Árið 2004 líður senn í aldanna skaut. Að baki er eftirminnilegt ár fyrir margra hluta sakir. Þess verður í framtíðinni eflaust minnst sem ársins er forseti Íslands hafnaði í fyrsta skipti í lýðveldissögunni að staðfesta lagafrumvarp sem meirihluti þingmanna hafði samþykkt, Davíð Oddsson lét af embætti forsætisráðherra eftir 13 ára samfellda setu, George W. Bush var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna, Yasser Arafat lést, haldið var upp á 100 ára afmæli heimastjórnar að fjarstöddum forseta Íslands sem var á skíðum í Aspen, deilt var um eignarhald á fjölmiðlum, Þórólfur Árnason varð að víkja sem borgarstjóri vegna hneykslismáls og Steinunn Valdís Óskarsdóttir tók við, 20% kjósenda skilaði auðu í forsetakosningum og sitjandi forseti hlaut atkvæði 42% kjósenda á kjörskrá, Halldór Ásgrímsson varð forsætisráðherra, rúmlega 100.000 manns fórust í náttúruhamförum í Asíu, tæplega 200 manns fórust í hryðjuverkaárás á Spáni, Saddam Hussein kom fyrir dómara, Alþingi samþykkti að lækka skatta, tekist var á um stjórnarskrána við undarlegar aðstæður, grunnskólakennarar fóru í langt verkfall og komið var á fót umdeildri Þjóðarhreyfingu svo fátt eitt sé nefnt. Að baki er svo sannarlega merkilegt ár. Í tilefni áramótanna er svo sannarlega tilefni til að líta yfir nokkra hápunkta ársins 2004.
Í ítarlegum pistli mínum, sennilega einum þeim lengsta og ítarlegasta sem ég hef ritað á löngum pistlaferli mínum, sem birtist í dag á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna fer ég yfir árið með mínum hætti og það sem ég tel standa helst eftir þegar litið er yfir árið. Á innlendum vettvangi ber að sjálfsögðu hæst fjölmiðlamálið allt og ferill þess. Í pistlinum rek ég málið allt frá byrjun er nefnd um eignarhald á fjölmiðlum var skipuð í desember 2003 allt til þess að hætt var við fjölmiðlalögin sem samþykkt voru á Alþingi í maí 2004 og forseti Íslands synjaði um samþykki sitt og varð með því fyrsti forsetinn í lýðveldissögunni til að hafna lagafrumvarpi sem meirihluti þingmanna hafði samþykkt. Allt þetta mál var sögulegt og nauðsynlegt að fara yfir það ítarlega og rekja feril þess frá byrjun til enda. Þegar ég settist niður til að skrifa þennan pistil var þetta mál frá upphafi það sem ég taldi nauðsynlegt að rekja ítarlega og fara vel yfir. Vel má vera að frásögnin af þessu eina máli sé löng og yfirskyggi annað í pistlinum, en það er ómögulegt að ég tel að skrifa með krafti um árið 2004 stjórnmálalega séð hérlendis nema taka þetta vel fyrir. Erlendis stendur hæst án nokkurs vafa atburðir seinustu daga í Asíu, en nú hafa rúmlega 130.000 látist vegna náttúruhamfaranna þar á öðrum degi jóla. Þessar hörmungar yfirskyggja allt annað við árslok, hugur allra er hjá fólkinu í Asíu og þeirra sem hafa misst allt sitt og syrgja aðstandendur sína sem hafa farist í þessum hörmungum. Einnig stendur ofarlega að George W. Bush var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna, eftir harðvítuga kosningabaráttu. Var mjög að honum sótt í kosningabaráttunni og margt reynt í þeirri orrahríð. Fylgdist ég mjög mikið með kosningaslagnum og fór til Washington í október, en við í utanríkismálanefnd SUS fórum þá ferð til að kynna okkur bandaríska pólitík og fara á sögufræga staði. Þar kynntumst við öll vel hörkunni sem var í baráttunni að þessu sinni. Hvað mig persónulega varðar var sú ferð hápunktur ársins og tókst hún mjög vel upp og var mjög gagnleg.
Maður ársins 2004
Við áramót er litið yfir sviðið og spurt hver sé maður ársins, hver skaraði framúr og stendur hæst þegar nýtt ár tekur við. Það er enginn vafi í mínum huga að Davíð Oddsson utanríkisráðherra, sé sá sem þann heiður eigi að hljóta að þessu sinni. Á þessu ári var sótt mjög harkalega að Davíð í fjölmiðlamálinu, sem stóð stóran hluta ársins og reyndi mjög á hann. Davíð stóð af sér árásir stjórnarandstöðunnar sem studdar voru af forseta Íslands sem breytti eðli embættis forseta Íslands til að reyna að þóknast forystumönnum stjórnarandstöðunnar og vissum forystumönnum stórfyrirtækjum, svo með ólíkindum var á að horfa. Eðli forsetaembættisins verður sennilega aldrei samt og er reyndar með ólíkindum að Davíð og þeir sem næst honum stóðu í stjórnarsamstarfinu hafi staðið af sér þá atlögu sem fjölmiðlar og forystumenn forsetaembættis og stjórnarandstöðu reyndu að kasta á þá til að reyna að fella stjórn landsins. Hún stóð allt af sér og hélt velli. Forystumenn samstarfsins störfuðu saman áfram af krafti þó hart væri að þeim sótt úr mörgum áttum.
Degi eftir að ríkisstjórnin hafði ákveðið að fella fjölmiðlalög úr gildi veiktist Davíð snögglega og var fluttur á spítala. Við rannsókn kom í ljós staðbundið æxli sem fjarlægt var í skurðaðgerð, varð hann að fara svo á ný í aðgerð í byrjun ágúst. Fréttir af veikindum Davíðs komu mjög óvænt enda hafði hann haft fullt starfsþrek og haft í mörgu að snúast samhliða umræðu um fjölmiðlamálið og var t.d. í viðtölum við fréttamenn vegna þess degi fyrir veikindi sín. Kom persónulegur styrkur Davíðs og fjölskyldu hans vel fram í þessum veikindum hans í sumar. Vegna þessara veikinda var pólitísk staða Davíðs að margra mati í óvissu. Hann sló á þá óvissu eins og honum einum var lagið með glæsilegri fjölmiðlaframkomu á heimili sínu um miðjan ágúst og tilkynnti að hann tæki við embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn ef honum entust kraftar til eftir veikindin. 15. september lét Davíð svo formlega af embætti forsætisráðherra, eins og um hafði verið samið þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur framlengdu samstarf sitt í ríkisstjórn vorið 2003. Hafði Davíð þá setið lengur í forsæti ríkisstjórnar Íslands en nokkur annar; frá 30. apríl 1991, eða í 13 ár, 4 mánuði og 16 daga. Davíð er án vafa maður ársins, hann er sá stjórnmálamaður sem bæði er elskaður og hataður, umdeildur og stendur í fararbroddi í stjórnmálum á Íslandi seinustu áratugi. Árið var hans, þrátt fyrir mótvind og að honum væri sótt og hann veiktist alvarlega stendur hann enn sem risi yfir íslenskum stjórnmálum í árslok, sterkur og öflugur.
Táknrænar svipmyndir ársins 2004 - áramótauppgjör 2004
Oft eru merkustu svipmyndir ársins og atburðir best tjáðar með táknrænum myndum sem einhvernveginn segja allt sem segja þarf um atburðinn. Ekki ætla ég að draga upp margar myndir af árinu, tel mig hafa gert upp árið allavega pólitískt með mínum hætti í löngum pistli sem ég vona að einhverjir hafi jafngaman af og ég hafði af að skrifa hann og gera upp atburði, sem standa merkast pólitískt. Tvær myndir eru að mínu mati lýsandi sem myndir ársins þegar það kveður. Tvær táknrænar myndir. Sú fyrri sýnir einn af kraftmestu leiðtogum Mið-Austurlanda, mann sem hafði ríkt yfir þjóð sinni og verið áberandi til margra áratuga kveðja hinstu kveðju, með táknrænum hætti. Hin seinni lýsir í hnotskurn því mikla afreki sem unnið var í mars með björgun Baldvins Þorsteinssonar, frá Akureyri, sem strandaði í Meðallandsfjöru. Neðar bendi ég á nokkra tengla þar sem farið er yfir 2004 með glæsilegum hætti, svo ómögulegt er að bæta um betur í myndum og máli.
Árið 2004 gert upp
Umfjöllun BBC um 2004
Árið 2004 í máli og myndum
Merkilegar svipmyndir frá árinu 2004
Farið í merkilegri tímalínu yfir merkilegt ár
Kostulegt áramótauppgjör Vef-Þjóðviljans
In memoriam - í minningu eftirminnilegs fólks
Dagurinn í dag
1791 Skólapiltar í Hólavallaskóla í Reykjavík héldu áramótabrennu, þá fyrstu sem fram fór hérlendis
1935 Vilhjálmur Þ. Gíslason síðar útvarpsstjóri, flutti annál ársins í fyrsta skipti í Ríkisútvarpinu að kvöldi gamlársdags. Hann flutti slíkt áramótaávarp til starfsloka hjá RÚV 1967. Allt frá starfslokum Vilhjálms hafa eftirmenn hans í embætti haldið þessari hefð að flytja ávarp að kvöldi gamlársdags
1956 Styrkir úr rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins voru veittir í fyrsta skipti - þá voru heiðraðir þeir Snorri Hjartarson og Guðmundur Frímann. Margir helstu rithöfundar okkar hafa hlotið viðurkenningu
1964 Ólafur Thors fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, lést, 72 ára að aldri. Ólafur sat á Alþingi í 38 ár, allt frá 1926 til dauðadags. Hann var formaður Sjálfstæðisflokksins, lengst allra í sögu hans, eða í 27 ár, 1934-1961. Ólafur Thors myndaði ráðuneyti alls fimm sinnum á löngum stjórnmálaferli, oftar en aðrir. Ólafur var frábær ræðumaður og gleymist seint ræðusnilld hans
1999 Boris Yeltsin forseti Rússlands, segir af sér embætti í áramótaræðu á skrifstofu sinni í Kreml. Kom afsögn hans mjög óvænt, enda hafði verið talið að hann myndi sitja í embætti þar til kjörtímabili hans lyki í júní 2000. Eftirmaður hans í embætti varð Vladimir Putin forsætisráðherra. Var Putin svo kjörinn forseti í mars 2000 og endurkjörinn með yfirburðum í mars 2004 og situr í embætti til 2008
Snjallyrði dagsins
Nú árið er liðið í aldanna skaut
og aldrei það kemur til baka,
nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,
en minning þess víst skal þó vaka.
En hvers er að minnast? Og hvað er það þá,
sem helst skal í minningu geyma?
Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá,
það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.
En miskunnsemd Guðs má ei gleyma.
Nú Guði sé lof fyrir gleðilegt ár
og góðar og frjósamar tíðir,
og Guði sé lof, því að grædd urðu sár,
og Guði sé lof, því að dögg urðu tár.
Allt breyttist í blessun um síðir.
Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár
og góðar og blessaðar tíðir.
Gef himneska dögg gegnum harmanna tár,
gef himneskan frið fyrir lausnarans sár
og eilífan unað um síðir.
Valdimar Briem (1848-1930) (Nú árið er liðið)
Ég sendi mínar bestu óskir um gleðilegt og farsælt ár til lesenda vefsins!