Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 mars 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra, flutti í dag góða ræðu á ráðstefnu um stjórnsýslulög. Þar sagði hann að ástæða kunni að vera til þess, samhliða því að úttekt verði gerð á framkvæmd stjórnsýslulaganna síðasta áratuginn, að kanna hvort ástæða sé til að koma nú upp sérstökum stjórnsýsludómstól til eftirlits með störfum stjórnvalda. Á þessu ári eru tíu ár liðin frá því ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar settu stjórnsýslulög, var ráðstefnan haldin í tilefni af því afmæli. Davíð sagði í ávarpi sínu að Íslendingar hafi sparað að koma sér upp sérstökum stjórnsýsludómstól til eftirlits með störfum stjórnvalda eins og tíðkist víða annars staðar. Af því leiði að almennu dómstólarnir þurfi ekki síður en stjórnsýslan sjálf að tileinka sér víðtæka þekkingu á þeim réttarreglum, sem um starfsemi hennar gilda. Davíð sagði að á sínum tíma hefði hann talið ástæðu til að kanna hvort þörf væri á stofnun sérstaks stjórnsýsludómstóls samhliða setningu stjórnsýslulaga en þá þótti slíkur dómstóll ekki vera í takt við þær réttarfarsbreytingar sem þá stóðu yfir. Davíð sagði einnig, almennt orðalag sumra ákvæða stjórnsýslulaganna hafi orðið til þess að bæði dómstólar og umboðsmaður Alþingis hafi ljáð þeim mun strangari merkingu en ætlunin var, eins og túlkun ákvæðanna um andmælarétt sé til vitnis um. Stjórnvöld séu síðan nauðbeygð að elta slík fordæmi og þannig verði til hringrás sem erfitt geti verið að losna út úr, nema með viðeigandi lagabreytingum.

RÚVRekstrarhalli Ríkisútvarpsins á síðasta ári nam um 314 milljónum króna. Auglýsinga- og kostunartekjur náðu ekki áætlun á árinu 2003 en stofnunin segir, að rekstur flestra deilda hafi verið í allgóðu samræmi við þann ramma sem settur var. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var 133 milljónir króna en fjármagnsgjöld urðu talsvert hærri en búist var við, einkum vegna gengis- og verðlagsþróunar. Í tilkynningu Ríkisútvarpsins til Kauphallar Íslands segir, að stofnuninni haf tekist að hagræða verulega á undanförnum árum, enda ítrekað verið farið ofan í rekstur einstakra deilda. Hagræðing þessi hafi þó ekki nægt til að vega á móti lækkandi rauntekjum og vaxandi byrðum stofnunarinnar vegna lífeyrisskuldbindinga og kostnaðar vegna rekstrar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Tekjur vegna afnotagjalda að teknu tilliti til afskrifta þeirra voru 2.123 milljónir króna á árinu 2003 og höfðu þá hækkað um 0,7% á milli ára. Kostnaður vegna fjármagnsliða fór um 54 milljónum fram úr áætlun. Niðurstöðutölur og rekstarhalli ársins 2003 er nokkuð hærri en vonir stóðu til. Við blasir að breytinga er þörf. Það er mikilvægt að hafinn verði undirbúningur þess að einkavæða RÚV og selja strax t.d. Rás 2. Það er nauðsynlegt að gerðar verði róttækar breytingar á rekstri RÚV og það einkavætt. Ríkið á ekkert erindi á fjölmiðlamarkaði á 21. öld.

Geir H. Haarde fjármálaráðherraGeir H. Haarde fjármálaráðherra, mun á næstu dögum leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um olíugjald og kílómetragjald en þar er lagt til að núverandi þungaskattskerfi, sem byggir á lögum um fjáröflun til vegagerðar, verði lagt niður og tekið upp olíugjald ásamt sérstöku kílómetragjaldi á ökutæki sem eru yfir 10 tonn að leyfðri heildarþyngd. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ný lög um þetta efni taki gildi um næstu áramót. Olíugjaldið verður lagt á sömu aðila og þungaskatturinn, þ.e. eigendur ökutækja sem knúin eru dísilolíu. Þeir sem eru undanþegnir þungaskatti nú verða undanþegnir olíugjaldi þar sem dísilolía til þeirra verður lituð og þannig aðgreind frá hinni gjaldskyldu dísilolíu. Fjármálaráðuneytið segir, að um sé að ræða sams konar fyrirkomulag og sé við lýði í flestum ríkjum V-Evrópu. Ráðuneytið segir í fréttatilkynningu í dag að með því að tengja gjaldtöku við olíunotkun sé stuðlað að notkun á sparneytnari og umhverfisvænni ökutækjum. Dísilknúnar fólksbifreiðar verði álitlegri kostur fyrir einstaklinga en verið hafi og skattlagning dísil- og bensínbifreiða samræmd þannig að sömu rekstrarforsendur eigi við. Með sérstöku kílómetragjaldi á þyngri bifreiðar verði gjaldtakan meira í samræmi við það slit sem þær valdi á vegakerfinu.

Ósk ÓskarsdóttirSvona er frelsið í dag
Ósk vinkona mín, fer á kostum í pistli dagsins á frelsinu. Alveg mögnuð yfirferð um "frábærleika" fléttulista. Orðrétt segir Ósk: "Stuðningsmönnum frábærleika fléttulista er frjálst að fyrirskipa slíka starfshætti í sínum flokki. Slíkt virðist þó ekki nægja þeim, því þar með er aðeins trýnið á birningum unnið, að þeirra mati. Þetta má sjá á orðum Atla Gíslasonar því hann krefst þess að allir stjórnmálaflokkar verði skyldaðir til þess með lögum að viðhafa þetta skipulag við uppröðun á framboðslista. Þvílík frekja. Munurinn á vinstri og hægri í stjórnmálum birtist hér ljóslifandi fyrir augum okkar: vinstri vill afturför (jafnvel fara í hringi) og fjötra, hægri kýs framför og frelsi. Vinstrimenn vilja mæla hæfni fólks eftir kyni, hægrimenn meta verðleika. Hægrimenn vilja tryggja jafnan aðgang allra að sömu störfum þar sem allir hafa aðgang að sömu röð, vinstrimenn skipa fólki að raða sér í tvær einfaldar raðir eftir kyni. Hversu lengi þurfum við að bíða eftir því að lengra verði gengið? Verður bráðum hætt að tala um bágan hlut kvenna í stjórnmálum og farið að tala um að milli kvenna ríki innbyrðis ójafnrétti, þeim sé mismunað eftir hæð, aldri og klæðaburði?" Bravúr pistill.

GladiatorKaffihúsaspjall - kvikmyndagláp
Fór eftir kvöldfréttirnar í gærkvöldi á kaffihúsið Bláu könnuna, hitti þar nokkra vini og áttum við gott spjall um helstu málin, líflegt og gott spjall yfir súkkulaðitertu og kakósopa. Virkilega gaman, enda hress og góður hópur. Er heim kom fórum við að horfa á óskarsverðlaunamyndina Gladiator. Í henni er sögð magnþrungin saga hins mikla rómverska hershöfðingja Maximus, sem hefur í sögubyrjun enn einu sinni leitt heri sína til sigurs á vígvellinum og í þetta sinn unnið fullnaðarsigur, við mikla ánægju hins dauðvona keisara Markúsar Árelíusar, en hann lítur á Maximus sem soninn sem hann vildi öllu fremur en eignaðist aldrei. Í staðinn eignaðist hann Commodus, sem er spilltur og grimmur og vill völd meira en nokkuð annað og bíður þess að faðir hans fari að hrökkva upp af. Er Commodus áttar sig á að faðir hans ætlar að gera Maximus að arftaka sínum á keisarastóli til að reisa við lýðræðið þá drepur Commodus föður sinn og reynir ennfremur að drepa Maximus og fjölskyldu hans en hann sleppur naumlega undan morðhundum hans. Hann flýr heim en sér þá að Commodus hefur bæði myrt eiginkonu hans og einkason. Maximus sem er fullur af harmi og reiði hyggur á hefndir. Gríðarlega vel leikið epískt meistaraverk. Russell Crowe hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á Maximus. Richard Harris, Oliver Reed og Joaquin Phoenix fara á kostum í sínum hlutverkum. Glæsileg mynd fyrir sanna kvikmyndaunnendur.

Dagurinn í dag
* 1863 Vilhelmína Lever kaus á Akureyri - fyrsta konan sem kaus til sveitarstjórna
* 1909 Björn Jónsson varð annar ráðherra Íslands - sat á ráðherrastóli í tvö ár
* 1967 Snjódýpt á Raufarhöfn mældist 205 sentimetrar - eflaust með eindæmum í þéttbýli
* 1979 Steingrímur Hermannsson kjörinn formaður Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi
* 1981 Robert De Niro hlaut óskarinn fyrir ógleymanlega túlkun á Jake La Motta í Raging Bull

Snjallyrði dagsins
You win, you win. You lose, you still win.
Joey La Motta í Raging Bull

30 mars 2004

Dr. Condoleezza RiceHeitast í umræðunni
Dr. Condoleezza Rice þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjastjórnar, mun bera vitni eiðsvarin fyrir þingnefnd, sem rannsakar aðdraganda hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001. Ennfremur munu George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Dick Cheney varaforseti, boðist til að bera vitni fyrir nefndinni, en með því skilyrði að það verði ekki gert fyrir opnum tjöldum. Hvíta húsið hafði áður gefið til kynna að dr. Rice myndi ekki koma fyrir nefndina en mikill þrýstingur hefur verið á bandarísk stjórnvöld um að hún beri vitni vegna gagnrýni, sem komið hefur fram á viðbúnað Bandaríkjamanna við hugsanlegum hryðjuverkum. Richard Clarke fyrrum yfirmaður baráttunnar gegn hryðjuverkum, gagnrýndi í vitnisburði sínum fyrir frammi nefndinni og nýlegri bók sinni, ríkisstjórnina fyrir aðgerðarleysi í aðdraganda 11. september 2001, en embættismenn í Hvíta húsinu hafa ráðist harkalega að Clarke og saka hann um að vilja koma höggi á Bush og hleypa lífi í sölu bókar sinnar um efnið. Scott McClellan talsmaður Hvíta hússins, sagði við blaðamenn í dag að nefndin hefði fallist á að gefa skriflega yfirlýsingu um að hvorki vitnisburður Rice né Bush og Cheney, myndi raska stjórnarskrárbundnum ákvæðum um aðskilnað framkvæmda- og löggjafarvalds.

Jean-Pierre Raffarin og Jacques ChiracJacques Chirac forseti Frakklands ákvað í morgun að Jean-Pierre Raffarin myndi gegna áfram embætti forsætisráðherra landsins, þrátt fyrir ákafan þrýsting um að hann skyldi látinn víkja og annar skipaður í hans stað. Ríkisstjórnin sagði í morgun af sér og ennfremur Raffarin en forsetinn skipaði hann þegar í stað aftur í embætti og fól honum að mynda starfhæfa stjórn. Eins og ég sagði frá í gær voru úrslit frönsku sveitarstjórnarkosninganna mikið áfall fyrir forsetann og stjórnina. Sósíalistar unnu sigur í nær öllum 26 héruðum Frakklands og stjórnarflokkarnir guldu afhroð og hlutu aðeins 37% atkvæða en sósíalistar og stuðningsflokkar þeirra tæplega helming atkvæða. Erfitt er að spá í stöðu forsætisráðherrans, þó hann sitji áfram. Flestir eru á því að hann verði látinn fara frá seinna á árinu þegar efnahagsumbætur ríkisstjórnarinnar verða endanlega komnar í gegn og breytt þá um forystu. Raffarin er óvinsælasti stjórnmálamaður landsins um þessar mundir og því ekki farsælt hægristjórninni að hann leiði hana áfram mikið lengur.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherraHalldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun fyrirhugað samkomulag EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins sem tryggir að stækkun Evrópska efnahagssvæðisins taki gildi 1. maí nk. samtímis stækkun Evrópusambandsins. Þann dag ganga 10 ný ríki í sambandið. Með samkomulaginu er komið í veg fyrir að dráttur verði á stækkun EES jafnvel þó einstök aðildarríki ESB hafi ekki lokið því að fullgilda samninginn um stækkun EES. Stefnt er að því að samkomulagið verði undirritað í Brussel í næstu viku. Ráðherra segir í Stiklum, vefriti utanríkisráðuneytisins, að hann fagni þessu samkomulagi og líti svo á að stækkun EES sé komin í örugga höfn. Almenn samstaða ríki á Alþingi um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins, en hún hafi verið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Kostir EES-samningsins séu þannig óumdeildir ólíkt því sem margir héldu fram þegar samningurinn var gerður. Almenningur er greinilega á sama máli en fram kom í nýlegri skoðanakönnun að 72% landsmanna töldu samninginn hafa haft jákvæð áhrif á íslenskt samfélag.

Atli Rafn BjörnssonSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins fjallar Atli Rafn um mikilvægi þess að einkavæða sem fyrst Símann. Eins og fram kom fyrir nokkrum dögum er stefnt að sölu fyrirtækisins fyrir lok þessa árs. Orðrétt segir Atli Rafn: "Þær erfiðu markaðsaðstæður sem ollu því að fresta varð sölu Landsímans eru ekki lengur til staðar. Þvert á móti þá hefur ítrekað komið fram hjá greiningar- og markaðsaðilum að Kauphöllinni sárlega vanti fleiri góða kosti. Mikið fjármagn leitar nú fárra fjárfestingatækifæra og margir líta híru auga til Símans enda fyrirtækið öflugt. Sala á þessum tímapunkti mun því bæði styrkja Símann sem á í mikilli samkepnni við einkafyrirtæki og einnig Kauphöllina þar sem áhugasamir fjárfestar s.s. lífeyrissjóðir virðast nú tilbúnir til að kaup hlut í félaginu. Það sem mestu máli skiptir er hins vegar að einkavæðing stuðlar að bættum rekstri starfsmönnum og eigendum til hagsbóta, betri þjónustu fyrir viðskiptavini og skilar fjármagni í ríkiskassann. Það sjá allir sem vilja að ástæður tafa á sölu Símans liggja í skorti á pólitískum vilja. Í þessu máli sem og svo mörgum öðrum þá hefur heyrst að þrálát andstaða Framsóknarflokksins við söluna sé aðal orsökin." Góður pistill, hvet alla til að líta á hann. Ennfremur birtist ályktun stjórnar Heimdallar um nýframlagt frumvarp dómsmálaráðherra til breytinga á útlendingalögum.

TrafficSjónvarpskvöld
Eftir fréttirnar horfði ég á viðtal Kristjáns og Svansíar við utanríkisráðherra. Var farið víða yfir í pólitíkinni: Íraksmálið, þingmálin, ráðherrakapal Framsóknar og forsetaembættið svo fáeint sé nefnt. Mesta athygli mína vakti að utanríkisráðherrann ljáði máls á að fella niður eða breyta verulega 26. grein stjórnarskrárinnar um heimild forseta til að synja lagafrumvörpum um samþykki. Gott að heyra það, en mínus vissulega að hann halda lífinu í þessu gagnslausa embætti. Eftir þáttinn horfðum við á kvikmyndina Traffic. Spannar fjórar sögur af fíkniefnavandanum mikla í Bandaríkjunum og Mexíkó. Allt magnaðar mannlýsingar að vönduðustu gerð. Það er í raun ekki hægt annað en að dást að Steven Soderbergh fyrir að hafa tekist á hendur þetta mikla verk að túlka á raunsæjan hátt afleiðingar og fylgifiska eiturlyfjanna. Leikaraliðið er glæsilegt, fremstur í flokki er Benicio Del Toro sem hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á fíkniefnalöggu. Michael Douglas er einnig eftirminnilegur í hlutverki íhaldssams dómara, eiginkona hans Catharine Zeta-Jones, er ekki síðri í að túlka eiginkonu dópbaróns. Soderbergh hlaut óskarinn fyrir leikstjórn sína. Einstakt meistaraverk.

Dagurinn í dag
* 1816 Hið íslenska bókmenntafélag, stofnað til að viðhalda íslenskri tungu og bókaskrift
* 1949 Aðild Íslands að NATÓ samþykkt á Alþingi - óeirðir á Austurvelli vegna þess
* 1955 Marlon Brando hlýtur óskarinn fyrir túlkun sína á Terry Malloy í On the Waterfront
* 1981 Geðsjúkur maður reynir að myrða, Ronald Reagan forseta Bandaríkjanna
* 2002 Elísabet drottningarmóðir, andast í Royal Lodge í Windsor, 101 árs að aldri

Snjallyrði dagsins
Even the most sublime ideas sound ridiculous if heard too often.
Mario Ruoppolo í Il Postino

29 mars 2004

Jacques Chirac forseti FrakklandsHeitast í umræðunni
Frönsku stjórnarflokkarnir guldu afhroð í seinni umferð frönsku sveitarstjórnarkosninganna í gær. Eftir fyrri umferð var ljóst að vinstri flokkarnir myndu bera sigur úr býtum en enginn bjóst þó við jafnskýrri afstöðu kjósenda og er ljós nú. Sósíalistar og stuðningsflokkar þeirra hlutu helming atkvæða en hægriflokkur Chiracs Frakklandsforseta fékk aðeins 37% fylgi. Lýðfylkingin, lengst til hægri, fékk 13%. Sósíalistar unnu sigur í 20 af 22 héruðum í Frakklandi en alls var kosið til 26 héraðsstjórna. Niðurstöðurnar endurspegla óánægju kjósenda með umbætur stjórnarinnar í félags, velferðar- og heilbrigðismálum, vaxandi atvinnuleysi og staðnaðan efnahag. Ekki virðist afstaða stjórnvalda í Íraksdeilunni hafa hjálpað þeim mikið heldur. Frönsk blöð segja Chirac hafa verið auðmýktan og að hann geti ekki virt að vettugi vilja kjósenda. Öruggt er að þessi úrslit leiði til hrókeringar í ríkisstjórninni og jafnvel átt von á að Jean-Pierre Raffarin forsætisráðherra, verði settur af. Beðið er nú viðbragða Chirac forseta. Sigur sósíalista í sveitarstjórnarkosningunum hefur engin bein áhrif á meirihluta hægri- og miðjuflokkanna á þingi en úrslitin eru viðvörun til ríkisstjórnarinnar. Þing- og forsetakosningar verða eftir þrjú ár, árið 2007. Verði Raffarin settur af er líklegur eftirmaður hans innanríkisráðherrann Nicolas Sarkozy en það sem stendur í vegi fyrir því eru stirð samskipti hans og Chiracs og jafnframt áhugi Sarkozy á forsetaembættinu.

Sir Peter Ustinov (1921-2004)Óskarsverðlaunaleikarinn Sir Peter Ustinov lést á heimili sínu í Sviss í gærkvöldi, 82 ára að aldri. Ustinov fæddist 16. apríl 1921 í Lundúnum og var einkasonur rússneskrar listakonu og blaðamanns. Hann var kominn af mörgum þjóðernum og sagðist eitt sinn hafa svissneskt, eþíópískt, ítalskt og franskt blóð í æðum, að auki þess rússneska, reyndar allt nema enskt. Hann átti að baki litríkan leikferil. Ustinov kom fyrst fram á leiksviði 19 ára að aldri og lék eftir það í fjölda kvikmynda og leikrita. Hann sendi einnig frá sér skáldsögur og leikrit. Hann er ógleymanlegur kvikmyndaáhugafólki fyrir leik sinn á spæjaranum Hercule Poirot í fimm kvikmyndum á áttunda og níunda áratug 20. aldarinnar. Hann hlaut óskarsverðlaun tvívegis á sjöunda áratugnum fyrir leik í aukahlutverki, í kvikmyndunum Spartacus og Topkaki. Hann hætti leik að mestu á níunda áratugnum og lét eftir það að mestu til sín taka í mannúðarmálum og var lengi velviljasendiherra UNICEF, barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Oft átti hann stórleik á glæsilegum ferli, t.d. sem Poirot (enginn kom einkaspæjaranum betur til skila á hvíta tjaldinu en hann) en Ustinov var aldrei betri á ferlinum en í hlutverki Lentulus Batiatus í Spartacus. Magnaður karakter sem var einn besti leikari 20. aldarinnar.

Ný ríki í NATÓSjö ríki frá Austur-Evrópu, þar af þrjú fyrrverandi ríki innan Sovétríkjanna, verða formlega aðildarríki að Atlantshafsbandalaginu, NATÓ, í dag. Forsætisráðherrar Búlgaríu, Eistlands, Lettlands, Litháens, Rúmeníu, Slóvakíu og Slóveníu munu undirrita seinnipartinn aðildarskjöl bandalagsins við hátíðlega athöfn í bandaríska fjármálaráðuneytinu. Er um að ræða mestu stækkun bandalagsins í sögu þess. Á morgun eru liðin 55 ár frá því að Alþingi samþykkti aðild Íslands að bandalaginu og þann 4. apríl 1949 staðfestu utanríkisráðherrar stofnþjóða þess, sáttmála þess við hátíðlega athöfn í Washington. Fyrir Íslands hönd undirritaði dr. Bjarni Benediktsson samninginn. Aðildarlönd NATO eru nú tuttugu og sex talsins.
Colin Powell utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun stjórna athöfninni, sem markar tímamót í sögu NATO. Lönd innan Sovétríkjanna fyrrverandi eru orðin hluti af hernaðarbandalagi, sem stofnað var á sínum tíma, er hið kalda stríð var í algleymingi eftir seinni heimsstyrjöld, og ríki í Vestur- og Austur-Evrópu áttu í mikilli baráttu um yfirráð yfir álfunni.

Heiðrún Lind MarteinsdóttirSvona er frelsið í dag
Í dag eru tvær góðar greinar á frelsinu. Sú fyrri er eftir Heiðrúnu Lind og ber heitið Hvar er jafnréttið?, og fjallar þar um samnefnt málþing forsætisráðuneytisins um jafnréttismál, þann 17. mars sl. Orðrétt segir hún: "Samkvæmt lögum er jafn réttur kynjanna fyrir hendi – reyndar má segja að löggjafinn sé kominn fram úr sjálfum sér með því að setja konur á hærri stall enda segir í d-lið 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 að markmiði laganna skuli náð með því að „bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu”. Þykir þetta nokkuð athyglivert enda er það meginmarkmið þessara sömu laga að veita einstaklingum jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði. Var því velt upp á málþinginu hvert næsta skref væri sem stíga ætti í átt til jafns réttar kynjanna í hvívetna? Líkt og kom fram í erindi Láru V. Júlíusdóttur hrl. er sitt hvað jafnrétti og jafnrétti. Formæður höfðu uppi kröfur um kosningarétt kvenna og mæður börðust fyrir aukinni menntun kvenna. En þegar þessu hefur verið náð þarf að spyrja hverju konur í dag berjast fyrir? Má ekki segja að nú sé komið að konum sjálfum – í stað löggjafans – að stýra eigin fleyi? Ennfremur skrifar Kári fínan pistil þar sem hann heldur áfram að pæla í einkaleyfum í skjóli ríkisins. Í pistlinum segir svo: "HÍ hefur einnig einkaleyfi á útreikningum og sölu á almanökum og dagatölum. Háskólanum er skylt að gefa út árlega dagatöl fyrir Ísland og dreifa því til allra kaupstaða eins og það er orðað í lögunum. Einkalaðilar mega því ekki flytja inn sín dagatöl þótt að þau gætu verið ódýrari fyrir neytendur og mundu að sjálfsögðu stuðla að samkeppni milli framleiðanda. Reyndar mega einkaaðilar fá undanþágu á þessu einkaleyfi HÍ en verða að greiða fyrir það ákveðið gjald til ríkisins, sem dómsmálaráðherra ákveður eftir tillögum frá samkeppnisaðilanum; Háskóla Íslands."

Primary ColorsSjónvarpskvöld
Í gærkvöldi horfði ég á Silfrið, þar var athyglisverð umræða um fréttaflutning DV. Tóku sr. Halldór Reynisson og Ingólfur Margeirsson, Reyni Traustason fréttastjóra DV, aldeilis í gegn í þættinum og kenndu honum siðina og hvernig blaðamennska á að vera. Athygli vakti að Reynir gat ekki komið með gild rök fyrir því hversvegna blaðið er á þeirri ferð sem það er á. Ennfremur ræddi Egill við Steingrím Hermannsson fyrrum forsætisráðherra. Var farið yfir fjölda mála í athyglisverðu spjalli. Eftir fréttir horfði ég á fréttaskýringaþáttinn Í brennidepli, þar sem fjallað var um þrenn fróðleg mál. Leit svo á þáttinn Cold Case, venju samkvæmt. Horfðum svo á kvikmyndina Primary Colors með John Travolta og Emmu Thompson í aðalhlutverkum. Vel viðeigandi eftir að hafa séð heimildarmyndina The War Room í vikunni. Í kvikmyndinni er sögð sagan af forsetaframbjóðandanum Jack Stanton og hinni framagjörnu eiginkonu hans. Löstur hans er hinsvegar sá að hann er kvennaflagari hinn mesti, sem brátt kemur honum í koll í baráttu sinni fyrir forsetaembættinu. Ekki þarf að horfa lengi á báðar þessar myndir til að sjá að þau lýsa sömu kosningabaráttu, enda ætti flestum að vera ljóst að fyrirmyndin að Stanton er Clinton forseti og verið er að lýsa kosningabaráttunni 1992. Myndin sýnir á nokkuð snjallan hátt hvernig hægt er að koma manni í áhrifastöðu sem er bæði gegnumspilltur og vonlaus. Travolta er alveg hreint sláandi líkur Clinton forseta og er hér að sýna besta leik sinn síðan í Pulp Fiction. Sú sem stelur hinsvegar senunni er ótvírætt Kathy Bates, sem brilleraði í hlutverki Libby Holden, áróðursmeistara Stantons. Var mikil synd að hún hlaut ekki óskarinn fyrir sinn stórleik. Þetta er kvikmynd sem allir stjórnmálaáhugamenn ættu að hafa sannkallað gaman að.

Dagurinn í dag
* 1947 Heklugos hófst - voru þá 102 ár liðin frá því seinasta, gosið stóð í rúmt ár
* 1961 Tímamótafrumvarp um launajöfnuð kvenna og karla voru staðfest á Alþingi
* 1970 Henný Hermannsdóttir sigraði í keppninni Miss Young International í Japan
* 1982 Henry Fonda og Katharine Hepburn hlutu óskarinn fyrir stórleik í On Golden Pond
* 1988 Dustin Hoffman hlaut óskarinn fyrir magnaða túlkun á einhverfum manni í Rain Man

Snjallyrði dagsins
Good luck, and may fortune smile upon...most of you.
Lentulus Batiatus í Spartacus

28 mars 2004

José Maria AznarHeitast í umræðunni
José Maria Aznar fráfarandi forsætisráðherra Spánar skrifaði í vikunni ítarlega grein í The Wall Street Journal. Þar rekur hann aðgerðir stjórnvalda eftir hryðjuverkaárásina 11. mars og hrekur allar ásakanir um blekkingar og yfirhylmingu. Aznar bendir á að enginn sé óhultur fyrir hryðjuverkum, að nú sé ekki rétti tíminn til að gefa eftir í baráttunni gegn hryðjuverkum og gefa í skyn að hryðjuverkamenn geti náð fram vilja sínum með ódæðisverkum og hótunum. Hef ég fjallað um þetta mál í seinustu tveim sunnudagspistlum og tek því undir ummæli Aznar. Orðrétt segir hann í þessari vönduðu grein: "In the entire course of my political life, and especially during the eight years in which I have been prime minister, I have said that terrorism is not a local phenomenon, confined to particular areas or countries, to be confronted with domestic means alone. On the contrary, terrorism is a global phenomenon, one that crosses borders. And it gains in strength when we think that it is the problem of "others" and should be taken care of by "others." The debates that followed the Madrid attacks have been about whether they were carried out by ETA or al Qaeda. It is obviously essential to find out who was behind the attacks. But all terrorism carries the same threat; all terrorist attacks are infused with hatred for liberty, democracy and human dignity. They feed on each other."

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÍ helgarpistli sínum fjallar Björn um skjallbandalag Baugsmiðla, gegnsæi og almannahagsmunir. Orðrétt segir hann: "Þegar talað er um almannahagsmuni, vaknar auðvitað spurningin: hverjir eru almannahagsmunir í málum sem þessum? Þeir eru að mál upplýsist, að lögreglan komi höndum yfir hina seku. Það eru ekki almannahagsmunir, að almenningur geti lesið frá orði til orðs hvað hver segir í hverri yfirheyrslu. Það eru einnig almannahagsmunir, ekki aðeins í þessu máli heldur almennt við rannsókn glæpamála, að lögreglan geti yfirheyrt vitni þannig að bæði lögregla og ekki síður vitni geti treyst því, að uppskrift samtalsins verði ekki boðin til sölu á næsta götuhorni morguninn eftir. Af hverju skilja blaðamenn, sem sýknt og heilagt tala fjálglega um „vernd heimildarmanna“, sístir manna, að mun erfiðara verður að fá menn til að bera vitni, þegar þeir taka að óttast, að yfirheyrsluskýrslan komist í hendur blaðamanna af þeirri gerð, sem bara birta hana til sölu ef þeir geta. Það eru ekki almannahagsmunir að skemma fyrir lögreglurannsóknum, draga úr tiltrú lögregluyfirvalda og minnka líkur á að mál upplýsist. Það getur verið að einhverjir hafi einkahagsmuni af slíku, en það eru ekki almannahagsmunir."

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um lágt plan fréttamennsku DV sem birtist almenningi í vikunni er birtar voru orðrétt í blaðinu yfirheyrsluskýrslur yfir sakborningum í svokölluðu líkfundarmáli og ennfremur hvernig Baugsfjölmiðlarnir brugðust við gagnrýni um málið og hvernig t.d. DV er komið á hált svell í umfjöllun um mál almennt. Í vikunni sá ég heimildarmyndina The War Room og fjalla í tilefni þess um forsetakosningar þá og nú í Bandaríkjunum. Margt hefur breyst á þeim 12 árum sem liðin eru frá hinum eftirminnilega kosningaslag Bush og Clinton 1992. Þá var Netið ekki orðinn sá mikli þáttur í kosningabaráttu sem nú er. Nú hafa forsetaframbjóðendur allir vefsíður og eru með þær sem aðalmiðstöð baráttu sinnar og til að koma upplýsingum til almennings um kosningabaráttuna og birta þar skrif eftir sig. Netvæðingin hefur verið hröð seinasta áratuginn og engin kosningabarátta háð á okkar tímum án notkunar Internetsins sem umfangsmikils fjölmiðils. 1992 var ekkert slíkt til staðar, helst var komið upplýsingum út með viðtölum og fjöldafundum. Það er enn til staðar eins og sést í kosningabaráttu nú og hitt því hrein viðbót við umfangsmikla kosningabaráttu vestan hafs. Leiðir þetta til þess að frambjóðendurnir eru í enn meiri nálægð við almenning, kjósendur sína. Fréttamennska er ennfremur orðin harðari en var á þessum tíma og gengið mun nær frambjóðendum. Að lokum skrifa ég um viðbrögð við pistli mínum um spjallvefi.

The Silence of the LambsSjónvarpsgláp - kvikmyndir
Horfði seinnipartinn í gær á Silfrið, þar sem var áhugavert spjall. Að loknum fréttum var að venju horft á Laugardagskvöld með Gísla Marteini og Spaugstofuna. Horfðum svo á óskarsverðlaunamynd Jonathan Demme, The Silence of the Lambs. Klassísk óskarverðlaunamynd sem segir frá Clarice Starling fulltrúaefna hjá FBI, sem fengin er til að hafa hendur í hári fjöldamorðingjans Buffalo Bill. Þarf hún að leita til mannætunnar og sálfræðingsins Dr. Hannibals Lecter, til að fá upplýsingar um hann. Á Clarice að meta það hvort hægt er að fá hann til að gefa einhverjar vísbendingar um glæpi Buffalo Bill. Sambandið sem myndast á milli þeirra er eitt það magnaðasta í kvikmynd seinni tíma og er þungamiðjan í myndinni. Þessi frábæra kvikmynd er byggð á metsölubók Thomas Harris og hlaut fimm óskarsverðlaun, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins 1991 og fyrir leik Anthony Hopkins og Jodie Foster. Bæði fara á kostum í mögnuðum hlutverkum. Eftir myndina var litið á næturlífið.

Dagurinn í dag
* 1875 Öskjugos hófst - talið eitt mesta öskugos sem orðið hefur á Íslandi
* 1909 Safnahúsið við Hverfisgötu vígt - þá og nú eitt glæsilegasta hús landsins
* 1956 Samþykkt á þingi að reka Varnarliðið úr landi - hætt við ákvörðunina í nóv. 1956
* 1977 Sir Peter Finch hlaut óskarinn fyrir leik sinn í Network - Finch lést í janúar 1977
* 1997 Frances McDormand hlaut óskarinn fyrir leik sinn í hinni mögnuðu Fargo

Snjallyrði dagsins
A census taker once tried to test me. I ate his liver with some fava beans and a nice chianti.
Dr. Hannibal Lecter í The Silence of the Lambs

26 mars 2004

Sögulegt handtak í Líbýu - Tony Blair og Moammar Gaddafi heilsastHeitast í umræðunni
Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, kom til Trípólí í Líbýu í gær til að ræða við Moammar Gaddafi leiðtoga landsins, eftir áratugalanga einangrun þess. Fundarstaður leiðtoganna var tjald Gaddafi fyrir utan Trípólí. Er siður þar í landi að höfðingjar fundi í tjöldum og ráði ráðum sínum. Stóðu viðræður þeirra í rúmlega 90 mínútur. Ekki var annað hægt sjá en að vel færi á með leiðtogunum. Þeir tókust í hendur og vinsamlegt spjall í örfáar mínútur fyrir framan myndavélarnar fyrir og eftir fundinn í tjaldinu. Fundurinn markar þáttaskil og er skref í átt til þess að einangrun Vesturlanda á Líbýu líði undir lok. Sambúð Bretlands og Líbýu stórversnaði eftir að breska lögreglukonan, Yvonne Fletcher, féll fyrir skotum úr sendiráði Líbýu í London 1984 þegar efnt var til mótmæla gegn Gaddafi. Bretar slitu stjórnmálasambandi við landið í apríl 1984. Í desember 1988 sprakk bandarísk farþegaflugvél yfir Lockerbie í Skotlandi og 270 menn létu lífið. Árið 1991 sökuðu stjórnir Bretlands og Bandaríkjanna nafngreinda Líbýumenn um tilræðið en Líbýustjórn neitaði sekt þeirra. Réttað var yfir sakborningum í Haag eftir að þeir voru loks framseldir í apríl 1999. Voru þeir dæmdir til lífstíðarfangelsisvistar í Skotlandi á árinu 2001.

Blair og Gaddafi ræða samanUndanfara þessarar sögulegu heimsóknar má rekja til þess að lausn kom í Lockerbie-málið. Í mars 2003 náði Líbýa samningum við Bandaríkin og Bretland um að axla ábyrgð á sprengingunni og greiddi 10 milljónir dollara í skaðabætur fyrir hvern mann sem fórst, alls 2,7 milljarða dollara. Í september 2003 aflétti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna refsiaðgerðum gegn Líbýu, sem verið höfðu í gildi í tæp 20 ár. Í desember tilkynnti Líbýustjórn að hún ætlaði að hætta við öll áform um smíði gereyðingarvopna og leyfa alþjóðaeftirlit með kjarnorkuáætlunum sínum. Margir hafa gagnrýnt ferð forsætisráðherrans til landsins, bæði stjórnarandstaðan og aðstandendur þeirra sem létust í Lockerbie-tilræðinu fyrir 16 árum. Sagði Michael Howard leiðtogi stjórnarandstöðunnar, að siðferði Blairs væri ekki mikið. Er þetta fyrsta opinbera heimsókn bresks þjóðarleiðtoga til Líbýu í valdatíð Gaddafis, sem hefur setið á valdastóli frá 1969. Hefur Blair svarað harkalegum viðbrögðum við för sinni á þann veg að sjálfsagt sé að taka í útrétta sáttahönd þegar ríki hætti stuðningi við hryðjuverk og smíði ólöglegra vopna. Líklegt er talið að fjöldi breskra fyrirtækja leiti nú eftir viðskiptasamningum við fyrirtæki í Líbýu.

SíminnSeinustur vikur hefur verið unnið að áreiðanleikakönnun til undirbúnings að sölu Símans og ráðgjöf við söluna verður formlega boðin út á næstunni. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra gerir ráð fyrir að Síminn verði seldur næsta vetur. Er reynt var að selja Símann haustið 2001 var miðað við gengið 5.75 og Síminn því metinn á 40 milljarða króna. Það þótti of mikið og hætt var við söluna í kjölfar hryðjuverka og ástands á hlutabréfamörkuðum, einkum hjá fjarskiptafélögum. Fjarskiptafyrirtæki eru nú almennt kominn upp úr þeim erfiðleikum. Ástandið á hlutabréfamörkuðum er almennt mjög gott. Mikil eftirspurn er eftir fjárfestingakostum og mikið fjármagn er í umferð. Má því gera ráð fyrir að gott verð fáist fyrir Símann. Sé miðað við núverandi gengi sem er 7,5 er Síminn metinn á alls 52 milljarða króna. Mikið ánægjuefni er að loks blasir við einkavæðing Símans.

FrelsisdeildinSvona er frelsið í dag
Nóg um að vera á frelsinu venju samkvæmt. Í dag birtist staða í Frelsisdeildinni og hafa miklar breytingar orðið á röð þingmannanna frá seinasta lista. Orðrétt segir á vefnum: "Pétur H. Blöndal skýst á toppinn og nær þriggja stiga forskoti á Einar K. sem fellur í annað sætið, þrátt fyrir að bæta við sig tveim stigum. Yngri þingmenn Sjálfstæðisflokksins bæta allir stöðu sína og áreiðanlegar heimildir segja að meira sé í pípunum. Birgir Ármannsson er hástökkvari vikunnar og stekkur upp um átta sæti. Eru þeir Sigurður Kári þá jafnir að stigum. Árni Mathiesen flutti tvö frumvörp sem fella niður greiðslur til ríkisins sem dugðu til að lyfta honum af botninum og fellur Einar Oddur á botninn þar með. Spennan magnast og getur allt gerst nú þegar lokabaráttan er að hefjast í frelsisdeildinni. Þessar miklu breytingar koma til vegna samþykktar á breytingu á lögum um erfðafjárskatt. Fær Geir Haarde stig fyrir að koma frumvarpinu í gegn enda lækkar það skatthlutfall af erfðafé. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og viðskiptanefnd fá allir stig fyrir að koma breytingatillögu í gegn sem lækkaði hlutfallið enn frekar. Þó ber að geta þess að með þessum breytingum gætu sumir þurft að greiða hærri fjárhæð í skatt af hlutafé. Er það miður og rétt að áminna í því sambandi að best hefði verið að fella niður skattinn með öllu." Gott mál að þingmenn safna stigum í deildinni. Ennfremur eru á vefnum góðir pistlar eftir Mæju, Ragnar og Hjölla. Og svo er að finna tvær ályktanir, önnur um fjárhættuspil og hin um skólagjöld.

The War RoomFimmtudagskvöld
Þurfti að fara suður í gær á fund seinnipartinn, að honum loknum hélt ég milli 6 og 7 á fund í áfengismálahópi Heimdallar í Valhöll þar sem rædd voru ýmis athyglisverð mál. Virkilega gaman að líta á blómlegt starf í Heimdalli og greinilegt að stjórn félagsins stendur sig vel og nóg er að gerast þar. Eftir þann fund fórum við niður í aðalsalinn þar sem var að hefjast myndbandakvöld hjá SUS og ennfremur umræða um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum sem fram fara 2. nóvember. Sýnd var heimildarmyndin The War Room sem fjallar um kosningabaráttu Bill Clinton gegn George Bush eldri, þáverandi forseta Bandaríkjanna. Myndin var tilnefnd til óskarsverðlauna í flokki heimildarmynda árið 1993. Var myndin virkilega fróðleg og margir góðir punktar sem voru áhugaverðir fyrir þá sem fylgjast með bandarískri pólitík. Hef ég lengi haft verulegan áhuga á þessum málum og fannst þetta því mjög gagnlegt. Að myndinni lokinni fluttu Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, og Friðjón Friðjónsson varaformaður SUS, erindi um stöðu mála fyrir kosningarnar og sátu fyrir svörum eftir það. Voru lífleg skoðanaskipti í Valhöll um komandi kosningaslag og t.d. sýndar auglýsingar sem eru í gangi í slagnum núna úti. Eftir fundinn átti ég gott spjall við góða vini. Virkilega gott kvöld.

Dagurinn í dag
* 1947 Knattspyrnusamband Íslands var stofnað - fjölmennasta íþróttasambandið innan ÍSÍ
* 1958 Sir Alec Guinness hlaut óskarinn fyrir stórleik sinn í The Bridge on the River Kwai
* 1973 Flugvélin Vor fórst norður af Langjökli - Björn Pálsson flugmaður, fórst með henni
* 1990 Jessica Tandy hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Driving Miss Daisy
* 2000 Kevin Spacey hlaut óskarinn fyrir stórleik sinn í kvikmyndinni American Beauty

Snjallyrði dagsins
You look good, you are still young.
Moammar Gaddafi er hann heilsaði Tony Blair í Líbýu - 25. mars 2004

24 mars 2004

Hryðjuverk á SpániHeitast í umræðunni
Þúsundir syrgjenda voru viðstaddir athöfn í Madrid í dag, til minningar um þá tæplega 200 sem týndu lífi í hryðjuverkaárásunum í borginni, 11. mars sl. Athöfninni var sjónvarpað beint og hún sýnd á risaskjám víða í höfuðborginni en alls sóttu fulltrúar meira en 50 ríkja athöfnina. Juan Carlos Spánarkonungur, fór fyrir tæplega 2.000 syrgjendum að Almudena dómkirkjunni. Leyniskyttur höfðu komið sér fyrir á nálægum húsþökum en öryggisgæsla hafði verið stóraukin, m.a. á báðum flugvöllum Madridar þar sem þjóðarleiðtogar komu til landsins, sem og á helstu leiðum til og frá borginni. Þúsundir söfnuðust saman á götum úti í annars hljóðri borg og horfðu á athöfnina á risaskjá á einu stærsta torgi borgarinnar, Puerta del Sol. Athöfnina sóttu forsætisráðherrar 14 ríkja og áttu þeir flestir fundi í dag með Jose Maria Aznar fráfarandi forsætisráðherra Spánar, og Jose Luis Rodriguez Zapatero verðandi forsætisráðherra. Þetta er í fyrsta sinn frá því lýðræði var endurreist eftir dauða Francisco Franco fyrir tæpum þrem áratugum, sem minningarathöfn á vegum spænska ríkisins, og ekki ætluð meðlimum konungsfjölskyldunnar, fer fram. Hefur verið gagnrýnt að minningarathöfnin fari fram í kaþólskri kirkju þar sem fórnarlömbin hafi ekki öll aðhyllst sömu trú. Spænskt samfélag er enn sem lamað eftir hryðjuverkin, hef ég fylgst með stöðu mála þar í gegnum frænku mína sem býr í Madrid. Mikil sorg er þar og reyndar enn þjóðarsorg og ljóst að það mun taka langan tíma fyrir Spánverja að yfirstíga þetta mikla áfall.

LögreglumálDV heldur í dag áfram umfjöllun sinni um líkfundarmálið í Neskaupstað og birtir lögregluskýrslur tveggja sakborninga sem tengdir hafa verið málinu. Í gær var birt eins og ég hef áður fjallað um skýrsla þess þriðja. Sem fyrr er málið rakið þarna í algjörum smáatriðum og trúnaðargögn birtast í dagblöðum með þessum hætti. Er með hreinum ólíkindum hverslags upplýsingastreymi er til fjölmiðla vegna þessa máls. Það hefur aldrei gerst fyrr að lögregluskýrslur birtist orðrétt í íslenskum fjölmiðlum og þarf vart að taka fram að það er ólöglegt. Hefur ríkissaksóknari hafið rannsókna á tildrögum þess að blaðið fékk þessi gögn í sínar hendur. Eitt er að mínu mati að segja sjálfsagðar fréttir af málinu eins og gert hefur verið og annað að birta trúnaðargögn lögreglu við rannsókn málsins. Er þetta birt eingöngu til að svala sárum þorsta þeirra forvitnustu í samfélaginu og engum öðrum. Á þessu stigi þjónar það ekki tilgangi lögreglu að birta slík vinnugögn málsins og því berast böndin að verjendum eða sakborningum sjálfum. Ritstjórn blaðsins hefur reynt að afsaka gjörðir sínar með því að málið komi landsmönnum svo mikið við. Er það algjör fjarstæða, allar útlínur málsins liggja fyrir og leyfa á lögreglu að leysa afgang þess í friði. Vitað er að ekki var um morð að ræða og ljóst hverjir komu líkinu fyrir og hvernig maðurinn dó. Það sem eftir stendur er nóg að upplýsa er heildarmyndin verður skýr. Það eina sem tendrar DV áfram er æsifréttamennska. Einfalt mál.

Ingibjörg Sólrún GísladóttirÍ gær skrifaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, grein í Morgunblaðið og fjallaði þar um úrslit spönsku þingkosninganna í kjölfar hryðjuverkanna, 11. mars sl. Er með hreinum ólíkindum hvernig varaþingmaðurinn tekur lykkju á leið sína til að beina frá þeirri staðreynd að hryðjuverkamenn réðu úrslitum kosninganna. Það sem setti kosningabaráttuna af sporinu og þjóðina almennt voru hryðjuverkin. Það var það eina sem breyttist frá seinustu skoðanakönnunum og til úrslita kosninganna. Það er reyndar sífellt að verða greinilegra að formaður og varaformaður Samfylkingarinnar eru gersamlega ósammála í umræðunni um varnarmál landsins. Össur vill halda í varnarsamstarf við Bandaríkin sem von er en Ingibjörg hefur ljáð máls á varnarsamstarfi við ESB. Sú vitleysa hennar var reyndar skotin á kaf nýlega af embættismanni hjá ESB. Síðan hefur varaþingmaðurinn ekkert tjáð sig frekar um málið.

Stefán Friðrik StefánssonSvona er frelsið í dag
Í pistli mínum á frelsinu í dag fjalla ég um spjallvefina á Netinu. Fjalla ég þar einkum um nafnleyndina sem þar er stór þáttur af þessum vefum og einkum það að hún er oftast nær misnotuð í þeim tilgangi að vega að nafngreindu fólki í samfélaginu. Hef ég fylgst með spjallvefum í tæp fimm ár og því bæði verið virkur áhorfandi og beinn þátttakandi þar að. Hef ég á þessum tíma kynnst bæði góðu fólki sem vill tjá sig málefnalega hvort sem er undir nafnleynd eða undir nafni og hinsvegar öðru fólki sem misnotar nafnleyndina með allómerkilegum hætti. Hef ég óskað eftir málefnalegum umræðum og reynt eftir fremsta megni að sýna öllum sem þarna skrifa þá lágmarksvirðingu sem ég krefst að aðrir sýni mér. Eitt er að vera ósammála um málin en annað er að geta rætt málin með virðingu fyrir hvor öðrum og á málefnalegum forsendum. Því miður vill oft nokkuð mikið skorta á málefnalegar forsendur þessara spjallvefa og skítkast milli fólks vill oft ganga ansi langt. Þarf ég vart að benda daglegum áhorfendum þessara vefa á slíkt, enda hafa þeir sem eitthvað hafa fylgst með séð mörg dæmi slíks að fólk gangi alltof langt í skítkastinu undir nafnleynd. Nafnleyndin er misnotuð á nokkuð áberandi hátt og sumir geta ekki rætt málefnalega á þeim forsendum að vera nafnlausir. Svo einfalt er það. Jafn nauðsynleg og beinskeytt þjóðmálaumræða er á Netinu, er sorglegt að sjá suma notendur þessara vefa sem ráða ekki við ábyrgðina sem fylgir tjáningarforminu. Annað er að tjá sig undir nafni og taka fulla ábyrgð á skoðunum sínum og hinsvegar það að beina spjótum í allar áttir með níðskrif um annað fólk undir nafnleynd. Það á að vera sjálfsögð krafa að fólk með skoðanir tjái þær undir nafni eða leggi á þær áherslu með þeim hætti. Nafnleyndin vill oft verða skref til að vega að öðrum og sumir ganga of langt. Það er einfaldlega hámark aumingjaskaparins að níða skóinn af samborgurum sínum með ómálefnalegum hætti undir nafnleynd á þessum vefum og þarf að komast á hreint hvar ábyrgð á slíku liggur.

Jerry MaguireKvikmyndir
Tekið var því rólega í gærkvöldi og horft á góða mynd að loknum dægurmálaþáttunum. Litum við á gamanmyndina Jerry Maguire. Stórfengleg mynd frá leikstjóranum Cameron Crowe. Maguire starfar hjá stóru umboðsfyrirtæki og er sérfræðingur í öllu sem lýtur að því að búa til stjörnur úr efnilegum íþróttamönnum. Á nokkrum árum hefur hann náð miklum og góðum árangri í starfi sínu, enda hefur hann notað öll þau brögð sem menn þurfa að kunna ef þeir vilja ná langt í bransanum - þar á meðal þau sem geta vart kallast annað en óheiðarleg. Dag einn gerist eitthvað í kollinum á Jerry Maguire. Skyndilega fær hann svo heiftarlegt samviskubit yfir sýndarmennskunni og peningagræðginni sem einkennir starf hans að hann finnur sig tilneyddann til að skrifa skýrslu um málið þar sem hann leggur m.a. til að fyrirtæki hans skipti um stefnu í þessum málum. Skýrslan vekur óneitanlega mikla athygli hjá stjórnendum fyrirtækisins og öðrum starfsmönnum, en því miður ekki til góðs fyrir Jerry. Hann er rekinn, sumum samstarfsmönnum hans og keppinautum innan fyrirtækisins til nokkurrar ánægju þar sem þeir fá þá í sinn hlut umboð fyrir alla íþróttakappanna sem hann hafði á sínum snærum. Alla nema einn! Sá heitir Rod Tidwell og er hann annars flokks ruðningskappi sem hefur tröllatrú á að hann eigi skilið að verða stjarna á stjörnulaunum, en er að renna út á tíma. Góð og eftirminnileg kvikmynd í alla staði. Var tilnefnd til 5 óskarsverðlauna, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins 1996 og fyrir leik Tom Cruise í hlutverki aðalsöguhetjunnar. Cuba Gooding, Jr. hlaut óskarinn fyrir stórleik í hlutverki íþróttakappans Rod Tidwell. Ennfremur er óskarsverðlaunaleikkonan Renée Zellweger stórfengleg sem Dorothy Boyd.

Dagurinn í dag
* 1931 Fluglínutæki voru notuð í fyrsta sinn við björgunarstörf hér á landi
* 1948 Sir Laurence Olivier hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Hamlet
* 1973 Kjarvalsstaðir, myndlistarhús Reykjavíkurborgar á Miklatúni, tekið í notkun
* 1987 Albert Guðmundsson sagði af sér ráðherraembætti vegna ásakana um skattamisferli
* 2002 Halle Berry hlaut aðalleikkonuóskarinn fyrir Monster's Ball, fyrst þeldökkra leikkvenna

Snjallyrði dagsins
No one should think themselves wiser than me!
Viktoría Englandsdrottning í Mrs. Brown

23 mars 2004

LögreglumálHeitast í umræðunni
Dagblaðið DV birtir í dag játningu eins sakborninga í líkfundarmálinu á Neskaupstað í heild sinni upp úr lögregluskýrslum. Þar kemur fram að sakborningurinn hafi viljað koma Vaidas Jucevicius undir læknishendur en annar sakborninga sem einnig situr í varðhaldi, hafi verið því mótfallinn og samstarfsmenn hans í Litháens sem sáu um að smygla eiturlyfjunum til Íslands. Segir sakborningurinn í lögregluskýrslunni að rússnesk/litháisk mafía sem starfi hér á landi hafi staðið að fíkniefnaflutningnum. Fram kemur í blaðinu í dag að hægt hefði verið að bjargar Vaidas ef hann hefði komist undir læknishendur. Er lýst í smáatriðum í blaðinu því sem sakborningurinn veit um ástand mannsins og meðferðina á honum seinustu dagana sem hann lifði. Vakti birting þessara gagna í blaðinu mikla athygli, enda undarlegt að birta slík gögn á því stigi sem málið er á. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, sagði í viðtölum í dag að birting DV á skýrslunni og játningunni væri aðför að réttarkerfinu og grafalvarlegt mál. Kom fram í máli hans að hann harmi að blaðamennska á Íslandi sé komin á þetta stig. Fram kom hjá Boga Nilssyni ríkissaksóknara, að embættismönnum og verjendum sé óheimilt að afhenda fjölmiðlum gögn af þessu tagi. Ljóst sé að um þagnarskyldu- og trúnaðarbrot sé að ræða. Öðru máli kunni að gegna um sakborninginn sjálfan hafi hann gefið fjölmiðli upplýsingarnar. Hefur hann fyrirskipað rannsókn á málinu. Finnst mér þetta mál allt með ólíkindum og lýsa vel slöppu siðferði DV og þeirra sem þar eru í forsvari. Þetta er blaðamennska á mjög lágu plani.

Anna Lindh (1957-2003)Mijailo Mijailovic var dæmdur í lífstíðarfangelsi í dag fyrir morðið á Önnu Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar. Hann réðst að henni með hnífi í NK-verslunarmiðstöðinni í Stokkhólmi 10. september 2003. Hún lést af sárum sínum um nóttina. Mijailovic vildi lengi vel ekki viðurkenna að hafa myrt ráðherrann, en gekkst við ábyrgð sinni skömmu fyrir árslok, að því er flestir töldu til að fá mildari dóm. Í niðurstöðu dómara segir að morðið hafi verið skipulagður verknaður, skv. myndum teknum í öryggismyndavélum sjáist að sakborningurinn hafi elt ráðherrann í tæplega korter um verslunarmiðstöðina, áður en hann réðist að henni. Ennfremur hafi hann stungið hana með báðum höndum og verknaðurinn því ætlunarverk en ekki óviljaverk. Dómari sagði að Mijailovic hafi ekki átt sér neinar málsbætur og því ekkert sem gæti dregið úr refsingu hans. Mijailovic játaði verknaðinn í janúar en sagði þá ekki hafa verið um morð að yfirlögðu ráði að ræða; hann hafi hlýtt "innri röddum" í höfði sér og þær hafi leitt sig út í verknaðinn. Niðurstaða geðlækna var að Mijailovic hafi verið með óskerta greind er hann framdi ódæðið og því sakhæfur. Komust þeir að þeirri niðurstöðu að hann væri tiltölulega heill á geðsmunum. Gott er að niðurstaða sé komin í þetta mál.

Íslenski fáninnGuðmundur Hallvarðsson alþingismaður, hefur flutt þingsályktunartillögu þess efnis á þingi að þjóðfána Íslands verði komið fyrir í þingsalnum. Segir Guðmundur í viðtali við Morgunblaðið í dag að tillaga hans njóti stuðnings þingmanna í öllum flokkum nema VG. Vonast hann til að málið nái í gegn á vorþinginu. Oft hefur Guðmundur barist fyrir þessu máli og reynt að koma því í gegn en ekki tekist. Er ég sammála Guðmundi í þessu máli og undrast reyndar að andstaða sé við það að fánanum sé komið fyrir í þingsalnum. Finnst það sjálfsagt mál að hann sé þar. Alþingi er löggjafarsamkunda landsmanna og okkar æðsta stofnun og því meira en sjálfsagt að þjóðfáninn fái þar heiðurssess.

Ásta MöllerSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu virkilega góður pistill Ástu Möller um heilbrigðismál. Orðrétt segir þar: "Hver hefur ekki staðið ráðalaus frammi fyrir líkamlegum einkennum eða sjúkleika hjá sjálfum sér eða einhverjum nákomnum og ekki vitað hvert ætti að snúa sér. Sumir hringja í ættingja eða vini úr heilbrigðisstéttum til að leita ráða. Aðrir hringja á bráðavakt Landspítala háskólasjúkrahúss, á Læknavaktina eða heilsugæslustöð til að fá viðtal hjá lækni. Erindið getur verið þess eðlis að jafnvel nægir einfalt svar eða fullvissa um að viðkomandi hefur brugðist rétt við. Stundum þarf hins vegar að bregðast skjótt við ef einkennin eru alvarleg. Í fæstum tilvikum er hins vegar augljóst hvert viðkomandi á að leita með erindi sitt. Um nokkurt skeið hef ég í ræðu og riti bent á kosti símatorgs um heilbrigðisþjónustu, heilsulínu, þar sem almenningur getur leitað ráða og upplýsinga um aðkallandi vanda og fær leiðbeiningar um hvert það á að leita innan kerfisins. Slík símaþjónusta hefur verið rekin í Bretlandi á vegum opinberra aðila frá árinu 1998 og tekur nú til alls landsins. Í Bretlandi, Svíþjóð og Kanada, þar sem slík símaráðgjöf er viðurkenndur hluti af heilbrigðisþjónustu, hafa rannsóknir bent til þess að í 40-50% tilvika geti fólk fengið úrlausn með símtali við heilbrigðisstarfsmann og þurfi ekki að leita lengra." Virkilega áhugaverð grein þar sem farið er yfir þetta mál mjög vel og sem fyrr er gaman að lesa skrif Ástu, sem þessa dagana situr á þingi í fjarveru Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.

The Bone CollectorKvikmyndir - bókalestur
Í Kastljósinu í gærkvöldi mætti Árni Johnsen fyrrum alþingismaður, og ræddi um seinustu mánuði í lífi sínu og grein hans í Mogganum í dag. Áhugavert og gott viðtal. Eftir dægurmálaþættina horfðum við á kvikmyndina The Bone Collector. Fjallar um glæpasérfræðinginn Lyncoln Rhyme sem liggur nú algjörlega lamaður og hjálparvana eftir slys sem hann lenti í við rannsókn síðasta máls síns hjá lögreglunni. Hann er við það að gefast upp á lífinu sjálfu og hefur fengið loforð vinar síns, sem er læknir, um að hann hjálpi honum yfir móðuna miklu eftir örfáa daga. Á sama tíma rekst lögreglukonan Amelia Donaghy á illa farið lík manns inni í lestargöngum og uppgötvar á ummerkjunum, bæði á líkinu sjálfu og í kringum það, að hér er ekkert venjulegt mannslát á ferðinni. Svo fer að henni er skipað að fara til Lyncolns og sýna honum hvað hún fann í þeirri von að hann geti gefið lögreglunni einhverjar vísbendingar. Lyncoln fær fljótlega brennandi áhuga á málinu, tekur það að sér og krefst þess að hér eftir verði Amelia augu hans og eyru við rannsókn málsins og í stöðugu símasambandi við hann á meðan þau komast til botns í því. Í fyrstu er Ameliu ekkert sérlega vel við að taka þetta að sér, en verður auðvitað að gera það sem henni er sagt að gera. Þar með er hafin ein óvenjulegasta rannsókn sem sögur fara af á morðmáli sem á engan sinn líka! Þau Denzel Washington og Angelina Jolie fara hér bæði á kostum og skapa eftirminnilega karaktera eins og þau eru þekkt fyrir. Virkilega góð spennumynd. Eftir að hafa séð hana og tíufréttir fór ég að lesa í bókinni Complete Book of U.S. Presidents. Virkilega skemmtileg lesning.

Dagurinn í dag
* 1663 Ragnheiður biskupsdóttir lést - um hana var ortur sálmurinn Allt eins og blómstrið eina
* 1937 Sundhöllin í Reykjavík var vígð að viðstöddu fjölmenni - mikil framför fyrir sundfólk
* 1950 Olivia De Havilland hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni The Heiress
* 1998 Kvikmyndin Titanic, hlaut 11 óskarsverðlaun - vinsælasta mynd 20. aldarinnar
* 2003 Catherine Zeta-Jones hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Chicago

Snjallyrði dagsins
Start the car I know a whoopie spot... where the gin is cold and the pianos hot. It's just a noisy hall, where there's a nightly brawl... And all that Jazz.
Velma Kelly í Chicago

22 mars 2004

BessastaðirHeitast í umræðunni
Í kjölfar blaðamannafundar forsetans á Bessastöðum þar sem hann tjáði sig um embættið og valdasvið forseta, hafa lagaspekingar enn einu sinni birst á sjónarsviðinu og umræðan hafin um hver séu raunveruleg völd forseta eða hvort hann sé valdalaus. Hefur Sigurður Líndal prófessor, tekið undir ummæli forsetans á blaðamannafundinum að forsetaembættið sé ekki valdalaust og hann hafi mikil áhrif með 26. grein stjórnarskrárinnar. Hefur Þór Vilhjálmsson fyrrum forseti Hæstaréttar, mótmælt þessu og sagt það ekki fara saman við þingræðishefðina að forseti noti 26. greinina til að skjóta málum til þjóðarinnar sem hafa verið samþykkt á þingi og hefur bent á að enginn forseti hefur viljað fara þessa leið í 60 ára sögu lýðveldis. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, fjallar um þetta í nýjasta pistli sínum. Þar segir hann: "Segist hann (Ólafur) hafa velt fyrir sér tveimur málum í ljósi þessa stjórnarskrárákvæðis og var annað þeirra lögheimild um Kárahnjúkavirkjun, en lögin voru samþykkt með aðeins 9 mótatkvæðum á Alþingi. Það hefði verið skýr atlaga að þingræðinu, ef forseti hefði neitað að rita undir þau lög – eins og raunar öll viðleitni af hans hálfu til að hindra framkvæmd á vilja Alþingis. Það er aðeins til að kynnast því, hve menn geta einangrast í fílabeinsturni við akademískar útlistanir og æfingar, að hlusta á rök þeirra, sem telja forseta Íslands heimilt að brjóta gegn þingræðinu og leitast við í nafni slíkra kenninga að draga embættið inn á grátt átakasvæði við þá, sem hafa skýrar valdheimildir samkvæmt stjórnarskránni." Tek ég undir þessi orð og tel reyndar kominn tíma til að stokka upp stjórnarskrárgreinar tengdar forsetaembættinu og skýra hvert umboð hans er.

Mótmæli vegna morðsins á YassinAhmed Yassin stofnandi og andlegur leiðtogi Hamas-samtakanna, týndi lífi í flugskeytaárás ísraelskra herþyrlna í morgun. Þá hafa önnur herská samtök Palestínumanna, Al-Aqsa píslarvottarnir, lýst yfir allsherjar stríði á hendur Ísrael. Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, mun sjálfur hafa skipulagt árásina á Yassin. Ísraelar búast við hefnd, og lokuðu landamærastöðvum Ísraels við Gazaströnd, og hernáms- og heimastjórnarsvæðin vestan Jórdanar, í kjölfarið. Yassin var nýkominn út úr mosku í hjólastól sínum eftir morgunbænir þegar Ísraelar létu til skarar skríða. Þeir skutu þremur flugskeytum. Auk Yassins létust tveir lífverðir hans, og að minnsta kosti fimm vegfarendur. Ísraelsher hefur staðfest að hafa drepið Yassin. Hann var 65 ára, borinn og barnfæddur í Palestínu árið 1938. Hann stofnaði Hamas 1987, í fyrri uppreisn, eða íntífödu, Palestínumanna gegn Ísraelum. Hamas þýðir eldmóður. Samtökin fremja hryðjuverk, myrða óbreytta borgara í Ísrael, og halda uppi vopnaðri andspyrnu gegn Ísraelsher. Morðið á honum gerir illt ástand enn verra og mun leiða til öldu árása milli þjóðarbrota. Það er greinilegt að staða mála á þessum slóðum minnir á suðupott.

SkólagjöldMörghundruð stúdentar við Háskóla Íslands, söfnuðust saman fyrir utan aðalbyggingu Háskólans í hádeginu í dag, við upphaf Háskólafundar og mótmæltu hugmyndum um upptöku skólagjalda við Háskóla Íslands, en á fundi sínum í dag átti Háskólafundur að taka afstöðu til þess hvort óska ætti eftir því við menntamálaráðherra að hún beitti sér fyrir því að veita Háskóla Íslands heimild til að innheimta skólagjöld. Jarþrúður Ásmundsdóttir formaður Stúdentaráðs, segir í viðtali við mbl.is að sennilega hafi verið milli 500 og 600 stúdentar þar. Hafði fundurinn þau áhrif að Háskólafundur frestaði því að taka ákvörðun um málið. Sagði Páll Skúlason háskólarektor, að væntanlega yrði ákvörðun um málið tekin á Háskólafundi í byrjun maí. Telur hann mikilvægt að skoða þetta betur. Að mínu mati er eðlilegt að hver og einn borgi sitt nám og standi á bakvið sjálfan sig með því að bera þann kostnað sem því fylgir. Undarlegt er að fólk vilji koma þeim kostnaði yfir á aðra. Sé ég t.d. ekkert að því að hafa hófleg skólagjöld allavega og reyndar mikilvægt að taka umræðuna um þetta. Fagna ég því að stuðningsmenn skólagjalda hafi stofnað félag um þetta mál og ennfremur opnað vef félagsins.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um yfirlýsingar forseta Íslands á blaðamannafundi í vikunni þar sem hann lýsti yfir framboði sínu í komandi forsetakosningum og jafnframt það nýja form sem birtist landsmönnum í vikunni er forsetinn var gestur dægurmálaspjallþátta og þurfti að svara í yfirheyrslum þar fyrir verk sín í embætti og bregða sér í hlutverk hins harðskeytta stjórnmálamanns sem hann eitt sinn var. Það er engin hræsni þó sagt sé hreint út að ímynd forsetaembættisins hafi í raun sífellt farið niður á við hin seinustu ár og embættið orðið að hversdagslegu bitbeini. Kostnaður við forsetaembættið fer sífellt hækkandi og ekki bætir úr skák að forsetinn hefur gert embættið að hálfgerðum hégómleika þar sem hann er eins og haninn á haugnum ásamt sínum nánustu. Sá kóngabragur sem einkennt hefur embættið seinustu árin, hefur að mínu mati farið langt yfir öll mörk og í raun fengið fólk til að efast um að hér sá á ferð þjóðkjörinn fulltrúi. Ennfremur fjalla ég um þáttaskil í spænskum stjórnmálum og nýtt form á fundum bæjarstjórnar Akureyrar.

Jón Elvar GuðmundssonSvona er frelsið í dag
Á frelsinu í dag birtist góður pistill eftir Jón Elvar og fjallar um skattamál. Orðrétt segir: " stuttu máli ganga lögin út á það að almenningur getur beðið ríkisskattstjóra um bindandi álit. Í því felst að fyrir ríkisskattstjóra er lögð spurning um það hvernig tilteknar fyrirhugaðar ráðstafanir verða skattlagðar. Gefi ríkisskattstjóri upp álit sitt á málinu eru skattyfirvöld bundin við þá niðurstöðu svo lengi sem atvik eru eins og lýst var í beiðni og lög sem snerta málefnið breytast ekki. Þetta fyrirkomulag getur komið í veg fyrir vandamál sem skapast af óskýrum reglum. Með eðlilegu samspili skattyfirvalda og almennings er hægt að ákvarða skattalegar afleiðingar fyrirhugaðra athafna. Það er mikilvægt svo skattaðili geti ákveðið hvort fyrirhugaðar athafnir hans komi til með að borga sig eða ekki. Þetta lofsverða framtak löggjafans hefur hvorki fengið nægilega umfjöllun né verið haldið nægilega á lofti. Hins vegar er það svo að þetta nýmæli í lögum gerir allmiklar kröfur til skattyfirvalda þar sem viðbrögð þeirra ráða miklu um hvernig framkvæmdin verður." Ennfremur er fjallað á frelsinu um fund um utanríkismál í Valhöll á fimmtudag, þar sem gestur okkar verður Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Jafnframt verður sýnd myndin War Room er fjallar um kosningabaráttu Bill Clinton gegn George Bush eldri, árið 1992. Á sus.is er ítarleg umfjöllun um helstu þingmálin.

Road to PerditionHelgin
Helgin var létt og góð. Á laugardag var bara haft það rólegt og unnið að því að skrifa pistil og svona dunderí. Seinnipartinn vorum við boðin í mat til vinafólks og horft þar á Laugardagskvöld með Gísla Marteini og Spaugstofuna. Var hið besta kvöld. Í þætti Gísla var Eurovisionlagið 2004 frumflutt, lagið Heaven. Syngur Jónsi í hljómsveitinni Í svörtum fötum, það. Rólegt lag, ekta ballaða. Jónsi hefur að mínu mati aldrei sungið betur, kraftmikill söngur hjá honum. Vonandi að því gangi vel. Horfðum síðar um kvöldið á kvikmyndina Road to Perdition. Mögnuð glæpamynd í úrvalsflokki, sem ég hef skrifað gagnrýni um. Eftir það var farið út á lífið og litið á Vélsmiðjuna. Þar hitti ég margt af góðu fólki, hitti t.d. þar Siv Friðleifsdóttur ráðherra, sem þar var með vinafólki sínu og hafði verið á badmintonmóti í Eyjafirðinum um helgina. Ræddi aðeins við hana um nokkur mál. Þakkaði ég henni þar m.a. fyrir góð orð hennar í gestabókinni í haust. Í gær var afmæli í fjölskyldunni og skemmtilegt spjall þar, enda fólkið mitt út um allt í pólitíkinni og engin einstefna þar. Farið yfir helstu málin. Seinnipartinn fórum við út að borða á Greifanum, ég og vinur minn og á eftir í bíó. Um kvöldið horfði ég á upptöku af Silfri Egils þar sem Björn og Össur tókust á um helstu málin. Björn stóð sig vel þarna og hefur sjaldan verið betri og tók Össur alveg í gegn.

Dagurinn í dag
* 1924 Ríkisstjórn Jóns Magnússonar tók við völdum - var þriðja og seinasta stjórn hans
* 1960 Samþykkt á þingi að taka upp söluskatt - var breytt í virðisaukaskatt árið 1990
* 1965 Fyrsta háloftamyndin af Íslandi tekin úr veðurhnettinum Tiros IX í 728 km hæð
* 1972 Geirfugladrangur, vestur af Eldey, sökk í sæ - kemur nú aðeins úr sjó á fjöru
* 1983 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, kynnir stjörnustríðsáætlun sína

Snjallyrði dagsins
A man of honor always pays his debts... and keeps his word
John Rooney í Road to Perdition

19 mars 2004

Saddam fellurHeitast í umræðunni
Ár er liðið í dag frá því að Bandamenn réðust inn í Írak. Aðfararnótt 19. mars 2003 rann út tveggja sólarhringa frestur sem Bandaríkjastjórn veitti Saddam Hussein og sonum hans, til að yfirgefa landið. Kl. 03:15 að íslenskum tíma þá nótt, flutti George W. Bush forseti Bandaríkjanna, sjónvarpsávarp frá forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu, til þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar. Þar tilkynnti hann að herför Bandaríkjanna og bandamanna gegn einræðisstjórn Saddam Hussein væri hafin. Fyrirskipaði hann árásir á valin skotmörk í upphafi sem höfðu það að markmiði að draga úr hernaðarmætti íraska hersins. Fram kom í ávarpinu að 35 ríki styddu afvopnun Íraks og lagði forsetinn áherslu á mikilvægi þeirra í baráttunni fyrir afvopnun landsins. Næstu daga á eftir hörðnuðu átökin og Bandamenn náðu á nokkrum dögum inn í landið og náðu fljótt að höfuðborginni Bagdad. 9. apríl 2003 náðu þeir völdum í borginni og stjórn Saddams var fallin. Það tók því innan við mánuð að koma einræðisherranum frá völdum. Var hann handsamaður 13. desember 2003: handtekinn í holu við bóndabæ, eftir flótta um allt landið. Synir hans, Uday og Qusay voru drepnir í júlí 2003. Saddam Hussein var ógn við nágranna sína, hann var Þrándur í Götu friðar í Miðausturlöndum. Það voru rétt skref stigin í fyrra í þessu máli og enginn saknar hans. Sennilega sæti hann þar enn ef samningaleiðin hefði verið farin.

George W. Bush forsetiGeorge W. Bush forseti Bandaríkjanna, minntist ársafmælis innrásarinnar í Írak í ræðu í Hvíta húsinu í dag. Sagði hann í ræðunni að Bandaríkin muni ekki bregðast írösku þjóðinni í tilraunum hennar til að koma á lýðræði. Fulltrúar 84 ríkja, sem studdu innrásina, voru viðstaddir blaðamannafund forsetans. Þá hvatti Bush þjóðir heims til að láta af deilum um stríðið í Írak og sameinast í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi. Orðrétt sagði hann: "Við munum aldrei láta fáa ofbeldismenn buga okkur". Hann viðurkenndi, að gamlar og góðar vinaþjóðir Bandaríkjanna hefðu verið ósammála ákvörðun hans um að ráðast inn í Írak til að hrekja Saddam Hussein frá völdum en sagði að þessi ágreiningur ætti heima í fortíðinni. „Við getum öll verið sammála um að með falli harðstjórans í Írak er horfin uppspretta ofbeldis, yfirgangs og óstöðugleika í Miðausturlöndum." Fram kom í ræðunni að forsetinn telur að enn færu ofbeldismenn um í Írak myrðandi og rænandi og að Bandaríkjamenn væru að fást við þá. Ennfremur sagði forsetinn: "En enginn getur haldið því fram, að Írakar væru betur settir ef morðingjarnir og glæpamennirnir væru komnir aftur í hallirnar sínar". Óhætt er að taka undir þau orð.

Sigríður Árnadóttir, Edda Andrésdóttir og Páll MagnússonTilkynnt var í vikunni að fréttatími Stöðvar 2 yrði fluttur á ný til klukkan hálfsjö. Seinasta hálfa árið hefur fréttatíminn verið klukkan sjö, á sama tíma og fréttatími RÚV. Greinilegt var á áhorfskönnunum að tilfærslan gekk ekki og áhorfið minnkaði. Gleðst ég yfir þessari breytingu, enda hef mikinn áhuga á fréttum og fréttatengdu efni og seinustu mánuði hefur tíminn milli 7 og 8 verið þannig að maður er á fjarstýringunni að skipta á milli. Nú verður hægt að horfa á báða fréttatímana og njóta þeirra og hvíla fjarstýringuna á meðan.

Kristinn Már ÁrsælssonSvona er frelsið í dag
Venju samkvæmt nóg af góðu efni á frelsinu. Í dag birtist góður pistill Kristins Más um fæðingarorlofið. Orðrétt segir: "Í framtíðinni mun kostnaðurinn vegna tekjuhárra einstaklinga í fæðingarorlofi aukast talsvert ef fram heldur sem horfir. Fæðingarorlofslögin fela í sér almenna kerfisbreytingu sem miðar að því að gera starfsmenn af báðum kynjum jafn dýra og þar með óhagkvæma. Tilgangurinn með starfsmönnum er að þeir séu hagkvæmir, vandvirkir og framleiði mikið. Orlofið gengur þvert á það markmið. Margir atvinnurekendur kynnu því að vilja skipta á starfsmönnum og vélum meira en þeir hafa gert hingað til að fá erlendar þjónustuveitur til að sinna ýmsum verkefnum. Orlofið verður til þess að atvinnulífið í heild verður óhagkvæmara." Að auki er pistill Páls Jóhannessonar um erfðafjárskatt. Ennfremur er umfjöllun um vefverslun SUS sem opnaði fyrir nokkrum vikum og margt fleira, t.d. væntanlegt þingmannaspjall með fjármálaráðherra í næstu viku.

Gettu beturSjónvarpsgláp - bókalestur
Í gærkvöldi horfði ég á æsispennandi keppni Borgarholtsskóla og Menntaskólans í Reykjavík í Gettu betur. Varð heldur betur spennandi keppni, enda tókst Borghyltingum það sem alla hefur dreymt um frá 1992 í keppninni: að vinna MR! Menntaskólinn í Reykjavík hefur unnið keppnina í 11 ár samfleytt og verið ósigraðir, mörgum til ama. Það er lítill vafi á að allir þeir sem hafa reynt að fella MR veldið voru í sæluvímu í gærkvöldi við að fagna þáttaskilum í keppninni. Óska ég liði Borghyltinga til hamingju með glæsilegan árangur, en liðið skipa: Baldvin Már Baldvinsson, Björgólfur Guðni Guðbjörnsson og Steinþór Helgi Arnsteinsson. Í liði MR eru Atli Freyr Steinþórsson, Oddur Ástráðsson og Snæbjörn Guðmundsson. Tóku þeir ósigrinum drengilega og eru menn að meiri eftir sína framgöngu. Eftir þáttinn fór ég í heimsókn til góðra vina og þar var gott spjall um helstu málin, t.d. forsetann og fleira. Er heim kom fór ég að lesa bók sem ég tók á bókasafninu og fjallar um Watergate-málið.

Dagurinn í dag
* 1908 Kona tók í fyrsta skipti til máls á fundi borgarstjórnar - Bríet Bjarnhéðinsdóttir
* 1982 Argentínumenn reyna að taka völdin á Falklandseyjum - leiddi til langra stríðsátaka
* 1984 Sextán pólskar nunnur komu til landsins til að setjast að í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði
* 1995 Við Skeiðsfoss í Fljótum í Skagafirði mældist snjódýpt 279 sentimetrar
* 2003 Innrás Bandamanna í Írak hefst - einræðisstjórn Saddams Husseins féll skömmu síðar

Snjallyrði dagsins
I don't believe a man can consider himself fully content until he has done all he can to be of service to his employer.
James Stevens í The Remains of the Day

17 mars 2004

Nýtt fyrirkomulag bæjarstjórnarfunda kynntHeitast í umræðunni
Í gær var haldinn blaðamannafundur í Ráðhúsi Akureyrarbæjar þar sem Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar og Jakob Björnsson formaður bæjarráðs, kynntu nýtt verklag við bæjarstjórnarfundi í samræmi við breytta bæjarmálasamþykkt. Þessar breytingar fela einkum í sér að nefndir og embættismenn fá aukna heimild til að taka fullnaðarákvarðanir í ýmsum málum án staðfestingar bæjarstjórnar. Um málið segir svo á vef bæjarins: "Forsaga málsins er sú að árið 2003 var gerð breyting á 44. grein sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 sem miðaði að því að taka af vafa um heimildir sveitarstjórnar til að framselja vald sitt til nefnda og annarra aðila innan stjórnsýslunnar. Bæjarstjórn Akureyrar hefur fylgt þessum breytingum eftir með því að breyta bæjarmálasamþykkt sinni í grundvallaratriðum í þessa veru. Markmiðið með breytingunum er að auka hagræði og skilvirkni og hraða málsmeðferð í stjórnsýslunni, efla stefnumarkandi hlutverk bæjarstjórnar, gera fundi bæjarstjórnar skipulegri og umræður markvissari og færa starfshætti bæjarstjórnar og stjórnkerfis í átt til hins rafræna veruleika sem einkennir nútíma stjórnsýslu og samskipti. Afgreiðsluferill erinda til bæjarfélagsins verður einfaldari og afgreiðslutíminn styttri og þannig ætti þjónustan við íbúana að verða ennþá betri." Þessar breytingar eru mjög til hins góða og verður eflaust skemmtilegra að fylgjast með bæjarstjórnarfundum hér eftir.

BessastaðirÍ kjölfar ummæla forseta Íslands, er hann tilkynnti framboð í komandi forsetakosningum, á mánudag, hefur vaknað umræða um valdastöðu og hlutverk forseta Íslands á 21. öld. Var það vissulega þarft að fá umræðu um þau mál. Flestir sjá reyndar að embætti forsetans er tiltölulega valdalaust. Er almennt talin táknræn tignarstaða, en ekkert meira. Athyglisvert er að forseti segi að nauðsynlegt sé að hann verði virkari í umræðu um málefni samtímans. Mér fannst hann nú svosem ekkert óvirkur í þeirri umræðu. Hann hefur verið ófeiminn að tjá sig um helstu málin. Ekki varð ég var við hik á forsetanum í umræðu um heimastjórnarafmælið. Þar skaut hann í allar áttir og var með öllu ófeiminn. Forseti hefur í gegnum 8 ára forsetaferil sinn verið í þeirri stöðu að hafa skoðanir og koma þeim að. Framkoma forseta seinustu vikur hefur enn frekar styrkt þá afstöðu mína að leggja eigi embættið niður og stokka upp stjórnskipunina. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að tími sé kominn til breytinga. Raunverulegar embættisskyldur forsetans eru einkum formlegs eðlis og í raun gætu þau verið í höndum forsætisráðherra eða forseta Alþingis. Embætti forseta Íslands er með öllu ónauðsynlegt í lýðræðisríki og ekki síður gríðarlega kostnaðarsamt fyrir skattgreiðendur. Nú þegar styttist í forsetakosningar blasir við að staða núverandi forseta verður kosningamál í forsetakosningum. Hvet ég sem flesta til að taka upp gagnrýna umræðu um verk hans í þeirri kosningabaráttu. Slíkt er þarfaverk.

Baldvin Þorsteinsson EA-10 Norska dráttarbátnum Normand Mariner tókst eftir miðnættið í nótt að draga Baldvin Þorsteinsson EA-10, á flot af strandsstað í Skálarfjöru á Meðallandssandi. Á sunnudagskvöld mistókst að draga skipið af strandstað en þá gáfu festingar fyrir dráttartaugar sig eftir að skipið hafði verið dregið 2-3 skipslengdir frá ströndinni. Skipið snerist og beindi stefninu í land og varð því að byrja á því að snúa skipinu í gærkvöld áður en það var dregið á flot. Beitt var 170-180 tonna átaki, litlu meira en í fyrrakvöld. Baldvin verður nú dreginn til Noregs. Mikil gleði var á strandstað sem von var eftir að ætlunarverkinu hafði verið náð. Tappa var skotið úr einni kampavínsflösku og innihaldinu puðrað yfir vel gallaðan mannskapinn. Ekki dropi var drukkinn. Mikil gleði er hér í Eyjafirði með farsæla lausn málsins. Í dag sendi Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, bréf til Samherjafrænda, kveðju frá bæjarbúum. Ástæða er til að taka undir góðar kveðjur bæjarstjóra og senda bestu kveðjur til Samherja.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í dag er birt á frelsinu svar ritstjórnar vefsins við skrifum Andrésar Jónssonar formanns UJ, á vefnum pólitík.is. Í pistli ritstjórnar segir svo: "Andrés nokkur Jónsson skrifaði lítt áhugaverða grein á politík.is vefsíðu manna sem kenna sig við jafnaðarmennsku. Greinin einkennist af hefðubundnum útúrsnúningum og slagorðaglamri vinstrimanna. Vitnar Andrés í hinn alræmda sögufalsara og sósíalista Michael Moore til að freista þess að ljá orðum sínum vigt. Fjöldi vitleysa hjá Andrési er slíkur að það slagar í smárit að leiðrétta þær allar, látum þó pistil nægja." Er að þessu loknu farið yfir staðreyndavillur í ótrúlegri grein Andrésar þar sem hann snýr gjörsamlega út úr málflutningi í pistli Atla Rafns á vefnum um daginn. Í lok greinar ritstjórnarinnar segir svo: "Rétt er að ljúka þessari yfirferð yfir rökleysur Andrésar áður en greinin breytist í smárit. Hér hefur verið tæpt á örfáum af þeim rökleysum og staðhæfingarvillum sem fram komu í grein Andrésar. Þeir sem hafa áhuga á öðrum villum Andréar geta kynnt sér grein hans." Ennfremur birtist ályktun stjórnar Heimdallar um birtingu álagningarskráa. Tek ég heilshugar undir hana, og hef reyndar skrifað um þetta mál á vefsíðu minni. Bendi á pistil minn um þetta þann 3. ágúst 2003.

BæjarmálBæjarmál - bókalestur
Eftir kvöldfréttirnar og dægurmálaþætti horfði ég á fréttir á Aksjón og bæjarstjórnarfund sem var fyrr um daginn. Hann var sögulegur mjög, enda sá fyrsti eftir nýju verklagi í samræmi við breytta bæjarmálasamþykkt. Markmiðið er margþætt, einkum að auka hagræði og skilvirkni og hraða málsmeðferð í stjórnsýslunni. Fyrsti fundurinn var um þriggja klukkustunda langur og víða farið yfir. Ítarleg umræða var um málefni leikskólans Klappa og leikskóla við Helgamagrastræti og ákvörðun meirihlutans tengd þeim. Ekki síður varð ítarleg umræða um skipulagsmál vegna Sjallareitsins. Venju samkvæmt keppa bæjarfulltrúar, Oktavía Jóhannesdóttir og Valgerður H. Bjarnadóttir, í því að koma með sem flesta útúrsnúninga og rakaleysur. Oddur Helgi Halldórsson sakaði meirihlutann um valdníðslu í málum Klappa. Með hreinum ólíkindum var að heyra hann flytja ræðu sína. Bæjarstjórnarfundurinn er eftir þessar breytingar mun sjónvarpsvænni og almenningur mun betur sjá og heyra hvaða mál eru í umræðunni hverju sinni. Þessi breyting er mjög til hins góða. Eftir fundinn fór ég í að lesa bókina góðu um Repúblikanaflokkinn sem fyrr er getið hér. Virkilega góð bók.

Dagurinn í dag
* 1917 Tíminn, blað Framsóknarflokksins, kom út í fyrsta skipti - hætti að koma út 1996
* 1953 Gary Cooper hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni High Noon
* 1987 Prestskosningar voru afnumdar með nýjum lögum um veitingu prestakalla
* 1988 Fyrsta glasabarnið fæddist hérlendis - tíu árum eftir það fyrsta á heimsvísu
* 2001 Kosið um framtíð flugvallar í Vatnsmýri - naumur sigur flugvallarandstæðinga

Snjallyrði dagsins
I'll be all around in the dark - I'll be everywhere. Wherever you can look - wherever there's a fight, so hungry people can eat, I'll be there. Wherever there's a cop beatin' up a guy, I'll be there. I'll be there in the way guys yell when they're mad. I'll be there in the way kids laugh when they're hungry and they know supper's ready, and when people are eatin' the stuff they raise and livin' in the houses they built - I'll be there, too.
Tom Joad í The Grapes of Wrath