Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um valdabröltið innan Samfylkingarinnar – framundan er biðleikur innan flokksins eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem tilkynnti í vikunni um formannsframboð sitt eftir tvö ár, sem er einsdæmi í stjórnmálasögu landsins, um stöðu flokkanna nú síðsumars – tvær athyglisverðar skoðanakannanir um fylgi flokkanna hafa birst að undanförnu. Ég lýsi yfir framboði mínu til stjórnarsetu í SUS tímabilið 2003-2005 og tjái mig um hvaða sýn ég hef á næstu tvö ár innan ungliðahreyfingarinnar. Að lokum fjalla ég um Akureyrarvöku um helgina, menningarhátíð Akureyringa.
Aðalfundur Varðar - ný stjórn
Kl. 15:00 í gær hélt Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, aðalfund sinn. Fundurinn fór mjög vel fram og var fjörugur á köflum. Ég ritaði fundargerðina og Arnljótur Bjarki Bergsson var fundarstjóri. Laurent F. Somers fráfarandi formaður, flutti skýrslu stjórnar og Víðir Guðmundsson gjaldkeri, gerði grein fyrir fjármálum þess. Þá var komið að stjórnarkjöri. Guðmundur E. Erlendsson var sjálfkjörinn formaður Varðar. Kosning fór fram um stöðu varaformanns og gjaldkera. Víðir Guðmundsson og Birgir Tómasson gáfu kost á sér til varaformennsku, náði Víðir kjöri. Birgir var hinsvegar kjörinn gjaldkeri. Atli Hafþórsson var kjörinn ritari og Sigurgeir Valsson meðstjórnandi. Ég tilkynnti á fundinum þá ákvörðun mína að gefa ekki kost á mér til stjórnarkjörs að þessu sinni, framundan eru breytingar á mínum högum og því gott að breyta til. Framundan er vonandi kraftmikið starf innan flokksins hér í bænum í vetur. Framundan í þessum mánuði er SUS-þing, ég stefni að því að gefa kost á mér til setu í stjórn þess.
Gott spjall á málefnin.com
Í sumar hætti ég að mestu skrifum á Innherjavef visir.is og hóf að rita á nýjan spjallvef félaga míns, Stefáns Kristinssonar, malefnin.com sem opnaði seinnipart júnímánaðar 2003. Þar er samankominn mikill fjöldi fólks og skemmtilegt andrúmsloft - oftast nær. Þar tjái ég eins og venjulega skoðanir mínar undir gælunafni mínu frá æskuárum, stebbifr. Það nafn hef ég notað í netheimum seinustu árin í spjalli og er auðkenni á vefsíðum mínum. Það er alltaf gaman að tjá sig og gott einkum á þessum nýja spjallvef og þar er allt til fyrirmyndar, góð stjórn og góð tækni. Stefán félagi minn á heiður skilið fyrir gott verk.