Í dag hefur Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, setið í embætti forsætisráðherra samfellt í 13 ár, lengur en nokkur annar Íslendingur. Hefur hann verið formaður flokksins frá 10. mars 1991 er hann sigraði Þorstein Pálsson þáverandi formann flokksins, í formannskosningum á landsfundi. Davíð hefur með miklum leiðtogahæfileikum tryggt að flokkurinn er í forystu íslenskra stjórnmála. Hann hefur allt frá sigri sínum í borgarstjórnarkosningunum 1982 verið einn af helstu forystumönnum flokksins og verið í fararbroddi innan hans. Hann hóf stjórnmálaafskipti sín innan Sjálfstæðisflokksins við borgarstjórnarkosningarnar árið 1974 og náði kjöri og sat í borgarstjórn til ársins 1994. Hann var borgarstjóri í níu ár; 1982-1991. Í kjölfar sigurs síns í borginni 1990 gaf hann kost á sér í prófkjöri flokksins fyrir þingkosningar sama ár, og sigraði þar með nokkrum yfirburðum. Davíð varð formaður flokksins eins og fyrr segir í mars 1991. Hann varð forsætisráðherra 30. apríl í kjölfar þingkosninga sem Sjálfstæðisflokkurinn vann góðan sigur í. Síðan hefur hann setið í forsæti fjögurra ríkisstjórna, 1991-1995 með Alþýðuflokki og 1995-2004 með Framsóknarflokki. Á þessum tíma hafa 30 ráðherrar setið í stjórnum hans. Hann mun láta af embætti 15. september nk. eftir langan forsætisráðherraferil og verður athyglisvert að sjá hvað tekur þá við á pólitískum ferli Davíðs.
Mikið hefur verið deilt um það seinustu vikur hvort ríkið eða þjóðkirkjan eigi Þingvelli, þjóðgarð Íslendinga. Fyrir tæpri viku sagði forsætisráðherra, skýrt í sínum huga að ríkið ætti jörðina, en kirkjunnar menn hafa mótmælt því harðlega. Prestastefna Íslands lýsti í gær yfir fullum stuðningi við kirkjuráð sem á að gæta hagsmuna kirkjunnar á Þingvöllum og hvatti jafnframt ríkisvaldið til að koma að viðræðum við kirkjuna um kirkjueignir og prestsetur almennt. Í ályktun prestastefnu 2004 sem var samþykkt samhljóða segir að stefnan taki undir mótmæli kirkjuráðs um að Þingvellir séu taldir með ríkisjörðum þar sem kirkjan fari með eignarhald á Þingvöllum samkvæmt þinglýstum eignaheimildum. Flest bendir nú til að deila ríkis og kirkju um eignarhald á Þingvöllum fari fyrir dómstóla. Um það mun kirkjuþing taka ákvörðun í haust, verði málið ekki leyst fyrir þann tíma. Að mínu mati hefur Þingvellir alla tíð verið sameign Íslendinga, eign þjóðarinnar, almennings. Ég veit ekki hver annar getur átt þennan helga stað allra landsmanna. Ég undrast málflutning Þjóðkirkjunnar, og jafnframt hvernig hún kemur fram á öðrum sviðum þessa dagana.
Alþingi samþykkti laust eftir hádegið, frumvarp Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, um breytingar á útlendingalögunum. Var frumvarpið samþykkt með 31 atkvæði gegn 24 en allir viðstaddir þingmenn stjórnarandstöðunnar greiddu atkvæði gegn frumvarpinu.
Voru ítarlegar umræður um þetta mál á þingi í gær og í dag. Hefur verið athyglisvert að heyra túlkanir stjórnarandstöðuþingmanna á þessu frumvarpi. Gott dæmi eru tvær ræður sem ég sá í morgun, annarsvegar ræða Rannveigar Guðmundsdóttur er hún reyndi með útúrsnúningum að snúa út úr helstu greinum frumvarpsins og svo ennfremur ræða Guðrúnar Ögmundsdóttur sem sagði að ef lögin yrðu samþykkt yrði farið að spyrja hvaða hárspray konan notaði og tannkrem kallinn notaði, við yfirheyrslur. Dómsmálaráðherra hefur áður svarað svipuðum útúrsnúningi eins og frægt er. En ég tel mikilvægt að hér séu komin þessi lög í gegn og tel þau mikilvægan ramma utan um málefni innflytjenda hérlendis. Persónulega hef ég ekkert á móti innflytjendum, en tel þetta mikilvægt skref.
Svona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu góður pistill eftir Eggert Pál um jafnréttismál. Þar segir svo: "Alltaf þegar ég heyri af nýjum tilraunum feminasista til að koma á meira jafnrétti í samfélaginu með mismikilli valdbeitingu finn ég mig knúinn til skoða málin með gagnrýnum augum. Þessi augu sjá oft ófagra sjón. Í umræðum á Alþingi sagði flytjandi þessa nýja frumvarps: ” Þess sjást mörg dæmi á vinnumarkaðnum þar sem konur í þessum hörðu stórfyrirtækjum þurfa að gefast upp. Þær þola ekki þennan langa vinnutíma, þær standast ekki samkeppni við ungu strákana sem príla hraðar upp en þær af því að þær þurfa að fara heim að sinna börnum og búi.” Í athugarsemdum við frumvarpið segir m.a.: “Verk karla eru meita metin en verk kvenna” og “kvennastörf eru hvorki metin að félagslegum né fjárhagslegum verðleikum”. Að mínu mati er verið að gera konum meiri óleik en greiða með þessu frumvarpi. Að gera ráð fyrir að þær séu annars flokks verur sem geta ekki átt möguleika án þess að fá hjálp frá hinu opinbera finnst mér vera kynjafordómar. Frumvarpið minnir mig mjög á blindan uppistandara sem ég sá einusinni erlendis. Hann sagði frábærlega fyndnar sögur um gríðarlega fordóma sem hann hafði mætt í daglegu lífi, t.d. fólk sem vildi hringja fyrir hann, leiða hann yfir götur, segja honum hvar hann væri staddur og jafnvel hjálpa honum á salerninu! “Wait untill I ask for help!” sagði hann að lokum og bætti við: “I’m not a handycapped person, I’m just blind”. Ofurhjálpsemi meinar alltaf vel, en gerir illt verra. Mun þetta frumvarp leiða til meiri jafnréttis eða meiri fordóma?" Allir að lesa þennan fína pistil.
Sjónvarpsgláp - handbolti
Horfði á fréttatíma Stöðvar 2, var þar athyglisverð frétt um fund um fjölmiðlafrumvarpið, þar sem formaður nefndarinnar tjáði sig um fjölmiðla Norðurljósa og skýrsluna. Fór svo á handboltaleik, en KA sigraði Hauka með nokkrum mun. Mikill fjöldi fólks fór á leikinn til að styðja heimamenn. Nú er næsta skrefið að vinna á sunnudag í Hafnarfirði og taka þetta. Er heim kom horfði ég á upptöku af Kastljósinu þar sem Svansí ræddi við leiðtoga stjórnarandstöðunnar, mikla athygli vakti að enginn kom frá Samfylkingunni til að ræða þetta mál. Boði um að tala ásamt Steingrími J. og Guðjóni var hafnað. Stórmerkilegt, enda hefur enginn skortur verið á Samfylkingarþingmönnum í umræðunni um þetta, en nú virðist enginn tilkippilegur, vandræðalegt fyrir þennan stefnulausa flokk. Eftir það leit ég á upptöku af 60 mínútum, en það var margt athyglisvert í þeim þætti.
Dagurinn í dag
1945 Adolf Hitler sviptir sig lífi ásamt Evu Braun eiginkonu sinni - Hitler hafði tapað stríðinu
1973 Richard Nixon tekur ábyrgð á Watergate málinu en hafnar persónulegri aðild að því
1975 Víetnamstríðinu lýkur formlega er Saigon stjórnin tilkynnir uppgjöf sína fyrir Vietcong
1991 Davíð Oddsson verður forsætisráðherra er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks tekur við völdum - Davíð hefur setið síðan á forsætisráðherrastóli en fyrsta stjórnin sat til 1995
1993 Ein fremsta tennisstjarna heims, Monica Seles stungin í bakið - náði aldrei aftur fyrri stöðu
Snjallyrði dagsins
Hringamyndanir á sviði fjölmiðla ganga þannig þvert á nútíma hugsun á vettvangi lýðræðis. Þannig hefur í ýmsum lýðræðisríkjum eins og í Bandaríkjunum og Evrópu verið sett í lög margvísleg ákvæði sem koma í veg fyrir hringamyndanir, ákvæði sem koma í veg fyrir það að sömu aðilarnir geti haft ráðandi vald á dagblöðum, á sjónvarpsstöðvum og á útvarpsstöðvum. Engin slík lög eru til hér á Íslandi.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands (um fjölmiðla - í umræðu á þingi í febrúar 1995)