Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 mars 2003

Glæsilegur sigur MA í söngkeppni FF
Um síðustu helgi var haldin hér á Akureyri, söngkeppni framhaldsskólanna. Anna Katrín Guðbrandsdóttir nemandi í Menntaskólanum á Akureyri, sigraði í keppninni. Hún söng Vísur Vatnsenda-Rósu, þjóðlagastefið sem Jón Ásgeirsson tónskáld gerði ódauðlegt, en hér var það í splunkunýrri útsetningu tveggja nemenda MA, Styrmis Haukssonar og Ólafs Hauks Árnasonar. Strengjasveit lék með Önnu Katrínu á sviði, Björk Óskarsdóttir, María Hrund Stefánsdóttir, Ragnheiður Korka Jónsdóttir og Tomasz Kolosowski. Í öðru sæti lenti Sigþór Árnason, nemandi í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, en hann hlaut jafnframt verðlaun fyrir bestu sviðsframkomuna, verðlaun sem veitt voru að lokinni SMS-kosningu áhorfenda. Í þriðja sæti var svo Elísabet Eyþórsdóttir úr Borgarholtsskóla. Dómnefndina skipuðu Birgitta Haukdal, Ólafur Páll Gunnarsson, Pálmi Gunnarsson og Gestur Einar Jónasson. Keppnin var í beinni útsendingu í Sjónvarpinu og á Rás 2 og var þetta mikil og góð skemmtun. Ég var fyrir sunnan um seinustu helgi og sá því ekki keppnina en horfði á hana á myndbandi í gær. Það var mjög ánægjulegt að heyra af sigri MA á heimavelli á sunnudeginum. Keppnin tókst mjög vel upp og var söngurinn bæði fjölbreyttur og hressilegur og var lagavalið gott hjá flytjendunum. Það var t.d. mat dómara að þetta væri ein allra fjörugasta og best heppnaða Söngkeppni FF frá upphafi. Um 2000 manns eru taldir hafa verið í Höllinni og skemmtu sér hið besta. Eins og áður hefur komið fram var umsjá þessarar miklu hátíðar og útsending hennar í höndum ungs fólks. Yfirstjórnin voru nemendur í og í tengslum við MA og starfsfólk nær eingöngu úr skólunum tveimur, MA og VMA. Starf þeirra er mikið og árangurinn glæsilegur vitnisburður um smekkvísi, listfengi, skipulag og stjórn og þeir eiga skilið heiður fyrir það.

27 mars 2003

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins
Um helgina, dagana 27. - 30. mars nk, verður haldinn í Laugardalshöll, 35. landsfundur Sjálfstæðisflokksins og ber hann yfirskriftina Áfram Ísland. Framundan eru skemmtilegir málefnafundir, kjördæmafundir, landsfundarhófið og allt þetta hefðbundna. Það er ljóst af dagskrá fundarins að nóg verður um að vera. Að sjálfsögðu held ég á landsfund og fer ég suður í dag með hádegisvélinni. Framundan er skemmtilegur landsfundur og verður gaman að hitta pólitíska samherja af öllu landinu í Höllinni. Á meðan ég verð fyrir sunnan verður þessi vefur ekki uppfærður. Mun fjalla ítarlega um landsfundinn hér eftir helgina.

26 mars 2003

Skattaálögudrottningin Ingibjörg Sólrún
Um daginn birtist á Vef-Þjóðviljanum, enn einn magnaði pistillinn. Þar er fjallað um skattaumræðu fyrrverandi borgarstjóra, sem hún virðist reyna að snúa í einhverja undarlega átt. Orðrétt segir pistlahöfundur svo frá: "Ef taka má mið af stjórnmálaferli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þá mun hún aldrei setja sig úr færi að hækka skatta. Látlausar skattahækkanir hafa dunið á borgarbúum frá því hún varð borgarstjóri. Og hér er ekki aðeins átt við að skatttekjur borgarinnar hafi hækkað vegna aukinna tekna borgarbúa heldur hafa skatthlutföll einnig verið hækkuð. Þrátt fyrir mjög auknar tekjur borgarinnar mun skuldasöfnun í borgarstjóratíð Ingibjargar einnig gera það að verkum að ekki verður hlaupið að því að vinda ofan af skattahækkununum í náinni framtíð. Skattgreiðendur framtíðarinnar í Reykjavík eiga eftir að greiða tugi milljarða króna í ógreiddum reikningum Ingibjargar Sólrúnar. Miklar hækkanir á útsvari borgarbúa, sem er hluti tekjuskattsins, hafa svo átt sinn þátt í því að halda jaðaráhrifum skattkerfisins meiri en ef Ingibjörg hefði ekki stolið skattlækkunum ríkisstjórnarinnar með því að hækka útsvarið jafnharðan. En nú hefur Ingibjörg lýst því yfir að rétt sé að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins. Að vísu geta kjósendur gengið að því sem vísu að jaðaráhrifin verði aukin ráði hún nokkru um því hún lofaði einnig að stöðva skuldasöfnun borgarinnar og hækka ekki skatta þegar hún sóttist eftir stuðningi til að stjórna Reykjavíkurborg. Og það virðist einmitt felast í tillögu hennar um fjölþrepa skattkerfi að jaðaráhrifin verði meiri.

Skattatillögur sem fáir skilja
Samfylkingin hafði fjölþrepa skattkerfi einnig á stefnuskrá sinni fyrir síðustu kosningar ásamt því að hækka skatta á sjávarútveginn, bensín og húsaleigu ásamt öðrum fjármagnstekjum. Aldrei fékkst þó upp úr frambjóðendum Samfylkingarinnar fyrir síðust kosningar hvernig ætti að útfæra þessa þrepaskiptingu tekjuskattsins. Þegar gengið var á þáverandi forsætisráðherraefni hennar fengust þau svör að um allt að sjö þrep yrði að ræða en ekki hvernig þau skiptust eða hversu há þau yrðu. Nú hefur þessi margþvælda óljósa tillaga sumsé verið dregin á flot að nýju. Ef marka má málflutning Ingibjargar fylgja ekki frekari útskýringar nú en fyrir fjórum árum. Þetta er bara svona til að „skoða af alvöru“. Hvernig má það vera að þessi tillaga um fjölþrepaskattkerfi sem var á stefnuskrá Samfylkingarinnar fyrir fjórum árum og stefnir í að vera það aftur fyrir kosningarnar nú hefur enn ekki verið útfærð eða útskýrð? Hve há verða þessi fjölmörgu skattþrep, ef leyfist að spyrja? Ef þau verða sjö verða þau þá 35%, 40%, 45%, 50%, 70%, 80% og 90%? Eða hvað? Ekki ætlar Samfylkingin að bjóða fram aftur án þess að skýra hvað felst í þessari hótun? Og svo eru það jaðaráhrifin. Að því gefnu að öll þrep Samfylkingarinnar verði ekki lægri en 38% þá munu mestu jaðaráhrif skattkerfisins aukast við þrepaskiptinguna. Hæsti skattur í dag af viðbótarkrónu sem menn vinna sér inn er tæp 42% þegar reiknað er með hátekjuskatti og skattfrelsi greiðslu í lífeyrissjóð. Ef Ingibjörg hefði ekki hækkað útsvarið hvað eftir annað væri þetta vel undir 40%. Ef Samfylkingin ætlar að hafa hæsta þrepið í fjölþrepaskatti sínum 70% auk hátekjuskatts verða jaðaráhrifin allt að 72%. Það mun þýða að af hverjum 1.000 krónum sem menn vinna sér inn til viðbótar munu 720 fara í skatt." Flottur pistill.

25 mars 2003

Góður fundur á Hótel KEA - opnun kosningaskrifstofu
Í gærkvöldi var á Hótel KEA, góður og fræðandi fundur um samgöngumál, undir yfirskriftinni Reykjavík - Akureyri 307 km. Þar fluttu þeir fóstbræður Halldór Blöndal forseti Alþingis, og Styrmir Gunnarsson ritstjóri Morgunblaðsins framsöguerindi um hugmyndir Halldórs um styttingu þjóðvegarins milli Reykjavíkur og Akureyrar. Þær hugmyndir kynnti hann ítarlega í góðri grein á Íslendingi, 10. febrúa 2002. Halldór færði í máli sínu fram helstu rök sín og studdi þau með ítarlegum útreikningum. Með styttingu vegarins taldi hann ýmsa möguleika opnast í ferðaþjónustu og leiða til lægri flutningskostnaðar sem myndi styrkja atvinnulíf á Norður- og Austurlandi. Styrmir taldi rök Halldórs haldlítil. Viðhorf Íslendinga hefðu breyst í tímans rás og ákveðinn hluti þjóðarinnar myndi ekki sætta sig við þá röskun sem fylgdi malbikuðum hálendisvegi. Æ fleiri landsmenn litu á sand og auðn hálendisins sem auðlind sem okkur bæri skylda til að vernda. Að loknum erindum spunnust fjörlegar umræður með þátttöku fundarmanna. Eftir að Halldór og Styrmir höfðu svarað fyrirspurnum fluttu þeir stutt lokaorð og mátti greina tilslakanir af beggja hálfu. Þeir ræddu málin á yfirvegaðan hátt og færðu báðir rök fyrir máli sínu og útkoman skemmtilegur fundur sem var fjölmennur. Kosningabarátta okkar sjálfstæðismanna fyrir komandi alþingiskosningar er að komast á fullt. 4. apríl nk. munu kosningaskrifstofur Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, opna á Akureyri og Egilsstöðum. Þá verða tæpir 40 dagar til kosninga og verður kosningabarátta seinustu vikurnar eflaust snörp hér.

Egilsstaðir miðpunktur í eflingu byggðakjarna á Austurlandi
Í viðamikilli skýrslu sem kynnt var á málþingi um byggðamál á Akureyri um síðustu helgi, kom fram að Egilsstaðir væru einn af þremur miðpunktum í eflingu byggðakjarna á landsbyggðinni. Auðveldara aðgengi að námi, lægri flutningskostnaður, bættar samgöngur og betri fjarskipti eru talin lykilatriði í eflingu byggðar. Lagt er til að Háskólanum á Akureyri verði gert kleift að koma upp útibúi á Egilsstöðum. Skýrslan ber heitið „Fólk og fyrirtæki“ og fjallar um búsetu og starfsskilyrði á landsbyggðinni en hún var unnin af Byggðarannsóknastofnun Íslands við Háskólann á Akureyri og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Í skýrslunni er lagt til að efldir verði þrír byggðakjarnar utan höfuðborgarsvæðisins: Vestfirðir, með Ísafjörð sem miðpunkt, Norðurland, með Akureyri sem miðpunkt, og Austurland, með Egilsstaði sem miðpunkt. Markmiðið sé að efla miðlæga byggðakjarna sem styrkt geti viðkomandi svæði í heild. Þannig ætti að miða fjárfestingar í innviðum við það að stækka áhrifasvæði ofangreindra byggðakjarna, svo jaðarbyggðir geti sótt þangað ýmsa sérhæfða framleiðsluþætti og þjónustu með auðveldum hætti. Tillögur í skýrslunni til eflingar byggðakjarnanna lúta að fjórum þáttum: Að auðvelda aðgengi að námi, draga úr flutningskostnaði, bæta samgöngur og bæta fjarskipti. Jafnframt er fjallað um marga fleiri þætti, svo sem þátttöku opinberra aðila í nýsköpunarstarfsemi og niðurfellingu námslána þeirra sem búsettir eru á landsbygðinni.

Efling menntunar á landsbyggðinni er talin þýðingarmikill þáttur. Nýir skólar sem séu settir á stofn á landsbyggðinni auki líkurnar á að unga kynslóðin fari í framhaldsnám og staldri lengur við í heimabyggð. Aukinn mannauður á landsbyggðinni verði einnig til þess að auka stærðarhagkvæmni fyrirtækja, sem eigi auðveldara með að ráða hæft fólk til starfa. Í skýrslunni er lagt til að Háskólanum á Akureyri verði gert kleift að koma upp öflugum útibúum á Egilsstöðum og Ísafirði þar sem hægt væri að taka a.m.k. fyrstu árin í fjölmennustu greinum háskólanáms, svo sem viðskiptafræði, lögfræði, heilbrigðisgreinum og kennaramenntun. Við lækkun flutningskostnaðar eru nefndar gegnsæjar niðurgreiðslur sem hefðu skýran kostnað í för með sér. Spurt er hvort leiðbeinandi reglur um viðskipti birgja og smásöluverslana sem Samkeppnisstofnun mótaði í lok ársins 2002 geti ekki einnig átt við um flutningastarfsemi. Við forgangsröðun framkvæmda í samgöngukerfinu er lagt til að litið sé sérstaklega til þess að hafa áhrif á stærð atvinnu- og þjónustusvæða. Með því að stækka atvinnu- og þjónustusvæði sé í raun verið að breyta atvinnu- og þjónustustigi þeirra byggðarlaga sem í hlut eiga. Hvað varðar fjarskipti er í skýrslunni talað um að stefnt skuli að aukinni fjartengingu byggðakjarnanna og lækkun kostnaðar. Æskilegt sé að ríkisstofnanir komi sér upp vefþjónustu þannig að einstaklingar og fyrirtæki þurfi síður að leita til höfuðborgarsvæðisins til þess að sinna erindum við þessar stofnanir.

24 mars 2003

Óskarinn 2003 - farið yfir úrslitin
Í nótt voru Óskarsverðlaunin 2003 afhent í Los Angeles í 75. skipti. Eins og venjulega var athyglisvert og ekki síður skemmtilegt að fylgjast með herlegheitunum. Kvikmyndin Chicago var valin besta kvikmynd ársins 2002 og hlaut alls sex óskarsverðlaun. Eftirminnilegustu úrslit kvöldsins var hiklaust þegar hinn umdeildi Roman Polanski hlaut leikstjóraóskarinn fyrir The Pianist og svo vakti óneitanlega athygli að þau fjögur sem unnu leikaraóskarana fyrir magnaðar leikframmistöður sínar höfðu aldrei áður fengið verðlaunin. Ég ætla nú að fara yfir helstu flokkana og tjá mig örlítið um úrslitin.

Kvikmynd ársins
Það þótti mörgum borðliggjandi að Chicago myndi hljóta þann heiður að vera valin besta mynd síðasta árs og fór það svo. Hún keppti í þessum flokki við fjórar frábærar myndir; The Pianist, Gangs of New York, The Hours og The Lord of the Rings: The Two Towers. Þetta er í fyrsta skipti í 35 ár sem söngleikur hlýtur þessi verðlaun, síðasti söngleikur til að hljóta Óskarinn sem besta myndin var Oliver árið 1968, þetta eru því að mörgu leyti athyglisverð úrslit og aldrei að vita nema tími söngleikjanna sé að renna upp á ný. Það vekur athygli að Hringadróttinssögu er hafnað enn á ný, en óumdeilt er að þetta sé eitt magnaðasta kvikmyndaverk í sögu kvikmyndanna. Það er óskandi að akademían muni á næsta ári veita seinasta hluta trílógíunnar þessi verðlaun til að bæta upp fyrir þetta.

Leikstjóri
Óvæntustu úrslit kvöldsins voru hiklaust í þessum flokk. Óumdeilt er að The Pianist, kvikmynd leikstjórans Romans Polanski sé ein af allra bestu myndum ársins. Margir höfðu þó talið að leikstjórinn myndi ekki hljóta náð fyrir augum akademíunnar vegna mála sem ekki verða rakin hér en eru flestum kunn. Flestir höfðu veðjað á að Martin Scorsese eða Rob Marshall myndu hljóta Óskarinn í þessum flokki. Flestum að óvörum sigraði Roman Polanski í þessari kategóríu. Það er ánægjulegt að akademían lét ekki hin umdeildu mál tengd leikstjóranum hafa áhrif á sig við valið á sigurvegaranum. Polanski var heiðraður fyrir meistaraverk sitt og glæsilegan feril, en hann á að baki frábærar myndir á borð við Chinatown, Rosemary´s Baby, Tess, Frantic og Bitter Moon. Sigur hans var verðskuldaður, enda The Pianist sannkölluð úrvalsmynd. Það er gott að vita að farið sé eftir verkum leikstjóranna og gæðum þeirra. Margir höfðu veðjað eins og fyrr segir á Scorsese og Marshall. Scorsese vegna þess að hann hefur ekki hlotið verðlaunin fyrr, þrátt fyrir að hafa verið tilnefndur t.d. fyrir Raging Bull og Goodfellas. Marshall vegna þess að hann hlaut DGA-verðlaunin, en nú sannast að það er ekki algild regla að handhafi þeirra verðlauna hljóti leikstjóraóskarinn. En sigur Polanski er verðskuldaður, alveg hiklaust.

Leikari í aðalhlutverki
Adrien Brody hlaut Óskarinn í þessum flokk fyrir magnaða túlkun sína á Wladyslaw Szpilman í The Pianist. Margir höfðu veðjað á að valið stæði á milli Daniel Day-Lewis og Jack Nicholson sem fóru á kostum í sínum myndum og annar þeirra myndi hljóta Óskarinn, svo fór ekki. Brody uppskar ríkulega. Sigur hans var verðskuldaður, enda heldur hann uppi þessari frábæru mynd. Það verður athyglisvert að fylgjast með leikferli hans á næstu árum, þessi þrítugi New York-búi er hiklaust ein af stjörnum framtíðarinnar.

Leikkona í aðalhlutverki
Nicole Kidman stóð lengi í skugga fyrrum eiginmanns síns, Tom Cruise. Nú er hann í skugganum á henni. Seinustu tvö ár hefur hún farið á kostum í hverri stórmyndinni á fætur annarri. Nægir þar að nefna The Others, Moulin Rouge og Birthday Girl. Hlutverk Virginiu Woolf í The Hours er besta hlutverk Nicole á ferli hennar og hún hlaut verðskuldað Óskarinn fyrir leik sinn. Margir höfðu talið að í þessum flokk myndi valið standa á milli hennar og Renée Zellweger. Báðar voru góðar í sínum myndum. Sigur Kidman var verðskuldaður og er hún nú endanlega komin í hóp bestu leikkvennanna í Hollywood nútímans.

Leikari í aukahlutverki
Í þessari kategóríu voru fimm frábærir leikarar tilnefndir og var varla hægt að gera upp á milli þeirra. Persónulega fannst mér þrír þeirra standa uppúr; Paul Newman, Chris Cooper og Christopher Walken. Chris Cooper vann Óskarinn verðskuldað fyrir magnaða túlkun sína á John Laroche í Adaptation. Mikla athygli vakti þegar hann var ekki einu sinni tilnefndur fyrir frábæran leik sinn í American Beauty fyrir þrem árum. Nú var hans stund komin. Stórkostlegur leikari sem á þetta svo sannarlega skilið.

Leikkona í aukahlutverki
Catherine Zeta-Jones mætti á óskarsverðlaunahátíðina kasólétt og fór á kostum, t.d. þegar hún flutti ásamt Queen Latifah lagið I Move On úr Chicago. Í þessum flokk voru rétt eins og öllum hinum leikarakategóríunum fólk sem allt verðskuldaði að vinna. Fyrirfram var vitað að Zeta-Jones og Meryl Streep þættu líklegastar til að hljóta verðlaunin. Catharine var stórfengleg sem skassið Velma Kelly í Chicago og hlaut fyrir leik sinn t.d. BAFTA- og SAG-verðlaunin. Mest kom mér á óvart hversu vel hún syngur og dansar í myndinni. Sigur hennar þótti mér mjög verðskuldaður. Frábær leikkona.

Þetta var skemmtileg Óskarsverðlaunahátíð, og var margt af skemmtilegu efni í útsendingunni. Að mínu mati var hápunkturinn þegar óskarsverðlaunaleikkonan Olivia De Havilland kynnti 59 óskarsverðlaunaleikara seinustu 75 ára til sögunnar og var gaman að fylgjast með akademíunni heiðra þessa leikara sem markað hafa spor í kvikmyndasöguna. Peter O´Toole fór á kostum er hann tók við heiðursóskarnum, ræðan hans var ein sú allra besta í nótt, boðskapurinn í henni var góður og hann vann sennilega sinn mesta leiksigur þegar hann tók við þessari viðurkenningu. Það var löngu orðið tímabært að hann myndi fá óskarsstyttu en alltof oft hefur hann verið sniðgenginn. Það er ótrúlegt að þessi frábæri leikari hafi ekki hlotið leikaraóskar, þrátt fyrir að hafa átt stórleik í myndum eins og t.d. Lawrence of Arabia, The Ruling Class, Becket, Lion in Winter, Goodbye Mr. Chips, The Stunt Man og My Favorite Year. Einnig var mjög ánægjulegt að sjá Eminem hljóta óskarinn fyrir magnað lag sitt úr 8 Mile. Steve Martin fór algerlega á kostum sem kynnir kvöldsins, en þetta var annað skiptið sem hann er kynnir, fyrra skiptið var 2001. Hann mun án vafa vera í þessu hlutverki oftar. En eftir stendur að ekkert er öruggt þegar þessi verðlaun eru annars vegar og það geta alltaf óvæntustu hlutir gerst, það fór ekki allt eins og spáð var og hátíðin var meira spennandi nú en oft áður og á margan hátt jafnari en oft áður. Þessi hátíð er alltaf jafn skemmileg, þetta er uppskeruhátíð kvikmyndaheimsins og hún er ómissandi. Fastur punktur í tilverunni ár hvert!

23 mars 2003

Óskarinn afhentur í nótt
Í nótt verða Óskarsverðlaunin afhent í Kodak Theatre í Los Angeles. Framundan er spennandi Óskarsverðlaunahátíð og gaman að sjá hvernig þetta fer allt saman. Hátíðin verður á lágstemmdum nótum að þessu sinni og glamúrinn lítill vegna stríðsátakanna fyrir botni Persaflóa. Aðeins hefur gerst þrisvar að verðlaunin séu færð til (1938, 1968 og 1981) og aldrei hefur þeim verið aflýst. Ákveðið hefur verið að afhenda verðlaunin á tilsettum tíma þrátt fyrir allt. Í flokki bestu kvikmynda keppa Chicago, The Pianist, The Hours, The Lord of the Rings: The Two Towers og Gangs of New York um hnossið. Allar eru þessar kvikmyndir góðar og verðskulda tilnefninguna. Chicago er mögnuð dans- og söngvamynd og virkilega vel leikin. Gangs of New York er vönduð og í heildina ágætis mynd. The Hours er magnað meistaraverk sem hittir beint í mark. LOTR: The Two Towers er snilldarlega færð í glæsilegan kvikmyndabúning af Peter Jackson og útkoman jafnast á við það allra besta í kvikmyndagerð samtímans. The Pianist er mögnuð úttekt á hernámi Póllands í seinni heimsstyrjöldinni og virkilega vel leikin. Slagurinn um bestu myndina mun sennilega vera á milli Chicago og The Hours, annars gæti The Pianist átt séns. Ég spái því að Chicago vinni verðlaunin. Um leikstjóraverðlaunin keppa Martin Scorsese, Rob Marshall, Stephen Daldry, Roman Polanski og Pedro Almodovar. Hér er slagurinn á milli Martin Scorsese, Rob Marshall og Stephen Daldry. Roman Polanski er sennilega of umdeildur til að eiga séns að mínu mati og Pedro Almodovar mun ekki hljóta verðlaunin. Ég tel tíma til kominn að meistari Martin Scorsese hljóti leikstjóraverðlaunin, enda á hann að baki magnaðan feril og hefur ekki hlotið verðlaunin þrátt fyrir að vera tilnefndur t.d. fyrir Raging Bull og Goodfellas. Annars gætu Rob Marshall og Stephen Daldry báðir átt góðan séns ef myndir þeirra sópa að sér verðlaunum. Vona að Scorsese fái Óskarinn.

Spennandi barátta um leikaraóskarana
Óhætt er að segja að spennandi barátta verði um hverjir hljóti leikaraóskarana. Í flokknum leikari í aðalhlutverki keppa Jack Nicholson, Daniel Day-Lewis, Adrien Brody, Nicolas Cage og Sir Michael Caine. Allir (nema Brody) hafa unnið Óskarinn. Nicolas Cage árið 1995 fyrir Leaving Las Vegas. Michael Caine árið 1986 fyrir Hannah and her Sisters og 1999 fyrir The Cider House Rules. Daniel Day-Lewis hlaut þau 1989 fyrir My Left Foot. Nicholson hefur þrisvar hlotið Óskar (þetta er tólfta tilnefning hans); 1975 fyrir One Flew Over The Cuckoo´s Nest, 1983 fyrir Terms of Endearment og 1997 fyrir As Good As It Gets. Hér er slagurinn líklegast á milli þeirra Day-Lewis og Jack Nicholson. Ég er nú ansi mikill aðdáandi Nicholson og hef alla tíð verið og vona að hann fái núna sinn fjórða óskar, aðeins Katharine Hepburn hefur hlotið svo marga. Það gæti verið að Akademían vilji verðlauna Day-Lewis sem var frábær í sinni rullu. Erfitt val, ég styð Jack. Í flokkinum leikkona í aðalhlutverki eru fimm magnaðar leikkonur að keppa um hnossið; Renée Zellweger, Nicole Kidman, Julianne Moore, Salma Hayek og Diane Lane. Engin þeirra hefur áður hlotið Óskar. Þetta verður barátta milli þeirra Kidman og Zellweger og er erfitt um að spá hvor muni vinna. Fer svolítið eftir því hvor myndin muni sópa að sér verðlaunum.

Í flokknum leikari í aukahlutverki eru fimm risar að keppa um gyllta kallinn; Paul Newman, Chris Cooper, Christopher Walken, Ed Harris og John C. Reilly. Erfitt er að gera upp á milli þessara fimm leikara sem allir eiga stórleik í sínum myndum. Newman er hér að hljóta sína tíundu tilnefningu og hlaut Óskarinn 1986 fyrir The Color of Money. Hann brillerar í sinni mynd. Walken hlaut Óskarinn 1978 fyrir Deer Hunter. Ekki er mögulegt að spá hver muni vinna verðlaunin, ég tel að slagurinn muni verða milli Newman, Cooper (sem er magnaður í Adaptation) og Walken. Finnst við hæfi að Newman hljóti verðlaunin og vona að hann fái þau, þó allt eins líklegt sé að einhver annar vinni. Þetta er galopin kategóría. Í flokkinum leikkona í aukahlutverki keppa þær stöllur Meryl Streep, Catherine Zeta-Jones, Julianne Moore, Kathy Bates og Queen Latifah. Allar fara á kostum í sínum myndum. Meryl Streep hlýtur þarna þrettándu tilnefningu sína (enginn hlotið fleiri) og vann verðlaunin 1979 fyrir Kramer vs. Kramer og 1982 fyrir Sophie´s Choice. Kathy Bates hlaut Óskarinn 1990 fyrir magnaðan leik sinn í Misery. Ég tel að slagurinn sé á milli Meryl Streep, Julianne Moore og Catherine Zeta-Jones. Ómögulegt að segja hvað Akademían geri í þessu. Líklegt að Zeta-Jones fái mörg atkvæði, hún er komin rúma átta mánuði á leið og hefur mikið fyrir því að mæta á staðinn og á mikið fylgi í kvikmyndaheiminum. Annars er skemmst að minnast þess þegar Annette Bening "American Beauty" mætti kasólétt á Óskarinn 2000 og tapaði (mörgum að óvörum) fyrir Hilary Swank. Kannski á Julianne Moore séns, aldrei að vita. Ég vona að Meryl Streep fái verðlaunin. Annars er þetta galopin flokkur. Spennandi kvöld er framundan.

22 mars 2003

Lækkun skatta er staðreynd
Athyglisvert hefur verið að fylgjast með umræðu um skattamál seinustu vikurnar. Þar hefur Samfylkingin hamrað á því að núverandi ríkisstjórnarflokkar séu flokkar skattahækkana og hafa með undarlegum hætti reynt að auglýsa sig sem flokka skattalækkana. Það sem eftir stendur er þó sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki hækkað skatta á þessu kjörtímabili, eins og Samfylkingin með stuðningi fréttamanna Stöðvar 2 hafa haldið fram. Þeir sem reyna að koma því að í umræðunni að skattar hafi verið hækkaðir geta þó ekki bent á neinn skatt sem hefur hækkað, enda ljóst að í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins hafi skattar þvert á móti lækkað. Pólitískir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins reyna eftir fremsta megni að slá ryki í augu fólks með ósannindum. Staðreyndir málsins eru þær að eignaskattur hefur verið lækkaður um helming og sérstakur eignaskattur verið lagður af. Fríeignamörk hafa verið hækkuð nokkuð. Sjálfstæðisflokkurinn stefnir að því að afnema eignaskatta algjörlega á næsta kjörtímabili ef hann verður við stýrið á þjóðarskútunni áfram. Á kjörtímabilinu hefur hátekjuskattur verið lækkaður úr 7% niður í 5% og viðmiðunarmörkin verið hækkuð nokkuð. Reyndar er hátekjuskattur rangnefni hið mesta á þessum skatt, enda lendir miðtekjufólk innan marka hans. Frá alþingiskosningunum 1999 hefur skattfrádráttur vegna viðbótarlífeyrissparnaðar aukist um helming, sem leiðir til langtímasparnaðar og á verulegan þátt í því að draga úr bæði verðbólgu og viðskiptahalla, sem um leið hefur dregið úr þenslu í efnahagslífinu. Húsaleigubætur hafa verið gerðar skattfrjálsar. Tekjuskattur verið lækkaður um 4%. En athyglisvert er að tekjuskatturinn var 32,8% þegar vinstri stjórn fór frá vorið 1991, en er nú tólf árum síðar 28,8%. Matarskatturinn var lækkaður úr 24,5% í 14% fyrir tæpum áratug og afnám tolla á grænmeti hafa skilað sér vel til neytenda. Þessar ráðstafanir hafa komið öllum verulega til góða. Það er margsannað að skattbyrði er hérlendis með því lægsta sem gerist meðal aðildarríkja OECD. Komið hefur fram að skattbyrði fjölskyldu með tvö börn, þar sem annar makinn er heimavinnandi, er –3,2%, sem þýðir svo aftur á móti að fjölskyldan fær meira greitt til baka frá samfélaginu, en hún greiðir til þess með sköttum. Til samanburðar er skattbyrði sambærilegrar fjölskyldu í Danmörku 30,5%. Það er því ekki hægt að skilja málflutning stjórnarandstöðunnar um að skattar hafi hækkað hérlendis í valdatíð Sjálfstæðisflokksins og Davíðs Oddssonar. Það sem er þó athyglisverðast af öllu því sem átt hefur sér stað frá 1991 er sú staðreynd að kaupmáttur launa hefur hækkað um þriðjung frá árinu 1994 og verðbólga með því lægsta sem almennt gerist meðal vestrænna þjóða. Það er því öllum ljóst sem líta á málin og staðreyndirnar að almenningur hérlendis hefur notið ríkulega afraksturs af traustri efnahagsstjórnun hérlendis. Framundan eru meiri skattalækkanir ef réttir aðilar sitja að völdum næstu árin.

Skýrt val í kosningunum í vor
En hverjir eru réttir aðilar mætti sjálfsagt spyrja sig. Að sjálfsögðu er það Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur verið kjölfestan í stjórn landsins seinasta áratuginn. Sjálfstæðisflokkurinn er og hefur alla tíð verið flokkur skattalækkana. Ekki eru vinstri flokkarnir þekktir fyrir að lækka skatta, svo mikið er alveg víst. Það hefur verið stíll vinstri stjórna að þær endast ekki út heilt kjörtímabil, engin þeirra hefur setið fjögur ár samfleytt. Samnefnari þeirra hefur verið þrenn lykilatriði; há verðbólga, háir skattar og stórauknar skuldir ríkisins. Frá 1988-1991, á valdatíma síðustu vinstri stjórnar rýrnaði kaupmáttur launa landsmanna um rúm 10%. Fyrrverandi borgarstjóri er orðinn talsmaður Samfylkingarinnar og reynir nú með nýrri ímyndarhönnun að flýja misheppnaða valdasetu sína í Ráðhúsinu. Það sem einkenndi valdaferil hennar sem stóð í rúm átta ár voru skattahækkanir og veruleg aukning skulda. Þrátt fyrir fögur fyrirheit í upphafi um lækkun skulda borgarbúa er reyndin sú að skuldirnar hækkuðu um 1100% í valdatíð hennar. Reykvíkingar skulda mest allra í samanburði við nágrannasveitarfélögin. R-listinn hækkaði fasteignaskatta og útsvarsprósentu borgarinnar verulega. Öllu var þessu stjórnað af fyrrverandi borgarstjóra sem nú reynir að koma fram á sviðið sem fulltrúi nýrra tíma og leiðtogaefni þeirra gömlu flokka sem áður fyrr voru táknmynd glundroða í efnahagslífinu. Hún ætlar að reyna að flýja fortíð sína og komast til valda í landsmálunum með nýja glansmynd að leiðarljósi svo allir gleymi fyrri verkum hennar sem forystumanneskju í borgarstjórn. Það þýðir þó ekki, enda hefur hún sannað sitt innra eðli með setu sinni í valdastóli í borginni. 10. maí 2003 hafa landsmenn skýrt val. Þar stendur baráttan á milli svikinna loforða, hærri skulda og verðbólgu að hætti vinstri manna og eða hagsældar og betri lífskjara á þeirri braut sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur markað. Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem treystir mest fólkinu í landinu fyrir að taka eigin ákvarðanir; hann er táknmynd frelsis og þess að fólk móti eigin framtíð og hafi sitt svigrúm. Hann er flokkur skattalækkana. Staðreyndirnar segja allt sem segja þarf. Sjálfstæðisflokkurinn er rétti kosturinn, nú sem ávallt áður.

21 mars 2003

Landsfundur í næstu viku
Í næstu viku, dagana 27. - 30. mars nk, verður haldinn í Laugardalshöll, 35. landsfundur Sjálfstæðisflokksins. Nú liggur formlega fyrir dagskrá fundarins. Að sjálfsögðu verður haldið á landsfund og fer ég suður á fimmtudag með hádegisvélinni. Framundan er skemmtilegur landsfundur og verður gaman að hitta pólitíska samherja af öllu landinu í Höllinni.

Ógnarstjórn Saddams að líða undir lok
Ógnarstjórn Saddams Hussein sem setið hefur að völdum frá árinu 1979, eða í 24 ár, er nú að líða undir lok. Það blasir við öllum að einræðisherra Íraks mun ekki halda velli mikið lengur eftir atburði seinustu daga. Hans valdaferli lýkur senn. Honum voru gefnir 48 klukkustundir til að forða þjóð sinni frá átökum og víkja af valdastóli. Hann hafnaði því og tekur nú afleiðingunum. Ein mikilvægasta spurning alþjóðlegra öryggismála var lengi vel hvort nauðsynlegt væri að grípa til hernaðaraðgerða gegn Írak. Eftir 12 ára svikin loforð hlaut að koma að þessu. Hann hefði auðveldlega getað forðast þetta með því að vinna með og heimila vopnaeftirlit frekar en að verða sprengdur úr embætti. Það gekk ekki lengur að Saddam myndi drepa málum á dreif eða hafa alþjóðasamfélagið að fífli með öðrum hætti. Hann hefði með því að heimila vopnaeftirlitsmönnum að starfa fullkomlega óhindrað getað haldið völdum. Það var að lokum undir honum sjálfum komið hvort nauðsynlegt væri að ráðast á hann til þess að afvopna hann. Saddam Hussein er einhver mesti óþokki sem í dag situr á valdastóli. Árið 1989 lét hann drepa 8000 Kúrda með "endurbættri" útgáfu af hinu sögufræga Zyklon-B gasi. Umfangsmiklar pyntingar hafa verið stundaðar á fólki "með rangar skoðanir" í landinu. Á ríkisstjórnarfundi hefur hann tekið upp á því að draga upp byssu og skjóta einn ráðherranna banaskoti til þess að leggja áherslu á mál sitt! Dæmi eru um að þeim sem hefur tekist að flýja landið hafi síðar frétt af og fengið í hendur myndbandsupptökur af limlestingum og nauðgunum á konum þeirra og dætrum. Skilaboðin að sjálfsögðu þau að komist einhver undan sé hann um leið að dæma fjölskyldu sína til þjáninga og dauða. Þetta eru aðeins nokkur dæmi um voðaverk Saddams, svo ekki sé minnst á tvær innrásir í nágrannaríkin, Íran og Kuwait. Vísindamenn sem sloppið hafa undan ógnarstjórninni hafa vitnað um ákafan ásetning Saddams Hussein um að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Hann hefur notað hagnað af olíusölu, sem honum er skylt að nota í lyf og mat handa sveltandi fólkinu, til að reisa hallir og fjármagna ólögmætar hernaðaráætlanir sínar. Svona mætti auðvitað lengi áfram telja. Saddam Hussein hefur haft alþjóðasáttmála að engu og svikið gefin loforð. Það gleymdist oft í umræðunni um árás Bandaríkjanna á Írak, að Persaflóastríðinu lauk ekki með friðarsamningi, heldur vopnahléi. Við vopnahléið gekkst Saddam undir skilmála sem hann hefur undantekningalítið svikið. Það var ljóst orðið að hann hefði aldrei farið sjálfviljugur frá völdum og litlar líkur á að almenningur í Írak hefði getað steypt herstjórn hans af stóli. En nú er þessi ógnarstjórn loksins að líða undir lok. Heimildir: Frelsisgrein félaga míns, Hafsteins Þórs Haukssonar varaformanns SUS - des. 2002

Skrifað undir samninga vegna Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands
Í vikunni undirrituðu Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra og Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri, samning um uppbyggingu Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á Akureyri. Athöfnin fór fram í flugstöðinni á Akureyrarvelli en með því var lögð áhersla á gildi Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands fyrir alla þá sem eru á faraldsfæti og vilja njóta þess besta sem höfuðborg hins bjarta norðurs hefur upp á að bjóða. Bæjarstjóri lýsti mikilli ánægju með saminginn, þakkaði öllum þeim sem komu að undirbúningsvinnu og ítrekaði að samningurinn hefði mjög mikla þýðingu fyrir ferðamennsku á Norðurlandi öllu. Ráðherra og bæjarstjóri undirrituðu samninginn í stólum úr Fjarkanum, nýju stólalyftunni í Hlíðarfjalli. Gildistími samningsins er til ársloka 2008 og er tilgangur hans að styðja við uppbyggingu mannvirkja á vegum Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands í því skyni að efla iðkun vetraríþrótta fyrir almenning og íþróttafólk. Menntamálaráðuneytið og Akureyrarbær standa sameiginlega straum af uppbyggingunni og nemur framlag ríkissjóðs 180 milljónum króna sem greiðist á næstu sex árum. Meðal verkefna sem ráðist verður í á næstu árum er uppsetning nýrrar lyftu í Strýtu og nýrrar togbrautar í Hjallabraut sem og nýrrar barnalyftu. Þá verður flóðlýsing aukin, aðbúnaður fyrir vetraríþróttir fatlaðra bættur, svo og aðstaða fyrir brettafólk og vélsleðamenn. Einnig verður aðstaða til vetraríþrótta í Kjarnaskógi bætt og tækjakostur í skautahöllinni aukinn. Þetta er mjög ánægjulegt skref sem stigið er með undirritun samninganna og styrkir stöðu bæjarins sem fremsti vetraríþróttabær landsins.

20 mars 2003

Frelsun Íraks hafin - upphaf endaloka Saddams
Frestur Saddams Hussein forseta Íraks, sem forseti Bandaríkjanna veitti honum til að yfirgefa landið, rann út kl. 01:00 í nótt að íslenskum tíma. Rúmum tveim tímum síðar, eða kl. 03:15 að íslenskum tíma, flutti George W. Bush Bandaríkjaforseti, sjónvarpsávarp frá forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu, til þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar. Þar tilkynnti hann að herför Bandaríkjanna og bandamanna gegn einræðisstjórn Saddam Hussein væri hafin. Bush forseti, sagði að hann hefði fyrirskipað árásir á valin skotmörk í upphafi sem hefðu það að markmiði að draga úr hernaðarmætti íraska hersins. Hann sagði að 35 ríki styddu afvopnun Íraks og lagði áherslu á mikilvægi þeirra í baráttunni fyrir afvopnun landsins. Forsetinn sagði að bandarísk stjórnvöld hefðu engan áhuga á ítökum í Írak að stríði loknu, markmiðið væri að steypa stjórn landsins af stóli. Hann sagðist bera virðingu fyrir menningu írösku þjóðarinnar og trú hennar og sagði að allt yrði gert til þess að koma í veg fyrir mannfall í röðum óbreyttra borgara. Bush sagði að Saddam myndi nota óbreytta borgara sem mannlega skildi til að verja hersveitir sínar. „Saddam Hussein hefur staðsett hermenn og hergögn í íbúðahverfum og reynir með því að brúka óbreytta menn, konur og börn sem skildi fyrir hersveitir sínar, en það er síðasta grimmdarverk hans gegn þjóð sinni. Í þessu stríði standa Bandaríkin frammi fyrir óvini sem virðir í engu fyrir sáttmálum um framferði í stríði eða siðferðisreglum,” sagði forsetinn. Ávarpið varði í rúmar fjórar mínútur. „Þetta er upphafið af víðtækri og samræmdri baráttu," sagði forsetinn um fyrstu aðgerðir stríðsins á hendur Saddam. Hann sagði að stríðið við hinar erfiðu aðstæður sem ríktu í Írak gæti orðið langvinnara og torsóttara en margir héldu. Markmiðið væri að losa írösku þjóðina undan oki harðstjórnar og endurreisa landið með sameiningu írösku þjóðarinnar í stöðugu og frjálsu ríki en vegna þessa lyki skuldbindingum Bandaríkjanna gagnvart Írökum ekki á þeirri stundu er hernaðarsigur ynnist. "Nú þegar hernaður er hafinn er eina ráðið að beita afgerandi afli. Og ég fullvissa ykkur að þetta verður ekki stríð neinnar hálfvelgju og við sættum okkur við ekki neitt nema sigur. Hætturnar sem steðja að okkur og heimsbyggðinni allri verða yfirstignar. Við munum komast í gegnum þessa hættutíma og halda friðarstarfinu áfram. Við munum verja frelsi okkar. Og færa öðrum frelsi. Við munum ná yfirhöndinni." sagði forsetinn ennfremur.

Árásir á Írak harðna - ráðist gegn Saddam á landi, í lofti og á sjó
Í kvöld hörðnuðu átökin til muna. Í upphafi átakanna í nótt var aðeins skotið að völdum skotmörkum, mjög fáum. Um kvöldmatarleytið að íslenskum tíma hófust mun harkalegri aðgerðir gegn ógnarstjórn Saddams. Í kvöld flutti Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, ávarp til bresku þjóðarinnar. Hann tilkynnti að breskir hermenn tækju nú virkan þátt í hernaðaraðgerðum í Írak með bandamönnum sínum. Forsætisráðherrann sagði að takmark bresku hersveitanna væri að koma Saddam frá völdum og gera upptæk gjöreyðingarvopn hans. Skv. mbl.is var ávarp hans tekið upp á myndband um miðjan dag eða áður en Blair hélt til leiðtogafundar Evrópusambandsins (ESB) í Brussel. Hann sagðist gera sér grein fyrir því að breska þjóðin væri klofin í afstöu sinni til herfararinnar, en kvaðst vona að þjóðin sameinaðist í bæn til bresku hersveitanna á Persaflóasvæðinu. Blair sagði að heimsbyggðinni stafaði ný hætta af lögleysu og ringulreið af hálfu harðstjórnarríkja á borð við Írak sem réðu yfir gjöreyðingarvopnum, eða hryðjuverkahópum. „Báðir aðilar hata lífnaðarhætti okkar, frelsi okkar og lýðræði," sagði Blair. Og bætti við að hann óttaðist það innst inni að öfl af þessu tagi myndu taka höndum saman og kalla hörmungar yfir bæði Bretland og alla heimsbyggðina ef ekkert væri að gert. Forsætisráðherrann sagði að sér væri ekki bara umhugað um Írak. „Við Bush Bandaríkjaforseti höfum skuldbundið okkur til að vinna að friði í Miðausturlöndum er grundvallast á öryggi Ísraelsríkis og lífvænlegu ríki Palestínumanna. Við munum leggja allt í sölurnar til að koma því í kring en slík áskorun krefst raðar og reglu og stöðugleika um heimsbyggðina. Einræðisherrar á borð við Saddam, hryðjuverkahópar eins og al-Qaeda ógna slíku ástandi. Þess vegna hef ég beðið hersveitir okkar að hefja hernað í kvöld. Hersveitir bandamanna virðast hafa hrundið fyrstu stórsókn landherja inn í Írak af stað fyrir nokkrum klukkustundum og bandarískar og breskar orrustu- og sprengjuflugvélar eru nú í árásarleiðangri inn yfir Írak frá flugmóðurskipum og landherstöðvum. Landher hóf stórsókn inn í Írak frá Kuwait um klukkan 17 að íslenskum tíma að undangengnum loftárásum á stöðvar Írakshers í suðurhluta landsins. Að sögn blaðamanna með hersveitunum var himininn ljósbjartur af sprengjublossum er flugskeyti skullu hvað eftir annað á íröskum skotmörkum. Um 10.000 manna herlið á brynvögnum, þar á meðal skriðdrekum, sótti inn yfir írösku landamærin frá Kuwait. Ítarlega er fjallað um stríðið á fréttavefjum CNN, BBC og mbl.is.

19 mars 2003

Umfjöllun um stjórnarmyndanir
Nú þegar rúmir 50 dagar eru til kosninga, er kosningabaráttan að komast á fullt. Að loknum kosningum verður að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Í gær birtist pistill minn um stjórnarmyndanir á frelsi.is. Það er forseti Íslands sem ákveður hverjum skuli falið stjórnarmyndunarumboð og hefur hann oft haft áhrif á gang mála. Núverandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur setið að völdum í tæp átta ár, frá 23. apríl 1995. Allan þann tíma hafa formenn flokkanna setið í stjórninni; Davíð Oddsson sem forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson sem utanríkisráðherra. Af öðrum ráðherrum í stjórninni 1995 er einungis Páll Pétursson eftir. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa oft setið saman í stjórn, en aldrei jafnlengi samfleytt og nú, átta ár að loknu þessu kjörtímabili. Núverandi ríkisstjórn er fimmta tveggjaflokkastjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks frá 1932 en að auki hafa flokkarnir átt saman aðild að ríkisstjórnum með þátttöku fleiri flokka. Það hefur ekki alltaf ráðið úrslitum hver vinnur kosningarnar en það hefur mikið að segja og hefur oft skipt sköpum. Einnig hefur mikið að segja hvort stjórnin heldur þingmeirihluta eða ekki, eða hvort vilji er fyrir áframhaldandi samstarfi ef meirihluti héldi, þetta getur ráðist af mörgum forsendum. Það eru margar og ólíkar forsendur sem ráða hvernig úr spilunum spilast - það verður athyglisvert að sjá hvernig þetta verður eftir komandi kosningar. Ljóst er að kosningabaráttan verður spennandi - ekki verður síður athyglisvert að fylgjast með stjórnarmyndun að kosningunum loknum. Verður áframhald á núverandi stjórnarsamstarfi? Er ný viðreisn í uppsiglingu? Eða jafnvel stjórn þeirra flokka sem setið hafa í stjórandstöðu? Ómögulegt er um að spá. Framundan er athyglisverð kosningabarátta fyrir alla þá sem áhuga hafa á stjórnmálum.

Þróun Netsins í almennri stjórnmálabaráttu
Í ítarlegum pistli á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins á Akureyri á mánudag fjalla ég um þróun Netsins í almennri stjórnmálabaráttu á seinustu árum. Á árum áður var kosningabaráttan háð með blaðaskrifum og útgáfu blaða tengdum flokkunum til að koma boðskap þeirra sem best á framfæri. Flokksmálgögnin á dagblaðamarkaðnum voru mikilvægur þáttur í þeirri baráttu. Eftir því sem árin hafa liðið hefur tími flokksblaðanna runnið sitt skeið og baráttan því háð á öðrum forsendum en oft áður. Nú skiptir Netið miklu máli við öflun og miðlun upplýsinga í kosningabaráttu. Er mikilvægt að stjórnmálamenn og frambjóðendur komi boðskap sínum og stefnu framboða sinna á framfæri á sem kraftmestan hátt til skila til kjósenda sinna í gegnum skrif, einkum á Netinu og í blaðagreinum, sérstaklega í Morgunblaðinu. Í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar var Internetið aðeins varafjarskiptaleið Bandaríkjahers og veraldarvefurinn var ekki kominn til sögunnar enn. Síðan hefur netvæðingin verið mjög ör og setur æ ríkari svip á samskipti manna. Við Íslendingar erum eins og flestum ætti að vera kunnugt í fremstu röð í þessum málum, en um 80% landsmanna á aldrinum 16-75 ára hafa nú aðgang að Netinu. Er því ljóst að mikilvægt er fyrir stjórnmálamenn að ná til þessa fólks í gegnum þennan gríðaröfluga miðil nútímans. Í dag keppast flokkarnir um að koma upplýsingum til skila á markvissan hátt og margir stjórnmálamenn hafa ákveðið að koma sér upp vefsíðu til að vera í góðu sambandi við kjósendur og koma skoðunum sínum þar á framfæri. Brautryðjandi í þessum efnum var Björn Bjarnason alþingismaður og fyrrv. menntamálaráðherra. Hann opnaði vefsíðu sína fyrir átta árum, í febrúar 1995 og hefur síðan skrifað vikulega pistla um stjórnmál og það sem hæst ber í þjóðfélaginu, birtir þar einnig allar blaðagreinar sínar og ræður og uppfærir þar reglulega dagbók sína. Er enginn vafi á því að hann er sá maður sem einna best hefur notfært sér þennan miðil og kynnt skoðanir sínar. Þar er hægt að fylgjast með verkum og skrifum Björns allan ráðherraferil hans 1995-2002 og seinasta árið sem leiðtoga borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Í kjölfar hans hafa margir stjórnmálamenn ákveðið að nota sér þennan miðil til að vera í góðum tengslum við umbjóðendur sína.

Gagnvirkar upplýsingar - Íslendingur er mikilvægur fyrir okkur
Netvæðingin hefur auðveldað stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum og stjórnvöldum almennt, að miðla upplýsingum til kjósenda. Slík miðlun upplýsinga skiptir mjög miklu í kosningabaráttu. Það er alveg ljóst að greið og gagnvirk samskipti eru lykilatriði í stjórnmálastarfi. Nýja upplýsingatæknin er betri en nokkur annar vettvangur til upplýsingamiðlunar að því leyti, að hún er gagnvirk. Hún gefur stjórnmálamönnum nýtt og einstakt tækifæri til að skiptast á skoðunum við kjósendur. Netið hefur gjörbreytt allri miðlun opinberra upplýsinga. Vefsíður Stjórnarráðsins, Alþingis, Hæstaréttar og sveitarfélaganna eru til mikillar fyrirmyndar. Einkum er ljóst að heimasíða Akureyrarbæjar nýtur mikillar hylli, en enginn þéttbýliskjarni á landinu getur státað af jafn vinsælli heimasíðu og Akureyrarbær, samkvæmt mælingum á heimsóknir á vefsíður. Í apríl 2001 var heimasíða Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri, islendingur.is, opnuð og hefur hún verið öflugur miðill okkar sjálfstæðismanna í bænum og þjónað flokksmönnum í öllu Norðausturkjördæmi og mun verða mikilvægur þáttur í baráttu okkar næstu vikurnar. Það er enginn vafi á því að islendingur.is er ein öflugasta vefsíða sjálfstæðismanna á landinu og þar eru nýjustu fréttinar úr flokksstarfinu, pistlar og greinar flokksmanna og allt sem máli skiptir fyrir okkur sem styðjum flokkinn. Sé Netið notað með markvissum og reglubundnum hætti, er hægt að skapa fjölmiðil sem vegur ekki síður þungt en hinir hefðbundnu miðlar. Íslenskir stjórnmálamenn og frambjóðendur á komandi árum eiga nýja og öfluga leið til að efla samband við umbjóðendur sína. Netið hefur opnað mörg spennandi tækifæri til samskipta á milli fólks og þau geta skipt sköpum í harðri baráttu þar sem mikilvægt er að hrífa fólk með sér og setja fram stefnu sína og skoðanir á markvissan og öflugan hátt.

18 mars 2003

48 klukkustundir til stefnu - Bush setur Saddam úrslitakosti
Í nótt, kl. 01:00 að íslenskum tíma, flutti George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarp til bandarísku þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar alla. Þar gaf hann Saddam Hussein Íraksforseta og sonum hans Qusay og Uday 48 klukkustunda (tveggja sólarhringa) frest til að koma sér úr landi. Ella sagði Bush forseti að ráðist yrði inn í Írak til að koma einræðisstjórn hans frá völdum. „Meðan bandalag okkar ryður þeim frá völdum munum við færa ykkur nauðsynleg matvæli og lyf. Við munum brjóta niður verkfæri ógnarstjórnarinnar og hjálpa ykkur til að endurreisa Írak, nýtt, velmegandi og frjálst. Harðstjórinn verður brátt horfinn - dagur frelsunar ykkar er skammt undan," sagði forsetinn í ávarpinu, sem stóð í tæpt kortér. Bush sagði að glíman við Saddam væri ekki togstreyta við friðsamlegan mann. Njósnagögn sýndu fram á að hann léti halda áfram framleiðslu og birgðasöfnun hættulegustu vopna sem völ væri á. Alþjóðaöryggi yrði ekki borgið fyrr en Saddam hefði verið afvopnaður. Því verki yrði ekki lokið á einni nóttu en aðgerðarleysi væri mun hættulegra en að láta til skarar skríða. Þá lægi fyrir að hann aðstoðaði, þjálfaði og skyti skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn, þar á meðal liðsmenn al-Queda. Því hefði hann ýtt undir hryðjuverkaógnina sem friðelskandi þjóðum stafaði ógn af. Þá hættu þyrfti að uppræta. Tími pólitískra tilrauna til að finna friðsamlega lausn á deilunum við Saddam væri nú liðinn. Bush beindi orðum sínum til írösku þjóðarinnar og sagði að kæmi til herfarar yrði hún gegn herstjórn Saddams en ekki gegn írösku þjóðinni. Hann lagði áherslu á að Bandaríkin og aðrar þjóðir hefðu árangurslaust reynt frá lokum Persaflóastríðins eftir pólitískum leiðum að tryggja að Írakar réðu ekki yfir gereyðingarvopnum. Þessar tilraunir hefðu hvað eftir annað misheppnast. Ræðu Bandaríkjaforseta var einnig varpað út á arabísku í útvarpsstöðvum en hann hvatti m.a. heraflann til að sinna ekki kalli Saddams og grípa ekki til vopna í þágu deyjandi valdaklíku. Það væri ekki þess virði að fórna lífi sínu í þágu hennar. Sömuleiðis hvatti hann hermenn til að vinna ekki skemmdarverk á olíuvinnslusvæðum né beita eiturefna- og sýklavopnum. Hann sagði að stríðsglæpamenn yrðu sóttir til saka og þá dygði þeim ekki að bera því við að hafa einungis verið að framfylgja skipunum. Bush gaf ekki til kynna hvenær látið yrði til skarar skríða gegn Írökum, sagði Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra myndu velja þá tímasetningu. Forseti Íraks hefur nú hafnað þessu boði forseta Bandaríkjanna og því ljóst að líkur á stríði aukast. Klukkan tifar - það styttist í að heimurinn losni við einræðisherrann fyrir botni Persaflóans.

Vef-Þjóðviljinn hittir naglann á höfuðið - eins og svo oft áður
Eins og svo áður er gaman að fylgjast með pistlunum á Vef-Þjóðviljanum. Í dag hitta þeir beint í mark: "Svo skemmtilega vildi til í gærkvöldi að fréttamenn Ríkissjónvarpsins voru einmitt staddir á framboðsfundi Ingibjargar Pandóru Gísladóttur í Kópavogi í gærkvöldi, þegar umræddur frambjóðandi í 5. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður tilkynnti að hún skoraði hér með á formann Sjálfstæðisflokksins í kappræður um skattamál. Ríkissjónvarpið sagði vitaskuld þegar frá þessari miklu áskorun, strax í fréttatíma klukkan tíu um kvöldið, enda talsverður atburður á ferð. Og því er ekki að neita, það færi að vissu leyti vel á því að efnt yrði til skattaumræðna þessara tveggja ólíku stjórnmálamanna. Þar myndu nefnilega mætast andstæðir pólar skattamálanna. Reyndar er sennilegt að Ingibjörg Gróa telji forsætisráðherra helsta andstæðing sinn í skattamálum, því milli þeirra hefur staðið harðvítugt einvígi undanfarin ár. Þegar forsætisráðherra og ríkisstjórnin hafa beitt sér fyrir skattalækkun þá hafa Ingibjörg Pandóra Gísladóttir og R-listinn hlaupið til og aukið álögur á borgarbúa sem því nemur. Forsætisráðherra og ríkisstjórnin stóðu fyrir lækkun tekjuskatts á almenna borgara. Um leið hækkaðu Ingibjörg Gróa og R-listinn útsvarið, og það þannig að borgararnir fengu aldrei skattalækkanirnar sem ríkisstjórnin hafði ætlað þeim og verkalýðshreyfingin miðað samninga sína við. Ríkisstjórnin lækkaði skatta á atvinnufyrirtækin í landinu verulega. Ingibjörg Pandóra og R-listinn lögðu þá á þau ný og kostnaðarsöm gjöld. Þegar fyrirtækin hafa meira aflögu til uppbyggingar, fjárfestingar og launagreiðslna vegna lækkandi skatta til ríkisins, þá koma Ingibjörg Pandóra, Helgi Hjörvar og þau og leggja sorphirðugjöld, heilbrigðisgjöld og sennilega töðugjöld næst. Meira að segja þeir borgarar sem leyfa sér þann lúxus að hafa svo kallað salerni í húsum sínum - en með því má hiklaust mæla - þeir eru skattlagðir sérstaklega eftir að Ingibjörg Pandóra tók við völdum í Reykjavík. Og á sama tíma og allt þetta hefur gerst hefur ríkið greitt niður skuldir sínar en Reykjavíkurborg aukið sínar gríðarlega. En svo öllu sé samt til skila haldið þá er skylt að taka fram að borgaryfirvöld hafa ákveðið að snúa til baka af eyðslubrautinni og hafa í því skyni lækkað framlag sitt til Mæðrastyrksnefndar um 250 þúsund krónur. Sem að vísu er 750 þúsund króna hækkun eins og Þórálfur Árnason hefur réttilega bent á".

Kapphlaupið mikla spennandi
Seinustu vikurnar hefur verið gaman að setjast fyrir framan kassann að loknum önnum þriðjudagsins og horfa á Kapphlaupið mikla. Þar keppast tveggja manna lið um að vinna fúlgur fjár í ferðalagi um heiminn. Það lið vinnur sem fyrst kemst til Seattle, þar sem keppninni lýkur. Í upphafi voru liðin 12 að tölu en eftir þátt kvöldsins eru 3 eftir. Það verður spennandi að sjá hverjir vinni Kapphlaupið mikla. Ian og Teri, Flo og Zach eða þeir Ken og Gerard. Fylgist spenntur með.

16 mars 2003

Stund sannleikans runnin upp
Þeir George W. Bush forseti Bandaríkjanna, Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, og José María Aznar forsætisráðherra Spánar gáfu í dag Sameinuðu þjóðunum sólarhringsfrest til að ákveða hvort þær vilji styðja hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna gegn Saddam Hussein forseta Íraks. „Við komumst að þeirri niðurstöðu að á morgun renni stund sannleikans upp," sagði Bush eftir rúmlega klukkutíma langan fund þjóðarleiðtoganna þriggja á Azor-eyjum í dag. „Á morgun ákveðum við hvor samningaumleitanir muni skila árangri eða ekki," sagði Bush og vísaði þar til fundar sem haldinn verður í öryggisráði á morgun. Bætti hann við, að annaðhvort afvopnist Írakar eða þeir verði afvopnaðir. „Við vonum að öryggisráðið muni standa sig á morgun," sagði forsetinn. „Saddam Hussein er ógn við nágranna sína, hann styður við hryðjuverkastarfsemi, hann er Þrándur í Götu friðar í Miðausturlöndum". Sagði BushSaddam verði afvopnaður með valdi ef hann afhendir ekki gereyðingarvopn sem hann hafi undir höndum. Vísaði Bush í ályktun öryggisráðs númer 1441, sem vísar til alvarlegra afleiðinga ef Saddam afvopnast ekki. „Þessi ályktun var samþykkt samhljóða og merking hennar er skýr. Írösk stjórnvöld verða að afvopnast en ella verða þau afvopnuð með valdi," sagði Bush. Hann sagðist myndu leita eftir því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykki nýja ályktun um Írak ef nauðsynlegt þyki að beita valdi til að afvopna Íraka. Tony Blair sagði að alþjóðasamfélagið verði að setja Írökum skýra úrslitakosti þar sem heimilað sé að beita hervaldi ef Írakar afhenda ekki gereyðingarvopn sín. „Við hvetjum til þess í síðasta sinn, að alþjóðasamfélagið setji Saddam skýra úrslitakosti þar sem heimilað verði að beita valdi ef hann heldur áfram að sniðganga kröfur sem gerðar eru," sagði Blair. Jafnframt sagði hann: „Ég held að það það sé mikilvægt að jafnvel nú, á síðustu stigum, að reynt verði að leysa málið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þessvegna verðum við að ákveða nú hvort við meinum það sem við segjum eða hvort við ætlum að láta atburðarásina dragast áfram" sagði Blair og vísaði til ályktunar öryggisráðsins nr. 1441. Ljóst er að nú verður sverft til stáls og líkur á stríði við Persaflóa aldrei meiri en einmitt nú. Líkur á að stríð hefjist í vikunni eru mjög miklar.

15 mars 2003

Sjálfstæðisflokkur bætir við sig - Samfylking dalar verulega
Í dag birtist ný skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar. Skv. henni fengi Sjálfstæðisflokkurinn 39,5% atkvæða og 25 þingmenn kjörna, ef gengið yrði til kosninga nú, en Samfylking 34% fylgi og 22 þingmenn. Fylgi Framsóknarflokksins mælist 11,7%, sem er tveimur prósentustigum minna en fylgi flokksins reyndist vera í síðustu könnun sem Félagsvísindastofnun gerði í febrúar og er óljóst hvort flokkurinn fengi kjördæmakjörinn mann í Reykjavík. Miðað við könnunina fengi Framsóknarflokkurinn sjö þingmenn. VG fengi 9,4% fylgi og sex þingmenn. Stóru tíðindin eru þau að þetta er fyrsta skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar sem sýnir Frjálslynda flokkinn með 5% fylgi og myndi hann því hljóta þrjá þingmenn þar sem hann ætti þarmeð rétt á uppbótarþingsæti. Félagsvísindastofnun vekur athygli á að útreikningum á skiptingu þingsæta beri að taka með fyrirvara. Í febrúarkönnuninni mældist Sjálfstæðisflokkur með 35,8% fylgi og hefur fylgið því aukist um 3,7 prósentustig. Fylgi Samfylkingar dalar aftur á móti um rúm 6 prósentustig, fer úr 40,1% í 34%. VG og Frjálslyndir bæta við sig frá síðustu könnun, VG mælist nú með 9,4% en í febrúar var flokkurinn með rúm 7%, Frjálslyndir eru nú með 5% fylgi en höfðu 3% í febrúar. Staða Sjálfstæðisflokksins er sterkust í Suðvesturkjördæmi þar sem 45,3% segjast ætla að kjósa flokkinn, fylgið er 40,5% í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og tæp 35% á landsbyggðinni. Könnunin var unnin dagana 9.-14. mars. Stuðst var við 1.200 manna slembiúrtak úr þjóðskrá sem náði til allra landsmanna á aldrinum 18 til 80 ára. Nettósvörun var 68%.

14 mars 2003

Málstofa Varðar - Ungt fólk og atvinnulífið
Á morgun, kl. 14:00 mun Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri halda aðra málstofu sína af þrem sem fyrirhugaðar eru nú í aðdraganda alþingiskosninganna, 10. maí nk. Er yfirskrift hennar Ungt fólk og atvinnulífið. Í upphafi málstofunnar mun Hólmar Svansson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, fjalla um atvinnumál og nýsköpun í atvinnumálum. Að því loknu mun Sigríður Margrét Ólafsdóttir deildarstjóri hjá Mannafli á Akureyri, fjalla um stöðu atvinnumála í firðinum. Að lokum mun Bergur Guðmundsson framkvæmdastjóri Dalmar á Dalvík og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, við komandi kosningar fjalla um stöðu atvinnumála og t.d. sína reynslu af því. Að loknum ræðum frummælenda verða umræður um málin. Þetta er mjög athyglisvert umfjöllunarefni og augljóst að ræðurnar og umræðurnar verða fræðandi. Hvet ég alla Akureyringa til að líta á málstofurnar og taka þátt í þessu með okkur sem sitjum í stjórn Varðar.

12 mars 2003

Zoran Djindjic myrtur í Belgrad
Í dag lést Zoran Djindjic forsætisráðherra Serbíu, á sjúkrahúsi í Belgrad eftir banatilræði sem átti sér stað fyrir framan stjórnarráðsbyggingu í hádeginu. Djindjic var skotinn með tveimur stórum riffilkúlum af nokkru færi. Tveir menn voru handteknir í kjölfar skotárásarinnar og annar þeirra særðist í átökum. Í kvöld sendi serbneska ríkisstjórnin frá sér yfirlýsingu þar sem segir að Milorad Lukovic, fyrrum yfirmaður í serbnesku öryggislögreglunni, hafi verið einn af um 20 leiðtogum hóps sem skipulagði morðið á forsætisráðherranum. Hafi hópurinn það að markmiði að stöðva baráttu serbneskra stjórnvalda gegn skipulagðri glæpastarfsemi og reyna að valda ringulreið og ótta í Serbíu með því að myrða Djindjic. "Undir yfirskyni föðurlandsástar reyndu þeir að fá stuðning ákveðinna stjórnmálaafla", sagði í yfirlýsingunni án þess að nöfn þeirra stjórnmálaafla væru nefnd. En ýmsir stjórnmálahópar, hliðhollir Slobodan Milosevic fyrrv. forseta Júgóslavíu, eru enn starfandi í Serbíu, þótt um þrjú ár séu nú liðin frá því hann hrökklaðist frá völdum. Lukovic fór fyrir sérsveit lögreglu sem neitaði að hlýða skipun Milosevic í október árið 2000 um að brjóta aðgerðir stjórnarandstæðinga á bak aftur. En eftir að Milosevic var framseldur til stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna í Haag árið 2001 samkvæmt skipun Djindjics lýstu Lukovic og fleiri félagar í öryggissveitum lögreglu andstöðu við þá ákvörðun. Fjölmiðlar í Belgrad hafa oft bendlað Lukovic við ýmis myrkraverk en hann hefur aldrei verið ákærður. Í yfirlýsingu stjórnvalda segir að Lukuvic gengist svonefndum Zemun-hópi, sem heitir eftir úthverfi í Belgrad. Í þessum hópi séu um 200 manns sem hafi samtals fengið yfir 300 ákærur fyrir glæpi. Hópurinn sé talinn hafa staðið fyrir fleiri tilræðum gegn Djindjic og einnig gegn stjórnmálamanninum Vuk Draskovic og tengist yfir 50 morðum í Belgrad á síðustu árum auk mannrána. Grunur lék á því í febrúar að Djindjic, hefði verið sýnt banatilræði þegar flutningabíll beygði skyndilega í veg fyrir bílalest forsætisráðherrans í Belgrad. Naumlega tókst að afstýra árekstri og Djindjic gerði lítið úr málinu síðar og sagði að ekkert myndi stöðva lýðræðisumbætur í landinu. Taldi hann líklegt að málið tengdist tilraunum stjórnvalda til að uppræta skipulagða glæpastarfsemi sem þreifst vel undir stjórn Milosevic fyrrv. forseta. Ökumaður flutningabílsins var handtekinn en honum var síðar sleppt.

Merkur stjórnmálaleiðtogi fellur í valinn
Morðið á serbneska forsætisráðherranum er verulegt áfall fyrir lýðræðisumbætur í Serbíu. Með morðinu á Zoran Djindjic fellur í valinn merkur stjórnmálaleiðtogi sem markaði spor í heimssöguna. Hann er fyrsti þjóðarleiðtogi Evrópu sem fellur fyrir morðingjahendi á 21. öldinni, ekki hefur slíkt gerst síðan Olof Palme fyrrv. forsætisráðherra Svíþjóðar, var myrtur 28. febrúar 1986. Djindjic fæddist í Bosníu, 1. ágúst 1952. Hann var fyrrverandi borgarstjóri Belgrad og í forystusveit stjórnarandstæðinga undir lok valdatíma Milosevic og studdi Vojislav Kostunica í forsetakosningunum í Júgóslavíu árið 2000 sem leiddu til þess að Milosevic hrökklaðist frá völdum. Þá Djindjic og Kostunica greindi þó mjög á um hvernig best skyldi haldið á málum Serbíu og Júgóslavíu og olli ágreiningur þeirra því að umbætur í efnahags- og félagsmálum hafa gengið hægt. Kostunica sagði af sér sem forseti Júgóslavíu fyrr í þessum mánuði eftir að nýtt ríki, Serbía og Svartfjallaland, var stofnað á grunni Sambandslýðveldisins Júgóslavíu. Margir í Júgóslavíu höfðu horn í síðu Djindjic en hann var ákafur talsmaður umbóta og samstarfs við Vesturlönd. Hann leit svo á að Serbía verði að taka upp náin tengsl við vestræn ríki og vildi sýna stríðsglæpadómstóli Sameinuðu þjóðanna samvinnu. Hann beitti sér m.a. fyrir því að Milosevic var handtekinn og síðan framseldur til Haag þar sem hann er nú fyrir rétti ákærður um glæpi gegn mannkyninu. Margir urðu til að gagnrýna Djindjic fyrir þetta, þar á meðal Kostunica. Djindjic var menntaður í Þýskalandi og þótti hafa til að bera aga, stjórnunarstíl og sýn sem gæti fært Serbíu inn í raðir evrópskra lýðræðisríkja. Þjóðernisdeilur, sem kommúnistastjórnin hélt niðri, leiddu til þess að gamla Júgóslavía liðaðist í sundur en serbnesk stjórnvöld hafa sagt að skipulögð glæpastarfsemi sé nú mesta ógnin við stöðugleika og lýðræðisþróun í landinu. Við fráfall hans skapast mikið tómarúm í serbneskum stjórnmálum sem gæti leitt til gríðarlegra hörmunga og óeirða í landinu.

11 mars 2003

Dylgjur og hálfkveðnar vísur vinstrimanna
Í dag eru 60 dagar til alþingiskosninga. Má ljóst vera að það stefnir í einhverja beittustu kosningabaráttu hérlendis í mörg ár eða áratugi. Baráttan harðnar með degi hverjum. Eins og flestir vita hóf fyrrverandi borgarstjóri, kosningabaráttu sína sem leiðtogaefni jafnaðarmanna með því að gefa t.d. í skyn, að forsætisráðherra sigaði lögreglu og skattayfirvöldum að ósekju á nokkur fyrirtæki og misbeitti valdi sínu. Þetta voru í senn ótrúlegar og ómerkilegar árásir sem greinilega voru settar fram til að starta einhverri atburðarás og beina umræðunni í vissan farveg. Ræða fyrrverandi borgarstjóra er gott dæmi um almennt froðusnakk, tal um hitt og þetta, sett fram til að beina umræðunni frá málefnum kosningabaráttunnar og taka upp óábyrgt hjal, nokkurskonar dylgjur og rógburður til þess eins að sverta Sjálfstæðisflokkinn og leiðtoga hans. Það er nú svo merkilegt að málefnaleg staða Samfylkingarinnar virðist vera mjög veik nú þegar kosningabaráttan er að fara af stað af fullum krafti. Skotmark Samfylkingarinnar eru ekki málefni baráttunnar, heldur persóna Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Davíð hefur löngum verið vinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar og greinilegt að þjóðin hefur treyst honum best fyrir að stýra landinu undanfarinn áratug, hann hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í þrjú skipti, bæði í þingkosningum og í borgarstjórnarkosningum. Hann er sá stjórnmálamaður íslensku þjóðarinnar sem lengst hefur setið á stóli forsætisráðherra og nýtur trausts þjóðarinnar. Verk hans og ríkisstjórna hans blasa við öllum, hann er sá stjórnmálamaður sem ötulast hefur unnið í að færa valdið frá ríkinu og hann hefur ríka réttlætiskennd og trausta dómgreind. Öllum brögðum á nú greinilega að beita til að grafa undan trúverðugleika hans og öllum meðölum beitt í því skyni, beitt blaði sem sérstaklega virðist gefið út til að breiða út áróður gegn Sjálfstæðisflokknum og upphefja sérstaklega fyrrverandi borgarstjóra og aðra þá, sem þeim er sérstaklega annt um að nái undirtökunum í íslenskum stjórnmálum. Það er því von að spurt sé á þessum tímapunkti; ætlar leiðtogaefni Samfylkingarinnar að kynda kosningavél sína með svona hræðsluáróðri alla kosningabaráttuna? Á ekki að taka neinn þátt í málefnalegri pólitískri umræðu eða hefur hún engan hug á að kynna áherslur sínar eða stefnu? Fjalla ítarlega um vinnubrögð Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni og ómálefnaleika leiðtogaefnis þeirra í pistli í dag á heimasíðu Heimdallar.

Fundur Varðbergs og SVS um varnir landsins
Í dag var haldinn í salnum Skála á Hótel Sögu, sameiginlegur fundur, Varðbergs og Samtaka um vestræna samvinnu (SVS) um varnir Íslands á 21. öldinni. Framsögumenn voru: Björn Bjarnason alþingismaður og borgarfulltrúi, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, og Þórunn Sveinbjarnardóttir alþingismaður. Eftir framsöguerindi þeirra voru pallborðsumræður. Í ræðu sinni fjallaði Björn á ítarlegan hátt um það hvernig best sé að tryggja varnir Íslands á 21. öld? Sagði hann að á tuttugustu öld hefði orðið mesta breyting á högum íslensku þjóðarinnar, frá því að saga hennar hefði hafist. Tvær heimsstyrjaldir hafi bylt stöðu þjóða og ríkja. Íslendingar hefðu hætt að geta treyst á fjarlægð frá öðrum þjóðum sem besta úrræðið til að tryggja öryggi sittgagnvart þeim. Við fullveldið hafi stjórn landsins orðið að móta sér stefnu í utanríkismálum, þótt framkvæmd hennar væri áfram í höndum Dana. Við hernám Danmerkur vorið 1940 hefði gæsla þessara hagsmuna flust inn í landið við hernám Breta 10. apríl 1940. Sumarið 1941 hefði verið samið milli ríkisstjórna Íslands, Bretlands og Bandaríkjanna um, að bandarískur her tæki við vörnum Íslands af Bretum og hefði það verið fyrsta skref Bandaríkjamanna inn í síðari heimsstyrjöldina. Með samningnum hefði Ísland jafnframt færst af valdasvæði Breta inn á valdasvæði Bandaríkjamanna. Björn sagði jafnframt að með stofnaðild að Atlantshafsbandalaginu árið 1949 og varnarsamningi við Bandaríkin árið 1951, hefði öryggi íslensku þjóðarinnar verið endanlega tryggt. Stefnan sem mótuð hefði verið með þessum ákvörðunum hefði staðist, þrátt fyrir átök innan lands og áreiti utan frá í þá fjóra áratugi, sem liðu, þar til öryggiskerfið tók á sig gjörbreytta mynd með hruni Sovétríkjanna. Ennfremur sagði hann að Íslendingum leyfðist ekki frekar en öðrum að hafa að engu viðvaranir um nýjar hættur, sem steðjuðu að öryggi þjóða. Það væri mikilvægt að bregðast við þeim til að gæta eigin hagsmuna og einnig með því að líta til þess, sem bandamenn okkar í Evrópu og Norður-Ameríku væru að gera. Eftir árásirnar á New York og Washington 11. september 2001 hefði Bandaríkjastjórn tekið upp gjörbreytta stefnu til varnar Bandaríkjunum. Á núverandi fjárlagaári myndu Bandaríkjamenn verja 40 milljörðum dollara til að efla það, sem þeir kalla "homeland security" eða öryggi íbúa og stjórnvalda í Bandaríkjunum sjálfum. Evrópuþjóðir hefðu ekki til samræmdra aðgerða með sama hætti gegn hættunni af árásum hryðjuverkamanna. Líklegt væri, að þær sigldu í kjölfar Bandaríkjamanna, því að öflugri bandarískar heimavarnir gegn hryðjuverkamönnum kynnu að auka áhuga þeirra á að láta illt af sér leiða í Evrópu, ef viðbúnaður þar væri minni. Björn sagði að Íslendingum væri tamt að hugsa um þessi ógnarverk sem fjarlægt vandamál annarra. Engu að síður myndum við koma að stefnumótandi ákvörðunum um viðbrögð við hættunni af þeim bæði á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og einnig í samstarfi við Evrópusambandsríkin meðal annars vegna aðildar að Schengen-samstarfinu.

Hvernig tryggjum við varnir Íslands á 21. öld?
Í kjölfar þessa velti Björn fram spurningunni: Hvernig tryggjum við varnir Íslands á 21. öld?. Hún byggðist á þeirri forsendu, að við gætum ekki verið varnarlaus. Hann sagði að við gætum ekki horfið aftur til tímans, þegar treyst var á fjarlægðina. Við lifðum ekki lengur á tímum, þegar menn virtust sæmilega sáttir við, að Bretaveldi væri í raun og veru eina stórveldið, sem hugsanlega kynni að taka landið. Orðrétt sagði Björn í kjölfarið: Spurningunni: Hvernig tryggjum við varnir Íslands? svara ég á þennan hátt í sjö liðum: 1. Með varnarsamstarfi við Bandaríkin. Með því eru tryggð tengsl milli gæslu íslenskra öryggishagsmuna og öflugasta ríkis við Norður-Atlantshaf. 2. Varnarsamningurinn við Bandaríkin frá 1951 hefur ekki gildi nema með rökum sé sýnt fram á, að gerðar séu ráðstafanir til að sinna skyldum í samræmi við efni hans. Það verður ekki gert nema unnt sé að fylgjast með skipaferðum við Ísland, halda uppi vörnum í lofthelgi Íslands, hafa tiltækar áætlanir um varnir landsins og æfa framkvæmd þeirra. Einnig þarf að sýna með áætlunum og viðbúnaði, hvernig unnt er að tryggja öryggi þeirra, sem lenda í lífsháska á Íslandi eða í nágrenni við landið. 3. Gera á nýtt hættumat til að tryggja, að almannavarnir séu í samræmi við vel skilgreindar kröfur. Grunnurinn að almannavörnum ríkisins var lagður í upphafi sjöunda áratugarins, þegar hræðslan við kjarnorkuárás var mikil. Nú eru aðrir tímar og nauðsynlegt að meta með skipulegum hætti þörf á viðbrögðum. Þetta verður aðeins gert að frumkvæði íslenskra stjórnvalda og með hliðsjón af þróun alþjóðamála, eins og til dæmis aðgerðum á vettvangi NATO. 4. Hlutverk, skipulag og tækjakost Landhelgisgæslunnar á að endurnýja á grundvelli nýs mats á verkefnum hennar við gjörbreyttar aðstæður. 5. Tryggja ber, að lögreglan geti lagað sig að nýjum aðstæðum með virkri þátttöku í auknu alþjóðlegu samstarfi. 6. Meta þarf hættur, sem Íslandi, þar með stjórnkerfi og mannvirkjum, kann að stafa af hermdar- og hryðjuverkastarfsemi, skipulagðri glæpastarfsemi og útbreiðslu gereyðingarvopna. Mikilvægt er, að stjórnvöld hafi sem mesta burði til að fylgjast með og bregðast við starfsemi öfgahópa og geri nauðsynlegar ráðstafanir með þjálfun mannafla í því skyni. 7. Taka ber þátt í alþjóðlegum herlögreglusveitum Atlantshafsbandalagsins, Sameinuðu þjóðanna eða annarra alþjóðastofnana í þágu friðagæslu. Sérþjálfun lögreglu og öryggissveita við verkefni af þessu tagi nýtist íslenskum stjórnvöldum við varnarstörf gegn hermdar- og hryðjuverkum heima fyrir. Íslendingum er skylt sem sjálfstæðri þjóð að sýna og axla ábyrgð í varnar- og öryggismálum, annars eru þeir ekki fullgildir þátttakendur í samfélagi þjóðanna. Umræður um aukinn hlut okkar í eigin vörnum er hluti af þróun í þessu efni, þar sem aldrei má ríkja stöðnun og ávallt verður að skoða alla kosti til hlítar. Verkefnum í þágu eigin varna verður ekki sinnt, nema hugað sé að því að þjálfa Íslendinga til öryggisstarfa. Gæsla öryggishagsmuna íslensku þjóðarinnar er varanlegt viðfangsefni og á ekki meta nauðsyn hennar á forsendum einstakra viðburða á alþjóðavettvangi. Slíkir atburðir veita okkur hins vegar svör við því, hvernig öryggisins sé best gætt hverju sinni. Með því að treysta áfram á tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin innan vébanda NATO og huga jafnframt enn frekar að eigin hlutdeild í gæslu innra öyggis er íslensku þjóðinni best borgið í þessum efnum."

10 mars 2003

Svart verður hvítt - góð grein Ástu
Í dag fjallar Ásta Möller alþingismaður, á heimasíðu sinni um vinnubrögð fréttastofu Stöðvar 2 í umfjöllun um skattamál. Orðrétt segir hún: "Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur skattalækkana, ekki skattahækkana. Til að vera enn nákvæmari: Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki hækkað skatta á yfirstandandi kjörtímabili, eins og Samfylkingin með stuðningi fréttastofu Stöðvar 2 hefur haldið fram. Þessu hafa þeir haldið fram án þess að geta bent á einn einasta skatt sem hefur verið hækkaður! Sjálfstæðisflokkurinn hefur þvert á móti lækkað skatta á kjörtímabilinu. Andstæðingar flokksins hafa í málefnafátækt sinni haft endaskipti á hlutunum. Í þeirra meðförum hefur svart orðið hvítt. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur eignaskattur verið lækkaður um helming og sérstakur eignaskattur, svokallaður Þjóðarbókhlöðuskattur verið aflagður. Jafnframt hafa fríeignamörk verið hækkuð. Sjálfstæðisflokkurinn stefnir á að afnema eignaskatta alfarið á næsta kjörtímabili fái hann til þess tækifæri. Þessi breyting skiptir heimilin miklu máli, ekki síst þeim sem skulda lítið. Þar vil ég sérstaklega nefna eldra fólk, sem yfirleitt er í skuldlitlu eða skuldlausu húsnæði. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur sú breyting orðið á að persónuafsláttur er nú orðinn að fullu yfirfæranlegur milli hjóna. Þannig nýtist að fullu skattkort þess makans sem er heimavinnandi og tekjulaus. Þá hafa barnabætur hækkað um rúma 2 milljarða króna á síðustu tveimur árum. Þessar breytingar hafa komið barnafjölskyldum sérstaklega vel og aukið ráðstöfunarfé þeirra. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur hátekjuskatturinn verið lækkaður úr 7% í 5% og viðmiðunarmörk verið hækkuð . Hátekjuskatturinn hefur verið rangnefni, þar sem raunin er sú að meðaltekjufólk hefur lent innan marka hans. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur skattfrádráttur vegna viðbótarlífeyrissparnaðar verið aukinn um helming. Þetta hefur hvatt til langtímasparnaðar og skv. nýjum athugunum átti viðbótarlífeyrissparnaður landsmanna sem nam um 12 milljörðum króna á síðasta ári verulegan þátt í því að draga úr verðbólgu og viðskiptahalla, sem um leið dró úr þenslu í efnahagslífinu. Þessi ráðstöfun hefur því komið öllum til góða bæði í bráð og lengd."

Álveri og virkjun fagnað á Reyðarfirði
Ef ekkert óvænt gerist í vikunni varðandi Kárahnjúkavirkjun og fyrirhugað álver Alcoa í Reyðarfirði verður mikið um hátíðarhöld í Fjarðabyggð á laugardaginn. Þá er gert ráð fyrir að fulltrúar þeirra aðila sem koma að stórframkvæmdunum eystra; Alcoa, Landsvirkjun, ríkið og Fjarðabyggð skrifi endanlega undir alla samninga við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Reyðarfirði. Fjarðabyggð mun bjóða upp á kaffiveitingar og skemmtiatriði og eru allir velkomnir. Athöfnin mun hefjast klukkan 14 og er gert ráð fyrir að helstu stjórnendur þeirra aðila sem að málinu koma verði við undirritunina; Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Alain Belda, stjórnarformaður og forstjóri Alcoa, Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunar, og Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Klukkan 21 sama dags, munu bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð standa fyrir veglegum flugeldasýningum í öllum byggðarlögunum þremur; á Eskifirði, Norðfirði og Reyðarfirði, og um kvöldið hafa veitingastaðir í Fjarðabyggð skipulagt hátíðarhöld langt fram eftir nóttu. Ekki er óeðlilegt að bæjarbúar fagni þessum sigri í málinu, enda mikið í húfi fyrir bæjarfélagið og reyndar Austfirðinga og Norðlendinga að málinu ljúki farsællega með undirritun samninga um álver og virkjun.

09 mars 2003

Velheppnuð málstofa Varðar um nám á Norðurlandi
Í gær, kl. 14:00 var haldin í Kaupangi við Mýrarveg, höfuðstöðvum flokksins, fyrsta málstofa Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri af þrem sem fyrirhugaðar eru nú í aðdraganda alþingiskosninganna, 10. maí nk. Var yfirskrift hennar Nám á Norðurlandi - staða og stefna, verknám og sérhæfing. Í upphafi málstofunnar fór Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, yfir stöðu og þróun menntunar á Norðurlandi á komandi árum og stjórnmálaástandið nú þegar styttist í kosningar. Talaði Tómas blaðlaust í rúmar 40 mínútur og var ræða hans bæði fræðandi og skemmtileg. Að lokinni ræðu hans fjallaði Hallgrímur Gíslason um ÚA skólann og fór yfir af hverju var hann stofnaður, hvernig hann hefur gengið, hverskonar starfsemi þar væri, nám á sviði fiskvinnslu gagnvart öðru námi, hvort þetta væri fyrirkomulag sem henti fleiri fyrirtækjum og hvernig námið gagnaðist nemendum og hvaða hag þeir hefðu almennt af náminu. Að lokum fór Baldvin Ringsted kennslustjóri tæknisviðs VMA, yfir sérhæfingu náms og velti fyrir sér möguleikum Akureyrar í menntamálum. Hann fjallaði einnig um verknám á Norðurlandi, stöðu og stefnu þess og hindranir í því. Að loknum ræðum frummælenda voru skemmtilegar og athyglisverðar umræður um málin. Þetta var mjög skemmtileg málstofa og áhugavert efni, um næstu helgi verður næsta málstofa Varðar; mun hún bera yfirskriftina Ungt fólk og atvinnulífið.

08 mars 2003

Frábær pistill Björns
Í nýjasta pistlinum á heimasíðu sinni, fjallar Björn Bjarnason alþingismaður, um það þegar nýr borgarstjóri féll á prófinu og sagði ósatt í vikunni í borgarráði og um margfræga Borgarnesræðu fyrrverandi borgarstjóra, sem hún reynir nú að hlaupa frá, enda sást vel í viðtölum í gær að hún er í bullandi vörn í málinu og getur ekki staðið við þau gífuryrði sem þar komu fram. Um ræðu borgarfulltrúans segir Björn: "Er greinilegt, að ímyndarsmiðum Ingibjargar Sólrúnar hefur þótt halla á skjólstæðing sinn í umræðum vikunnar, úr því að þeir ákveða slíka útrás. Er óvenjulegt, að Kastljós á föstudagskvöldi sé helgað einum manni vegna máls af þessum toga og meira að segja Gunnar Smári, ritstjóri Fréttablaðsins, varð að vikja úr sínu vikulega álitsgjafasæti á Stöð 2 þetta föstudagskvöld, þótt hann hafi áreiðanlega átt ýmissa harma að hefna eftir átök vikunnar. Ingibjörg Sólrún á föstudagskvöldi hefur ímyndarsmiðunum þótt afbragð vegna vikulegra helgarkannana Fréttablaðsins á viðhorfi almennings til stjórnmálaflokkanna. Í báðum þáttunum var Ingibjörg Sólrún í vörn. Tilgangur ræðu hennar er alveg skýr, að beina neikvæðu ljósi á Davíð Oddsson meðal annars með því að saka hann um óeðlileg afskipti af viðskiptalífinu og gera á hlut Baugs, Jóns Ólafssonar og Kaupþings, um leið lætur Ingibjörg Sólrún í veðri vaka, að þeir, sem njóta, að hennar mati velvildar Davíðs, eins og Íslensk erfðagreining, eigi ekki síður undir högg að sækja."

Haldreipi borgarfulltrúans á svellinu
Björn heldur áfram: "Hvert var helsta haldreipi Ingibjargar Sólrúnar í þessum umræðuþáttum? Jú, að hún væri ekki að lýsa eigin skoðunum heldur Agnesar Bragadóttur blaðamanns, sem birst hefðu í löngum Morgunblaðsgreinum, - úttekt Agnesar á viðskiptalífinu við nýjar aðstæður. Áður hafði hún sagt, að í Borgarnesi hafi hún verið að endurspegla skoðanir Björgólfs Thors Björgólfssonar, en eftir að hann hafnaði þessum skýringum Ingibjargar Sólrúnar í Morgunblaðssamtali við Agnesi, sem birtist 16. febrúar, grípur Ingibjörg Sólrún til þess nú, að skýla sér á bakvið Agnesi. Það að nota Agnesi sem haldreipi á svellinu, sem Ingibjörg Sólrún fór út á með ræðunni í Borgarnesi, er í besta falli langsótt. Greinar Agnesar lýstu baráttu í heimi viðskiptanna, eftir að stjórnmálamenn hættu þar virkri þátttöku í krafti opinberra eignarheimilda. Hefur Ingibjörg Sólrún verið talsmaður einkavæðingar? Er hennar ferill í stjórnmálum til marks um, að hún hafi viljað auka svigrúm einstaklingsins á kostnað hins opinbera? Ég tek undir með þeim, sem telja tímabært, að Ingibjörg Sólrún sé spurð um stjórnmálaskoðanir. Borgarnesræðan er flótti frá umræðum um stjórnmál, álitamálin, sem nauðsynlegt er, að stjórnmálamenn svari – það er ekkert svar, að segjast vilja breyta átakastjórnmálum í samráðsstjórnmál. Slíkir frasar breyta engu til eða frá. Hver skyldi til dæmis vera afstaða Ingibjargar Sólrúnar til varnarsamstarfsins við Bandaríkin? Er hún enn sami herstöðvaandstæðingurinn og áður?"

07 mars 2003

Undarlegur málflutningur fyrrv. borgarstjóra
Í kvöld var fyrrverandi borgarstjóri, gestur Snorra Más Skúlasonar og Árna Snævarr í Íslandi í dag. Þar var hún að tjá sig um mál vikunnar í fréttunum hérlendis. Þar sagði hún að það væri fráleitt að halda því fram að upphaf þess máls hefði verið ræða hennar í Borgarnesi fyrir mánuði. Ennfremur sagði hún ekki hafa nein tengsl við Baug, Jón Ólafsson og Norðurljós og reyndi að telja fólki trú um að þessir aðilar hefðu engin ítök inn í R-listann og þann flokk sem hún er talsmaður fyrir. Nú þegar tveir mánuðir eru til kosninga má ljóst vera að það stefnir í einhverja beittustu kosningabaráttu hérlendis í mörg ár eða áratugi. Það er mín skoðun að fyrrverandi borgarstjóri hafi hafið kosningabaráttu sína með því að gefa t.d. í skyn, að forsætisráðherra sigaði lögreglu og skattayfirvöldum að ósekju á nokkur fyrirtæki og misbeitti valdi sínu, þrátt fyrir að hún þræti fyrir það núna. Ljóst er að málefnaleg staða flokks hennar er mjög veik nú þegar kosningabaráttan er að fara af stað af fullum krafti. Skotmark hennar og flokksins er persóna Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Öllum brögðum á nú greinilega að beita til að grafa undan trúverðugleika hans og öllum meðölum beitt í því skyni. Einkum virðist einum fjölmiðli, Fréttablaðinu, vera sérstaklega beitt gegn honum. Það breiðir út áróður upphefur einkum fyrrverandi og núverandi borgarstjóra og aðra þá, sem þeim er sérstaklega annt um að nái undirtökunum í íslenskum stjórnmálum. Undarlegt er svo að heyra í leiðtogaefni Samfylkingarinnar í kjölfarið á þessari aðför að forsætisráðherra þar sem hún segir að færa verði umræðuna upp á hærra plan og fara að tala um pólitík í kosningabaráttunni. Vegna þess að Samfylkingin treystir sér ekki á nokkurn hátt til að tala um pólitík og málefni baráttunnar hóf leiðtogaefni flokksins umræður um góðu og vondu fyrirtækin í ræðu sinni í Borgarnesi. Þar dró hún fyrirtæki í dilka svo eftir var tekið. Þó að hún segist nú ekki geta staðið við orð sín vegna atburða sem gerst hafa undanfarinn mánuð markaði hún þessa slóð, þessi atburðarás hófst með Borgarnesræðunni.

Beint áætlunarflug frá Akureyri til Köben
Ákveðið hefur verið að fyrsta beina áætlunarflug Grænlandsflugs frá Akureyri til Kaupmannahafnar verði 28. apríl nk. Áætlað er að flogið verði tvisvar í viku milli þessara áfangastaða, á mánudögum og fimmtudögum allt árið um kring. Hægt verður að bóka ferðir í gegnum Amadeus-bókunarkerfið og farmiðar verða fáanlegir hjá öllum IATA-ferðaskrifstofum. Ekki verður hægt að ganga frá bókunum strax þar sem íslensk flugmálayfirvöld hafa ekki afgreitt umsókn félagsins, að því er segir á heimasíðu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar á Netinu. Flogið verður frá Akureyri kl. 12 á hádegi og komið til Kaupmannahafnar um fimmleytið. Frá Kaupmannahöfn er farið kl. 9.45 að morgni og komið til Akureyrar kl. 10.45. Áætlað er að fljúga með 168 sæta Boeing 757-200 þotu Grønlandsfly í þessu flugi. Kynningarátak verður í gangi í maí og er fargjaldið þá 22.500 krónur með sköttum og bókunargjaldi, en ákveðið hefur verið að Ferðaskrifstofa Akureyrar verði aðalsöluaðili Grænlandsflugs á Akureyri. Að loknu kynningarátakinu mun sætið kosta á bilinu 30-40 þúsund krónur. Verið er að skipuleggja ýmsar ferðir í tengslum við áætlunarflugið, m.a. helgarferð, fjórar nætur á þriggja stjörnu hóteli í miðbæ Kaupmannahafnar á 49.900. Eins er verið að undirbúa ferð á Hróarskelduhátíðina í sumar og tónleikaferð með Sir Paul McCartney í byrjun maí. Takmark Grænlandsflugs í upphafi er að ná 12 þúsund farþegum í ár, þ.e. á 8 mánaða tímabili frá apríllokum til áramóta. Vonandi er að þetta flug heppnist vel og fólk verði duglegt að notfæra sér þetta, það er mikilvægt að þetta beina flug til Köben verði framtíðarpunktur í samgöngum Norðlendinga til útlanda.

06 mars 2003

Góð umfjöllun um Akureyri
Undanfarna daga hefur verið góð umfjöllun um Akureyri í fjölmiðlum. Sl. sunnudagskvöld var ítarlega fjallað um málefni Háskólans á Akureyri í Kastljósþætti í umsjón Karls Eskils Pálssonar fréttamanns RÚV. Lög um Háskólann á Akureyri voru sett af Alþingi 27. apríl 1988. Á þeim tíma voru tvær brautir starfandi við Háskólann; hjúkrunarfræðibraut og iðnrekstrarfræðibraut. Þá hafði verið ákveðið að taka upp kennslu í sjávarútvegsfræðum og matvælafræðum. Þegar skólinn opnaði árið 1987, eða fyrir 16 árum, 50 nemendur við skólann en þeir eru nú vel yfir 1000. Frá og með næsta hausti munu 6 deildir verða að störfum og starfsmenn skólans eru um 130. Á síðustu árum hefur Fjórðungssjúkrahúsið haft mikilvægu hlutverki að gegna sem háskólasjúkrahús og nemendum jafnframt verið sinnt í hjúkrunarnámi með fjarkennslu á Ísafirði. Þetta hefur styrkt sjúkrahúsið umtalsvert. Ennfremur hefur sjúkrahúsið verið lykillinn að því að skólinn hefur ráðið við þetta gríðarlega mikilvæga hlutverk. Að mínu mati er uppbygging Háskólans á Akureyri einhver mikilvægasta og þarfasta byggðaaðgerð, sem gripið hefur verið til hérlendis á síðari árum. Alla tíð hefur ríkt mikil samstaða á gervöllu Norðurlandi um mikilvægi háskólanáms á Akureyri, því er þó ekki hægt að neita að andstaða hefur verið nokkur við háskólann í Reykjavík og er reyndar enn til staðar hjá ákveðnum aðilum, en skólinn hefur dafnað engu að síður. Menntamálaráðherrar sem komið hafa úr Sjálfstæðisflokknum hafa jafnan unnið vel að framgangi Háskólans og ber sérstaklega að nefna Björn Bjarnason, Ólaf G. Einarsson, Ragnhildi Helgadóttur, Birgi Ísleif Gunnarsson og síðast en ekki síst Akureyringinn Tómas Inga Olrich sem hefur verið frá upphafi mikill stuðningsmaður skólans. Framundan nú er bygging rannsóknarhúss við skólann, en vonandi verður hægt að hefja framkvæmdir við þá byggingu í sumar og taka hana í notkun seinni part næsta árs. Í þættinum sem fyrr er getið voru mörg athyglisverð viðtöl, t.d. við Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóra, Þorstein Má Baldvinsson forstjóra Samherja og Þorstein Gunnarsson rektor HA. Í dag birtist svo í Mogganum umfjöllun um bæinn sem er mjög athyglisvert að lesa, hvet alla til að kíkja á þá umfjöllun. Semsagt; það er alltaf nóg um að vera hér á Akureyri.

Málstofa Varðar - Nám á Norðurlandi
Á laugardaginn, kl. 14:00 mun Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri halda fyrstu málstofu sína af þrem sem fyrirhugaðar eru nú í aðdraganda alþingiskosninganna, 10. maí nk. Er yfirskrift hennar Nám á Norðurlandi - staða og stefna, verknám og sérhæfing. Í upphafi málstofunnar mun Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, fara yfir stöðu og þróun menntunar á Norðurlandi á komandi árum. Að því loknu mun Baldvin Ringsted kennslustjóri tæknisviðs VMA, fara yfir sérhæfingu náms og velta fyrir sér möguleikum Akureyrar í menntamálum. Hann fjallar einnig um verknám á Norðurlandi, stöðu og stefnu og hindranir í verknámi. Að lokum mun Hallgrímur Gíslason fjalla um ÚA skólann og fara yfir af hverju var hann stofnaður, hvernig hann hefur gengið, hverskonar starfsemi þar er, nám á sviði fiskvinnslu gagnvart öðru námi, hvort þetta sé fyrirkomulag sem henti fleiri fyrirtækjum og hvernig námið gagnist nemendum og hvaða hag hafa þeir af náminu. Að loknum ræðum frummælenda verða umræður um málin. Þetta er mjög athyglisvert umfjöllunarefni og augljóst að ræðurnar og umræðurnar verða fræðandi. Hvet ég alla Akureyringa til að líta á málstofurnar og taka þátt í þessu með okkur sem sitjum í stjórn Varðar.

05 mars 2003

Lög um álver við Reyðarfjörð samþykkt á þingi
Lög sem heimila Valgerði Sverrisdóttur iðnaðarráðherra, að ganga frá samningum um byggingu og rekstur álvers í Reyðarfirði voru samþykkt á Alþingi í dag með 41 atkvæðum gegn níu en einn þingmaður greiddi ekki atkvæði. Þingflokkur Vinstri grænna, sex þingmenn, tveir þingmenn Samfylkingarinnar og einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn frumvarpinu. Tillaga VG, um að fresta gildistöku laganna þangað til þjóðaratkvæðagreiðsla hefði farið fram um málið, var felld með 35 atkvæðum gegn sex en 10 þingmenn greiddu ekki atkvæði. Stjórnarformaður og forstjóri Alcoa, Alain Belda, fagnaði mjög samþykkt þingsins á lögunum. Í tilkynningu frá Alcoa í dag sagði að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar á Alþingi hafi það í för með sér að brátt muni rísa eitt nútímalegasta og samkeppnishæfasta álver heims við Reyðarfjörð. Fjarðaál er hluti af einni umfangsmestu fjárfestingu sem ráðist hefur verið í á Íslandi en byggingarkostnaður álversins er áætlaður 1.1 milljarður Bandaríkjadala eða um 84 milljarðar króna. Verkefnið felur í sér að Landsvirkjun reisi Kárahnjúkavirkjun norðan Vatnajökuls, að Hafnarsjóður Fjarðabyggðar reisi hafnaraðstöðu og loks að Alcoa byggi álverið. Hafist verður handa við að byggja álverið árið 2005 og áætlað er að verksmiðjan hefji framleiðslu árið 2007. Byggingarkostnaður Fjarðaáls er áætlaður 1,1 milljarður dala, eða um 90 milljarðar íslenskra króna og dreifist hann á næstu fjögur ár. Er gert ráð fyrir því að álverið muni skapa um 450 störf í álverinu sjálfu og um 300 störf í tengdum iðnaði og þjónustu. Virkjun við Kárahnjúka og álver við Reyðarfjörð eru gríðarlegur áfangi fyrir þjóðina. Stefnir í nýtt og öflugt hagvaxtarskeið, atvinnuástand mun styrkjast, kaupmáttur aukast og tekjur þjóðarbús og landsmanna hækka. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur stýrt málinu farsællega til lykta og nú horfir fyrir endann á málinu. Virkjað verður við Kárahnjúka og álverið mun rísa til hagsbóta fyrir landsmenn. Mikilvægt framfaraspor var stigið með afgreiðslu málsins á þingi. Þetta er stór dagur í íslenskri atvinnusögu.

04 mars 2003

Sjálfstæðisvefurinn - vettvangur hægrimanna
Fyrir rúmlega hálfum mánuði opnaði nýr vefur á Netinu. Sjálfstæðisvefurinn er umræðuvettvangur hægrimanna og ætlað að vera miðstöð skoðanaskipta fyrir sjálfstæðismenn þar sem þeir tjá sig um stjórnmál og málefni líðandi stundar. Síðan skiptist í tvo hluta. Annarsvegar pistlaskrif þar sem hægrimenn tjá skoðanir sínar og umræða um það sem hæst ber. Ritstjóri vefsins og forsvarsmaður hans er Árni Gunnarsson, en hann er nemi við Háskólann í Reykjavík og félagi í ungliðahreyfingunni í Garðabæ. Þetta framtak hans er mjög ánægjulegt og hann á mikið hrós skilið fyrir. Það vantaði tilfinnanlega slíkan vef og nú er hann kominn til sögunnar. Þar sem ég hef verið duglegur við að skrifa um stjórnmál, eins og allir sjá sem eitthvað hafa fylgst með vefsíðunum mínum vil ég leggja mitt af mörkum til þessa vefs og tel tilvalið að þar birtist allir pistlar mínir sem birtast á vefsíðum tengdum flokknum. Hvet ég alla félaga mína til að gera slíkt hið sama. Það er mikilvægt að þarna verði nóg af pistlum og fjörugar umræður. Það er mikilvægt að vefur Árna vaxi og blómstri nú þegar styttist til mikilvægra kosninga, þar sem kosið verður um hvort stöðugleiki ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum fái að dafna eða hvort óábyrgir vinstrimenn fái að vaða uppi og fórna þeim árangri sem náðst hefur seinustu 12 árin. Í þessum slag verður Sjálfstæðisvefurinn mikilvægur og nauðsynlegt að hann verði öflugur og sjálfstæðismenn skiptist á skoðunum og tjái skoðanir sínar í pistlum.

03 mars 2003

Pólitísk aðför að Davíð Oddssyni
Óhætt er að segja að dagurinn í dag hafi verið sögulegur í íslenskri pólitík. Tímamótaviðtal Óðins Jónssonar við Davíð Oddsson forsætisráðherra, á Morgunvaktinni kl. 7:30 í morgun, þar sem hann svaraði "fréttum" Fréttablaðsins hefur hiklaust verið frétt dagsins. Þar kom fram að forsvarsmenn Baugs hefðu gefið í skyn fyrir ári að múta ætti forsætisráðherranum til að hann yrði þægur í taumi. Nú ber svo við að forstjóri Baugs segist ætla að stefna Davíð fyrir meiðyrði og að gefa í skyn að hann hafi ætlað að múta honum. Réttast væri að forstjórinn byrjaði á að ræða við eða kæra stjórnarformann sinn, Hrein Loftsson. Davíð segir að Hreinn hafi sagt að Jón Ásgeir væri tilbúinn til að greiða honum 300 milljónir fyrir að hætta að tala illa um Baug. Hreinn Loftsson segir að þetta hafi allt saman verið sagt í hálfkæringi. Jón Ásgeir segir að hann hafi aldrei sagt þetta. Það er því ljóst að Hreinn segir það sem Jón Ásgeir neitar. Annar segist aldrei neitt hafa sagt neitt í hálfkæringi en hinn segist hafa sagt í hálfkæringi að það ætti að greiða Davíð 300 milljónir króna.

Nú ber svo við að Jón Gerald Sullenberger segir að honum hafi verið mútað af mönnum tengdum forstjóra Baugs. Það kemur ekki á óvart að pólitískir andstæðingar Davíðs Oddssonar fylgi í kjölfarið á "fréttum" Fréttablaðsins og ráðist að honum. Þeir gerðu það strax á laugardag áður en hann hafði nokkuð tjáð sig um það. Það var ekki spurt að nánari málsatvikum eða beðið þess að málið yrði skýrara. Nú þegar ljóst er að Hreinn Loftsson hefur logið um að hafa ekki vitað af Sullenberger og Nordica eins og hann heldur fram um helgina, má flestum vera ljóst hvernig málið er. Það er ljóst að annaðhvort hefur stjórnarformaður Baugs ekki sinnt starfi sínu eða ekki lesið ársskýrslu fyrirtækisins árið 2000 þar sem nafn Sullenbergers kemur fram. Davíð var yfirvegaður þegar hann ræddi þessi mál í kvöld. Þar birtist mér þó annar Davíð en ég hef áður séð. Hann er sár vegna þeirra vinnubragða sem fram koma hjá manni sem hann treysti til formennsku í viðamikilli nefnd og að vera aðstoðarmaður hans. Davíð Oddsson hefur verið þekktur fyrir heiðarleika og að vera traustur leiðtogi í rúman áratug. Er líklegt að hann færi að vara Baug við lögregluaðgerðum í janúar 2002 sem fram fóru meira en hálfu ári síðar? Það tel ég ekki líklegt og finnst þetta mál allt með ólíkindum. Ég treysti Davíð betur en öðrum stjórnmálamanni, af hverju ætti hann að fara með rangt mál? Það er augljóst að þetta er pólitísk aðför að honum.

Trúverðugleiki Pressunnar
Sú var tíðin að netmiðillinn Pressan á strik.is var góður vettvangur pólitískrar umræðu og fjallað óhlutdrægt um málin og vönduð fréttamennska á ferð. Þegar vefurinn var opnaður árið 2000 og var ritstýrt af Hrafni Jökulssyni og framan af ritstjóratíð núverandi ritstjóra vefsins, var hægt að taka mark á skrifum á vefinn. Er Hrafn hætti á Pressunni, árið 2001 tók Ásgeir Friðgeirsson við ritstjórn á vefnum og í upphafi voru skrif hans vönduð og eðlilega haldið á málum. Til dæmis fjallaði hann heiðarlega um sveitarstjórnarkosningar í fyrra og eftirmála þeirra að flestu leyti. Síðsumars ákvað hann að fara í framboð til þings fyrir Samfylkinguna. Jafnframt því hélt hann áfram að ritstýra Pressunni og skrifa þar fréttir. Taldi ég að hann myndi halda áfram að vera óhlutdrægur í umfjöllun sinni um pólitík, þrátt fyrir að hann færi í prófkjör flokksins í Suðvesturkjördæmi. Svo fór þó ekki og hefur vefurinn hægt og bítandi verið að breytast úr óhlutdrægum fréttavef í harðsnúinn áróðursvef fyrir Samfylkinguna gegn Sjálfstæðisflokknum og forystumönnum hans. Er svo komið að ekki er hægt að taka mark á Pressunni sem fréttavef heldur áróðursmaskínu þingframbjóðanda, nokkurskonar bloggsíðu hans í baráttunni.

Hlutdrægni Pressunnar er algjör og fer ekki á milli mála. Er slæmt að Ásgeir geti ekki haldið persónulegu framboði sínu fyrir utan þennan fréttavef um pólitík sem hann var. Pressan er nú aðeins harðsvíruð maskína einnar skoðunar gegn öðrum, ekki er fjallað óhlutdrægt um málið. Eins og flestir vita skrifaði ég 7 greinar um stjórnmál á þennan vef í fyrrasumar og byrjun hausts. Fyrstu fimm fjölluðu um stjórnmálaflokkana sem sæti eiga á þingi og framboðsmál þeirra fyrir þessar kosningar. Seinni tvær um kjördæmaskipan og stjórnarmyndanir. Ég skrifaði þar í þeirri trú að vefurinn væri vettvangur ólíkra skoðana og umfjöllunar um stjórnmál frá öllum hliðum. Þegar ég varð þess áskynja að vefurinn væri að breytast í áróðursvef gegn mínum skoðunum sá ég mér ekki fært að skrifa þar. Það er ekki minn stíll að vera þátttakandi í opnum frétta- og fjölmiðlavef sem traðkar á öllum skoðunum nema þeim sem ritstjórinn aðhyllist. Ég get þá alveg eins skrifað á mínar eigin síður ef ég vil tjá mig og þær sem tengjast flokknum, ég þarf ekki að skrifa á síður Samfylkingarinnar. Pressan eins og hún var þegar hún var stofnuð er ekki lengur til. Það þykir mér mjög miður. Ég get samvisku minnar vegna ekki tekið þátt í skrifum á þessa síðu.