Tómas Ingi Olrich lét af embætti sem menntamálaráðherra á ríkisráðsfundi á Bessastöðum, laust fyrir hádegið í dag. Hefur Tómas verið menntamálaráðherra frá 2. mars 2002, eða tæp 2 ár. Tómas hefur jafnframt beðist lausnar frá þingmennsku frá og með morgundeginum, 1. janúar 2004, eftir tæplega 13 ára setu á þingi, fyrir Norðurlandskjördæmi eystra og Norðausturkjördæmi. Tekur Arnbjörg Sveinsdóttir sæti hans á þingi. Á ráðherraferli sínum hefur Tómas Ingi unnið ötullega að styrkingu menntunar og framþróun hennar. Meðal þess sem gert hefur verið í hans tíð er þróunarskólaverkefni sex skóla til þróunar nýjunga í kennsluháttum, ný vefgátt - Menntagátt, bókasafnskerfi fyrir öll bókasöfn landsins, upplýsingakerfið Inna fyrir framhaldsskóla (stjórnunar- og upplýsingatæki fyrir kennara og skólastjórnendur), háhraðanet fyrir framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar, sérstakt átak í uppbyggingu menntunar og menningar í upplýsingatækni á landsbyggðinni og stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi og háskólasetur á Austurlandi. Framundan eru miklar breytingar hjá sjálfstæðismönnum í Norðausturkjördæmi á næstu árum, einkum og sér í lagi með brotthvarfi Tómasar Inga sem eins af okkar öflugustu forystumönnum. Hvernig það skarð verður fyllt mun tíminn einn leiða í ljós. Tómas Ingi hefur unnið af krafti fyrir okkar kjördæmi og víða sést hér afrakstur verka hans. Vil ég þakka persónulega Tómasi fyrir gott samstarf seinustu ár og óska honum og eiginkonu hans, Nínu Þórðardóttur, velgengni í störfum á nýjum vettvangi.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók við embætti menntamálaráðherra af Tómasi. Er hún 30. ráðherrann í ríkisstjórnum Davíðs frá árinu 1991 og önnur konan á stóli menntamálaráðherra. Ragnhildur Helgadóttir var menntamálaráðherra 1983-1985. Þorgerður Katrín, er að mínu mati glæsilegur fulltrúi nýrra tíma í ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins. Hún er 38 gömul og hefur setið á þingi frá alþingiskosningunum 1999. Það er glæsilegt að flokkurinn eigi nú kraftmikinn fulltrúa sjálfstæðiskvenna á ráðherrastóli. Þau kynslóðaskipti sem verða innan Sjálfstæðisflokksins með því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tekur sæti í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar vekja ákveðna tilhlökkun til framtíðarinnar. Fyrr á þessu ári náðu kjöri til Alþingis fjórir fulltrúar SUS, Bjarni Benediktsson, tveir fyrrum formenn SUS: Sigurður Kári Kristjánsson og Guðlaugur Þór Þórðarson, og Birgir Ármannsson fyrrum formaður Heimdallar. Það verður fróðlegt að fylgjast með framgangi þeirra og annarra ungra lofandi sjálfstæðismanna í starfinu innan flokksins á komandi árum. Er það mikið gleðiefni fyrir unga sjálfstæðismenn að Þorgerður taki sæti í ríkisstjórn, enda hún lengi verið í miklum metum hjá okkur og haft góðan stuðning okkar og verið málsvari okkar hugmynda. Væntum við mikils af verkum hennar í ráðuneytinu. Ég óska Þorgerði góðs gengis í störfum hennar.
Umfjöllun um árið 2003
Árið 2003 er liðið í aldanna skaut. Að baki er eftirminnilegt ár fyrir margra hluta sakir. Þess verður í framtíðinni minnst t.d. sem hatramms kosningaárs þar sem öllum brögðum var beitt í kraftmikilli kosningabaráttu hérlendis, vegna mútumáls (sem deilt var um hvort hefði verið í alvöru eða hálfkæringi), kaupréttarsamninga, brúðkaups á Bessastöðum, eftirlaunafrumvarps, er Ingibjörg Sólrún varð varaþingmaður og óbreyttur borgarfulltrúi eftir að hafa fórnað borgarstjórastóli, endaloka valdaferils Saddams Husseins (sem eftir innrás bandamanna og 8 mánaða flótta var handtekinn), olíumálsins, er Schwarzenegger varð ríkisstjóri í Kaliforníu, staða Blairs veiktist, er hvalveiðar voru leyfðar að nýju, er R-listinn hækkaði gjaldskrá OR vegna hækkandi hita, öryrkjamála, línuívilnunar og þegar Jón í Skífunni seldi allt sitt hérlendis. Í tilefni áramótanna er tilefni til að líta yfir nokkra hápunkta ársins 2003. Vonandi verður árið 2004 jafn viðburðaríkt og spennandi fréttaár eins og árið 2003. Óska ég lesendum vefsins farsældar á nýju ári og þakka þeim fyrir að lesa pistla mína og líta á vefinn á liðnu ári.
Maður ársins 2003
Við áramót er litið yfir sviðið og spurt hver sé maður ársins, hver skaraði framúr og stendur hæst þegar nýtt ár tekur við. Það er enginn vafi í mínum huga að Davíð Oddsson forsætisráðherra, sé sá sem þann heiður eigi að hljóta að þessu sinni. Á þessu ári var reynt af óvönduðum aðilum að ráðast að mannorði hans og notað til þess málgögn auðhringa á fjölmiðlamarkaði. Stjórnmálaflokkur og forsætisráðherraefni hafði ekkert málefni annað í kosningabaráttunni en níða persónu hans og dylgja um starfsaðferðir hans með undarlegum hætti. Atlaga auðhrings og stjórnmálaflokks honum velviljuð að honum mistókst eftirminnilega í kjölfar kosninganna í maí. Stóð mestu að sjálfstæðismenn stóðu þétt saman og þjóðin treysti flokknum fyrir því að vera stærstum áfram í íslenskum stjórnmálum. Í kjölfarið færði Davíð fórn fyrir flokk sinn, að halda áfram samstarfi í ríkisstjórn og ákveða að víkja sjálfur af stóli forsætisráðherra, 15. september 2004. Davíð er án vafa maður ársins, hann er sá stjórnmálamaður sem bæði er elskaður og hataður, umdeildur og stendur í fararbroddi í stjórnmálum á Íslandi seinustu áratugi.
Áramótauppgjör frelsi.is
Í dag er áramótablær yfir frelsi.is. Þar birtist áramótauppgjör í borgarmálum og á landsvísu. Í góðum pistli fer Heiðrún Lind yfir árið í borgarmálum og fer yfir hvernig R-listinn hefur stjórnað borginni á þeim tíma. Orðrétt segir hún: "Eins og sjá má af pistli þessum, sem sannanlega hefði getað verið lengri, fögnuðum við Reykvíkingar nýju ári með óhóflegri skuldasöfnun og endum árið á sömu leið. Þetta er sorgleg þróun. Engum ætti að dyljast að tími er kominn til að pakka saman veikbyggðu R-listatjaldinu sem heftir framþróun í borginni og eykur skattbyrði Reykvíkinga með hverju nýju ári." Hvet alla til að líta á þennan góða pistil. Í tilefni áramóta tók ritnefnd vefsins saman áramótauppgjör frelsi.is fyrir árið 2003. Var virkilega gaman að vinna með Ragnari, Kristni, Snorra, Heiðrúnu og öðrum ritnefndarfulltrúum að þessu áramótauppgjöri. Er útkoman að mínu mati mjög skemmtileg. Vefurinn hefur eflst mjög á þessu ári, er það mikið ánægjuefni. Framundan er nú á nýju ári að efla og styrkja vef Sambands ungra sjálfstæðismanna. Mun ég stjórna honum og ennfremur hinum nýju SUS-fréttum. Hlakka ég til samstarfs við unga hægrimenn á árinu í gegnum þá vinnu. Ég mun leggja mig allan fram í þá vinnu.
Vefur dagsins
Ráðherraskipti urðu í dag í menntamálaráðuneytinu, eins og fyrr er getið. Í dag bendi ég því á vef menntamálaráðuneytisins. Þar eru fréttir og tilkynningar tengdar ráðuneytinu og æviágrip Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra
Snjallyrði dagsins
Nú árið er liðið í aldanna skaut,
og aldrei það kemur til baka,
nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gjörvallt er runnið á eilíðar braut,
en minning þess víst skal þó vaka.
Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár
og góðar og blessaðar tíðir.
Gef himneska dögg gegnum harmanna tár,
gef himneskan frið fyrir Lausnarans sár
og eilífan unað um síðir.
Valdimar Briem.