Paul Martin forsætisráðherra Kanada, rauf kanadíska þingið í dag og boðaði til kosninga í landinu þann 23. janúar nk. Fór hann á fund Michaëlle Jean landsstjóra Kanada, og bað hana um að leysa upp þingið. Samþykkti hún það og tilkynnti Martin um kjördag og ákvörðun landsstjórans á blaðamannafundi að fundinum loknum. Martin neyddist til að boða til kosninga eftir að stjórn hans féll í vantraustskosningu á kanadíska þinginu í gærkvöldi. Studdu bara frjálslyndir stjórnina undir lokin - annar stuðningur hafði gufað upp. Samþykktu 171 þingmenn vantraustið en 133 greiddu atkvæði gegn því. Stefnir því í fyrstu kosningar í landinu að vetrarlagi í rúma tvo áratugi, eða frá árinu 1984. Martin varð forsætisráðherra þann 12. desember 2003, er forveri hans, Jean Chretien, sagði af sér eftir tíu ára valdaferil. Frjálslyndir komust til valda undir forystu Chretien árið 1993. Þá varð Martin fjármálaráðherra. Hann var rekinn úr stjórninni árið 2002 er hann lýsti yfir leiðtogaframboði gegn Chretien. Svo fór að Chretien boðaði brotthvarf sitt úr stjórnmálum á árinu 2003 og Martin beið á hliðarlínunni, eftir því að leiðtogaskipti yrðu. Hann varð svo eftirmaður Chretien sem leiðtogi flokksins og forsætisráðherra við brotthvarf hans.
Tók Martin við öflugum þingmeirihluta úr valdatíð Chretien, sem sigrað hafði með afgerandi hætti í þrem þingkosningum. Ákvað hann að sækjast eftir umboði landsmanna til valda. Boðaði hann til kosninga sumarið 2004. Fór svo að Frjálslyndi flokkurinn missti afgerandi stöðu sína, en var áfram stærsti flokkur landsins. Var mynduð minnihlutastjórn undir forsæti Martins. Hafði hún setið í sautján mánuði er hún féll í gær. Hafði forsætisráðherranum tekist að komast nokkrum sinnum hjá falli stjórnarinnar. Í maímánuði lagði stjórnarandstaðan fram vantraust á stjórnina. Tókst frjálslyndum þá naumlega að komast hjá falli. Einu atkvæði munaði þá hvort stjórnin félli eða héldi völdum. Tæpara mátti það því vart vera í það skiptið. Eftir kosninguna í þinginu voru atkvæðin jöfn og fór þá svo að forseti þingsins greiddi oddaatkvæðið með stjórninni, enda er hann þingmaður Frjálslynda flokksins. Segja má að vendipunktur alls málsins hafi verið innganga Belindu Stronach þingmanns kanadíska Íhaldsflokksins, í Frjálslynda flokkinn. Varð hún þá ráðherra í stjórn Martins og Frjálslynda flokksins. Það blasir við að atkvæði hennar veitti Frjálslynda flokknum oddastuðning. Það dugði ekki til í gær, enda höfðu nýjir demókratar hætt stuðningi við stjórnina.
Það voru spillingarmál sem einkum urðu stjórn Martins að falli. Frjálslyndi flokkurinn var sakaður um peningaþvætti og fjárspillingu í valdatíð sinni undir forystu Chretien. Var í raun að mestu um að ræða upplýsingar um að ráðamenn flokksins hefðu greitt ýmsum vildarvinum hans um 100 milljónir dollara, jafnvirði um 5.400 milljóna króna, fyrir auglýsingaverkefni og framkvæmdir sem voru ekkert nema sýndarmennska. Martin tengist málinu óverulega sjálfur, en margir aðrir forystumenn flokksins, þar á meðal forveri hans, eru mun meira í kjarna þessa hitamáls. En það hefur hvílt sem mara yfir verkum Martins eftir valdaskiptin í desember 2003. Segja má að Chretien og nánir samstarfsmenn hans hafi yfirfært skandalinn á Martin, sem í margra huga er táknmynd vandans, enda er hann nú við völd af hálfu flokksins. Við blasir að mikil valdþreyta er komin í frjálslynda og þetta mál sligar þá mjög, enda hafa lög að öllum líkindum verið brotin. Rannsókn á málinu hefur staðið nokkurn tíma og niðurstaða gæti komið á hverri stundu. Blasir við að vont verður fyrir frjálslynda að fara inn í kosningabaráttu með málið á bakinu.
Í dag beindi Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þeim tilmælum til stjórnar Byggðastofnunar og Aðalsteins Þorsteinssonar forstjóra, að lánastarfsemi verði hafin að nýju þrátt fyrir að hlutfall eiginfjár stofnunarinnar sé komið niður fyrir þau 8% sem áskilin eru í lögum um fjármálafyrirtæki. Ekki er gert ráð fyrir því að Byggðastofnun haldi áfram lánastarfsemi til lengdar í núverandi mynd og ekki er gert ráð fyrir að stofnuninni verði lagt til nýtt fé. Þetta er alveg ótrúleg ákvörðun í ljósi allra aðstæðna. Mér finnst með ólíkindum að ríkisstjórnin taki undir þessa þvælu í ráðherranum. Er algjörlega ósammála þessum vinnubrögðum. Hef ég reyndar verið lengi þeirrar skoðunar að Byggðastofnun sé barn síns tíma og orðin með öllu óþörf. Engin þörf sé á aðkomu ríkisins á þennan markað. Kostulegt hefur annars verið seinustu daga að fylgjast með hnútuköstum Valgerðar og Kristins H. um Byggðastofnun. Það er óhætt að segja að snarki af skrifum Valgerðar á vef sínum um Kristinn og skrif hans á sínum vef fyrir um viku. Þar kallar hún Kristinn andstæðing sinn í stjórnmálastarfi. Það er óhætt að segja að andi köldu milli Valgerðar og Kristins H.
Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur samþykkt eftirfarandi ályktun: "Samband ungra sjálfstæðismanna gagnrýnir harðlega þá framgöngu Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að fara fram á það við stjórn og forstjóra Byggðastofnunar að stofnunin lánastarfsemi að nýju, þrátt fyrir að eiginfjárhlutfall stofnunarinnar sé komið niður fyrir þau mörk sem áskilin eru í lögum um fjármálafyrirtæki. Telur SUS það forkastanlegt af hálfu ráðherrans að hvetja til lögbrota með þessum hætti. SUS bendir á að þær stofnanir sem í hlut eiga, þ.e. Byggðastofnun og Fjármálaeftirlitið, sem fer með eftirlit með starfsemi Byggðastofnunar, heyra báðar undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra. SUS hvetur til þess að vonlausum lífgungartilraunum á úreltri ríkisstofnun verði hætt þegar í stað. Hafi Byggðastofnun á einhverjum tíma átt tilverurétt, þá er sá tími löngu liðinn nú þegar bæði fyrirtæki og einstaklingar geta nálgast lánsfé á almennum markaði á góðum kjörum." Traust og góð ályktun - mjög góð.
Það er ekki hægt annað en að lýsa yfir ánægju með þá ákvörðun RÚV að gefa út gamla fréttaannála Sjónvarpsins á DVD-diskum. Er byrjað á fréttaannáli ársins 2004. Það var auðvitað sögulegt ár í stjórnmálum. Forseti synjaði lögum sem réttkjörinn þingmeirihluti hafði samþykkt og forsætisráðherraskipti urðu er Davíð Oddsson lét af embætti eftir lengsta samfellda setu á forsætisráðherrastóli hérlendis, rúm þrettán ár. Er þetta fyrsti diskurinn, en í byrjun nýs árs verða eldri fréttaannálar endurútgefnir í öskjum sem innihalda fimm mynddiska. Er mikið ánægjuefni fyrir áhugamenn um fréttir að geta keypt sér gamla annála og kynnt sér fréttatíðindi liðinna ára í myndformi. Á þessum fyrsta diski er ennfremur fjórar fréttaskýringar úr þættinum Í brennidepli, atriði úr Spaugstofunni og íþróttaannáll ársins 2004.
Eins og fram kom í bloggfærslu sunnudagsins birtist á laugardag ítarlegur pistill minn á vef SUS um stjórnarmyndanir í forsetatíð dr. Kristjáns Eldjárns, 1968-1980. Fékk ég góð viðbrögð við þessum pistli og vil nota tækifærið og þakka fyrir þá pósta sem ég fékk í kjölfar hans. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á sagnfræðilegum málum og þótti rétt í tilefni útgáfu bókarinnar Völundarhús valdsins eftir Guðna Th. Jóhannesson að rita um þessi mál. Fannst mér svo athyglisvert að sjá umfjöllun Kastljóss í gærkvöldi vegna útkomu bókarinnar. Bendi ég lesendum á að horfa á hana.
Saga gærdagsins
1700 Nýi stíll, núverandi tímatal (gregoríanískt) tók gildi - dagarnir 7. - 17. nóv. felldir niður það ár.
1921 Rússneskur strákur sem Ólafur Friðriksson ritstjóri, hafði haft með sér til landsins mánuði áður, var sendur utan. Drengurinn var haldinn sjaldgæfum augnsjúkdómi og kom til harðra átaka þegar að lögregla sótti hann heim til Ólafs. Málið olli allnokkrum deilum og átökum í íslensku þjóðlífi í mörg ár.
1975 Héraðið A-Tímor hlýtur sjálfstæði frá Portúgal - heyrði svo undir Indónesíu allt til ársins 1999.
1990 Margaret Thatcher lét af embætti sem forsætisráðherra Bretlands og leiðtogaembætti breska Íhaldsflokksins, eftir að setið í embætti forsætisráðherra lengur en nokkur stjórnmálamaður frá því á átjándu öld, í rúm 11 ár. John Major sem kjörinn hafði verið leiðtogi flokksins, daginn áður, tók við.
1994 Kjósendur í Noregi hafna naumlega í þjóðaratkvæðagreiðslu aðild Noregs að Evrópusambandinu
Saga dagsins
1211 Páll Jónsson biskup að Skálholti, lést, 56 ára að aldri - hann var sonur Jóns Loftssonar og varð biskup í Skálholti árið 1195. Steinkista Páls biskups fannst við fornleifauppgröft við Skálholt árið 1954.
1906 Fánasöngur Einars Benediktssonar skálds, Rís þú Íslands unga merki, var fluttur í fyrsta skipti á almennum fundi í Iðnaðarmannahúsinu í Reykjavík. Það var samið við fagurt lag Sigfúsar Einarssonar.
1963 Lyndon Baines Johnson forseti Bandaríkjanna, skipar formlega rannsóknarnefnd til að stjórna rannsókn á morðinu á John F. Kennedy. Formaður nefndarinnar var Earl Warren forseti hæstaréttar.
1986 Leikarinn Cary Grant lést, 82 ára að aldri - Grant lék í mörgum af bestu myndum aldarinnar. Hann hætti leik árið 1966. Leikur hans einkenndist jafnan af fáguðu yfirbragði og fínlegu skopskyni.
2001 Söngvarinn George Harrison lést úr krabbameini, 58 ára að aldri. Harrison var í hljómsveitinni The Beatles allt frá stofnun árið 1962 til loka árið 1970. Harrison var almennt nefndur þögli bítillinn.
Snjallyrðið
I cannot and will not cut my conscience to fit this year's fashion.
Lillian Hellman rithöfundur (1907-1984)