Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 febrúar 2005

ÓskarinnHeitast í umræðunni
Kvikmyndin Million Dollar Baby var valin besta kvikmynd ársins 2004 á Óskarsverðlaunahátíðinni sem haldin var í Los Angeles í nótt í 77. skiptið. Myndin hlaut fern verðlaun, en helsti keppinautur hennar, kvikmyndin The Aviator í leikstjórn meistara Martin Scorsese, hlaut 5 verðlaun. Hefur það ekki gerst nokkuð lengi að sú kvikmynd sem hlýtur óskar sem besta kvikmynd ársins hljóti ekki flest verðlaun á óskarskvöldinu. Clint Eastwood hlaut óskarinn fyrir leikstjórn sína í Million Dollar Baby, en hann var ennfremur tilnefndur fyrir leik sinn í myndinni, en hann fór á kostum í hlutverki boxþjálfara og hefur sjaldan verið betri á leikaraferlinum. Vakti mikla athygli að Scorsese var sniðgenginn af akademíunni enn einu sinni, en hann hlaut fimmtu tilnefningu sína fyrir leikstjórn nú, og tapaði enn einu sinni. Það er fyrir löngu orðinn ljótur blettur á bandarísku kvikmyndaakademíunni hvernig hún hefur sniðgengið Scorsese og meistaraverk hans. Hélt ég fyrirfram að hann hlyti loks viðurkenningu fyrir sína svipmiklu mynd og mikið og glæsilegt framlag til kvikmyndaheimsins seinustu áratugina. Svo fór ekki. Má leiða að því líkum að hann fái aldrei þessi verðlaun. Hann náði ekki að hljóta þau t.d. fyrir meistaraverk á borð við Raging Bull og Goodfellas. Það er óneitanlega ansi dapurt hlutskipti fyrir mann sem hefur heillað kvikmyndaunnendur til fjölda ára og oft átt skilið þann heiður að hljóta þessi verðlaun. Hans ferli er auðvitað ekki lokið, en að mínu mati er til skammar fyrir akademíuna að hafa ekki notað þetta tækifæri til að heiðra hann fyrir þessa glæsilegu mynd.

Jamie Foxx hlaut mjög verðskuldað óskarinn sem leikari í aðalhlutverki fyrir glæsilega túlkun sína á konungi soul-tónlistarinnar, Ray Charles, í mynd um ævi hans. Foxx var stórfenglegur í hlutverkinu, eins og ég hef áður vikið að hér. Hann varð Ray í túlkun sinni, náði svipbrigðum hans og töktum með glæsibrag og vann mikinn leiksigur. Með sigri sínum varð Foxx þriðji blökkumaðurinn í sögu akademíunnar til að hljóta óskar fyrir karlleik í aðalhlutverki. Fyrstur til að hljóta þann heiður var Sidney Poitier árið 1963. Denzel Washington hlaut verðlaunin árið 2001. Hilary Swank hlaut óskarinn sem leikkona í aðalhlutverki fyrir stórfenglega túlkun sína á Maggie Fitzgerald í Million Dollar Baby. Var þetta í annað skiptið sem Swank hlaut óskar fyrir leik í aðalhlutverki. 5 ár eru liðin frá því að hún var heiðruð fyrir glæsilegan leik í Boys Don´t Cry. Þá, rétt eins og núna, sigraði hún leikkonuna Annette Bening. Hilary vann hug og hjörtu kvikmyndaunnenda fyrir ógleymanlega túlkun á sannkallaðri kjarnakonu í þessari mynd. Glæsileg leikkona sem hefur sannað sig svo um munar og verðskuldaði sigur í þessum flokki. Meistari Morgan Freeman hlaut loksins óskarinn, nú fyrir litríkan leik í Million Dollar Baby. Hafði hann verið tilnefndur þrisvar fyrir ógleymanlegar leikframmistöður. Það var svo sannarlega kominn tími til að þessi mikli meistari fengi verðlaunin. Cate Blanchett hlaut óskarinn sem leikkona i aukahlutverki. Fór hún á kostum í hlutverki óskarsverðlaunaleikkonunnar Katharine Hepburn, eftirminnilegustu og svipmestu leikkonu kvikmyndasögunnar, í The Aviator. Glæsileg túlkun hjá þessari frábæru leikkonu. Þetta var skemmtileg Óskarsverðlaunahátíð, og var margt af skemmtilegu efni í útsendingunni. Þessi hátíð er alltaf jafn skemmileg, þetta er uppskeruhátíð kvikmyndaheimsins og hún er ómissandi. Fastur punktur í tilverunni ár hvert!

Ég fer nánar yfir úrslitin á Óskarsverðlaunahátíðinni, hér neðar í færslunni og í ítarlegum pistli á kvikmyndavefnum kvikmyndir.com í dag.

Bryndís HlöðversdóttirTilkynnt var formlega í dag að Bryndís Hlöðversdóttir alþingismaður, hefði verið ráðin sem deildarforseti lagadeildar Viðskiptaháskólans í Bifröst. Tekur Bryndís við því starfi 1. ágúst nk. Samhliða þessu mun hún segja af sér þingmennsku og hættir þátttöku í stjórnmálum formlega þann dag. Mun Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaformaður Samfylkingarinnar og fyrsti varaþingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, taka sæti hennar á þingi, því frá og með 1. ágúst. Með þessu lýkur vangaveltum um pólitíska framtíð Ingibjargar, en hún hefur verið án vettvangs í stjórnmálum í rúm tvö ár. Allt frá því Ingibjörg varð að velja á milli borgarstjórastóls og þingframboðs í desember 2002, hafa verið á lofti raddir þess efnis að hún yrði þingmaður flokksins og jafnvel formaður hans. Hún er nú í framboði til formennsku í flokknum gegn formanni hans og svila sínum, Össuri Skarphéðinssyni. Ingibjörg Sólrún sem verið hafði sameiningartákn vinstrimanna í borgarmálunum í tæpan áratug, tók slæma dýfu eftir síðustu kosningar. Náði ekki kjöri á þing og var án beins vettvangs til starfa almennt. Nú hefur það breyst.

Staða Ingibjargar eftir kosningarnar 2003 var ekki öfundsverð, afsalaði sér borgarstjóraembætti og hlutverki sameiningartákns þriggja flokka innan R-listans en sat eftir sem óbreyttur borgarfulltrúi og varaþingmaður. Varaformennska flokksins hjálpaði henni frá algjörri pólitísku eyðimerkurgöngu en greinilegt er að Ingibjörg taldi það hlutverk ekki ásættanlegt í stöðunni og sækir nú fram til formennsku. Kemur það svolítið óvænt að það sé Bryndís sem víkur úr stjórnmálum og auðveldar með því framagöngu Ingibjargar og ekki síst bindur enda á neyðarlega framgöngu hennar seinustu árin í pólitík. Ingibjörg hefur svamlað um lengi í pólitísku tómarúmi og vantað algjörlega stöðu og hlutverk. Með brotthvarfi Bryndísar hefur það breyst. Bryndís er að mínu mati klár og öflug kona, ein af fáum þingmönnum Samfylkingarinnar sem var heil og öflug í störfum sínum og maður gat treyst að væri heil í því sem hún var að segja. Hún hafði mikla sérfræðiþekkingu á málum sem marga þingmenn hans skorti og var mjög öflug í störfum sínum. Það eru alltof margir þarna sem dansa til og frá með undarlegum hætti, en hvað með það. Það er óneitanlega undarlegt að hún segi af sér þingmennsku á miðju kjörtímabili. En hún fær gott starf, sem færir henni væntanlega ný og spennandi tækifæri. Ég vona að henni farnist vel á nýjum vettvangi. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Ingibjörgu gangi núna þegar pólitísku tómarúmi hennar er lokið, og hún hefur fastan pólitískan vettvang til starfa á.

Punktar dagsins
Clint Eastwood með óskarsstytturnar sínar

Gamla brýnið Clint Eastwood var sigurvegari óskarsverðlaunahátíðarinnar í Los Angeles í nótt. Hann kom, sá og sigraði með stórfenglega kvikmynd sína, Million Dollar Baby. Með þessu komst hann einnig í sögubækur Óskarsins, en hann er elsti maðurinn sem vinnur leikstjóraóskarinn, 74 ára gamall. Eastwood var tilnefndur að þessu sinni í þriðja skiptið til leikstjóraverðlaunanna. Hann hlaut verðlaunin áður árið 1992 fyrir vestrann Unforgiven. Var ennfremur tilnefndur í fyrra fyrir stórbrotið meistaraverk sitt, Mystic River. Alla tíð sem ég hef fylgst með kvikmyndum og horft á kvikmyndir, bæði nýjar sem hinar eldri, meistaraverk kvikmyndasögunnar, hefur Clint verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Hann er stórglæsilegur leikari, mjög kraftmikill og öflugur, og ekki síðri sem leikstjóri. Hann hefur oft farið á kostum í stórbrotnum meistaraverkum og gert sjálfur ógleymanlegar myndir. Persónulega tel ég leik hans í Million Dollar Baby hans bestu leikframmistöðu. Einnig er hann ógleymanlegur fyrir leik sinn í spagettívestrunum, túlkun sína í Dirty Harry-myndunum og síðast en ekki síst í In the Line of Fire. Síðastnefnda myndin hefur alltaf heillað mig mjög. Skrifaði ég um myndina um daginn, eftir að ég sá hana síðast. Það er vel við hæfi í kjölfar þessa sigurs kappans að horfa á fyrri meistaraverk hans og flotta leiksigra. Hver veit nema ég skrifi um þær myndir á næstunni. Stórkostlegur og svipmikill karakter sem á þennan heiður svo sannarlega skilið.

Óskarsverðlaunaleikararnir Morgan Freeman, Cate Blanchett, Hilary Swank og Jamie Foxx

Fjórir frábærir leikarar hlutu óskarinn fyrir leik að þessu sinni. Veðjaði ég rétt í spá minni á það hverjir hlytu verðlaunin. Þótti mér þetta liggja mjög vel fyrir hverjir ynnu að þessu sinni. Áður hef ég minnst á stórfenglegan leiksigur Jamie Foxx í hlutverki meistara Ray Charles. Ómótstæðileg túlkun hjá kappanum. Hilary Swank var glæsileg í Million Dollar Baby og hitti í mark með túlkun sinni. Hélt ég lengi vel að það myndi vinna gegn henni að hafa unnið fyrir nokkrum árum sömu verðlaun. Sem betur fer varð svo ekki og hún hlaut verðlaunin mjög svo verðskuldað. Sérstaklega var ég ánægður með að meistari Morgan Freeman hlaut loksins verðlaunin. Hann hefur alla tíð verið einn af mínum uppáhaldsleikurum. Þótti mér vera kominn tími til að hans merka framlag til kvikmyndanna væri heiðrað með þessum hætti. Hann fór á kostum í litríkri túlkun á Eddie í Million Dollar Baby. Þetta var fjórða tilnefning Freeman. Hann var tilnefndur árið 1987 fyrir leik sinn í Street Smart, 1989 fyrir Driving Miss Daisy og árið 1994 fyrir The Shawshank Redemption. Nú var hans stund loksins komin. Einn besti leikari sinnar kynslóðar og einn fárra í bransanum sem gerir allt 100%. Svo hlaut Cate Blanchett loksins verðlaunin, en mér fannst alla tíð slæmt að hún vann ekki fyrir Elizabeth á sínum tíma. Glæsileg leikkona sem var stórfengleg í hlutverki Kate Hepburn í The Aviator

Halldór Ásgrímsson, Siv Friðleifsdóttir og Guðni Ágústsson

Flokksþingi framsóknarmanna lauk í gær. Áttu margir von á því að flokkurinn fetaði í Evrópuátt á flokksþinginu og voru uppi raddir um að flokkurinn myndi leggja áherslu á aðildarviðræður við ESB á næstu árum. Lengi vel stefndi í að samþykkt yrði orðalag í þá átt. Undir lokin hafði því verið breytt í að hugsanlega skyldi að því stefnt. Það sætti ólík sjónarmið og tillaga utanríkismálahópsins var svo samþykkt einróma. Þessi niðurstaða er mikil vonbrigði fyrir aðildarsinna innan flokksins og virðast þeir vera múlbundnir. Svo er merkilegast að sigurvegari helgarinnar er varaformaður flokksins. Nú virðist utanríkismálastefna flokksins og ESB-stefnan þar innanborðs vera mótuð af honum og fyrri forystumönnum flokksins. Staða mála er í raun óbreytt, þvert á tilraunir ESB-stuðningsmannanna í flokknum. Málið er ekki á dagskrá á kjörtímabilinu, eins og flokkurinn hafði samið um við stjórnarmyndun í maí 2003. Engu að síður blasir við vilji formannsins að gera ESB að kosningamáli í næstu kosningum og koma umræðunni af stað. Enginn vafi er á því að formaður flokksins hefur veikst mjög að undanförnu. Þetta flokksþing sannar það svo um munar. En eftir stendur hvort Halldór og hans stuðningsfólk leggur í þann dans að gera ESB að kosningamáli fyrir næstu kosningar og fá slíku stefnu í gegnum flokksstofnanirnar þá.

Gunnar Örlygsson

Gunnar Örlygsson alþingismaður, hefur nú gefið kost á sér til varaformennsku í Frjálslynda flokknum. Fer hann því fram til embættisins gegn Magnúsi Þór Hafsteinssyni fyrrum fréttamanni, sem gegnt hefur varaformennsku í flokknum í tvö ár. Það verður fróðlegt að fylgjast með slag þeirra um þetta embætti. Gunnar hefur verið mjög rísandi þingmaður að undanförnu. Komið með athyglisverð mál og lagt á mörg þeirra áherslu með athyglisverðum hætti. Magnús hefur verið nokkuð ólíkindatól í pólitík og kemur því varla á óvart að sótt sé að stöðu hans eftir það sem gengið hefur á. Gunnar sækir fram og lætur reyna á stöðu sína. Verður fróðlegt að sjá hvernig honum muni ganga í þessum slag.

Saga dagsins
1066 Westminster Abbey-dómkirkjan í London vígð formlega - eitt glæsilegasta mannvirki í London
1920 Þilskipið Valtýr fórst fyrir sunnan land og með því fórust þrjátíu menn. Valtýr var mikið aflaskip
1983 Alþingi samþykkir lög þess efnis að Ó, Guð vors lands, sé þjóðsöngur og sameign þjóðarinnar
1986 Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar, myrtur á götuhorni í Stokkhólmi. Palme og eiginkona hans, Lisbeth, voru bæði skotin. Lést hann á leiðinni á sjúkrahús en Lisbeth slapp lifandi frá árásinni. Morðið var aldrei upplýst. Palme hafði þá verið einn af öflugustu stjórnmálamönnum Svía í fjöldamörg ár. Hann sat sem leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins frá 1969 til dauðadags. Palme var forsætisráðherra 1969-1976 og aftur frá 1982 til dauðadags. Olof Palme var kraftmikill leiðtogi á alþjóðlegum vettvangi
2004 Kvikmyndin The Lord of the Rings: The Return of the King, sem var byggð á Hringadróttinssögu eftir J.R.R. Tolkien, hlaut alls 11 óskarsverðlaun - jafnaði hún með því eldri met Ben-Hur og Titanic

Snjallyrðið
Sólin brennir nóttina, og nóttin slökkvir dag;
þú ert athvarf mitt fyrir og eftir sólarlag.
Þú ert yndi mitt áður og eftir að dagur rís,
svölun í sumarsins eldi og sólbráð á vetrarins ís.

Svali á sumardögum og sólskin um vetrarnótt,
þögn í seiðandi solli og syngur, ef allt er hljótt.
Söngur í þöglum skógum og þögn í borganna dyn,
þú gafst mér jörðina og grasið og guð á himnum að vin.

Þú gafst mér skýin og fjöllin og guð til að styrkja mig.
Ég fann ei, hvað lífið var fagurt, fyrr en ég elskaði þig.
Ég fæddist til ljóssins og lífsins, er lærði ég að unna þér,
og ást mín fær ekki fölnað fyrr en með sjálfum mér.
Sigurður Nordal skáld og prófessor (1886-1974) (Ást)

27 febrúar 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um væringarnar í Framsóknarflokknum, sem hafa verið mjög áberandi í stjórnmálaumræðunni að undanförnu. Hefur þetta birst vel í aðdraganda flokksþings framsóknarmanna sem haldið var um helgina. Í flokknum virðist allt loga í illdeilum og lyktin af sundurlyndinu og hjaðningavígunum á bakvið tjöldin, sögusagnir um átök og valdaerjur, berast langar leiðir og barist virðist með ákveðnum hætti. Þetta fer ekki framhjá neinum sem fylgist með íslenskum stjórnmálum. Losarabragurinn á Framsóknarflokknum og pólitískri forystu flokksins er að verða mjög áberandi og svo virðist sem að þar sé hver höndin upp á móti annarri. Fulltrúar flokksins í fremstu víglínu skiptast núorðið á að koma fram með umsnúninga á ummælum og fullyrðingum af hálfu hvers annars. Sem dæmi er að ráðherrar þeirra virðast hættir að tala saman nema gegnum fjölmiðla, og þá með beinskeyttum hætti, svo eftir er tekið. Forystumenn flokksins tókust á um Evrópumálin fyrir opnum tjöldum á flokksþinginu um helgina. Fjalla ég um Evrópuumræðuna þar innbyrðis og titringinn sem kom fram er rætt var um hvort flokkurinn ætti að leggja til að Ísland myndi hefja aðildarviðræður við ESB.

- í öðru lagi fjalla ég um umræðuna um uppstokkun Stjórnarráðs Íslands, í kjölfar þess að Árni Magnússon félagsmálaráðherra, lagði fram tillögur sínar og hugmyndir í vikunni. Tek ég undir sumt sem Árni hefur lagt fram, en er ósammála sumu. Hef ég persónulega margoft tjáð mínar skoðanir á mikilvægri uppstokkun ráðuneyta og fækkun ráðherra. Nefni ég í pistlinum tvær hugmyndir mínar, sem ég vék að í útvarpsviðtali á Rás 2 í febrúar 2004, í miðri umræðunni um uppstokkun reglugerðar um Stjórnarráðið á margfrægum ríkisráðsfundi í byrjun þess mánaðar. Annars vegar að sameina dóms- og kirkjumálaráðuneyti, umhverfisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og samgönguráðuneyti í eitt ráðuneyti innanríkismála. Ennfremur yrðu með því byggðamál færð úr iðnaðarráðuneyti til þessa nýja ráðuneytis. Hinsvegar minni ég á tillögu um að sameina atvinnuvegaráðuneytin: landbúnaðarráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, í eitt. Hvet ég til þess að umræða fari fram um þessi mál og þetta verði stokkað upp eftir næstu kosningar.

- í þriðja lagi fjalla ég um velheppnaða Evrópureisu George W. Bush forseta Bandaríkjanna. Almennt er litið á þessa fyrstu Evrópureisu forsetans, eftir endurkjör hans í nóvember, sem mikla sigurför og niðurstaða hennar túlkuð sem mikill diplómatískur sigur fyrir hann og stefnu hans. Sögulegar sættir náðust milli Bush forseta og þjóðarleiðtoga í Evrópu í þessari ferð sem hann deildi við í Íraksmálinu og sterk tengsl hans og Putins Rússlandsforseta, komu vel í ljós. Segja má að ferðin hafi gengið vel og verið mikilvægur vitnisburður þess að leiðtogarnir horfa fram á veginn, til þeirra úrlausnarefna sem blasa við, og einblína ekki á fortíðina.

Punktar dagsins
Jóhannes Páll páfi II

Jóhannes Páll páfi II kom öllum á óvart í dag með því að birtast opinberlega í fyrsta skipti eftir að hann gekkst undir aðgerð á fimmtudag. Þá varð að gera á honum barkaskurð til að hann gæti andað eðlilega og var komið fyrir barkaraufspípu til að auðvelda honum öndun. Jafnframt varð ljóst að hann gæti ekki talað næstu vikurnar meðan hann væri að jafna sig af læknismeðferðinni. Margar sögur höfðu gengið um ástand hans, fullyrt var að hann væri vel á sig kominn miðað við aðstæður og ennfremur að hann væri í lífshættu og alvarlega veikur. Er ekki hægt að segja annað en að ástand páfa sé óvenjulega gott miðað við allt sem á honum hefur dunið. Raddir um heilsufar hans og hvernig honum liði þögnuðu skyndilega er hann birtist í glugga sjúkrastofu sinnar og veifaði til fólks fyrir utan. Í fyrsta skipti á rúmlega 26 ára ferli hans sem páfa gat hann ekki flutt blessunarorð í sunnudagsbænum í dag. Páfa var ekið í hjólastól út að glugganum. Gerði hann krossmark og benti á háls sinn, sem merki um að hann gæti ekki talað. Þó er auðvitað ljóst að heilsfar hans er orðið mjög brothætt. Verður fróðlegt að fylgjast með heilsu hans á næstunni.

Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra

Athyglisvert var venju samkvæmt að horfa á dægurmálaþættina. Sunnudagsþátturinn á Skjá einum hófst með viðtali Katrínar Jakobsdóttur við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Ræddu þær um málefni skólastigsins og tillögur í þá átt að stytta framhaldsskólanám og stokka upp skólastigin. Vinna við það hefur staðið í ráðuneytinu í nokkur ár og tók Þorgerður við málinu af forvera sínum, Tómasi Inga Olrich sem skipaði nefnd um málið árið 2002. Fóru þær yfir málið í fróðlegu spjalli, gott að heyra Þorgerði skýra málið og fara yfir það í spjallinu. Því næst ræddi Illugi við Steingrím J. Sigfússon formann VG, um málefni Símans. Hann á lítinn hlut í fyrirtækinu, en var mjög virkur á seinasta aðalfundi þess og nýtti hlutinn vel við að bera upp tillögur. Var kostulegt að heyra skoðanir hans á málefnum Símans. Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, var gestur Óla Teits og Guðmundar. Fór hún yfir flokksþing framsóknarmanna. Greinilegt að það andar köldu frá henni í garð Kristins H. og hún sýndi hversu Evrópusinnuð hún er, en hún vill greinilega gera ESB að kosningamáli fyrir næstu kosningar. Valla er einn öflugasti talsmaður Halldórsarmsins í flokknum og hefur alla tíð verið og er ein helsta málpípa forsætisráðherrans í stefnumálum. Orð hennar verða að orðum Halldórs. Þannig er það bara. Hjá Agli var mjög fróðleg umræða um fasteignaverð þar sem Gunnar I. Birgisson fór yfir málin í kjölfar umræðu seinustu daga ásamt fleirum. Svo var athyglisvert að sjá umræðuna um trúmál þar sem Jón Valur Jensson og Sigurður Hólm Gunnarsson ræddu um kristinfræðikennslu í skólum.

Hosni Mubarak

Stórtíðindi eru að eiga sér stað í egypskum stjórnmálum. Í gær tilkynnti Hosni Mubarak forseti Egyptalands, hugmyndir sem leiða eiga til lýðræðisáttar þar. Boðaði hann þar beinar forsetakosningar og frjáls framboð. Það hefur verið þannig til fjölda ára að Mubarak hefur verið einn í kjöri til embættisins og ekki er frjálst að fara í mótframboð gegn honum. Mubarak hefur nú setið á forsetastóli í 24 ár, eða allt frá því að Anwar Sadat var myrtur í nóvember 1981. Hann var varaforseti þá en hefur verið kjörinn þrisvar: 1987,1993 og 1999. Kjörtímabil forseta Egyptalands er 6 ár. Flest bendir til þess að Mubarak, sem verður 77 ára í maí, ætli sér að gefa kost á sér að nýju. Einnig er líklegt að Mubarak ætli syni sínum, Gamal Mubarak að taka við embættinu og jafnvel sé honum ætlað að fara fram núna og forsetinn dragi sig því hlé. Efnt hefur verið til mótmæla í Egyptalandi seinustu ár gegn fyrirætlunum Mubaraks að gefa kost á sér enn einu sinni og það enn einu sinni að vera einn í kjöri. Eins og lögin eru núna er efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um einn forsetaframbjóðanda og þingið staðfestir kjörið. Þjóðarlýðræðisflokkur forsetans hefur haft meirihluta á þinginu frá 1970 og að óbreyttu hefur hann því forsetaembættið í hendi sér.

Ísnálar á Akureyri

Það hefur verið merkilegt veður hér á Akureyri seinustu daga. Þoka hefur legið yfir bænum síðustu daga, sem sett hefur flugsamgöngur úr skorðum. Annað blasti þó við t.d. á föstudag í Hlíðarfjalli, þar var glaðasólskin meðan þokuteppi lá alveg yfir bænum. Stórmerkileg sjón alveg. Er Akureyringar vöknuðu að morgni laugardags blasti við athyglisverð sjón, sem ekki sést á hverjum degi og ég hef ekki séð fyrr hér í bænum. Um nóttina hafði þokan breyst í nokkurskonar hrímþoku. Tré bæjarins voru öll fagurhvít um morguninn og langt fram á daginn. Hrímþokan kallar til sín ísnálar sem þéttast á greinunum og eru mjög fagrar á að líta. Mögnuð sjón og ég bendi fólki á að skoða fallega myndasyrpu á vef bæjarins af ísnálunum og þessum stórmerkilega atburði. Sjón er sögu ríkari!

Saga dagsins
1638 Eldgos hófst í Vatnajökli - vötn á Austurlandi fylltust af flóði og báru mikinn vikur allt út á sjó
1928 Togarinn Jón forseti frá Reykjavík, fórst við Stafnes - 15 manns drukknuðu en 10 var bjargað
1941 Togarinn Gullfoss frá Reykjavík, fórst skammt frá Snæfellsnesi - 19 manns fórust með honum
1975 Samþykkt var að friðlýsa Hornstrandir, sem eru norðvestan Skorarheiðar í N-Ísafjarðarsýslu
1991 George H. W. Bush forseti Bandaríkjanna, lýsir því yfir að Kuwait hafi verið frelsað undan oki Íraka, eftir að þeir höfðu þá formlega viðurkennt ósigur sinn í stríðinu. Persaflóastríðið stóð í rúman mánuð. Saddam Hussein sat þó áfram á valdastóli í Írak, en hann var felldur af valdastóli í apríl 2003

Snjallyrðið
Langt fyrir utan ystu skóga
Árið sem að gullið fannst
Einn bjó smiður út í móa
Og hans dóttir sem þú manst.

Litla smáin lofið fáin
Lipurtáin gleðinnar
Ertu dáin út í bláinn?
Eins og þráin sem ég bar.
Halldór Kiljan Laxness skáld og rithöfundur (1902-1998) (Klementínudans)

26 febrúar 2005

ÓskarinnLaugardagspælingin
Óskarsverðlaunin verða afhent í 77. skipti í Los Angeles á morgun. Óskarinn er helsta kvikmyndahátíð sögunnar, ein mesta uppskeruveisla kvikmyndabransans og þar koma helstu leikarar og kvikmyndagerðarmenn samtímans saman. Ég ætla á þessum laugardegi að pæla í verðlaununum og spá í úrslitin í nokkrum af helstu flokkunum, svona mér mest til gamans. Ég vona að aðrir hafi gaman af.

Kvikmynd ársins
The Aviator
Finding Neverland
Million Dollar Baby
Ray
Sideways

Allt eru þetta frábærar myndir, hver á sinn hátt. Ray er hrífandi mynd, sem skartar frábærum leik og undurfagurri tónlist meistara Ray Charles, sem var einn helsti tónlistarsnillingur síðustu aldar. Finding Neverland er grípandi og þétt mynd sem hrífur kvikmyndaáhugafólk upp úr skónum. Sideways er fágætur gullmoli sem jafnast á við gamalt og gott rauðvín, verður sífellt betri og er algjörlega ómótstæðileg. Million Dollar Baby er frábær að öllu leyti, vel leikin mynd og í senn bæði áhrifamikil og einkar átakanleg. The Aviator er svipmikil saga hins litríka Howards Hughes sem átti stór og háleit markmið og lét þau flest rætast með undraverðum hætti og náði mögnuðum hápunkti á ferli sínum, en féll svo í dimmustu dali hugans. Hér er slagurinn á milli Million Dollar Baby og The Aviator, erfitt um að spá hvor hljóti hnossið. Ég tel að The Aviator vinni verðlaunin.

Leikstjóri ársins
Clint Eastwood - Million Dollar Baby
Taylor Hackford - Ray
Mike Leigh - Vera Drake
Alexander Payne - Sideways
Martin Scorsese - The Aviator

Fimm leikstjórar sem færðu á hvíta tjaldið ógleymanlegar kvikmyndir á árinu 2004. Clint Eastwood er sá eini tilnefndra sem hefur hlotið verðlaunin, fyrir Unforgiven, árið 1992, og leikstýrði einni best heppnuðu kvikmynd ársins, rétt eins og í fyrra þegar hann var tilnefndur fyrir Mystic River. Mike Leigh á skilið tilnefningu fyrir frábær verk sín, en Vera Drake er svipmikil mynd sem hefur hitt beint í mark. Sideways er eiginlega sú mynd sem ég heillaðist mest af í hópi hinna tilnefndu þetta árið en möguleikar hennar og Payne eru litlir þegar kemur að meistaraverkum tveggja risa í leikstjórn. Það verða þeir Eastwood og meistari Martin Scorsese sem berjast um hnossið hér. Scorsese hlýtur hér fimmtu leikstjóratilnefningu sína. Hann hefur aldrei hlotið óskarinn. Er reyndar með ólíkindum að þessi snillingur hafi ekki hlotið gullna kallinn fyrir myndir eins og Raging Bull og Goodfellas. Það er fyrir löngu kominn tími til að heiðra hann og framlag hans til leiklistar í sögu kvikmyndanna. Ég vona að hann fái verðlaunin, en Eastwood er sterkur og gæti tekið þetta. Ég hallast að Scorsese, hans tími er að mínu mati fyrir löngu kominn.

Leikari í aðalhlutverki
Don Cheadle - Hotel Rwanda
Johnny Depp - Finding Neverland
Leonardo DiCaprio - The Aviator
Clint Eastwood - Million Dollar Baby
Jamie Foxx - Ray

Allir þeir leikarar sem eru tilnefndir fyrir leik í aðalhlutverki, stóðu sig glæsilega í hlutverkum sínum. Hver á sinn hátt lífguðu þeir upp á kvikmyndaheiminn með frammistöðu sinni. Enginn þeirra hefur hlotið verðlaunin áður. Clint Eastwood gæti komið á óvart og hlotið óskar fyrir litríkan leik í kvikmynd sinni, Million Dollar Baby, þar sem hann fór á kostum í hlutverki boxþjálfarans Frankie Dunn. Clint hefur sjaldan verið betri og gæti hlotið fyrsta óskar sinn fyrir leik. Leonardo DiCaprio var litríkur í hlutverki hins svipmikla Howards Hughes og á möguleika á að fara heim með gyllta styttu. Don Cheadle vinnur mikinn leiksigur í Hotel Rwanda, eftirminnilegri kvikmynd um sögulega atburði. Johnny Depp átti stórleik í Finding Neverland og færði litríkan karakter á hvíta tjaldið. En langlíklegast er þó að Jamie Foxx hljóti óskarinn fyrir meistaralega túlkun sína á konungi soul-tónlistarinnar, Ray Charles. Foxx verður hreinlega Ray í túlkun sinni og heillar áhorfendur, ja að minnsta kosti náði hann að heilla mig með leik sínum. Ég spái því að Jamie Foxx vinni óskarinn.

Leikkona í aðalhlutverki
Annette Bening - Being Julia
Catalina Sandino Moreno - Maria Full of Grace
Imelda Staunton - Vera Drake
Hilary Swank - Million Dollar Baby
Kate Winslet - Eternal Sunshine of the Spotless Mind

Fimm magnaðar leikkonur berjast um hnossið í þessum flokki. Aðeins Hilary Swank hefur hlotið áður óskarinn, hún hlaut verðlaunin 1999 fyrir Boys don´t Cry. Nú, rétt eins og þá, mætir hún í flokki tilnefndra, leikkonunni Annette Bening. Bening fór á kostum í American Beauty og tapaði þá fyrir Swank. Að þessu sinni er hópurinn ansi jafn. Það geislar af Annette Bening í hlutverki Juliu Lambert, glæsileg leikframmistaða. Kate Winslet var stórfengleg í Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Imelda Staunton vinnur leiksigur ferils síns í Veru Drake. Hin óþekkta Catalina Sandino Moreno er sögð fara á kostum í Maria Full of Grace, sem er hennar fyrsta kvikmynd. Hilary Swank er frábær í hlutverki Maggie í Million Dollar Baby og vinnur hug og hjarta kvikmyndaaðdáenda. Þetta er slagur milli Winslet, Bening og Swank. Allar geta þær unnið. Það er spurning hvort akademían veitir Swank sigur, svo skömmu eftir þann seinasta í sama flokki. Í raun er tími Winslet og Bening kominn. Einhvernveginn hallast ég þó að því að Swank muni fá verðlaunin, enda mjög sterk í sínu hlutverki.

Leikari í aukahlutverki
Alan Alda - The Aviator
Thomas Haden Church - Sideways
Jamie Foxx - Collateral
Morgan Freeman - Million Dollar Baby
Clive Owen - Closer

Fimm glæsilegir leikarar í mjög flottum myndum. Allir verðskulda þeir heiður fyrir sitt verk. Jamie Foxx hlýtur sína aðra tilnefningu sama árið, aðeins Al Pacino hefur náð slíku afreki. Foxx var mjög öflugur í Collateral og heillaði mig með leik sínum. Clive Owen er stórfenglegur í hlutverki Larry í Closer og hitti beint í mark með túlkun sinni. Thomas Haden Church var alveg frábær sem Jack í Sideways og fékk allavega mig til að hlæja, mögnuð frammistaða. Alan Alda hefur oft verið sniðgenginn, t.d. var skandall að hann hlaut ekki tilnefningu fyrir leik sinn í Allen-myndinni Crimes and Misdemeanors árið 1989. Túlkun hans þá á hinum hrokafulla framleiðanda, Lester, var fyrsta flokks. Hann er svipmikill leikari, en hefur oft verið betri en í The Aviator, en er flottur sem þingmaðurinn Brewster. Eftir stendur leiksnillingurinn Morgan Freeman. Hann á að baki glæsilegan feril og hefur átt margar svipmiklar leikframmistöður. Ég spái því að hann vinni verðlaunin fyrir túlkun sína á Eddie í Million Dollar Baby. Það er svo sannarlega kominn tími til að þessi mikli meistari fái verðlaunin.

Leikkona í aukahlutverki
Cate Blanchett - The Aviator
Laura Linney - Kinsey
Virginia Madsen - Sideways
Sophie Okonedo - Hotel Rwanda
Natalie Portman - Closer

Fimm flottar leikkonur sem lýsa upp hvíta tjaldið með flottum leik í þessum myndum. Tilnefning Sophie Okonedo kom nokkuð á óvart, en hún mun vera mjög eftirminnileg í Hotel Rwanda. Virginia Madsen heillaði mig með tilþrifamiklum leik sínum í Sideways og skapaði karakter sem skiptir okkur máli. Virginia hefur aldrei verið betri á gloppóttum ferli sínum. Laura Linney er glæsileg leikkona og oft hitt í mark, hún gerir það enn einu sinni, hér fyrir túlkun sína á Clöru í Kinsey. Natalie Portman er vægast sagt stórfengleg í hlutverki Alice í Closer, mynd sem verður einhvernveginn hennar að nær öllu leyti. Stórkostleg túlkun í svipmikilli mynd. Cate Blanchett, sem átti að hljóta óskarinn 1998 fyrir Elizabeth, ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og bregður sér í hlutverk óskarsverðlaunaleikkonunnar Katharine Hepburn, eftirminnilegustu og svipmestu leikkonu kvikmyndasögunnar. Blanchett leggur allt sitt í þetta stóra hlutverk og verður hreinlega Kate Hepburn. Ég spái því að Blanchett fái óskarinn, annað kemur vart til greina að mínu mati. Glæsileg túlkun!

Punktar dagsins
Lísa

Enn einu sinni kom að úrslitastund í Idol-stjörnuleit í gærkvöldi. Þá voru fjórir söngvarar eftir í keppninni: Hildur Vala, Davíð Smári, Heiða og Lísa. Í gærkvöldi var þemað: New York, enda höfðu söngvararnir fjórir farið nokkrum dögum áður til New York í eftirminnilega ferð. New York er mjög eftirminnileg borg, ég hef einu sinni komið þangað. Ferð til NY er mikil upplifun, svo vægt sé til orða tekið. Stórfengleg borg, rétt eins og Bandaríkin eru í heild sinni alveg frábær. Keppnin í gærkvöldi var óvenjujöfn og erfitt að láta einn fara, enda þau bestu í keppninni nú bara eftir. Svo fór að Lísa var send heim og féll því úr leik. Hún söng lögin As og Will you still love me tomorrow? Lísa er frábær karakter og góð söngkona. Ég hef þekkt Lísu nú tæpan áratug. Hún kemur frá Ólafsfirði og er algjör gullmoli. Leiðir okkar lágu saman í framhaldsskóla hér fyrir norðan og hefur okkar vinskapur haldist síðan. Hefur verið gaman að fylgjast með velgengni hennar í keppninni. Lísa á svo sannarlega skilið að njóta velgengni, enda hefur margt gengið á hjá henni og hún upplifað bæði skin og skúrir á æviskeiðinu sínu. Vonandi að henni gangi vel á söngbrautinni. Eftir eru semsagt þrjú í keppninni. Að mínu mati er Hildur Vala langbest af þeim sem eftir eru. Það er svo sannarlega stjarna fædd í henni. Hún vinnur vonandi keppnina.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Flokksþing framsóknarmanna heldur áfram. Virðast vera uppi átök innan raða framsóknarmanna um Evrópumálin. Eins og vel hefur komið fram hér lögðu framsóknarmenn til í drögum að ályktunum sínum að hefja aðildarviðræður að ESB á kjörtímabilinu. Heldur er það misráðið, enda er skýrt tekið fram í stjórnarsáttmálanum að ekki skuli hefja aðildarviðræður á þessu kjörtímabili. Er ágreiningur um Evrópumálin almennt og stöðu þeirra innan flokksins. Þetta hefur afhjúpast með afgerandi hætti á þinginu í dag. Er greinilegt að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, og Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, eru ekki sammála um hvaða leið skuli fara. Tókust þeir harkalega á, opinberlega, á þinginu í dag. Var formaðurinn tilbúinn að samþykkja ályktun sem gerði ráð fyrir því að vinna skyldi hefjast innan flokksins við að móta samningsmarkmið og undirbúning aðildarviðræðna. Guðni vill hinsvegar ekki að neitt verði fjallað um ESB í ályktunum og verði áhersla lögð að því á EES-samninginn. Fram hefur nú komið að Kjell Magne Bondevik forsætisráðherra Noregs, hafi hringt í Halldór til að ræða Evrópumálin við hann í kjölfar umræðunnar. Er það góður vitnisburður þess að vel er fylgst á Norðurlöndunum og innan ESB með því hvað muni koma frá framsóknarmönnum í þessum málum. Mikilvægt er að framsóknarmenn fari varlega í þessum málum.

Árni Magnússon félagsmálaráðherra

Árni Magnússon félagsmálaráðherra, hefur lagt fram athyglisverðar tillögur á flokksþingi framsóknarmanna, sem víkja að fækkun ráðuneyta og uppstokkun Stjórnarráðsins. Hugmyndir Árna gera ráð fyrir að ráðuneytum fækki úr 13 í 6-8. Telur Árni að forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið eigi að haldast óbreytt en önnur ráðuneyti verði með þessum hætti: innaríkisráðuneyti (sem færi með fjármál, framkvæmdir, dómsmál og fleiri verkefni), atvinnuvegaráðuneyti (þar sem færi saman iðnaður, viðskipti, landbúnaður, þjónusta, sjávarútvegur, ferðamál og annað sem viðkemur atvinnuvegum) velferðarráðuneyti (þar sem færi saman heilbrigðismál og félagsmál), og að lokum menntamálaráðuneyti (þar sem menntamál, menningarmál, íþróttir og annað tengt því kæmi saman). Ráðherrastólum mun því auðvitað fækka. Er það hugmynd Árna að taka með þessu breytta formi upp störf aðstoðarráðherra, og þá 2-3 í hverju ráðuneyti. Tek ég undir heilshugar með Árna að stokka þarf þessi mál og fækka má ráðuneytum og ráðherrastólum með markvissum hætti. Hef ég oft reifað hugmyndir um þetta, t.d. í sunnudagspistli mínum á heimasíðunni fyrir rúmu ári, 22. febrúar 2004. Bendi á þau skrif.

Reykjavíkurflugvöllur

Kostulegt hefur verið að fylgjast með framgöngu Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra, hvað varðar málefni Reykjavíkurflugvallar. Talar hún fram og til baka og slær orðið úr og í. Nú er komið fram í málflutningi hennar að hún hafi, þegar hún talaði um aðlaga byggð við flugvöllinn í Vatnsmýrinni, verið að víkja að því að auðvitað færi völlurinn, en um langtímavinnubrögð sé að ræða. Það hefur því lítið breyst hjá henni í málinu. Hún er því enn sami flugvallarandstæðingurinn. Persónulega tel ég málefni flugvallarins eitt mikilvægasta umræðuefnið hér úti á landi. Án eðlilegra flugsamgangna við borgina getur staða hennar ekki haldist óbreytt í huga okkar allra. Málefni vallarins er ekki bara málefni Reykvíkinga, heldur okkar allra. Samgöngumiðstöð af þessu tagi skiptir okkur öll í landinu máli. Það er kostulegt að fylgjast með R-listanum sem flakkar í margar áttir en getur enga afgerandi afstöðu tekið í málunum, talað er út og suður. Þetta er alveg kostulegt.

Saga dagsins
1930 Stóra bomban - grein eftir Jónas Jónsson dómsmálaráðherra, birtist í Tímanum. Þar var greint frá ásökunum Helga Tómassonar yfirlæknis á Kleppi, um allslæma geðheilsu Jónasar. Miklar deilur fylgdu í kjölfarið sem leiddu til harðvítugra pólitískra átaka. Jónas var formaður Framsóknarflokksins 1934-1944 og sat sem dómsmálaráðherra 1927-1932. Jónas var mikill áhrifamaður í íslenskri pólitík
1952 Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands, lýsir því opinberlega yfir að Bretar hafi búið til eigin atómsprengju. Allmiklar deilur urðu vegna þessara frétta og hart tekist á um atómvæðinguna
1987 Íran-Contra hneykslismálið nær hámarki er bandarísk þingnefnd kemst að þeirri niðurstöðu að bandarísk stjórnvöld hafi gerst sek um vítaverð mistök vegna málsins. Málið setti mjög slæman blett á seinustu ár embættistíðar Ronald Reagan forseta, en deilt var alla tíð um beina aðild hans að því
1993 Íslömsk hryðjuverkasamtök koma fyrir bílasprengju í World Trade Center-byggingunni í New York. 6 fórust í sprengingunni og smávægilegar skemmdir urðu. World Trade Center-tvíburaturnum var grandað í hryðjuverkaárásum al-Qaida, þann 11. september 2001. Tæplega 3000 manns fórust þá
2000 18. Heklugosið á sögulegum tíma hófst - var spáð með 18 mínútna fyrirvara í kvöldfréttum RÚV

Snjallyrðið
Þótt þú langförull legðir
sérhvert land undir fót,
bera hugur og hjarta
samt þíns heimalands mót,
frænka eldfjalls og íshafs,
sifji árfoss og hvers,
dóttir langholts og lyngmós,
sonur landvers og skers.

Yfir heim eða himin
hvort sem hugar þín önd,
skreyta fossar og fjallshlíð
öll þín framtíðarlönd.
Fjarst í eilífðar útsæ
vakir eylendan þín:
nóttlaus voraldar veröld,
þar sem víðsýnið skín.
Stephan G. Stephansson klettafjallaskáld (1853-1927) (Þótt þú langförull legðir)

25 febrúar 2005

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
28. flokksþing Framsóknarflokksins hófst í dag. Í yfirlitsræðu sinni við upphaf flokksþingsins fór Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formaður flokksins, yfir stöðu mála í stjórnmálunum og þau málefni sem hæst bera í umræðunni almennt. Lýsti hann yfir með afgerandi hætti að Síminn yrði seldur á þessu ári í heilu lagi, með grunnnetinu. Sagði Halldór að það væri rökréttasta skrefið, enda lægi fyrir heimild Alþingis og ennfremur bæði veigamikil rekstrarleg og pólitísk rök. Ennfremur vék forsætisráðherrann að málefnum Landsvirkjunar sem mikið hefur verið rætt um að undanförnu og greinilegur ágreiningur komið fram um málið innan raða flokksins. Sagði hann ekkert ákveðið um framtíð fyrirtækisins. Tilkynnti hann, að í samráði við iðnaðarráðherra, að sú ákvörðun hefði verið tekin að á vegum flokksins yrði skipuð sérstök nefnd sem myndi vinna að stefnumörkun í málinu og vinna að tillögum um að skipuleggja orkumálin til framtíðar. Á þeirri vinnu að ljúka fyrir miðstjórnarfund flokksins á næsta ári. Vék forsætisráðherra ennfremur að miklu hitamáli seinustu daga, drögum að ályktunum þingsins um utanríkismál þar sem kemur fram að flokkurinn eigi að stefna að aðildarviðræðum að ESB á kjörtímabilinu, sem gengur þvert á stjórnarsáttmálann og fyrri yfirlýsingar forystumanna Framsóknarflokksins.

Sagði hann að það væri sitt mat að það væri hvorki tímabært né skynsamlegt að fara út í aðildarviðræður við ESB á þessu kjörtímabili, eins og lagt er til í drögunum. Sagðist hann telja að ályktun flokksins um utanríkismál, sem liggur fyrir flokksþinginu sé gagnlegt vinnuplagg, en lagði áherslu á að ekki ætti að stefna að því að því að samþykkja drögin og yfirlýsingar um ESB óbreyttar á flokksþinginu. Er því ljóst að allir ráðherrar flokksins hafa lýst því yfir að málið sé ekki á dagskrá á kjörtímabilinu. Nokkuð sem blasir við, enda algjörlega í ósamræmi við stjórnarsáttmálann. Samkvæmt honum er málið ekki á dagskrá á þessu kjörtímabili. Sagði hann að drögin hefðu verið mótuð af 13 málefnahópum sem öllum félagsmönnum hefði gefist kostur á taka þátt í. Mörg hundruð skráningar hafi borist og margir hefðu lagt á sig mikla vinnu við að móta drögin. Sú vinna hefði farið fram með lýðræðislegum og opnum hætti. Ræddi Halldór ennfremur um skólamál og minntist á eitt mál úr nefndastarfinu, hugmynd um betri samtengingu mismunandi skólastiga, sem gerir ráð fyrir að gera síðasta ár leikskólans að skyldunámi. Er þetta nokkuð sem framsóknarmenn hafa þó ekki hafið umræðu um, enda lagði Sjálfstæðisflokkurinn svipaðar tillögur fram í borgarstjórnarkosningunum 2002, undir forystu Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra. Athygli vakti við upphaf flokksþingsins dagskrá hátíðardagskrár í morgun. Þar voru fjölþjóðlegir dansar og söngvar, þeirra eftirtektarverðastur var eflaust magadans þokkafullrar konu, sem skaut jafnréttissinnuðum konum þar skelk í bringu. Karlakór Reykjavíkur söng einnig nokkur lög af sinni miklu snilld. Stjórnandi kórsins er frændi minn, Friðrik S. Kristinsson. Erum við systkinabörn og berum við báðir nafn afa okkar, Friðriks Árnasonar fyrrum hreppsstjóra á Eskifirði.

Jóhannes Páll páfi IIJóhannes Páll páfi II var lagður að nýju inn á Gemelli-sjúkrahúsið í Róm í gærkvöld, en aðeins eru nokkrar vikur síðan hann lagðist þar inn í 10 daga vegna flensu og öndunarerfiðleika. Sló páfa niður eftir veikindin, enda talinn hafa farið of geyst eftir að hann sneri aftur í Vatíkanið. Var hann það þungt haldinn að læknar neyddust til að gera á honum barkaskurð til að hann gæti andað eðlilega og var komið fyrir barkaraufspípu til að auðvelda honum öndun. Hvíldi hann fyrstu klukkutímana eftir aðgerðina í öndunarvél, en hún var svo aftengd í dag, enda líðan páfans betri og gat hann þá nærst eðlilega. Ljóst er að slík aðgerð er í tilfelli svo gamals og veikburða manns algjör neyðaraðgerð. Við blasir að hann var í lífshættu og því ekkert annað hægt að gera, til að páfi gæti andað eðlilega. Hefur aðgerðin þau áhrif að páfi getur ekki talað í nokkrar vikur og verður hann eflaust lengi að ná sér að nýju. Páfi hefur verið mjög veikbyggður seinustu ár, eins og vel er kunnugt. Þjáist hann af ýmsum sjúkdómum, nægir þar að nefna Parkinsons-veiki og liðagigt auk almennra öldrunarsjúkdóma.

Páfinn verður 85 ára í maí. Hann hefur nú setið á páfastól í tæp 27 ár, frá 16. október 1978. Sat hann lengst allra páfa á 20. öld og einungis tveir páfar hafa setið lengur en hann, þeir Pius IX og St. Peter. Pólverjinn Karol Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Páfi hefur haldið fast við stefnu sína þrátt fyrir sífellt hrakandi heilsu. Enginn vafi er á að þrátt fyrir farsæla setu á páfastóli er páfinn umdeildur. Fylgismenn hans staðhæfa að hann hafi átt drjúgan þátt í endalokum kommúnismans með baráttu sinni fyrir frelsi og mannlegri reisn í Póllandi og öðrum A-Evrópuríkjum. Andstæðingar hans segja að páfi hafi hrakið milljónir manna úr kaþólsku kirkjunni með íhaldssemi. Hann sé andvígur því að konur gegni prestþjónustu, hann leggist gegn getnaðarvörnum, ástarsamböndum samkynhneigðra og því að prestar kvænist. Hann sé gamaldags fulltrúi og leggist gegn framþróun og sé andvígur mikilvægum mannréttindaatriðum. Stuðningsmenn hans segja að páfi sé kraftmikill málsvari mannréttinda og styðji "réttar" mannlegar áherslur, eins og þeir segja. Þrátt fyrir slæmt heilsufar hyggst Páfi sitja á stóli til dauðadags og vísar á bug að hann víki vegna heilsubrests. Það sé hans sannfæring að aðeins Guð geti bundið enda á það verkefni sitt að þjóna í embætti sínu kaþólsku fólki. Ef marka má stöðu mála má búast við að sífellt styttist í að kardinálarnir verði að velja eftirmann páfa, sem gæti leitt til mikilla valdaátaka.

Punktar dagsins
George W. Bush forseti

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, er nú kominn heim í Hvíta húsið í Washington, eftir fimm daga för sína um Evrópu. Almennt er litið á Evrópureisu forsetans sem mikla sigurför og niðurstaða hennar túlkuð sem mikill diplómatískur sigur fyrir hann og stefnu hans. Segja má að sögulegar sættir hafi náðst milli Bush forseta og þjóðarleiðtoga í Evrópu í þessari ferð og sáttatónninn var mjög áberandi þar sem hann fór. Hann átti notalegar umræður um stöðu heimsmálanna við Jacques Chirac forseta Frakklands, og Gerhard Schröder kanslara Þýskalands. Eitthvað sem hefði þótt nær óhugsandi fyrir tveim árum þegar hitinn var sem mestur í Íraksmálinu og samskipti landanna náðu frostmarki. Staðan er allt önnur nú. Forsetinn hefur samið frið við þessa lykilleiðtoga Evrópu. Einnig komu vel í ljós sterk tengsl hans og Vladimir Putin forseta Rússlands. Mjög merkilegt var ennfremur að sjá hversu mjög vinsamlegri samskipti leiðtogarnir almennt eiga. Segja má því að ferðin hafi gengið vel og verið mikilvægur vitnisburður þess að leiðtogarnir horfa fram á veginn, til þeirra úrlausnarefna sem blasa við, og einblína ekki á fortíðina. Eru enda næg verkefni framundan á vettvangi heimsmálanna. Uppbyggingin í Írak, friðarþróunin í Mið-Austurlöndum, staða mála í Íran og Líbanon og fleiri mál eru meðal þess sem blasir við að takast þarf á við.

Skjaldarmerkið

4. janúar sl. var formlega skipuð nefnd af hálfu forsætisráðherra, sem í eiga sæti fulltrúar allra flokka á þingi, sem mun vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Stefnt er að því að vinna nefndarinnar taki ekki lengra tíma en tæp tvö ár og að frumvarp til breytinga á stjórnarskránni liggi fyrir ekki síðar en í árslok 2006. Nú hefur nefndin opnað heimasíðu, þar sem starf hennar og dagskrá funda hennar er kynnt með mjög ítarlegum og nákvæmum hætti. Er þar hægt að líta á fundargerðir nefndarinnar og það sem þar er rætt og farið yfir. Nefndin hefur nú haldið tvo fundi og er hægt að líta á dagskrá næsta fundar, 14. mars, og það sem gerst hefur í starfinu til þessa. Er mjög ánægjulegt að þessi vefur sé kominn til sögunnar og að almenningur geti tekið þátt í starfinu þarna, með því að beina erindum til nefndarinnar, líta á hvað hafi gerst þar og hvað sé framundan. Er löngu orðin þörf á að taka þessa vinnu, stokka upp stjórnarskrána og færa hana til nútímans, enda henni lítið verið breytt frá lýðveldisstofnun 1944. Nær engar breytingar hafa t.d. átt sér stað á köflunum sem fjalla um forsetaembættið, er mikilvægt að stokka þá upp. Hef ég kynnt mínar skoðanir á því hvað þurfi að stokka helst upp og færa í átt til nútímans. Fór ég yfir þau mál í ítarlegum pistli þann 10. janúar sl. á vef Heimdallar. Um að gera að líta á hann til að lesa þær pælingar og fara yfir skoðanir mínar á málinu.

Búrfellsvirkjun

Í dag birtist á íhald.is skrif mín um málefni Landsvirkjunar. Í pistli mínum fjalla ég að mestu leyti um ágreininginn sem kominn er upp, að því er virðist mjög áberandi, innan Framsóknarflokksins og R-listans um hvernig haga eigi framtíð fyrirtækisins, eftir að það er að öllu leyti komið í eigu ríkisins. Þetta er kostulegt mál og fróðlegt að fylgjast með því, og því ærin ástæða til að skrifa nokkra punkta um það með þessum hætti. Held ég að flestir séu að verða gáttaðir á framgöngu vinstri grænna í þessu máli. Maður er meira að segja að heyra það frá fólki á vinstri vængnum, sem er gáttað á yfirlýsingum fólks í þessum undarlega kommaflokki. Ef maður zoom-ar það sem hefur gerst er einfalt að segja hvað þau ætla að gera. Í einföldu máli sagt vilja vinstri grænir halda hlut borgarinnar í fyrirtækinu í gíslingu svo að ríkið geti ekki ráðstafað fyrirtækinu með vild eftir að borgin og Akureyrarbær eru farin út úr því. Alveg kostulegt mál. Í Framsókn er málið mjög undarlegs eðlis líka, en í VG er það á algjörum villigötum. Annars er R-listinn að verða mjög veiklulegur, það sést best á þessu máli hvernig pólitíkin er iðkuð þar. Þetta er eins og gatasigti sem hriplekur en hangir saman af gömlum vana. Einfalt mál. En já, lítið á pistilinn og kynnið ykkur þessi mál og skoðanir mínar á því, ef þið viljið fara meira yfir þetta.

Pam Grier í hlutverki Jackie Brown

Horfði í gærkvöldi á Ísland í dag samkvæmt venju. Þórhallur og Svansí eru að standa sig vel og eru með lífleg og góð efnistök. Í gærkvöldi var Árni Magnússon félagsmálaráðherra, gestur þeirra. Farið var yfir mörg mikilvæg mál, ánægjulegt var að heyra ummæli hans um ESB-málin. Þarf hann svosem varla að taka þetta fram, enda er stjórnarsáttmálinn alveg skýr og því ályktunardrög flokksins allundarleg. En engu að síður undarleg vinnubrögð hjá Framsókn í ESB-málum. Fór á fund kl. 20:00, sem gekk vel og var um margt rætt og farið yfir málin. Kom heim á ellefta tímanum. Horfði þá á úrvalsmyndina Jackie Brown. Myndin, sem byggð er á einni af sögum rithöfundarins Elmore Leonard, segir frá flugfreyjunni Jackie Brown sem drýgt hefur tekjurnar með því að smygla peningum inn í landið fyrir vopnasalann Ordell Robbie. Dag einn er hún staðin að verki á flugvellinum og handtekin. Þeir sem hafa málið á sinni könnu, lögreglumaðurinn Mark Dargus og vopnaeftirlitsmaðurinn Ray Nicolet, bjóða henni tvo kosti: Annað hvort hjálpar hún þeim að fletta ofan af Ordell eða hún fær langtíma gistingu á bak við rimlana.

Með aðstoð aðdáanda síns og hjálparhellu, Max Cherry, tekst Jackie að leggja fram tryggingu fyrir frelsi sínu, ákveðin í að velja þriðju leiðina út úr þessum vandræðum. Hún hefur engan áhuga á að fara í fangelsi og hún veit alveg nákvæmlega hvað verður um þá sem dirfast að svíkja Ordell. Hún tekur því þá ákvörðun að skjóta, bæði Ordell og hjálparkokkum hans, þeim Louis og Melanie, og lögreglunni, ref fyrir rass, etja þeim saman á slyngan hátt og stinga síðan sjálf undan með ávinninginn, hálfa milljón dollara í beinhörðum peningum! Stórkostleg mynd, sem vinnur á eftir því sem maður sér meira af henni. Leikstjórinn Quentin Tarantino sló í gegn með mynd sinni, Pulp Fiction árið 1994, og hefur unnið sér enn meiri frægð með Kill Bill-myndunum, nú í upphafi 21. aldarinnar. Myndin skartar úrvalshópi leikara í öllum hlutverkum, t.d. þeim Robert De Niro, Samuel L. Jackson og Michael Keaton. En senuþjófarnir eru Robert Forster í hlutverki Max Cherry og Pam Grier, sem fer alveg á kostum í hlutverki ferils síns, hinnar úrræðagóðu Jackie. En já, frábær spennumynd fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur.

George W. Bush og Halldór Ásgrímsson á skondnu augnabliki

Ég verð að viðurkenna að ég tók vænt hláturskast þegar ég sá þessa kostulegu mynd, sem birtist hér að ofan, á erlendum fréttavef. Þarna eru George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, á leiðtogafundi NATO-ríkjanna í Brussel í vikunni. Er myndin er tekin hnippir Halldór í forsetann og vill eflaust tala við hann um alþjóðamálin. Einhvernveginn dettur mér í hug að það sem Halldór sé í þann mund að segja sé: Heyrðu Bush minn, manstu eftir mér? hehe :)

Saga dagsins
1920 Önnur ríkisstjórnin undir forsæti Jóns Magnússonar tók við völdum - stjórnin sat í rúm tvö ár
1956 Nikita Khrushchev leiðtogi sovéska kommúnistaflokksins, flutti sögulega ræðu í Moskvu. Með ræðunni afneitaði hann algjörlega einræðislegum vinnubrögðum Stalíns við stjórn landsins, en hann var leiðtogi flokksins frá 1922 til dauðadags 1953. Ræðan markaði mikil þáttaskil, enda höfðu bæði orð og gjörðir Stalíns verið sem æðstu lög í huga flokksins og stuðningsmanna hans í marga áratugi. Khrushchev var alla tíð umdeildur leiðtogi og var honum steypt af stóli í innbyrðis valdabaráttu 1964
1964 Skopteikning eftir Sigmund Jóhannsson frá Vestmannaeyjum, birtist í Morgunblaðinu í fyrsta skipti - síðan hefur Sigmund teiknað myndir í Moggann. Íslenska ríkið keypti skopmyndirnar 2004
1966 Bandaríska jazzsöngkonan Ella Fitzgerald kom til landsins og hélt tónleika í Reykjavík. Ella var ein fremsta jazzsöngkona sögunnar og talin hafa hljómbestu kvensöngrödd aldarinnar. Ella lést 1996
1990 Violeta Chamorro kjörin forseti Nicaragua - með því lauk 11 ára einræði sandinista í landinu

Snjallyrðið
Í daganna rás hef ég draumanna notið
um dáðríkast mark sem ég aldrei fæ hlotið.
Þeir yljuðu mér þó ef stóð ég í ströngu.
og stríðið mér léttu á ævinnar göngu.

Og eins er í vetrarins myrkasta veldi
að vorþráin sterk fer um hjarta mitt eldi.
Ég angan þess finn þó að úti sé myrkur,
þess yndi í fjarska er huganum styrkur.

Þótt ár hafi liðið og týnzt út í tómið,
þá tær vakir minning um fegursta blómið.
Því ennþá í ljóma þá vitjar mín vorið.
Það vekur og gleður og léttir mér sporið.
Helgi Seljan fyrrum alþingismaður (Vordraumur)

24 febrúar 2005

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherraHeitast í umræðunni
28. flokksþing Framsóknarflokksins hefst á morgun á Nordica Hotel. Nú hafa drög að ályktunum þingsins verið kynnt formlega á vef flokksins. Þar kemur mjög margt athyglisvert fram. Hef ég litið á þessi drög í dag og kynnt mér hvað framsóknarmenn vilja stefna að og ræða á þessu flokksþingi. Athyglisverðast að mínu mati og eflaust fleiri er að lagt er til í utanríkismálakaflanum að aðildarviðræður hefjist við Evrópusambandið á þessu kjörtímabili og að kosið verði um aðild að ESB í alþingiskosningunum árið 2011. Þetta er nokkur stefnubreyting af hálfu flokksins, hann hefur aldrei stigið þetta skref fyrr og svo er þetta skref algjörlega í ósamræmi við stjórnarsáttmálann. Er með ólíkindum að fylgjast með þessu dómgreindarleysi framsóknarmanna. En eins og fram hefur komið í fréttum í dag eru mjög skiptar skoðanir innan flokksins um þessa stöðu mála og þessi drög. Búast má við mjög beittum umræðum um þessi drög á flokksþinginu ef marka má viðbrögð ýmissa forystumanna flokksins. Meðal þeirra sem tjáð hefur sig með mest afgerandi hætti er Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra og varaformaður flokksins. Honum eru tillögurnar ekki að skapi og hann telur að ekkert knýji á slíkar umræður á þessum tímapunkti. Hefur Guðni jafnframt lýst yfir þeirri skoðun sinni að réttast sé að halda í fyrri stefnu og með því styrkja EES-samninginn.

Er ekki annað hægt en að taka undir þessi ummæli Guðna. Er ánægjulegt að ekki eru allir í Framsóknarflokknum tilbúnir til að kokgleypa Evrópusambandsdrauginn í einum munnbita þó að viss hluti flokksins telji það ginnkeyptan kost. Er greinilegt að þessi drög hafa borist víða, enda segir frá því í fréttum í dag að erlendar fréttastofur hafi leitað eftir þessum drögum til að kynna sér og heyra af þessum sinnaskiptum stjórnvalda. Þeir eru kostulegir spunameistararnir hans Halldórs, þeir virðast hafa það til að bera að tala svo víða og koma sér á svo marga staði að þeir tala í margar áttir. Enda varla óeðlilegt að forsætisráðherrann sé að verða eins og strengjabrúða í spunaneti. Þetta er kostulegt á að horfa. Einn helsti spunameistarinn er fréttamaðurinn fyrrverandi Steingrímur Ólafsson. Og hvað skyldi hann segja um þessa þróun mála? Jú, það sem vitað var fyrir að Halldór hafi ekki uppi neinar áætlanir um að hefja viðræður um aðild að ESB en ekki sé óeðlilegt að loka neinum dyrum og því ekki óviðeigandi að ræða þessi mál. Yfirlýsing Guðna og fleiri forystumanna flokksins er því ánægjuleg, enda sýnir hún ágreininginn innan flokksins í þessu máli, eins og mörgum öðrum. En hvað hefur eiginlega breyst frá því að Halldór allt að því skellti dyrunum á ESB í frægri ræðu hér á Akureyri í haust (skömmu áður en hann tók við forsætisráðherraembættinu). Hann sagði þar að fiskveiðistefna ESB væri í kreppu og að hún byggði á úreltum sjónarmiðum. Sagði hann að ómögulegt væri fyrir Íslendinga að sækja um aðild að sambandinu við núverandi aðstæður. Hvað hefur breyst hjá Halldóri og framsóknarmönnum? Af hverju er opnað á málið með svo afgerandi hætti nú, svo skömmu eftir ræðu Halldórs? Vonandi fáum við svörin við því á flokksþinginu um helgina.

Sólbakur EA-7Félagsdómur sýknaði í dag Brim í máli sem Vélstjórafélag Íslands höfðaði gegn fyrirtækinu vegna samninga sem gerðir voru við áhöfn fiskiskipsins Sólbaks EA-7. Í kröfum sínum vildi Vélstjórafélagið fá viðurkenningu félagsdóms að með sérsamningnum hefði Brim brotið gegn kjarasamningi Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélagsins. Tók félagsdómur undir allar kröfur Brims, enda segir í úrskurði dómsins að Brim eigi einfaldlega ekki aðild að málinu, enda hafi útgerðarfélagið Sólbakur tekið við rekstri skipsins við undirritun leigusamnings í september 2004, og því auðvitað gert það út síðan. Tekið er því undir allar meginröksemdir Brims í þessu mikla deilumáli. Það er gott að fá þennan endi í þetta mikla deilumál.

Flestum er kunnugt um meginefni þess. Forsvarsmenn samtaka sjómanna neituðu upphaflega að sætta sig við stöðu mála og mættu því á bryggjuna á Akureyri í hádeginu þann 6. október 2004 þegar Sólbakur EA-7, kom til hafnar úr fyrstu veiðiferð sinni eftir þessa umdeildu samninga. Eftirleikinn þekkja flestir, en rétt er þó að rekja hann hér. Voru forystumenn sjómanna staðráðnir þá í því að koma í veg fyrir löndun úr skipinu og lögðu því bílum sínum á bryggjuna við skipshlið. Illa gekk að leysa málið og náðust samningar við sjómannaforystuna loks, eftir að lögregla hafði loks beitt sér gegn mönnunum sem stöðvuðu vinnslu á aflanum í skipinu. Vélstjórar fóru þó þessa leið og héldu fyrir dómstólana, eitthvað sem auðvitað allir aðilar áttu að gera ef þeir voru ósáttir við stöðuna. Er skiljanlegt nú af hverju sjómenn stóðu frekar við skipshlið og stöðvuðu vinnslu aflans, enda blasir niðurstaðan við. En það er auðvitað alltaf réttast að fara fyrir tilheyrandi dómstóla séu menn ósáttir. Menn geta ekki gripið lögin í eigin hendur. Lýsi ég yfir ánægju með að niðurstaða er komin í málið og þættir þess liggi vel fyrir. Þessi úrskurður Félagsdóms tekur af öll tvímæli um stöðuna.

Punktar dagsins
George W. Bush og Vladimir Putin

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Vladimir Putin forseti Rússlands, hittust á leiðtogafundi í Bratislava í Slóvakíu í dag. Var þetta fyrsti fundur þeirra eftir að Bush náði endurkjöri í forsetaembættið í nóvember 2004. Voru þeir um margt sammála. Kemur eflaust mest á óvart að þeir voru sammála um málefni Írans. Samþykktu þeir á fundinum að efla samvinnu Bandaríkjanna og Rússlands varðandi öryggi í kjarnorkumálum. Er með því ljóst að leiðtogarnir eru sammála um að Íranir eigi ekki að ráða yfir kjarnorkuvopnum. Leiðtogarnir voru sammála um að viðræðum um aðild Rússa að Alþjóða viðskiptastofnuninni yrði hraðað og hétu samvinnu í friðarumleitunum í Mið-Austurlöndum. Sýnir þetta vel samstöðuna meðal leiðtoga Evrópu og Bandaríkjanna almennt þessa dagana, hefur þetta sést vel í Evrópureisu forsetans. Mun Bush hafa rætt mjög opinskátt við Putin um lýðræðisþróunina í Rússlandi og lýst yfir áhyggjum sínum af stöðu mála. Það og lýðræðismál almennt er það sem helst aðskilur leiðtogana og afhjúpar muninn á þeim. Kom þetta eins og fyrr segir mjög í ljós í niðurstöðum þessa athyglisverða fundar þeirra. Hafa samskipti leiðtoganna alltaf verið vinsamleg og þeir skipst á heimboðum á heimili sín í Moskvu og Texas. Eitthvað sem hefði þótt óhugsandi í samskiptum leiðtoga þessara landa, fyrir 15-20 árum.

Jamie Foxx í hlutverki Ray Charles

Óskarsverðlaunin verða afhent um helgina. Óvenjujafn slagur er í verðlaunaflokkunum að þessu sinni. Er nær útilokað að spá um suma flokkana, svo jöfn þykir keppnin og spennandi. Er þetta frábrugðið stöðunni í fyrra þegar seinasti hluti þríleiksins um Hringadróttinssögu Tolkiens, The Lord of the Rings: The Return of the King, sló í gegn og hlaut 11 óskarsverðlaun í 11 tilnefndum flokkum. Sigur myndarinnar var sögulegur og í fleiri flokkum var spennan í lágmarki. Þau féllu nær alveg eins og spáð var af helstu spekingum. Nú er ekkert víst um stöðuna. Ja, ef undan er skilinn einn flokkur. Talið er nær öruggt að leikarinn Jamie Foxx muni hljóta óskarinn fyrir leik aðalleikara í kvikmynd. Hann fer alveg á kostum í hlutverki söngvarans goðsagnakennda Ray Charles í kvikmyndinni Ray. Sá ég þessa mynd í suðurferð minni nýlega. Þetta er alveg frábær mynd. Foxx verður hreinlega Ray Charles í túlkun sinni. Þetta er að ég tel einn kraftmesti leiksigur ungs leikara til fjölda ára. Foxx hlýtur að fá þessi verðlaun. Hefur þetta verið staðfest með afgerandi hætti í því að veðmálafyrirtækið Ladbrokes, sem hefur spáð til um verðlaunin til fjölda ára, er hætt að taka veðmál um hvort Foxx fái verðlaunin. Svo öruggur er hann talinn. Undrast ég það ekki. Þetta er frábær mynd, frábær túlkun og í henni er frábær tónlist meistara Ray, sem var einn helsti tónlistarsnillingur síðustu aldar.

Bessastaðir

Lengi hef ég verið þeirrar skoðunar að embætti forseta Íslands sé óþarft og stokka þurfi það upp. Ítrekaði ég oft þessar skoðanir í deilunum um embættið í fyrra, bæði vegna fjölmiðlamálsins og ekki síður þegar forsetinn sýndi stjórnkerfinu þá vanvirðingu að fara á skíði er haldið var upp á aldarafmæli íslenskrar heimastjórnar. Þykir mér að embættið hafi farið útaf sporinu, enn meira í forsetatíð sitjandi forseta en áður. Hefur allt sem sagt hefur verið um embættið af mér og mörgum fleirum andstæðingum embættisins verið staðfest með afgerandi hætti, með stjórnunarstíl sitjandi forseta. Í dag birtist á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna umfjöllun um þessi mál. Þar er góður pistill um þessi mál eftir vin minn, Einar Þorsteinsson nýkjörinn formann Týs, félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi. Gladdi mig mjög að lesa þessa grein hans og finna hvað við erum sammála um þessi mál og eigum sameiginlegt þessa afstöðu á forsetaembættinu. Fer Einar á athyglisverðan hátt yfir allt málið og tjáir skoðanir sínar með ákveðnum hætti. Hvet ég alla til að lesa þennan góða pistil hans. Ennfremur vil ég óska Einari til hamingju með kjör hans í formannsembættið. Hlakka ég til að vinna með honum í ungliðastarfinu á komandi árum.

Gettu betur

Athyglisvert var að horfa á Ísland í dag í gærkvöldi. Þar var Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri, gestur þeirra Svansíar og Þórhalls. Fór hún svo marga hringi og talaði í svo margar áttir um allt og ekki neitt til að þurfa ekki að svara neinu að með ólíkindum var á að horfa. R-listinn var löngum ólíkindatól en hann minnir í dag orðið á gatasigti sem hangir saman en hriplekur svo eftir er tekið. Kostulegt að sjá þetta viðtal. Horfði á Kastljósið, en þátturinn var tekinn upp austur á Egilsstöðum. Alltaf gaman að kynna sér stöðu mála þar og var gaman að fara þangað fyrir mánuði og fara yfir málin. Athyglisvert fannst mér að sjá vinstrisveifluna á þættinum og einhliða umfjöllun um mikilvægasta málefni Austfirðinga nú um stundir, álvers- og virkjunarmálin.

Að því loknu var horft á Gettu betur. Þar kepptu Menntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn á Egilsstöðum. Fór keppnin fram í íþróttahúsinu á Egilsstöðum. Var gaman að fylgjast með keppninni. Margar fínar spurningar og góð stemmning. Sérstaklega var gaman að sjá kynnismyndböndin um skólana. Júlli vinur minn, sem situr með mér í stjórn Varðar og er í skólanum, fór á kostum í sínu hlutverki í myndbandi MA. Ansi gaman af því. En já, MA vann sigur í keppninni, sem varð aldrei beint spennandi. En þetta var fín keppni. Eftir það fór ég niður í miðbæ og hitti nokkra vini á kaffihúsinu Bláu könnunni. Alltaf gaman að fara þangað og fá sér kakó og köku og njóta þess að fara á reyklaust kaffihús og ræða um mikilvæg málefni við góða vini.

Saga dagsins
1630 Skálholtsstaður brann til kaldra kola - allmikið af sögufrægum húsum og munum brunnu þar
1924 20 þingmenn stofnuðu Íhaldsflokkinn - flokkurinn var talsmaður minni ríkisumsvifa og vildi efla þátt einstaklingsins í fyrirtækjalífi. Flokkurinn varð önnur tveggja stoða Sjálfstæðisflokksins árið 1929
1924 Líkneskið af Ingólfi Arnarsyni eftir Einar Jónsson, var formlega afhjúpað á Arnarhóli í Reykjavík
1950 Ríkisstjórn Verkamannaflokksins undir forsæti Clement Attlee hélt velli í kosningum - stjórnin féll árið eftir og aftur var boðað til kosninga sem leiddi til þess að Íhaldsflokkurinn komst til valda
1981 Tilkynnt opinberlega að Karl prins af Wales og ríkisarfi Englands, giftist lafði Díönu Spencer í St. Pauls-dómkirkju þann 29. júlí - hjónaband þeirra var framan af hamingjuríkt og þau eignuðust tvo syni, William árið 1982 og Harry árið 1984. En hamingjan brast og tilkynnt var um skilnað þeirra árið 1992 og þau fengu lögskilnað árið 1996. Díana lést í bílslysi í París árið 1997. Tilkynnt var í febrúar 2005 að Karl myndi ganga að eiga Camillu Parker Bowles, við borgaralega athöfn þann 8. apríl 2005

Snjallyrðið
Ástum og eldi skírð
óskalönd birtast mér.
Hvílíka drottins dýrð
dauðlegur maður sér!
Allt ber hér hinn sama svip;
söm er hin gamla jörð.
Hægara skaltu skip,
skríða inn Eyjafjörð.

Allt það, sem augað sér,
æskunnar hörpu knýr,
syngur og segir mér
sögur og ævintýr.
Mild ertu, móðir jörð.
Margt hefur guð þér veitt.
Aldrei ég Eyjafjörð
elskaði nógu heitt.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Sigling inn Eyjafjörð)

23 febrúar 2005

Gettu betur

Áfram MA í kvöld!!!

SjónHeitast í umræðunni
Tilkynnt var formlega í Helsinki í morgun að rithöfundurinn Sjón, Sigurjón Birgir Sigurðsson, myndi að þessu sinni hljóta bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, fyrir bók sína Skugga-Baldur. Í umsögn dómnefndar, þar sem þetta val er tilkynnt, segir að Skugga-Baldur dansi á línunni milli bundins og óbundins máls. Í skáldsögunni séu í bland íslenskar þjóðsögur, rómantísk frásagnarlist og töfrandi saga tvinnuð saman í vandaða heildarmynd og tekist á við siðferðisleg og mannleg vandamál. Skugga-Baldur er fimmta skáldsagan sem Sjón ritar. Sjón er sjötti Íslendingurinn sem hlýtur bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Ólafur Jóhann Sigurðsson hlaut þau fyrstur Íslendinga, árið 1976, fyrir bækur sínar, Að laufferjum og Að brunnum. 1981 hlaut Snorri Hjartarson verðlaunin fyrir bók sína, Hauströkkrið yfir mér. 1988 hlaut Thor Vilhjálmsson þau fyrir skáldsögu sína, Grámosinn glóir. Fjórum árum síðar, 1992, hlaut Fríða Á. Sigurðardóttir bókmenntaverðlaunin fyrir bók sína, Meðan nóttin líður. 10 ár eru liðin frá því að Íslendingur hlaut verðlaunin síðast, 1995 hlaut Einar Már Guðmundsson þau fyrir skáldsögu sína, Englar alheimsins.

Sjón er elsti sonur Sigurðar Geirdal fyrrum bæjarstjóra í Kópavogi, en hann lést fyrir nokkrum mánuðum. Sjón hefur verið lengi mjög virkur í íslensku bókmenntalífi og gefið út eins og fyrr segir fimm skáldsögur og ennfremur fjölmargar ljóðabækur og að auki skrifað leikrit og smásögur. Hann hóf feril sinn sem ljóðskáld á unglingsárum, hann var aðeins 16 ára gamall er fyrsta bók hans, Sýnir, kom út árið 1978. Hann hefur til fjölda ára verið áberandi í lista- og menningarlífi. Hann var einn af stofnendum súrrealistahópsins Medúsu, hefur tekið þátt í myndlistasýningum, tónlistaviðburðum og menningarhátíðum. Hann stofnaði ásamt vinahópi sínum útgáfufélagið Smekkleysu árið 1987. Hann samdi texta fyrir Sykurmolana, sem í voru fjöldi vina hans og samstarfsmanna til fjölda ára og söng eitt lag með hljómsveitinni, smellinn Luftgítar. Hann hefur unnið til fjölda ára með aðalsöngkonu Sykurmolanna, Björk Guðmundsdóttur. Hefur hann samið marga af hennar frægustu textum og tónverkum. Þau sömdu t.d. saman tónlistina í Dancer in the Dark, kvikmynd danska leikstjórans Lars Von Trier árið 2000, en Björk lék aðalhlutverkið í myndinni. Sjón og Björk voru tilnefnd til óskarsverðlauna árið 2001, fyrir eitt af aðallögunum í myndinni, I´ve Seen It All. Saman sömdu Sjón og Björk ennfremur lagið Oceania, en Björk söng það á opnunarhátíð Olympíuleikanna í september 2004, og sló lagið í gegn. Sjón fær í viðurkenningarskyni fyrir að hljóta verðlaunin 350.000 danskar krónur í verðlaun, sem nema 3,8 milljónum íslenskra króna. Verðlaunin verða afhent á þingi Norðurlandaráðs, sem haldið verður hér á Íslandi, í októbermánuði. Ég óska Sjón innilega til hamingju með þessi verðlaun. Hann á þau svo sannarlega skilið.

Elísabet EnglandsdrottningTilkynnt var í gærkvöldi að Elísabet Englandsdrottning, og Filippus hertogi af Edinborg, myndu ekki verða viðstödd brúðkaup sonar síns, Karls prins af Wales, og unnustu hans, Camillu Parker Bowles, þann 8. apríl nk. Um er að ræða sögulega ákvörðun, enda hefur það ekki gerst í 142 ár að breskur konungur eða drottning á lífi hafi ekki verið viðstödd brúðkaup barna sinna. Svo virðist vera sem að drottningin telji ekki henta sér eða brúðhjónunum að vera viðstödd giftinguna, sem mun verða mjög lágstemmd og að mestu fjölskylduathöfn, fyrir brúðhjónin og börn þeirra. Bendir margt til þess að brúðkaupið ætli að verða einn allsherjar skrípaleikur fyrir konungsfjölskylduna. Blasir við margir sérfræðingar um bresku krúnuna telja að þessi ákvörðun sé lítilsvirðing við brúðhjónin og mjög táknræn að öllu leyti. Hvert áfallið rekur annað við undirbúning þessa brúðkaups og tala sérfræðingar um mjög áberandi PR-mistök, sem eigi fáa sína líka á seinni árum, þó saga konungsfjölskyldunnar seinustu 15 árin sé næstum því ein samfelld sorgarsaga.

Gott dæmi um það er að í upphafi átti athöfnin að fara fram í viðhafnarsal í Windsor-kastala. Þótti það merki um að athöfnin ætti að fá vissan viðhafnarbrag, þó auðvitað væri um borgaralega giftingu að ræða. Var fyrst því gert ráð fyrir að drottningin mætti og flestallir í nánustu fjölskyldu brúðhjónanna. En þá kom babb í bátinn. Í ljós kom að lög heimiluðu ekki að athöfnin færi fram utan skrifstofu borgardómara. Því breyttist allt planið og formlegheitin við athöfnina minnkuðu enn. Ljóst er að drottningin taldi ekki viðeigandi að vera viðstödd slíka athöfn í ráðhúsinu. Mun drottningin og hertoginn af Edinborg hinsvegar verða viðstödd athöfn eftir giftinguna í Windsor-kastala, þar sem brúðhjónin hljóta kirkjulega blessun. En þetta þykja mikil þáttaskil að þjóðhöfðingi Englands sé ekki viðstödd giftingu ríkisarfans. Þótti staða mála lítið breytast við fyrrnefndar yfirlýsingar krúnunnar í dag um takmarkaða þátttöku drottningar í athöfninni. Mikið er að auki deilt um lögmæti þess að ríkisarfinn og væntanlegur verndari kirkjunnar giftist með borgaralegum hætti, en lagaspekingar hafa nú sagt að það standist lög. Í heildina þykir þó öll staða mála og málefni tengd athöfninni hið mesta klúður og niðurlæging fyrir brúðhjónin.

Punktar dagsins
Hillary Rodham ClintonDr. Condoleezza Rice

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun í Bandaríkjunum telja rúmlega 60% kjósenda í landinu að Bandaríkin séu tilbúin fyrir kvenforseta. Stuðningur við konu í embættið hefur aldrei mælst meiri, í sambærilegum könnunum á seinustu árum. Sögðu 81% aðspurðra einnig að þeir gætu hugsað sér að kjósa konu í embættið. Þetta eru ansi merkilegar niðurstöður og hljóta að vera ánægjuefni fyrir bandarískar konur í stjórnmálum. Það hefur aldrei gerst í sögu landsins að kona hafi verið forsetaefni stóru flokkanna: Repúblikanaflokksins og Demókrataflokksins. Aðeins hefur einu sinni gerst að kona hafi verið varaforsetaefni í kosningum: árið 1984 var Geraldine Ferraro varaforsetaefni demókrata í forsetaframboði Walter Mondale. Framboð hennar hafði lítil áhrif. Mondale og Ferraro biðu sögulegan ósigur fyrir Ronald Reagan og George H. W. Bush. 53% demókrata telja að Hillary Rodham Clinton öldungadeildarþingmaður, ætti að fara í forsetaframboð 2008. 42% repúblikana vilja að dr. Condoleezza Rice utanríkisráðherra, gefi kost á sér í embættið og 33% nefndu Elizabeth Dole öldungadeildarþingmann. Ef marka má umræðuna núna er mikið rætt um möguleg forsetaframboð Hillary og Condi árið 2008 og líkurnar á því að þær fari fram þá. Það er alveg ljóst að kosningabarátta með þessum tveim kjarnakonum yrði mjög kraftmikil og yrði vægast sagt mjög lífleg, svo maður tali nú ekki um söguleg.

George W. Bush og Gerhard Schröder

Evrópuför George W. Bush forseta Bandaríkjanna, heldur áfram af krafti. Í gær var forsetinn á leiðtogafundi NATO í Brussel og átti þar ítarlegt spjall við þjóðarleiðtoga fjölda ríkja. Greina má mikinn sáttatón milli leiðtoganna núna og greinileg þáttaskil að eiga sér stað í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu. Samskiptin versnuðu til muna fyrir tveim árum vegna Íraksstríðsins og náðu t.d. samskipti Bandaríkjanna við Þýskaland og Frakkland algjöru frostmarki. Sáttaumleitanir hafa staðið seinustu mánuði, eftir endurkjör forsetans og ljóst að staðan hefur gjörbreyst. Í dag hélt forsetinn til Þýskalands í fyrstu opinberu heimsókn sína þangað í rúm þrjú ár. Átti hann viðræður við Gerhard Schröder kanslara Þýskalands, á fundi í Meinz. Fór vel á með þeim, eftir átök seinustu ára og greinilegt að stríðsöxin hefur verið grafin með áberandi hætti. Sögðust þeir sammála um framtíðarfyrirkomulag mála í Írak og stöðuna þar eftir kosningarnar nýlega. Eins og búist hafði verið við og ég hafði sagt frá hér á vefnum á mánudag ræddi leiðtogarnir að mestu um málefni Írans og stöðuna í málum Líbanons, einkum hvað víkur að Sýrlandi. Eins og við mátti búast mótmæltu margir för Bush til Þýskalands og voru nokkrar óeirðir á fundarstaðnum þar sem leiðtogarnir hittust. Greinilegt er að leiðtogarnir í Evrópu og Bandaríkjunum, sem tekist höfðu á, hafa samið frið og horfa samhentir til framtíðar. Því ber að fagna!

Tony Blair

Ef marka má nýjustu skoðanakönnunina á fylgi flokkanna í Bretlandi hefur dregið mjög saman með stærstu flokkunum, Verkamannaflokknum og Íhaldsflokknum. Staðfestir könnunin einnig sífellt minnkandi persónufylgi Tony Blair forsætisráðherra Bretlands. Könnunin, sem gerð var af ICM fyrir Guardian, sýnir mjög breytta stöðu frá sambærilegri könnun í desember. Þá hafði Verkamannaflokkurinn 7-8% forskot. Að þessu sinni er munurinn aðeins tæp 3%. 37% styðja Verkamannaflokkinn en 34% Íhaldsflokkinn. Frjálslyndir demókratar eru eins og áður í þriðja sætinu, og mælast með 21% fylgi. Þessi niðurstaða kemur mjög á óvart, enda er skipulagsþing Verkamannaflokksins nýlega lokið og þar var blásið til sóknar fyrir kosningarnar, sem væntanlega verða í maíbyrjun. Ljóst er af þessum tölum að Blair hefur ekki tekist að ná trausti kjósenda. Ljóst er að breskir kjósendur eru orðnir mjög þreyttir á Blair og forystu Verkamannaflokksins, sem nú hefur leitt landsstjórnina í tæpan áratug. Við blasir að forsætisráðherrann er orðinn mjög pólitískt skaddaður. Ef þessar tölur eru réttar blasir við að spenna verður í kosningabaráttunni og alls óvíst um útkomu þeirra.

Wonder Boys

Horfði í gærkvöldi á Ísland í dag þar sem alþingismennirnir Hjálmar Árnason og Helgi Hjörvar ræddu um málefni Landsvirkjunar. Blasir við að pólitískar deilur eru innan Framsóknarflokksins og R-listans um málið og tekist á um stöðu þess, eins og ég benti á í gær. Var athyglisvert að sjá skoðanaskipti þeirra. Horfði ennfremur á úrvalsmyndina Wonder Boys. Alveg frábær mynd sem segir frá rithöfundinum og prófessornum Grady Tripp. Hann þjáist í sögubyrjun af svæsinni ritstíflu og lifir í raun á fornri frægð þar sem 7 ár eru liðin frá útgáfu síðustu bókar hans. Útgefandi hans, hinn léttgeggjaði Terry Crabtree, hefur áhyggjur af þessu og boðar heimsókn sína til hans yfir helgi. Og þessi helgi á eftir að verða afdrifarík fyrir Grady og líf hans. Eiginkonan er farin frá honum, kona yfirmanns hans er ólétt eftir hann, nemandi sem leigir hjá honum girnist hann og annar nemandi hans er stelsjúkur snillingur sem efast um kynhneigð sína. Saman mynda þessar ólíku persónur einhvern kostulegasta hóp sem sést hefur saman á hvíta tjaldinu og áður en helgin er á enda hafa þær allar flækt sig í kostulegar aðstæður sem seint líða úr minni áhorfenda.

Snilldarlegt handrit með stórkostlegum leikurum og óaðfinnanlegri leikstjórn eru aðall þessarar mögnuðu myndar. Michael Douglas skilar hér einni af sínum bestu leikframmistöðum. Hann túlkar hinn seinheppna prófessor hreint meistaralega, hann hefur ekki verið betri síðan í óskarsverðlaunahlutverki sínu í Wall Street árið 1987 þar sem hann lék vægðarlausan verðbréfasala (sem minnir mig á að ég þarf að fara að líta á þá mynd aftur, enda orðið langt frá því ég sá hana síðast). Þetta er já mynd Douglas alveg í gegn og hann er alveg frábær í þessu hlutverki. Frances MacDormand er einnig stórfín í hlutverki Söru Gaskell og er óborganleg að vanda, enda frábær leikkona. Robert Downey Jr. er einnig fínn í hlutverki Crabtree og það sama má segja um Tobey Maguire í hlutverki James Leer (það er alveg brilliant móment þegar Leer fer yfir sjálfsmorð stjarnanna, hehe). Wonder Boys hlaut óskarinn árið 2000 fyrir frábært lag meistara Bob Dylan, Things Have Changed, magnað lag sem sest djúpt í sálina. En já: mögnuð kvikmynd sem skartar flottu handriti, stórgóðum leik, góðri tónlist og óaðfinnanlegri leikstjórn. Pottþétt skemmtun!

Saga dagsins
1927 Tónskáldið Sveinbjörn Sveinbjörnsson lést - hann bjó lengst af í Edinborg. Sveinbjörn samdi þjóðsöng Íslendinga, Lofsöng (Ó, Guð vors lands) er samið var við ljóð Matthíasar Jochumssonar
1940 Fyrsta teiknimynd Walt Disney, Pinocchio, var frumsýnd í Bandaríkjunum - myndin varð mjög vinsæl og markaði upphaf frægðarferils Disney og fyrirtækis hans í framleiðslu og gerð teiknimynda
1981 Uppreisn gerð á Spáni - valdarán uppreisnaraflanna stóð ekki nema í 22 klukkustundir og lauk með friðsamlegum hætti í kjölfar þess að Juan Carlos Spánarkonungur, tók afstöðu með stjórninni
1987 Konur urðu í fyrsta skipti fulltrúar á Búnaðarþingi, frá stofnun 1899 - tvær konur sátu þá þingið
2005 Rithöfundurinn Sjón, Sigurjón Birgir Sigurðsson, hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsögu sína, Skugga-Baldur. Sjón varð sjötti Íslendingurinn til að hljóta verðlaunin, frá 1976

Snjallyrðið
Would you know my name if I saw you in heaven?
Would it be the same if I saw you in heaven?
I must be strong and carry on,
Cause I know I don't belong
here in heaven.

Would you hold my hand if I saw you in heaven?
Would you help me stand if I saw you in heaven?
I'll find my way through night and day,
Cause I know I just can't stay
here in heaven.

Beyond the door there's peace I'm sure,
And I know there'll be no more
tears in heaven.
Eric Clapton tónlistarmaður (Tears In Heaven)