Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 júní 2003

Katharine Hepburn látin
Bandaríska óskarsverðlaunaleikkonan Katharine Hepburn er látin, 96 ára að aldri. Hún lést í kvöld kl. 18:50 að íslenskum tíma á heimili sínu í Old Saybrook í Connecticut. Heilsu Hepburn hafði hrakað á undanförnum árum. Á rúmlega sextíu ára ferli sínum hlaut hún fjórum sinnum Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í kvikmyndum og var tilnefnd til verðlaunanna 12 sinnum. Hefur enginn hlotið fleiri óskarsverðlaun fyrir leik, í sögu þeirra, öll hlaut hún þau sem leikkona í aðalhlutverki, einstakur árangur. Hún hlaut verðlaunin fyrir leik sinn í myndunum: Morning Glory 1933; Guess Who's Coming to Dinner 1967, The Lion in Winter 1968 og On Golden Pond 1981.

Hepburn fæddist inn í auðuga fjölskyldu á Nýja-Englandi sem var frjálsleg í hugsunarhætti. Sjálf var hún blátt áfram og hegðaði sér á óvenjulegan hátt. Hún klæddist þeim fötum sem henni þóttu þægileg og fór eigin leiðir, sannkölluð nútímakona, ímynd hennar í kvikmyndum síns tíma. Hún giftist aðeins einu sinni og hjónabandið stóð stutt. Sagt var að hún ætti í ástarsambandi við Howard Hughes og aðra þekkta menn en stóra ástin í lífi hennar var óskarsverðlaunaleikarinn Spencer Tracy. Þau léku saman í níu myndum og voru nánir vinir allt þar til hann lést árið 1967, skömmu eftir gerð seinustu myndar hans, þar sem þau voru saman í aðalhlutverkum. Fjallað er um ævi og leikferil Katharine Hepburn í grein á kvikmyndir.com.

Málefni RÚV - vandræði Tony Blair - þróun Netsins
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um málefni Ríkisútvarpsins og kem fram þeirri skoðun minni að tekið verði á rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar og hún stokkuð upp til samræmis við nútímann, um vandræði Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, sem kominn er í ógæfudal ef marka má skoðanakannanir um fylgi flokka og persónufylgi hans, og um þróun Netsins á seinustu árum - óumdeilt er að Netið hefur opnað mörg spennandi tækifæri til samskipta á milli fólks.

27 júní 2003

Bandarísk stjórnmál - forsetaslagur að hefjast
Í grein minni á frelsi.is fjalla ég um bandarísk stjórnmál. Athyglisvert hefur verið að fylgjast með stjórnmálum í Bandaríkjunum seinustu mánuði eins og venjulega reyndar. Hef í mörg ár fylgst vel með pólitíkinni vestan hafs. Eftir þingkosningarnar í nóvember varð ljóst að pólitísk staða George W. Bush forseta Bandaríkjanna, myndi styrkjast til mikilla muna og hlaut hann skýrt umboð til að koma sínum málum í framkvæmd. Repúblikanaflokkurinn vann sögulegan sigur og tryggði sér völdin í bæði fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings. Framundan eru forsetakosningar í Bandaríkjunum. Þegar eftir að úrslit urðu ljós í þingkosningunum urðu átakalínur skýrari fyrir forsetaslaginn. Ef meta ætti nú líkurnar á hverjir myndu slást um Hvíta húsið kjörtímabilið 2004-2008 er líklegast að það yrðu George W. Bush og Joe Lieberman. Annars getur allt gerst demókratamegin og gæti allt eins orðið að forsetaframbjóðandi þeirra yrði einn af þeim sem lítils fylgis nýtur núna. Það er þó alveg ljóst að það verður athyglisvert að fylgjast með forsetaslagnum sem þegar er hafinn og mun ná hámarki eftir flokksþing stóru flokkanna sumarið 2004 þar sem forsetaefnin verða formlega valin. Framundan eru því spennandi tímar í bandarískri pólitík næstu 18 mánuðina, eða allt til kjördags, 2. nóvember 2004.

Athyglisvert netviðtal við Birgi
10. maí sl. var Birgir Ármannsson, 35 ára lögfræðingur og fyrrverandi formaður Heimdallar, kjörinn til þingsetu fyrir Sjálfstæðisflokkinn, kjörtímabilið 2003-2007. Er þing kom saman í lok seinasta mánaðar var hann kjörinn 6. varaforseti Alþingis, auk þess sem hann situr í allsherjarnefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og er formaður Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins. Hafsteinn Þór Hauksson og Ragnar Jónasson ræddu við Birgi í tilefni af því og er afrakstur þess spjalls athyglisvert viðtal, fyrsta netviðtalið á frelsi.is þar sem á næstunni verður rætt við þingmenn flokksins.

24 júní 2003

Færeyjaferð - feigðarsvipurinn á R-listanum - fall Anneli
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um skemmtilega ferð mína til Færeyja, borgarpólitíkina sem er sífellt að verða meira spennandi, enda greinilegt eftir tiltekt Ingibjargar Sólrúnar í geymslunni og yfirlýsingar eins þingmanns Samfylkingarinnar að samstarf meirihlutaflokkanna í borginni stendur veikum fótum og spurning hversu lengi það endist enda sárindin milli manna greinileg, og um afsögn fyrsta kvenforsætisráðherra Finna, Anneli Jäätteenmäki, sem varð að víkja í seinustu viku af valdastóli eftir aðeins tveggja mánaða valdaferil.

Góðar greinar Atla Rafns um heilbrigðismál
Undanfarið hefur frændi minn, Atli Rafn Björnsson gjaldkeri Heimdallar, skrifað nokkuð um heilbrigðismál á frelsi.is, er um að ræða tvær mjög athyglisverðar greinar. Hvet alla til að lesa þessar tvær greinar hans, bæði þá fyrri og einnig hina seinni.

21 júní 2003

Góðir tónleikar
Fór í gærkvöldi í Ketilhúsið hér á Akureyri á tónleika þar sem Guðrún Gunnarsdóttir söngkona, söng vinsælustu lög Ellýjar Vilhjálms, dægurlagadrottningar Íslands. Gestasöngvari með Guðrúnu var Friðrik Ómar Hjörleifsson útvarpsmaðurinn góðkunni á Akureyri. Ásamt Guðrúnu og Friðriki Ómari kom fram hljómsveit en hana skipuðu: Eyþór Gunnarsson hljómsveitarstjórn og píanó. Sigurður Flosason saxafónn, klarinett, þverflauta og slagverk. Erik Qvick trommur og Birgir Bragason kontrabassi. Tónleikarnir hafa gengið fyrir fullu húsi í nokkra mánuði í Salnum í Kópavogi og því mjög gott að fá tónleikana norður. Sannkölluð upplifun að hlusta á Guðrúnu og þessa góðu dagskrá. Gaman af þessu!

Góð grein um Robert F. Kennedy
Má til með að mæla með stórgóðri grein félaga míns, Guðfinns Sigurvinssonar, sem birtist um daginn á vefritinu Deiglunni. Þar fjallar hann á mjög áhugaverðan hátt um ævi og feril Roberts F. Kennedy dómsmálaráðherra Bandaríkjanna og öldungadeildarþingmanns New York-ríkis. Mögnuð lesning, einkar fræðandi skrif.

18 júní 2003

Kominn heim eftir skemmtilega ferð - sunnudagspistillinn
Ég kom til landsins í dag eftir 5 daga ferð til Færeyja með góðum vinum og félögum. Ferðin var alveg virkilega skemmtileg og mun ég skrifa um hana fljótlega, allavega fer ég aðeins yfir þessa skemmtilegu daga úti, í næsta sunnudagspistli. Sl. sunnudag birtist á heimasíðunni venju samkvæmt sunnudagspistill minn, þrátt fyrir að ég væri erlendis. Í honum fjalla ég um varnarmálin og væntanlegar viðræður um framtíð varnarsamningsins, borgarpólitíkina sem er athyglisvert að fylgjast með þessa dagana - bresti á R-listanum sem verða sífellt sýnilegri og sárinda sem greinilega eru enn til staðar eftir að leiðtoga R-listans til níu ára var ýtt til hliðar, bandarísk stjórnmál þar sem baráttan fyrir næstu forsetakosningar er þegar hafin - fer yfir hverjir séu líklegastir til að slást um Hvíta húsið á næsta ári og tala að lokum stuttlega um þjóðhátíð en þjóðhátíðardagurinn, 17. júní var í gær.

12 júní 2003

Leikstjóragreinar - Spielberg og Allen
Seinustu daga hef ég hafið á ný skrif um kvikmyndir á kvikmyndavefinn, kvikmyndir.is og fjalla þar um nýjustu myndirnar. Einnig birtast nú vikulega greinar eftir mig á kvikmyndavefnum 3bio.is þar sem ég skrifa um leikstjóra og fjalla um feril þeirra, bestu myndirnar þeirra og margt fleira. Í seinustu tveim greinum hef ég skrifað um Steven Spielberg og Woody Allen. Seinna í þessari viku birtist svo grein mín um meistarann Billy Wilder.

Ferðalag
Fer seinnipartinn í dag suður og á morgun held ég til útlanda með félögum mínum. Framundan skemmtileg ferð vonandi næstu vikuna, allavega gaman að fara eitthvað sér til upplyftingar. Á sunnudaginn birtist á stebbifr.com næsti sunnudagspistill þar sem ég fer yfir ýmis spennandi mál að vanda. Vil ég þakka góð viðbrögð við þessum pistlum og góð orð sem ég hef fengið í tölvupósti frá ýmsu fólki, bæði sem ég þekki vel og aðra sem ég hef ekki spjallað við áður. Bloggið verður ekki uppfært aftur fyrr en ég kem aftur til landsins undir lok næstu viku. Þar sem framundan er þjóðhátíðardagurinn 17. júní sendi ég ykkur bestu þjóðhátíðarkveðjur.

10 júní 2003

Opnunartími matvörubúða - eitt skal yfir alla ganga
Var að horfa á Kastljósið áðan þar sem fjallað var um matvörubúðir og hvort þær ættu að vera opnar á helgidögum. Þarna voru Guðjón Karl Reynisson framkvæmdastjóri 10-11, Ögmundur Jónasson formaður BSRB og sr. Halldór Reynisson. Ástæða þess að þetta er rætt var að á hvítasunnudag opnuðu forsvarsmenn 10-11 búðina, en henni var brátt lokað af lögreglu. Er það mitt mat að leyfa eigi að hafa búðir opnar þessa daga, ef fólk vill vinna við afgreiðslustörf og fólk vill kaupa í matinn á þessum dögum, skal leyfa það. Persónulega gæti ég alveg lifað þó að búðir væru lokaðar, en skil vel að sumir vilji hafa þetta með þessum hætti. Þessi forræðishyggja að hafa sumar búðir opnar þessa daga en aðrar ekki er algerlega á eftir sinni samtíð. Enda sjá allir að bensínstöðvar mega selja matvörur á hátíðisdögum en stórmarkaðirnir ekki. Annaðhvort er að leyfa þetta alveg eða hafa allt lokað. Svo einfalt er það. Skondið var að sjá forræðishyggjumanninn Ögmund áðan, reyna að bera á móti þessu, og vilja halda áfram á sömu braut í stjórnmennskunni. Eitt sinn kommi, alltaf kommi greinilega. Allavega búðirnar eiga að vera opnar ef fólk vill vinna og kúnnarnir kaupa, svo einfalt er það í mínum huga. Burt með forræðishyggjuna!

Skemmtilegt Kastljós
Annars má ég til með að koma með stutt komment á Kastljósið. Alltaf jafn gaman af þessum þætti. Ber af dægurmálaþáttunum. Svo hefur verið frískað upp á þáttinn með nýju fólki. Þarna eru komin Sveinn Guðmarsson og Svanhildur Hólm Valsdóttir auk þeirra Kristjáns Kristjánssonar og Sigmars Guðmundssonar. Allavega líflegt og skemmtilegt og góð efnistök. Sérstaklega líst mér vel á að Svanhildur frænka mín leysi af hana Evu Maríu. Gott að fá hana á skjáinn!

08 júní 2003

Varnir landsins - málefni Raufarhafnar - formannsskipti í SUS
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um þá óvissu sem upp er komin um varnir landsins, væntanlegar viðræður íslenskra og bandarískra stjórnvalda um framtíð varnarsamningsins við Bandaríkin, málefni Raufarhafnar þar sem við blasir að kreppa sé framundan á staðnum samhliða uppstokkun á rekstri Jökuls sem er stærsti vinnustaðurinn þar, slæma stöðu sveitarsjóðsins og að lokum fer ég yfir starf komandi mánaða innan SUS, stjórnarkjör og ég lýsi yfir stuðningi við Hafstein Þór Hauksson í formannskjöri í SUS í september. Að lokum vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu sem hafa sent mér tölvupóst í kjölfar opnunar heimasíðunnar 1. júní sl. og jafnframt hafa skrifað í gestabókina. Það er mér mikils virði að finna fyrir þessum góðu óskum og ég þakka kærlega fyrir hlý orð og góðar kveðjur.

Skemmtilegt spjall á MSN
Fékk mér fyrir um mánuði MSN Messenger spjallkerfi í tölvuna mína. Hef síðan sett upp öll netföng á póstlistanum mínum og er farinn að spjalla við félagana í MSN oft á dag. Alveg virkilega skemmtilegt. Spjalla oft við félaga mína, þá Árna G., Skapta Örn, Kristinn Má, Hauk Þór, Dabba, Guffa, Gunnar Ragnar, Valda, Jón Hákon, Tomma, Geira og marga fleiri. Virkilega gaman af þessu!

05 júní 2003

Varnarmálin - bréf Bandaríkjaforseta til íslenskra stjórnvalda
Á fundi Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra, og Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, með Elizabeth Jones, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í Ráðherrabústaðnum í dag, var lagt fram bréf frá George W. Bush forseta Bandaríkjanna. Ekki hefur verið gert opinbert nákvæmlega um efni bréfsins. Fyrir lá áður en fundurinn hófst að hann væri talinn marka upphaf viðræðna um framtíð varnarsamningsins við Bandaríkin. Viðræður um varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna vegna breyttra aðstæðna í heimsmálum hófust árið 1993. Í janúar 1994 var undirrituð bókun til tveggja ára um framkvæmd varnarsamstarfsins. Með henni var ákveðið að orrustuþotum varnarliðsins skyldi fækkað úr tólf í fjórar. Þá var ákveðið að leggja niður starfsemi hlustunarstöðvar og fjarskiptastöðvar. Árið 1996 var samþykkt ný bókun um framkvæmd varnarsamningsins til næstu fimm ára. Þrátt fyrir að bókunin hafi einungis átt að gilda til ársins 2001 hafa formlegar viðræður um endurnýjun bókunarinnar enn ekki hafist. Óformlegar þreifingar um framhald málsins hafa hins vegar átt sér stað milli embættismanna og stjórnmálamanna ríkjanna undanfarin misseri. Dvöl ráðherrans var stutt en hún hélt af landi brott í dag.

Framtíð varnarsamningsins
Fyrir lá að loknum fundi utanríkismálanefndar undir forsæti Sólveigar Pétursdóttur formanns nefndarinnar, seinnipartinn að Bandaríkjamenn hafi áhuga á að finna nýjar leiðir til að tryggja varnir Íslands. Sagði utanríkisráðherra að loknum fundinum að Íslendingar hafi jafnan talið nauðsynlegt að hafa hér loftvarnir. Það kæmi ekkert fram í bréfi forsetans sem benti til þess að þeir væru á öðru máli í þeim efnum. Sagði ráðherrann að íslensk stjórnvöld myndu svara bréfi forsetans fljótlega og segja þar vel frá því hvernig Íslendingar vilji fara í þær viðræður sem eru framundan væru um þessi mál. Það væri ljóst að málið væri viðkvæmt og alvarlegt og ekki ljóst um lyktir viðræðnanna. Sagði Halldór að Bandaríkjamenn vildu greinilega draga úr herstyrknum hér á landi. Ekki væri þó ljóst hver væri nákvæmur vilji þeirra. Það hefði verið talað um það að hér væru t.d. ekki loftvarnir og hefði verið vísað til þess að slíkar loftvarnir væru í Bandaríkjunum og Bretlandi eða annars staðar. Sagði utanríkisráðherra að það væri fullkomlega ljóst að það gæfi ekki sömu tryggingu og ef þessar varnir væru hér á landi. Framundan eru því athyglisverðar viðræður um framtíð varnarsamningsins. Mikilvægt er að tryggja varnir landsins á komandi árum, vonandi mun nást farsæl lending í þessu máli.

01 júní 2003

Heimasíða opnar
Í dag, sunnudaginn 1. júní, opnaði ný heimasíða mín á slóðinni stebbifr.com. Þótti mér tími til kominn að opna sérhannaða vefsíðu fyrir mig með mínu eigin léni. Í febrúar 2002 opnaði ég heimasíðu í vefkerfi huga.is og hef síðan þá birt alla pistla sem ég hef skrifað um stjórnmál á ýmsum vefsíðum. Einnig var þar að finna ýmsa fróðleiksmola og umfjöllun um það sem mér þótti skipta máli. Útlitsbreytingar hafa verið litlar sem engar á gömlu síðunni og því þótti mér vera kominn tími til að stokka þetta upp. Blasir því við ný heimasíða og gjörbreytt bloggsíða þegar þessi mánuður hefst. Sumarið er tími ferskleikans, tími er oft þá kominn til að breyta til og stokka upp hlutina. Það er því bæði viðeigandi og einkar gott að halda út í sumarið eftir að hafa tekið svo hressilega til í vefsíðumálunum. Á því rúma ári sem liðið er síðan ég opnaði eigin vefsíðu hafa margir litið á síðuna og lesið pistlana og haft samband við mig og rætt málin. Það er mjög mikilvægt að fólk hafi samband og ræði innihald pistlana nú eða bara komi með sín komment á breytt útlit vefsíðanna. Hvet ég alla til að senda mér línu, allir geta það með því að senda póst.

Fyrsti sunnudagspistillinn
Í dag birtist á heimasíðunni fyrsti sunnudagspistillinn minn. Eins og nafnið ber með sér er um að ræða pistla sem birtast á sunnudögum og er þar farið yfir fréttavikuna og það sem hæst ber hverju sinni. Munu þessir pistlar birtast alla sunnudaga, ef svo kynni að fara að lítið væri að frétta mun birtast vangaveltur um eitthvað annað en fréttavikuna. Það er alltaf hægt að finna eitthvað til að tjá sig um. Í vetur er ekki ólíklegt að fréttirnar verði hressilegar af pólitík og þjóðmálum almennt, og nægur efniviður í góða pistla. Í fyrsta sunnudagspistlinum á stebbifr.com fjalla ég um nýja heimasíðu mína sem opnaði í dag, breytingar á ríkisstjórn, nýtt þing sem kom saman í vikunni, nýja þingmenn af nýrri kynslóð, breytingar á forystusveit sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi með brotthvarfi Tómasar Inga Olrich úr stjórnmálum og uppstokkun í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins þar sem nýr leiðtogi hefur tekið við forystunni. Vona ég að fólk hafi gaman af þessum pælingum mínum og væri gaman að heyra í fólki um þetta. Væntanleg er á síðuna póstlistaskráning, en í framtíðinni mun sá kostur vera í boði fyrir fastagesti síðunnar að skrá þar inn netfang sitt og fá þarmeð tilkynningu um nýja pistla á síðuna í pósti, bæði sunnudagspistla og eins aðra pistla sem þarna birtast. Það er því margt framundan - um að gera að fylgjast vel með.