Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 janúar 2003

Björn kveður Ingibjörgu Sólrúnu
Í dag er seinasti starfsdagur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem borgarstjóra. Hún sat í gær sinn síðasta borgarstjórnarfund sem forystumaður R-listans en mun áfram sitja sem borgarfulltrúi út kjörtímabilið, hún mun ekki oftar gefa kost á sér í borgarstjórnarkosningum. Í lok fundarins ávarpaði Björn Bjarnason leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins fráfarandi borgarstjóra og kvaddi hana. Þar fór Björn yfir valdaferil ISG og sagði að það væri skref aftur á bak, þegar borgarstjóri með atkvæðisrétti viki fyrir embættismanni. Hann sagðist vera sammála áliti borgarstjórans úr kosningabaráttunni 1994, þess efnis að borgarstjóri án atkvæðisréttar og án þess að vera pólitískur leiðtogi þess hóps, sem stæði honum að baki í borgarstjórn, væri verr settur en sá, sem hefði hið ótvíræða pólitíska umboð. Sagði hann að ef til þess kæmi, að þau settust aftur saman á þing að loknum kosningum í vor, væri líklegt, að einhverjir úr öðrum flokkum en Samfylkingunni, sem höfðu stutt hana dyggilega sem borgarstjóra, myndu eiga um sárt að binda vegna úrslitanna. Björn sagðist kveðja hana með virðingu fyrir því, að henni hefði tekist að halda R-listanum saman í öll þessi ár. Sagði hann að þau hefðu setið saman á þingi árin 1991-1994, eða þar til hún sagði af sér þingmennsku til að setjast í stól borgarstjóra, og væri nú svo komið að henni væri ekki lengur vært þar, enda komin í öngstræti við stjórn borgarinnar. Hvet alla áhugamenn um pólitík til að lesa kveðju Björns til fráfarandi borgarstjóra, sem hefur nú kvatt pólitískt verndað umhverfi Ráðhússins.

Bush og Blair ræða Íraksmál
Í dag ræddu George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, málefni Íraks á fundi í Washington. Á blaðamannafundi eftir fundinn lýstu þeir því yfir að leiða þurfi mál gagnvart Írak til lykta á nokkrum vikum en ekki mánuðum. Bush sagði að Saddam Hussein væri ógn við umheiminn og að ljóst væri að hann væri ekki að afvopnast. Blair sagði að tengsl væru milli hryðjuverka og þess að búa yfir gereyðingarvopnum og að nauðsynlegt væri að takast á við hvort tveggja ef tryggja á frið í heiminum. Bush sagðist fagna samþykkt nýrrar ályktunar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna ef hún yrði skýr skilaboð til heimsins um að afvopna Saddam Hussein. Bush ítrekaði þó að málið þyrfti að leiða til lykta á vikum en ekki mánuðum. Þá sagði Bandaríkjaforseti að Saddam væri að reyna að blekkja umheiminn. Báðir leiðtogarnir lýstu því yfir að nauðsynlegt væri að samþykkja nýja ályktun. Þeir sögðu að deilan um Írak væri mikil prófraun fyrir alþjóðasamfélagið. Á fundinum kom fram að Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, myndi gera það skýrt, þegar hann myndi leggja fram ný gögn fyrir í næstu viku, að Saddam væri að reyna að blekkja umheiminn. Sagði Bush að augljóst væri að Saddam Hussein væri fjandmaður friðar. Það má af yfirlýsingum leiðtoganna sjá að það styttist óðum í að gripið verði til róttækra aðgerða gegn stjórnvöldum í Írak. Tíminn er að renna út fyrir Saddam Hussein.

30 janúar 2003

Ítarleg stefnuræða Bush forseta
Á þriðjudag flutti George W. Bush forseti Bandaríkjanna, stefnuræðu sína að viðstöddum þingmönnum beggja deilda Bandaríkjaþings. Hann hét því í ræðunni að leggja fram sannanir fyrir gereyðingarvopnaeign Íraka í næstu viku, hann segir umrædd gögn staðfesta að Írakar eigi mikið magn efna, sem notuð eru til framleiðslu fimm tegunda efna- og sýklavopna. Þá hét hann því að leiða hernaðaraðgerðir gegn Írökum verði þeir ekki við kröfum alþjóðasamfélagsins um afvopnun. Fréttaskýrendur segja ræðuna ekki hafa verið beina stríðsyfirlýsingu en að hún hafi þó farið nærri því. Forsetinn sagði Bandaríkjastjórn ætla að fara fram á fund öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þann fimmta febrúar og að þar muni Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, leggja umrædd gögn fram. Embættismenn í Washington segja gögnin unnin upp úr upplýsingum sem koma úr ólíkum áttum. Telja Bandaríkjamenn að þau sýni að háttsettir íraskir embættismenn og foringjar úr her landsins hafi stýrt aðgerðum, sem hafa miðað að því að færa tiltekinn vopnabúnað til eða fela hann fyrir vopnaeftirlitsmönnum, gjarnan örfáum klukkustundum áður en starfsmenn mæta á tiltekinn stað. Þá hafi vísindamönnum, sem vinni að þróun gereyðingarvopna, verið fyrirskipað að fela pappíra sína fyrir vopnaeftirlitsmönnum. Bandaríkjamenn hafa fram að þessu sagt að þeir gætu ekki lagt fram gögn sem sýndu að Írakar væru brotlegir við skilmála ályktunar öryggisráðs um afvopnun vegna þess að hætta væri á því að þannig fengju Írakar vísbendingar um hvaðan Bandaríkjamenn hefðu upplýsingar sínar, og hvernig þeir öfluðu þeirra. Skýrist þessi afstaða m.a. af því að þessar sömu upplýsingaveitur muni þurfa að nota ef til stríðsátaka kemur í Írak. Nú er hins vegar svo komið að Bandaríkjastjórn telur rétt að reyna að styrkja stöðu sína í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, enda hafa margar þjóðir, sem þar eiga fulltrúa, lýst því yfir að þær séu mótfallnar því að ráðist verði á þessum tímapunkti gegn Írak. Þingmenn Demókrataflokksins hafa aukið þrýsting á stjórnvöld að leggja fram sannanir í málinu. Heimildarmenn blaðsins The Washington Post segja að þrátt fyrir allt þetta hafi Bandaríkjamenn ekki komist yfir gögn sem sýni algerlega svart á hvítu að Írakar eigi enn efna- eða sýklavopn, hvað þá að Írakar séu nú að reyna að þróa kjarnorkuvopn. Þá hafa vopnaeftirlitsmenn komist að þeirri niðurstöðu að álrör sem Bush sagði í september að Írakar hygðust nota til að auðga úran, sem síðan yrði notað til að búa til kjarnorkusprengju, hafi einungis átt að nota til gerðar hefðbundinna stórskotaliðseldflauga - rétt eins og Írakar héldu fram á sínum tíma. Ég hvet alla áhugamenn um pólitík að lesa ítarlega stefnuræðu forsetans og boðskap hans í þessu máli sem meirihluti landsmanna hans styðja, skv. skoðanakönnunum.

Handbolti - handbolti
Seinustu vikuna hefur verið mjög ánægjulegt að fylgjast með íslenska landsliðinu á Heimsmeistaramótinu í handbolta í Portúgal. Fyrstu leikirnir voru auðveldir fyrir okkar menn og sögulegur sigur vannst á Ástralíumönnum. Í kjölfarið fylgdi sigur á Grænlendingum og Portúgölum og tap fyrir Þjóðverjum. Niðurstaðan varð annað sætið í okkar riðli sem hlýtur að teljast viðunandi árangur. Í gær unnum við Pólverja og varð ljóst að til þess að komast í úrslitin yrðum við að vinna Spánverja, það tókst því miður ekki en engu að síður verðum við að una vel við okkar árangur. Við erum eina norðurlandaþjóðin sem eftir stendur, Danir og Svíar eru á leiðinni heim og fara með skottið milli lappanna. Við stöndum því klárlega best að vígi allra á Norðurlöndum, það er góð tilfinning þrátt fyrir vonbrigðin vegna tapsins í kvöld. Við það verður bara að una, nú verðum við bara að taka Rússana í gegn. Okkar menn hafa staðið sig vel og að öllum ólöstuðum er það Ólafur Stefánsson sem er burðarásinn í okkar liði, einstakur keppnismaður þar á ferð. Hann er einn af bestu, gott ef ekki besti handboltamaður samtímans, getum öll verið stolt af honum. Það hefur allavega verið gaman að fylgjast með þessu. Enn og aftur kemur í ljós samstaða okkar Íslendinga þegar á reynir. Við erum ein stór fjölskylda. ÁFRAM ÍSLAND!

29 janúar 2003

Gríðarleg skuldaaukning ISG og R-listans
Á föstudag lætur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir af störfum sem borgarstjóri í Reykjavík, eftir tæplega 9 ára setu á þeim stól. Eftir stendur R-listi þriggja flokka margsprunginn og í tætlum og er í reynd forystulaust rekald. Við starfslok ISG blasir við slæm staða borgarsjóðs. Í dag var í Ráðhúsinu blaðamannafundur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins þar sem farið var yfir stöðu borgarsjóðs við þau tímamót að pólitísk forysta sterks leiðtoga í meirihluta borgarstjórnar lýkur. Borgarfulltrúarnir segja að samkvæmt nýsamþykktri fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2003 verði heildarskuldir borgarinnar í árslok orðnar 83,5 milljarðar króna eða um 733 þúsund krónur á hvern Reykvíking. Séu þetta hæstu heildarskuldir á íbúa í öllum sveitarfélögum landsins. Til samanburðar séu heildarskuldir Akureyrarbæjar 715 þúsund á mann, Hafnarfjarðarbæjar 664 þúsund á mann, Mosfellsbæjar 592 þúsund á mann, Reykjanesbæjar og Kópavogsbæjar 486 þúsund á mann, Garðabæjar 350 þúsund á mann og Seltjarnarnesbæjar 212 þúsund á mann samkvæmt fjárhagsáætlunum þeira fyrir árið 2003. Það blasir við að hreinar skuldir Reykjavíkur án lífeyrisskuldbindinga hafi frá árinu 1993 hækkað um 1100% en á sama tíma hafi samsvarandi skuldir ríkissjóðs lækkað um 13%. Ljóst er að þessi skuldasöfnun er óverjandi. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík telja að R-listinn verði að fara að vakna af ljúfum blundi og horfast í augu við mikla skuldasöfnun borgarinnar. Sjálfstæðismenn vilja að við borgarstjóraskiptin verði gerð úttekt á þróun fjármála borgarinnar í borgarstjóratíð fráfarandi borgarstjóra.

Stórsigur Ariel Sharon og Likud í Ísrael
Það fór eins og flesta grunaði í ísraelsku þingkosningunum. Likud-flokkurinn, flokkur Ariel Sharon forsætisráðherra, fékk flest atkvæði í þingkosningum í Ísrael í gær. Með fulltingi annarra hægri flokka mun flokkurinn því hafa rúman meirihluta á þingi. Verkamannaflokkurinn, sem hefur verið í stjórnarandstöðu síðan í október, hefur aldrei fengið jafnfá atkvæði í kosningum og nú. Likud hlaut 37 þingsæti af 120, Verkamannaflokkurinn hlaut 19 sæti og miðjuflokkurinn Shinui 15 þingsæti. Bandalag hægri- og trúarflokka, með Likud-flokkinn í broddi fylkingar, ráða nú alls yfir 70 sætum í Knesset, ísraelska þinginu. Friðmælandi flokkar töpuðu mörgum þingsætum. Þrátt fyrir stórsigur í kosningunum er viðbúið að erfitt reynist fyrir Sharon að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Í sigurræðu sinni í nótt ítrekaði Sharon, fyrri yfirlýsingar sínar um að hann vilji mynda þjóðstjórn með Verkamannaflokknum. Hann sagðist ekki ætla að mynda stjórn með flokkum öfgamanna og trúaðra og að ennfremur að hann myndi ekki hika við að boða til kosninga á ný takist honum ekki að mynda þjóðstjórn. Stórsigur Sharons er sögulegur, enda er þetta í fyrsta skipti frá 1980 sem sitjandi forsætisráðherra Ísraela vinnur endurkjör.

28 janúar 2003

Ný kjördæmaskipan - spennandi þingkosningar
Framundan eru sögulegar kosningar til Alþingis. Laugardaginn 10. maí 2003 verður í fyrsta skipti kosið eftir kjördæmaskipan þeirri sem samþykkt var á Alþingi árið 2000. Kjördæmin verða sex í stað þeirra átta sem kosið hefur verið í allt frá árinu 1959. Ég fer yfir breytingarnar í ítarlegum pistli á heimasíðu Heimdallar í dag. Eftir að hafa kynnt sér þetta ítarlega, allar breytingar og uppstokkun sem fylgir kjördæmalögunum nýju er alveg ljóst að komandi þingkosningar verða gríðarlega spennandi, enda verið að kjósa í nýjum kjördæmum og við blasa breyttar forsendur um allt land. Verður athyglisvert að fylgjast með því hvaða áhrif þessar breytingar muni hafa á fylgi flokkanna á landsvísu, hvort kvenþingmönnum muni fjölga og einnig verður mjög fróðlegt hversu lengi þessi kjördæmaskipan endist og hvort hún muni verða jafnlengi við lýði og hin fyrri. Þetta verða semsagt athyglisverðar kosningar og ekkert gefið í komandi slag. Við tekur spennandi kosningabarátta í nýjum kjördæmum.

Þingkosningar í Ísrael
Í dag ganga Ísraelar að kjörborðinu og bendir flest til þess að kjörsókn verði dræm. Alls eru það 4,7 milljón Ísraela sem hafa kosningarétt, 27 flokkar bjóða fram í kosningunum. Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, og Likudflokkurinn munu vinna stórsigur í kosningunum ef marka má seinustu skoðanakannanirnar sem birtar voru í gær. Samkvæmt þeim mun Likudflokkurinn fá 32 til 33 þingsæti, Verkamannaflokkurinn 18 til 19 þingsæti og miðjuflokkurinn Shinui 15 til 16 þingsæti. Sharon gæti því í raun átt völ á að mynda stjórn með 65 til 68 sæta meirihluta með flokkum harðlínumanna og trúaðra annars vegar eða Verkamannaflokknum og Shinui hinsvegar falli Verkamannaflokkurinn frá heiti sínu um að ganga ekki til liðs við Sharon eftir kosningarnar. Þrátt fyrir að kannanir bendi til stórsigurs forsætisráðherrans óttast margir stuðningsmenn hann að sigurinn verði mun minni en útlit er fyrir þar sem góð staða í skoðanakönnunum muni draga úr kosningaþáttöku stuðningsmanna hans. Eins og fyrr segir er raunin sú að lítil kosningaþátttaka er staðreynd og því gæti allt gerst. Útgönguspár verða birtar þegar kjörstöðum lokar klukkan átta í kvöld að íslenskum tíma. Gert er ráð fyrir að allar meginlínur verði skýrar í nótt eða í fyrramálið.

26 janúar 2003

Ár frá innkomu Björns í borgarmálin
Í dag er liðið ár frá því að Björn Bjarnason ákvað að helga sig borgarmálunum og varð leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann lýsti yfir framboði sínu til borgarstjórnar í kraftmikilli ræðu á kjördæmisþingi flokksins á Hótel Sögu. Þó ekki hafi unnist sigur í kosningunum í fyrra er innra starf flokksins í góðum farvegi og Björn leiðir flokkinn farsællega í borgarstjórninni og byggir hann upp fyrir komandi átök við sundurtættan og leiðtogalausan R-listann sem óverðskuldað vann sigur í kosningunum fyrir ári. Réði persóna fráfarandi leiðtoga R-listans miklu um úrslitin, en nú eftir að henni var sparkað af eigin samherjum eftir að hafa gengið á bak orða sinna og svíkja gefin loforð fyrir kosningar er meirihlutinn pólitískt séð forystulaust rekald, þó Alfreð muni þar leika lausum hala sem formaður borgarráðs og formaður OR. Við brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar um næstu mánaðarmót stendur R-listinn forystulaus gegn öflugum leiðtoga okkar sjálfstæðismanna. Það verður hlutskipti Björns að leiða flokkinn á þessu kjörtímabili og til sigurs í næstu borgarstjórnarkosningum.

Góður þáttur hjá Gísla Marteini
Athyglisvert var að fylgjast með spjallþætti Gísla Marteins í gærkvöldi, var mjög áhugaverður eins og alltaf. Aðalgestur Gísla var Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Var spjall þeirra skemmtilegt og töluðu þeir t.d. um nýjan ættfræðivef ÍE, Íslendingabók sem opnaður var fyrir rúmri viku og stöðu fyrirtækis hans. Það kom vel fram í spjallinu að Kári er skapmikill og greindur maður sem tekur áhættur og leggur allt undir vegna hugsjóna sinna og framtíðarsýnar. Ef svo er ekki er vonlaust að leggja út í rekstur á borð við þann sem hann stýrir. Þetta er fallvaltur bissness og Kári er rétti maðurinn til að leggja á öldudalinn. Ég hef alltaf haft mikla trú á honum og fyrirtækinu og vona að honum gangi vel í framtíðinni. Sérstaklega var gaman að heyra hnyttin tilsvör Kára við spurningum Gísla Marteins, sérstaklega þegar talið barst að því að hann býr í húsi Jónasar frá Hriflu, sem hann reisti á þriðja áratug síðustu aldar. Gísli sagðist hafa heyrt að Jónas gengi þar aftur og spurði hann Kára hvort hann hefði orðið var við Jónas. Kári sagðist ekki hafa orðið var við hann eða einhverja aðra vofu en sagðist varla geta greint á milli framsóknarmanns, lífs eða liðinn. Annar gestur Gísla var Arnbjörg Hlíf Valsdóttir leikkona, sem fer á kostum þessa dagana í söngleiknum Sól og máni í Borgarleikhúsinu. Arnbjörg er fædd og uppalin hér á Akureyri og er dóttir Vals Arnþórssonar fyrrv. bankastjóra og kaupfélagsstjóra KEA. Erum við jafnaldrar og vorum saman í bekk í grunnskólanum á Brekkunni í nokkur ár, gaman að sjá hversu vel henni gengur. Sálin fór að vanda á kostum og flutti tvö lög í þættinum, smellinn Þú fullkomnar mig og svo söng Arnbjörg lagið Ekki nema von með sveitinni. Semsagt; frábær þáttur í gær hjá Gísla.

25 janúar 2003

Framboðslistarnir í Reykjavík samþykktir einróma
Í dag voru framboðslistar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum samþykktir einróma á fjölmennu kjördæmisþingi á Hótel Sögu. Úrslit í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík standa óbreytt með þeirri undantekningu að Sólveig Pétursdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson sem lentu í þriðja sæti á báðum listum hafa sætaskipti og í stað þess að Sólveig fari í þriðja sætið í suðurhlutanum fer hún fram í norðurhlutanum og Guðlaugur tekur sæti Sólveigar í norðurhlutanum. Stefanía Óskarsdóttir fer ekki í framboð og í stað hennar kemur Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi og varaþingmaður inn á listann. Af 17 frambjóðendum í prófkjörinu í nóvember eru 16 á listunum, aðeins Stefanía sækist ekki eftir sæti. Mikill einhugur var á kjördæmisþinginu og samstaða um listana afgerandi. Þarna eru reyndir fulltrúar flokksins á þingi og borgarstjórn í forystu í bland við ungt og hæfileikaríkt fólk, framtíðarfólk innan flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú gengið frá sætaskipan á alla framboðslista sína við komandi þingkosningar, fyrstir stjórnmálaflokkanna, og kosningabarátta flokksins í þann mund að hefjast formlega. Framundan er spennandi barátta og kraftmikil. Fyrstu 8 sætin á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins í borginni eru þannig skipuð:

Reykjavík norður:
1. Davíð Oddsson forsætisráðherra
2. Björn Bjarnason alþingismaður og borgarfulltrúi
3. Guðlaugur Þór Þórðarson borgarfulltrúi
4. Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður
5. Ásta Möller alþingismaður
6. Katrín Fjeldsted alþingismaður
7. Ingvi Hrafn Óskarsson formaður SUS
8. Soffía Kristín Þórðardóttir hugbúnaðarfræðingur

Reykjavík suður:
1. Geir H. Haarde fjármálaráðherra
2. Pétur H. Blöndal alþingismaður
3. Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra
4. Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður
5. Birgir Ármannsson aðst.framkvæmdastjóri Verslunarráðs
6. Lára Margrét Ragnarsdóttir alþingismaður
7. Guðrún Inga Ingólfsdóttir hagfræðingur
8. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi

24 janúar 2003

Rúrik Haraldsson látinn - in memoriam
Einn af svipmestu leikurum Íslendinga á 20. öld er fallinn frá. Rúrik Haraldsson er látinn 77 ára að aldri. Rúrik var einn af risunum í íslensku leikhúslifi og verður minnst fyrir túlkun sína á sterkum og svipmiklum karakterum. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja árið 1945 og stundaði nám við Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar 1945 til 1946 og nám við Central School of Dramatic Art and Speech Training at Albert Hall í Lundúnum árin 1947 til 1950. Rúrik lék fjölda hlutverka á sviði og einnig í fjölmörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Hann fékk m.a. menningarverðlaun Þjóðleikhússins 1960 og 1968 og listamannalaun Menningarsjóðs 1960. Þá hlaut hann Silfurlampann, verðlaun Félags íslenskra leikdómara, fyrir aðalhlutverkið í leikritinu Gjaldið eftir Arthur Miller árið 1970. Hann fékk heiðurslaun listamanna, skv. ákvörðun Alþingis, frá árinu 2001. Síðasta hlutverk hans var í kvikmyndinni Stella í framboði þar sem hann lék Leó Löve. Eftirminnilegar eru t.d. frammistöður hans í kvikmyndunum Börn náttúrunnar, Ungfrúin góða og húsið, Kristnihald undir jökli, Bíódagar, Karlakórinn Hekla, Regína og sjónvarpsmyndum Steinbarn, Sigla himinfley, Uppreisn á Ísafirði, Nonni og Manni, Draugasaga. Ennfremur má ekki gleyma fjölda leiksigra hans á sviði LR og Þjóðleikhússins. Leikárið 1997-1998 fór Rúrik á kostum í leikriti Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Fjórum hjörtum ásamt félögum sínum þeim Bessa Bjarnasyni, Árna Tryggvasyni og Gunnari Eyjólfssyni og var sýningin færð í sjónvarpsbúning árið 1999. Það var síðasta hlutverk Rúriks á leiksviði. Hann var meistari íslensks leikhúss á seinni hluta 20. aldar og verður minnst fyrir fágaðan leik, hljómfagra rödd og svipmikinn persónuleika.

Fundur um efnahags- og atvinnumál
Í gærkvöldi efndi Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi til fundar um efnahags- og atvinnumál á Hótel KEA . Framsögumenn voru Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Halldór Blöndal forseti Alþingis og Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri var fundarstjóri. Í grein á heimasíðu flokksins hér í kjördæminu segir Helgi Vilberg ritstjóri, svo frá fundinum. "Fjármálaráðherra gerði í framsöguerindi sínu grein fyrir styrkri stöðu ríkissjóðs og taldi efnahagskerfið vel í stakk búið til að takast á við stór verkefni á borð við Kárahnjúkavirkjun. Með því að búa fyrirtækjum hagstæðara rekstrarumhverfi væri verið að styrkja íslenskt atvinnulíf og örva nýsköpun. Það væri mikilvægt þegar atvinnuleysi mældist um 3%, sem væri meira en Íslendingar sættu sig við. Þrátt fyrir það væri bjart framundan í atvinnu- og efnahagsmálum. Halldór Blöndal kom víða við í erindi sínu. Hann fjallaði um atvinnulíf í Eyjafirði og gerði grein fyrir mikilvægustu atvinnufyrirtækjum svæðisins. Hann lagði áherslu á mikilvægi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og Háskólans á Akureyri fyrir framtíðarþróun Eyjafjarðarsvæðisins. Samgöngumál voru honum ofarlega í huga og ræddi hann þau frá mismunandi sjónarhornum. Hann taldi m.a. möguleika á að taka upp áætlunarflug milli Akureyrar og Egilsstaða. Arnbjörg Sveinsdóttir taldi veruleg sóknarfæri vera fyrir fyrirtæki á Akureyri í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir á Austurlandi. Að undanförnu hefði hún átt kost á að heimsækja fyrirtæki hér og kynnast starfsemi þeirra með því að ræða við starfsfólkið. Hún kvaðst fullviss um að áhrifa virkjunarframkvæmdanna mundi gæta hér á þessu svæði. Síðan nefndi hún dæmi um framsýni forsvarsmanna nokkurra norðlenskra fyrirtækja sem þegar hefðu lagt grunn að atvinnustarfsemi fyrir austan."

23 janúar 2003

Þrír áratugir frá eldgosi í Heimaey
Í dag, eru liðnir þrír áratugir frá því að eldgos hófst á Heimaey, hörmulegar náttúruhamfarir við einn helsta útgerðarbæ landsins. Við gosið opnaðist 1.600 metra löng gossprunga á austanverðri Heimaey. Allur bátafloti Eyjamanna var í höfn og voru nær allir íbúar, um 5300 manns, fluttir til lands. Gosinu lauk 26. júní. Um 400 hús af 1200 fóru undir hraun og ösku og önnur 400 skemmdust. Eyjamenn minnast dagsins í dag með blysför niður að höfn síðdegis. Atburðirnir settu mikinn svip á líf þeirra sem bjuggu í Vestmannaeyjum og er oft talað um tímabilin fyrir og eftir gos í Eyjum. Íbúar í Vestmannaeyjum voru 5.300 talsins þegar gosið hófst. 1.700 manns sneru ekki aftur. Athyglisvert hefur verið að fylgjast með fróðlegri og vandaðri þáttaröð Stöðvar 2 um eldgosið sem sýnd hefur verið seinustu vikurnar í tilefni þessara tímamóta. Sérstaklega kemur á óvart hvernig fólk ræðir lífsreynslu sína eins og þessi atburður hefði gerst í gær. Samstaða þjóðarinnar á raunastund kom vel í ljós í janúarmánuði 1973 og eftir stendur að Íslenska þjóðin er ein stór fjölskylda sem stendur saman í raun. Gosið styrkti samstöðu þjóðarinnar og sannaði að það er mikil seigla í Íslendingum, þeir láta náttúruna ekki bjóða sér byrginn.

Göng undir Vaðlaheiði
Bæjarráð Akureyrar og Dalvíkurbyggðar samþykktu í dag að bæirnir myndu taka þátt i stofnun undirbúningsfélags vegna fyrirhugaðra Vaðlaheiðarganga. Fyrir fundi ráðanna lá erindi dagsett 16. janúar 2003 frá Eyþingi þar sem kynnt er skýrsla nefndar um Vaðlaheiðargöng og óskað eftir að bæjarráðin myndu taka afstöðu til stofnunar undirbúningsfélags með aðild allra sveitarfélaga á svæðinu og nokkurra lykilfyrirtækja. Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi síðasta vor að bærinn skyldi beita sér fyrir stofnun undirbúningsfélags sem kanna skyldi til hlítar alla möguleika á að ráðast í gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Á grundvelli samþykktar bæjarstjórnar samþykkti bæjarráð aðild Akureyrarbæjar að stofnun undirbúningsfélags sem stjórn Eyþings hyggst gangast fyrir og fól bæjarstjóra að fara með umboð bæjarins á stofnfundi þess. Umboð bæjarstjóra felur í sér heimild til að skrá Akureyrarbæ fyrir hlutafé í félaginu. Ég fagna þessum tíðindum og fagna því að málið sé komið á þetta stig og vona að í nánustu framtíð verði hægt að keyra í gegnum Vaðlaheiðina um göng sem munu stórlega bæta samgöngurnar og stytta leiðina austur á land.

22 janúar 2003

Landsfundur eftir tvo mánuði
Nú eru rúmir tveir mánuðir í landsfund Sjálfstæðisflokksins. Þar hittast flokksmenn í aðdraganda kosninga og móta stefnu flokksins í kosningunum. Mikil stemmning fylgir landsfundi og eflaust verður nóg um að ræða og spekúlerað í pólitíkina á kosningaári. Enginn stjórnmálafundur hérlendis jafnast á við landsfund Sjálfstæðisflokksins, sá kraftur sem í honum býr verður mikilvægt veganesti fyrir sjálfstæðismenn í komandi kosningum.

Að vera, eða ekki vera... frambjóðandi
Í dag var tilkynnt að Ellert B. Schram forseti ÍSÍ og fyrrv. alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, myndi verða í sjötta sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður. Um tíma kom upp sú vandræðalega staða að annar maður taldi sig eiga tilkall til þessa sætis, Eiríkur Bergmann Einarsson. Hann sagði að sér hefði verið boðið sætið í desembermánuði, formaður kjörnefndarinnar tók svo af öll tvímæli og tilkynnti að Ellert yrði í þessu sæti. Það sem er skondnast við þetta er að Ellert B. Schram hyggur ekki á að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum, þar sem hann hefur verið flokksbundinn til fjölda ára og ganga í þann flokk sem hann hyggur á framboð fyrir, honum líst ekki betur á hann en svo að hann heldur fast í flokksskirteinið í Sjálfstæðisflokknum. Það er athyglisvert, svo ekki sé nú meira sagt. Eftir stendur Eiríkur Bergmann niðurlægður af eigin flokksmönnum, maður sem hefur stutt flokkinn frá stofnun og kom fyrrverandi borgarstjóra á spor landsmálapólitíkurinnar með frægri skoðanakönnun. Honum er fórnað fyrir sjálfstæðismann sem ekki er einu sinni í Samfylkingunni. Athyglisvert verður að sjá viðbrögð Samfylkingarmanna í borginni og hvort þeir kommar sem eftir eru í flokknum styðji Ellert B. Schram í komandi kosningum, kjósi flokksbundinn sjálfstæðismann í varaþingmannssæti. Þetta er allt hálfundarlegt og orðið að einum allsherjar farsa fyrir Samfylkinguna, sem veit ekki í hvern fótinn hún stígur. Á þeim bænum er sagt eitt í dag og annað á morgun og trúverðugleikinn farinn fyrir bí fyrir margt löngu. Athyglisvert verður að sjá hvort kjósendur falli fyrir þessu farsastykki flokksins sem mótar skoðanir sínar eftir skoðanakönnunum.

21 janúar 2003

Fjórir framboðslistar Sjálfstæðisflokksins tilbúnir
Tæpir fjórir mánuðir eru til alþingiskosninga. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hafið kosningavinnu sína og nú eru fjórir framboðslistar flokksins af sex tilbúnir. 30. nóvember 2002 voru listar flokksins í Norðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi og Suðvesturkjördæmi samþykktir af kjördæmisráðum flokksins og 19. janúar sl. var framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi samþykktur. Einungis er eftir að ganga frá skipan á framboðslista flokksins í borginni og verður það gert á kjördæmisþingi á laugardag. Nauðsynlegt er að allir sjálfstæðismenn haldi vöku sinni og kosningabarátta flokksins verði markviss. Stefnan er sett á að flokkurinn haldi þeirri stöðu sem hann hefur í landsmálunum. Ljóst er að til að ná því lykilmarkmiði að flokkurinn sé í fararbroddi í öllum kjördæmunum hafi hann alla burði. Þó þarf að vinna af krafti til að ná settu marki. Sigur vinnst ekki nema með því að leggja sig allan fram og berjast áfram. Sjálfstæðismenn munu þurfa að hafa fyrir því að halda sinni stöðu og nauðsynlegt að allir hægrimenn og framfarasinnar taki virkan þátt í þeirri baráttu og styðji Sjálfstæðisflokkinn og fulltrúa hans til góðra verka á komandi árum. Nú reynir á samstöðu sjálfstæðismanna, með hana að leiðarljósi verður sigurinn okkar!

Skrípaleikur á Bessastöðum
24. maí nk. verða þrjú ár liðin frá því að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Dorrit Moussaieff tilkynntu um trúlofun sína í beinni útsendingu fjölmiðla á Bessastöðum. Það er greinilegt að þolinmæði þjóðarinnar vegna óvígðrar sambúðar forseta Íslands er tekin að gefa sig. Eftir að hafa verið trúlofuð í þrjú ár er sambúð forsetans og fröken Moussaieff að verða að hálfgerðu gríni, eftir hverju eru þau að bíða, spyrja margir að. Ólafur Ragnar hefur verið snillingur í að klína einkalífi sínu framan í almenning, hver man ekki eftir útreiðartúrnum og fleiri álíka uppákomum. Það er allavega skrítið ef sami forseti býst að fá að vera í friði eftir það sem á undan er gengið. Það er hann og enginn annar sem hefur gefið upp boltann í þessu máli. Ég tel tíma til kominn að hann geri hreint fyrir sínum dyrum og tilkynni hvort hann ætli að giftast þessari konu eða ekki. Meðan hún fylgir honum í nafni þjóðarinnar í móttökum eða opinberum heimsóknum kemur þjóðinni þetta við. Þetta er að verða eins og Játvarður prins og Sophie Rhys Jones sem voru trúlofuð í fimm ár, og álíka væmið og hallærislegt. Sennilegast munu þau ekki gifta sig fyrr en eftir að ÓRG lætur af embætti, en kjörtímabili hans lýkur í júlílok á næsta ári. Líklegast er að þau giftist ekki meðan hann situr á forsetastóli. Já, það er margt skrýtið í henni veröld, allavega í bleiku tilverunni á Bessastöðum.

20 janúar 2003

Ættfræðigrunnur á Netinu
Á laugardag opnaði Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, formlega Íslendingabók. Er um að ræða eina ættfræðigrunnurinn í heiminum sem nær til heillar þjóðar. Íslendingabók, sem er ættfræðigrunnur Íslenskrar erfðagreiningar, er opin öllum Íslendingum endurgjaldslaust, en þar geta notendur skoðað upplýsingar um sjálfa sig, ættir sínar og ættingja fram í þriðja lið og rakið ættir sínar saman við aðra einstaklinga sem skráðir eru í grunninn. Í Íslendingabók er að finna upplýsingar um meira en 95% allra Íslendinga sem uppi hafa verið frá því fyrsta manntalið var gert árið 1703. Í heildina inniheldur bókin upplýsingar um 700.000 einstaklinga, sennilega meirihluta þeirra Íslendinga sem búið hafa á Íslandi frá landnámi, samkvæmt upplýsingum frá ÍE. Langflestir, eða 77% allra sem skráðir eru í grunninn, voru uppi á síðustu tveimur öldum. Fjöldi skráðra einstaklinga sem fæddir eru á 20. öld er nú um 366.000 og eru tengingar við báða foreldra í 95% tilvika. Hver einstaklingur hefur aðgang að framættum sínum og upplýsingum um sjálfan sig, ættingja sína aftur í þriðja lið og alla einstaklinga sem fæddir eru fyrir árið 1700. Til að fá aðgang að Íslendingabók þarf að sækja um notandanafn og lykilorð með því að skrá inn kennitölu á upphafssíðunni. Þetta er mjög þarft framtak og athyglisvert og ég hef persónulega skráð mig og hlakka til að fræðast um ættir mínar og uppruna.

Chicago og The Hours vinna Golden Globe
Sl. nótt voru Golden Globe kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin afhent í 60. skipti. Sigurvegarar kvöldsins voru tvær úrvalsmyndir, Chicago sem hlaut verðlaunin sem besta kómíska mynd ársins og The Hours sem var valin dramatísk mynd ársins. Leikaraverðlaunin í dramamyndum hlutu Jack Nicholson fyrir leik sinn í About Schmidt og Nicole Kidman fyrir leik sinn í The Hours. Þau Richard Gere og Renée Zellweger hlutu leikaraverðlaunin í kómískum myndum fyrir leik sinn í Chicago. Aukaleikaraverðlaunin hlutu Meryl Streep og Chris Cooper fyrir leik sinn í Adaptation. Leikstjóraverðlaunin hlaut snillingurinn Martin Scorsese fyrir mynd sína Gangs of New York. Einnig hlutu margir frábærir sjónvarpsþættir og leikarar í þeim verðlaun fyrir frammistöðu sína í þeim. Heiðursverðlaunin sem kennd eru við Cecil B. DeMille féllu í skaut leikarans Gene Hackman. Hægt er að fræðast um verðlaunin og sigurvegara kvöldsins með því að smella hér.

19 janúar 2003

Átta ára afmæli vefsíðu Björns - góður pistill
Í gær voru liðin átta ár frá því að Björn Bjarnason alþingismaður og leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, opnaði vefsíðu sína á Netinu. Á þessum tíma hefur hann tjáð sig opinskátt um menn og málefni í pólitík bæði sem ráðherra og forystumaður í borgarstjórn og á þingi. Í pistli gærdagsins fjallar Björn um seinasta borgarstjórnarfund sem verður eflaust minnisstæður vegna mótmæla virkjunarandstæðinga og þess þegar púað var á fráfarandi borgarstjóra og hún kölluð ríkissósíalisti af eigin samherjum, ennfremur gerir Björn grein fyrir afstöðu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í málinu og fréttaflutningi af því. Einnig fjallar hann um hið "sögulega" tvíeyki Samfylkingarinnar og rangfærslur prófessora við á sagnfræðistaðreyndum. Sérstaka athygli mína vöktu þessi orð Björns sem ég tek heilshugar undir: "Aldrei fyrr hefur verið gengið fram með þeim hætti í forystu íslensks stjórnmálaflokks að ákveða, að því er virðist á fjölskylduforsendum, að taka einstakling inn í forystusveit, án þess að um það sé fjallað og tekin ákvörðun með formlegum hætti á viðeigandi vettvangi innan viðkomandi stjórnmálaflokks. Eftir allt tal þingmanna Samfylkingarinnar eins og Bryndísar Hlöðversdóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur og Lúðvíks Bergvinssonar um nauðsyn lýðræðislegra og gegnsærra vinnubragða í starfi stjórnmálaflokka er með ólíkindum, að til dæmis þessir þingmenn láti þetta yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust. Er augljóst, að lýðræðistalið er bara í nösunum á þingmönnunum, þegar þeir telja það gefa sér færi til árása á andstæðinga sína".

Golden Globe-verðlaunin afhent í nótt
Í nótt verða Golden Globe-kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin afhent í 60. skipti við hátíðlega athöfn í Los Angeles. Margar virkilega áhugaverðar kvikmyndir eru tilnefndar og eftirtektarverðar leikframmistöður. Ýmsar þessara mynda hafa verið sýndar hérlendis eða eru á leiðinni í bíó á næstu vikum. Golden Globe hafa löngum verið talinn góður vitnisburður um það sem koma skal þegar Óskarsverðlaunin verða afhent í marslok. Gott dæmi er að á seinustu 10 árum hafa 8 af 10 óskarsverðlaunamyndum unnið verðlaunin, þ.á.m. 7 fyrir bestu dramatísku mynd. Það verður því athyglisvert að fylgjast með þessu í nótt. Í ítarlegum pistli á kvikmyndir.com veltir Sigurður Guðmundsson fyrir sér tilnefningunum og spáir í spilin. Framundan er spennandi nótt fyrir áhugafólk um kvikmyndir, ég mun fylgjast vel með þessu.

18 janúar 2003

Opinberri heimsókn forsætisráðherra til Japans lokið
Í dag lauk opinberri heimsókn Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og eiginkonu hans, til Japans. Fram hefur komið í fréttum að hann sé mjög sáttur við árangurinn af heimsókninni. Fram hefur komið hjá forsætisráðherra að markmiðið með heimsókninni hafi verið að skapa grundvöll fyrir áframhaldandi viðræðum um sameiginleg hagsmunamál landanna og það hefði tekist mjög vel. Meginahersla var lögð á viðræður um samgöngur og ferðaþjónustu, hvalveiðar, nýja viðskiptamöguleika og orkumál, jafnframt sem heimsóknin var notuð til að kynna Ísland og styrkja almennt hin margþættu tengsl landanna. Aðspurður um hápunkta heimsóknarinnar sagði forsætisráðherrann að viðræðurnar við Koizumi, forsætisráðherra Japans, í gær og einstaklega góðar móttökur japönsku gestgjafanna bæri hæst. Forsætisráðherrar landanna ræddu ýmis mál á fundinum en mesta athygli vöktu viðræður þeirra um hvalveiðar. Eftir fundinn lýsti Davíð því yfir á blaðamannafundi að Íslendingar hygðust hefja aftur hvalveiðar í vísindaskyni eftir rúmlega áratugar hlé. Japanskir ráðamenn voru ánægðir með nýlega inngöngu Íslendinga í Alþjóðahvalveiðiráðið, en gáfu engar afdráttalausar yfirlýsingar varðandi ákvörðunina um vísindaveiðar, eða möguleikana á framtíðarviðskiptum með hvalkjöt. Eftirspurn er eftir hvalkjöti í Japan en forsætisráðherra lagði áherslu á að opinber afstaða japanskra stjórnvalda til innflutnings á hvalkjöti væri mjög varkár og því alls ekki sjálfgefið að Íslendingar geti hafið sölu til Japans. Annar mikilvægur liður í heimsókninni var stofnun íslensk-japanska verslunarráðsins í Tókío fyrr í vikunni og var forsætisráðherra bjartsýnn á að ráðið myndi stuðla að nýjum viðskiptamöguleikum. Það er því ljóst að heimsóknin hefur tekist mjög vel.

Samstaða um starfslok borgarstjóra
Sl. fimmtudag samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur með átta atkvæðum meirihlutans ráðningu Þórólfs Árnasonar í embætti borgarstjóra í stað Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Mun hann taka við embættinu formlega um mánaðarmótin og verða starfslok núverandi borgarstjóra miðuð við 31. janúar, það verður seinasti starfsdagur ISG. Mér fannst skondið að fulltrúar meirihlutans einvörðungu samþykktu ráðningu Þórólfs en allir borgarfulltrúarnir 15 samþykktu starfslok Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Það var mjög athyglisvert. Á meðan andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar hlóðu Ingibjargardys fyrir utan Ráðhúsið og formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar kallaði ISG ríkissósíalista samþykkti borgarstjórn einróma að binda endi á valdaferil borgarstjórans, það þótti mér táknrænt. En nú stekkur hún í djúpu laugina, hún er ekki lengur í pólitískt vernduðu umhverfi í stjórnmálum.

17 janúar 2003

Læti í borgarstjórn - ábyrgð samþykkt
Í gær samþykkti meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur að ábyrgjast lán vegna Kárahnjúkavirkjunar, með því jukust líkurnar á að af virkjuninni yrði. 9 borgarfulltrúar samþykktu tillöguna, þar af allir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og þrír fulltrúar meirihlutans, þ.á.m. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fráfarandi borgarstjóri. Hávær mótmæli voru í fundarsal Ráðhússins meðan málið var rætt og var púað á Ingibjörgu þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu, en hún studdi ábyrgðina, greinilegt var að henni var brugðið við það. Ennfremur var kallað að þeim borgarfulltrúum sem einnig samþykktu málið. Var með ólíkindum að fylgjast með fundarstjórn forseta, sem hafði enga stjórn á mótmælunum og hafðist ekkert að. Var ekki óeðlilegt að Björn Bjarnason sagði að hann efaðist um að forseti hefði stjórn á fundinum, enda voru það orð að sönnu. Með þessari samþykkt er ljóst að málið verður að veruleika, nú vantar aðeins samþykki meirihluta Alþingis og bæjarstjórnar Akureyrar og ljóst að drjúgur meirihluti er fyrir framkvæmdunum á báðum stöðum. Athygli mína vakti skorinorð grein Elísabetar Jökulsdóttur um þátt fráfarandi borgarstjóra í afgreiðslu málsins, í Morgunblaðinu í gær. Þar sparar hún ISG ekki stóru orðin og greinilegt að einhverjum kjósendum hennar hefur mislíkað ákvörðun hennar. Mér fannst athyglisvert að fráfarandi borgarstjóri studdi atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, það er gott að vita að hún hugsar út fyrir borgarmörkin. En það mætti segja mér að hún hafi ekki tekið þessa ákvörðun með glöðu geði.

Leiðtogi án umboðs - fyrir hvað stendur Ingibjörg?
Nú liggur ljóst fyrir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fráfarandi borgarstjóri, verði forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í komandi alþingiskosningum. Eftir að hafa misst borgarstjórastólinn út úr höndunum á nokkuð klaufalegan hátt er hún færð til öndvegis innan flokks síns, enda ljóst að pólitískum ferli hennar í borgarmálunum er lokið, hún verður það sem eftir lifir kjörtímabilsins óbreyttur borgarfulltrúi. Nú mun reyna verulega á, fyrir hvað borgarstjórinn fráfarandi stendur fyrir í pólitík. Fljótt á litið blasir ekki við fyrir hvað hún stendur. Undanfarinn áratug hefur hún setið í vernduðu pólitísku umhverfi þriggja flokka í valdabandalagi sem myndað var utan um persónu hennar. Sá tími hefur nú liðið undir lok og við tekur að hún verði að koma sér áfram á eigin verðleikum. Réttkjörnum formanni flokksins er ýtt til hliðar svo hún geti verið leiðtogaefni flokksins í komandi kosningum. Það hefur aldrei gerst fyrr að flokkur bjóði fram sem leiðtogaefni í kosningum manneskju sem aldrei hefur verið kjörin til trúnaðarstarfa innan eigin flokks eða verið virk í flokksstarfinu. Ingibjörg hefur til þessa verið fulltrúi þriggja flokka á borgarstjórastóli og ekki verið beinn þátttakandi í flokkspólitísku starfi. Það breytist nú þegar hún verður leiðtogaefni Samfylkingarinnar á landsvísu. Verður athyglisvert að sjá leiðtogaefni tjá sig (vonandi opinskátt) um málefni samtímans. Það verður eflaust fróðlegt sérstaklega fyrir landsbyggðarfólk að heyra áherslur hennar t.d. í byggðamálum og samgöngumálum. Athygli vekur þó að ganga hennar í forystusveit síns flokks er blúndulögð, aldrei þarf hún að fara í prófkjör eða verða kjörin til forystu til að á styrk hennar reyni. Það er eflaust leitun að stjórnmálamanni sem hefur getað komist áfram með því að vera dregin þangað af öðrum. Nú mun hinsvegar reyna á persónu þessa svokallaða leiðtoga sem fer í slaginn án umboðs til forystustarfa innan eigin flokks. Hún kemst ekki hjá því að hafa skoðanir og pólitíska sannfæringu frekar en aðrir sem ætla sér eitthvað í pólitík. Fjalla nánar um leiðtoga án umboðs í pistli á heimasíðu Stefnis í dag.

Fræðandi þættir
Seinustu fimmtudagskvöld hefur Sjónvarpið sýnt athyglisverða heimildarþætti Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og Ólafs Þ. Harðarsonar um 20. öldina. Í þessum þáttum er farið ítarlega yfir sögu þjóðarinnar á seinustu öld. Athyglisverðar svipmyndir frá fréttum aldarinnar er blandað við viðtöl við fólk sem setti sterkan svip á þetta tímabil. Í gær var fjallað um viðreisnartímabilið, 1959-1971. Sérstaka athygli mína vakti margt fróðlegt efni sem ekki hefur verið sýnt frá lengi, t.d. gömul viðtöl og fréttasvipmyndir. Mér hefur alltaf líkað íslenskt fræðandi efni og fagna því að þessir þættir séu sýndir, það er alltaf gaman að kynnast betur sögu þjóðarinnar.

15 janúar 2003

Eyjafjörður verði eitt sveitarfélag
Undanfarna daga hefur verið í fréttum að forystumenn Dalvíkurbyggðar, Siglufjarðarbæjar og Ólafsfjarðarbæjar íhugi sameiningu þessara sveitarfélaga. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að Eyjafjörður ætti að verða eitt sveitarfélag, og finnst það mjög rökrétt. Í seinustu sveitarstjórnarkosningum í Dalvíkurbyggð var mikið rætt um sameiningu bæjarsins við önnur sveitarfélag. Í þeim kosningum var ég frambjóðandi á lista Sjálfstæðisflokksins og ákváðum við í framboðinu að hafa það á stefnuskrá okkar að huga að sameiningu, vorum eina framboðið sem settum það fram í okkar stefnu. Sameining þessara þriggja sveitarfélaga er því góður áfangi í þá átt að fjörðurinn verði ein heild, eitt sveitarfélag. Árið 1993 var kosið um tillögur þáverandi félagsmálaráðherra, þ.á.m. um þá tillögu að Eyjafjörður yrði eitt sveitarfélag. Sú tillaga var þá felld (ásamt flestum tillögum ráðherra) enda ekki tímabær þá. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri hér á Akureyri og leiðtogi okkar sjálfstæðismanna, hefur verið ötull talsmaður sameiningar og á Dalvík eru æ fleiri að komast á þessa skoðun. Veit ég að forystumenn flokksins þar eru eindregnir stuðningsmenn sameiningar. Með tilkomu jarðgangna um Héðinsfjörð mun Eyjafjörður verða eitt atvinnusvæði og eitt sveitarfélags (allavega innan næstu 15 ára), efast ekki um það. Þessar viðræður sveitarfélaganna þriggja er upphafið að þessu ferli.

Eignarhaldið á Fréttablaðinu
Í kvöld ræddi Sigmar Guðmundsson við þá Gunnar Smára Egilsson og Jónas Kristjánsson í Kastljósinu um eignarhaldið á Fréttablaðinu. Eins og við var að búast varði Gunnar Smári það að ekki er gefið upp hverjir eiga blaðið, en Jónas mælti á þá leið að það væri réttast að það lægi fyrir. Það sjá auðvitað allir að réttast er að allt sé uppi á borðinu og fyrir liggi hverjir eigi þennan fjölmiðil. Fyrr verður fréttamennska þess ekki trúverðug. Útúrsnúningarnir í ritstjóranum um að eignarhaldið á Mogganum sé ekki á hreinu eru kostulegir, það er ekkert mál að kynna sér hverjir eiga Árvakur, en svo verður ekki sagt um Fréttablaðið. Heyrst hefur að Bónusfeðgar eigi stóran hlut í blaðinu, hvort það sé satt veit ég ekki en víst er að kjaftasögur um hugsanlega eigendur verða til staðar þar til hið sanna kemst í ljós. Vissulega væri réttast að fólk vissi hver ætti þetta blað og trúverðugleiki þess yrði meiri.

14 janúar 2003

Alfreð verður formaður borgarráðs og pólitískur leiðtogi R-listans
Í dag sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formlega af sér embætti borgarstjóra og mun láta af störfum eftir hálfan mánuð. Ennfremur sagði hún sig úr borgarráði og lætur þar af formennsku. Alfreð Þorsteinsson var kjörinn formaður borgarráðs og verður með því pólitískur forystumaður borgarinnar. Steinunn Valdís Óskarsdóttir tekur sæti ISG í borgarráði. Nú þegar í borgarstjórastólinn sest valdalaus embættismaður verður formaður borgarráðs pólitískur forystumaður, þetta hljóta allir að sjá. R-listanum verður ekki stjórnað af manni sem aldrei hefur verið kjörinn til setu í borgarstjórn eða af flokkunum þrem sem fulltrúi þeirra í borgarráði. Í kjölfar þess að ISG var sparkað af borgarstjórastóli og úr borgarráði verður hún óbreyttur borgarfulltrúi og ekki valdameiri en Björk Vilhelmsdóttir, efast reyndar stórlega um að ISG fari í nefndir eins og hinir fulltrúarnir. Alfreð Þorsteinsson mun sem formaður borgarráðs verða pólitískur leiðtogi R-listans. Hann hefur lykilstöðu þar nú eftir valdabaráttuna og fær formannsstólinn í krafti oddastöðu sinnar.

Sjálfstæðismenn styðja Kárahnjúkavirkjun - ISG þarf ekki undir feldinn
Í dag varð ljóst að meirihlutafylgi er í borgarstjórn Reykjavíkur við Kárahnjúkavirkjun. Með stuðningi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins fer málið í gegnum borgarstjórn. Það lá fyrir í dag að meirihluti R-listans myndi ekki samþykkja þessar tillögur samhljóða, enda þrír borgarfulltrúar meirihlutans á móti henni. Ákvörðun allra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að styðja tillöguna tryggði að málið næði í gegn með meirihluta atkvæða. Ennfremur er ljóst að ISG samþykkir þessa framkvæmd. Það er ánægjulegt að vita að fráfarandi borgarstjóri er á sömu línu og stjórnarflokkarnir í þessu máli og styður atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og almennt séð þessa framkvæmd. Ég var farin að halda að hún ætlaði að sitja hjá eins og þegar kosið var um EES forðum daga. Það er gott að hún getur tekið ákvarðanir án þess að liggja undir feldi í margar vikur og eða mánuði.

13 janúar 2003

Leiðtogi án umboðs - yfirgangur í Margréti
Ljóst varð í gær að Samfylkingin myndi verða leidd í kosningabaráttunni af manneskju sem aldrei hefur verið kjörin þar til trúnaðarstarfa. Er þetta mjög skondið og vandræðalegt fyrir flokkinn, enda greinilega ákveðið í einhverjum bakherbergjum af örfáum útvöldum. Er talað um að formaðurinn og forsætisráðherraefnið verði sterkt tvíeyki, dæmin sanna hinsvegar glögglega að enginn flokkur styrkist með tvo við stjórnvölinn. Aðeins getur einn stjórnað og farið með umboð flokksmanna sem leiðtogi þeirra, allt anað orkar tvímælis. Það er að sama skapi ótrúlegt að sjá hversu mjög ganga Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í pólitíkinni er blúndulögð. Fyrst var henni stillt upp sem áttunda manni á R-listanum 1994 og hefði setið áfram á þingi ef sigur hefði ekki unnist. Í kosningunum 1998 og 2002 var samstaða um að hún fengi sætið án baráttu og henni úthlutað sínum sama sess. Nú á hún að verða forystumaður Samfylkingarinnar og sett skör hærra en formaðurinn án þess að hafa verið kjörin til þess. Já, það er margt skrýtið í henni veröld. Í kvöld ræddu þær Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Margrét Frímannsdóttir stöðu mála í Kastljósi RÚV, og vandræðaganginn innan Samfylkingarinnar. Greinilegt var að Margrét gat ekki hlustað á staðreyndir málsins og missti sig gjörsamlega í umræðunum, sýndi hroka og greip sífellt fram í fyrir Þorgerði sem var eins og venjulega kurteisin uppmáluð. Margrét varð eins og froðufellandi skrímsli þegar rætt var um þetta mál. Það mætti segja mér að henni yrði ekki teflt fram í fleiri umræðuþætti ef þetta eru mannasiðirnir sem konan kann. Yfirgangurinn í henni er svo mikill að hún getur ekki hamið sig.

Merkum áfanga náð - afstaða fráfarandi borgarstjóra
Síðustu daga hefur mikið verið rætt um virkjunarmálin í kjölfar ákvörðunar stjórna Alcoa og Landsvirkjunar. Málið ætti nú að vera í höfn, og bendir flest til þess að ekkert stöðvi þetta úr þessu. Enn vantar samþykki Alþingis, borgarstjórnar og bæjarstjórnar Akureyrar. Ljóst er að aðeins er óvissa um afgreiðslu þess í borgarstjórninni. Gott verður að sjá hvar fráfarandi borgarstjóri stendur í þessu, hver sé hennar skoðun. Það væri gott fyrir fólk að vita það, sérstaklega landsbyggðarkjósendur sem kjósa um framtíð sína í þessum kosningum. Ef hún vill verða áreiðanleg og halda trúverðugleika sínum á hún að taka afstöðu. Ég fjalla um málið í pistli á heimasíðu flokksins hér á Akureyri í dag.

Vandaðir heimildarþættir um Heimaeyjargosið
Eftir 10 daga, 23. janúar, verða þrír áratugir liðnir frá því er eldgos hófst á Heimaey. Í tilefni þess hóf Stöð 2 í gærkvöld sýningar á heimildarþáttaröð um þennan viðburð. Þessir þættir eru gerðir af þeim sömu og gerðu þáttaröðina Síðasti valsinn og fjallaði um landhelgisdeilurnar milli Englands og Íslands. Sú þáttaröð var virkilega áhugaverð og skemmtileg og hlaut verðskuldað Edduverðlaunin sem besta heimildarmynd ársins 2001. Í þessari þáttaröð um eldgosið í Eyjum eru athyglisverð viðtöl við fólk sem upplifði þennan atburð og jafnframt er mikið af áhugaverðu myndefni. Er um að ræða heimildarþætti eins og þeir gerast bestir. Virkilega vel gerðir og fræðandi. Ég hef alltaf gaman af góðum heimildarþáttum og fagna því að Stöð 2 býður uppá svo vandað efni á dagskrá sinni, vonandi er þetta það sem koma skal þar.

11 janúar 2003

Óvissa um Kárahnjúkavirkjun í borgarstjórn
Eins og ég sagði frá í gær hefur stjórn Alcoa samþykkt að reisa álver við Reyðarfjörð. Nú þegar málið er komið í þennan farveg hefur stjórn Landsvirkjunar samþykkt framkvæmdir vegna virkjunar við Kárahnjúka. Til að málið hljóti staðfestingu þurfa eigendur fyrirtækisins, ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær að staðfesta þær ákvarðanir. Fyrir liggur að meirihluti er á Alþingi fyrir þessum framkvæmdum og mun iðnaðarráðherra leggja fyrir þingið frumvarp um málið á næstu dögum. Í bæjarstjórn Akureyrar er ljóst að bæjarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks styður málið ásamt nokkrum fulltrúum minnihlutans. Í borgarstjórn Reykjavíkur er aðra sögu að segja af málinu. Þar er engin samstaða innan meirihluta R-listans um málið. Fram hefur komið að varaborgarfulltrúi R-listans greiddi atkvæði gegn framkvæmdununum í stjórn Landsvirkjunar og einnig hafa leiðtogar Samfylkingarinnar og VG í borgarstjórninni lýst yfir andstöðu sinni, en Framsóknarmenn innan meirihlutans styðja virkjunina. Á fimmtudag verður kosið um málið og ljóst að atkvæði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins munu skipta sköpum. Ekki er enn ljóst hvaða afstöðu þrír fulltrúar meirihlutans, þ.á.m. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fráfarandi borgarstjóri og leiðtogi R-listans muni taka í málinu. Nú þegar ljóst er að hún lætur af embætti borgarstjóra eftir þrjár vikur og hyggur á þingframboð og að öllum líkindum verða leiðtogaefni flokksins í komandi kosningum verður athyglisvert að sjá hvaða skoðun hún hefur á þessu mikilvæga máli. Gæti svo farið að afdrif málsins muni velta á afstöðu hennar. Það er mín skoðun að Sjálfstæðismenn í borgarstjórn eigi að láta meirihlutann og borgarstjórann fráfarandi um að klára málið og láta það velta á afstöðu hennar. Verður fróðlegt að sjá hvort hún leiðtogaefni Samfylkingarinnar sé hlynnt eða andvíg atvinnusköpun og uppbyggingu á landsbyggðinni. Hún getur ekki verið "stikkfrí" í þessu máli. Ekki er langt síðan meirihlutinn í borginni hékk á bláþræði vegna innbyrðis valdaátaka. Er ekki útilokað að þetta mál muni standa í borgarstjórnarmeirihlutanum.

Valgerður sigrar Jón - Ólafur Örn hættir - Ellert á vergangi
Framsóknarmenn í Norðausturkjördæmi héldu í dag kjördæmisþing sitt á Hrafnagili í Eyjafirði og völdu frambjóðendur á framboðslista sinn fyrir komandi þingkosningar. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sigraði Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, í slagnum um leiðtogasætið. Þótti ljóst að svo myndi fara, enda meirihluti þingfulltrúa úr gamla Norðurlandskjördæmi eystra. Jón verður í öðru sætinu og í þeim tveim næstu koma tveir ungir frambjóðendur, Dagný Jónsdóttir og Birkir Jón Jónsson. Er mjög líklegt að farsæl niðurstaða í virkjunarmálum hafi ráðið úrslitum fyrir Valgerði. Í gær tilkynnti Ólafur Örn Haraldsson að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri í komandi kosningum eftir 8 ára þingmennsku. Í dag var svo tilkynnt að Ellert B. Schram forseti ÍSÍ og fyrrv. alþingismaður, væri að íhuga framboð fyrir Samfylkinguna. Það er hálf ömurlegt að sjá þennan fyrrum þingmann og formann SUS á slíkum vergangi og óheillaleið.

10 janúar 2003

Mikilvægum áfanga náð - álver rís við Reyðarfjörð
Óhætt er að fullyrða að 10. janúar verði framvegis hátíðisdagur fyrir Ausfirðinga, einkum íbúa Fjarðabyggðar. Stjórn bandaríska álfyrirtækisins Alcoa samþykkti á fundi í New York í dag að ráðast í byggingu 322.000 tonna álvers við Reyðarfjörð sem nefnt verður Fjarðaál. Er álverið hluti af einni umfangsmestu fjárfestingu sem ráðist hefur verið í á Íslandi. Áætlað er að framkvæmdir við bygginguna hefjist árið 2005 og álverið hefji framleiðslu árið 2007. Byggingarkostnaður Fjarðaáls er áætlaður 1,1 milljarður dala, eða um 90 milljarðar króna og dreifist hann á næstu fjögur ár. Mun álverið skapa um 450 störf í álverinu og um 300 störf í tengdum iðnaði og þjónustu. Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði í tilefni tíðinda dagsins að Kárahnjúkavirkjun og álver Alcoa í Reyðarfirði væru gríðarlegur áfangi fyrir þjóðina. Óhætt væri að telja að málið væri í höfn, þó að nokkur atriði séu ófrágengin eins og samningar við verktaka, ábyrgðir eigenda Landsvirkjunar fyrir lántöku, og frumvarp iðnaðarráðherra á Alþingi. Davíð segir að nýtt og öflugt hagvaxtarskeið sé að hefjast. Atvinnuástand muni styrkjast á ný, kaupmáttur aukast og tekjur þjóðarbús og landsmanna. Mikið fjör var á Reyðarfirði í kvöld þar sem fólk kom saman til að fagna tíðindum dagsins. Merkum áfanga hefur verið náð. Ég vil persónulega senda bestu kveðjur austur til frændfólks míns í Fjarðabyggð, vina og kunningja og óska þeim til hamingju með þennan mikilvæga áfanga. Nú er ekki lengur spurning um hvort heldur hvenær álver við Reyðarfjörð rís.

Össur Skarphéðinsson tekinn af lífi pólitískt
Samfylkingin var stofnuð formlega 5. maí 2000 með samruna Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Samtaka um Kvennalista. Flokkurinn bauð þó fram í alþingiskosningunum 1999. Össur Skarphéðinsson varð fyrsti formaður flokksins á stofnfundi hans í maí 2000 eftir að hafa sigrað Tryggva Harðarson bæjarstjóra á Seyðisfirði og fyrrum bæjarfulltrúa í Hafnarfirði, í póstkosningu almennra flokksmanna. Áður höfðu margir þingmenn flokksins ákveðið að fara ekki í formannsframboð, t.d. Guðmundur Árni Stefánsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir, Lúðvík Bergvinsson og Svanfríður Jónasdóttir. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fráfarandi borgarstjóri, ákvað að fara ekki heldur í formannsframboð, þó almennt hafi verið talið að hún væri leiðtogaefni flokksins. Sameinast var því um Össur í formannsstólinn. Nú hefur sú ákvörðun verið tekin að formaðurinn er sniðgenginn í komandi kosningum og verður ekki pólitískur leiðtogi hans, það hljóta að teljast stórtíðindi. Flokksmenn í Samfylkingunni hafa sjálfir gert lítið úr formanni sínum og ljóst var í kjölfar þess að formaðurinn sagði að hann sem formaður flokksins myndi leiða hann í kosningum, að stuðningur við hann var lítill sem enginn. Ljóst er nú að hann er ekki lengur pólitískur leiðtogi flokksins og verður formaður aðeins að nafninu til fram til næsta landsfundar. Hann er einskis virði pólitískt séð eftir að eigin flokksmenn hafa tekið pólitíska stjórn flokksins af honum. Flokkurinn verður í forystu manneskju sem aldrei hefur verið kjörin til forystu hans. Það er einsdæmi á Íslandi. Sagt er að verið sé að hverfa til fordæmis norska Verkamannaflokksins. Það er þó ekki sambærilegt ef menn kynna sér málið. Línur verða skýrar í komandi kosningum. Það er gott að vita hvern Samfylkingin hefur í forystu. Formanninum hefur verið sparkað, þó hann verði það að nafninu til eitthvað lengur.

09 janúar 2003

Pistill á frelsi.is - tveir skipstjórar á sama skipinu?
Í dag birtist á heimasíðu Heimdallar, ítarlegur pistill minn um stöðuna hjá R-listanum, aðdragandann að endalokum valdaferils Ingibjargar Sólrúnar, stöðuna í skoðanakönnunum og farsa þann sem snýst um forystu Samfylkingarinnar í komandi kosningum. Það er helst af þeim flokki að frétta að formaðurinn hefur brugðist við komu hins nýja háseta (ISG) á þann hátt að lýsa því yfir svo ekki varð um villst að hann væri enn skipstjóri á sinni fleytu. Hann ætlar ekki að gefa eftir sinn sess til hásetans. Á meðan ókyrrast undirmenn skipstjórans og vilja nýta krafta hásetans sem varð að taka pokann sinn á R-listafleytunni. Er rætt um að bæði verði við stjórnvölinn innan Samfylkingarinnar. Össur verði áfram formaður flokksins en Ingibjörg stjórni kosningabaráttunni og verði talsmaður hans. Óljóst er hver skal vera forystumaður þegar til stjórnarmyndunar kemur, ef svo illa vildi til að flokknum tækist að komast í oddaaðstöðu við myndun ríkisstjórnar. Þessi vandræðagangur innan Samfylkingarinnar vegna forystunnar er kostulegur, enda vitað mál að hjá flokk getur aðeins einn setið við stjórnvölinn. Það gengur ekki upp til lengdar að vera með tvo skipstjóra á sama skipinu samtímis. Fyrir liggur að Össur Skarphéðinsson er formaður flokksins og því augljóst að það verður hann sem leiðir flokkinn í baráttunni en ekki borgarfulltrúinn. Það er ótrúlegt að sjá hversu mjög ganga Ingibjargar í pólitíkinni er blúndulögð. Fyrst var henni stillt upp sem áttunda manni á R-listanum 1994 og hefði setið áfram á þingi ef sigur hefði ekki unnist. Í kosningunum 1998 og 2002 var samstaða um að hún fengi sætið án baráttu og henni úthlutað sínum sama sess. Nú á hún að verða forystumaður Samfylkingarinnar og sett skör hærra en formaðurinn án þess að hafa verið kjörin til þess. Já, það er margt skrýtið í henni veröld.

Félagsstarfið af stað á ný - Íslendingur kemur út
Í dag hefst félagsstarfið hjá okkur Sjálfstæðismönnum á Akureyri á ný eftir hátíðirnar. Í gær kom út málgagn flokksins, Íslendingur, þar sem er að finna ítarlegar greinar og ýmsan fróðleik. Milli kl. 17:00 og 19:00 verður opið hús í Kaupangi. Svo fer starfið fljótlega af stað á ný hjá Verði. Við sem sitjum í stjórn félagsins ætlum okkur að verða virk fram að kosningum. Ljóst er að kosningarnar í vor verða spennandi og mikilvægt að flokkurinn haldi vel á sínu. Stefnan er sett á að flokkurinn haldi þeirri stöðu sem hann hefur í landsmálunum. Ljóst er að til að ná því lykilmarkmiði að flokkurinn sé í fararbroddi í öllum kjördæmunum hafi hann alla burði. Þó þarf að vinna af krafti til að ná settu marki. Sigur vinnst ekki nema með því að leggja sig allan fram og berjast áfram. Sjálfstæðismenn munu þurfa að hafa fyrir því að halda sinni stöðu og nauðsynlegt að allir hægrimenn og framfarasinnar taki virkan þátt í þeirri baráttu og styðji Sjálfstæðisflokkinn og fulltrúa hans til góðra verka á komandi árum. Nú reynir á samstöðu sjálfstæðismanna - með samstöðu að leiðarljósi verður sigur flokksins staðreynd.

08 janúar 2003

Samfylking nær hámarki - lausafylgið ræður úrslitum
Það er ekki hægt að neita því að komandi kosningabarátta verður meira spennandi og óvægnari en jafnvel var áður talið. Í könnun DV kemur skýrt fram að Samfylkingin er að ganga frá samstarfsflokkum í borgarstjórn og þeir eru að fóta sig nú eftir að fráfarandi borgarstjóri sveik gefin loforð. Þessi skoðanakönnun er athyglisverð mæling á stöðunni núna og segir tvennt. Í fyrsta lagi að fylgi Framsóknarflokks og VG er í miklu lágmarki og það fylgi sem þeir missa fer yfir til Samfylkingarinnar. Spurningin er; fer það aftur til baka á flokkana eða verður þetta útkoma þeirra. Ef svo er blasir við að þeir munu báðir eiga í mikilli tilvistarkreppu á komandi árum og ekki líklegt að þeir verði aðilar að ríkisstjórn með þetta fylgi. Ég tel útilokað að þessir flokkar mælist svona lágt í kosningum. Í öðru lagi að það er mikið lausafylgi á landsbyggðinni og um það verður barist, það gæti ráðið úrslitum í þessum kosningum hvert það fer. Á landsbyggðinni verður framar öðru kosið um atvinnu- og samgöngumál. Í kosningabaráttunni í mínu kjördæmi munu virkjunarmál verða áberandi og verður eftir því leitað hvar flokkarnir standa í þeim málum. Styðja þeir atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni eða hvað? Það dugar ekkert hálfkák í þeirri kosningabaráttu og skýrra svara verður leitað. Við blasir semsagt að Samfylkingin er að bæta við sig fylgi á kostnað tveggja flokka, samstarfsflokka í borgarstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn heldur velli eftir 12 ára stjórnarforystu. Ég minni á að Samfylkingin hefur náð hámarki og því spurningin hvenær fylgið leitar til baka í flokkana tvo. Ef það gerist ekki blasir við endalok þessara tveggja flokka. Íslenskir kjósendur eru vanafastir eins og fram kemur í lokaverkefni Einars Arnar Jónssonar og Birnu Óskar Hansdóttur í stjórnmálafræði . Framsókn er alltaf vanmetin og VG eflaust líka miðað við þessar tölur. Hvaðan munu þessir flokkar taka fylgi sitt á ný. Ekki frá Sjálfstæðisflokknum, svo mikið er víst.


R-listinn forystulaust rekald
Eftir þrjár vikur mun Ingibjörg Sólrún Gísladóttir láta af störfum sem borgarstjóri Reykjavíkurborgar eftir tæplega 9 ára setu á þeim stól. Aðdragandinn að endalokum valdaferils hennar í stóli borgarstjóra ætti að vera öllum kunnur eftir að landsmenn horfðu á pólitískan jarðskjálfta á R-listasprungusvæðinu fyrir og um jólin eftir að ISG ákvað að fara í þingframboð og ganga á bak orða sinna í borgarstjórnarkosningunum í fyrra. Samstarfsfólk hennar í meirihlutanum neyddu hana til að segja af sér eftir að hún hafði svikið þá opinberlega og gengið á bak orða sinna við þá. Síðan 1994 hefur verið staðið þannig að stjórn mála undir forystu R-listans í borgarstjórn, að borgarstjóri hefur verið úr hópi kjörinna borgarfulltrúa og haft skýrt pólitískt umboð samstarfsmanna sinna sem málsvari þeirra. Það hefur verið stefna þeirra að við stýrið sé sterkur pólitískur forystumaður. Við þessar aðstæður hefur R-listinn ákveðið að ráða fjármálamanninn Þórólf Árnason í stól borgarstjóra en hann er eins og öllum ætti að vera kunnugt ekki kjörinn borgarfulltrúi. Síðast þegar vinstri flokkarnir stóðu að sambærilegri ráðningu kjörtímabilið 1978-1982 gaf þessi skipan alls ekki góða raun. Innan borgarstjórnar var þá fullkomin óvissa um, hvar ábyrgð hvíldi í mikilvægum pólitískum álitaefnum. Erfiðar spurningar vöknuðu um valdmörk milli kjörinna fulltrúa og embættismanna. Í raun átti Reykjavíkurborg engan málsvara með ótvírætt umboð frá borgarbúum. Þessi staða blasir nú við öllum sem á málið líta. R-listinn, valdabandalag þriggja flokka er forystulaust rekald eftir að skipstjórinn sagði upp djobbinu og réði sig sem háseta á annað skip undir stjórn Össurar Skarphéðinssonar.

Ekkert gagnkvæmt traust - endalok R-listans
Í skoðanakönnun DV á mánudag kom skýrt fram að fylgi R-listans hefur minnkað verulega við það að skipstjórinn ræður sig á annað fley og yfirgefur fyrra plássið. Fylgi Sjálfstæðisflokkins eykst og er þeim spáð meirihluta atkvæða. Ráðning flokkanna þriggja sem mynda meirihluta borgarstjórnar á fyrrum forstjóra Tals í borgarstjórastólinn sýnir svo ekki verður um villst, að mikill glundroði ríkir í hópi borgarfulltrúa R-listans og ekkert gagnkvæmt traust er þeirra á milli. Það væri fróðlegt að vita hvort aldrei hafi komið til álita að aðrir borgarfulltrúar en Árni Þór Sigurðsson kæmi til álita í stól borgarstjóra, s.s. Stefán Jón Hafstein, Alfreð Þorsteinsson eða Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Atburðarásin frá því að fráfarandi borgarstjóri ákvað að bjóða sig fram til fimmta sætis á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík, glundroðinn og illindin milli Samfylkingar, Framsóknarflokks og VG og ráðning ópólitísks borgarstjóra (framkvæmdastjóra) án pólitísks umboðs sýnir svo ekki verður um villst, að R-listinn er í raun úr sögunni sem sterkt pólitískt afl. Forseti borgarstjórnar hefur sagt að pólitísk stefnumótun verði alfarið í höndum kjörinna fulltrúa og borgarráðsliða en ekki borgarstjóra. Það er óhjákvæmilegt að krefjast þess af meirihluta borgarstjórnar að hann greini allavega borgarbúum frá því, hver verði málsvari Reykjavíkurborgar vegna póltískrar stefnumótunar eftir að núverandi borgarstjóri fer úr embætti eftir að hafa gengið á bak orða sinna og verið sparkað af stóli sínum sem ótvíræður pólitískur forystumaður meirihlutans.

07 janúar 2003

Yfirgnæfandi líkur á að Kárahnjúkavirkjun verði að veruleika
Líkurnar á að Kárahnjúkavirkjun verði að veruleika aukast nú dag frá degi. Í dag kom fram í greinargerð nefndar sem eigendur Landsvirkjunar komu á laggirnar til að skila áliti um mat á arðsemi og fjárhagslegri áhættu Kárahnjúkavirkjunar, að yfirgnæfandi líkur væru taldar á að virkjunin verði arðsöm. Er það mat nefndarinnar að arðsemismat Landsvirkjunar sé vel rökstutt. Það er þeirra mat að það sé eigenda fyrirtækisins að ákveða hvort metin arðsemi Kárahnjúkavirkjunar sé fullnægjandi, að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem felist í verkefninu og annarra þeirra þátta sem þeir telji mikilvæga. Eigendanefndin, sem skipuð er þremur mönnum, segir að hafa beri í huga að þótt í arðsemismati sé miðað við 25% eiginfjárhlutfall og veginn fjármagnskostnaður reiknaður út frá því, þá megi gera ráð fyrir að Kárahnjúkavirkjun verði í raun fjármögnuð að mestu eða öllu leyti með lánsfé. Í morgun samþykkti ríkisstjórnin tillögu iðnaðarráðherra um að leggja fyrir þingflokka stjórnarflokkanna og Alþingi, þegar þing kemur saman þann 21. janúar nk. frumvarp til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Frumvarpið er að flestu leyti efnislega sambærilegt lögum um heimild til samninga um álverksmiðju á Grundartanga sem samþykkt var fyrir nokkrum árum. Ríkisstjórnin fjallaði einnig í morgun um greinargerð eigendanefndarinnar. Samninganefndir iðnaðarráðuneytis, Alcoa og Fjarðabyggðar hafa áritað samninga vegna byggingar og reksturs álverksmiðju í Reyðarfirði. Í frumvarpinu er leitað heimildar Alþingis til að undirrita fjárfestingar-, lóðar- og hafnarsamninga. Fyrir liggur að samningar verði undirritaðir í febrúar og málið verði þá formlega klárað. Það er því ljóst að það styttist óðum í að Kárahnjúkavirkjun verði að veruleika. Í komandi kosningum verður kosið í Norðausturkjördæmi um atvinnu- og samgöngumál framar öðru. Virkjunin skiptir íbúa kjördæmsins miklu máli og fyrir liggur að hún muni verða mikil lyftistöng fyrir kjördæmið og ekki síður landsmenn alla.

Staða Sjálfstæðisflokksins styrkist - Davíð traustur í sessi
Í dag birti DV skoðanakönnun um fylgi flokkanna í Reykjavík vegna komandi þingkosninga í annað skipti á tæpum mánuði. Föstudaginn 20. desember 2002 birtist skoðanakönnun sem leiddi til þess að framsóknarmenn og vinstri/grænir í borgarstjórn spörkuðu fráfarandi borgarstjóra af stóli gegn vilja hennar og neyddu hana til afsagnar. Í þeirri könnun kom fram að ISG myndi fella Halldór Ásgrímsson af þingi. Á þeirri könnun tóku Samfylkingarmenn mikið mark á og töluðu um upphafið að pólitískri sigurgöngu ISG. Í könnun dagsins í dag er ljóst að staða Sjálfstæðisflokksins í borginni hefur styrkst til muna eftir innkomu fráfarandi borgarstjóra og mælast þeir með sjö menn í norðurkjördæminu, þar sem tromp SF er í fimmta sætinu. Samkvæmt þessari könnun myndu hvorki ISG og ná kjöri. Reyndar er það svo að Samfylkingin tapar fylgi í borginni frá innkomu ISG. Samfylkingarmenn hljóta að taka sama mark á þessari könnun og þeirri fyrir þrem vikum, en ekki er ég viss um sama gleði sé með þessar tölur og þær sem birtust rétt fyrir jólin. Í dag birtist í Fréttablaðinu könnun um hvaða stjórnmálamönnum almenningur treystir best og vantreystir. Davíð Oddsson forsætisráðherra er sem fyrr umdeildur og trónir á toppum beggja listanna og er sá stjórnmálamaður sem þjóðin treystir best til forystu.

06 janúar 2003

Mánudagsútgáfa Moggans - ítarlegar greinar Agnesar um Íslandsbanka
Í dag kemur Morgunblaðið í fyrsta sinn í 84 ár, út á mánudögum. Þáttaskil verða í íslenskum fjölmiðlaheimi þegar Mogginn hefur mánudagsútgáfu sína á nítugasta afmælisári sínu. Nú kemur blaðið út alla daga og stendur virkilega undir nafni sem dagblað. Ég sem áskrifandi blaðsins fagna þessum breytingum bæði á útgáfunni og forsíðunni í nóvember sem eru mjög til góða. Þau munu styrkja blaðið. Í dag birtist fyrsta greinin af fjórum eftir Agnesi Bragadóttur um valdataflið um Íslandsbanka fyrir nokkrum árum þar sem við sögu komu bæði þekktir kaupsýslumenn og stjórnmálamenn. Eru þetta mjög áhugaverð og fræðandi skrif og verður gaman að lesa næstu greinar, hlakka til að lesa t.d. um aðdragandann að sameiningu Íslandsbanka og FBA á morgun. Agnes fer á kostum í þessum greinaskrifum eins og jafnan áður, greinaflokkur hennar um fall SÍS er sérstaklega eftirminnilegur þeim sem lásu hann á sínum tíma (1993). Í mínum huga er fréttamennska Morgunblaðsins fyrsta flokks og ég kaupi ekki önnur dagblöð á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Morgunblaðið er blað sem ég get ekki án verið.

Stórfurðuleg skoðanakönnun
Þar sem ég hvorki les Fréttablaðið né tek nokkurt mark á fréttamennsku þess eftir margar rangfærslur á síðasta ári tek ég skoðanakönnun þeirra í dag um fylgi flokkanna með mikilli varúð. Hef kynnt mér tölur úr þessari könnun á Netinu og sé þar að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn standa jafnfætis í fyrsta sinn til þessa. Könnunin virðist unnin á mjög óvísindalegan hátt, það er greinilega ekki mikið vit á þessu blaði á nýjum kjördæmalögum. Þetta má helst sjá af því að flokki með 2% fylgi er spáð manni á þing, en allir sem eitthvert snefilsvit hafa á nýju lögunum vita að það dugir ekki fyrir þingmanni. Nú þarf flokkur að hljóta 8-10% í kjördæmi til að ná manni kjördæmakjörnum og 5% á landsvísu til að eiga möguleika á jöfnunarmönnum. Við bætist að margir taka ekki afstöðu í þessari könnun. Það mætti helst ímynda sér að skoðun eins til eða frá hefði breytt fylginu. Úrtakið er mjög lítið. Ég hef alltaf tekið mest mark á könnunum Gallups. Á gamlársdag birtist könnun þeirra um fylgi flokkanna þar sem á fjórða þúsund manna tóku þátt um allt land. Þar voru línurnar skýrar. Könnunin í dag er svosem ágæt en ég minni á að Samfylkingin hefur verið í fjölmiðladekri seinasta mánuðinn og því varla tíðindi að fylgið aukist eitthvað. Það sem vekur helst athygli mína (ef tölurnar eru réttar sem ég dreg í efa) er að Samfylkingin er að stúta samstarfsflokkum sínum í borgarstjórn með framboði fráfarandi borgarstjóra. Má vel vera að hér sé að skapast tveggja flokka kerfi að bandarískri og breskri hefð. Ég minni hinsvegar á að líkurnar á að Samfylkingin haldi fylgisaukningu á kostnað Framsóknar og VG eru ekki miklar og líklegt að þegar til alvöru kosningabaráttu kemur verði fylgi þeirra meira. Sjálfstæðisflokkurinn tapar ekki miklu fylgi í þessari könnun Fréttablaðsins. SF græðir þar á tapi hinna flokkanna, Frjálslyndir virðast alveg við það að drepast í upphafi kosningaárs en ég tel hinsvegar alveg út í hött að afskrifa Framsókn. Það hafa margir farið flatt á því. Það var alltaf ljóst að þessi kosningabarátta yrði lífleg eftir að ISG missti allt niður um sig í borgarmálunum og ákvað að ganga á bak orða sinna í kosningabaráttunni í fyrra. Ljóst er að henni er ekki stillt upp sem leiðtogaefni flokksins, þetta tók varaformaður flokksins síðast fram í Kastljósi RÚV í gær. Fólk sem kýs Samfylkinguna kýs Össur Skarphéðinsson og Margréti Frímannsdóttur til áhrifa. Sjálfstæðisflokkurinn mun heyja snarpa og kraftmikla kosningabaráttu og leggur verk sín í dóm kjósenda. Við sjálfstæðismenn hræðumst ekki þann dóm, enda nýtur flokkurinn og forystumenn hans mikils trausts meðal þjóðarinnar.

05 janúar 2003

Repúblikanar taka völdin í öldungadeildinni
Repúblikanar hafa nú tekið formlega við völdum í öldungadeild Bandaríkjaþings af demókrötum eftir kosningasigur þeirra 5. nóvember sl. Það hafði ekki gerst frá 1934 að flokkur forseta Bandaríkjanna bætti við sig fylgi og þingsætum í báðum þingdeildum. Sigur Repúblikana í nóvember var því vissulega sögulegur. Það hefur ekki gerst í 50 ár að Repúblikanar séu við völd á sama tíma í Hvíta húsinu, fulltrúadeildinni og öldungadeildinni, ef undan eru skildir nokkrir mánuðir árið 2001, en flokkurinn missti meirihlutann í öldungadeildinni í júnímánuði 2001, þegar James Jeffords sagði sig úr Repúblikanaflokknum og varð óháður þingmaður og greiddi atkvæði með demókrötum. Eftir forsetakosningarnar 2000 var valdahlutfallið á þann hátt að báðir flokkar höfðu 50 þingmenn í öldungadeildinni, en Cheney varaforseti, hafði oddaatkvæðið. Við brotthvarf Jeffords úr Repúblikanaflokknum tóku demókratar við völdum í deildinni. Repúblikanar hafa hinsvegar haft meirihluta í fulltrúadeildinni frá 1994. Við þessar valdabreytingar verður Bill Frist leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni. Hann var kjörinn leiðtogi Repúblikana í desember í kjölfar þess að Trent Lott forveri hans, sagði af sér eftir að hafa látið umdeild ummæli falla í afmælisveislu Strom Thurmond, sem mátti skilja á þann veg að hann styddi aðskilnað svartra og hvíta í Bandaríkjunum. George W. Bush mun nú horfa fram á veginn og koma stefnumálum sínum í framkvæmd, eftir sigur flokksins í þingkosningum, til þess hefur hann nú öflugan stuðning. Hann er þegar farinn að undirbúa kosningaslaginn 2004, eins og marka mátti af því að hann lét fjármálaráðherrann og efnahagsráðgjafa sína fjúka fyrir skemmstu og valdi nýja menn í sinn innsta hring til að móta efnahagsstefnuna á komandi árum. Sigur Repúblikana í nóvember staðfestir sterka stöðu forsetans og fylgismanna hans í bandarískum stjórnmálum. Forsetakosningar eiga að fara fram í Bandaríkjunum 2. nóvember 2004. Athyglisvert verður að fylgjast með bandarískum stjórnmálum fram að því. En eftir stendur Bush með pálmann í höndunum. Á því leikur enginn vafi.

Áhugaverður þáttur um karlakórinn Geysi
Horfði í kvöld á þátt Egils Eðvarðssonar og Sigríðar Guðlaugsdóttur um tónleikaferð Karlakórsins Geysis á Akureyri til Norðurlanda fyrir hálfri öld, sumarið 1952. Í þættinum var talað við gamla kórfélaga og sýndar myndir sem Eðvarð Sigurgeirsson, faðir Egils, tók í ferðinni. Var þessi þáttur virkilega áhugaverður. Langafi minn, Stefán Jónasson skipstjóri, útgerðarmaður og bæjarfulltrúi á Akureyri var í kórnum í áratugi og fór ásamt ömmu, Gíslínu Friðriksdóttur í ferðina og sáust þau oft í myndum Eðvarðs sem sýndar voru í þættinum. Stebbi afi sem lést í janúar 1982, þá aldargamall, segir frá ferðinni í bók Erlings Davíðssonar, Aldnir hafa orðið, sem kom út árið 1973. Þar eru margar skemmtilegar frásagnir um ferðina og greinilegt að hún hefur verið honum mjög eftirminnileg, þó hann hafi vissulega farið til útlanda fyrir 1952. Margir sem fóru í kórferðina höfðu aldrei farið út fyrir landsteinana og því augljóst að þarna hefur verið um að ræða mikil upplifelsi. Margt myndefni er til frá löngum ferli Eðvarðs Sigurgeirssonar sem kvikmyndatökumanns, gott dæmi er mynd um björgun áhafnar flugvélarinnar Geysis árið 1950 og ýmsar mannlífsmyndir úr Eyjafirði, einkum frá Akureyri. Það er hlutverk nútímamanna á Akureyri og víðar að hlúa að þessum fjársjóði sem Eðvarð skildi eftir sig og Egill sonur hans á hrós skilið fyrir að hafa bjargað mörgum perlum úr safni föður síns. Sérstaklega er mikilvægt að Akureyrarbær taki sig til og búi þessum myndum þann sess sem þær eiga skilið og varðveiti þær sérstaklega. Það er mikilvægt að þessar lifandi myndir úr sögu Akureyrar verði varðveittar á viðunandi máta og fái sinn réttmæta sess.

04 janúar 2003

Vilhjálmur hættir þingmennsku - prófkjörsmálin í NV
Þegar þingmenn mæta aftur til starfa að loknu jólafríi verður kominn á þing nýr maður í þingflokk Sjálfstæðisflokksins, Adolf H. Berndsen. Hann mun taka sæti Vilhjálms Egilssonar á þingi. Ég harma að Vilhjálmur Egilsson hættir í stjórnmálum og lætur af þingmennsku. Það er mín skoðun að hann hefði átt að leiða framboðslista flokksins í kjördæminu við komandi kosningar, enda hefur hann staðið sig vel á þingi seinustu 12 árin og leitt t.d. efnahags- og viðskiptanefnd þingsins seinasta áratuginn. Í prófkjöri flokksins í nóvember mynduðu vissir aðilar blokk gegn Vilhjálmi og einsettu sér það að fella hann af þingi, það tókst með klækjum og brögðum. Það er skoðun mín að þetta prófkjör eigi að ógilda og endurtaka. Annað hugnast mér ekki, hef aldrei farið leynt með það, sagði það fyrst á vefsíðu minni í nóvember. Ég er sammála Vilhjálmi að pólitík er ekki upphaf lífsins og ekki heldur endalok þess. Það er margt annað til í lífinu sem vert er að lifa fyrir, lykilatriði er að eiga góða fjölskyldu og ættingja og síðast en ekki síst góða vini, það má aldrei vanmeta. Það er þó erfitt eflaust að víkja af þessum vettvangi eftir að hafa verið beittum brögðum á þann hátt sem var í tilfelli Vilhjálms. Hann er þó þeirrar gerðar að hann finnur sér annan vettvang til að starfa á. Það er von mín að kærumál hans verði ekki til lykta leitt nema fram fari ítarleg umræða á vettvangi kjördæmisráðs og flokksstjórna um prófkjörið og það verði ógilt þó VE verði ekki í framboði. Mér finnst ekkert annað boðlegt vera í sögunni. VE er ekki lengur þátttakandi í þessu máli en eftir stendur að brögð voru í tafli í prófkjörinu. Þetta mun allt ráðast á kjördæmisþingi í þessum mánuði, þar verða þessi mál til lykta leidd. Það er flokksmanna í þessu kjördæmi að ráða hver niðurstaðan verður, þetta er þeirra ákvörðun þegar á hólminn er komið.

Áramótaávarp bæjarstjóra
Á nýársdag flutti Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, áramótaávarp til Akureyringa á sjónvarpsstöðinni Aksjón, hér á Akureyri. Þar ræðir hann um bæinn og stöðu hans, úrslit seinustu sveitarstjórnarkosninga þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vann góðan sigur eftir fjögurra ára forystu flokksins í bæjarmálunum, fjölgun bæjarbúa og ýmislegt fleira. Gott ávarp hjá Kristjáni, hvet fólk til að lesa það.

03 janúar 2003

Skipting þingsæta í skoðanakönnun Gallups
Á gamlársdag birti RÚV skoðanakönnun Gallups á fylgi stjórnmálaflokkanna fyrir desember. Þar kom fram næstum sömu tölur og í nóvember og ljóst að innkoma ISG hafði lítið áhrif á fylgi síns flokks, enda hækkaði það aðeins um 0,1% milli mánaða. Sjálfstæðisflokkurinn er í könnuninni með 26 þingmenn, Samfylkingin hefur 21 og VG og Framsókn 8 þingmenn. Frjálslyndir ná sem fyrr engum manni inn, tapa sínum tveim. Samkvæmt þessum tölum er Sjálfstæðisflokkurinn með 10 í Reykjavík (5 í hvoru kjördæmi), 5 í Suðvesturkjördæmi, 4 í Norðvesturkjördæmi, 3 í Norðausturkjördæmi og 4 í Suðurkjördæmi. Samfylkingin er með 8 í Reykjavík (4 í hvoru kjördæmi), 5 í Suðvesturkjördæmi, 3 í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi og 2 í Suðurkjördæmi. Framsóknarflokkur er með 1 í Reykjavík, engan í Suðvesturkjördæmi, 2 í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi og 3 í Suðurkjördæmi. VG er með 2 í Reykjavík (1 í hvoru kjördæmi), 1 í Suðvestur- og Norðvesturkjördæmi, 2 í Norðausturkjördæmi og 1 í Suðurkjördæmi.

Sviptingar á þingi - þingmenn falla í könnuninni
Ef þessi könnun yrði úrslit komandi kosninga myndi Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, ná kjöri í Reykjavík, en Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra myndi falla af þingi. Einnig er ljóst að fleiri þingmenn falla skv. könnuninni. Meðal þeirra eru Jónína Bjartmarz, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Ólafur Örn Haraldsson, Katrín Fjeldsted og Árni Steinar Jóhannsson. Þá myndi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fráfarandi borgarstjóri, ekki ná kjöri úr fimmta sæti í Reykjavík norður og virðist þurfa pólitískt kraftaverk til að það náist. Þá myndi fjöldi ungs fólks ná inn á þing ef þessar tölur myndu ganga eftir. Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Katrín Júlíusdóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson eru samkvæmt þessu öll inni á þingi að loknum kosningum. Nú þegar ljóst er að ISG mun án pólitísks kraftaverks ekki ná kjöri er reynt að tryggja pólitíska framtíð hennar með því að einhverjir sem unnu sigur í prófkjöri flokksins í nóvember gefi eftir öruggt sæti til að hleypa henni að og koma í veg fyrir pólitískt sjálfsmorð borgarstjórans fráfarandi. Þegar liggur fyrir að Össur og Jóhanna gefa ekki eftir og því líklegast að ISG verði að leggja allt undir og standa og falla með úrslitunum.

Stefnan sett á fjóra í Norðausturkjördæmi
Samkvæmt þessari könnun hefur Sjálfstæðisflokkurinn þrjá þingmenn í Norðausturkjördæmi en vantar herslumuninn á að tryggja fjórða manni kjör. Í baráttusætinu er Sigríður Ingvarsdóttir 1. þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra, hörkukona með öflugar skoðanir og traust. Með hana í fjórða sætinu er tryggt að á þing nái kraftmikil ung forystukona. Flokkurinn og stuðningsmenn hans hér í þessu kjördæmi munu leggja allt sitt af mörkum í komandi baráttu til að tryggja að Sigríður nái kjöri. Það er nú ljóst að aðeins vantar á það herslumuninn. Í forystu flokksins hér eru forseti Alþingis, menntamálaráðherra og tvær öflugar þingkonur. Sóknarfæri Sjálfstæðisflokksins eru mörg í komandi kosningabaráttu í kjördæminu. Í alþingiskosningunum 1999 bætti flokkurinn við sig fylgi í gömlu kjördæmunum og hefur styrkst mjög á þessum slóðum seinustu árin. Með markvissri kosningabaráttu ætti sjálfstæðismönnum að takast ætlunarverk sitt; að tryggja Sigríði Ingvarsdóttur glæsilegt kjör á komandi vori. Mikilvægt er að allir leggi hönd á plóginn og tryggi að flokkurinn nái settu marki. Með samhentu átaki mun 10. maí 2003 verða sannkallaður sigurdagur Sjálfstæðisflokksins. Spennandi kosningabarátta er framundan.

02 janúar 2003

Kosningaþefur af ávarpi forsetans
Í gær horfði ég eins og venjulega á ávarp forseta Íslands. þrátt fyrir að ekki fari mikið fyrir virðingu minni á þessum forseta. Að þessu sinni varð forsetanum tíðrætt um mikla fátækt og nefndi mörg dæmi til að sanna mál sitt og var engu líkara en að þarna væri kominn fulltrúi líknarsamtaka eða stjórnmálamaður í stjórnarandstöðu. Ég hélt eins og flestir að forsetinn væri hættur í stjórnmálum og léti öðrum eftir að fara með þessa málaflokka og sinna þeim. Ekki stóð á viðbrögðum; Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður og formaður félagsmálanefndar Alþingis mótmælti í gær ummælum forseta og bað um að hann kæmi með tölulegar staðreyndir máli sínu til sönnunar enda hefði hún ekki orðið var við þessa miklu þróun sem forsetinn nefndi, í störfum sínum í félagsmálanefnd þingsins. Mér fannst eins og mörgum að þarna væri forsetinn að blanda sér í komandi kosningabaráttu og þessi ræða væri innlegg í hana, ekki er hægt að taka þessu öðruvísi í hreinskilni sagt. Það er eins og þessi maður ætli aldrei að átta sig á því að hann er ekki þátttakandi í stjórnmálum, enda valdalaus forseti.

Vindhani fer í enn einn hring
Hver var að segja að vindhanar færu ekki í hring við minnsta tilefni. Nú hefur Össur Skarphéðinsson bakkað með fyrri yfirlýsingar um að hann leiddi Samfylkinguna í komandi kosningum og væri forsætisráðherraefni, allavega segir hann nú þrem dögum eftir fyrri yfirlýsingar að mögulegt sé að borgarstjóranum sem sparkað var af valdastóli verði forystumaður flokksins. Hann útilokar semsagt ekkert. Það er með ólíkindum að fylgjast með þessum forystumanni jafnaðarmanna. Það er greinilega ekkert að marka hann, þetta er algjör trúður sem er greinilega í skemmtanabransanum fyrir sinn flokk.

Góðir tónleikar
Horfði í gærkvöldi á tónleika Sálarinnar hans Jóns míns og Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Stöð 2. Þeir voru alveg frábærir. Á þessu ári eru fimmtán ár liðin frá því að hljómsveitin var stofnuð og á þeim tíma hefur hver smellurinn komið á fætur öðrum og sveitin markað sér sess sem ein af bestu ballsveitum landsins. Ein af mínum uppáhaldshljómsveitum og nafni minn Hilmarsson er einn af bestu söngvurum landsins. Bendi öllum á frábæra heimasíðu þeirra Sálarmanna.

01 janúar 2003

Skemmtileg kryddsíld - engin breyting á fylgi stærstu flokkanna
Í gær fylgdist ég með Kryddsíldinni á Stöð 2. Hef horft á þessa þætti allt frá því að Elín Hirst fréttastjóri Ríkissjónvarpsins, byrjaði með hann 1989. Ávallt er þar áhugaverð og skemmtileg stjórnmálaumræða, enda formenn flokkanna að ræða hitamálin. Framundan er kosningavetur og því umræðan áhugaverðari en ella. Oftast var umræðan á léttu nótunum, hæst náði rimma Davíðs Oddssonar og Össurar Skarphéðinssonar þar sem málefni borgarstjórans fráfarandi í varaþingmannssætinu bar allhressilega á góma. Þar fór Davíð alveg á kostum og rassskellti Össur. Í gær birtist skoðanakönnun um fylgi flokkanna á landsvísu, kemur þar glögglega fram að innkoma borgarfulltrúa Samfylkingarinnar í landsmálin skiptir engu, fylgi flokksins stendur í stað milli nóv og des. Mikið vantar á samkvæmt þeirri könnun að borgarstjórinn rassskellti nái inn. Baráttan er nú hafin og ljóst að ekkert verður gefið eftir. Ljóst er að Össur er orðinn dauðhræddur við ISG, enda hann manna mest skelfdur eins og sjá mátti í fréttum 30. desember 2002. Allt tal um að Davíð hafi farið yfir strikið í Kryddsíldinni eru út í hött, baráttan er hafin og ekki við því að búast að Sjálfstæðisflokkurinn eða aðrir flokkar leyfi Samfylkingunni að vera eitt í sviðsljósinu eða dekstra það eitthvað. Þetta verður harður slagur og ekkert sparað. Það er alveg á hreinu.

Áramótaávarp forsætisráðherra
Fram kemur á fréttavef Morgunblaðsins að "Davíð Oddsson forsætisráðherra hafi sagt í áramótaávarpi sínu á gamlárskvöld að íslenska þjóðin sæi hvarvetna merkin um að hún geti skipað sér á fremsta bekk á flestum sviðum sé viljinn nægur. Nefndi hann að á árinu sem er að líða hafi það verið sameiginlegt mat Harvard háskóla og World Economic Forum, að Ísland sé í fyrsta sæti þegar kannað er í hvaða ríkjum menn búa við minnsta spillingu, alþjóðasamtökin Fréttamenn án landamæra hefðu kynnt þá niðurstöðu á árinu að hvergi í heiminum væru fjölmiðlar frjálsari en á Íslandi og Íslendingar hefðu á árinu komist upp í hæsta gæðaflokk, þegar alþjóðleg matsfyrirtæki meti lánstraust þjóða. Sagði Davíð að þetta væru auðvitað mjög ánægjuleg tímamót og Íslendingar gætu allir verið stoltir af því trausti sem þeir hefðu áunnið sér. Sagði Davíð m.a. að gagnkvæmt traust væri orðið mikilvægasti lykillinn að samfélagi okkar. En þó sýndist stundum að á sumum sviðum hafi orðið afturför þegar að þessum þætti komi. „Mælingar sýna til að mynda að traust á þeirri stétt sem ég fylli um þessar mundir er takmarkað. Fáir eiga þó meira undir því en stjórnmálamenn að njóta trausts fólksins í landinu. En hinu er ekki að neita að sumt af því sem fyrir augu ber af vettvangi stjórnmálanna er tæplega til þess fallið að vekja mönnum traust. Furðu margir segja hálfsatt eða ósatt og virðast ekki leiða hugann eina örskotsstund að heiðri sínum og orðstír og það sem lakara er, enginn hermir framkomuna upp á viðkomandi og ótrúlega mörgum virðist sama," sagði Davíð."

Frábært áramótaskaup
Áramótaskaup Sjónvarpsins er fastur punktur í áramótagleðinni og alltaf jafn áhugavert að horfa á það. Stundum hefur maður orðið fyrir vonbrigðum með Skaupið en í fyrra var það sérstaklega gott og mjög eftirminnilegt og hlaut það m.a. Edduverðlaunin sem besta leikna sjónvarpsefni ársins. Sömu aðilar komu að gerð þess nú og í fyrra og hefur tekist betur upp ef eitthvað er nú en í fyrra. Þarna birtist rjóminn af leikaraliði þjóðarinnar og mikið var hlegið af Skaupinu nú. Edda Heiðrún Backman fór sérstaklega á kostum í hlutverki borgarstjórans óákveðna (gervið var ótrúlega gott), Örn Árnason brilleraði að vanda í hlutverki landsföðurins, Pálmi var óborganlegur í hlutverki Halldórs og svo var Jóhannes Kristjánsson senuþjófur í hlutverki húsbóndans á Bessastöðum. Gott grín var gert að Falun Gong-málinu, boxinu, borgarstjórnarkosningum, Evrópumálum, heimsókn Kínaforseta, forsetanum og heitkonu hans (flottur með bleika hárið) og fleira mætti eflaust nefna. Frábært skaup sem verður eflaust jafn eftirminnilegt í seinni tíma sögu og það sem var í fyrra.