu hljóta fasta kosningu. Ennfremur er ljóst að næsti karlmaður tekur sjötta sætið, enda geta ekki skv. prófkjörsreglum verið fleiri en þrjár konur í sex efstu sætum. Það verður fróðlegt að sjá stemmninguna í VG hér í bæ næstu dagana.

Orðalag yfirlýsingar kjörnefndar sannfærir mig um það að óróleiki er yfir innan VG. Allt helsta forystufólk flokksins studdi Valgerði til forystu og gerði það með afgerandi hætti. Nú er nýr leiðtogi kominn og óvissa uppi um hvernig Valgerður bregst við tapinu. En fyrir nokkru hefði þetta þótt óhugsandi sem nú hefur gerst. Það er alveg ljóst að það er reiðarslag fyrir Steingrím J. Sigfússon og hans fólk að Valgerður hafi tapað leiðtogakjörinu og það eftir hinn fræga dóm í desember. Það verður merkilegt að sjá hvað Valgerður Hjördís Bjarnadóttir gerir eftir þessi úrslit sem boða stórtíðindi í forystusveit VG í aðalvígi Steingríms J. í hans kjördæmi.


Björn Ingi Hrafnsson bar sigurorð í prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík í gær. Hann mun því leiða framboðslista flokksins í kosningunum í vor - það verður í fyrsta sinn í sextán ár sem Framsókn býður fram á eigin vegum í sveitarstjórnarpólitíkinni í borginni. Næst á eftir Birni Inga kom Anna Kristinsdóttir borgarfulltrúi - sem setið hefur í borgarstjórn frá árinu 2002 og þriðji er Óskar Bergsson sem var varaborgarfulltrúi R-listans 1994-2002. Öll sóttust þau þrjú eftir leiðtogastöðunni. Björn Ingi vann nokkuð afgerandi sigur - enda studdur til leiks af forystu flokksins. Það voru gríðarlegar sveiflur í gegnum talninguna. Í fyrstu tölum á sjöunda tímanum í gærkvöldi var Björn Ingi einn leiðtogakandidata í efstu sex sætunum. Eftir því sem leið á kvöldið breyttist staðan og Anna og Óskar sóttu mjög í sig veðrið. Það verður fróðlegt að sjá hvort að Björn Ingi komist inn í borgarstjórn í vor - varla mun Anna halda sínu sæti.

stebbifr@simnet.is

28 janúar 2006

Stefán Friðrik

Í kvöld komst frænka mín, Guðrún Árný Karlsdóttir, áfram á úrslitakvöld Eurovision-keppninnar þann 18. febrúar. Söng hún lagið Andvaka eftir Trausta Bjarnason í keppninni. Guðrún Árný hefur alla tíð verið iðin söngkona, hún vann söngkeppni framhaldsskólanna fyrir sjö árum, árið 1999, fyrir Flensborg með því að syngja hið fræga Celine Dion-lag To love you more og verið áberandi í mörgum söngkeppnum alla tíð síðan. Til dæmis söng hún lagið Með þér í söngvakeppninni fyrir þrem árum, með Dísellu í febrúar 2003. Amma hennar, Árný Friðriksdóttir, er móðursystir mín og Guðrún Árný er eins og margt af okkar fólki mjög söngelsk og virk í tónlistinni. Þetta er glæsilegur árangur hjá frænku - ég óska henni innilega til hamingju!

Annars voru öll lögin í kvöld mjög góð að mínu mati - mun þéttari og betri pakki en var um seinustu helgi. Var sáttur við valið á þeim fjórum lögum sem halda áfram í úrslitakeppnina. Þetta er vönduð og góð dagskrá hjá RÚV í tengslum við Eurovision að þessu sinni. Eurovision-spurningakeppnin með Halla í Botnleðju og Heiðu í Unun er virkilega flott og áhugaverð. Spaugstofan er svo pottþétt í hléinu milli keppninnar og úrslitastundarinnar. Í gærkvöldi fóru þeir algjörlega á kostum í gríninu um keppnina og svo er alltaf gaman hversu vel Pálmi Gestsson nær forsætisráðherranum. Flottur pakki - annars finnst mér stærsti gallinn við keppnina vera kynnarnir sem mér finnst alltof háfleygir miðað við tilefnið. En þetta er mitt mat allavega - gott fólk en einum of alvarlegt.

En föstudags- og laugardagskvöldin eru orðin pottþétt fjölskyldukvöld við imbann - enda varla til það fólk sem í sannleika sagt vill missa af Eurovision og Idol. Þessir tveir stórviðburðir í sjónvarpi sameina ólíkar kynslóðir. Enda hver hefur ekki gaman af tónlist? Rúsínan í pylsuendann í gærkvöldi var einmitt tónlistarþáttur Hemma Gunn. Þessi meistari spjallþáttanna hefur farið á kostum síðasta árið með þátt sinn, Það var lagið. Frábær þáttur með pottþéttum stjórnanda - afslappað og ómissandi!

stebbifr@simnet.is

Stefán Friðrik

Vinstri grænir hér á Akureyri hafa prófkjör sitt í dag. Í kvöld ætti að verða ljóst hvernig efstu sex sæti framboðslista þeirra verða skipuð og hver muni leiða flokkinn í kosningunum þann 27. maí nk. Í kosningunum vorið 2002, þegar að VG bauð hér fyrst fram í sveitarstjórnarkosningum, leiddi Valgerður Hjördís Bjarnadóttir þáv. jafnréttisstýra, lista flokksins og Jón Erlendsson var í öðru sæti. Fylgi VG minnkaði alla kosningabaráttuna 2002 eftir að listinn undir hennar forystu var kynntur. Óhætt er að segja að Valgerður hafi verið umdeild á kjörtímabilinu, en hún varð að hætta sem jafnréttisstýra sumarið 2003, vegna máls sem höfðað var gegn henni er hún sem formaður Leikfélags Akureyrar réði karl umfram konu sem leikhússtjóra. Valgerður stefndi ráðherra vegna starfslokanna og vann í desember 2005 sigur í Hæstarétti, sem leiddi til veikrar stöðu félagsmálaráðherrans, Árna Magnússonar.

Valgerður hefur verið áberandi í bæjarmálunum hér sem eini bæjarfulltrúi VG og verið þekkt fyrir að vera andvíg stóriðjuáformum af öllu tagi - ennfremur ekki feimin við að fara gegn straumnum í umræðunni. Hún sat í bæjarstjórn fyrir Kvennaframboðið 1982-1986 og var þá forseti bæjarstjórnar. Valgerður býður sig nú aftur fram til forystustarfa. Hún hlýtur mótframboð. Bæði Dýrleif Skjóldal Ingimarsdóttir og Baldvin Sigurðsson matreiðslumeistari, sem lengi var yfirmaður kjötborðsins hjá Úrval í Hrísalundi en núna yfirmaður kaffiteríunnar í Flugstöðinni hér, bjóða sig fram í fyrsta sætið. Lengi vel töldu menn að um grínframboð væri að ræða hjá Baldvin og að hann ætti lítinn séns á forystusætinu. Menn hafa nú seinustu vikurnar séð vel að Baldvin er full alvara og hefur sótt fram af krafti innan VG - elítuarms kommanna sem þar hafa ráðið för. Allt í einu þykir mörgum sem staða Valgerðar sé í lausu lofti og ekki ljóst um lyktir prófkjörs flokksmanna.

Verður óneitanlega mjög fróðlegt hver úrslit verða í leiðtogakjöri prófkjörsins - hvort að Valgerður eða Baldvin muni leiða VG í kosningunum í vor. Fyrir liggur að það þeirra sem tapar leiðtogakjörinu taki ekki sæti á listanum. Valgerður leggur því allt undir í baráttunni við Baldvin. Eins og annarsstaðar hjá VG verður að vera jöfn kynjaskipting í sex efstu sætin. Það er því ljóst að þrír karlar og þrjár konur munu skipa sex efstu sætin óháð atkvæðafjöldanum. Er ekki óeðlilegt að svona vinnubrögð vekji furðu víða. Níu einstaklingar gefa kost á sér - fimm karlar og fjórar konur. Það er því þegar ljóst að tapi Valgerður munu konurnar hinar þrjár verða sjálfkrafa í forystusveitinni. En það verður merkilegt að sjá hvernig að þetta fari hjá græningjunum hér í bæ í dag.


Sigrún Stefánsdóttir hefur tekið til starfa sem dagskrárstjóri Rásar 2 og yfirmaður RÚVAK hér á Akureyri, hér á Akureyri. Er hún auðvitað flutt í bæinn og vil ég persónulega óska henni til hamingju með starfið og að vera komin hingað norður. Sigrún er reyndar ættuð héðan, en foreldrar hennar, Petrína Eldjárn (systir Kristjáns Eldjárns forseta) og Stefán Árnason, bjuggu til fjölda ára í Suðurbyggðinni. Petrína, móðir Sigrúnar, var auðvitað fædd og uppalin á Tjörn í Svarfaðardal. Nýlega birtist á dagur.net ítarlegt viðtal Svanfríðar Jónasdóttur við Sigrúnu - vil ég benda á það hérmeð, sem og annað úrvalsefni á þeim góða vef.


Úrslitakeppni Idol-stjörnuleitar hófst í Smáralind, þriðja árið í röð, í gærkvöldi. Var mjög áhugaverð og góð keppni. Flestir þátttakendur stóðu sig vel og þetta var ekta fjölskyldukvöld. Var boðinn í kvöldmat ásamt fleirum heima hjá Hönnu systur og fjölskyldu hennar í gærkvöldi og eftir það tók við skemmtilegt Idol-boð eins og Hönnu minni einni er lagið. Var virkilega gaman og við skemmtum okkur öll vel. Það er alveg ljóst að Idol-kvöldin næstu tvo mánuðina verða mjög áhugaverð - ekta fjölskyldukvöld með góðum vinum og ættingjum.


Ásgeir Sverrisson blaðamaður á Morgunblaðinu, var í gær ráðinn ritstjóri Blaðsins. Vil óska honum til hamingju með starfið og vænti góðs af verkum hans á Blaðinu. Hann hefur verið fréttastjóri erlendra frétta hjá Mogganum til fjölda ára og verið áberandi fyrir góð skrif sín um erlend stjórnmál. Hef lengi fylgst með Viðhorfsskrifum hans. Blaðið er vaxandi fjölmiðill og hef ég fylgst vel með því seinustu mánuði. Gott og vel skrifað blað - öflugt í alla staði. Ásgeir mun leiða blaðið í enn betri átt að mínu mati.


Í gær voru 250 ár liðin frá fæðingu Wolfgangs Amadeus Mozarts - meistara hinna fögru tóna í klassískri tónlist. Þessa var minnst með veglegri tónlistardagskrá sem sýnt var frá í Ríkissjónvarpinu í gær - því miður hafði ég ekki tækifæri til að fylgjast með, en vona að þessari tónlistarveislu verði gerð góð skil með flottri samantekt á vegum RÚV á næstunni. Mozart var einstakt tónskáld - sem heillar fólk um allan heim með fögrum tónverkum sínum sama hætti nú og hann gerði í lifanda lífi.

stebbifr@simnet.is

26 janúar 2006

Stefán Friðrik Stefánsson

Tíðindi dagsins úr pólitíkinni hér á Akureyri í dag er klárlega yfirlýsing Jakobs Björnssonar formanns bæjarráðs og leiðtoga Framsóknarflokksins í bæjarstjórn, þess efnis að gefa ekki kost á sér í bæjarstjórnarkosningunum í vor. Jakob hefur setið í bæjarstjórn samfellt í sextán ár og leitt framsóknarmenn frá árinu 1994. Hann var bæjarstjóri á Akureyri árin 1994-1998 eða þar til að Kristján Þór Júlíusson tók við er nýr meirihluti tók við völdum. Á þeim tíma leiddi Jakob meirihluta Framsóknarflokks og Alþýðuflokksins. Hann féll í kosningunum 1998 enda bauð Alþýðuflokkurinn þá ekki fram. Jakob leiddi bæjarstjórnarminnihlutann 1998-2002 en frá 2002 hefur hann verið formaður bæjarráðs í meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Jakob er nú starfsaldursforseti bæjarstjórnar Akureyrar.


Líst vel á prófkjörsbaráttuna okkar. Allir að komast á fullt sýnist mér. Auglýsing með okkur öllum var í Dagskránni í gær og heppnaðist vel. Ég á grein í Vikudegi í dag og á degi.net og fleiri greinar eru framundan um málefni kosningabaráttunnar. Ég er farinn að auglýsa á Aksjón, enda er bæjarsjónvarpsstöðin okkar alveg virkilega góð og nær til almennings. Er okkur mjög nauðsynleg. Er t.d. mjög notalegt að geta þar horft á bæjarstjórnarfundi og fylgst með umræðunni um bæjarmálin. Það færir bæjarbúum hið gullna tækifæri til að fylgjast með forystumönnum sínum og vega og meta verk þeirra. Með þessu er líka tryggt að fólkið heima geti séð umræður um þau mál sem mestu skipta. Svo er fréttaþjónusta Aksjón alveg fyrsta flokks og mjög vel gerð.

Nú er svo orðið opið í Hamborg að Hafnarstræti 94 alla virka daga á milli kl. 17:00 og 19:00 fram að prófkjörinu 11. febrúar. Allir sem vilja ræða við mig eða aðra frambjóðendur eru eindregið hvattir til að koma og rabba. Það er alltaf gott að fá sér kaffisopa og ræða um málefni dagsins í dag. Svo er upplagt að ræða hitamálin og eða prófkjörsbaráttuna. Allavega mun ég verða alla virka daga fram að prófkjöri á þessum tíma og væri gaman að hitta þig og rabba á þessum tíma hafirðu áhuga á spjalli.


Í gær fór ég með góðum vini í bíó og sáum við myndina The Fog. Mikil spenna og skemmtilegt. Hitti þar mætan félaga sem nýlega er genginn í flokkinn og kominn til liðs við okkur í Verði sem vildi ræða um pólitík í hléinu. Áttum við mjög gott spjall. Fannst mjög gott að geta þar rætt um skoðanir mínar á skólamálum við hann, enda er hann nemi í tíunda bekk í Brekkuskóla og vildi heyra hvar ég væri staddur í þessum málum. Lykilorðið mitt í þeim málaflokki er stutt og laggott: "Valfrelsi í skólamálum". Ég vil sjá aukna samkeppni um þá þjónustu sem er verið að bjóða á leik- og grunnskólastigi með mismunandi rekstrarformum og valfrelsi! Frelsið er alltaf af hinu góða.


Stjórn Varðar hittist í vikunni og samþykkti eftirfarandi ályktun: "Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, lýsir yfir ánægju sinni með þau tíðindi að Iceland Express hafi í hyggju að hefja beint flug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar nú í sumar. Jafnframt fagnar félagið tilkomu skipafélagsins Byrs, sem mun veita reglubundna þjónustu milli Akureyrar og hafna víðsvegar í Evrópu. Mun félagið hafa jákvæð áhrif á fyrirtæki á Norðurlandi sem standa í útflutningi og leiða til minni umferðar á stórum bílum á þjóðvegi 1. Stjórnin óskar aðstandendum Byrs og Iceland Express góðs gengis."


Má að lokum til með að hrósa Sjóvá fyrir góða og vel gerða auglýsingu sem birst hefur nýlega. Þar hljómar smellurinn God Only Knows með The Beach Boys. Vel gerð og fagmannleg auglýsing. God Only Knows er annars eitt af mínum uppáhaldslögum. Í júní 2005 valdi ég það sem eitt af tíu bestu í mínum huga. Umsögnin var þessi: "alltaf heillandi og hugljúft".


Á sunnudaginn mun Sinfóníuhljómsveit Norðurlands halda tónleika í Glerárkirkju klukkan 16:00. Dagskráin er mjög ljúf en það verða spilaðir Konsert í C dúr eftir Wolfgang Amadeus Mozart (250 ár eru á morgun liðin frá fæðingu hans) og Sinfónía nr. 1 eftir Johannes Brahms. Líst vel á þetta og er að hugsa um að fara og hlusta á þessi fögru tónverk.

stebbifr@simnet.is

25 janúar 2006

Stefán Friðrik

Eins og flestir vita yfirgaf Oktavía Jóhannesdóttir Samfylkinguna fyrir nokkrum vikum og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Greinilegt er að sú ákvörðun er mjög umdeild. Í gær héldu Samfylkingarmenn í nefndum og ráðum bæjarins á fund bæjarstjórnar í Ráðhúsinu við Geislagötu og mótmæltu með því með þöglum hætti bágum hlut sínum í bæjarstjórn. Eins og flestir vita er flokkurinn nú bæjarfulltrúalaus og á engan málsvara í bæjarstjórn og bæjarráði. Greinilegt er að sú ákvörðun Oktavíu að fara í annan flokk en gerast ekki óháð mælist illa fyrir hjá fyrrum samherjum hennar. Framboðslisti Samfylkingarinnar liggur nú fyrir og hlýtur að vera erfitt fyrir leiðtoga framboðslista Samfylkingarinnar, Hermann Jón Tómasson, að eiga ekki sæti í bæjarstjórn og geta ekki komið sinni rödd að. Vissulega er sú ákvörðun Samfylkingarfólks táknræn að mæta á fundi bæjarstjórnar og fylgjast með verkum fulltrúa síns í bæjarstjórn - fulltrúa sem nú hefur skipt um flokkslit á einni nóttu.

Ef marka má vefi bæði flokksins í bænum og varaþingmannsins Láru Stefánsdóttur hefur Oktavía sært fyrrum samherja með vistaskiptunum - er það skiljanlegt enda hefur nú þeirra fulltrúi gerst málsvari meirihlutans en ekki minnihlutans sem sem hún tilheyrði í hálft fjórða ár - meginþorra kjörtímabilsins. Samkvæmt skrifum Jóns Inga Cæsarssonar formanns Samfylkingarfélags Akureyrar og sjötta manns á framboðslista flokksins við komandi kosningar er þetta ekki í eina skiptið sem Samfylkingarfólk mótmælir því að Oktavía hafi skipt um lit. Ætla þau að sitja alla fundi sem eftir lifir kjörtímabilsins og minna með nærveru sinni á sig og flokkinn sem Oktavía yfirgaf - flokk sem engan fulltrúa á lengur. Verður mjög fróðlegt að fylgjast með þessu næstu vikurnar. Annars munu væntanlega eðli mótmælanna ráðast mjög mikið af því hvort að Oktavíu Jóhannesdóttur verða falin einhver trúnaðarstörf að hálfu Sjálfstæðisflokksins í prófkjörinu í febrúar.

Ef marka má orðróminn á götunni var Oktavía lengi óánægð áður en hún yfirgaf Odd, Valgerði og Mössu í minnihlutanum. Ber Oktavíu og fyrrum samstarfsfólki hennar í kratadóbíunni ekki saman um ástæður þess að hún stökk af Samfylkingarfleytunni og stökk yfir á annað skip. Veit ég ekki um forsögu þeirrar úlfúðar og láta sem einkenndu Samfylkinguna undir forystu Oktavíu. Er óvarlegt af minni hálfu að tjá mig um þetta - verandi einstaklingur sem aldrei hef á fund í Lárusarhús farið eða tekið þátt í starfi látinna krataflokka eða arftaka þeirra, vonarneistans þeirra rauða sem tók upp krossmerki allra flokkanna fyrir nokkrum árum. En ég skynja það að mörgu sjálfstæðisfólki sé lítt um það gefið að hafa bæjarfulltrúa annars flokks sem barið hefur á Sjálfstæðisflokknum meginþorra kjörtímabilsins nú sem frambjóðanda til öruggs sætis á lista flokksins. Það blasir við - þó kannski einhverjum sé skemmt yfir flótta bæjarfulltrúans.

En ég skynjaði sárindi Samfylkingarfólks í gær - fólks sem kaus fulltrúa jafnaðarmennsku í bæjarstjórn sem varð á einni nóttu íhaldsmaður. Merkilegt nokk vissulega! Við sjálfstæðismenn fylgdumst altént á bæjarstjórnarfundi í gær með særðum krötum um leið og við horfum á fyrrum krata verða sjálfstæðismann með undraskjótum hætti.


Í gær heyrði ég fréttir austan frá Eskifirði um framtíð gömlu kirkjunnar á staðnum sem hefur verið nokkuð á reiki. Kirkjan var tekin í notkun árið 1900 og þjónaði bæjarbúum í heila öld, allt til ársins 2000. Kirkjan er órjúfanlega tengd fjölskyldu minni. Þar var Lína amma meðhjálpari í þrjá áratugi, mamma var þar skírð og fermd - mamma og pabbi giftust þar árið 1967, afi jarðsunginn þar árið 1990 og Lína amma var sú síðasta sem jarðsungin var þar, fyrir nákvæmlega sex árum, í janúar 2000. Fjöldi ættingja minna fyrir austan hafa átt þar ýmsar gleði- og sorgarstundir lífsins - rétt eins og ég sjálfur. Nú berast já þær fréttir að innrétta eigi þetta sögufræga hús í sögu Eskifjarðar sem íbúðarhús í þrem einingum. Mér varð svo brugðið að heyra af þessu að því fá engin orð lýst. Þvílíkt smekkleysi vissra manna hvernig farið er með þetta stórmerkilega guðshús. Svei mér þá ef ekki hefði verið hreinlega betra að rífa kirkjuna en velja henni þessi örlög.


Þau sögulegu tíðindi urðu í vikubyrjun að ríkisstjórn Frjálslynda flokksins í Kanada féll í þingkosningum. Með því lauk þrettán ára stjórnarferli vinstrimanna í landinu. Ég fjallaði um hægribylgjuna í Kanada í ítarlegum pistli á vef SUS í gær.

stebbifr@simnet.is

24 janúar 2006

Stefán Friðrik

Þessi grein mín birtist á Íslendingi í dag:

Vöxtur í kraftmiklu sveitarfélagi

Vöxtur og uppgangur hefur verið mikill á Akureyri á undanförnum árum. Staða bæjarins hefur styrkst mjög á þessum tíma. Að mínu mati er mikilvægast að standa vörð um öflugt atvinnulíf í bænum, kraftmikla menntun og treysta undirstöður bæjarins sem öflugs samfélags sem gott er að búa í. Hér á Akureyri eru öll lífsins gæði, hér er gott að búa og samfélagið okkar er öflugt og traust. Við njótum hér allrar þeirrar þjónustu sem nauðsynleg er og öll erum við sammála um það markmið að hann verði öflugur og kraftmikill sem stærsti þéttbýlisstaðurinn á landsbyggðinni.

Það að halda vel utan um bæinn okkar og styrkja enn frekar á alltaf að vera markmið okkar og eftir því skal ávallt unnið. Það er og verður alltaf okkar helsta verkefni. Grunnurinn er að sjálfsögðu fólginn í því að skapa atvinnulífinu aðstæður til vaxtar. Forgangsmál að mínu mati eru góðir skólar, hagstætt orkuverð , góðar samgöngur, öflug þjónusta á sviði fjarskipta- og gagnaflutninga, nútímalegt stjórnkerfi og nægt framboð lóða. Mikilvægt er að vekja athygli á Akureyri sem álitlegum stað til búsetu og fyrirtækjarekstrar, standa vörð um hin öflugu sjávarútvegsfyrirtæki okkar og skilyrði þeirra til áframhaldandi vaxtar.

Akureyri þarf alltaf að iða af mannlífi þar sem uppbygging miðbæjar og nýrra hverfa skapar enn betri grundvöll fyrir fjölbreyttu og öflugu lista- og menningarstarfi. Ég vil sjá Akureyri sem öflugan valkost í skólamálum hvað snertir rekstrarform leik- og grunnskóla þar sem mismunandi hugmyndafræði er til staðar og val foreldra og nemenda þess því meira. Mikilvægt er að efla enn frekar bæjarbrag okkar og stolt íbúanna af því að vera Akureyringur. Vel hefur verið unnið í því með kynningarátakinu: Akureyri – öll lífsins gæði! Með öflugum og vel reknum miðbæ, fjölbreyttri menningarstarfsemi, framúrskarandi skólum, faglegu íþrótta- og tómstundastarfi, snyrtilegum bæ og umfram allt samkennd og samhjálp íbúanna eflum við kraftinn í sveitarfélaginu.

Þjónusta sú sem bæjarfélagið veitir skiptir líka mjög miklu máli. Við þurfum ávallt að vera tilbúin að auka gæði þjónustu okkar. Ég vil sjá aukna samkeppni um þá þjónustu sem er verið að bjóða á leik- og grunnskólastigi með mismunandi rekstrarformum og valfrelsi. Íbúar hér á Akureyri eiga í framtíðinni að geta valið að mínu mati um þjónustu hjá mismunandi aðilum. Það veitir nauðsynlegt aðhald og samkeppnin tryggir svo ennfremur aukin gæði.

Framtíðarsýn mín er að Akureyringar verði ávallt stoltir af sveitarfélaginu sínu. “Hér vil ég búa – við öll lífsins gæði” er gott slagorð sem gildir um okkur hér. Það er mikilvægt að áfram verði haldið á þeirri farsælu braut sem við sjálfstæðismenn á Akureyri höfum mótað og Akureyri verði í forystusveit sveitarfélaga á komandi árum – sem og á síðustu átta árum undir okkar forystu.

stebbifr@simnet.is

23 janúar 2006

Stefán Friðrik Stefánsson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, mælti fyrir frumvarpi sínu um Ríkisútvarpið á þingi í dag. Strax að lokinni framsögu ráðherrans hófust mikil átök um framtíð Ríkisútvarpsins í þingsölum. Stjórnarandstaðan er mjög ósátt við frumvarpið og mælir mjög á móti þeirri breytingu sem felst í hlutafélagavæðingunni. Við því að búast að stjórnarandstaðan reyndi að nöldra yfir stöðu mála - t.d. Samfylkingin sem hrýs hugur við að samstaða hafi náðst innan stjórnarmeirihlutans um málið svo hún geti ekki nöldrað yfir því lengur. Stærsta breytingin sem felst í frumvarpinu er eins og vel hefur áður komið fram að nýtt félag mun taka við réttindum og skyldum Ríkisútvarpsins, en stofnunin sem slík sem starfað hefur frá 1930 verður lagt niður. Hlutafélag í eigu ríkisins tekur við rekstrinum. Með þessu falla afnotagjöldin niður og mun ríkisábyrgð á rekstrinum verða aflétt. Ekki verður hægt að selja Ríkisútvarpið nema meirihluti þingsins samþykki það sérstaklega.

Þetta er annað frumvarpið á einu ári um breytingar á rekstrarformi ríkisútvarpsins, því í fyrravor kom fram á Alþingi ríkisstjórnarfrumvarp um að breyta stofnuninni í sameignarfélag. Mikilvægasta skrefið á þessari vegferð er hiklaust að hið gamalkunna miðstýringarskrímsli stofnunarinnar sem gengur almennt undir nafninu útvarpsráð mun brátt heyra sögunni til. Rekstrarstjórn kemur til sögunnar, sem taka mun á rekstrarmálum RÚV og ber loks ábyrgð á rekstrinum og tengdum málum. Ríkisútvarpið verður loksins eins og hvert annað fyrirtæki. Það hefur lengi verið einn af akkilesarhælum RÚV að þar hefur verið raðað upp í fremstu röð hverri silkihúfunni á eftir annarri sem enga ábyrgð ber á rekstrarlegum forsendum. Nú breytist það. Nú verða menn að fara að reka RÚV sem hvert annað fyrirtæki en ekki stofnun, sem er kyrfilega njörvuð á jötuna. Nú breytist það! Er það gott mál. Svo vonandi er hér komið skref í áttina að sölu á hinni algjörlega óþörfu Rás 2: loksins, loksins; segi ég!

Fyrsta umræða um frumvarpið hófst í dag og ljóst að átök verða um málið, eins og fyrr segir. Samfylkingin hefur lýst því yfir að hún vilji að RÚV verði gerð að sjálfseignarstofnun. Það er alveg ljóst að stjórnarandstaðan mun reyna að tefja afgreiðslu málsins og hefur gripið til ýmissa vopna gegn frumvarpinu. Ef marka má talið í dag má búast við að allt gerist. Hinsvegar er ljóst að frumvarpið verður samþykkt fyrir vorið og breytingar taki gildi samhliða því. Í kjölfar þess munu völd útvarpsstjóra verða meiri, enda getur hann ráðið og rekið starfsmenn án atbeina útvarpsráðsins, sem hverfur í núverandi mynd. Hinsvegar mun nýtt rekstrarráð ráða og reka útvarpsstjórann. Ef marka má pistil Össurar hræðist hann að breytingarnar leiði til sölu á Rás 2. Er ekki mjög sammála honum - eins og sést á skrifunum hér. Finnst merkilegt að lesa skrif Össurar og hræðslu hans við breytingar hjá RÚV.


Ef marka má skoðanakannanir er staða Sjálfstæðisflokksins mjög sterk í borgarmálunum núna. Staða leiðtogans, Vilhjálms Þ, er mjög vænleg og listinn er farsæll og nýtur trausts borgarbúa. Ef marka má skoðanakönnun Fréttablaðsins er Sjálfstæðisflokkurinn með yfir 50% fylgi og hlyti 9 borgarfulltrúa kjörna. Í könnun Fréttablaðsins í dag kemur fram að flestir borgarbúar vilja að Vilhjálmur Þ. verði næsti borgarstjóri. Það er gott að staða flokksins sé svona vænleg og greinilegt að borgarbúar hafa fengið nóg af R-listanum sáluga og flokkunum á bakvið hann. Annars er auðvitað ekkert fast í hendi - en ég tel að þetta standi nú allt og falli á samstöðu sjálfstæðismanna. Haldi þeir höndum saman og vinni vel saman mun sigur vinnast. Ég tel að sjálfstæðismenn viti nú að sigur er í seilingarfjarlægð og vinni saman til að tryggja þann sigur - enda eru andstæðingarnir mjög hræddir nú og hræðast þá samstöðu allra mest.


Horfði í gærkvöldi á hinn vandaða fréttaskýringarþátt NFS, Kompás. Í gær var fjallað um fuglaflensu og áhrif hennar. Hafði gaman af að sjá þáttinn. Kompás er flottur fréttaskýringarþáttur og eiga þeir hjá NFS hrós skilið fyrir vönduð og góð efnistök. Horfði svo í gærkvöldi á annan þátt íslensku sakamálamyndarinnar. Er mjög áhugavert og vekur athygli allra þeirra sem unna góðum krimma. Hlakka til að sjá seinasta þáttinn um næstu helgi og sögulokin. Nokkrir koma til greina sem morðingjarnir. Er farinn að sjá út hver hinn seki er - þó má auðvitað búast við að sú spá sé röng. Allavega þetta er vandað og vel gert - loksins almennileg íslensk sakamálasería.


Plönuð er ferð til Vínar í Austurríki fyrstu helgina í mars. Fer þar fyrir hönd SUS á þing Demyc, alþjóðasambands ungra hægrimanna. Meðal dagskráratriða er heimsókn til Wolfgang Schüssel kanslara, litið í þingið og forsetahöllina og fleira. Þetta verður því mjög góð ferð, hef aldrei til Austurríkis komið og er farinn að hlakka mjög til. :)

stebbifr@simnet.is

22 janúar 2006

Stefán Friðrik

Prófkjör flokksfélaga okkar í Kópavogi var öflugt og gott að mínu mati. Listinn sem út úr prófkjörinu kom er sigurstranglegur. Það er allavega ljóst að ekki verður hægt að saka sjálfstæðismenn í Kópavogi um að úthýsa konunum sínum, enda eru sjö konur í tíu efstu sætunum. Semsagt allar konurnar sem gáfu kost á sér lenda í tíu efstu sætunum. Það er við hæfi að óska þeim til hamingju með það. Gunnar Ingi Birgisson hlaut, eins og við var að búast, afgerandi umboð flokksmanna til forystu á framboðslistanum. Hann hefur leitt flokkinn nú í sextán ár, við allar bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi, frá árinu 1990. Hann var formaður bæjarráðs samfellt í fimmtán ár, 1990-2005, en hefur verið bæjarstjóri í Kópavogi frá 1. júní 2005. Gunnari tókst ásamt Sigurði Geirdal að koma vinstrimönnum frá völdum eftir kosningarnar 1990 og mynda sterkt bandalag til að stuðla að breytingum og eflingu bæjarins.

Sú uppbygging sem þeir leiddu saman í tæpan einn og hálfan áratug sést hvar sem farið er um bæinn. Kópavogur er kraftmikið og öflugt sveitarfélag - heldur áfram í öfluga átt undir farsælli forystu Gunnars sem bæjarstjóra. Hans staða er mjög sterk, eins og sést af úrslitum þessa prófkjörs. Það er alveg ljóst að Kópavogsbúar meta verk Gunnars - hann er öflugur forystumaður sem hefur til fjölda ára unnið að því að styrkja sitt nánasta umhverfi og leiða það af krafti. Hann er kraftmikill baráttumaður fyrir hag sveitarfélags síns, eins og sést hefur í störfum hans. Í öðru sætinu í prófkjörinu varð Gunnsteinn Sigurðsson skólastjóri. Hann kom nýr inn í bæjarstjórn árið 2002 og hlaut þá fimmta sætið á framboðslistanum. Með því fellur Ármann Kr. Ólafsson niður úr því öðru í það þriðja. Ármann er mætur maður og við hér fyrir norðan höfum kynnst honum í kosningabaráttu frá þeim tíma er hann var í starfinu hér. Það er leitt að hann hafi ekki haldið sínum hlut.

Í fjórða sætinu varð sigurvegari þessa prófkjörs, Ásthildur Helgadóttir. Hún hafði aldrei starfað í stjórnmálum er hún tók þátt í prófkjörinu og verið þekkt fyrir störf sín í íþróttamálum, en hún hefur verið fótboltakona frá æskuárum og spilað með landsliðinu í rúmlega sextíu leikjum. Það er ljóst að hún nýtur mikils stuðnings og hún mun verða flokknum góður liðsauki. Hún tekur sæti í bæjarstjórn með vorinu og það er gleðiefni að SUS-ari fari inn í bæjarstjórn í vor. Óska ég Ásthildi góðs gengis í verkum sínum í bæjarstjórn. Fimmta varð svo Sigurrós Þorgrímsdóttir. Hún hefur verið lengi í bæjarstjórn og er sem stendur á þingi í fjarveru Gunnars Birgissonar. Í sjötta sætinu varð svo Margrét Björnsdóttir varabæjarfulltrúi. Þekki ég félaga mína í Kópavogi rétt munu þeir stimpla á hana sem baráttukonuna - sjálfstæðismenn hljóta að stefna á hreinan meirihluta í vor. Óska þeim góðs gengis í kosningabaráttunni með þennan öfluga lista.


Í gærkvöldi hófst undankeppnin hér heima fyrir söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Vel er til keppninnar vandað að þessu sinni. Enda tilefni til - á þessu ári eru tveir áratugir liðnir frá því að við tókum fyrst þátt í keppninni. Það var í maímánuði árið 1986 sem Icy-söngflokkurinn (Pálmi Gunnarsson, Helga Möller og Eiríkur Hauksson) héldu til Bergen og fluttu Gleðibankann - glæsilegt lag Magnúsar Eiríkssonar, sem er fyrir löngu orðið sígilt. Að þessu sinni var ákveðið að halda veglega forkeppni og valdi valnefnd 24 lög af þeim 226 sem bárust í keppnina. Í gærkvöldi var semsagt fyrsta kvöldið. 8 lög flutt - 4 komust svo áfram á úrslitakvöldið þann 18. febrúar. Fannst lögin góð sem komust áfram. Sérstaklega fannst mér lög Hallgríms Óskarssonar, Trausta Bjarnasonar og Davíðs Olgeirssonar bera af. Ég allavega kaus þau - var því sáttur með að þau komust áfram.

Gert er ráð fyrir að 2 lög bætist í hóp þeirra 12 sem komast áfram þegar undankeppninni lýkur, þannig að 14 lög munu keppa til úrslita laugardagskvöldið 18. febrúar. Þá ræðst það hvaða lag verður framlag Íslands í keppninni þetta árið, sem verður haldin í Aþenu í Grikklandi. En já, mér leist vel á þetta form að keppni. Þetta var notalegt sjónvarpskvöld fyrir alla fjölskylduna. Fyrst var það Eurovision-spurningakeppnin (sem er mjög skemmtileg fyrir Eurovision-nörd eins og mig) - tókst hún vel upp og var áhugaverð. Spaugstofan átti svo flotta gríntakta í hléinu eftir að lögin höfðu verið flutt. Mjög vel heppnað kvöld hjá Sjónvarpinu. Allavega skemmti ég mér alveg konunglega og við þar sem ég var í gærkvöldi. Flest lögin voru enda mjög góð og vel flutt. Allavega þetta skapar skemmtilegt form og tryggir að keppnin verður lengri og áhugaverðari en ella.


Gestur Einar eðalAkureyringur (með stóru A-i) er nú kominn með nýjan spjallþátt með skemmtilegu ívafi, spjalli og gullaldartónlist, á Rás 1 á laugardögum sem ber heitið Til í allt. Ég hef alltaf haft gaman af Gesti Einari sem útvarpsmanni og sá mjög eftir morgunþáttum hans á Rás 2, sem með hreint ótrúlegum hætti voru slegnir af nýlega. Nú þegar ég skrifa þessa færslu snemma að sunnudagsmorgni er ég einmitt að hlusta á þáttinn hans í gær á ruv.is. Mikið er nú þægilegt að geta hlustað á það góða efni RÚV sem maður missir af þar. Hvet ég alla til að hlusta á þáttinn hans Gests Einars. Gestur hans í gær var organistinn okkar hann Eyþór Ingi. Skemmtilegt spjall og flott tónlist.


Eins og ég sagði frá í gær var fundurinn með Geir mjög vel heppnaður - gott að fá formanninn okkar hingað norður. Á mbl.is er í dag góð frétt um fundinn.

stebbifr@simnet.is

21 janúar 2006

Stefán Friðrik

Það var mjög ánægjulegt að hefja daginn snemma á þessum fagra laugardagsmorgni hér nyrðra, fá sér kaffisopa og ristað brauð með osti og slettu af marmelaði á meðan að Mogginn var lesinn. Undir hljómaði morgunþáttur Gulla Helga á Bylgjunni sem var góður að vanda. Það hefur hlýnað í veðri og í stað kuldatíðarinnar er hláka. Sólin er farin að vinna á myrkrinu og hægt og rólega vinnur hún bug á myrkrinu eftir því sem líður á mánuðinn. Nú skömmu eftir hádegið er þessi færsla er rituð var ég svo að koma úr Kaupangi þar sem var haldinn vel heppnaður fundur með Geir Hilmari Haarde utanríkisráðherra og formanni flokksins okkar. Það var mjög ánægjulegt að hitta Geir og ræða við hann um málefni svæðisins okkar. Var fjölmennt á fundinum. Þar voru mættir frambjóðendur í prófkjörinu þann 11. febrúar nk. og aðrir trúnaðarmenn flokksins okkar; stjórnarmenn flokksfélaga, fulltrúaráða og kjördæmisráða. Gestir fundarins voru ennfremur þingmenn okkar, þau Halldór Blöndal og Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður.

Á fundinum var skiljanlega mikið rætt um málefni svæðisins. Bar þar hæst atvinnumálin að sjálfsögðu. Fundarmenn báru fram góðar fyrirspurnir og Geir svaraði þeim skilmerkilega og ákveðið. Var mjög notalegt að eiga gott spjall við formanninn okkar og heyra skoðanir hans á hitamálum samtímans og málefnum svæðisins. Ég verð að lýsa yfir mikilli ánægju minni með þá ákvörðun Geirs að fara nú um landið og halda til fundar við trúnaðarmenn flokksins - ræða við þá um málefni sinnar heimabyggðar og eiga skoðanaskipti við fólk. Það eru nú 16 mánuðir til alþingiskosninga. Í þeim kosningum leiðir Geir flokk okkar. Nú er hann að fara um landið, hefja þá kosningabaráttu snemma og af krafti - heyra rödd landsmanna og kynna sér starfið víða um land. Mér finnst Geir hefja starf sitt mjög vel og hann hefur staðið sig vel að mínu mati. Geir mun vonandi leiða flokkinn til öflugs og góðs kosningasigurs þann 12. maí 2007 - leiða flokkinn í forsæti ríkisstjórnar að nýju.

Það er alveg ljóst að Geir hefur sterka stöðu - traust flokksmanna um land allt til forystu og að verða næsti forsætisráðherra. Ég vil þakka honum fyrir góðan fund og hlakka til að vinna með flokknum í kosningabaráttunni að ári undir hans stjórn.


Aðalfréttin hér nyrðra á þessum laugardegi er annars niðurstöður skoðanakönnunar sem IMG Gallup gerði fyrir Þyrpingu um viðhorf Akureyringa til hugmynda um nýtt skipulag á Akureyrarvelli. Könnunin leiddi í ljós að tæp 60% Akureyringa eru hlynntir því að Íþróttavöllurinn fari burt úr miðbænum, en 26% vilja halda íþróttavellinum í óbreyttri mynd. Eins og allir vita vill Þyrping fái svæði vallarins í sína eigu og staðsetja þar nýja Hagkaupsverslun með bílastæðum. Ég hef alltaf haft mjög ákveðnar skoðanir á þessu máli sem ég tjáði á íbúaþingi fyrir einu og hálfu ári, í september 2004, og geri aftur nú. Ég er hlynntur því að völlurinn fari en þar komi fjölskyldugarður eða einhver hófleg verslun jafnvel. En ég er ekki ginnkeyptur fyrir því að þar rísi risavaxin verslun með bílastæðarunum. Það er ekki glæsileg framtíðarsýn að malbika íþróttavöllinn fyrir bílastæðalengjum og henda risavöxnum verslunarkjarna fyrir Hagkaup. Nægar betri staðsetningar eru til fyrir það.

Ég tel framtíð vallarins vel liggja fyrir í þeim skipulagstillögum sem til umræðu eru í bæjarkerfinu. Annars kannast ég ekki við það að það hafi verið niðurstaða íbúaþingsins haustið 2004 að Hagkaup ætti að fá rétt á því að byggja risaverslunarkjarna á íþróttavellinum eins og forsvarsmenn Akureyrar í öndvegi eru að tala um. Hinsvegar er ég hlynntur því að stærri Hagkaupsverslun rísi en finna mætti betri staðsetningu fyrir það en þetta viðkvæma landsvæði í hjarta bæjarins sem íþróttavöllurinn hefur alla tíð verið. En vonandi verður hægt að vinna þetta mál í góðri samstöðu en ég má til með að ítreka mína skoðun á þessu. Í raun væri rétt að spyrja bæjarbúa hvort þeir vilji fá stærðarverslunarhús á reit vallarins og malbika svo bílastæði til hægri og vinstri. Sumir vilja það kannski en ekki ég. Ég vil leita annarra leiða við staðsetningu. Ég skil vel að Þyrpingarmenn vilji fá svæðið fyrir sig - en ég hallast frekar að því að þarna eigi að verða fjölskyldugarður.

En það eru sveitarstjórnarkosningar eftir örfáa mánuði. Afhverju ekki að færa Akureyringum valdið í hendurnar. Þeir eiga að kjósa um málið - segja sitt álit. Þetta mál er best að leysa með því að heyra skoðun bæjarbúa. Færum þeim ákvörðunarvaldið samhliða því að ganga að kjörborðinu þann 27. maí nk. Enginn vafi er á að það sé eina og réttasta leiðin í stöðunni.


Í dag halda flokksfélagar okkar í Kópavogi prófkjör sitt. Ég hef fylgst eilítið með prófkjörsslagnum. Það eru margir og góðir frambjóðendur sem þar keppa sín á milli um efstu sæti framboðslista flokksins í vor. Það er alveg ljóst að Gunnar Ingi Birgisson hefur góða stöðu til að leiða listann í vor. Hann hefur nú verið bæjarstjóri í Kópavogi í rúmlega hálft ár og staðið sig vel á þeim stóli. Staða hans og flokksins er sterk er kosningabaráttan hefst að prófkjöri loknu. Ég ætla að vona að listinn raðist vel upp og verði það sigurstranglegur að tryggja góða stöðu flokksins áfram og að Gunnar verði áfram bæjarstjóri - næstu fjögur árin.

stebbifr@simnet.is

20 janúar 2006

Stefán Friðrik

Í gær birtist grein eftir Odd Helga Halldórsson bæjarfulltrúa Lista fólksins, í Vikudegi. Þar er hann að ráðast að Kristjáni Þór og ákvörðun hans um að sækjast eftir fyrsta sætinu á framboðslista flokksins fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar. Oddur Helgi hefur verið í pólitískri kyrrþey seinustu árin - allt þetta kjörtímabil. Hann hefur passað sig á því að sitja hjá í bæjarstjórn og bæjarráði - verið lítt sýnilegur. Nú er greinilegt að Oddur Helgi er kominn á pólitíska leiksviðið, enda styttist í kosningar og stefnir á framboð. Þetta er sami status og við sáum fyrir kosningarnar 2002. Oddur Helgi fór inn við annan mann árið 2002: Marsibil Fjólu Snæbjarnardóttur. Massa hefur verið lítið sýnileg á tímabilinu og ekki verið áberandi t.d. á fundum bæjarstjórnar. En Oddur Helgi er greinilega kominn af stað og allt bendir til að Listi fólksins sé að undirbúa framboð. Þau hafa auðvitað mikið fylgi að verja - XL-ið hans Odds fékk enda tæp 20% atkvæða - er stærst minnihlutaaflanna nú.

Merkilegast í þessari kostulegu grein Odds Helga, sem einkennist af pólitísku óstuði, eru ummæli hans um ÚA. Er hann þar að væna okkar fólk um að hafa selt meirihlutavaldið í ÚA burt úr bænum. Eins og allir vita fór meirihlutastaðan í meirihlutatíð Framsóknarflokks og Alþýðuflokks - þá var Oddur Helgi bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins. Það er ekki nema von að fólk kippist svona eilítið við að lesa þessa grein. Oddur Helgi varð vissulega uppsigað við Framsókn fyrir kosningarnar 1998 en eftir stendur að hann var í hópi framsóknarmanna þegar að söluferlið fór á fullt. Það muna annars flestir eftir hasarnum fyrir áratug þegar að kratinn Gísli Bragi tók framsóknarmennina fimm í sex manna meirihlutanum í gíslingu og fékk þá til að fylgja sinni línu. Oddur Helgi ætti að líta í sagnfræðina sína áður en hann talar meira um ÚA - alltsvo í þessum dúr. En það er greinilegt að Oddur er að vakna til lífsins og hyggur á framboð að vori. Verður fróðlegt að sjá hvort hann heldur fylginu sínu.

Þau gleðitíðindi berast nú hingað norður að Iceland Express hafi í hyggju að hefja beint flug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar nú í sumar. Fyrsta ferðin mun verða farin undir lok maímánaðar. Er í hyggju að fljúga einu sinni í viku fram á haust og hugsanlega lengur ef áhuginn verður til staðar. Okkur hér fyrir norðan sárnaði þegar að beint flug lagðist af milli Akureyrar og Köben fyrir nokkrum árum. Vonum við auðvitað að betur muni nú ganga í þessum efnum. Ef marka má fréttir mun farmiðinn milli Akureyrar og Köben verða á eitthvað um 8000 kallinn aðra leiðina - sem er í samræmi við almennan prís hjá Iceland Express. Þetta er gleðiefni - óska okkur öllum til hamingju með þetta. Kannski maður skelli sér til Köben í sumar. :)

Fór á fund í gærkvöldi - er heim var komið var slappað af. Ég horfði á James Bond kvikmyndina Goldeneye frá 1995. Poppaði og fékk mér kók og Nóa kropp með - ekta gott. Myndin alltaf góð - Bondinn klikkar aldrei. Njósnari hennar hátignar er alveg ódauðlegur - hann átti bara mjög vel við á þessu ískalda vetrarkvöldi hér fyrir norðan í gærkvöldi.

Keypti mér í gær geisladiskinn með tónlist Mugison úr A Little Trip to Heaven - myndin er alveg frábær og tónlistin guðdómleg. Titillagið er algjör snilld. Hvet alla til að fá sér diskinn og hlusta á hann. Mugison klikkar aldrei og setur flottan svip á þessa góðu mynd Baltasar.

Jæja, þá er komið að bóndadegi. Þorrinn hafinn - öll þorrablótin framundan með allri þeirri gleði og ánægju sem þeim fylgir. :)

stebbifr@simnet.is

19 janúar 2006

Stefán Friðrik

Aðalfréttin hér nyrðra eru fregnir af stofnun nýs skipafélags hér á Akureyri sem ber heitið Byr. Mun því ætlað að veita reglubundna þjónustu milli Akureyrar og hafna víðsvegar í Evrópu. Stjórnarformaður félagsins sem heitir Tommy Bönsnæs mun halda stutta kynningu á félaginu og áformum þess í dag á Hótel KEA klukkan 16:00. Mun skipafélagið hafa í hyggju að taka á leigu fimm til sex þúsund tonna gámaflutningaskip sem flutt getur á bilinu fjögur til fimm hundruð gáma í senn. Ætlunin er að halda yfirbyggingu félagsins í lágmarki til að geta tryggt lág flutningsgjöld. Er þess gætt í hvívetna að félagið hafi fjárhagslega burði til að halda úti skiparekstri með litlum tekjum fyrstu árin. Áfangastaðir félagsins erlendis verða eins og staðan er núna í Þýskalandi, Danmörku og Bretlandi. Jafnvel er íhugað að fara víðar. Til að byrja með ætla þeir hjá Byr að sigla tvisvar í mánuði á milli allra áfangastaðanna. Eins og fyrr segir mun skipafélagið hafa höfuðstöðvar sínar hér á Akureyri. Ég vil óska aðstandendum Byrs góðs gengis og fagna tilkomu skipafélagsins.

Fyrir viku kom nýr Vikudagur út fyrsta sinni í eigu nýrra aðila og undir ritstjórn Kristjáns Kristjánssonar. Tóku nýir aðilar reksturinn yfir milli jóla og nýárs og Kristján ráðinn sem ritstjóri. Kristján er reyndur fjölmiðlamaður: var fréttastjóri Dags til fjölda ára og síðasta áratuginn verið blaðamaður Moggans hér í bæ. Fyrri eigandi blaðsins, Hjörleifur Hallgríms, stofnaði Vikudag fyrir tæpum áratug, árið 1997, og stýrði því þar til eigendaskiptin urðu. Þó að ekki hafi ég alla tíð verið sammála Hjörleifi og stefnu hans við stjórn blaðsins á hann auðvitað hrós skilið fyrir að hafa haldið blaðinu úti svo lengi sem raun ber vitni. Vikudagur er gott fréttablað og nauðsynlegt okkur sem viljum fá fréttir og umfjöllun í heimabyggð. Ég hef alltaf saknað gamla Dags - þó að það hafi auðvitað verið óttalegt framsóknarblað færði það okkur fréttir og viðtöl úr heimabyggð. Það er jú efni sem við metum mikils og viljum fá. Ég vil því óska nýjum eigendum Vikudags góðs gengis!

Hef verið að lesa bókina Tími nornarinnar eftir Árna Þórarinsson. Ég fékk því miður bókina ekki í jólagjöf eins og ég hafði óskað eftir. Góð vinkona mín og spjallfélagi um pólitík lánaði mér bókina - vil ég þakka henni kærlega fyrir það góðverk sitt. Bókin var alveg virkilega góð - skemmtilegur krimmi sagður frá sjónarhóli blaðamanns dagblaðs sem staðsettur er hér á Akureyri. Sögusvið bókarinnar er að mestu leyti hér á Akureyri. Hafði ég gaman af lestri bókarinnar. Sérstaklega fannst mér ánægjulegt að sjá hversu vel Árni hafði sett sig inn í "akureysk" málefni. Hann er með alla staðhætti á hreinu og talar málið eins og hann væri á staðnum. Góð bók hjá Árna sem ég hvet alla áhugamenn um spennusögur að lesa. Mér fannst þó skondið að sjá lýsingar hans á málefnum Akureyrar og Reyðarfjarðar, en bókin er að hluta staðsett þar líka. Skemmtilegar tengingar og spennandi atburðarás sem fléttist vel saman undir lokin.

Gat ekki annað en hlegið í gærkvöldi er ég horfði á Strákana á Stöð 2. Þar var Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, gestur Sveppa, Audda og Péturs Jóhanns. Ógeðsdrykkurinn er ekki lengur við lýði en húmorinn er enn til staðar. Forsætisráðherrann reyndi að vera skondinn og ógisslega skemmtilegur er hann tók af sér bindið og var á skyrtunni hjá skopfélögunum. Undir lokin var hann svo kominn í náttfötin og upp í rúm hjá Strákunum. Sennilega er Halldór fyrsti forsætisráðherra sögunnar sem kemur fram á náttfötunum. Það var allavega skondið í gær að sjá einn flokksleiðtoga með blaðamannafund í rúminu og annan að sprella í rúminu með skopfélögunum á Stöð 2. Eru kosningar í nánd - Halldór minn? :)

Endilega hafið samband - netfangið er: stebbifr@simnet.is

18 janúar 2006

Stefán Friðrik Stefánsson

Hef fengið góð viðbrögð á skrifin og umfjöllunina hér seinustu daga - mjög ánægjulegt að heyra góðar óskir og kveðjur af þessu tagi. Met það mjög mikils. Þakka góð orð um myndirnar líka - þær voru teknar í Vaðlaheiði í síðustu viku og tryggja góðan bakgrunn - Akureyrina okkar gömlu og góðu. :)

Í gærkvöldi var Sigbjörn Gunnarsson fyrrum krataþingmaður og sveitarstjóri, í viðtali við fréttastofu NFS. Þar var hann galopinn á bæði sveitarstjórnarpólitík og útilokaði meira að segja ekki landsmálaþátttöku fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það er merkilegt að fylgjast með þessu. Hann hefur nú verið í flokknum í eitthvað um tvær vikur en er þegar kominn með ambisjónir í að komast á þing í prófkjörsbaráttu fyrir sveitarstjórnarpólitík. Það er ekki nema von að fólk úti í bæ sé ráðvillt yfir þessum yfirlýsingum í fjölmiðlum frá kratanum fyrrverandi. Það er ágætt að hafa metnað fyrir sjálfu sér vissulega en það er ekki fjarri því að fólk sem hefur verið að vinna fyrir flokkinn til fjölda ára og verið mjög öflugt í innra starfinu mjög lengi finnist fátt til þessara fjölmiðlayfirlýsinga Sigbjörns koma. Kannski fer Oktavía að bætast við á næstu dögum og tala um þingframboð? Ja, hver veit. Maður á orðið von á öllu frá landflótta krötunum hérna.

Má til með að skrifa eilítið um sjónvarpsmyndina Allir litir hafsins eru kaldir, sem sýnd er nú á sunnudagskvöldum í Sjónvarpinu. Fyrsti þátturinn var seinasta sunnudag. Þessir þættir lofa góðu. Þeir eru allt í senn flott myndunnir, vel leiknir og leikstýrðir - svo er greinilegt að nostrað hefur verið við ytra útlit myndrammans. Þetta er allt fyrsta flokks. Þarna fer Marta Nordal að mínu mati algjörlega á kostum sem lögreglukonan Jara - það er ekki eins og hún sé að leika og sé bara hún sjálf. Selma Björns átti flotta innkomu sem kærasta lögmannsins. Svo fannst mér Þórunn Lárusdóttir standa sig vel og hún náði að skapa allt annan karakter en hún hefur áður túlkað. Hilmir Snær stendur sig vel sem lögmaðurinn. Svo var gaman að sjá gömlu brýnin Helgu Jóns og Pétur Einars fara á kostum í smáum en góðum rullum föður lögmannsins og konu hans. Þetta lofar góðu - ég hef alltaf haft gaman af krimmasögum og þetta er því eitthvað sem ég hef mjög gaman af.

Í dag var Vilhjálmur Egilsson ráðuneytisstjóri og fyrrum alþingismaður, ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í stað Ara Edwald sem tekur við sem forstjóri 365-miðla frá og með næstu mánaðarmótum. Vilhjálmur er ekki ókunnur þessum geira en hann vann lengi hjá Vinnuveitendasambandi Íslands, forvera SA, og var framkvæmdastjóri Verzlunarráðs Íslands í 15 ár, 1987-2003. Hann var alþingismaður Sjálfstæðisflokksins 1991-2003 og ráðuneytisstjóri frá árinu 2004. Vilhjálmur stóð sig vel á þingi þann tíma sem hann var þar og var öflugur talsmaður flokksins í efnahags- og viðskiptanefnd. Fannst mér illa komið fram við hann í prófkjöri flokksins í Norðvestri árið 2002 og taldi að hann hefði átt að fá sæti á lista flokksins. Reyndar munaði mjög litlu að hann hefði leitt listann.

Steingrímur J. hélt blaðamannafund í dag af sjúkrasæng á Landsspítalanum. Er ánægjulegt að sjá hversu hress hann er miðað við allar aðstæður. Vonandi er að hann nái sem fyrst fullum bata og komist aftur í stjórnmálaumræðuna. Satt best að segja er þingumræðan ekki nema svipur hjá sjón án Steingríms J.

17 janúar 2006

Stefán Friðrik

Það er ljóst að stefnir í spennandi og gott prófkjör þann 11. febrúar - eins og ég spáði hér í gær þegar ég ræddi um málefni þess og kratana sem til okkar hafa komið. Alls gefa 20 manns kost á sér í prófkjörinu, þar af eru sex konur en við karlarnir erum 14 talsins. Eins og ég sagði hér í gær lýst mér vel á það sem framundan er - er vel til í slaginn. Það er auðvitað visst áhyggjuefni að ekki skuli fleiri konur taka þátt í þessu prófkjöri. En þarna eru sterkur konur eins og Ella Magga, Sigrún Björk og Jóhanna Hlín sem allar hafa tekið þátt í starfinu innan flokksins um nokkurt skeið og vel þekktar fyrir störf sín þar. Þarna eru Kristján Þór og Doddi Blomm sem hafa setið í bæjarstjórn alla meirihlutatíð okkar. Doddi hefur reyndar verið í bæjarstjórn frá 1994 og fór þá í gegnum síðasta prófkjör sem þá var haldið. Hann er sá eini af okkur sem hefur farið í gegnum prófkjör hér hjá flokknum í bænum.

Athygli vekur að allir varabæjarfulltrúar flokksins gefa ekki kost á sér í prófkjörinu. Það stefnir því auðvitað í mikla uppstokkun á fólki, enda taka þátt þrír af fjórum efstu á listanum 2002 - en aðrir ekki af átta efstu. Þarna er svo auðvitað líka mikið af nýju fólki sem ekki hefur starfað af neinu ráði og fögnum við auðvitað því að fólk hafi áhuga á að starfa innan Sjálfstæðisflokksins - þó aldrei hafi það sést í Kaupangi eða í innsta starfinu. Svo eru jú þarna fyrrum alþingismaður Alþýðuflokksins og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar meginþorra kjörtímabilsins - hef fjallað um þau. Hjalti Jón skólameistari er svo kominn þarna og ætti það að vekja skemmtilega umræðu um það hvort að menn í hans stöðu eigi að vera í framboði. Já það stefnir í hörkuspennu bara tel ég og ljóst að baráttan verði bara nokkuð skemmtileg með að fylgjast - bæði fyrir okkur sem tökum þátt og aðra sem fylgjast með en hafa áhuga á stjórnmálaumræðunni.


Frétt dagsins er auðvitað að Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður og formaður VG, slasaðist þegar að bíll hans valt í Bólstaðahlíðarbrekku ofan við Húnaver seint í gærkvöldi. Var Steingrímur einn í bílnum. Var allnokkur hálka á þessum slóðum og hríðarkóf. Bíllinn fór nokkrar veltur - var þyrla Landhelgisgæslunnar send frá Reykjavík til að sækja Steingrím, sem fluttur var til Blönduóss. Er Steingrímur J. illa brotinn, ekki þó mænuskaddaður sem betur fer, en hann hafði meðvitund allan tímann. Er guðs mildi að Steingrímur J. slapp þetta þó vel miðað við aðstæður. Brá mér mjög að heyra í morgun af slysinu sem Steingrímur lenti í, enda veit ég að brekkan er ekki góð í vetrarveðrum. Foreldrar eins vinar míns lentu þar í slæmu slysi fyrir um áratug og slösuðust illa - þekki því vel hversu vond hún er á þessum árstíma. Hugur okkar allra er hjá Steingrími og fjölskyldu hans á þessari stundu - vona ég að hann nái sem fyrst góðri heilsu.

Erlend pólitík er mér alltaf mjög hugleikin. Nú er aðalfréttin erlendis auðvitað staða stjórnmálanna í Mið-austurlöndum. Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, er enn fárveikur og í dái á sjúkrahúsi í Jerúsalem - ljóst er að hann mun ekki eiga afturkvæmt í stjórnmálaforystu. Á meðan ljær pólitísk forysta landsins, undir forystu Ehud Olmert, máls á friðarviðræðum við stjórn Palestínu undir forystu Mahmoud Abbas. Er ljóst að spennandi tímar eru framundan, enda eru þingkosningar framundan bæði í Ísrael og Palestínu. Ef marka má kannanir nú bendir flest til þess að Kadima (Áfram!) vinni kosningarnar og Olmert verði forsætisráðherra að þeim loknum. Þó að aldrei hafi reynt á Olmert sem þjóðarleiðtoga fyrr en nú blasir við að hann njóti trausts Ísraela. Fyrst og fremst virðast átakalínur í ísraelskri pólitík verða um hvort semja eigi við Palestínumenn. Í dag skrifaði ég ítarlegan pistil um stöðu stjórnmálanna þarna á vef SUS - alltaf gaman að velta fyrir sér erlendri pólitík og skrifa um.

Golden Globe-verðlaunin voru afhend í nótt. Einhverntíma hefði ég eytt miklum tíma í analísum um niðurstöðurnar en nú gefst ekki mikill tími. Ætla að skauta svona yfir það helsta sem stóð eftir nóttina. Kvikmyndin Brokeback Mountain var valin besta dramatíska kvikmyndin - hlaut alls fjögur verðlaun. Leikstjórinn Ang Lee var verðlaunaður fyrir sitt verk. Myndin sem fjallar um tvo samkynhneigða kúreka á sjöunda áratugnum hefur skapað umtal í Bandaríkjunum, sérstaklega í suðurríkjunum þar sem hún víða fæst ekki sýnd. En myndin er rómuð sem falleg ástarsaga um sannar tilfinningar og ást sem lifir í skugga fordóma. Hlakka til að sjá hana. Philip Seymour Hoffman var verðlaunaður fyrir hlutverk sitt í Capote. Joaquin Phoenix og Reese Witherspoon voru verðlaunuð fyrir hlutverk sín í kvikmyndinni Walk the Line, sem fjallar um líf Johnny Cash. Felicity Huffman, var svo verðlaunuð fyrir hlutverk sitt í Transamerica.

Valdir partar af verðlaunaafhendingunni verða sýndir á Stöð 2 í kvöld - hvet alla sem ekki gátu skiljanlega vakið í nótt að horfa á þá það helsta sem uppúr stóð eftir kvöldið. Það er ljóst að fjöldi góðra mynda eru á leiðinni upp á skerið og nóg af úrvalsefni fyrir okkur kvikmyndaáhugafólk að sjá - sérstaklega hlakkar mér til að sjá Munich og Walk the Line - enda Johnny Cash lengi í uppáhaldi hjá mér. Allar upplýsingar um Golden Globe 2006.

16 janúar 2006

Stefán Friðrik Stefánsson

Ég vil þakka fólki fyrir góð viðbrögð á bloggfærsluna og pælingar sem þar komu fram. Bloggið verður eins og fyrr segir í dag öðruvísi fram að prófkjöri. Þá sleppum við fastaliðunum en höldum okkur í pælingum um prófkjörið og pólitík - styttri færslur og snarpari. Þakka góð viðbrögð - vona að þið fylgist með næstu vikurnar.

Í dag fylgdist ég með blaðamannafundi forsætisráðherrans í Ráðherrabústaðnum á NFS. Kom svosem fátt nýtt fram þar. Þingið kemur jú saman á morgun - þar verður úrskurður kjaradóms tekinn fyrir og hækkunin felld úr gildi. Munu laun forsetans lækka til samræmis við þá prósentulækkun og aðrir verða fyrir. Líst vel á þetta. Það er alveg ljóst að sátt ætti að nást um þessar breytingar og væntanlega verður það fljótafgreitt að taka þetta fyrir. Er sammála mati forsætisráðherrans á málefnum RÚV. Það er mikilvægt að frumvarp þar um verði afgreitt sem fyrst og mál í stofnuninni færð til nútímans - þó fyrr hefði verið. Eftir sem áður er mikilvægt að nýtt fjölmiðlafrumvarp komi til sögunnar nú á vorþingi og verði að lögum fyrir lok þinghalds - er mikilvægt að frumvarp verði byggt á fjölmiðlaskýrslunni frá því í fyrra og samstaða náist um málið milli allra flokka. Þó að ég sé ekki alltaf sammála honum Halldóri má hann eiga það að hann stendur sig vel með þessa blaðamannafundi - þeir eru mjög af hinu góða.

Svo stendur auðvitað upp úr seinustu daga ákvörðun borgaryfirvalda um að draga sig út úr viðræðum um kaup ríkisins á eignarhluta borgarinnar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Er alveg greinilegt að ástæðan er sú að hinn steindauði R-listi hefur engan kraft í að klára málið og frestar því fram yfir kosningar. Greinilegt er að VG er þrándur í götu málsins - bæði Árni Þór og Björk Vilhelms hin brottflutta vinstri græna sem flúði í fang Samfylkingarinnar og kallar sig óháða í prófkjörinu. Kostulegt, ekki satt? R-listavofan hefur ekkert afl í að klára málið greinilega. Nú sé ég svo í dag að Valgerður iðnaðarráðherra er að senda R-listanum pillu í pistli á vef sínum - það er vel skiljanlegt. Borgin bað um viðræðurnar en hrökklast frá þessu. Mjög merkilegt. Annars á Akureyrarbær að halda sínu striki og selja hlut sinn. Þó að R-listinn hafi ekki pólitískan mátt til að feta í söluátt eigum við Akureyringar að halda ótrauð okkar stefnu og klára málið fyrir kosningar.

Sé svo í dag að menn eru að rífast um prófkjörsúrslitin í Garðabæ. Það er vel skiljanlegt - hlutur kvenna er afspyrnuslakur. Engin kona í vonarsætunum fjórum og Laufey Jóhannsdóttir, sem setið hefur í bæjarstjórn frá 1990, beið algjört afhroð. Þessi niðurstaða er dapurleg, enda eru margar efnilegar konur þarna, t.d. Ragnhildur Inga, Ingibjörg og Laufey. Er þegar farið að tala um að breyta röðun listans. Er það vissulega hægt í ákvörðun fulltrúaráðs - en umdeildanlegt. Enda varla líklegt að einhver vilji afsala sér öruggu bæjarfulltrúasæti sem vannst í prófkjöri. Þetta er jú einu sinni val prófkjörs og erfitt upp að stokka. En þeir í Garðabænum taka ákvörðunina. Hitt er svo annað mál að það er rétt hjá Jóni Guðmundssyni formanni fulltrúaráðs, að þetta er ekki seljanlegur listi. Ákvörðun um uppstokkun er því ekki ólíkleg, þykir mér - þó það gæti kostað einhver særindi.

Í kvöld verða Golden Globe-verðlaunin afhend í Los Angeles. GG er ein af þeim verðlaunaafhendingum sem eru ómissandi fyrir kvikmyndafíkla eins og mig - þau hafa enda oft haft mikið um að segja hverjir fá Óskarinn í mars. Það er pottþétt að ég reyni að vaka fram á nótt og horfa á þetta. Ekta popp og kók-kvöld framundan við að horfa á afhendingu Gullhnattarins. Góða skemmtun (sérstaklega aðrir bíófíklar). :)

Oktavía

Framboðsfrestur í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna á Akureyri sem haldið verður laugardaginn 11. febrúar nk. rennur út klukkan 17:00 í dag. Má búast við góðri þátttöku - spennandi prófkjöri. Skilaði ég framboði mínu inn til formanns kjörnefndar í síðustu viku og var því vel tímanlega í þessu öllu. Líst mér vel á slaginn framundan - ég er til í slaginn allavega. Eins og fólk sér hefur bloggið tekið eilitlum breytingum og mun það til prófkjörs einkennast af stuttum punktum og pælingum. Heimasíðan mun taka stakkaskiptum í vikunni og verða miðstöð mín í baráttunni. Hvet ég alla sem vilja heyra í mér til að senda mér póst - mikilvægt að heyra í fólki og þeir sem vilja tjá sig um baráttuna eða málefni hennar eru eindregið hvattir til að hafa samband.

Um helgina fór ég sem oftar niður í miðbæ og fór þar á kaffihús. Þar hitti ég mætan mann sem tók mig tali og spurði mig með alvarlegum blæ hvort að allt væri að fyllast hjá okkur af landflótta krötum úr Samfylkingunni. Það er ekki nema von að fólk spyrji sig að því eins og staða mála er orðin. Oktavía hefur flúið Samfylkinguna sem hún var kjörin í bæjarstjórn fyrir árið 2002 og komin til okkar og í framboð núna ef marka má fréttir gærdagsins. Sigbjörn fyrrum krataþingmaður hefur svo bæst við ennfremur - kominn úr sveitasælunni við Mývatn þess albúinn að reyna fyrir sér eftir langa pólitíska útlegð. Fleiri kratar eða nýtt fólk er komið til okkar líka - fólk sem aldrei hefur starfað fyrir Sjálfstæðisflokkinn en vill einhverra hluta vegna spreyta sig hjá okkur. Er sjálfsagt að fagna öllu því fólki sem flýr vinstrimennsku og gengur til fylgilags við sjálfstæðisstefnuna - gengur til liðs við stærsta flokk landsins.

Merkilegt var annars að sjá framboðstilkynningu Oktavíu Jóhannesdóttur sem mun takast á við mig og fleiri um þriðja sætið. Þar telur hún upp afrek sín fyrir Alþýðuflokkinn sáluga og Samfylkinguna. Það er óneitanlega skemmtilega skondið að frú Oktavía sleppir því algjörlega að geta þess að hún fór í framboð með Árna Steinari Dalvíkingi og fyrrum græningjaþingmanni með meiru í bæjarstjórnarkosningum árið 1990 og munaði litlu að hún fylkti liði með honum í þingframboð með glans árið 1991. Það er þó auðvitað af litlu að státa í verkum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, enda hefur hún aðeins verið þar í tvær vikur, eða síðan að hún hélt frægan blaðamannafund með Kristjáni Þór í Hamborg. Svo er kominn til liðs við okkur hinn frægi smalari Sigbjörn Gunnarsson. Flestir muna annars hvernig fór fyrir honum eftir að hafa sigrað í samfylkingarprófkjörinu 1999 - vék þar til hliðar fyrir Svanfríði Jónasdóttur.

Sú saga hefur farið hátt og verður kannski rifjuð eitthvað upp í þessu prófkjöri - hver veit? Fleiri vinstrimenn eru komnir til liðs við okkur og ætlast til að verða lyft upp til skýjanna af flokksfólki sem hér hefur haldið starfinu uppi með þeim þunga sem fylgir. Verður fróðlegt hvort það fari svo. Sjáum til hvernig þeim gengur. Eflaust munu margir í baráttunni á næstu vikum rifja upp ummæli og takta Oktavíu gegn okkur sjálfstæðisfólki. Fagna ég öllum þeim sem rifja upp tal hennar og pælingar innan Samfylkingarinnar gegn þeim sem hún er nú að koma sér í mjúkinn hjá. Það er annars engin furða að fólk sem er orðið landlaust í pólitík reyni fyrir sér - reyni að koma sér burt af pólitískri eyðieyju. Þó það nú væri. Það er sennilega betra að reyna fyrir sér þarna en í eymdinni á vinstrivængnum.

Ég hlakka til baráttunnar við landlausa krata og fleiri. Næstu daga heyrum við listann yfir prófkjörskandidata og þá getum við haldið í baráttuna af krafti. Þetta verður spennandi.

13 janúar 2006

Ritstjórar DV segja af sér

Jónas KristjánssonMikael Torfason

Báðir ritstjórar DV, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, sögðu af sér í dag og voru þeir Páll Baldvin Baldvinsson og Björgvin Guðmundsson ráðnir í þeirra stað. Með því lauk miklum umhleypingatímum í samfélaginu - byltingu fólksins gegn DV og vinnubrögðum blaðsins seinustu árin. Óhætt er að segja að samfélagið hafi skekist vegna "fréttamennsku" DV seinustu vikuna. Hafði blaðið reyndar virkað sem ein tímasprengja allt frá því að gerðar voru breytingar á blaðinu og ritstjórnarstefnu þess um leið og nýir eigendur tóku við eftir gjaldþrot gamla DV árið 2003. Mikael Torfason og Illugi Jökulsson tóku við ritstjórn blaðsins - segja má að það hafi þá algjörlega umpólast. Var um að ræða sorpblaðamennsku, hannaða af fyrrnefndum ritstjórum og viðbætt með innkomu Jónasar Kristjánssonar, sem var ritstjóra gamla DV á árunum 1981-2001 og aftur frá 2005, og Reynis Traustasonar.

Ekki ætla ég að fara mörgum orðum um það mál sem varð til þess að þjóðinni varð nóg boðið. Sjálfsmorð Gísla Hjartarsonar á Ísafirði er mikill harmleikur - það hlaut að slíku að koma eftir "fréttamennsku" DV. Forsíða þriðjudagsblaðs DV og umfang umfjöllunarinnar var sorgleg og fór langt yfir strikið - allt sómakært fólk blöskraði. Þjóðfélagið tók við sér og stíflan brast. Fólk fékk algjörlega nóg. En þetta er sorgleg þróun - sem vert er að hugsa um. Hvert stefnir þjóðfélagið okkar eiginlega? Er aftaka án dóms og laga aftur komin til sögunnar? Þetta er spurningin sem við fengum svar við í vikunni og vakti okkur vonandi öll til umhugsunar. Það varð allavega svo í mínu tilfelli. Mér brá og viðbrögð mín voru aðallega reiði og gremja yfir vinnubrögðum þessa blaðs - þetta varð kornið sem fyllti mælinn.

Oft hafði blaðið vakið athygli fyrir harðskeytta ritstjórnarstefnu. Fyrsta merki þess sást strax í desember 2003 þegar að DV birti nafn og mynd af manni frá Patreksfirði sem sakaður hafði verið um kynferðislega misnotkun á börnum. Var myndbirtingin réttlætt með því að um væri að ræða mikilvægt mál, fréttaefni sem komi öllum við. Var þetta ljótur blettur á ferli þessa blaðs og slæm slóð sem þarna var fetuð. Ritstjórar blaðsins vörðu þetta strax þá með lélegum rökum, ómögulegt var að verja þessa gjörð með góðu. Það vissu ritstjórar blaðsins. Um var einungis að ræða auglýsingabragð til að selja blaðið. Leitt var að menn gripu til svona ljótra ráða til að auka söluna. Ekkert annað var jú reynt með þessu. Þessi tegund blaðamennsku er ekki geðsleg og vonandi hverfur hún með þessum breytingum sem nú hafa orðið með því að Jónas og Mikael hrökklast í burtu frá sneplinum.

Björgvin Guðmundsson og Páll Baldvin Baldvinsson

Í kjölfar umfjöllunar DV um mál Gísla Hjartarsonar var ákveðið að efna til undirskriftasöfnunar gegn ritstjórnarstefnu DV. Var hún samstarfsverkefni Deiglunnar, Sambands ungra sjálfstæðismanna, ungra jafnaðarmanna, stúdentaráðs HÍ, Sambands ungra framsóknarmanna, Tíkarinnar, Múrsins, ungra frjálslyndra, ungra vinstrigrænna, Heimdallar, Vöku, Röskvu og H-listans. Söfnun undirskrifta stóð í nákvæmlega tvo sólarhringa. Alls skráðu 32.044 einstaklingar nafn sitt við áskorun þessara aðila um endurskoðun ritstjórnarstefnunnar. Þetta er því mjög breið samstaða sem kom fram í þessari undirskriftasöfnun. Samfélagið logaði vegna málsins og vel kom fram afgerandi vilji almennings þess efnis að þessi tegund blaðamennsku hafi náð endastöð. Þetta var kornið sem fyllti mælinn.

Ánægjulegt var svo að sjá alla þingflokka lýsa yfir stuðningi við undirskriftasöfnunina og fordæma vinnubrögð DV. En nú eru ritstjórarnir farnir eftir lélega framgöngu sína og að hafa misst trúnað almennings. Komu örlög þeirra engum á óvart. En nú er það Björgvins og Páls Baldvins að taka við blaðinu. Líst mér vel á hina nýju ritstjóra á DV. Vona ég að þeir vinni af krafti í sínum störfum og færi blaðið rétta leið - burt frá sorpblaðamennskunni og í áttina að eðlilegri fréttamennsku. Það má telja öruggt að DV fari nú eftir siðareglum Blaðamannafélagsins, enda er Björgvin Guðmundsson ritstjóri DV, í stjórn BÍ. Málinu sem skekið hefur samfélagið er því lokið með því að Jónas og Mikael taka pokann sinn. Er það mikið gleðiefni!

Saga dagsins
1268 Gissur Þorvaldsson jarl, lést, sextugur að aldri - einn af mestu höfðingjum hérlendis á 13. öld.
1830 Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir, sem myrtu Natan Ketilsson og Pétur Jónsson, voru tekin af lífi í Vatnsdalshólum í A-Húnavatnssýslu - þetta var síðasta aftakan sem fram fór hér á Íslandi.
1940 Einar Benediktsson skáld, lést, 75 ára að aldri, að heimili sínu í Herdísarvík. Einar var jarðsettur í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum, 27. janúar, fyrstur allra. Einar Ben var eitt af bestu skáldum okkar.
1976 Breska skáldkonan Agatha Christie, lést, 86 ára gömul - var einn besti spennusagnahöfundurinn.
1993 Samningur um aðild Íslands að hinu Evrópska efnahagssvæði (EES), var samþykktur á Alþingi eftir lengstu umræðurnar í þingsögunni, alls um 100 klukkustundir. Samningurinn tók gildi 1. janúar 1994.

Snjallyrðið
Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
en láttu það svona í veðrinu vaka
þú vitir, að hann hafi unnið til saka.

En biðji þig einhver að sanna þá sök,
þá segðu, að til séu nægileg rök,
en náungans bresti þú helst viljir hylja,
það hljóti hver sannkristinn maður að skilja.

Og gakktu nú svona frá manni til manns,
uns mannorð er drepið og virðingin hans,
og hann er í lyginnar helgreipar seldur
og hrakinn og vinlaus í ógæfu felldur.

En þegar svo allir hann elta og smá,
með ánægju getur þú dregið þig frá,
og láttu þá helst eins og verja hann viljir,
þótt vitir hans bresti og sökina skiljir.

Og segðu " Hann brotlegur sannlega er,
en syndugir aumingja menn erum vér,
því umburðarlyndið við seka oss sæmir.
En sekt þessa vesalings faðirinn dæmir."

Svo legðu með andakt að hjartanu hönd.
Með hangandi munnvikum varpaðu önd,
og skotraðu augum að upphimins ranni,
sem æskir þú vægðar þeim brotlega manni.

Já, hafir þú öll þessi happasælu ráð,
ég held þínum vilja þá fáir þú náð
og maðurinn sýkn verði meiddur og smáður.
En máske, að þú hafir kunnað þau áður!
Páll J. Árdal skáld (1857-1926) (Ráðið)

11 janúar 2006

10 janúar 2006

Staðfestingarferli vegna skipunar
Samuel Alito í hæstarétt Bandaríkjanna


Samuel Alito

Í gær kom Samuel Alito fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og með því hófst staðfestingarferli vegna skipunar hans í Hæstarétt Bandaríkjanna. Var hann skipaður til setu í réttinum af George W. Bush forseta Bandaríkjanna, þann 31. október sl. sem eftirmaður Söndru Day O'Connor, sem tók fyrst kvenna sæti í réttinum árið 1981. Var hann þriðja dómaraefnið sem skipað var í stað Söndru. Upphaflega, fyrr í sumar, í kjölfar afsagnar Söndru hafði forsetinn skipað John G. Roberts sem dómara við réttinn. Í kjölfar andláts William H. Rehnquist forseta Hæstaréttar, í septemberbyrjun, var Roberts skipaður í stað hans og var staðfestur sem forseti réttarins í lok september. Þá skipaði forsetinn Harriet Miers yfirlögfræðing Hvíta hússins, sem dómara. Hætti hún að lokum við að þiggja útnefninguna er sýnt varð að henni skorti nauðsynlegan meirihluta í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og í þingdeildinni sjálfri.

Andstaða við hana innan hins íhaldssama arms Repúblikanaflokksins varð henni að falli - án þess stuðnings var borin von að hún hlyti tilskilinn stuðning í þinginu. Því fór sem fór. Brotthvarf Miers frá ferlinu og erfiðleikar hennar í stöðunni markaði vandræðalegt ástand fyrir forsetann. Það hefur enda jafnan þótt vandræðalegt fyrir sitjandi forseta þegar dómaraefni hans er ekki staðfest af þinginu eða viðkomandi neyðist til að bakka frá ferlinu vegna þess að ferlið er strandað eða sá sem forsetinn hefur valið missir baklandið. Tók Bush forseti engar áhættur í valinu á næsta dómaraefni. Skipaður var tryggur hægrimaður - umfram allt tryggur íhaldsmaður í lykilmálum. Alito er mjög tryggur íhaldsmaður hvað varðar þau lykilmál sem deilt hefur verið um seinustu árin. Hann er allavega talinn svo líkur hæstaréttardómaranum íhaldssama Antonin Scalia, að hann er almennt uppnefndur Scalito. Þessi brandari hefur löngum þótt lífseigur og rifjast upp nú þegar hann hefur baráttuna fyrir staðfestingu þingsins í embættið.

Bakgrunnur Alito er mjög honum til styrktar hvað varðar stuðning repúblikana í þinginu. Bush gerði sér allavega grein fyrir því hvaða stuðning þarf til að dómaraefnið komist heilt í land - vandræði Miers og harkaleg endalok staðfestingarferlisins sannfærðu hann vel um það. Því var skipaður tryggur íhaldsmaður með þær grunnskoðanir sem forsetinn telur þurfa til að dómaraefnið nái í gegnum hið langvinna og harðvítuga ferli. Búast má við umtalsverðum deilum og hefur það sést vel seinustu vikur af tali demókrata - verið er að spila um mun meira nú en þegar Roberts kom fyrir dómsmálanefndina í haust. Nú er verið að fylla í skarð Söndru, sem var þekkt sem swing vote í réttinum. Búast má við að demókratar berjist hatrammlega gegn því að yfirlýstur íhaldsmaður taki við af Söndru. Þegar hafa þekktir demókratar tjáð andstöðu sína við Alito og líklegt að nokkur átök verði í þinginu. Um mun meira er enda verið að spila nú en þegar Roberts kom fyrir þingið.

Samuel Alito

Samuel Alito er fæddur í Trenton í New Jersey hinn 1. apríl 1950. Hann útskrifaðist frá Princeton-háskóla árið 1972 og fór í Yale lagaskólann að því loknu. Hann útskrifaðist þaðan árið 1975. Árin 1976-1977 starfaði hann sem aðstoðarmaður alríkisdómarans Leonard I. Garth. Árin 1977-1981 var Alito aðstoðardómsmálaráðherra New Jersey-fylkis. 1981-1985 var Alito aðstoðarmaður Rex E. Lee lagasérfræðings Hvíta hússins. Árin 1985-1987 var Alito aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna, í ráðherratíð Edwin Meese. 1987-1990 var Alito saksóknari New Jersey-fylkis. Frá árinu 1990 hefur Alito verið alríkisdómari við áfrýjunardómstólinn í Philadelphiu. Hann hefur flutt tólf mál fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna og býr því yfir víðtækri reynslu. Alito og eiginkona hans, Martha, búa í West Caldwell í New-Jersey. Þau eiga tvö börn, soninn Phil og dótturina Lauru. Eins og sést á upptalningu á verkum Alito hefur hann gríðarlega reynslu að baki og erfitt verður að finna að verkum hans sem lagasérfræðings.

Það er jafnan talin ein helsta arfleifð forseta Bandaríkjanna á hverjum tíma hverja hann tilnefnir til setu í hæstarétti Bandaríkjanna. Með vali sínu getur forsetinn sett mark sitt á stefnu réttarins og samfélagið á hverjum tíma ennfremur. Til dæmis mun það væntanlega verða ein helsta arfleifð forsetatíðar George W. Bush að á þeim tíma varð hinn 55 ára gamli John G. Roberts forseti réttarins - einkum í ljósi þess hversu ungur hann er og hversu víðtæk áhrif Roberts-rétturinn mun hafa um langt skeið. Eins og vel hefur komið fram í uppstokkunarferlinu í réttinum seinustu mánuði verður dómaraefni forsetans að hljóta staðfestingu meirihluta öldungadeildar Bandaríkjaþings og því er forsetinn auðvitað ekki einráður um það hverjir veljast þar til setu. Þingið verður að samþykkja þann kost sem forsetinn telur vænlegastan. Hæstiréttur Bandaríkjanna er stjórnlagadómstóll og því dæmir hann fyrst og fremst í málum sem rísa vegna ágreinings um stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Bandarískir hæstaréttardómarar eru ekki bundnir neinum aldursmörkum og eru því skipaðir til dauðadags, nema þeir biðjist lausnar frá setu þar eða gerast sekir um brot á lögum og verða vegna þess að láta störfum. Gott dæmi um þetta er að William H. Rehnquist sat í réttinum í 33 ár (frá því í forsetatíð Richard M. Nixon) og var forseti hans í tæpa tvo áratugi, árin 1986-2005. Tveir dómaranna eru undir sextugu, Roberts sem er 55 ára gamall og Clarence Thomas sem verður 58 ára á þessu ári. Er Roberts var staðfestur til setu í réttinum hafði ekki losnað þar sæti í áratug, en síðast áður hafði verið skipað í réttinn árið 1994 er Bill Clinton tilnefndi Stephen Breyer. Segja má því með sanni að Alito sé einn virtasti og hæfasti dómari í Bandaríkjunum. Ólíkt Harriet Miers hafa demókratar fátt á hann er staðfestingarferlið hefst. Verður merkilegt að fylgjast með því er hann kemur fyrir dómsmálanefndina og svarar þar spurningum um lagaleg álitaefni og hitamál samtímans.

Samuel Alito

Þrátt fyrir kurteislegt yfirbragð við upphaf staðfestingarferlisins í Washington í gær var alvarleikinn áberandi. Við blasir að Arlen Specter og Patrick Leahy, leiðtogar repúblikana og demókrata í nefndinni, eru ósammála um ágæti hins tilnefnda og búast má við að demókratar verði mjög aðgangsharðir í spurningum. Þegar er ljóst að demókratarnir Dianne Feinstein, Edward Kennedy og Charles Schumer muni verða mjög hvassir í ferlinu og hafa hótað því að reyna að hindra staðfestingarkosningu fyrir deildinni svari hann ekki spurningum um mikilvæg málefni eins og málefni samkynhneigðra og fóstureyðingar. Búast má við að Alito fái á sig margar krefjandi spurningar og sótt verði að honum með því. Greinilegt er að andstæðingar íhaldsgildanna eru að búa sig undir átök í samfélaginu og spurning hvað gerist með demókratana sem helst hafa haldið uppi andmælum við tilnefningunni. Það er alveg ljóst að ef átök verða vegna skipanarinnar fyrir þinginu muni þau verða mjög harkaleg.

Frjálslyndir telja Samuel Alito ekki viðeigandi dómaraefni - hann hafi að þeirra mati lagst gegn mál- og trúfrelsi og gæti þrengt lagaramma þess sem dómari. Þá segir hópur, sem berst fyrir frjálsum fóstureyðingum, að Alito sé alfarið andvígur fyrri afstöðu Hæstiréttar til fóstureyðinga. Frægt er málið, Roe v. Wade frá árinu 1973, þar sem réttur kvenna til fóstureyðinga var staðfestur. Nýir dómarar gætu snúið þeim tímamótadómi og hert lagarammann til muna. Þó hefur Alito ekki fullyrt í fjölmiðlum að það verði að gera. En demókratar óttast stöðu mála með Alito sem oddaatkvæðið í mikilvægum málum er hann hefur tekið sæti Söndru Day O'Connor. En nú ræðst hvert ferlið stefnir. Það er þó alveg ljóst að staðfestingarferlið mun verða gegnumskrifuð pólitík, ef harka leggst í málið. En almennt talið af sérfræðingum sem tjáð hafa sig í fjölmiðlum að líkur á hvassyrtu staðfestingarferli hafi aukist til muna. Muni aðgangsharka demókrata í ferlinu í dómsmálanefndinni velta mjög á svörum Alito er demókratarnir fara að spyrja um hitamálin fyrrnefndu.

Samuel Alito

Tel ég viðbúið að búast megi við átökum fyrir þinginu vegna skipunar Bush forseta á kaþólikkanum Alito í Hæstarétt Bandaríkjanna. Þar verða átakapunktarnir klassískir - en umfram allt harðir. Þar takast á grunnpólar, með og á móti íhaldssömum sjónarmiðum. Verður sá slagur mjög hvass, enda mun sá sem tekur sæti Söndru Day O'Connor í réttinum hafa umtalsverð áhrif á skipan mála á komandi árum og framvindu hitamálanna sem allir þekkja. Því má búast við að það muni reyna mjög bæði á Alito, sem berst fyrir staðfestingu þingsins, og ekki síður George W. Bush, sem skipar hann til setu í réttinum.

Saga dagsins
1884 Ísafold, sem varð fyrsta stúka góðtemplara, var formlega stofnuð í Friðbjarnarhúsi á Akureyri.
1942 Ford bílaverksmiðjurnar hófu framleiðslu á jeppum, sem varð notaður fyrst sem farartæki í hernaði. Jeppinn náði fljótt miklum vinsældum og hefur síðan orðið eitt helsta farartæki samtímans.
1944 Laxfoss strandar í byl út af Örfirisey - mannbjörg varð. Endurbyggt en fórst síðar við Kjalarnes.
1957 Harold Macmillan fjármálaráðherra Bretlands, tekur við embætti sem forsætisráðherra Breta.
1994 Þyrla varnarliðsins bjargar 6 mönnum af Goðanum í Vöðlavík á Austfjörðum - einn maður fórst.

Snjallyrðið
Hvað er nú tungan? - Ætli engin
orðin tóm séu lífsins forði.
Hún er list, sem logar af hreysti,
lifandi sál í greyptu stáli,
andans form í mjúkum myndum,
minnissaga farinna daga,
flaumar lífs, í farveg komnir
fleygrar aldar, er striki halda.

Tungan geymir í tímans straumi
trú og vonir landsins sona,
dauðastunur og dýpstu raunir,
darraðarljóð frá elztu þjóðum.
Heiftareim og ástarbríma,
örlagahljóm og refsidóma,
land og stund í lifandi myndum
ljóði vígðum - geymir í sjóði.
Sr. Matthías Jochumsson prestur og skáld (1835-1920) (Íslensk tunga)

08 janúar 2006

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í fyrsta sunnudagspistli ársins 2006 fjalla ég um þrjú mál:

- í fyrsta lagi fjalla ég um áramótapistil minn sem birtist á gamlársdag á vef SUS og það sem í mínum huga stendur uppúr frá liðnu ári, ennfremur fjalla ég um áramótauppgjör forsætis- og utanríkisráðherra og fróðlegar umræður í Kryddsíld á fréttastöðinni NFS á gamlársdag. Mörgum að óvörum útnefndi fréttastofa NFS, Davíð Oddsson seðlabankastjóra, sem mann ársins 2005. Sérstaklega beini ég sjónum mínum í umfjölluninni að grein Geirs H. Haarde formanns Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu á gamlársdag. Þar beinir Geir helst sjónum sínum að þeim skattalækkunum sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur staðið fyrir á þessu kjörtímabili. Ýmsar breytingar urðu þar um áramótin, t.d. var eignarskattur afnuminn og tekjuskattur lækkaði.

- í öðru lagi fjalla ég um veikindi Ariels Sharons forsætisráðherra Ísraels, sem fékk alvarlegt heilablóðfall í vikunni. Það hefur sýnt sig seinustu daga að ísraelska þjóðin er þrumu lostin vegna veikindanna og óvissustaðan er mikil. Einkum er það auðvitað viðbúið sérstaklega vegna þess hversu stutt er til kosninga í landinu og raun ber vitni. Mikil óvissa hefur einkennt ísraelsk stjórnmál allt frá því að Sharon baðst lausnar í nóvember og boðað var til þingkosninga þann 28. mars. Jafnframt tilkynnti Sharon að hann hefði ákveðið að segja skilið við Likud-bandalagið og stofna nýjan flokk, Kadima. Nú horfir svo við að kosningabaráttan er að hefjast á fullum krafti. Við upphaf hennar liggur forsætisráðherra landsins og vinsælasti stjórnmálamaður landsins í dái á sjúkrahúsi.

- í þriðja lagi fjalla ég um stöðuna í breskum stjórnmálum en Charles Kennedy leiðtogi frjálslyndra, hefur sagt af sér eftir að boðuð hafði verið vantraustskosning gegn honum. Með þessu lauk tæplega sjö ára löngum leiðtogaferli Kennedys. Merkilegt er hvernig ferlinum lauk. Árið 2005 var enda sigursælasta ár flokksins í áttatíu ára sögu hans og hann náði sínum bestu kosningaúrslitum frá stofnun. Á meðan að frjálslyndir glíma við innri vandamál styrkist sífellt staða David Cameron og íhaldsmanna.


Spennumyndir eftir sögum
Agöthu Christie


Agatha Christie (1890-1976)

Til fjölda ára hef ég verið mikill unnandi spennusagna bresku skáldsagnakonunnar Agöthu Christie. Hún var drottning spennusagnanna á 20. öld - enginn var betri en Agatha í þessum geira. Hún kunni betur þá list en nokkur annar að segja flotta spennusögu sem hélt plottinu leyndu allt til loka. Á ég nokkrar af bókum hennar og ennfremur fjölda kvikmynda eftir sögum hennar. Lengi hef ég metið mest spennusögur hennar um leynilögreglumanninn Hercule Poirot. Að öðrum ólöstuðum var hann besta spennusagnahetjan hennar. Að kvöldi þorláksmessu bar svo við að Ríkissjónvarpið sýndi eina bestu myndina eftir sögum hennar, Evil under the Sun. Um kvöldið, er öllum jólaundirbúningi var lokið, settist ég því niður og horfði á þessa flottu mynd. Ótrúlegt en satt var það í fyrsta skiptið í um áratug sem ég sá myndina. Reyndar fyrsta skiptið sem ég sá hana einn. Mér fannst myndin ennþá betri í það skiptið en oft áður. Horfði ég á með miklum áhuga, þó að ég vissi auðvitað allt plottið frá upphafi til enda bakvið morðið á Arlenu Stuart, aðalpersónunni sem myrt er um miðbik myndarinnar. Myndin er sólrík og flott - allt smellur saman.

Það er enda oft svo að maður skynjar betur plottið með því að fara yfir atburðarásina vitandi niðurstöðuna. Þá sér maður enn betur smáatriðin sem máli skipta. Best er þó auðvitað að sjá myndina fyrsta sinni, vitandi ekki um neitt hver hinn seki er - þá getur maður spáð og spekúlerað í niðurstöðunni og reynt að vita hver hinn seki er. Þegar ég sá myndina fyrst árið 1989 þóttist ég viss nær alla atburðarásina hver hinn seki væri. Vitaskuld var það vitlaust mat og Agatha kom mér á óvart - ekki í fyrsta skiptið né hið síðasta. Hún var sannkallaður snillingur í fléttumyndun hinnar fullkomnu skáldsögu. Í Evil under the Sun leikur óskarsverðlaunaleikarinn Sir Peter Ustinov aðalsöguhetjuna. Hann varð ógleymanlegur kvikmyndaáhugafólki fyrir leik sinn á spæjaranum í fimm kvikmyndum á áttunda og níunda áratugnum. Hann hlaut óskarsverðlaun tvívegis á sjöunda áratugnum fyrir leik í aukahlutverki, í kvikmyndunum Spartacus og Topkaki. Lést hann í marsmánuði 2004. Oft átti hann stórleik á glæsilegum ferli, t.d. sem Poirot (enginn kom einkaspæjaranum betur til skila á hvíta tjaldinu en hann að mínu mati).

Um jólin hélt ég áfram að horfa á Poirot-myndir - þetta voru því sannkölluð spennujól og gaman að horfa á þessar myndir aftur. Sá t.d. Death on the Nile (aðra Poirot-mynd með Ustinov) og Murder on the Orient Express (þar sem Albert Finney leikur Poirot með snilldarbrag). Báðar eru í sérflokki. Þær eru alltaf viðeigandi - flottar og vel gerðar. Ég hvet alla unnendur góðra spennumynda um að horfa á þessar myndir - hafi þeir tækifæri til. Nú ef ekki er að fara út í næsta bókasafn og fá bækur Agöthu og kynna sér meistaraverk hennar. Oft er ekki síðra að lesa bækurnar og skapa söguhetjurnar í huga sér og kynna sér plottið betur áður en horft er á myndirnar.

Saga dagsins
1895 Framsókn, fyrsta kvennablaðið hérlendis, hefur göngu sína á Seyðisfirði. Kom út allt til 1903.
1928 Knattspyrnufélag Akureyrar, KA, stofnað á Akureyri - alla tíð stærsta íþróttafélagið á Akureyri.
1959 Charles De Gaulle hershöfðingi, tekur við forsetaembættinu í Frakklandi - var við völd til 1969.
1965 Sigríður Sigurðardóttir handknattleikskona, var kjörin íþróttamaður ársins, fyrst allra kvenna.
1996 Francois Mitterrand fyrrv. forseti Frakklands, lést úr krabbameini, 79 árs að aldri. Mitterrand gegndi embætti forseta landsins, lengur en nokkur annar, í rúm 14 ár, eða á tímabilinu 1981-1995.

Snjallyrðið
Þig, sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur
og fagrar vonir tengdir líf mitt við.
Minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,
er horfnum stundum, ljúfum dvel ég hjá.
Heyrirðu ei, hvern hjartað kallar á,
heyrirðu storminn kveðju mína ber?
Þú fagra minning eftir skildir eina
sem aldrei gleymi, meðan lífs ég er.
Valdimar Hólm Hallstað skáld (1905-1996) (Í fjarlægð)