Það er algjörlega óhætt að fullyrða að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Frakklandi á sunnudag hafi verið pólitískt áfall fyrir Evrópusambandið og ekki síður Jacques Chirac forseta Frakklands. Í ítarlegri bloggfærslu minni í gær fór ég í löngu máli yfir niðurstöður kosningarinnar og afleiðingar hennar. Óhætt er að fullyrða að þær séu kjaftshögg fyrir Chirac forseta og mótandi fyrir forsetaferil hans, allavega næstu tvö árin, fram að næstu forsetakosningum. Allt frá því að niðurstaðan lá fyrir á sunnudagskvöldið til dagsins í dag hafði forsetinn setið ásamt nánustu samstarfsmönnum sínum og ráðherrum og farið yfir stöðuna og reynt að vinna úr þeirri flækju sem komin var á frönsk stjórnmál og stjórnina samhliða afgerandi afstöðu Frakka í kosningunni. Ekki var þetta ferli neinn hamingjudans fyrir forsetann og hann varð að horfast í augu við erfiðar ákvarðanir. Eitthvað varð að gera til að svara tapinu, en hann sjálfur ætlaði ekki að fara á sverðið - fórna sér vegna þessa áfalls sem stjórnin hafði orðið fyrir.
Niðurstaðan var auðvitað augljós og blasti við seinustu vikur. Hún varð þó endanlega ljós sem staðreynd strax eftir að útgönguspárnar birtust. Það var auðvitað það að Jean-Pierre Raffarin varð að víkja sem forsætisráðherra Frakklands. Hafði hann verið mjög óvinsæll undir lok valdaferilsins og beðið mikið afhroð í byggðakosningunum í fyrra. Þá blasti við að hann yrði látinn víkja. Chirac ákvað að það yrði ekki og hann sat áfram enn um sinn. En nú varð hann að fara. Eftir fund Raffarin með Chirac forseta í morgun baðst hann formlega lausnar frá embættinu, eftir þriggja ára valdaferil. Á sömu stund og Raffarin sat fundinn með Chirac komu flutningabílstjórar að Hotel Matignon, embættisbústað forsætisráðherrans, og hófu að flytja búslóð hans og Anne-Marie, eiginkonu hans, burt og héldu með hana að einkaheimili þeirra í París. Skömmu eftir að fundi forsetans og Raffarin lauk var formlega tilkynnt að Dominique de Villepin innanríkisráðherra og fyrrum utanríkisráðherra, yrði næsti forsætisráðherra. Hann hefur lengi verið náinn samstarfsmaður forsetans og varð heimsþekktur fyrir andstöðu sína við Íraksstríðið. Að loknum fundi hans og Chiracs hélt hann að Hotel Matignon og tók þátt í kveðjuathöfn starfsfólks embættisins fyrir Raffarin-hjónin.
De Villepin bíður ekki öfundsvert hlutverk í forsætisráðherratíð sinni. Honum hefur verið falið það verkefni að skapa brú aftur á milli hægriflokkanna og þjóðarinnar. Sú brú rofnaði endanlega á sunnudag í þeirri mynd sem verið hefur seinustu ár. Chirac þarf að skipta um áherslur og stefnu í kjölfar tapsins á sunnudag. Hann felur de Villepin það embætti og athygli vekur að Nicholas Sarkozy tekur við embætti de Villepin sem innanríkisráðherra og kemur aftur í stjórnina. Hann vék þaðan eftir að hann varð leiðtogi stjórnarflokksins á síðasta ári. Má telja öruggt að Chirac leiti nú meira til hægri og finni sér ný sóknarfæri. Það þurfa hann og franskir hægrimenn að gera ef þeir ætla að halda völdum eftir þetta mikla og stingandi afhroð. En ESB og forystumenn þar eru enn að ná áttum eftir þetta rothögg sem Frakkar veittu þeim á sunnudag. Á morgun kjósa svo Hollendingar. Má búast við að niðurstaða þeirra kosninga verði ekki síður rothögg og spurning hvort stjórnarskrárgemlingurinn sé tiltækur eftir seinna höggið í sömu vikunni.
Flokksstofnanir hægriflokkanna í Þýskalandi, CDU og CSU héldu sameiginlegan fund í gærmorgun og völdu þar forystumann hægriblokkarinnar í komandi kosningum og ræddi baráttutaktík væntanlegra kosninga í september. Hafa hægriflokkarnir sameinast um bandalag í kosningunni eins og jafnan áður. Eftir fundinn héldu leiðtogar flokkanna, þau Edmund Stoiber og Angela Merkel, blaðamannafund. Í upphafi fundarins tilkynnti Stoiber um þá sameiginlegu niðurstöðu hægriflokkanna að Angela Merkel myndi leiða baráttu þeirra í kosningunum. Hún verður því kanslaraefni hægriblokkarinnar í komandi kosningum, verður hún fyrsta þýska konan sem leiðir kosningabaráttu annars af stóru flokkunum í Þýskalandi.
Mætir hún í kosningabaráttunni sem meginandstæðingi sínum, Gerhard Schröder kanslara. Framundan er því hörð og snörp kosningabarátta. Eins og staðan er núna stefnir allt í öruggan sigur hægriblokkarinnar í haust. Flest bendir því til þess að Merkel verði fyrsta konan sem verður kanslari Þýskalands. Líst mér mjög vel á þá niðurstöðu mála að dr. Angela Merkel leiði kosningabaráttu hægrimanna í Þýskalandi. Vænti ég þess að hún leiði hægrimenn alla leið og til valda í þýska þinginu í Berlín. Miklar vonir eru bundnar við hana og forystu hennar. Menn ætlast til þess að hún vinni - eins og staðan hefur verið seinustu ár er markið ekki sett á neitt annað. Vinstristjórnin hefur ekki staðið undir væntingum almennings í landinu: staðan hefur ekki batnað þar þrátt fyrir fögur fyrirheit kanslarans og stuðningsmanna hans.
Og Merkel er rétti leiðtoginn til verka, hún vonandi sigrar með glæsibrag í haust. Viðeigandi var að Stoiber tilkynnti valið á Merkel. Hann leiddi kosningabaráttuna fyrir þrem árum og tapaði mjög naumlega. En nú var tími Merkel kominn. Það var glæsilegt hvernig Stoiber vann þetta núna og vék til hliðar sjálfviljugur til að tryggja bæði einingu og samstöðu hægriblokkarinnar um leiðtogann. Ljóst er að hún hefur nú afgerandi umboð til forystunnar. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í Merkel. Hún er töffari í þýskri pólitík og þykir í flestu andstæða kanslarans. Henni hefur tekist á nokkrum árum að styrkja ímynd sína og vinsældir hennar hafa aldrei verið meiri. Segja má að jafnaðarmenn standi nú ráðþrota frammi fyrir því að hægrimenn hafa sameinast fljótt og örugglega að baki Angelu Merkel. Menn eru búnir að ákveða leiðtogann og slagurinn er hafinn. Tími Angelu mun vonandi koma í haust. Þá verður hægristefnan að nýju aðalsmerki þýskra stjórnmála!
Seinustu daga hefur birst langur og ítarlegur greinaflokkur um einkavæðingu ríkisbankanna á árinu 2002 og aðdragandann að því ferli öllu. Þar fer Sigríður Dögg Auðunsdóttir yfir söguna. Segja má að greinaflokkurinn sé umfangsmikill og hafi vakið athygli, um fátt hefur verið meira rætt seinustu dagana. En já, er eitthvað nýtt í þessum greinum? Hvað þá helst? Er þetta ekki helst samtíningur gamalla tíðinda? Það tel ég vera. Margir eru að deila á að stjórnmálamenn taki ákvarðanir. Varla kemur það fólki að óvörum. Í raun eru það stjórnmálamenn sem taka lokaákvarðanir um slík stórmál - það eru engin ný tíðindi. En í grunninn er þetta allt mál sem Ríkisendurskoðun og lykilstofnanir hafa farið yfir með ítarlegum hætti. Þetta er allt flókið ferli sem farið hefur verið í gegnum og árið 2002 voru margar ákvarðanir teknar. Vissulega má takast á um það hvort rétt hafi verið að selja bankana. Það var umdeild ákvörðun, á því leikur enginn vafi. En hún var rétt, ég studdi sölu bankanna fyrir formlega sölu þeirra, gerði það þegar þeir voru seldir svo loksins og er enn þeirrar skoðunar að rétt hafi verið að selja þá. Enda hefur nú sést að þeir hafa styrkst mjög mikið frá sölunni. Þeir öðluðust nýtt líf, án ríkistengslanna.
En það er mikið gert með það þessa dagana að tekist hafi verið á innan stjórnarinnar um einkavæðingarferlið. Við erum að tala um tvo flokka og lykilmál seinustu ára. Það má við því búast að áherslur þeirra séu ólíkar. Það eru alltaf einhver átök þegar verið er að vinna saman niðurstöðu sem báðum aðilum hentar. Við sjáum átök orðið í hverri viku í R-listanum um málefnin. En að lokum eru allir sáttir þar og berja saman niðurstöðu. Það er eðli stjórnmála að tekist sé á innan meirihluta um leiðir til að ná niðurstöðu. Þessi stjórn hefur setið í áratug; tekist á við mörg stórmál og leyst þau. Auðvitað hafa menn í tveim ólíkum flokkum ekki alltaf verið sammála, skárra væri það nú. En menn hafa leyst ágreiningsefnin og farið heilir frá þeim. Þessi greinaflokkur er mjög athyglisverður, ég hef lesið allar greinarnar og haft gaman af. Þetta er eins og að lesa bók eftir Arnald, spenna og dramatík í hverju orði. Eftir stendur auðvitað að það er stjórnmálamanna að taka lykilákvarðanir. Það gera ekki embættismenn í nefnd. Stjórnmálamenn eru kosnir til að leiða mál - kosnir til að bera ábyrgð á mikilvægum málum. Það er bara þannig. En þessi greinaflokkur er ágætur svona í hágúrkunni þessa dagana, eða er það ekki bara? En hann boðar ekkert nýtt.
Eins og öllum er kunnugt sem kynnt hefur sér stöðuna á verslunarmannahelgum seinustu ára hér hefur lífernið á tjaldsvæðinu hér við Þórunnarstræti verið allsvakalegt þá. Í ágúst í fyrra var íbúum hér við götuna algjörlega nóg boðið. Villimennskan og sukkið fór yfir öll mörk. Draslið og sóðaskapurinn var af því kalíberi að það tók þrifsveit nokkra daga að koma hlutunum í samt lag og áður. Ég er algjörlega búinn að fá nóg af þessu ástandi, svo ég tali alveg prívat og persónulega. Það er með ólíkindum að fólki hér sé boðið upp á þessi vinnubrögð. Að mínu mati á að loka þessu tjaldsvæði tvær stærstu helgar sumarsins - algjörlega einfalt! Í gær tjáði sr. Svavar Alfreð Jónsson sóknarprestur og íbúi við tjaldsvæðið, sig um málið í fréttum. Tek ég algjörlega undir skoðanir hans. Þetta ástand er ekki fólki bjóðandi. Það gengur ekki að íbúum hér í hverfinu sé boðið upp á ástand af þessu tagi. Dóp- og áfengisneyslan þarna og ólifnaðurinn er slíkur að erfitt er að finna honum hæfileg orð. Það sem er þó verst er að visst fólk ætlar ekkert að læra af þessu sukksvalli sem boðið er upp á. Nú er svo komið að verið er að reisa girðingu utan um tjaldsvæðið, sem minnir mann óneitanlega á að þetta er ekki lengur tjaldsvæði - minnir mann mun frekar á afgirtan dýragarð. En ég spyr bara ósköp einfaldlega: er þetta ástand fólki bjóðandi? Ég segi nei!
Abdul Kalam forseti Indlands, er í opinberri heimsókn hér á Íslandi þessa dagana. Hefur hann farið víða frá því að hann kom til landsins á sunnudag og rætt við marga. Í gærmorgun var formleg móttökuathöfn að Bessastöðum og eftir það héldu forsetarnir sameiginlegan blaðamannafund. Í gær hitti Kalam nemendur Háskólans á fundi í náttúrufræðahúsinu Öskju, var gestur á fundi um viðvörunarkerfi vegna jarðskjálfta og annarra náttúruhamfara, heimsótti Norrænu eldfjallastöðina og Stjórnstöð almannavarna og lagði hornstein að nýrri byggingu lyfjafyrirtækisins Actavis. Mikla athygli vakti að Kalam kom hingað á sunnudag, sólarhring áður en formleg dagskrá hófst. Bauð hann vísinda- og fræðimönnum til kvöldverðar á sunnudeginum og ræddi þar málefni landsins og kynnti sér stöðu mála. Er það einsdæmi hérlendis að þjóðarleiðtogi komi fyrr til landsins en formleg dagskrá hefjist. Í gærkvöldi buðu svo forsetahjónin Kalam til hátíðarkvöldverðar í Listasafni Reykjavíkur. Segja má að sá málsverður hafi verið sögulegur. Þar voru einungis á borðum grænmetisréttir, enda er Kalam grænmetisæta og borðar því ekki kjöt. Er þetta í fyrsta skipti í sögu íslenska forsetaembættisins sem kjötréttir eru ekki á borðum í hátíðarkvöldverði.
Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, hefur nú tilkynnt að Landbúnaðarstofnun verði á Selfossi. Þessi ákvörðun ráðherrans lyktar af kjördæmapoti og því að heimamaðurinn ráðherrann sé að setja þessa stofnun í sitt hérað og vinna í haginn fyrir sjálfan sig. Í mínum augum er þetta ekkert annað en vildargreiðsla ráðherrans til stuðningsmanna sinna í landbúnaðarhéruðum kjördæmisins sem hann vinnur fyrir. Það vita það allir að meginþorri fylgis Guðna er í sveitunum í kringum Selfoss, það er grunnur hans pólitísku tilveru. Það að Landbúnaðarstofnun sé þar staðsett er því partur af því að ráðherrann vinni í haginn fyrir sitt kjördæmi á kostnað annarra blómlegra landbúnaðarsvæða landsins. Það er bara þannig. Að mínu mati hefði verið réttast að þessi nýja stofnun hefði komið í Skagafjörð eða Eyjafjörð. Eyjafjörður er blómlegasta landbúnaðarsvæði landsins, það verður fróðlegt hvernig ráðherrann ver þetta þegar hann á leið næst hingað á fund. Það verður ekki öfundsvert hlutverk, enda virðast rök hans fyrir valinu hafa ráðist af því að hafa þetta sem næst Brúnastöðum.
Saga dagsins
1884 John Harvey Kellogg kynnir kornflögur - Corn Flakes urðu vinsælasti morgunmatur sögunnar
1952 Dwight D. Eisenhower lætur af störfum sem hershöfðingi - hann varð forseti landsins ári síðar
1973 Richard M. Nixon forseti Bandaríkjanna, og Georges Pompidou forseti Frakklands, hittust á leiðtogafundi í Reykjavík og ræddu heimsmálin á Kjarvalsstöðum. Báðir voru þeir komnir að lokum valdaferils síns. Pompidou lést úr krabbameini 2. apríl 1974 og Nixon varð að segja af sér embætti, fyrstur forseta Bandaríkjanna, þann 9. ágúst 1974 vegna hins umfangsmikla Watergate-hneykslis
1991 Alþingi kom saman í fyrsta skipti eftir að deildaskipting hafði verið afnumin - starfaði í tveim málstofum, efri og neðri, í 116 ár. Fyrsti forseti Alþingis eftir sameiningu var Salome Þorkelsdóttir
1997 Ísland lenti í fimmta sæti á HM í handbolta í Japan - var besti árangur okkar Íslendinga á HM
Snjallyrðið
Í nótt er gott að gista Eyjafjörð
og guðafriður yfir strönd og vogum.
Í skini sólar skarta haf og jörð
og skýjabólstrar slegnir rauðum logum.
Það veit hver sál, að sumar fer í hönd,
en samt er þögn og kyrrð um mó og dranga,
og hvorki brotnar bára upp við strönd
né bærist strá í grænum hlíðarvanga.
Svo ljúft er allt í þessum heiða hyl,
svo hátt til lofts og mjúkur barmur jarðar,
að víst er engin veröld fegri til
en vornótt björt í hlíðum Eyjafjarðar.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Vor í Eyjafirði)