Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 nóvember 2005

Stephen Harper og Paul Martin

Paul Martin forsætisráðherra Kanada, rauf kanadíska þingið í dag og boðaði til kosninga í landinu þann 23. janúar nk. Fór hann á fund Michaëlle Jean landsstjóra Kanada, og bað hana um að leysa upp þingið. Samþykkti hún það og tilkynnti Martin um kjördag og ákvörðun landsstjórans á blaðamannafundi að fundinum loknum. Martin neyddist til að boða til kosninga eftir að stjórn hans féll í vantraustskosningu á kanadíska þinginu í gærkvöldi. Studdu bara frjálslyndir stjórnina undir lokin - annar stuðningur hafði gufað upp. Samþykktu 171 þingmenn vantraustið en 133 greiddu atkvæði gegn því. Stefnir því í fyrstu kosningar í landinu að vetrarlagi í rúma tvo áratugi, eða frá árinu 1984. Martin varð forsætisráðherra þann 12. desember 2003, er forveri hans, Jean Chretien, sagði af sér eftir tíu ára valdaferil. Frjálslyndir komust til valda undir forystu Chretien árið 1993. Þá varð Martin fjármálaráðherra. Hann var rekinn úr stjórninni árið 2002 er hann lýsti yfir leiðtogaframboði gegn Chretien. Svo fór að Chretien boðaði brotthvarf sitt úr stjórnmálum á árinu 2003 og Martin beið á hliðarlínunni, eftir því að leiðtogaskipti yrðu. Hann varð svo eftirmaður Chretien sem leiðtogi flokksins og forsætisráðherra við brotthvarf hans.

Tók Martin við öflugum þingmeirihluta úr valdatíð Chretien, sem sigrað hafði með afgerandi hætti í þrem þingkosningum. Ákvað hann að sækjast eftir umboði landsmanna til valda. Boðaði hann til kosninga sumarið 2004. Fór svo að Frjálslyndi flokkurinn missti afgerandi stöðu sína, en var áfram stærsti flokkur landsins. Var mynduð minnihlutastjórn undir forsæti Martins. Hafði hún setið í sautján mánuði er hún féll í gær. Hafði forsætisráðherranum tekist að komast nokkrum sinnum hjá falli stjórnarinnar. Í maímánuði lagði stjórnarandstaðan fram vantraust á stjórnina. Tókst frjálslyndum þá naumlega að komast hjá falli. Einu atkvæði munaði þá hvort stjórnin félli eða héldi völdum. Tæpara mátti það því vart vera í það skiptið. Eftir kosninguna í þinginu voru atkvæðin jöfn og fór þá svo að forseti þingsins greiddi oddaatkvæðið með stjórninni, enda er hann þingmaður Frjálslynda flokksins. Segja má að vendipunktur alls málsins hafi verið innganga Belindu Stronach þingmanns kanadíska Íhaldsflokksins, í Frjálslynda flokkinn. Varð hún þá ráðherra í stjórn Martins og Frjálslynda flokksins. Það blasir við að atkvæði hennar veitti Frjálslynda flokknum oddastuðning. Það dugði ekki til í gær, enda höfðu nýjir demókratar hætt stuðningi við stjórnina.

Það voru spillingarmál sem einkum urðu stjórn Martins að falli. Frjálslyndi flokkurinn var sakaður um peningaþvætti og fjárspillingu í valdatíð sinni undir forystu Chretien. Var í raun að mestu um að ræða upplýsingar um að ráðamenn flokksins hefðu greitt ýmsum vildarvinum hans um 100 milljónir dollara, jafnvirði um 5.400 milljóna króna, fyrir auglýsingaverkefni og framkvæmdir sem voru ekkert nema sýndarmennska. Martin tengist málinu óverulega sjálfur, en margir aðrir forystumenn flokksins, þar á meðal forveri hans, eru mun meira í kjarna þessa hitamáls. En það hefur hvílt sem mara yfir verkum Martins eftir valdaskiptin í desember 2003. Segja má að Chretien og nánir samstarfsmenn hans hafi yfirfært skandalinn á Martin, sem í margra huga er táknmynd vandans, enda er hann nú við völd af hálfu flokksins. Við blasir að mikil valdþreyta er komin í frjálslynda og þetta mál sligar þá mjög, enda hafa lög að öllum líkindum verið brotin. Rannsókn á málinu hefur staðið nokkurn tíma og niðurstaða gæti komið á hverri stundu. Blasir við að vont verður fyrir frjálslynda að fara inn í kosningabaráttu með málið á bakinu.

Valgerður Sverrisdóttir

Í dag beindi Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þeim tilmælum til stjórnar Byggðastofnunar og Aðalsteins Þorsteinssonar forstjóra, að lánastarfsemi verði hafin að nýju þrátt fyrir að hlutfall eiginfjár stofnunarinnar sé komið niður fyrir þau 8% sem áskilin eru í lögum um fjármálafyrirtæki. Ekki er gert ráð fyrir því að Byggðastofnun haldi áfram lánastarfsemi til lengdar í núverandi mynd og ekki er gert ráð fyrir að stofnuninni verði lagt til nýtt fé. Þetta er alveg ótrúleg ákvörðun í ljósi allra aðstæðna. Mér finnst með ólíkindum að ríkisstjórnin taki undir þessa þvælu í ráðherranum. Er algjörlega ósammála þessum vinnubrögðum. Hef ég reyndar verið lengi þeirrar skoðunar að Byggðastofnun sé barn síns tíma og orðin með öllu óþörf. Engin þörf sé á aðkomu ríkisins á þennan markað. Kostulegt hefur annars verið seinustu daga að fylgjast með hnútuköstum Valgerðar og Kristins H. um Byggðastofnun. Það er óhætt að segja að snarki af skrifum Valgerðar á vef sínum um Kristinn og skrif hans á sínum vef fyrir um viku. Þar kallar hún Kristinn andstæðing sinn í stjórnmálastarfi. Það er óhætt að segja að andi köldu milli Valgerðar og Kristins H.

Samband ungra sjálfstæðismanna

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur samþykkt eftirfarandi ályktun: "Samband ungra sjálfstæðismanna gagnrýnir harðlega þá framgöngu Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að fara fram á það við stjórn og forstjóra Byggðastofnunar að stofnunin lánastarfsemi að nýju, þrátt fyrir að eiginfjárhlutfall stofnunarinnar sé komið niður fyrir þau mörk sem áskilin eru í lögum um fjármálafyrirtæki. Telur SUS það forkastanlegt af hálfu ráðherrans að hvetja til lögbrota með þessum hætti. SUS bendir á að þær stofnanir sem í hlut eiga, þ.e. Byggðastofnun og Fjármálaeftirlitið, sem fer með eftirlit með starfsemi Byggðastofnunar, heyra báðar undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra. SUS hvetur til þess að vonlausum lífgungartilraunum á úreltri ríkisstofnun verði hætt þegar í stað. Hafi Byggðastofnun á einhverjum tíma átt tilverurétt, þá er sá tími löngu liðinn nú þegar bæði fyrirtæki og einstaklingar geta nálgast lánsfé á almennum markaði á góðum kjörum." Traust og góð ályktun - mjög góð.

SjónvarpsÖldin

Það er ekki hægt annað en að lýsa yfir ánægju með þá ákvörðun RÚV að gefa út gamla fréttaannála Sjónvarpsins á DVD-diskum. Er byrjað á fréttaannáli ársins 2004. Það var auðvitað sögulegt ár í stjórnmálum. Forseti synjaði lögum sem réttkjörinn þingmeirihluti hafði samþykkt og forsætisráðherraskipti urðu er Davíð Oddsson lét af embætti eftir lengsta samfellda setu á forsætisráðherrastóli hérlendis, rúm þrettán ár. Er þetta fyrsti diskurinn, en í byrjun nýs árs verða eldri fréttaannálar endurútgefnir í öskjum sem innihalda fimm mynddiska. Er mikið ánægjuefni fyrir áhugamenn um fréttir að geta keypt sér gamla annála og kynnt sér fréttatíðindi liðinna ára í myndformi. Á þessum fyrsta diski er ennfremur fjórar fréttaskýringar úr þættinum Í brennidepli, atriði úr Spaugstofunni og íþróttaannáll ársins 2004.

Dr. Kristján Eldjárn forseti

Eins og fram kom í bloggfærslu sunnudagsins birtist á laugardag ítarlegur pistill minn á vef SUS um stjórnarmyndanir í forsetatíð dr. Kristjáns Eldjárns, 1968-1980. Fékk ég góð viðbrögð við þessum pistli og vil nota tækifærið og þakka fyrir þá pósta sem ég fékk í kjölfar hans. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á sagnfræðilegum málum og þótti rétt í tilefni útgáfu bókarinnar Völundarhús valdsins eftir Guðna Th. Jóhannesson að rita um þessi mál. Fannst mér svo athyglisvert að sjá umfjöllun Kastljóss í gærkvöldi vegna útkomu bókarinnar. Bendi ég lesendum á að horfa á hana.

Saga gærdagsins
1700 Nýi stíll, núverandi tímatal (gregoríanískt) tók gildi - dagarnir 7. - 17. nóv. felldir niður það ár.
1921 Rússneskur strákur sem Ólafur Friðriksson ritstjóri, hafði haft með sér til landsins mánuði áður, var sendur utan. Drengurinn var haldinn sjaldgæfum augnsjúkdómi og kom til harðra átaka þegar að lögregla sótti hann heim til Ólafs. Málið olli allnokkrum deilum og átökum í íslensku þjóðlífi í mörg ár.
1975 Héraðið A-Tímor hlýtur sjálfstæði frá Portúgal - heyrði svo undir Indónesíu allt til ársins 1999.
1990 Margaret Thatcher lét af embætti sem forsætisráðherra Bretlands og leiðtogaembætti breska Íhaldsflokksins, eftir að setið í embætti forsætisráðherra lengur en nokkur stjórnmálamaður frá því á átjándu öld, í rúm 11 ár. John Major sem kjörinn hafði verið leiðtogi flokksins, daginn áður, tók við.
1994 Kjósendur í Noregi hafna naumlega í þjóðaratkvæðagreiðslu aðild Noregs að Evrópusambandinu

Saga dagsins
1211 Páll Jónsson biskup að Skálholti, lést, 56 ára að aldri - hann var sonur Jóns Loftssonar og varð biskup í Skálholti árið 1195. Steinkista Páls biskups fannst við fornleifauppgröft við Skálholt árið 1954.
1906 Fánasöngur Einars Benediktssonar skálds, Rís þú Íslands unga merki, var fluttur í fyrsta skipti á almennum fundi í Iðnaðarmannahúsinu í Reykjavík. Það var samið við fagurt lag Sigfúsar Einarssonar.
1963 Lyndon Baines Johnson forseti Bandaríkjanna, skipar formlega rannsóknarnefnd til að stjórna rannsókn á morðinu á John F. Kennedy. Formaður nefndarinnar var Earl Warren forseti hæstaréttar.
1986 Leikarinn Cary Grant lést, 82 ára að aldri - Grant lék í mörgum af bestu myndum aldarinnar. Hann hætti leik árið 1966. Leikur hans einkenndist jafnan af fáguðu yfirbragði og fínlegu skopskyni.
2001 Söngvarinn George Harrison lést úr krabbameini, 58 ára að aldri. Harrison var í hljómsveitinni The Beatles allt frá stofnun árið 1962 til loka árið 1970. Harrison var almennt nefndur þögli bítillinn.

Snjallyrðið
I cannot and will not cut my conscience to fit this year's fashion.
Lillian Hellman rithöfundur (1907-1984)

27 nóvember 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um tvö fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fer ég yfir litlausa stjórnmálaumræðu seinustu vikna. Fer ég yfir nokkra punkta sem þar bera hæst, t.d. málefnalega fátækt Samfylkingarinnar og leiðtoga hennar, fangaflugið, forsætisráðherrann, för forsetahjónanna til Mónakó við embættistöku furstans, skrifin á vef SUS og vegsauka Alfreðs Þorsteinssonar er hann hættir stjórnmálaþátttöku. Nokkur deyfð hefur verið yfir þinginu. Átök hafa þó verið um fjárlög. Þar er nýlega lokið annarri umræðu og stefnir í að fjárlögin verði samþykkt vel fyrir jólaleyfi þingmanna. Stjórnarandstaðan er í sama gírnum og venjulega í þeirri umræðu.

Frumvarpið er vandað og gott – mikill afgangur fyrirsjáanlegur á ríkiskassanum og því úr litlu að moða fyrir stjórnarandstöðuna. Það er þó reynt að tjalda til öllum mögulegum og ómögulegum nöldurpunktum og skreyta andstæðingarnir sig með þeim lítt veglega búnaði í umræðunni. Sérstaklega fannst mér koma vel fram að stjórnarandstaðan er algjörlega málefnalega fátæk þegar það eina sem þau gátu fundið að í umræðunni væri að menntamálaráðherra væri stödd erlendis í embættiserindum og að nokkrir ráðherrar væru ekki staddir í salnum. Þar voru þó bæði forsætis- og fjármálaráðherra sem auðvitað gátu svarað öllum spurningum um fjárlögin og tekið umræðuna frá öllum þeim hliðum sem máli skiptir. Stjórnarandstaðan sannaði með tali sínu hversu illa hún stendur.

- í öðru lagi fjalla ég um þau þáttaskil sem fylgja því að Angela Merkel hefur tekið við kanslaraembættinu í Þýskalandi, fyrst kvenna. Er hún áttundi stjórnmálamaðurinn sem er kanslari frá stríðslokum. Forverar hennar í embættinu eru: Konrad Adenauer, Ludwig Erhard, Kurt Georg Kiesinger, Willy Brandt, Helmut Schmidt, Helmut Kohl og Gerhard Schröder. Angela Merkel er þriðji kanslari sameinaðs Þýskalands - en austrið og vestrið voru sameinuð árið 1990 eftir fall Berlínarmúrsins árið áður. Það er því enginn vafi á því að söguleg þáttaskil verða með því að hún tekur við æðsta valdaembættinu í landinu.


Stjórnarmyndanir í forsetatíð
dr. Kristjáns Eldjárns


Dr. Kristján Eldjárn forseti

Nýlega kom út bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings, Völundarhús valdsins. Byggist bókin á ítarlegum minnispunktum og dagbókum dr. Kristjáns Eldjárns, þriðja forseta íslenska lýðveldisins, frá því í forsetatíð hans 1968-1980. Er þar sjónum einkum beint að stjórnarmyndunum í forsetatíð hans og því hvernig hann hélt á þeim málum á ferli sínum. Áður hefur verið fjallað um ævi og forsetaferil Kristjáns í ævisögu hans sem rituð var af Gylfa Gröndal og kom út árið 1991. Seinni hluti forsetaferils Kristjáns einkenndist af hörðum stjórnarkreppum og því þurfti hann sem forseti að grípa til þess að taka ákvarðanir sem leiddu til þess hvernig ferlið vannst að lokum. Er ljóst að forseti Íslands getur með aðkomu sinni að þeim málum haft veruleg söguleg áhrif. Í ítarlegum pistli mínum á vef SUS í gær fór ég yfir sögulega þróun stjórnarmyndana í forsetatíð Kristjáns og hvernig hann er metinn í sögubókunum eftir feril sinn í embættinu.

Dr. Kristján Eldjárn var kjörinn forseti Íslands með afgerandi hætti í forsetakosningunum 30. júní 1968. Bar hann þar sigurorð af dr. Gunnari Thoroddsen, sem verið hafði um árabil einn af helstu leiðtogum Sjálfstæðisflokksins. Hann hafði horfið úr sviðsljósi stjórnmálanna árið 1965 og látið af embætti fjármálaráðherra og varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum og tekið við sendiherraembætti í Kaupmannahöfn. Var Gunnar tengdasonur annars forseta lýðveldisins, Ásgeirs Ásgeirssonar. Hlaut Kristján 2/3 greiddra atkvæða og komu yfirburðir hans mörgum að óvörum á sínum tíma. Tók Kristján við embætti þann 1. ágúst 1968. Strax þá varð ljóst að þáttaskil höfðu átt sér stað. Vel menntaður alþýðumaður norðan úr landi hafði sigrað þekktan stjórnmálamann til fjölda áratuga. Einkennandi þóttu með þessu áhrif tíðarandans. Þá þótti í tísku að vera á móti ráðandi öflum og varð Kristján holdgervingur þess að fólk vildi aðrar áherslur og aðra nálgun á forsetaembættið en hefðu ella orðið með kjöri Gunnars í embættið.

Kristján fæddist að Tjörn í Svarfaðardal þann 6. desember 1916. Hann nam fornleifafræði við Kaupmannahafnarháskóla 1936-1939 og var skipaður þjóðminjavörður 1947 og gegndi embættinu allt þar til hann tók við forsetaembætti. Kristján þótti á tólf ára forsetaferli vera forseti fólksins – alþýðumaður sem auðnaðist að tryggja samstöðu landsmanna um verk sín og naut virðingar allra landsmanna. Hann var ólíkur því sem við kynntumst síðar í embættinu. Hann fór í langa göngutúra á Álftanesi, ferðaðist lítið og þótti vera táknmynd alþýðleika hérlendis ásamt eiginkonu sinni, Halldóru Ingólfsdóttur Eldjárn. Deilt var meira að segja um það í kosningabaráttunni 1968 að Kristján væri litlaus og kona hans hefði sést í fatnaði frá Hagkaupsverslunum, svokölluðum Hagkaupssloppi. Lægra þótti háttsettum ekki hægt að komast en að sjást í slíkum alþýðufatnaði. En Kristjáni og Halldóru auðnaðist að tryggja samstöðu um embættið og eru metin með þeim hætti í sögubókunum, nú löngu eftir að hann lét af embætti.

Ég hvet alla lesendur til að líta á pistilinn og kynna sér stjórnarmyndanir í forsetatíð Kristjáns og skoðanir mínar á þeim málum. Ennfremur hvet ég auðvitað alla til að lesa bók Guðna Th. og ævisögu Kristjáns eftir Gylfa Gröndal.

Saga gærdagsins
1594 Tilskipun þess efnis að Grallarinn (Graduale) skyldi notaður sem messusöngbók á Hólum og Skálholti tók gildi - bókin var gefin út hérlendis af Guðbrandi Þorlákssyni biskup á Hólum í Hjaltadal.
1943 Kvikmyndin Casablanca sem skartaði Humphrey Bogart og Ingrid Bergman í aðalhlutverkum, var frumsýnd - myndin sló mjög í gegn um allan heim og hlaut óskarinn sem besta kvikmyndin árið 1944.
1981 Útgáfa DV hófst - þá sameinuðust Dagblaðið og Vísir í eitt blað - Vísir hafði komið út frá 1910 en Dagblaðið frá 1975. DV varð svo gjaldþrota 2003 en hélt áfram að koma út af hálfu nýrra eigenda.
1981 Veitinga- og skemmtistaðurinn Broadway við Álfabakka í Reykjavík var opnaður - lokaði 1990.
1992 Tilkynnt í breska þinginu að Elísabet II Englandsdrottning, hafi ákveðið að eigin ósk að borga skatta. Fram að þeim tíma hafði aldrei tíðkast að þjóðhöfðingi Englands borgaði skatta til ríkissjóðs.

Saga dagsins
1896 Grímur Thomsen skáld, lést, 76 ára að aldri. Hann starfaði mjög lengi í utanríkisþjónustu Dana, bjó síðar á Bessastöðum og sat t.d. á Alþingi. Meðal þekktustu kvæða Gríms er t.d. Á Sprengisandi.
1956 Vilhjálmur Einarsson, 22 ára háskólanemi, vann til silfurverðlauna í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu. Vilhjálmur stökk þá 16,25 metra, sem var þá bæði Íslands- og Norðurlandamet.
1975 Sjónvarpsmaðurinn og rithöfundurinn Ross McWhirter var myrtur fyrir utan heimili sitt í London - McWhirter var mikill gagnrýnandi IRA og var hann myrtur af leigumorðingjum samtakanna.
1981 Halldóra Bjarnadóttir lést á Blönduósi, 108 ára gömul. Halldóra er sá Íslendingur sem hefur náð hæstum aldri. Hún var kennari og skólastjóri til fjölda ára og gaf svo út ársritið Hlín í marga áratugi.
1990 John Major kjörinn leiðtogi breska Íhaldsflokksins í stað Margaret Thatcher sem verið hafði leiðtogi flokksins í 15 ár og forsætisráðherra Bretlands í 11 ár - Major tók við embætti daginn eftir.

Snjallyrðið
Leadership and learning are indispensable to each other.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna (1917-1963)

24 nóvember 2005

Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson

Merkilegt hefur verið að fylgjast með ritdeilu Morgunblaðsins og Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands, að undanförnu. Um síðustu helgi voru forsetahjónin, Ólafur Ragnar og Dorrit Moussaieff, við embættistöku Alberts fursta af Mónakó. Var forseti Íslands eini þjóðhöfðinginn á staðnum. Fannst mörgum þetta merkilegt. Var ekki fjarri því að margir spyrðu sig að því hvað forsetinn væri að gera á staðnum. Það verður enda vart komið auga á ástæður þess að forseti Íslands af öllum þjóðhöfðingjum ætti þar að vera staddur. Skrifaði Vef-Þjóðviljinn um málið í vikubyrjun og í kjölfarið var fjallað um för forsetans í Staksteinum í Morgunblaðinu. Í gær svaraði forsetinn skrifunum í Staksteina í grein á miðopnu Morgunblaðsins. Þar fór hann yfir málið. Þar kom fram að margar ástæður hafi legið að baki förinni. Ein hafi verið áherslan á tengsl smáríkja, önnur sú að Albert fursti kom til Íslands á Smáþjóðaleikana árið 1997 og sú þriðja að furstinn sé mjög mikill áhugamaður um málefni norðurslóða. Forsetinn sagði í grein sinni það þjóna fjölþættum hagsmunum Íslendinga að vera við athöfnina og að orðalagið í pistli Morgunblaðsins væri ekki við hæfi, er í hlut ætti ríki og furstafjölskylda sem ávallt hefði sýnt Íslendingum vináttu.

Þessi grein forsetans er mjög skondin, svo ekki sé meira sagt. Hana skrifar maður sem vildi ekki fara til Danmerkur við brúðkaup krónprinsins. Það lék enginn vafi á því að þar var komið fram með ómaklegum hætti við konungsfjölskyldu Danmerkur, sem hefði alla tíð sýnt Íslandi mikla tryggð og mikinn sóma í gegnum árin. Ástæðurnar að baki heimveru forsetans í maí 2004 voru enda á miklu reiki. Hann þóttist ekki geta farið vegna aðstæðna hérlendis. Voru þær hreinn fyrirsláttur, enda ljóst að lagafrumvarp það sem orsakaði dramatíska heimkomu hans frá Mexíkó yrði ekki samþykkt á þeim sólarhring sem hann ætti að vera í Kaupmannahöfn. Þingsköp tækju einfaldlega fyrir það að málið færi í gegn með slíkum hraða. Varð enda sú raunin, enda liðu tíu dagar frá áætlaðri för forsetans til Danmerkur þar til lögin voru samþykkt. Þannig að það er greinilegt ósamræmi í tali forseta Íslands. Það er allavega í hæsta máta óeðlilegt að för við embættistöku furstans af Mónakó hafi verið mikilvægari en að fara að brúðkaupi afkomanda þjóðhöfðingja Íslands. Þetta blasir við flestum. Það er þó ekki hægt að segja að ekki sé húmor á Mogganum. Þar er forsetanum svarað í dag með skondnum hætti.

Orðrétt segir: "Staksteinar sjá ástæðu til að þakka forseta Íslands fyrir að bregðast skjótt við tilmælum, sem til hans var beint hér í þessum dálki í fyrradag um að hann upplýsti íslenzku þjóðina um hvers vegna nauðsynlegt væri að forseti, einn þjóðhöfðingja, sækti krýningarathöfn Alberts fursta í Mónakó. Svar forsetans birtist hér í Morgunblaðinu í gær. Nú er sem sagt komið í ljós, að Morgunblaðið hefur ekki áttað sig fyllilega á pólitískri þýðingu þess, að efla tengslin við smáríki á borð við Lichtenstein, Andorra, Kýpur (heimilisfesti þeirra, sem vilja losna undan sköttum á Íslandi) og San Marínó. Og ekki ástæða til að gera lítið úr því. Slík pólitísk tengsl geta t.d. hjálpað til við að finna skattsvikið fé, sem aftur eru rök fyrir því, að Ísland rækti pólitísk tengsl við Tortillaeyjur í Karíbahafinu en þangað liggja t.d. athyglisverðir þræðir úr íslenzku viðskiptalífi. Morgunblaðið hafði heldur ekki áttað sig á því mikilvæga hlutverki, sem Albert fursti gegnir í rannsóknum á norðurslóðum og áhrifum loftslagsbreytinga á lífshætti og náttúru í þeim heimshluta og biðst velvirðingar á því.

Orð forseta Íslands um mikilvægi framlags Alberts fursta verða ekki dregin í efa og sjálfsagt að fylgjast betur með framlagi furstans. Hins vegar er erfitt að skilja athugasemdir forsetans við lýsingu Staksteina á Mónakó. Er það ekki staðreynd, að þar er að finna helztu spilavíti Evrópu og að þar er samkomustaður þotuliðsins? Hvað er ljótt við það? Enginn hefur haldið því fram að forseti Íslands væri orðinn partur af því þotuliði.
" Svo mörg voru þau orð. Eins og flestir vita er ekki vanalegt að forseti og dagblað skrifist á reglulega - nú verður athyglisvert að sjá hvort forseti Íslands pikkar aftur á lyklaborð sitt grein til Morgunblaðsins.

Samband ungra sjálfstæðismanna

Stjórnarfundur Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem haldinn var á Akureyri laugardaginn 19. nóvember sl., samþykkti eftirfarandi ályktun: "Samband ungra sjálfstæðismanna fagnar samkomulagi milli aðila vinnumarkaðsins um breytingar á kjarasamningum. Þar með er tryggt að almennum kjarasamningum verður ekki sagt upp og stöðuleikanum teflt í tvísýnu. Samvinna og traust á milli launþegahreyfinga og atvinnurekenda er grundvöllur fyrir hagstæðum skilyrðum til frekari hagsældar og velmegunar fyrir fólk í landinu. Þess vegna var það mjög mikilvægt að aðilar vinnumarkaðsins öxluðu þá ábyrgð sem á þeim hvíldi og lögðu sitt af mörkum til að tryggja áframhaldandi kaupmáttaraukningu til handa öllum. Undanfarin ár hefur hið opinbera ekki axlað þá ábyrgð sem til þarf til þess að tryggja stöðuleika á vinnumarkaði. Launahækkanir starfsmanna hins opinbera, langt umfram það sem gerist á hinum almenna vinnumarkaði, er frekar til þess að grafa undan stöðuleika og skapa óþolandi togstreitu milli hins opinbera og einkageirans.

Útgjaldaaukning ríkisins undafarin ár er að stærstum hluta að rekja til þessar launahækkana. SUS telur mjög brýnt að framvegis taki ríkið fullt tillit til samkomulags á almennum vinnumarkaði og hagi sínum launasamningum samkvæmt því. SUS mótmælir harðlega því að atvinnuleysisbætur verði tekjutengdar. Samkomulag er meðal fólks að tryggja þurfi sameiginlega velferð þeirra sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu. Samhjálp er mikilvæg og ein undirstaða velferðarsamfélagsins. Því er það mikið óheillaskref að hverfa frá þeirri samstöðu að bæta skuli hag þeirra sem minnst mega sín yfir í það að miða bætur hins opinbera við ákveðin réttindi einstakra hópa burtséð frá efnahag þeirra. SUS lítur svo á að efnameiri einstaklingar séu betur í stakk búnir til að mæta tekjuskerðingu sökum atvinnumissis en þeir efnaminni Jafnframt er mikil hætta á því að tekjutenging atvinnuleysisbóta dragi úr sjálfsbjargarviðleitni og letji fólk til að leita sér að atvinnu.
"

Tony Blair og Angela Merkel

Eins og ég sagði frá hér á þriðjudag hefur Angela Merkel tekið við embætti kanslara Þýskalands. Fyrsta embættisverk hennar var að halda ásamt Frank-Walter Steinmeier utanríkisráðherra, til Parísar í opinbera heimsókn til Jacques Chirac forseta Frakklands. Er það til marks um að Merkel vilji halda áfram tryggum samskiptum Frakklands og Þýskalands. Fræg er náin samvinna Helmut Kohl og Francois Mitterrand hér áður og síðar Jacques Chirac og Gerhard Schröder. Frá París héldu Merkel og Steinmeier til Brüssel og ræddu við forystumenn Evrópusambandsins. Í dag héldu þau í Downingstræti 10 í London og ræddu við Tony Blair forsætisráðherra Bretlands. Það er greinilegt að Merkel ætlar í þessari ferð sinni til lykilborga Evrópu að halda í góð tengsl milli Þýskalands og stjórna þessara landa - tryggja trausta brú og efla tengslin. Það kemur því varla á óvart að næst mun Merkel einmitt halda til Washington og hitta George W. Bush forseta Bandaríkjanna, með það að markmiði að efla tengsl landanna. Þau hafa verið nær við frostmörk síðan að Schröder og stjórn hans neitaði að styðja Bandamenn í innrásinni í Írak í mars 2003. Merkel telur mikilvægt að hafa samskiptin við Bandaríkin betri.

Akureyrarkirkja á aðventu 2003

Í dag er mánuður til jóla. Jólaundirbúningurinn er því að fara af stað hjá flestum af krafti. Skammdegið er skollið á með sínu tilheyrandi myrkri, snjórinn sem fallið hefur seinustu daga hefur lýst upp myrkrið. Á stöku stöðum er fólk farið að setja upp jólaljós og bærinn er óðum að verða jólalegri. Starfsmenn Akureyrarbæjar eru nú í óða önn að koma bænum í jólabúninginn. Aðventa hefst á sunnudag - á laugardag verða kveikt á jólatrénu á Ráðhústorgi sem er gjöf frá vinabæ Akureyringa, Randers í Danmörku. Þá hefst jólaundirbúningur flestra Akureyringa með almennum hætti. Flestir telja óhætt að hefja undirbúninginn þann dag. Þessi stund á Ráðhústorginu er jafnan mikil hátíðarstund í bænum og fólk mætir þar og ræðir saman og á notalega stund. Ávörp munu flytja Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og Preben Smed aðstoðarborgarstjóri í Randers. Lúðrasveit Akureyrar mun leika létt lög við þessa hátíðarstund og stúlknakór Akureyrarkirkju mun syngja nokkur jólalög. Þessi athöfn á torginu er alltaf jafn hátíðleg og fjölmennt er á hana ár hvert. Aðventan er alltaf jafn heillandi og skemmtilegur tími og ekki síður gefandi.

Kvef

Þessi vika hefur verið mjög róleg hjá mér - enda hef ég verið heima nær alla vikuna. Hef verið að ná mér eftir slæmt kvef. Missti ég röddina vegna slæmrar sýkingar í hálsi og var ráðlagt að læknisráði að vera heima meðan það væri að ganga yfir. Er svona að koma allt stig af stigi. Ég er frekar þekktur fyrir það að vera harður af mér og því ekki vanur að slá slöku við þó veikindi sæki að. En það geri ég nú. Annars er merkilegt að vera heima við allan daginn og hafa ekkert fyrir stafni nema lesa bækur eða líta í tölvuna. Það er tilbreytingalaust líf - satt best að segja. En þetta er allt að koma. :)

Saga gærdagsins
1963 Lyndon Baines Johnson tók formlega við embætti forseta Bandaríkjanna, á fyrsta vinnudegi eftir morðið á John F. Kennedy - fyrsta verk Johnson var að skipa rannsóknarnefnd vegna morðsins.
1990 Íslenska alfræðiorðabókin kom út - umfangsmesta bókmenntarit í sögu íslenskra bókmennta.
1995 Björk Guðmundsdóttir var valin söngkona ársins 1995 af áhorfendum tónlistarstöðvarinnar MTV.
1997 Karl Sigurbjörnsson, fimmtugur prestur í Hallgrímskirkju í Reykjavík, var vígður biskup íslensku þjóðkirkjunnar. Karl sem hlotið hafði 58% atkvæða í biskupskjöri, tók við embætti af Ólafi Skúlasyni.
2003 Eduard Shevardnadze sagði af sér embætti forseta Georgíu eftir uppreisn andstöðunnar gegn stjórn landsins. Shevardnadze, sem hafði verið utanríkisráðherra Sovétríkjanna 1985-1990, hafði verið leiðtogi Georgíu í ellefu ár, allt frá árinu 1992. Eftirmaður hans á forsetastóli var Mikhail Saakashvili.

Saga dagsins
1963 Lee Harvey Oswald meintur morðingi Kennedy forseta, myrtur í Dallas - Oswald var skotinn af næturklúbbaeigandanum Jack Ruby í lögreglustöðinni í Dallas í beinni útsendingu sjónvarpsstöðva er flytja átti hann í alríkisfangelsi Texas. Oswald lést síðar um daginn í Parkland sjúkrahúsinu, á sama stað og forsetinn var úrskurðaður látinn tveim dögum áður. Ruby upplýsti aldrei um tildrög morðsins.
1963 Lyndon B. Johnson forseti Bandaríkjanna, tilkynnir í ræðu í bandaríska þinginu um helstu áherslur stjórnar sinnar fram að forsetakosningunum 1964. Eitt aðalatriða í stefnunni var að herlið Bandaríkjanna í Víetnam skyldi styrkt til muna - stríðið leiddi til þess að hann varð sífellt óvinsælli. Hann ákvað að hætta sem forseti árið 1968 og gaf ekki kost á sér til endurkjörs í forsetakjöri það ár.
1989 Kommúnistastjórnin í Tékkóslóvakíu fellur með mildum hætti - bylting stjórnarandstöðuaflanna hefur jafnan verið kölluð flauelsbyltingin sökum þess hversu mildilega hún gekk fyrir sig á endanum.
1991 Freddie Mercury söngvari rokkhljómsveitarinnar Queen, lést úr alnæmi, 45 ára að aldri. Fráfall hans kom mjög óvænt, en aðeins degi áður en hann lést hafði verið tilkynnt formlega að hann væri HIV smitaður. Hann veiktist snögglega af lungnabólgu sem dró hann til dauða. Mercury varð einn af risum rokktónlistarinnar á 20. öld og markaði talsverð þáttaskil með hljómsveit sinni í sögu tónlistar.
1998 Elísabet drottning, tilkynnir um breytingar á starfsemi hinnar sögufrægu bresku lávarðadeildar.

Snjallyrðið
We will always remember. We will always be proud. We will always be prepared, so we will always be free.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004)

22 nóvember 2005

Angela Merkel og Gerhard Schröder

Angela Merkel leiðtogi Kristilega Demókrataflokksins (CDU) í Þýskalandi, var kjörin kanslari Þýskalands í kosningu í þýska sambandsþinginu í Berlín í morgun. 397 þingmenn kusu hana en 202 greiddu atkvæði gegn henni. Er hún áttundi stjórnmálamaðurinn sem er kanslari frá stríðslokum. Hún er þriðji kanslari sameinaðs Þýskalands. Það sem er auðvitað sögulegast við valdatöku hennar er sú að hún er fyrsta konan sem verður kanslari Þýskalands og jafnframt fyrsti A-Þjóðverjinn sem tekur við embættinu. Það er því enginn vafi á því að söguleg þáttaskil verða með því að hún tekur við æðsta valdaembættinu í landinu. Með valdatöku hennar hverfur Gerhard Schröder af hinu pólitíska sviði. Það gerði hann með táknrænum hætti. Er tilkynnt hafði verið um kjör Merkel í embættið labbaði hann til hennar og óskaði henni til hamingju með kjörið. Að því loknu labbaði hann út úr þingsalnum og að því loknu yfirgaf hann þinghúsið og settist upp í bíl sem flutti hann í kanslarabústaðinn þar sem hann sótti fjölskyldu sína. Að því loknu flugu þau til heimilis síns í Hanover. Með þessu yfirgaf hinn 61 árs gamli Schröder sviðsljósið. Margir vilja eflaust vita hvað hann taki sér fyrir hendur nú. Hann hefur gegnt stjórnmálastörfum lengi en þarf nú að halda í aðrar áttir.

Síðar í dag tók hin stóra samsteypa hægri- og vinstriaflanna formlega við völdum. Hefur stjórn af því tagi ekki setið í landinu frá því á miðjum sjöunda áratug 20. aldarinnar, eða 1966-1969. Það verða því óneitanlega gríðarleg þáttaskil með valdatöku hennar. Við Angelu Merkel blasir hinsvegar stórt og erfitt verkefni - er hægt að fullyrða að hveitibrauðsdagar hennar í embætti verði frekar fáir og næg vandræði sjáanleg í stöðunni. Merkel tókst að landa stjórnarsamstarfinu - með miklum fórnum tókst henni að binda hnútana saman. Fá hægrimenn sex ráðherrastóla en kratarnir alls átta. Kanslaraembættið í Þýskalandi er ein áhrifamesta stjórnmálastaða í heiminum í dag, allavega í Evrópu, lykilspilari á pólitísku sviði. Það að kona verði kanslari í Þýskalandi eru stórfréttir, ánægjulegar fréttir í jafnréttisbaráttu kvenna. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í hinum verðandi kanslara og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík. Hún komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl, sem var kanslari Þýskalands samfellt í 16 ár, 1982-1998, og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans.

Angela Merkel er fimmtug, tvífráskilin, nýlega gift í þriðja skiptið og barnlaus – er því með ímynd framakonunnar sem leggur allt í sölurnar fyrir frama á sínum vettvangi. Kaldhæðnislegt er að Angela Merkel skuli taka við embætti í dag. Fimmtán ár eru nú liðin frá því að eitt helsta átrúnaðargoð hennar í stjórnmálum, járnfrúin Thatcher, baðst lausnar frá forsætisráðherraembættinu í Bretlandi. Nú mun reyna á Merkel sem stjórnmálamann er hún tekur við forystu þýskra stjórnmála - hún tekur á sig mikla ábyrgð og bundnar eru miklar vonir við þennan fyrsta kvenkanslara Þýskalands. Getur Merkel glaðst yfir þeim áfanga að ná kanslarastólnum, fyrst kvenna. Mörg verkefni blasa við nýrri stjórn og ráðherrum hennar. Stuðningsmenn hennar binda vonir við að hún standi sig vel og sanni að hún sé öflugur stjórnmálamaður sem ráði við erfið verkefni og áskoranir - andstæðingarnir vona auðvitað að hún misstígi sig. Eitt er víst: vel verður fylgst með verkum hennar og stjórnarinnar fyrstu 100 dagana - hætt er þó við að fjölmiðlar veiti stóru samsteypu fáa hveitibrauðsdaga.

Margaret Thatcher

Í dag eru 15 ár liðin frá því Margaret Thatcher baðst lausnar sem forsætisráðherra Bretlands, eftir að hafa gegnt embættinu í 11 ár. Það blandast engum hugur um að hún yfirgaf ekki stjórnmálaforystu með glöðu geði - enda beið hún ósigur í harðvítugum valdaslag innan flokks síns. Thatcher hafði á valdaferli sínum mikil áhrif á stjórnmálasögu Bretlands og sat lengur en nokkur stjórnmálamaður á forsætisráðherrastóli í Bretlandi á 20. öld. Hún varð leiðtogi breska Íhaldsflokksins árið 1975, en hún hafði setið á þingi af hálfu flokksins fyrir Finchley-kjördæmi frá árinu 1959. Thatcher varð forsætisráðherra í kjölfar þingkosninga í Bretlandi þann 3. maí 1979. Íhaldsflokkurinn vann þá afgerandi sigur og hlaut 43 sæta meirihluta á breska þinginu. Kjör hennar í embætti forsætisráðherra landsins markaði mikil þáttaskil. Vann hún af krafti að breytingum á bresku þjóðlífi frá fyrsta degi í embætti. Umskipti urðu, staða bresks efnahagslífs batnaði gríðarlega, stjórn var komið á útgjöld ríkissjóðs, hlutur ríkisins í efnahagslífinu var minnkaður til muna og síðast en ekki síst tók hún til hendinni og einkavæddi fjölda ríkisfyrirtækja.

Thatcher tók ennfremur á verkalýðsfélögunum og barði þau til hlýðni miskunnarlaust og sagði ómögulegt að láta stjórnast af dyntum þeirra. Er ráðist var að henni vegna verka sinna og hún varð umdeild vegna framgöngu sinnar, spurði hún hvort þeir ætluðu að víkja af leið framfara. Hún myndi hvergi hvika. Fleyg urðu ummæli hennar á flokksþingi Íhaldsflokksins 1980. Járnfrúin, eins og hún var kölluð vegna staðfestu sinnar, fékk sínu framgengt. Þáttaskil höfðu orðið í breskum stjórnmálaheimi og ekkert varð samt aftur. Hún vann stórsigur í þingkosningunum 1983 og jók þingmeirihluta sinn og vann þriðja kosningasigurinn 1987 og þann táknrænasta í sínum huga, enda var með því sýnt fram á að forgangsverkefni hennar nutu stuðnings almennings. Í kjölfar þriðja kosningasigursins tók hún á sig óvinsæl málefni, kom á frægum og óvinsælum nefskatti sem leiddi til þess að persónulegt fylgi hennar minnkaði verulega. Thatcher, sem fram að því hafði verið óumdeild að mestu innan flokksins, fékk á sig mótspyrnu frá andstæðum öflum sem setið höfðu á sér lengi vel. Andstæðingarnir lögðu til atlögu.

Fer ég nánar yfir upphaf endaloka valdaferils Thatchers í umfjöllun á vef SUS í dag. Fyrir rúmum mánuði varð þessi sigursæli leiðtogi breskra hægrimanna á 20. öld áttræð. Í tilefni þess ritaði ég ítarlegan pistil um ævi hennar og litríkan stjórnmálaferil. Ég bendi þeim á þann pistil sem vilja kynna sér nánar ævi þessarar kraftmiklu konu.

Samband ungra sjálfstæðismanna

Stjórnarfundur Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem haldinn var á Akureyri laugardaginn 19. nóvember sl., samþykkti eftirfarandi ályktun: "Samband ungra sjálfstæðismanna fer fram á að íslensk stjórnvöld krefji bandarísk stjórnvöld skýrra svara um hvort fangar, sem sætt hafa pyntingum og ómannúðlegri meðferð, hafi verið fluttir með flugvélum bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, eða annarra aðila á vegum Bandaríkjastjórnar, um íslenska lögsögu. Afar mikilvægt er að öll tvímæli verði tekin af um þetta mál. Ef í ljós kemur að slíkir fangaflutningar hafi átt sér stað um íslenska lögsögu ber íslenskum stjórnvöldum að fordæma slíkt og fá fyrir því fullvissu hjá bandarískum stjórnvöldum að slíkt muni ekki endurtaka sig." Þetta er góð og öflug ályktun - þótti mér og öðrum í stjórn mikilvægt að tjá okkur um þessi mál af hálfu SUS, en þetta hefur verið hitamál í umræðunni nú um nokkurn tíma.

Skopmynd frá Guardian

Óhætt er að segja að Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, hafi komið af stað pólitískum jarðskjálfta í gær með því að biðjast lausnar og segja skilið við Likud-bandalagið. Bendir nú flest til þess að kosningar muni fara fram þann 6. mars nk. Skv. nýrri skoðanakönnun myndi hinn nýji miðjuflokkur forsætisráðherrans verða sigurvegari yrðu kosningar haldnar ný. Myndi flokkurinn fá á bilinu 30-35 þingsæti á þinginu sem telur alls 120 þingsæti. Ef marka má nýjustu könnunina myndi Likud gjalda afhroð og hljóta aðeins um 12-16 þingsæti. Verkamannaflokkurinn myndi ekki bæta miklu við sig frá seinustu kosningum, þar sem hann galt afhroð. Það stefnir því að óbreyttu við að Sharon takist að gjörbreyta stjórnmálalitrófi landsins með ákvörðun sinni. Skopmyndateiknarar Guardian eiga auðvelt með að gera grín að fréttum nútímans - eins og sést hér að ofan.

Elín Hirst

Á sunnudag horfði ég á tvo þætti Elínar Hirst fréttastjóra Sjónvarpsins, um Spænsku veikina - þá gerði hún skömmu fyrir aldamótin. Er þar ítarleg umfjöllun um það ástand sem skapaðist hérlendis með komu veikinnar árið 1918. Fjöldi fólks féll í valinn vegna veikinnar og setti hún sorglegan svip á fullveldisstofnunina þann 1. desember 1918. Í gær sé ég svo tilkynningu um það að Elín hafi gert viðbótarþátt vegna umræðunnar um fuglaflensuna. Er þátturinn í kvöld kl. 21:25. Ég hvet alla til að sjá þáttinn - ennfremur er mikilvægt að fólk sjái eldri þætti Elínar um málið. Eru þetta mjög vandaðir og góðir þættir.

Saga dagsins
1907 Giftar konur í Reykjavík fengu kosningarétt og kjörgengi til sveitarstjórna. Alþingi féllst ekki á að allar konur fengju þennan rétt fyrr en tveimur árum seinna. Fullt kjörgengi kvenna tók gildi 1915.
1907 Vegalög staðfest - vinstri umferð tók gildi. Ekki var svo skipt í hægri umferð fyrr en í maí 1968.
1963 John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, myrtur í Dallas í Texas í opinberri heimsókn sinni. Hann var þá 46 ára að aldri. Fráfall hans var gríðarlegt áfall fyrir Bandaríkjamenn. Miklar vonir voru bundnar við forsetann sem tákn nýrra tíma og andlát hans var því mikið reiðarslag. Lyndon Baines Johnson varaforseti, tók svo formlega við embætti sem 36. forseti Bandaríkjanna, um borð í forsetaflugvélinni.
1990 Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands, segir af sér embætti. Hún hafði setið í forsæti ríkisstjórnar Bretlands í ellefu ár - varð að víkja vegna ágreinings um störf hennar innan eigin flokks.
1997 Kristinn Björnsson, frá Ólafsfirði, sem þá var 25 ára, varð í öðru sæti á heimsbikarmóti í svigi í Park City í Utah-fylki. Um var þá að ræða besta árangur Íslendings í skíðaíþróttum fram að þeim tíma.

Snjallyrðið
Being prime minister is a lonely job... you cannot lead from the crowd.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)

21 nóvember 2005

ISG og Össur

Í gær birtist ný skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Fréttablaðinu. Samfylkingin dalar þar á meðan að VG og Sjálfstæðisflokkur styrkja stöðu sína. Sjálfstæðisflokkurinn hlyti 38,7%, Framsóknarflokkurinn hlyti 9,9%, Frjálslyndi flokkurinn 3,4%, Samfylkingin 29,4% og VG 18,2%. Þetta hlýtur að vera vonbrigði fyrir Samfylkinguna - enda sér maður að margir þar innanborðs eiga erfitt með að leyna gremju sinni. Aðrir þegja bara - fúlir með stöðuna. Í dag er hálft ár liðið frá því að Ingibjörg Sólrún var kjörin formaður Samfylkingarinnar. Staðan hefur legið sífellt niður á við allan þennan tíma - engin uppsveifla hefur orðið í flokknum. Þetta er auðvitað merkilegt í því ljósi að þessi flokkur hefur aldrei setið í stjórn og hefur markvisst spilað vinsældapólitík. En kannski er það einmitt það sem hefur snúist í höndum flokksins og ISG. Pópúlismi endar oft þannig að fólk verður ótrúverðugt. Ég tel að þetta sjáist vel í almennri stjórnmálaumræðu að undanförnu þar sem vandræðagangur Samfylkingarinnar bæði kemur vel og kristallast í vinnubrögðum innbyrðis.

Tölur í skoðanakönnunum hljóta að vera Ingibjörgu Sólrúnu og stuðningsmönnum hennar í formannskjörinu fyrr á árinu allnokkur vonbrigði. Varla bjuggust stuðningsmennirnir við því að formennska hennar myndi skila um tíu prósent lægra fylgi næstu mánuðina á eftir? Varla. En sú er nú samt raunin. Vandræðagangur Ingibjargar Sólrúnar virðist vera algjör staðreynd sé fyrsta hálfa árið metið nú þegar hún hefur setið á stólnum nákvæmlega í sex mánuði. Ingibjörg Sólrún hefur enda átt verulega erfitt með að fóta sig á sviðinu eftir að hafa loks fengið að leiða þennan flokk. Henni virðist sérstaklega reynast erfitt að fóta sig pólitískt eftir að Davíð fór úr stjórnmálum. Öll hennar stjórnmálabarátta seinustu árin, eftir að hún kom aftur inn í landsmálin, eftir misheppnaða útgöngu úr hlutverki sameiningartákns R-listans (sem lauk með harkalegum hætti) hefur enda miðast við andstöðuna við Davíð Oddsson. Hún hefur allan þann tíma reynt að skáka Davíð. Henni hefur ekki tekist það og er vandræðaleg eftir brotthvarf hans.

Óhætt er að segja svo að gullkorn hafi fallið á þingi í vikunni þegar að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, svaraði gagnrýni Ingibjargar Sólrúnar um verkefnaleysi ríkisstjórnarinnar í þingmálum - sakaði Ingibjörg Sólrún stjórnina um að eiga erfitt með að leggja mál sín fram. Þessu svaraði forsætisráðherra með góðu háði. Ummæli hans kölluðu fram hlátur þingmanna - á meðan var formaður Samfylkingarinnar ekki brosmild. Hún var ekki glöð - ólíkt flestum þingmönnum sem áttu erfitt með að verjast hlátri. Með þessu tókst forsætisráðherra að afvopna málflutning formanns Samfylkingarinnar og ekki síður að gera hana hlægilega í augum þingmanna - og áhugamanna um stjórnmál. Eins og kannanir eru að sýna okkur þessa dagana er vandræðagangur Samfylkingarinnar og leiðtoga hennar orðinn öllum sýnilegur. Kannanir eru vissulega bara mæling á stöðu mála á tilteknum tíma. En það er óneitanlega merkilegt að fylgjast með stöðu Samfylkingarinnar í könnunum seinasta hálfa árið.

Staða mála í þeim mælingum liggur fyrir. Spurningin er auðvitað sú hvernig Ingibjörg Sólrún heldur á forystukeflinu hjá þessum flokki. Væntanlega setur hún allt sitt í að reyna að rétta kúrsinn fyrir næstu kosningar - hún leggur jú allt í þær kosningar. Enda veit hún að sénsarnir verða vart fleiri misheppnist sú pólitíska forysta sem hún leggur þá í dóm landsmanna. Þá er hætt við að þeir sem studdu hana til forystusessins og töluðu svo digurbarkalega um forna sigra hennar leiti í aðrar áttir eftir einhverjum til að mæra til forystu í Samfylkingunni.

Ariel Sharon

Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, baðst í dag lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína. Hann gekk á fund Moshe Katsav forseta Ísraels, og bað hann um að rjúfa þing og boða kosningar fljótlega. Skömmu síðar tilkynnti Sharon opinberlega að hann hefði ákveðið að segja skilið við Likud-bandalagið, sem hann hefur leitt frá árinu 1999. Hann var einn af stofnfélögum í flokknum árið 1973 og verið lykilforystumaður innan hans alla tíð. Sharon, sem er 77 ára gamall, er ekki að víkja af pólitísku sviði með þessu. Hann hyggur á stofnun nýs stjórnmálaflokks. Vinna við stofnun nýja flokksins mun vera komin á fullt. Sharon, sem verið hefur forsætisráðherra Ísraels í tæp fimm ár, leggur margt að veði með því að boða fyrr til kosninga en ella og að segja skilið við Likud-bandalagið.

Reyndar var stjórn hans fallin - hafði misst þingstyrk sinn - en Sharon leggur allt að veði með því að segja skilið við grunnstöð sína í stjórnmálabaráttu. Er augljóst að hann ætlar með þessu að einangra harðlínumenn innan Likud og ná miðjunni á sitt vald á meðan að Verkamannaflokkurinn er á greinilegri vinstrisiglingu eftir að lítt þekktur verkalýðsleiðtogi varð foringi flokksins nýlega. Heppnist þessi leikflétta Sharons mun blasa við gjörbreytt pólitískt landslag á komandi árum.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, átti sína bestu viku á forsætisráðherraferlinum að mínu mati í síðustu viku. Það er orðið mjög merkilegt að sjá hvernig Halldóri er að takast að snúa áður lánlausri stöðu sér nú í vil. Svo virðist sem að formaður Samfylkingarinnar hafi tekið við hinu mikla lánleysi sem áður einkenndi Halldór. Nú yfirfærist það yfir á Ingibjörgu Sólrúnu. Eru annars ekki allir sammála um það að ISG er orðin pólitískt aðhlátursefni? Það blasir við flestum. Væntanlega eru helstu flokkshestar Samfylkingarinnar ekki sammála þessu af skiljanlegum ástæðum. Ég hélt að ég myndi seint hrósa Halldóri beint. En ég ætla að gera það. Hann hitti í mark í gær að mínu mati. Hann afvopnaði gagnrýni Spaugstofunnar í sinn garð og talið um að hann væri í fýlu yfir því að Pálmi hermdi eftir honum og fengi Edduna fyrir. Hvað gerði Halldór? Jú, hann mætti í afmælishóf Spaugstofumanna í Þjóðleikhúskjallaranum - flutti skondna ræðu og heillaði salinn og þjóðina um leið. Þar allt að því losaði hann sig við neikvæðu áruna sem yfir honum hefur verið. Hann er greinilega að ná sér á strik.

Helmut Schmidt og dr. Kristján Eldjárn

Í síðustu viku kom út bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings, Völundarhús valdsins. Byggist bókin á minnispunktum og dagbókum dr. Kristjáns Eldjárns, þriðja forseta lýðveldisins, frá því í forsetatíð hans 1968-1980. Er þar sjónum einkum beint að inngripi hans í stjórnarmyndanir í forsetatíð sinni. Ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir Kristjáni Eldjárn. Þar fór maður sem kunni að feta millistig í innri deilum í þjóðfélaginu. Hann leiddi átakamálin til lykta. Niðurstaðan er sú að hann virkar í sögubókunum hafa verið óumdeildur forseti sem sameinaði landsmenn í pólitískum og þjóðfélagslegum átökum. Eins og sést af bók Guðna og hinni snilldarvel rituðu ævisögu Gylfa Gröndal um Kristján tók hann á stórum átakamálum. Hann leysti þau með sóma. Hinsvegar þurfti hann að vera forseti á átakatímum í stjórnmálum. Það var stanslaus stjórnarkreppa öll seinustu misseri forsetatíðar Kristjáns og þurfti í raun að vera sá sem hélt á stjórnmálalitrófinu. Það gerði hann með sóma - svo leitun er að faglegri vinnubrögðum. Enda á forseti að vinna með þeim hætti að meirihluti þingsins ráði för við myndun stjórna og fara á ella eftir stærð flokka við myndun þeirra.

Akureyri

Á laugardag kom stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna saman á Akureyri og fundaði. Ennfremur komu þar saman formenn aðildarfélaga í SUS og fóru yfir málin á formannaráðstefnu SUS. Var þar farið yfir málefni Norðausturkjördæmis, innra starfið í ungliðahreyfingunni og málefni Sjálfstæðisflokksins. Kl. 16:00 hófst opinn fundur á Hótel KEA á Akureyri, sem fjallaði um kosti einkaframkvæmdar í samgöngum. Framsöguerindi flutti Pétur Þór Jónasson formaður Greiðrar leiðar, félags um göng undir Vaðlaheiði. Eftir fróðlega kynningu hans á málinu gafst fundarmönnum kostur á að spyrja og tjá sínar skoðanir. Var þetta góð og skemmtileg helgi og ánægjulegt fyrir okkur forystufólk í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, að fá forystumenn SUS og aðildarfélaga sambandsins hingað norður til fundahalda. Mikilvægt er að hlúa að landsbyggðarstarfinu og er ljóst að fundahald ungliða á landsbyggðinni skiptir máli - í aðdraganda tveggja mikilvægra kosninga.


Að lokum vil ég í dag minna á hina vel heppnuðu endurútgáfu Þorvaldar Bjarna og Einars Bárðarsonar á laginu Hjálpum þeim, eftir Axel Einarsson og Jóhann G. Jóhannsson. Það var vel til fundið hjá þeim að taka upp lagið að nýju. Það er sígilt - á sama erindi til landsmanna nú og það gerði fyrir tveim áratugum. Hvet ég alla til að hlusta á lagið á tonlist.is og auðvitað að kaupa geisladiskinn þegar hann kemur út - og styrkja verðugt málefni.

Saga dagsins
1974 Sprengja grandar 21 manns í sprengjuárás IRA í Birmingham - 6 einstaklingar voru sakfelldir fyrir að hafa átt aðild að verknaðinum en sakleysi þeirra var staðfest árið 1991. Málið varð aldrei upplýst.
1975 Gunnar Gunnarsson skáld, lést, 86 ára að aldri - Gunnar var eitt helsta skáld Íslands á 20. öld. Meðal þekktustu verka Gunnars á löngum ferli voru Saga Borgaraættarinnar, Svartfugl og Fjallkirkjan.
1985 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, og Mikhail Gorbachev leiðtogi Sovétríkjanna, hittust á leiðtogafundi í Genf í Sviss - fundurinn var upphaf að ferlinu sem leiddi til endaloka kalda stríðsins.
1995 Leiðtogar Bosníu-Herzegóvínu, Króatíu og Serbíu sömdu um frið í Bosníu á fundi í Dayton.
2002 NATO samþykkir formlega aðild Búlgaríu, Eistlands, Lettlands, Litháen, Rúmeníu, Slóvakíu og Slóveníu að bandalaginu - aðild þessara fyrrum kommúnistaríkja tók formlega gildi hinn 1. apríl 2004.

Snjallyrðið
Every young man would do well to remember that all successful business stands on the foundation of morality.
Henry Ward Beecher rithöfundur (1813-1887)

20 nóvember 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um bæjarmálin í kjölfar ákvörðunar minnar að sækjast eftir sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins við komandi bæjarstjórnarkosningar. Fer ég yfir ástæður þess að ég gef kost á mér og sækist eftir því að vera áberandi í bæjarmálum af hálfu flokksins. Þessi ákvörðun kemur varla fólki sem hefur fylgst með mér í stjórnmálastarfi, þekkir mig og verk mín, á óvart. Segja má að á seinustu árum hafi stjórnmálaþátttaka verið mín þungamiðja í lífinu. Ég hef unnið að því að styrkja flokkinn og stoðir hans í flokksstarfinu hér með mikilli vinnu og verið áhugasamur í þeim efnum. Það er viðeigandi að ég láti nú reyna á stöðu mína og sem formaður flokksfélags í bænum sem hefur verið vel sýnilegt er eðlilegt að maður hafi metnað fyrir sér í þá átt að hljóta ábyrgðarfyllri og öflugri verkefni en verið hefur. Ég hef verið mjög öflugur í innra starfinu í Sjálfstæðisflokknum – það er því auðvitað mjög eðlilegt að áhugi sé fyrir því af minni hálfu að sækja fram og óska eftir stuðningi og trausti til frekari verkefna.

- í öðru lagi fjalla ég um stöðu Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum. Svo virðist vera að flokkurinn sé í frjálsu falli eftir að Ingibjörg Sólrún tók við formennsku. Hefur hún nú verið á þeim stóli í hálft ár og ljóst að flokkurinn dalar markvisst undir hennar stjórn. Í dag birtist ný skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Fréttablaðinu. Samfylkingin dalar þar enn. Þetta hlýtur að vera vonbrigði fyrir Samfylkinguna - enda sér maður að margir þar innanborðs eiga erfitt með að leyna gremju sinni. Aðrir þegja bara - fúlir með stöðuna. Í dag er hálft ár liðið frá því að Ingibjörg Sólrún var kjörin formaður Samfylkingarinnar. Staðan hefur legið sífellt niður á við allan þennan tíma - engin uppsveifla hefur orðið í flokknum. Þetta er auðvitað merkilegt í því ljósi að þessi flokkur hefur aldrei setið í stjórn og hefur markvisst spilað vinsældapólitík. En kannski er það einmitt það sem hefur snúist í höndum flokksins og ISG. Pópúlismi endar oft þannig að fólk verður ótrúverðugt.

- í þriðja lagi fjalla ég um þáttaskil í fréttamennsku hérlendis með tilkomu hinnar nýju fréttastöðvar, NFS, sem hóf útsendingar í vikunni. Það virðist vera mikill ferskleiki á nýju stöðinni – góður mannskapur heldur allavega vel á þessu verkefni og hefur stöðin vakið óskipta athygli fréttaþyrstra landsmanna. Óska ég nýrri stöð velfarnaðar og vona að henni muni ganga vel í samkeppninni.


John F. Kennedy
1917-1963


John F. Kennedy (1917-1963)

Á þriðjudag eru liðin 42 ár frá því að John F. Kennedy 35. forseti Bandaríkjanna, féll fyrir morðingjahendi í Dallas í Texas. Hann hafði þá setið á forsetastóli í Bandaríkjunum í rúmlega 1000 daga. Þótt liðinn sé langur tími frá þessum atburðum eru þeir mörgum Bandaríkjamönnum enn í fersku minni og blandast þar saman sorg, söknuður og tilfinningin um að þjóðin hafi verið svipt ungum og kraftmiklum leiðtoga. Þá er að margra mati sem spurningunni um hver myrti forsetann hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Opinber rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði framið morðið og verið einn að verki en margir aðhyllast þá kenningu að árásarmennirnir hafi verið tveir og sumir segja allt að fjórir. Einnig hafa komið fram kenningar um að mafían, bandaríska leyniþjónustan, útsendarar erlendra ríkja eða jafnvel Johnson forseti, hafi skipulagt ódæðið.

Ólíklegt er að niðurstaða, sem allir sætta sig við, fáist nokkurn tíma en ekkert lát er á umfjöllun um morðið, bæði í bókum og fjölmiðlum þótt 42 ár séu liðin frá morðinu á forsetanum. Fyrir tveim árum, þegar fjórir áratugir voru liðnir frá morðinu á Kennedy forseta, birtist á vef Heimdallar ítarlegur pistill minn um stjórnmálaferil og ævi hans. Kennedy forseti, fæddist í Brookline í Massachusetts, þann 29. maí 1917, næstelstur í hópi 9 barna hjónanna Joseph og Rose Kennedy. Hann nam í Choate menntaskólanum og Harvard, fór að því loknu í herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni. Hann hóf þátttöku í stjórnmálum, 29 ára gamall árið 1946 er hann var kjörinn þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. 1952 var hann kjörinn til setu í öldungadeild þingsins fyrir Massachusetts. Árið 1955 ritaði Kennedy bókina Profiles in Courage. Í henni ræðir hann um menn sem á örlagastundu sýna hugrekki og siðferðisþrek.

Í bókinni segir hann frá ákvörðunum manna sem þorðu að standa við skoðanir sínar og gjörðir, hvað svo sem það í raun kostaði. Enginn vafi er á því að í þessari bók er að finna lykilinn að lífsskoðun John F. Kennedy, þ.e. að gera verði það sem samviskan býður hverjum manni. Fyrir bók sína hlaut Kennedy, Pulitzer verðlaunin, virtustu bókmenntaverðlaun Bandaríkjanna. Árið 1960 var hann kjörinn forseti Bandaríkjanna. Kennedy sigraði Richard Nixon naumlega í spennandi kosningum. Hann sat á forsetastóli eins og fyrr segir í rúmlega 1000 daga, ferlinum lauk með hörmulegum hætti í Dallas í Texas. Hann kvæntist í september 1953, Jacqueline Bouvier. Þau eignuðust tvö börn, Caroline (1957) og John Fitzgerald yngri (1960). John Fitzgerald Kennedy var jarðsunginn í Washington, 25. nóvember 1963. Var hann jarðsettur í þjóðargrafreitnum í Arlington. Á gröf hans lifir hinn eilífi logi, táknmynd þess að vonarneistinn slokknar aldrei, hvað sem á bjátar.

Saga gærdagsins
1875 Thorvaldsensfélagið, elsta kvenfélag í Reykjavík, var stofnað til að sinna mannúðarmálefnum.
1946 Ísland fékk aðild að Sameinuðu þjóðunum er gengið var að sáttmála þeirra í kosningu á þingi.
1959 Auður Auðuns tók við embætti borgarstjóra í Reykjavík, fyrst kvenna - hún varð ráðherra fyrst kvenna árið 1970. Auður sat í borgarstjórn Reykjavíkur 1946-1970 og var forseti borgarstjórnar 1954-1959 og 1960- 1970. Auður var alþingismaður fyrir Reykjavík árin 1959-1974. Hún lést í október 1999.
1974 Geirfinnur Einarsson hvarf í Keflavík - þar með hófst rannsókn eins umfangsmesta sakamáls 20. aldarinnar. 1977 lágu fyrir játningar þriggja manna um að hafa ráðið honum bana. Dómur yfir þeim var kveðinn upp í Hæstarétti 1980. Sakborningar í málinu hafa síðan neitað því að hafa ráðið Geirfinni bana. Hæstiréttur hafnaði 1998 beiðni þeirra um endurupptöku málsins. Lík Geirfinns fannst aldrei.
1977 Anwar Sadat forseti Egyptalands, verður fyrstur leiðtoga Araba til að fara í opinbera heimsókn til Ísraels. Hann fór þangað eftir að Menachem Begin forsætisráðherra Ísraels, bauð Sadat formlega. Í ferð sinni til Ísraels ávarpaði Sadat ísraelska þingið, Knesset. Þessi ferð forsetans varð upphafið að friðarferli milli Ísraels og Egyptalands og sömdu leiðtogar landanna um frið formlega í Camp David 1978 - friðarviðleitanir Sadats kostuðu hann lífið, öfgamenn myrtu forsetann á hersýningu í október 1981.

Saga dagsins
1945 Réttarhöld yfir 24 af háttsettustu nasistaforingjunum hefjast í bænum Nürnberg í Þýskalandi.
1959 Viðreisnarstjórnin, samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks undir forsæti Ólafs Thors tekur við völdum. Þetta var fimmta og síðasta ráðuneytið undir forsæti Ólafs á löngum ferli. Stjórnin sat með nokkrum breytingum í 11 ár og 236 daga, lengur en nokkur önnur ríkisstjórn í sögu landsins.
1975 Francisco Franco einræðisherra á Spáni, deyr, 82 ára að aldri - hann hafði ríkt frá árinu 1936.
1990 Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands, mistekst að hljóta tilskilinn meirihluta atkvæða í leiðtogakjöri breska Íhaldsflokksins. Thatcher baðst lausnar frá embættum sínum tveim dögum síðar.
1995 Díana prinsessa af Wales, tjáði sig ítarlega um skilnað sinn í sögulegu viðtali í Panorama á BBC.

Snjallyrðið
The young man knows the rules, but the old man knows the exceptions.
Oliver Wendell Holmes rithöfundur (1809-1894)

18 nóvember 2005

Dr. Angela Merkel

Ný ríkisstjórn Þýskalands tekur við völdum á þriðjudag í kosningu á þýska þinginu. Í dag var stjórnarsáttmáli nýrrar stjórnar undir forsæti Angelu Merkel leiðtoga CDU, undirritaður. Með því er stjórnarkreppunni í landinu lokið. Í dag eru tveir mánuðir frá þingkosningum í Þýskalandi. Ljóst varð strax að eina stjórnarmynstrið sem gæti fúnkerað af krafti væri samstjórn íhaldsmanna og krata. Og það varð niðurstaðan. Stóra samsteypa - eða grosse koalition - tekur völdin. Grosse koalition hefur ekki setið í Þýskalandi frá því á miðjum sjöunda áratug 20. aldarinnar, og sat sú stjórn árin 1966-1969. Það verða því óneitanlega gríðarleg þáttaskil með valdatöku hennar í næstu viku. Eins og fram kom í vikunni marka stjórnarskiptin þáttaskil fyrir þýska Jafnaðarmannaflokkinn. Gerhard Schröder kanslari Þýskalands í rúm sjö ár, lætur af völdum við valdaskiptin. Hann verður ekki í stjórn Merkel og víkur af hinu pólitíska sviði. Hefur Matthias Platzeck kjörinn leiðtogi SPD. Mun Franz Müntefering, forveri hans á leiðtogastóli, verða varakanslari Þýskalands.

Óhætt er að segja að stjórnarsáttmálinn sé ítarlegur - hann er ritaður á alls 190 blaðsíður. Hefur hann að geyma áætlanir um hvernig standa skuli að því að rétta við viðskiptahalla Þýskalands. Stendur til að hækka virðisaukaskatt um 3% - úr 16% upp í 19% á árinu 2007. Ennfremur koma fram áætlanir um að standa fyrir fjárfestingarátaki upp á fjölda milljarða evra til að koma hagvexti landsins á skrið. Á þriðjudaginn fara Merkel og leiðtogar hinna tveggja flokkanna fyrir þingið og kynna stjórnina og sáttmálann formlega fyrir þingmönnum. Þar verður kosning um það. Jafnframt verður kanslari kjörinn. Mun þar með Merkel taka við embættinu. Kaldhæðnislegt er að hún tekur við embætti 22. nóvember, en þann dag eru fimmtán ár liðin frá því að eitt helsta átrúnaðargoð hennar í stjórnmálum, járnfrúin Margaret Thatcher baðst lausnar frá forsætisráðherraembættinu í Bretlandi. Mörg verkefni blasa við Merkel í embættinu - sem fyrsta konan á kanslarastóli í Þýskalandi. Stuðningsmenn binda vonir við að hún standi sig vel - andstæðingarnir vona að hún misstígi sig.

Eitt er víst: vel verður fylgst með verkum hennar og stjórnarinnar fyrstu 100 dagana - hætt er þó við að fjölmiðlar veiti stóru samsteypu fáa hveitibrauðsdaga.

Akureyri

Í dag kynnti stýrihópur á vegum Akureyrarbæjar í umhverfisráði tillögur sínar um nýjan miðbæ. Þessar tillögur eru umfram allt unnar upp úr þremur bestu verðlaunatillögunum úr íbúaverkefninu Akureyri í öndvegi. íbúaþing var haldið 18. september 2004 í Íþróttahöllinni og þar komu bæjarbúar saman og tjáðu skoðanir sínar á málefnum miðbæjarins. Á þingið mættu um 10% bæjarbúar eða um 1.500 manns. Helsta breytingin ef marka má tillögurnar er að síki verður grafið frá sjónum upp í gegnum miðbæinn. Íþróttavöllurinn mun víkja fyrir útivistarsvæði og íbúabyggð. Um 330 íbúðir verða reistar á þessu svæði - jafnframt mun rísa stórmarkaður í miðbænum - annaðhvort milli Skipagötu og Glerárgötu eða á Sjallareitnum. Ekki er gert ráð fyrir háhýsabyggð en nokkur mannvirki verða þó reist á svæðinu. Er um að ræða byggð upp á hámarkshæð 5-6 hæðir. Bæjarsjóður gerir á fjárhagsáætlun sinni ráð fyrir um 50 milljónum króna í undirbúningsvinnu en breytingarnar við síkið, gatnagerð og niðurrif húsa gætu kostað bæinn um rúmlega 500 milljónir króna.

Ef marka má tillögurnar er ekki gengið eins langt og í vinningstillögunni sem hafði gert ráð fyrir að fjarskiptahjarta bæjarins hefði orðið að flytja til: t.d. jarðlagnir og aðstöðu Símans. Mér líst vel á þessar tillögur - verður áhugavert að sjá þær verða að veruleika.

Akureyrarkirkja

Í gær voru liðin 65 ár frá vígslu Akureyrarkirkju. Í tilefni afmælis kirkjunnar verður hátíðarmessa í kirkjunni sunnudaginn 20. nóvember nk. klukkan 14:00. Í hátíðarmessunni verður frumflutt nýtt tónverk, "Da pacem Domine" eftir Jón Hlöðver Áskelsson, sem hann samdi að beiðni Listvinafélags Akureyrarkirkju. Verkið er skrifað fyrir kór, orgel og málmblásara. Það er Kór Akureyrarkirkju sem frumflytur verkið en á þessu ári minnist kórinn þess að 60 ár eru liðin frá stofnun hans. Sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson predikar en sr. Svavar A. Jónsson, sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir og Valgerður Valgarðsdóttir djákni þjóna fyrir altari. Að messu lokinni verður Kvenfélag Akureyrarkirkju með kaffisölu og lukkupakkasölu í Safnaðarheimilinu. Ég hvet alla til að mæta - við sem unnum kirkjunni okkar fallegu og trúarstarfinu hér í bæ munum mæta.

NFS

Í dag hóf ný fréttastöð 365-miðla, NFS, útsendingar. Er þetta mjög áhugaverð þáttaskil sem þarna verða í fréttamiðlun í íslenskum fjölmiðlum. Það er mjög athyglisvert að sjá hvernig muni ganga með stöðina. Sjá allir hversu miklar breytingar verða í fjölmiðlun með tilkomu fréttastöðvar í sjónvarpi sem muni ganga í 16 tíma á dag - með því halda úti fréttaveitu til landsmanna í gegnum daginn. Spyrja má sig að því hver tilgangur RÚV sé orðinn ef einkaaðilar geta haldið úti fréttaveitu með þessu tagi sem gengur allan daginn og getur með því haldið á almannavarnarhlutverkinu sem RÚV hefur jafnan haft. Með tilkomu fréttastöðvar af þessu tagi er komin fréttaveita sem haldið getur á stórfréttum allan sólarhringinn, hvað svo sem RÚV gerir. Óska ég nýrri stöð velfarnaðar og vona að henni muni ganga vel í samkeppninni.

Saga dagsins
1709 Biskupsstofan á Hólum í Hjaltadal, brann til kaldra kola - tapaðist mikið af fornum dýrgripum.
1920 Sr. Matthías Jochumsson prestur, skáld og heiðursborgari á Akureyri, lést - viku áður á 85 ára afmæli sínu var hann gerður að heiðursborgara Akureyrar og heiðursdoktor í guðfræði við Háskóla Íslands. Matthías orti þjóðsöng Íslands, Lofsöng, og fjölda ljóða og samdi ennfremur fjölda leikrita.
1959 Kvikmyndin Ben-Hur í leikstjórn William Wyler frumsýnd - hún hlaut 11 óskarsverðlaun 1960.
1984 Jón Baldvin Hannibalsson kjörinn formaður Alþýðuflokksins - hann sigraði Kjartan Jóhannsson sitjandi formann flokksins, en hann hafði setið á formannsstóli allt frá árinu 1980. Jón Baldvin var fjármálaráðherra 1987-1988 og utanríkisráðherra 1988-1995. Jón Baldvin varð sendiherra árið 1998.
1991 Terry Waite sleppt úr gíslingu hryðjuverkaafla í Beirút í Líbanon - honum hafði verið haldið frá árinu 1987, en hann hafði verið valinn til að vera samningamaður af hálfu breskra stjórnvalda til að reyna að leysa aðra gíslinga úr haldi. Hann var sjálfur hnepptur í varðhald, og sleppt seinast úr haldi.

Snjallyrðið
I love argument, I love debate. I don't expect anyone just to sit there and agree with me, that's not their job.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)

17 nóvember 2005

Stefán Friðrik Stefánsson

Sveitarstjórnarkosningar verða að vori. Í tilefni þess er fólk farið að velta fyrir sér málefnum baráttunnar og hvað það ætli að gera - hvort það verði í kjöri eður ei. Ég hef tekið þá ákvörðun að gefa kost á mér til setu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þessa ákvörðun hef ég íhugað nokkuð lengi með sjálfum mér og hef nú tekið endanlega ákvörðun. Segja má að ég hafi sífellt færst nær ákvörðun. Í gærkvöldi má segja að þessi ákvörðun hafi orðið endanlega til. Auk þess hefur atburðarás í stjórnmálum hér innan flokksins seinustu daga fært mig nær endanlegri ákvörðun. Það er rétt að þessi ákvörðun liggi fyrir vel tímanlega og því er hún hér með tilkynnt á vef mínum - vel tímanlega.

Ég hef verið nokkuð lengi virkur þátttakandi í stjórnmálum. Ég gekk í flokkinn árið 1993, nokkrum mánuðum fyrir sveitarstjórnarkosningar og hef síðan unnið af miklum krafti fyrir flokkinn, fyrst á Dalvík og síðar hér á Akureyri. Ég hef verið virkur penni á fjölda vefsíðna tengdum flokknum til nokkurra ára - skrifað fleiri hundruð pistla um stjórnmál á seinustu árum og held úti persónulegum heimasíðum. Fyrir tveim árum var ég kjörinn stjórnarmaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna fyrir Norðausturkjördæmi og hef því unnið fyrir flokkinn á víðum vettvangi. Hlaut ég endurkjör í stjórnina í haust í kosningu á átakaþingi í Stykkishólmi. Hef ég nú nýlega svo tekið við ritstjórn á vef SUS.

23. september 2004 var ég kjörinn formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna hér á Akureyri. Áður hafði ég setið í stjórn félagsins og sinnt verkefnum fyrir það og flokkinn hér í bænum. En þessi ákvörðun liggur fyrir - það sem ekki liggur fyrir er hvernig valið verði á lista. Var ég í haust kjörinn í kjörnefnd flokksins í bænum sem tekur ákvörðun um val sem lagt er fyrir fulltrúaráðsfund. Tel ég ekki rétt að ég komi að þeirri ákvörðun og hef því í bréfi til Önnu Þóru Baldursdóttur formanns nefndarinnar, beðist lausnar úr henni. Bíð ég nú formlegrar ákvörðunar kjörnefndar og fulltrúaráðs um hvernig listinn verði valinn.

En ég gef semsagt kost á mér - nú hefst baráttan af alvöru. Ég er til í slaginn og vil vinna af krafti fyrir flokkinn hér í bænum. Ég vil gera það í fremstu víglínu ekki sem þögull áhorfandi að þessu sinni. Hlakkar mér til kosningabaráttunnar sem framundan er - við höfum góða stöðu við sjálfstæðismenn - góð verk og farsæla forystu seinustu ára að bjóða kjósendum. Hef ég áhuga á að taka þátt í þeirri baráttu af heilum hug.

Stefán Friðrik Stefánsson
formaður Varðar

Saga dagsins
1913 Fréttamyndir, hinar fyrstu íslensku, birtust í Morgunblaðinu. Voru dúkristur sem voru gerðar til skýringar á frétt um morð í Dúkskoti í Reykjavík, þar sem kona eitraði fyrir bróður sínum í mat hans.
1940 Akureyrarkirkja, minningarkirkja sr. Matthíasar Jochumssonar heiðursborgara Akureyrar, vígð - hún var þá langstærsta guðshús landsins og rúmaði rúmlega 500 manns í sæti. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins, teiknaði kirkjuna og réð umhverfi hennar. Upp að henni liggja um 100 tröppur.
1983 Mikligarður, stærsta verslun landsins á þeim tíma, opnuð í Reykjavík - verslunarrýmið var 4.700 fermetrar. Mikligarður sem var rekinn af SÍS fór á hausinn 1993 - þar er nú fjöldi mun minni verslana.
1988 Linda Pétursdóttir, 18 ára menntaskólanemi frá Vopnafirði, var kjörin Ungfrú Heimur í London.
2000 Þjóðþing Perú sviptir Alberto Fujimori embætti forseta landsins, eftir 10 ára setu á þeim stóli.

Snjallyrðið
In order to become the master, the politician poses as the servant.
Charles De Gaulle forseti Frakklands (1890-1970)

16 nóvember 2005

Pallborðsumræður

Helgi Vilberg tók þessa fínu mynd af pallborðsumræðunum í Kaupangi í gærkvöldi fyrir Íslending - mátti til með að birta hana hér á vefnum. (Kristján Þór, ég, Sigrún Björk, Þóra og Jóna)

Þóra Ákadóttir gefur ekki kost á sér

Þóra Ákadóttir

Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri, hefur gefið út svohljóðandi yfirlýsingu:

"Ég hef tilkynnt félögum mínum í forystusveit Sjálfstæðisflokksins á Akureyri þá ákvörðun að gefa ekki kost á mér til endurkjörs í bæjarstjórnarkosningunum að vori.

Stjórnmálaafskipti mín hófust með því að taka sæti á framboðslista sjálfstæðismanna árið 1998 og ná kjöri sem varamaður í bæjarstjórn. Árið 2001 tók ég sæti sem aðalmaður í bæjarstjórn og var þá kjörin forseti hennar. Í kosningunum 2002 skipaði ég annað sætið á lista Sjálfstæðisflokksins og hef verið forseti bæjarstjórnar frá upphafi kjörtímabilsins auk þess að vera varaformaður félagsmálaráðs og varamaður bæjarráðs, framkvæmdaráðs og fasteigna Akureyrar.

Vissulega kom til álita að halda áfram þessu stjórnmálastarfi enda er það bæði gefandi og skemmtilegt. Niðurstaðan var hins vegar sú að láta gott heita þegar yfirstandandi kjörtímabili lyki og gefa þar með öðrum færi á að spreyta sig á vettvangi bæjarmálanna. Sjálfstæðismenn eru í forystu á Akureyri og það er tilhlökkunarefni að fá tækifæri til að leggja verk okkar í dóm kjósenda.

Ég mun að sjálfsögðu taka þátt í að kynna starf og stefnu sjálfstæðismanna, stuðla að því að flokkurinn fái sem glæsilegast brautargengi í kosningunum 2006 og leggja flokknum áfram lið eftir mætti.
"

Þóra Ákadóttir

Ég vil er þessi yfirlýsing liggur fyrir þakka Þóru Ákadóttur fyrir gott samstarf í bæjarmálum hér á Akureyri. Ég hef þekkt Þóru mjög lengi. Meðan ég bjó á Dalvík var hún búsett þar og leiðir okkar hafa því mjög lengi legið saman. Þóra er mikil heiðurskona sem hefur unnið vel og dyggilega fyrir Sjálfstæðisflokkinn - sinnt þar lengi miklum verkefnum og skilað þeim öllum með mjög miklum sóma. Ég verð að viðurkenna að ég varð nokkuð undrandi á þessari ákvörðun Þóru en virði hana að sjálfsögðu.

Þóra hefur verið í forystusveit okkar sjálfstæðismanna í tvö kjörtímabil. Hún tók sæti í bæjarstjórn fyrir fjórum árum er Valla (Valgerður Hrólfsdóttir) lést eftir erfið veikindi. Það var okkur áfall að missa Völlu, en hún tapaði erfiðri baráttu fyrir ólæknandi sjúkdómi, langt um aldur fram. Þóra hefur síðan verið enn meira áberandi í forystunni og varð svo forseti bæjarstjórnar er Sigurður J. Sigurðsson hætti í bæjarmálum síðla árs 2001 - skipaði svo annað sætið í kosningum 2002.

Þóra hefur sinnt þessum forystuverkum með glæsilegum hætti - hún kom inn í bæjarmálin í sigursveitinni 1998 - þegar við unnum af krafti fyrir forystuskiptum. Hún kom í bæjarstjórn svo á erfiðum tímamótum fyrir flokkinn og tók sæti Völlu með miklum sóma við þær erfiðu aðstæður sem fyrr er lýst. Hún hefur stýrt bæjarstjórn með tignarlegum hætti og sett svip á fundi bæjarstjórnarinnar. Ég vil þakka Þóru fyrir öll góðu samskiptin á þessum árum - góða viðmótið hennar, trygglyndið og heiðarleikann sinn sem hún hefur sett í öll verkefni sín.

Hún er heiðurskona sem hefur verið forréttindi að vinna með - við njótum krafta hennar áfram en með öðrum hætti. Kærar þakkir fyrir allt Þóra mín!

Sjálfstæðisflokkurinn

Stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins á Akureyri lauk í gærkvöldi. Seinasta kvöld skólans hófst með fyrirlestri Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, um stjórnskipan og stjórnsýslu. Fór hann yfir fjölda málefna í ræðu sinni og vék sérstaklega talinu að endurskoðun stjórnarskrár og málefni 26. greinarinnar eftir að forseti Íslands synjaði lagafrumvarpi staðfestingar sumarið 2004. Eins og kunnugt hefur Sjálfstæðisflokkurinn á landsfundi sínum ályktað um að efnisatriði greinarinnar skuli falla úr gildi við endurskoðunina. Urðu miklar umræður um málið og fékk Björn margar góðar spurningar frá fundarmönnum. Að loknu hléi fóru fram pallborðsumræður undir minni stjórn um bæjarmál.

Stýrði ég fundi - erindi fluttu Kristján Þór Júlíusson, Þóra Ákadóttir, Sigrún Björk Jakobsdóttir og Jóna Jónsdóttir. Kristján Þór fór yfir málefni kjörtímabilsins, Þóra fór yfir heilbrigðis- og öldrunarmál, Sigrún Björk um fjölskyldu- og menntamál og Jóna (sem á sæti í áfengis- og vímuvarnanefnd) fór yfir málefni fíkniefnavandans sem hefur verið til umræðu hér í bæ á seinustu mánuðum og leiðir til lausnar honum. Eftir framsögur stýrði ég fyrirspurnartíma. Flestar spurningar fékk að sjálfsögðu leiðtogi okkar, Kristján Þór bæjarstjóri. Voru líflegar og góðar umræður um bæjarmálin.

Að þeim loknum, á ellefta tímanum sleit Kristján Þór skólanum - en þetta var sjötta og seinasta kvöldið á velheppnuðu námskeiði um stjórnmál. Þakka ég öllum þeim sem komu fyrir góða samveru og góð kynni - margir komu nýir til leiks í starfið þarna og var gaman að kynnast þeim. Þetta verður skemmtilegur kosningavetur tel ég.

Saga dagsins
1907 Stytta af Jónasi Hallgrímssyni afhjúpuð í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu skáldsins. Styttan var eftir Einar Jónsson. Fyrst sett upp við Amtmannsstíg en síðar flutt í Hljómskálagarðinn.
1946 Jarðneskar leifar Jónasar Hallgrímssonar skálds, voru lagðar í moldu í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum, á afmælisdegi hans. Jarðneskar leifar Jónasar lágu í kirkjugarði í Danmörku frá 1845.
1957 Nonnahús á Akureyri opnað sem safn er 100 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Sveinssonar, Nonna. Hann fór ungur til útlanda til náms og kom tvisvar eftir það heim, 1894 og 1930. Jón lést árið 1945.
1995 Dægurlagasöngkonan Elly Vilhjálms, lést, sextug að aldri - Elly var ein af allra bestu söngkonum landsins í fjöldamörg ár. Elly var árið 1999 valin besta söngkona aldarinnar í aldamótakönnun Gallups.
1996 Dagur íslenskrar tungu var í fyrsta sinn haldinn hátíðlegur. Efnt var þá til málræktarþings og verðlaun Jónasar Hallgrímssonar afhent fyrsta sinni, þau hlaut þá Vilborg Dagbjartsdóttir rithöfundur.

Snjallyrðið
Á íslensku má alltaf finna svar
og orða þetta og hitt sem er og var
og hún á orð sem geyma gleði og sorg,
um gamalt líf og nýtt í sveit og borg.

Á vörum okkar verður tungan þjál
þar vex og grær og dafnar okkar mál.
Að gæta hennar gildir hér og nú
það gerir enginn nema ég og þú.
Þórarinn Eldjárn rithöfundur (1949) (Íslenskt mál)

15 nóvember 2005

Gerhard Schröder

Þáttaskil verða brátt í þýskum stjórnmálum. Stjórnmálaferli þýska kratans Gerhard Schröder kanslara Þýskalands, lýkur í næstu viku. Hann mun þá láta af kanslaraembætti og afhenda Angelu Merkel leiðtoga CDU, völdin. Þann 22. nóvember nk. mun hin stóra samsteypa, ríkisstjórn krata og íhaldsmanna, taka við völdum. Schröder kvaddi pólitíska sviðið í gær á fundi SPD í Karlsruhe. Hann var þar hylltur sem þjóðhetja og talaði af sannfæringarkrafti í sinni síðustu pólitísku ræðu. Þáttaskil verða við brotthvarf Schröders. Hann hefur verið lykilspilari í þýskum stjórnmálum undanfarinn áratug. Hann var lengi forsætisráðherra í heimahéraði sínu, Neðra-Saxlandi. Hann varð kanslari Þýskalands í september 1998 eftir sigur vinstriflokkanna í þingkosningum. Hann vann nauman sigur í kosningunum 2002. Lengi vel þeirrar kosninganætur var útlit fyrir að Schröder missti völdin en fylgisaukning græningja undir lok talningarinnar gerði það að verkum að stjórnin hélt velli. Schröder háði erfiðan slag seinustu misseri valdaferils síns. Hann neyddist til að boða til kosninga í sumarbyrjun, ári áður en kjörtímabil ríkisstjórnar krata og græningja átti að ljúka. Ástæða þess var sögulegt tap kratanna í sambandsþingkosningunum í Nordrhein-Westfalen í maí.

Hann lagði mikið undir - tókst að auka fylgi SPD en ekki að halda sér í kanslarastólnum. Úrslit kosninganna voru viss varnarsigur fyrir kratana, en engu að síður náði hann ekki að halda stöðu sinni. Stjórnin féll og með því féll yfirburðastaða hans í þýskum stjórnmálum. Fljótt varð ljóst eftir kosningarnar að Schröder gæti ekki tekist að halda kanslarastólnum nema sækjast eftir samstarfi við íhaldsmenn. Á þeim bænum kom aldrei til greina að krati leiddi stjórnina, síst af öllu Schröder. Merkel sóttist eftir stólnum, enda voru kristilegir demókratar með stærri þingflokk en kratarnir. Svo fór að kratarnir urðu að fórna Schröder. Greinileg eftirsjá er á honum við þessi þáttaskil, en nú verður fróðlegt að sjá hvað verður um þennan litríka stjórnmálaleiðtoga þýskra krata. Við Merkel blasir hinsvegar stórt og erfitt verkefni - er hægt að fullyrða að hveitibrauðsdagar hennar í embætti verði frekar fáir og næg vandræði sjáanleg í stöðunni. Merkel hefur tekist að landa stjórnarsamstarfinu - með miklum fórnum tókst henni að binda hnútana saman. En hún getur samt sem áður glaðst yfir þeim sigri að ná kanslarastólnum, fyrst kvenna.

Í dag var svo Matthias Platzeck kjörinn leiðtogi SPD á þinginu í Karlsruhe. Er hann frá A-Þýskalandi eins og Merkel. Eru mun meiri líkur á farsælu samstarfi SPD og CDU eftir þessar breytingar en þótti áður. Þau þykja um margt lík og geta unnið vel saman. Framundan eru því umbrotatímar fyrir hina sterku samsteypu - margar pólitískar áskoranir.

Tony Blair

Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, er að vakna upp við breytt pólitískt landslag eftir auðmýkjandi tap sitt í breska þinginu um daginn. Hann er að átta sig á því að honum tekst ekki að halda völdum mikið lengur nema bugta sig og beygja fyrir þingmönnum flokksins á aftari bekkjunum. Það er vissulega beiskt fyrir hann að uppgötva það. Hann hefur enda jafnan farið eigin leiðir og keyrt á sínum hraða. Það er ekki freistandi fyrir hann að keyra á annarra hraða í gegnum heimasvæði sitt í pólitík. Eins og vel hefur komið fram krefst órólega deildin í flokknum þess að hann hlusti á þá og vinni með þeim að málum. Það hefur skort. Staðan hefur hinsvegar breyst - þessi hópur hefur oddaatkvæði sem Blair þarf eigi hann að geta setið með einhverjum sóma fyrir sig næstu árin. Blair er að átta sig á því að harði tónninn sem hann sló í seinustu viku en var gerður afturreka með dugar ekki lengur. Annars er flokkurinn að því er virðist í mikilli krísu - stjórnin segir eitt en hópur óánægðra annað. Það er bara spurning um tíma hvenær þetta grasserar meira en orðið er. Blair var allavega tekinn í gegn um daginn og þá kynntist hann hvað hefur breyst og hvað hann þarf að gera til að halda sér áfram á pólitíska landakortinu.

Shimon Peres

Mörgum að óvörum beið Shimon Peres leiðtogi Ísraelska Verkamannaflokksins, ósigur í leiðtogakjöri í síðustu viku fyrir hinum nær óþekkta verkalýðsleiðtoga Amir Peretz. Peres, sem er kominn á níræðisaldur, hefur lengi verið einn af litríkustu leiðtogum flokksins. Það hefur hinsvegar lengi háð honum að honum hefur aldrei tekist að leiða flokkinn til sigurs í kosningum. Hann hefur verið forsætisráðherra Ísraels þrisvar en alltaf tapað stólnum svo í kosningum. Hann var forsætisráðherra 1976-1977, 1984-1986 og að lokum 1995-1996. Hann tók í síðasta skiptið við embættinu eftir morðið á Yitzhak Rabin í nóvember 1995. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels með Arafat og Rabin árið 1994. Hann nýtur virðingar um allan heim fyrir verk sín í stjórnmálum. Heima fyrir hefur hann alltaf verið umdeildur. Það má segja að myndin hér að ofan sem tekin var á minningarathöfn vegna þess að áratugur væri liðinn frá morðinu á Rabin tali vel sínu máli - Shimon Peres hefur jú alltaf verið í skugga hins öfluga leiðtoga Rabins. Hans verður minnst að lokum fyrir verk sín - en að hafa aldrei tekist að komast úr skugga hans heima fyrir.

Háskólinn á Akureyri (Borgir)

Í sunnudagspistli mínum um helgina fjallaði ég um málefni Háskólans á Akureyri. Þakka ég fyrir þau góðu viðbrögð sem pistillinn fékk eftir birtingu á sunnudaginn. Fékk ég fjölda tölvupósta frá ýmsu fólki og góðar ábendingar á efnið - er ég ánægður með þau viðbrögð og skoðanaskipti um HA. Það er alveg ljóst að við hér fyrir norðan megum ekki vera sofandi á verðinum hvað varðar stöðu Háskólans á Akureyri. Við verðum að standa vörð um hann af miklum krafti – tryggja að hann haldi styrk sínum og stöðu með markvissum hætti. Hann hefur byggst upp af miklum krafti og nýtt námsframboð hefur verið einkenni hans. En blikur eru á lofti eftir atburði seinustu vikna - það blandast engum hugur um það. Við hér fyrir norðan vitum og skynjum að ekkert er sjálfgefið með skólann og berjumst fyrir því að hann verði áfram sterkur og kraftmikill.

SUS

Á laugardaginn mun stjórn SUS funda hér á Akureyri. Þann dag verður ennfremur haldin á Hótel KEA formannaráðstefna Sambands ungra sjálfstæðismanna. Síðar sama dag verður fundur undir yfirskriftinni: Einkaframkvæmd í samgöngum, á Hótelinu. Það er gleðiefni fyrir okkur í stjórn Varðar að stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna skuli funda á fyrsta fundi tímabilsins utan Reykjavíkur hér á Akureyri. Staðfestir þetta að mínu mati að ný stjórn SUS hefur í hyggju að vinna af krafti í landsbyggðarstarfinu - telur það skipta sköpum og vilji vinna með okkur í því sem skiptir máli. Það er ánægjuefni fyrir okkur að sjá hversu vel nýr formaður sér að starf okkar hér úti á landi er mikilvægt. Hlökkum við til að vinna með honum í þeim verkefnum - sé ég allavega ekki eftir þeirri ákvörðun minni að styðja hann til formennsku í SUS. Tel ég að þessi ákvörðun um fundahald hér sýni okkur vel hvernig starf okkar hér á Akureyri sé metið.

Saga gærdagsins
1917 Lögræðislög voru staðfest - samkvæmt þeim urðu menn sjálfráða 16 ára og fjárráða 21 árs. Fjárræði var lækkað í 20 ár, 1967, og í 18 ár, 1979. Sjálfræðisaldur var svo hækkaður í 18 ár, 1998.
1963 Eldgos hófst á hafsbotni suðvestur af Vestmannaeyjum. Þar sem áður var 130 metra dýpi kom upp eyja sem var nefnd Surtsey. Gosið stóð með hléum í þrjú og hálft ár, fram í júní 1967, og mun vera með lengri gosum frá upphafi Íslandsbyggðar. Surtsey var stærst 2,7 ferkílómetrar en hefur minnkað mjög í tímanna rás, hún var hæst 174 metrar. Eldgosið í sjónum árið 1963 er alveg einstakt.
1963 Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við völdum - hún sat við völd í tæp sjö ár og var hluti af viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem sat á árunum 1959-1971. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, lést á Þingvöllum, 10. júlí 1970. Bjarni fæddist þann 30. apríl 1908. Á löngum ferli sínum var dr. Bjarni, borgarstjóri í Reykjavík, utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra, menntamálaráðherra, iðnaðarráðherra og varð loks forsætisráðherra, Hann var formaður Sjálfstæðisflokksins í 9 ár, allt frá 1961 til dauðadags 1970. Var líka ritstjóri Morgunblaðsins.
1983 Tómas Guðmundsson skáld, lést, 82 ára að aldri - hann var einna fyrstur skálda til að yrkja um Reykjavíkurlíf og mannlífsbraginn í borginni við sundin. Hann vakti mikla athygli með ljóðabók sinni Fögru veröld, sem kom út 1933. Tómas vakti mikla athygli með liprum og undurljúfum skáldstíl sínum.
1985 Hólmfríður Karlsdóttir, 22 ára fóstra úr Garðabæ, kjörin Ungfrú Heimur (Miss World) í London.

Saga dagsins
1923 Þórbergur Þórðarson rithöfundur, hóf að rita bréf til Láru Ólafsdóttur á Akureyri - bréfin sem hann skrifaði henni urðu undirstaðan í bók hans, Bréf til Láru, sem varð mikið tímamótarit í sögu bókmenntanna og gerði Þórberg landsfrægan sem rithöfund - Þórbergur Þórðarson lést árið 1974.
1969 Samtök frjálslyndra og vinstri manna, stofnuð - hann var stofnaður sem sérframboð Hannibals Valdimarssonar og bauð fyrst fram í alþingiskosningunum 1971 og sat í ríkisstjórn 1971-1974. Eftir slit stjórnarinnar og brotthvarf Hannibals úr pólitík fjaraði fljótt undan flokknum - var lagður niður 1979.
1978 Mesta slys íslenskrar flugsögu varð þegar 197 manns fórust er þota sem var í eigu Flugleiða hf. hrapaði í lendingu á Colombo í Sri Lanka. 8 íslenskir flugliðar létu lífið en fimm komust lífs úr slysinu.
1990 Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti að gefa afgreiðslutíma verslana í borginni alveg frjálsan.
1999 Edduverðlaun, Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, voru afhent í fyrsta skipti. Mynd Guðnýjar Halldórsdóttur, Ungfrúin góða og húsið, byggð á sögu föður hennar, var þá mjög sigursæl.

Snjallyrðið
Success is having a flair for the thing that you are doing; knowing that is not enough, that you have got to have hard work and a sense of purpose.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)